22.02.1960
Neðri deild: 34. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3569 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Hv. 1. þm. Austf. (EystJ) óskaði eftir því, að ég læsi hér upp skýrslu um afstöðu bankaráðs Búnaðarbankans, skriflega skýrslu, og hún væri sennilega fyrir hendi, því að skriflegt ætti þetta að vera, til þess að unnt væri að fullnægja forminu, því að annað væri ósæmilegt. Hv. þm. talaði um, að það væri ósæmilegt að kalla stjórn Búnaðarbankans á fund fyrirvaralaust og ætlast til, að hún tæki í skyndi ákvörðun í svo mikilvægu máli sem þessu. Hv. þm. ætlar þá að reyna að telja hv. þingheimi trú um það, að stjórn Búnaðarbankans hafi fyrst þegar hún fékk kvaðninguna vitað, hvað var á seyði. Mér er kunnugt um, að bankaráð Búnaðarbankans hefur rætt um fjármál fjárfestingarsjóða bankans og vaxtamál á fundum sínum í vetur, og bankaráð Búnaðarbankans fylgdist vel með því, sem var að gerast hér í hv. Alþ. um þessi mál. Bankaráð Búnaðarbankans veit, hvernig fjárfestingarsjóðir Búnaðarbankans eru stæðir, og það er þess vegna eðlilegt, að bankaráðið hafi nú á síðustu mánuðum rætt þessi mál og hugsað þessi mál, hvernig verði komizt út úr þeim ógöngum, sem þessir sjóðir nú eru í. Það er þess vegna ekki um neina skyndiákvörðun að ræða hjá stjórn Búnaðarbankans. Hitt var svo vitað fyrir fram og þarf ekki að því að spyrja, að hv. formaður bankaráðsins, 2. þm. Vestf., og hv. 1. þm. Vesturl., Ásgeir Bjarnason, voru á móti vaxtahækkuninni, eins og málin stóðu. Aftur á móti taldi hv. þm. Norðurl. v., Jón Pálmason, eins og bankaráðið innst inni allt gerði, nauðsynlegt að hækka vextina og hafa það einn þáttinn í því að koma sjóðum bankans á traustan grundvöll, — einn þáttinn. Það er vitað mál, að sjóðir Búnaðarbankans komast ekki á traustan starfsgrundvöll með því einu að fara með vextina upp í 6% hjá byggingarsjóði og 6½% hjá ræktunarsjóði. Það þarf miklu meira til, til þess að þessir sjóðir verði starfhæfir, og það er það, sem núverandi ríkisstj, ætlar sér að gera samkvæmt fyrirheiti, þegar stjórnin var mynduð, að koma lánasjóðum, ekki aðeins landbúnaðarins, heldur atvinnuveganna, á traustan grundvöll. Það er stefnan, og það verður ekki haldið lengur áfram á þeirri braut, sem farin var, það verður að rétta þetta við. Ég veit, að hv. 1. þm. Austf. er kunnugt um það, í hvaða ástandi fjárfestingarsjóðir Búnaðarbankans voru, þegar hann skildi við þessi mál. Ég veit, að hann meinar, að það þyrfti að brjóta blað og bæta þar úr. Ég veit, að hann kannast við það, að s.l. ár hefur byggingarsjóður bankans sama sem ekkert framlag fengið umfram það, sem er í fjárlögum, 2½ millj. Að vísu var tekið bráðabirgðalán í Seðlabankanum 1957, 3.6 millj. kr. Það bráðabirgðalán er enn þá ógreitt. Það var aftur tekið bráðabirgðalán í Seðlabankanum 1958, 3.6 millj. kr. Það lán er einnig ógreitt. Þetta er það framlag, sem útvegað var á þeim árum, og þetta er sá arfur, sem við verðum nú að taka við og borga þessa vanskilaskuld í Seðlabankanum og aðrar miklu fleiri.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta. En ég veit, að það var ekki verið að ræða um mál við stjórn Búnaðarbankans, sem hún var ekki kunnug, þegar hún var kvödd á minn fund, og ég man það, að hv. 1. þm. Austf. var með í því að hækka vexti ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs, að mig minnir á árinu 1955, og verður að segja eins og er, að aðstaða sjóðanna á þeim tíma var allt önnur en nú. Þá var ekki hægt að segja, að þessir sjóðir væru í rauninni gjaldþrota, eins og nú er.

Það eru þess vegna allir í hjarta sínu sammála um, að það, sem gert var, var nauðsynlegt að gera sem einn þátt í því að gera þessa sjóði starfhæfa, aðeins einn þátt, enda þótt hv. framsóknarmenn nú ætli að reyna að gera sér mat úr þessu gagnvart kjósendum, bæði hvað snertir verkamenn og bændur. Eftir að þeir hafa skilið við alla sjóði tóma, á að telja mönnum trú um, að það hefði verið hægt að halda áfram á sömu braut, sömu gjaldþrotabrautinni, og að núverandi ríkisstj. geri þessar ráðstafanir ekki af neinni nauðsyn, heldur til þess að torvelda fólki að byggja yfir sig húsnæði, peningshús og rækta og annað slíkt. En þetta er einn þátturinn í því, að það verði mögulegt að gera þessa sjóði, sem við höfum talað um, starfhæfa áfram, og það er það, sem fólk spyr um: Getur það fengið lán? — en ekki um það, hvort vextirnir eru einu prósenti hærri eða lægri. Það er það, sem fólk spyr um: Er hægt að fá lán? Og það er það, sem vitanlega er ekki hægt að komast hjá í þjóðfélagi, sem verið er að byggja upp, eins og á Íslandi.