22.02.1960
Neðri deild: 34. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3570 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. svaraði hér áðan annarri fsp. minni og þá kom það fram hjá honum um leið, eftir því sem mér heyrðist, viðvíkjandi hækkuninni á lánunum, vöxtunum til fjárfestingarsjóðanna, að þetta væri gert um skeið. Nú eru lánin viðvíkjandi verkamannabústöðunum til 42 ára. Það þýðir óhjákvæmilega, eins og ég benti á áðan, að ef á að gefa út lánsbréf núna og það er ekki gengið út frá, að þetta sé með breytilegum vöxtum, þá eiga þau lán, sem nú eru veitt með 6% vöxtum, að vera til 42 ára óumbreytanleg. Það hlýtur að liggja nokkurn veginn í augum uppi, að það taka engir menn slík lán. Það er ekki svo, að menn bindi sig til margra áratuga undir okrið, þó að menn séu í neyð, eins og hæstv. landbrh. var að koma inn á. Það er ekki svo slæmt ástandið á Íslandi. Og þó að ein ríkisstj. gerði ástandið á Íslandi helmingi verra en það þarf að vera, hafa kannske íslenzkir borgarar einhverja möguleika til þess að útvega sér lán öðruvísi þá.

Þetta getur ekki verið nein ráðstöfun á móti verðbólgu að ákveða þessa hluti. Þetta getur aðeins verið ákvörðun til þess að stöðva menn í því að taka lán núna. Menn taka ekki lán til 42 ára með óumbreytanlegum 6% vöxtum, allra sízt ef það er látið í veðri vaka um leið, að það sé meiningin að reyna einhvern tíma aftur að fá lægri vexti á Íslandi. Þess vegna held ég, að þetta „um skeið“ hafi bara óvart skroppið upp úr ráðh. Meiningin með þessu er engin ráðstöfun á móti verðbólgunni eða neinu slíku, — allar þessar ráðstafanir verða til þess að auka verðbólgu, — heldur er þetta ráðstöfun til þess að reyna að stöðva byggingar, og það er rétt, að það komi alveg fram.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. félmrh. var að segja til þess að verja þetta, þá er ég að vísu ekki eins mikill stærðfræðingur og hann. Hann fékk það út, að raunverulega væru þetta betri kjör fyrir menn nú á tímum, að það munaði núna 3%, en áður hefði þetta bara munað svona 1½, 2 eða 2½% viðvíkjandi vöxtunum, sem menn ættu við að búa samkvæmt lögunum um byggingu verkamannabústaða. Hér í gamla daga, þegar Ísland var fátækt, voru aðstoðarlánin, eins og okkur kemur saman um, 2½%, og almennir vextir voru milli 4 og 5%. M.ö.o.: það var aðeins helmingurinn af þeim vöxtum, sem þá tíðkuðust, sem menn urðu að borga, þegar um verkamannabústaðalánin var að ræða. Nú aftur á móti, þegar almennu lánin eru 9%, þá eru hin komin upp í 6%.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. viðskmrh. hins vegar gleymdi í svarinu til mín, — hann gaf upplýsingar um, hvernig þetta hefði verið samþykkt viðvíkjandi vaxtahækkuninni í seðlabankastjórn, en hann gleymdi hinu, hann gleymdi að lesa eða skýra frá áliti seðlabankastjórnarinnar á því, hvað gera skyldi viðvíkjandi fjárfestingarsjóðunum. Það er nú upplýst í þessum umr. utan dagskrár hér, að seðlabankastjórnin virðist vera eina stjórnin af öllum þessum stjórnum, sem einhverjum bönkum eða fjárfestingarsjóðum stjórna, sem kölluð hefur verið saman til þess að ræða málin eitthvað. Hinar hafa í raun og veru verið boðaðar þannig, að eitthvert hrafl af þeim hefur mætt, — ég veit ekki, hvort þær hafa verið allar saman í einu eða kannske sitt í hvoru lagi niðri í skrifstofum stjórnarráðsins, — og það hrafl, sem þar mætti af stjórnum, hefur síðan verið spurt, án þess að nokkur bréf hafi farið þarna á milli og nokkrar álitsgerðir verið gerðar. Seðlabankastjórnin hins vegar virðist vera eina stjórnin, sem hefur á allmargra klukkutíma fundi rætt þessi mál. Það væri þess vegna mjög ánægjulegt að vita, hvaða niðurstöðum seðlabankastjórnin komst að og hvernig henni þótti þetta við horfa, — jafnvel þó að hún væri ekki kölluð niður í stjórnarráð ásamt einhverjum fjölmörgum öðrum stjórnum á einhvern fund, þar sem eitthvert hrafl mætti, — hvernig henni þótti að kveða upp úrskurðinn um, hvað hún áliti réttmætt sem stjórnendur Seðlabankans í þessum efnum. Ég er tvisvar sinnum búinn að spyrja að þessu og ég vil leyfa mér að vona, að ég þurfi ekki að spyrja að því í þriðja eða fjórða sinn, ef hæstv. forseti sýndi mér nú svo mikið langlundargeð. Hins vegar upplýsti hæstv. viðskmrh., að vaxtahækkunin hefði verið knúin í gegn í stjórn Seðlabankans með eins atkv. mun á tveggja daga fundum. Og þegar hæstv. ríkisstj. hefur sótt vaxtahækkunina með slíku offorsi, sem upplýst er, gagnvart fjárfestingarsjóðunum og stjórnum þeirra, þá þætti mér ekki ólíklegt, að beitt hefði verið öllum þeim ráðum, sem hugsanleg voru, til þess að reyna að knýja fram vaxtahækkunina í stjórn Seðlabankans. Það er þess vegna gott, að það liggi alveg hreint fyrir, hvernig þessi meiri hluti er fenginn, sem hefur ákveðið þessa mestu vaxtahækkun, sem þekkist í íslenzkri sögu og einsdæmi er, a.m.k. í öllum okkar nágrannalöndum. Ég vona sem sé, að þessar upplýsingar um álit seðlabankastjórnarinnar fáist. En hitt virðist ekki fást hér enn þá, nema með einn sjóðinn að einhverju leyti, þ.e. ræktunarsjóðinn eða stjórn Búnaðarbankans, þá afstöðu, sem hún hefur tekið. En æskilegt væri, að það lægi fyrir, hver hefur verið afstaða stjórnar fjárfestingarsjóðanna, meira að segja á þessum hraflsfundi niðri í stjórnarráði á laugardagsmorguninn, til þessara hluta. Eru allar sjóðsstjórnir í landinu orðnar allt í einu ekki neitt, bara nokkrir menn, sem tíndir séu saman til þess að tilkynna einhvern hlut, ef eitthvað eigi að gera, og enginn formlegur háttur hafður þarna á?

Mér þótti vænt um það, sem hæstv. félmrh. sagði, að það væri alveg rétt, það hefði átt að hafa þarna aðra hætti á. Það er einmitt það, sem gerir gæfumuninn í þessum efnum, hvernig unnið er að hlutunum. Það getur sem sé verið, og það er einmitt sá möguleiki, sem aldrei á að útiloka, að ef hafður er sæmilegur háttur á um svona hluti, þá takist að koma viti fyrir ríkisstj., sem er að gera vitleysur. Ég veit, að hæstv. ráðh. eru menn, sem yfirleitt taka rökum, og ég efast ekki um, að ef þarna hefði verið farið þannig að, að aðstaða hefði verið til þess að ræða þessi mál, til þess að setja fram rök, ræða um þau fram og aftur, tína til afleiðingarnar og sýna fram á afleiðingarnar af hinu og þessu, þá hefði e.t.v. verið hægt að hindra þessa vitleysu, sem nú hefur verið gerð. En hæstv. ríkisstj. gefur mönnum ekki tækifæri til slíks með svona aðferð. Hún hrifsar til sín — án þess að hlusta á ráðleggingar — valdið til að taka ákvarðanir um hlutina. Og ég skal alls ekki segja, hvort meira að segja hennar eigin flokksbræður í stjórnum ýmissa þessara sjóða hafi í hjarta sínu verið fylgjandi þessu. Mér er kunnugt um, að það hefur stundum verið talað um það, að mönnum þætti ekki ráðlegt að vera að láta uppi skoðanir sínar, ef þær væru mjög andstæðar því, sem hæstv. ríkisstj. áliti, og ég er hræddur um, að mönnum hafi gefizt lítið tóm til þess þarna að ræða við hæstv. ríkisstj. um þetta og reyna að koma vitinu fyrir hana.

Þess vegna er það slæmt, að það skuli ekki vera upplýst hér, hvað þarna hefur verið sagt. Þetta hefði komið fram, svo framarlega sem hér hefði verið hafður venjulegur háttur á, ef skriflegs álits hefði verið leitað, skrifleg svör verið gefin og kannske verið þar meiri hl. og minni hl., sem hefði fært fram sín rök.

Viðvíkjandi ábyrgðinni á þessum hlutum seinna meir, þá er þetta þýðingarmikið atriði. En ég vil sem sé vonast til þess, að viðvíkjandi áliti seðlabankastjórnarinnar um fjárfestingarmálin verði það þó a.m.k. upplýst, hvernig það álit var.