22.02.1960
Neðri deild: 34. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3576 í B-deild Alþingistíðinda. (1748)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Skúli Guðmundsson:

Hæstv. landbrh. nefndi hér áðan sérstaklega byggingarsjóð Búnaðarbankans, hvernig að honum hefði verið búið að undanförnu. Það hefur verið þannig, að byggingarsjóði og ræktunarsjóði hefur verið útvegað lánsfé, til þess að þeir gætu gegnt sínum hlutverkum, en það hefur verið halli hjá sjóðunum á rekstrinum, vegna þess að þeir hafa þurft að greiða hærri vexti yfirleitt af sínum lánum en þeir hafa fengið af því fé, sem þeir hafa lánað út. Þannig hefur þessu verið bjargað, að ríkið hefur við og við tekið að sér greiðslu á lánum, sem útveguð höfðu verið handa þessum sjóðum. Þannig var það að því er byggingarsjóðinn snertir, að árið 1953 ákvað Alþingi með lögum, að ríkissjóður skyldi taka á sig lán, sem hvíldi á byggingarsjóði Búnaðarbankans, sem nam yfir 14 millj. kr. Á sama tíma ákvað Alþingi, að ríkið skyldi taka að sér greiðslu á skuld ræktunarsjóðs jafnhárri.

Fjórum árum síðar, árið 1957, ákvað Alþingi aftur með því að samþykkja heimild í fjárl., að ríkissjóður skyldi taka á sig skuld byggingarsjóðs, rúmar 4 millj., og áhvílandi lán á ræktunarsjóði, sem nam 30 millj. kr.

Þannig hefur sjóðunum verið gert það kleift að halda áfram lánveitingum til framkvæmda í sveitum samkvæmt þeim l., sem um þessa sjóði hafa gilt. Enn er svo komið, að ríkið þarf að létta undir með sjóðunum, og einmitt nú í dag var verið að útbýta hér í hv. d. frv., sem flutt er í Ed. um þetta mál, þar sem lagt er til, að ríkissjóður taki að sér að greiða án endurgreiðslukröfu ákveðin lán í erlendri mynt, sem á undanförnum árum hafi verið tekin handa byggingarsjóði sveitabæja og ræktunarsjóði.

En út af því, sem hæstv. landbrh. sagði um byggingarsjóðinn, er ástæða til að íhuga það, hvernig sá sjóður hefur getað gegnt sínu hlutverki á undanförnum árum. Mér er vel kunnugt um, að fram til ársloka 1958 hafði það verið þannig um langan tíma, að bændur, sem réðust í það að byggja upp íbúðarhús á jörðum sínum, gátu fengið lán úr byggingarsjóði Búnaðarbankans eftir þeim reglum, sem þar um hafa gilt. Lánin hafa að vísu ekki verið há. Hámark þeirra hefur alllengi verið 75 þús. kr. á býli. En þeirri reglu hefur verið fylgt, að þegar hús var orðið fokhelt, sem svo er kallað, þá gátu umsækjendur fengið helming lánsfjárins og síðan viðbótargreiðslur, eftir því sem byggingunum miðaði áfram.

Þannig hefur þetta verið fram til ársloka 1958, að menn hafa getað fengið lán með þessum hætti hindrunarlaust. En næstliðið ár, 1959, var annað upp á teningnum. 1959 fór það svo, að þeir bændur, sem réðust í það að byggja upp á jörðum sínum, auðvitað í von um að geta fengið lán eins og áður, þeir fengu ekki lánið fyrir árslok, eins og áður hafði verið venjulegt. Þó að þeir væru búnir að gera húsin fokheld og færu fram á það að fá eins og áður helming af væntanlegu láni, þá fengu þeir ekki neitt. Það var sagt, að peningarnir væru ekki til. Þetta var eftir að sá hæstv. ráðh., sem hér talaði áðan, var setztur í sæti landbrh. Þessir menn, sem urðu fyrir þessum synjunum nú fyrir áramótin, hafa á sér lausaskuldir, sem þeir verða nú að greiða af hina nýju vexti ríkisstj. fyrir það, að þeir hafa ekki getað fengið lán úr Búnaðarbankanum með venjulegum hætti og samkvæmt þeim reglum, sem áður hefur verið fylgt. Þeir finna þann mun, sem hér er á orðinn, og hvað að þeim snýr nú.

Nú er okkur sagt, að það sé búið að hækka vexti m.a. hjá þessum sjóðum. Nú er sagt, að þeir hafi verið ákveðnir 6% hjá byggingarsjóði Búnaðarbankans, en um leið segir hæstv. viðskmrh. hér í dag, að það sé til þess ætlazt, að þetta standi, að því er manni skilst, bara skamma stund. Hann hefur ekki gefið upp ákveðið tímatakmark að vísu, en manni skilst, að þetta sé bara bráðabirgðahækkun á vöxtunum, þeir muni innan skamms lækka aftur. Ég sé ekki betur en þetta sé einn þátturinn í þeirri viðleitni hæstv. núverandi ríkisstj. að stöðva uppbyggingu í landinu, m.a. koma í veg fyrir, að það verði ráðizt í að byggja upp á jörðum, byggja þar íbúðarhús, þó að þess sé brýn þörf, til þess að þær geti haldizt í byggð. Það er ekkert fýsilegt fyrir menn, þó að þeir þurfi að byggja á jörðum sínum og jafnvel þótt þeir gætu, sem enginn veit um, fengið eitthvert lán á þessu ári hjá byggingarsjóði Búnaðarbankans með 6% vöxtum, að binda sér þannig bagga um næstu áratugi, ef gera má ráð fyrir því, að eftir skamma stund, tiltölulega skamman tíma, verði þessir vextir og aðrir vextir kannske lækkaðir aftur. Það er í raun og veru verið að segja við þessa menn: Verið ekki að bjástra við að ráðast í það að byggja upp á þessum jörðum, þó að það sé nauðsynlegt, til þess að þær geti haldizt í byggð. Það er réttara fyrir ykkur bara að hverfa frá því og yfirgefa jarðirnar. Sem sagt: einn liðurinn í þeirri viðleitni hæstv. stjórnar, sem alls staðar kemur fram, að stöðva uppbyggingu bæði í sveitum og annars staðar.