22.02.1960
Neðri deild: 34. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3581 í B-deild Alþingistíðinda. (1751)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. talar um það, að lánin, sem byggingarsjóður Búnaðarbankans hefur veitt á undanförnum árum, hafi verið of lág miðað við byggingarkostnað. En hvernig stendur þá á því, að þessi hæstv. ráðh. skyldi ekki hlutast til um það, að þeir, sem byrjuðu að byggja árið sem leið, gætu fengið þessar litlu lánsupphæðir fyrir áramótin? Það hefur alltaf verið séð um það af fyrirrennurum hans í þessari stöðu undanfarin ár, að menn gætu þó fengið þessi lán, helming lánsupphæðarinnar, þegar húsið er orðið fokhelt, en nú eftir að hann er kominn í stöðu landbrh. fá þeir ekki þessi lán, þótt ekki væri um meira en þetta að ræða, og þess vegna eru þeir enn með sínar lausaskuldir. Þeir eru ekki farnir að fá þessi lán enn, þeir sem byrjuðu að byggja árið sem leið. Hæstv. ráðh. gefur í skyn, að þeir muni fá þetta einhvern tíma. Það tel ég ekki þakkarvert. En þarna hafa þeir orðið fyrir miklum óþægindum, sem hann átti að sjá um, að þeir yrðu ekki fyrir.