22.03.1960
Efri deild: 45. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3581 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Þar sem hæstv. landbrh. er staddur hér í d. nú, vildi ég mælast til þess, að hann gæfi mér upplýsingar um það, hvenær hægt verður að veita lán úr ræktunarsjóði Íslands og byggingarsjóði sveitabæja. Ráðh. upplýsti það snemma á þessum vetri, að þessum sjóðum mundi verða séð fyrir því fjármagni, sem þyrfti til þess að inna þær lánveitingar af hendi, sem fyrir lægju á því ári. Auk þess hafði hæstv. ríkisstj. tekið það inn í sinn stjórnarsamning að treysta fjárhagsgrundvöll þeirra sjóða, sem eiga að standa undir og lána til sjálfs atvinnulífsins í landinu. Ég hef alltaf verið að búast við því og er raunar ekki einn um þá skoðun, að fljótlega upp úr áramótum hefði verið hægt að hefjast handa um að inna þær lánveitingar af hendi úr ræktunar- og byggingarsjóði, sem í raun og veru þurfti að inna af hendi á árinu sem leið. Og vegna þess að nokkuð er umliðið nú frá áramótum og frá því, að ráðh. taldi, að þessi mál yrðu leyst, vil ég mælast til þess, að hann gefi mér upplýsingar um og upplýsi það hér í hv. d., hvenær þess er að vænta, að byggingarsjóði sveitabæja og ræktunarsjóði verður séð fyrir því fjármagni, sem þeir þurfa til þess að inna nú þegar umbeðnar lánveitingar af hendi.