22.03.1960
Efri deild: 45. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3584 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur hér gefið. Og ég get líka þakkað honum fyrir það, að hann skuli upplýsa, að þess skuli ekki langt að biða og jafnvel ekki nema til næstu daga, að það verði hægt fyrir stofnlánadeildir Búnaðarbankans að inna af hendi þær lánveitingar, sem þörf krefur nú í augnablikinu.

Það er eftirtektarvert, að árið 1960 skuli enginn af þeim, sem byrjaði að byggja íbúðarhús árið 1959, hafa fengið byrjunarlán. Það er algerlega nýtt í sögunni, því að ég hygg, að það hafi ævinlega verið hægt að veita lán úr byggingarsjóði nokkurn veginn eftir því, sem framkvæmdirnar hafa verið unnar. En á þeim 15 mánuðum, sem hæstv. ríkisstj. hefur setið að völdum, hefur henni ekki tekizt að leysa þessa hnúta. En það hlaut að sjálfsögðu að falla í hennar skaut. Þó að á tímabili hafi verið tekin bráðabirgðalán, hefur verið venjan sú, að þeir, sem með völdin fara í landinu, hafi greitt fyrir þessum málum. En í þessa 15 mánuði, sem liðnir eru, frá því að vinstri stjórnin fór frá völdum, hefur ekkert verið hafizt handa um að útvega sjóðnum fé, fyrr en ef það hefur verið einhvern tíma seint á árinu sem leið. Það leið eitt ár, sem ekki var neitt hugsað um þessa hluti, svo að það er kannske eðlilegt, að eitthvað sé í sokkabolunum af þeim sökum.

Mér finnst ekki viðeigandi af hæstv. ráðh. að vera að tala um óreiðuskuldir hjá Búnaðarbanka Íslands eða hans sjóðum í þessu sambandi, vegna þess að það er ekki um neina óreiðu að ræða. Sú ríkisstj., sem mun hafa tekið þessi lán, tók þau til framkvæmda í landinu, og hún hefði að sjálfsögðu rækilega gengið frá þessum málum, hefði hennar skeið verið lengra, og það hlaut því að falla í skaut þeirrar stjórnar, sem við tók, að ráða fram úr þeim vanda í þessum efnum sem öðrum, þar sem fráfarandi stjórn vannst ekki tími til að ganga frá hlutunum. En að það sé nokkurs staðar um neina óreiðu að ræða, það viðurkenni ég ekki.

Ég vil að lokum vænta þess, að það verði fljótlega hægt að hefja lánveitingar að nýju úr þessum sjóðum, svo að þeir, sem þegar hafa beðið eftir sínum lánum út á framkvæmdir fyrir árið 1959, geti séð nokkurn veginn fram úr, hvort þeir geti haldið áfram þessum framkvæmdum eða þeir verði frá að hverfa á komanda vori, eins og horfir við um marga hverja.