22.03.1960
Efri deild: 45. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3584 í B-deild Alþingistíðinda. (1755)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Hv. fyrirspyrjandi sagði, að ef vinstri stjórninni hefði enzt líf og aldur, — hann hefði þá einnig átt að segja líf og heilsa, — þá hefði hún vitanlega greitt þær skuldir, sem hún hefði stofnað til vegna Búnaðarbankans. Það væri alls ekki eðlilegt að vera að tala um óreiðuskuldir, í þessu sambandi. En ég minni á, að 5 millj. kr. víxillinn fyrir ræktunarsjóð var tekinn á árinu 1957, 3.5 millj. kr. víxillinn fyrir byggingarsjóð var tekinn á árinu 1957, og vinstri stjórnin fór þó ekki frá völdum fyrr en í árslok 1958. Þetta hvort tveggja voru bráðabirgðavíxlar til stutts tíma, sem átti að greiða, en vinstri stjórnin greiddi ekki og skildi eftir handa þeim, sem við tóku seinna. Þetta eru óreiðuskuldir, þetta eru gjaldfallnar skuldir og óreiðuskuldir, og fyrr en búið er að greiða þær, þýðir ekki að tala við Seðlabankann um fyrirgreiðslu fyrir Búnaðarbankann. Hitt er svo annað mál, eins og ég tók skýrt fram áðan, að ég ætla ekki að ásaka bankastjóra Búnaðarbankans fyrir þetta, vegna þess að hann tók ekki þetta lán. Það gerði ríkisstj, á þeim tíma, og það var hún, sem lofaði að greiða það. En óreiðuskuld er þetta, sem núv. ríkisstj. verður að taka að sér að greiða. Þetta er bara einn arfurinn, sem hún tekur við frá vinstri stjórninni.

Þegar hv. fyrirspyrjandi talar um, að það sé einkennilegt, að á árinu 1960 skuli ekki enn hafa verið lánað neitt út á nýjar framkvæmdir úr byggingarsjóði, þá er það ekkert einkennilegt, ef hv. fyrirspyrjandi vill setja sig inn í þessi mál, sem hann ætti að gera. Það liggur aðeins í því, að þegar reynt var að fá fyrirgreiðslu hjá Seðlabankanum vegna byggingarsjóðsins á s.l. hausti, voru syndir fyrrv. stjórnar, vinstri stjórnarinnar, svo miklar í þessum banka, að hann var lokaður fyrir þessa stjórn, fyrr en búið var að bæta fyrir syndir fyrrv. stjórnar. Og ég trúi því, að hv. fyrirspyrjandi sé ánægður með það og glaður í sínu hjarta, að núv. ríkisstj. hefur tekið að sér að leysa þennan hnút, hefur tekið að sér að útvega Búnaðarbankanum fé, hefur tekið að sér að koma stofnlánasjóðum Búnaðarbankans og stofnlánasjóðum atvinnuveganna í heild á traustan grundvöll, eins og segir í stjórnarsamningum. Þetta ætlar núv. ríkisstj. sér að gera, og það, sem kallar mest að í dag, er að láta Búnaðarbankann fá, ekki 20, heldur allt að 30 millj. kr., til þess að hægt sé að ljúka því, sem fyrir liggur frá fyrra ári eða fyrri árum. Því, sem fram undan er, gefst betri tími til að vinna að, en það þarf vitanlega mikið fjármagn til þess að koma sjóðunum á traustan grundvöll, eins og allir telja nauðsynlegt.