22.03.1960
Efri deild: 45. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3587 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Ásgeir Bjarnason:

Hæstv. ráðh. gat þess, að ekki væri enn þá komið ameríska lánið og þar af leiðandi hefði ekki verið hægt að fullnægja lánsfjárbeiðnum úr Búnaðarbanka Íslands. Þetta kann vel að vera. En hvenær kemur þá það, sem eftir er af láninu? Hvenær er þess að vænta, að það komi? Svo vil ég vekja athygli hæstv. ráðh. á því, að lánið, sem átti að koma, var eingöngu til þess að lána úr ræktunarsjóði, en ekki byggingarsjóði Búnaðarbankans. Það var ekki til þess að leysa hlutverk byggingarsjóðsins, en til þess að leysa ræktunarsjóðsmálin. Og það er einkennilegt, að á öllu árinu sem leið skyldi ekki vera hægt að sjá byggingarsjóði Búnaðarbankans fyrir nægjanlegu fjármagni, þar sem því var haldið fram fyrir kosningarnar á s.l. hausti, að bæði útflutningssjóður og ríkissjóður væru með miklum blóma. Hafi svo verið, hygg ég, að ríkisstj. sjálf og þeir, sem hana studdu, hafi haft það í hendi sér að leysa þessi mál. Og ég get líka fullvissað hæstv. ráðh. um það, að hefðu framsóknarmenn farið með völdin, hefðu þeir fyrir lifandi löngu verið búnir að leysa þennan vanda, því að það hefur aldrei komið fyrir, fyrr en þeir fóru úr stjórn, að þessi málefni hafi ekki verið leyst á sómasamlegan hátt fyrir alla, sem hlut áttu að máli.