09.05.1960
Neðri deild: 78. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3588 í B-deild Alþingistíðinda. (1760)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Eins og hæstv. forseti d. tók fram, er hæstv. sjútvmrh. bundinn við skyldustörf annars staðar og mun ekki geta komið til fundarins fyrr en milli hálfþrjú og þrjú. Ég skal með ánægju koma þessari fsp. á framfæri við hæstv. sjútvmrh., og mundi hann þá t.d. á morgun geta svarað fsp. hv. þm. Ég skal þó nú þegar ekki láta hjá líða að taka fram, að fregnir um þetta, sem birtust í blöðum í gær, voru ónákvæmar. Það er að sjálfsögðu ekki búið að fella helming útflutningsskattsins niður, enda er það á valdi Alþingis eins að gera það. Hitt er rétt, að það hefur verið um það rætt undanfarið í sambandi við þá samninga, sem gerðir hafa verið um fiskverð milli fiskkaupenda og fiskseljenda, að gera þetta. Ríkisstj. hefur það til athugunar og mun væntanlega leggja það til eða beita sér fyrir því, að þessi lækkun nái fram að ganga. En um það mun hæstv. sjútvmrh. geta gefið nánari skýrslu á fundinum á morgun.