09.05.1960
Neðri deild: 78. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3589 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leyfa mér út af því tilefni, að hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) nú hefur komið fram með fsp., í fyrsta lagi taka undir hans spurningar og í öðru lagi lýsa því yfir, að fyrst hæstv. sjútvmrh. er væntanlegur hér á fund síðar í dag, vildi ég mælast til þess við hæstv. forseta, þó að milli mála væri, að það gæfist tími til þess að athuga þessa hluti nú þegar.

Það er ákveðið með mjög ákveðnum orðum í 8. gr. efnahagslaganna, að tollyfirvöldin skuli innheimta þennan umrædda 5% skatt, og það er ákveðið í sömu grein mjög ákveðið, að honum skuli varið til greiðslu á halla útflutningssjóðs, þannig að ákvæðin eru bundin mjög rammlega í lögum. Og í 40. gr. stjórnarskrárinnar er greinilega sagt, að engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Þegar svona hlutir eru farnir að gerast, eins og þeir, að blöð ríkisstj. og jafnvel fleiri opinberir aðilar eru farnir að skýra frá því, að þetta og þetta verði gert, rétt eins og Alþingi væri ekki til og hefði ekkert að segja í þessu, þá er það dálítið varhugavert tímanna tákn. Það er satt að segja orðið nóg um það, að ríkisstj. séu farnar að taka ákvarðanir svo að segja einvörðungu sjálfar, en stilla síðan sínum þingflokkum frammi fyrir því, að þeir verði annaðhvort að samþykkja eða hafna, þegar þar að kemur, og þorri þingmanna í þessum flokkum beygir sig síðan óánægður undir það, sem gert hefur verið. Það er ákaflega mikið allt saman í þá áttina að brjóta bókstaflega niður þingræðið hjá okkur.

Viðvíkjandi hins vegar þessu máli, þá er eðlilegt, að það veki alveg sérstaklega athygli, vegna þess að eitt af því, sem hefur verið yfir lýst af hálfu íslenzku ríkisstj., það er, að það verði ekki neitt tekið upp, sem heitir útflutningsuppbætur, heldur skuli atvinnurekendur eiga að standa á eigin fótum, og allt það kerfi, sem hæstv. ríkisstj. hefur þótzt vera að byggja upp undanfarið, hefur byggzt á þessari, ef svo mætti orða það, siðferðilegu forsendu, að enginn stuðningur frá ríkinu ætti að koma til þessara atvinnurekenda, og það væri vísindalega útreiknað af sérstökum sérfræðingum, mjög lærðum sérfræðingum, að þetta stæðist allt saman. Ég lét reikna þetta út, og í sambandi við okkar starf í fjhn. þessarar hv. deildar um þetta frv. um efnahagsmál spurði ég Davíð Ólafsson, einn sérfræðinginn, að því, hvað útflutningurinn ætti að geta borgað, og lagði fyrir í þessari deild allan þann útreikning. Og sá sami útreikningur, sem var greinilegt að ætti að vera það allra minnsta, sem hægt ætti að vera að greiða til sjávarútvegsins, það kemur nú sem sé allt í einu í ljós, að hraðfrystihúsin segjast ekki geta greitt þetta, nema þau fái sérstakar útflutningsuppbætur frá ríkinu. Útreikningur, sem ég hef lagt hér fyrir sem minni hl. í fjhn., þegar þessi efnahagsmál eru hér til umræðu, og var staðhæft þá að væri meira eða minna rangur, og ekki væri nein vissa fyrir, að útreikningar sérfræðinganna stæðust, þessi útreikningur sýnir sig nú þegar, þrem mánuðum eftir að lögin eru samþykkt, að hafa verið rangur, en útreikningur okkar þingmannanna réttur. En hæstv. ríkisstj. fékkst ekki til að taka neitt tillit til neins útreiknings, sem við lögðum hér fram, en batt sig einvörðungu við það, sem sérfræðingarnir höfðu gert.

Þess vegna er þetta ekkert smámál, sem hér er um að ræða, því að þetta, sem ríkisstj. nú hefur gert, er merki til verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi um, að allt þetta þvaður, sem ríkisstj. hefur verið með um útflutningsbætur og annað slíkt, er tóm vitleysa. Það hefur verið heimtað nú af launþegum í landinu, að þeir færu að leggja eitthvað að sér, til þess að sjávarútvegurinn og atvinnureksturinn í landinu geti staðið á eigin fótum, og menn hafa verið beðnir um að gefa ríkisstj. frí einhvern tíma, til þess að þetta fengi að sýna sig. Nú sem sé er þetta komið í ljós, þremur mánuðum — og varla það — eftir að þessi lög eru samþykkt, með þessari gagnrýni frá okkar hálfu á útreikningum sérfræðinganna og ráðstöfunum ríkisstj., að útflutningsbætur eru teknar upp. 1950 var þó beðið með þetta í eitt ár, þangað til bátagjaldeyririnn var settur á.

Ég vil þess vegna vekja athygli á því, að þarna er ekki bara um að ræða formlegt mál, þar sem hæstv. ríkisstj. er farin að gera ráðstafanir án þess að vita nokkuð, hvernig Alþingi muni taka í þetta, og fara inn á að lofa ýmsu í sambandi við það, heldur er þarna um að ræða það, að sjálft kerfi ríkisstj. er að hrynja og það áður en seinni parturinn af þessum aðallögum hennar, sem sé lögin um viðskiptafrelsið, sem áttu að byggjast á gengisskráningarlögunum, er kominn í gegnum þingið. Ég vil því vekja athygli hæstv. ríkisstj. á því, að þetta er mjög alvarlegt mál, sem hlýtur að verða tekið til mjög alvarlegrar umræðu nú þegar hér í þinginu, og ég held það sé bezt fyrir hæstv. ríkisstj. að stöðva nú þau frv., sem eru í gangi hér í þinginu, áður en lengra er haldið. Það er engin ástæða til þess að fara að neita að viðurkenna þær staðreyndir, að kerfið sé fallið um sjálft sig, eða þá hitt, að allir útreikningar sérfræðinganna séu vitlausir. Og það er ekki ástæða til þess að vera endilega að biða eftir því, að hér hefjist stórkostlegar vinnudeilur. Þeir hafa sannarlega fórnað meiru, launþegarnir í landinu, heldur en sjávarútvegsmennirnir, og átti þetta þó allt að vera gert fyrir þá. Og ef hæstv. ríkisstj. nú þegar viðurkennir, að hún verði að taka sérstaka skatta af ríkissjóði til þess að gefa þeim útflutningsuppbætur, þá er sannarlega kominn tími til fyrir hana að endurskoða sína afstöðu gagnvart launþegunum eða þá að segja við launþegana: Þið skuluð ekki vera að bíða neitt lengur.