09.05.1960
Neðri deild: 78. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3591 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan, mun hæstv. sjútvmrh. gefa nánari skýrslu um þetta mál í tilefni af fsp. hv. 1. þm. Norðurl. v., annaðhvort síðdegis í dag, þegar hann er kominn til fundarins, eða á morgun. Ég vildi þó ekki láta hjá líða að andmæla eindregið þeirri skoðun, sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv., að það, sem hér hefur verið rætt um, það, sem hér hefur borið á góma, að lækka útflutningsskattinn um helming, úr 5% í 2½%, á hvorki nokkuð skylt við nýjar útflutningsbætur né heldur er nokkurt tákn um, að það efnahagskerfi, sem nú er verið að reyna að koma hér á laggirnar, sé að hrynja.

Ég þarf ekki að minna hv. þm. eða aðra hv. dm. á, í hvaða skyni 5% útflutningsskatturinn var á lagður. Hann var lagður á í því skyni að greiða ógreiddar skuldbindingar útflutningssjóðs.

Nú hefur það gerzt, að við endanlegt uppgjör útflutningssjóðs hafa skuldbindingar hans reynzt miklu minni en hafði verið áætlað. Þær hafa reynzt næstum helmingi minni en áætlað hafði verið eftir þeim gögnum, sem lágu fyrir hjá útflutningsnefnd. Í öðru lagi hefur það svo gerzt, sem var ekki vitað, þegar efnahagslögin voru undirbúin, að mikið verðfall hefur orðið á fiskimjöli erlendis, sem hefur að sjálfsögðu rýrt mjög hag útflutningsatvinnuveganna og rýrt getu fiskkaupenda til þess að greiða það verð fyrir fiskinn, sem þeir hefðu getað gert, ef sú breyting hefði ekki átt sér stað.

Það eru þessar tvær breyttu forsendur, sem um er að ræða og hafa gert það að verkum, að ríkisstj. hefur tekið til venjulegrar athugunar í fyrsta lagi, hvort fært væri, sem mun vera fært, og hvort réttmætt væri að taka þá ákvörðun að leggja til við Alþingi, að þeirri ákvörðun yrði breytt, sem fólst í því ákvæði efnahagslaganna, að útflutningur skyldi greiða 5% skatt af útflutningsverðmæti.

Þetta vildi ég aðeins segja strax til þess að fyrirbyggja misskilning um þetta efni. En ég segi það enn, að að öðru leyti mun hæstv. sjútvmrh. eflaust vera reiðubúinn til þess að gefa nánari skýrslu um þær samningaviðræður, sem farið hafa fram undanfarnar vikur milli fiskkaupenda og fiskseljenda, og það samkomulag, sem komið er á í þeim efnum.