09.05.1960
Neðri deild: 78. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3592 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. talaði um það, að við endanlegt uppgjör viðvíkjandi útflutningssjóðnum hefði það sýnt sig, að þetta hefði komið út vænlegar en búizt hefði verið við. Ég er ákaflega hræddur um, að allir útreikningarnir og endanlegu uppgjörin á öllum þessum hlutum fari nokkuð mikið eftir því, hvað ríkisstj. þykir hagkvæmt á hverjum tíma. Fyrir kosningar þótti hagkvæmt að gefa eina ákveðna lýsingu á afkomu ríkissjóðs, útflutningssjóðs og jöfnuðinum í utanríkisverzluninni. Eftir kosningarnar, þegar tveir mánuðir voru liðnir frá þeim, þótti hagkvæmt að gefa aðra yfirlýsingu. Og þegar efnahagslögin eru samþykkt, þótti hagkvæmt að gera þessa og þessa útreikninga, sem ættu að gera þetta og þetta nauðsynlegt. Og nú á eftir þykir hagkvæmt, að útreikningurinn komi öðruvísi niður. Ég verð að segja það, að ég gef ekki sérstaklega mikið fyrir útreikninga þessara sérfræðinga í þessum málum. Ég er hræddur um, að þeim sé ráðstafað, þeim sé hagrætt eftir því, hvers konar pólitík ríkisstj. heimtar á hverjum tíma.

Í öðru lagi viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðh. segir viðvíkjandi fiskimjölinu, eins og hæstv. ríkisstj. hafi ekki vitað jafnt um fiskimjölið og verðhrunið á því í febrúar eins og núna? Jú verðhrunið hefur verið að skella á frá því nokkurn veginn í október-nóvember í haust, alltaf farið sílækkandi. Framboðið frá Perú er byrjað að koma fram strax í október–nóvember, og það var alveg fyrirsjáanlegt, hvert fór. Og þessar ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert til þess að leiða verðhrunið yfir íslenzka fiskimjölið, eru ráðstafanir, sem standa beint í sambandi við alla hennar pólitík. Það var hægt að selja þetta fiskimjöl í fyrrasumar fyrir allt upp í 20 shillinga prótein-einingu, miðað við, að nú hefur það farið niður í 11, frá 18–20 sh. til Tékkóslóvakíu, en ríkisstj. og Seðlabankinn, þeir hindruðu það, vegna þess að þeir eru að heimta frjálsan gjaldeyri. Og þetta er bara ein afleiðingin af því, sem ríkisstj. er að gera og hún er vöruð hér við hvað eftir annað, og við höfum ekki sparað okkar tíma eða okkar rödd til þess að reyna að vara ríkisstj. við. Hún er að skipuleggja Ísland inn í verðhrunsmarkað. Það er ríkisstj., sem skipuleggur þetta verðhrun. Þótt það sé Perú, sem veldur því, þá er það pólitík ríkisstj., sem veldur því, að við erum háðir þessum markaði. Það var vel hægt að gera aðrar ráðstafanir. Og svo framarlega sem afleiðingarnar af því, sem ríkisstj. nú er að gera, verða verðhrun í sambandi við hraðfrysta fiskinn, þá er það líka atriði, sem ríkisstj. getur séð fyrir í dag.

Ef á að fara að byggja upp stórkostleg bákn til sölu á hraðfrystum fiski í Hollandi, Belgíu, Frakklandi, meira eða minna fyrst og fremst með íslenzkum peningum, standa í því vikum og mánuðum og árum saman að byggja upp bákn, eins dýrt og það er, þá þýðir það verðhrun fyrir okkur. Það þýðir, að við byrjum að undirbúa það með öllu mögulegu slíku og byrjum með því að festa þarna heilmikla peninga, sem maður veit ekkert, hvort koma nokkurn tíma fram. Þetta er þáttur úr pólitík ríkisstj., að yfirgefa það, sem öruggt er, og leggja inn á brask. Það er því ekki til neins að koma á eftir og segja núna: Við verðum nú að breyta til þarna með sjávarútveginn, af því að það hefur fallið verð á einhverjum hlutum. — Og það er ekki atriði, sem verður tekið tillit til af hálfu verkalýðshreyfingarinnar hér. Þetta eru ráðstafanir, sem ríkisstj, er að gera, Í staðinn fyrir að gera fyrirframsamninga og reyna að tryggja sig, þá er beðið og beðið og braskað og braskað. Og svo þegar sveiflur á kapítalistískum mörkuðum valda verðhruni, þá stendur ríkisstj. upp og segir: Við verðum að byrja á útflutningsuppbótum. — Auðvitað eru það ekkert annað en útflutningsuppbætur að verða að gera svona ráðstafanir. Það er sama, hvað þær eru kallaðar. Það var ekki heldur kallað útflutningsuppbætur, þegar bátagjaldeyririnn var tekinn upp, síður en svo. Og því var líka neitað. Hæstv. viðskmrh. man kannske, hvað það var kallað. Það var kallað ákaflega fallegu nafni. Það var kallaður sérstakur frílisti, ef ég man rétt, alveg sérstakur frílisti, sérstaklega frjáls, miklu frjálsari en allt annað. Það var sérstakur frílisti handa útvegsmönnum. Ég man ekki betur en þeir fengju sérstaklega að verzla með þann gjaldeyri, sem kom inn fyrir það, og ég sé ekki betur en nú eigi að fara að breyta á Alþingi ákveðnum skatti, sem lagður er á, til þess að útvegsmenn fái hann sérstaklega í hendur. Heldur hæstv. viðskmrh. að þetta sé hvað eðli snertir mjög ólíkt þeim sérstökum frílista, sem seinna var kallaður bátagjaldeyrir og nú hefur verið talinn vera byrjun á útflutningsuppbótunum? Við skulum ekki vera að stinga höfðinu neitt í sandinn eins og strútur viðvíkjandi þessum hlutum. Við sjáum alveg, hvert þetta er að leiða.

Ég skal svo ekki gera þetta að frekara umtalsefni nú. En mér þætti mjög vænt um, að hæstv. sjútvmrh., þegar hann kæmi í dag, gæfi þinginu kost á að heyra sín rök í þessum málum.