10.05.1960
Neðri deild: 79. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3600 í B-deild Alþingistíðinda. (1768)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þessar umræður eru nú álíka skringilegar og þau blaðaummæli, sem fram hafa farið út af þessum ráðstöfunum, því að það er verið bæði hér og í þeim blaðaummælum að reyna að fá út úr því, sem gert hefur verið, allt annað en það, sem raunverulega er.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að ekki hefði nú verið nákvæmlega útreiknað hjá þeim, sem að efnahagsráðstöfununum stóðu, þessi 5%, og kæmi sér það nokkuð spánskt fyrir, að það hefði ekki verið hægt að ákveða það neitt nákvæmar. En ég veit ekki, hversu góður hv. þm. er að reikna. Sjálfsagt getur hann gert það vel eins og ýmislegt annað, sem honum er lagið, en bara einfalt þríliðudæmi — eða enn einfaldara en þríliða — sýnir það, að 5% í hálft ár er sama sem 2½% í eitt ár, og hvort tekið er 5% í 6 mánuði eða 2½% í 12 mánuði, þá verður heildarútkoman sú sama. Og það var heildarútkoman ein, sem um var rætt í upphafi, en ekki endilega svo mikið upp úr því lagt, hvort prósentutalan yrði þessi eða hin. Það var aðeins um það að ræða, að náð yrði þeirri upphæð, sem þurfti, til þess að halli útflutningssjóðsins yrði greiddur, og það hefði verið hægt að ná honum með 5% gjaldinu, og það er líka hægt að ná þessari sömu upphæð með 2½% gjaldinu. Allt tal þessa hv. þm. og hv. 1. þm. Austf., sem talaði hér áðan líka, um, að hér sé um auknar bætur að ræða, nýjar bætur, er alveg út í hött, því að það er ekki hægt að greiða neinar bætur, nema bæturnar séu greiddar af einhverjum, — og hver greiðir bæturnar í þessu tilfelli?

Hv. 1. þm. Austf. nefndi hér 60 millj. Blað hv. 3. þm. Reykv. hefur nefnt þessa tölu líka. En hver borgar þessar 60 millj., — hver borgar þær? Það er ekki hægt að greiða neinum bætur, nema þær séu frá einhverjum teknar. Það var í upphafi ákveðið, að halli útflutningssjóðsins yrði greiddur af útvegsmönnum sjálfum, og það er enn svo. Það hefur ekki verið létt neinni byrði af þeim, það er nákvæmlega sama upphæðin, sem verður tekin. Munurinn er einungis sá, að hann er tekinn á helmingi lengri tíma en í upphafi var hugsað að gera, og það getur ekki skorið úr neinu og ekki kallazt, að kerfið sé hrunið, eins og hv. 1. þm. Austf. orðaði það, hvort þessi halli útflutningssjóðs sé greiddur á 6 mánuðum eða 12.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að það mundi verða eftir því leitað, hvort tilsvarandi tilslakanir væri hægt að fá fyrir verkamenn. Ég held, að það sé óhætt að segja það, að til verkamanna og alls almennings í landinu hafi ekki verið leitað um bætur í þessu skyni. Bæturnar eru greiddar af útvegsmönnum og þeim ætlað að standa undir þeim, þangað til þessu sérstaka verkefni er lokið.

Hv. 1. þm. Austf. vildi fá menn til þess að trúa því, að halli útflutningssjóðs stafaði frá árinu 1959 og að þeir, sem fyrr hefðu farið með stjórn þessara mála, væru saklausir af því að eiga nokkurn þátt í þessum halla. Ég hef ekki annan betri mann til frásagnar um þessa hluti en formann stjórnar útflutningssjóðs. Hann lýsti því yfir við mig í fyrrahaust og marggerði það, að staða útflutningssjóðs hefði aldrei frá upphafi verið betri en hún var þá. Það þýðir, að sá halli, sem hafði myndazt á útflutningssjóði, hafði að einhverju leyti verið greiddur á árinu. Um þetta fékk ég aldrei endanlegar tölur, og þær tölur, sem um þetta hafa verið gefnar, hafa nú reynzt að vísu ekki allar alveg 100% ábyggilegar. En þessi yfirlýsing formanns útflutningssjóðsstjórnarinnar blífur, því að í aðalatriðum hlýtur hún að vera rétt. Hann hefur getað sagt þetta með þessu orðalagi a.m.k., og það þýðir þá, að einhver hluti halla útflutningssjóðsins, sem hafði safnazt áður, hafi verið greiddur á árinu 1959, en nýr hali ekki myndazt. Það eru því áreiðanlega fyrri syndir, sem hér er verið að greiða fyrir, en ekki syndir frá s.l. ári.

Hv. 1. þm. Austf, minntist á, að fleira hefði farið aflaga í þessu efnahagskerfi, sem nýlega hefði verið komið á hér, heldur en þetta. En allt er þetta eiginlega, bæði það, sem hann nefndi, og það, sem hv. 3. þm. Reykv. nefndi, tilburðir til þess að reyna að færa hlutina til annars og lakara vegar en raun ber vitni. Raunveruleikinn er ekki eins og þeir vilja lýsa.

Hv. 1. þm. Austf. minntist á söluskattinn t.d. og taldi, að með honum væru miklar nýjar byrðar lagðar á landsfólkið. En hann gat ekki um það, að annar skattur hefur verið afnuminn í þessu sambandi og að lækkanir á sköttum eru sízt minni en hækkunin, sem orðið hefur á söluskattinum frá því, sem gert hefur verið ráð fyrir. Hann sagði líka, og hann hefur raunar gert það fyrr hér í hv. deild, að það væri farið í kringum hlutina af Seðlabankanum með því að taka að sér greiðslur fyrir útflutningssjóð. En því var yfirlýst frá byrjun, að þess mundi verða farið á leit við Seðlabankann, að hann tæki að sér að greiða skuldbindingar útflutningssjóðs þegar í stað, og þessar greiðslur Seðlabankans hafa orðið honum mjög léttbærar, þannig að kontó útflutningssjóðs hjá Seðlabankanum hefur ekki nema að mjög litlu leyti verið notuð, og tekjur útflutningssjóðsins af þessum tveim tekjuliðum, sem ætlaðir voru til þess að jafna halla sjóðsins, hafa orðið svo miklar, að það hefur ekki nema tiltölulega að mjög litlu leyti þurft að leita til Seðlabankans um lán til þess að standa undir þeim kröfum, sem gjaldfallnar voru hjá sjóðnum.

Allt er þess vegna kerfið að liðast í sundur, sagði hv. 1. þm. Austf. Sjálfsagt hefur hann þá haft það í huga, að útkoman hjá þessari ríkisstj. væri miklu verri en í hans stjórn árið 1950, þegar lofað var 93 aura verði fyrir fiskinn, en fékkst ekki nema 75. Kannske er hann að draga einhverja samlíkingu hér á milli þess, sem gerðist þá, og þess, sem er að gerast nú. En það, sem gerist nú, er það, að ríkisstj. hefur ekki lofað öðru en því að reyna að stefna að því, að útvegsmenn fengju það verð fyrir fiskinn, að afkoma þeirra yrði ekki lakari en hún var árið sem leið. Það er sú yfirlýsing, sem ríkisstj. hefur gefið, og enda þótt landssambandið hafi ef til vill nefnt einhverjar tölur, sem eru hærri en þær endanlegu tölur, sem samið hefur verið um, þá þarf það ekki endilega að sanna, að afkoma útvegsins með þeim tölum, sem nú eru orðnar að samkomulagi, sé lakari en hún var á árinu sem leið.

Ég tel nú ekki ástæðu til þess að ræða frekar um þetta atriði. Málið er komið hér út á víðari vettvang en ég ætlaði í upphafi. Ég ætlaði aðeins að gera grein fyrir því, sem ríkisstj. hefur gert í þessu máli og lofað að gera, en tel ekki að það sé nein bót í því eða neitt við það unnið að fara út í almennar umr. um það hér, hvernig þetta efnahagskerfi hefur reynzt. Sjálfsagt verður tækifæri til þess að gera það, þegar brtt. verður flutt við frv., eins og mér skilst á hv. 3. þm. Reykv. að hann hafi fullan hug á að gera.