10.05.1960
Neðri deild: 79. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3602 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður og ekki draga ný atriði inn í þetta. Ég minntist á það hér áðan, að það væri rangt, að halli á útflutningssjóði hefði verið dreginn á eftir síðan 1958. Ég vil því til stuðnings lesa hér örfáar línur úr grg. fyrir efnahagsmálafrv. fyrrv. ríkisstj. hv. núverandi sjútvmrh., þegar sú stjórn lagði slíkt frv. fyrir s.l. vetur. Þar stendur: „Fjárhagsafkoma útflutningssjóðs hefur reynzt tiltölulega góð á árinu 1958. Er þetta að sjálfsögðu afleiðing þeirrar hækkunar yfirfærslu- og innflutningsgjalda, er framkvæmd var á því ári. Samkv. bráðabirgðaniðurstöðum hefur hagur sjóðsins breytzt úr 33 millj. kr. skuld í árslok 1957 í 5 millj. kr. sjóðseign í árslok 1958. Þess ber þó að gæta, að afkoman er betri en ella mundi vegna þess, að sjóðurinn hefur fengið tekjur af hinum nýju gjöldum síðan í júní 1958, en hafði um áramót enn greitt tiltölulega lítið af bótum samkvæmt hinu nýja kerfi. Þrátt fyrir þetta eru líkur fyrir því, að sjóðurinn hefði getað verið hallalaus á árinu 1959,“ — meira að segja á árinu 1959, — „ef engin ný hækkun bóta eða niðurgreiðslna hefði komið til.“ Þetta sýnir, að það er þýðingarlaust að vera að halda því nú fram, að þessi halli, sem nú er á útflutningssjóði, sé einhver gömul synd frá fyrri tímum.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri rangt að minnast á innflutningssöluskattinn, að hann sýndi, að stjórninni hefði í nokkru skeikað, því að það hefðu ýmsir skattar verið lækkaðir. Ég skal ekki fara langt út í þetta, því að það væri of langt mál að ræða það í botn nú, en ég vil enn þá einu sinni minna á það, sem hæstv. ráðh. veit, að því var lýst hátíðlega yfir af hæstv. ríkisstj., að hækkun á innflutningssöluskattinum kæmi ekki til mála, það yrði aðeins söluskattur innanlands, og í því sambandi voru nefnd 3%, og dýrtíðaraukning sú, sem almenningur átti von á, var miðuð við þetta. En þegar til kom, var lagður á nýr innflutningssöluskattur upp á 8.8%, sem samsvarar 180 millj. kr. á ári, sem kom alveg óvænt inn í dæmið. Skattar hafa verið hækkaðir gífurlega og aðrir skattar lækkaðir nokkuð, og heildarniðurstaðan af því er sú, að álögur til ríkissjóðs hafa verið auknar um 370 millj. kr. á þessu ári a.m.k., og verður þó miklu meira, þannig að ekki batnar dæmið, ef farið er að skoða það í heild. En ég var að benda á, að hverju leyti það hefði farið út um þúfur, sem hæstv. ríkisstj. hafði lýst yfir, og þar er innflutningssöluskatturinn einn stærsti liðurinn, eins og dýrtíðaraukningin mun eiga eftir að sýna.

Þá er það um, að Seðlabankanum hafi verið ætlað að hlaupa undir bagga með viðskiptabönkunum með því að greiða fyrir fram uppbætur á afurðir fyrra árs, þá lýsi ég því hér með yfir, að ég hafði ekki heyrt yfirlýsingu gefna í sambandi við meðferð efnahagsmálalöggjafarinnar um, að það væri meiningin að greiða slíkt fyrir fram, að Seðlabankinn ætti að borga út þessar uppbætur fyrir fram. Mér kemur það því þannig fyrir sjónir, að hér sé um atriði að ræða, sem gripið var til á eftir vegna þeirra vandræða, sem stefnuyfirlýsing hæstv. ríkisstj. hafði leitt hana í, sem sé sú, að ekki yrðu fleiri krónur lánaðar úr Seðlabankanum en áður vegna afurðanna, enda gefur auga leið, að hæstv. ríkisstj. getur auðvitað aldrei staðið við það, að svo verði.

Þá er það um þann lið, sem hér var ræddur varðandi útkomuna úr sjávarútvegsdæminu og hvort hér hafi allt orðið eins og til var ætlazt. Vil ég lesa eina setningu, með leyfi hæstv. forseta, úr grg. fyrir efnahagsmálafrv. nú í vetur. Það er stefnuyfirlýsing hæstv. ríkisstj. um þetta mál, og hún er svo hljóðandi:

„Hér að framan var það tekið fram, að hið nýja gengi væri við það miðað, að hagur báta á þorskveiðum væri sá sami og hann er samkvæmt núgildandi bótum. Ríkisstj. telur eigi að síður, að útflutningsatvinnuvegunum öllum sé það kleift að greiða 5% útflutningsskatt um eins til tveggja ára skeið, svo framarlega sem aflabrögð verða sæmileg.“

En hvað liggur nú fyrir? Hvaða mynd liggur nú fyrir í dag? Hæstv. ráðh. segja: Það hefur bara ekkert breytzt. Þetta gengur allt eftir áætlun. — En það liggur fyrir, að hæstv. ríkisstj. hefur rétt til baka helminginn af útflutningsgjaldinu og það rennur til þeirra, sem kaupa fiskinn, — ekki til útgerðarmannanna, heldur til þeirra, sem kaupa fiskinn. Þetta samsvarar 60 millj. á ári eftir hennar eigin reikningi. Þetta hefur verið rétt að þeim, sem kaupa fiskinn, umfram það, sem ríkisstj. hafði hugsað sér. Samt sem áður fá útgerðarmenn ekki það verð fyrir fiskinn, sem Landssambandið telur að þeir þurfi að fá, til þess að þeir standi jafnt að vígi og áður. Svo er það alveg sér kapítuli í þessu, að allir þeir, sem veiða á sumrum og veiða smáfisk, ýsu og steinbít og annan slíkan fisk, þeir verða að búa við miklu óhagstæðara verð en áður.

Þetta eru efndirnar á þessari stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstj. Ég held því fram, að það standi ekki steinn yfir steini í þessari yfirlýsingu miðað við það, sem nú er fram komið. Og það er alveg sama, hvernig hæstv. sjútvmrh. leikur sér með tölur í þessu sambandi og setur upp dæmi. Það er hverjum manni ljóst, að þegar búið var að ákveða að borga 5% í sjóð og átti að nota það í ákveðnu skyni, og síðan er hætt við þetta og helmingur af fénu afhentur til baka, þá er raunverulega verið að greiða uppbætur inn í þessi viðskipti frá því, sem gert var ráð fyrir í öndverðu.