10.05.1960
Neðri deild: 79. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3606 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður, en finnst ég bara ekki geta látið því ómótmælt, sem hv. 1. þm. Austf. sagði hér áðan, að hans stjórn, sem sat hér að völdum 1956–58, ætti engan hlut að halla útflutningssjóðs. Hann vildi rökstyðja sitt mál með því, að sjóðseign útflutningssjóðs hefði í árslok 1958 verið meiri en í ársbyrjun. Þá hefði verið halli, sem nam — ég held, að hann hafi sagt 30 millj. kr., en inneign í árslokin upp á fimm eða eitthvað þess háttar. Ég skal nú ekki ábyrgjast, að ég hafi farið alveg rétt með þessar tölur, en þær eru a.m.k. ekki langt frá því, sem hann nefndi. En þarna er hann bara að tala um allt annan hlut. Hann er að tala um það, sem ógreitt er af gjaldföllnum kröfum, en langsamlega mesti hlutinn af þeim kröfum, sem verða til á árinu, — ja, ég vil ekki segja langsamlega mestur, en verulegur hluti af þeim kröfum, sem verða til á árinu, er ekki gjaldfallinn um áramót. Og ég held, að ég muni það nokkurn veginn rétt, að kröfur útvegsmanna vegna framleiðslu ársins 1958, sem greiddar voru á árinu 1959, námu nokkuð á 4. hundrað millj. kr., og það er sitt hvað að tala um það, sem ekki er hægt að greiða af gjaldföllnum kröfum, heldur en ef sjóðurinn væri gerður upp, eins og gert hefur verið nú. Þessu tvennu má ekki rugla saman, og það þýðir ekki fyrir hv. þm. að reyna að sverja sig undan því, að hann og hans stjórn eigi mjög verulegan þátt í þeim halla eða hala, sem nú er verið að greiða vegna útflutningssjóðsins. Hann vildi líka láta liggja að því, þessi hv. þm., að þessar bætur, sem hann svo kallaði og eru nú engar bætur, eins og ég er margbúinn að segja hér, lækkun útflutningsskattsins, kæmu útflytjendunum einum til góða, en ekki sjómönnunum. Þetta er vitanlega fráleitt, því að eftir því sem útvegsmenn og vinnslustöðvarnar fá betri aðstöðu, eftir því geta þær náttúrlega greitt hærra kaup til sjómannanna. En bætur hafa ekki neinar verið greiddar á þessu tímabili, eins og hefur verið margsagt hér, vegna þess að það er ekki hægt að sýna fram á, að neinn aðili hafi greitt þessar bætur. Það er einungis tilfærsla um nokkra mánuði eða gjaldfrestur á skatti um nokkra mánuði.

Hv. 3. þm. Reykv. var við sama heygarðshornið og hélt sig við, að hér væri um greinilegar bætur að ræða, og spurði: Hvað ætlar ríkisstj. að gera, ef eitthvað harðnar í ári, úr því að svona fer í góðu aflaári? Ég vil bara svara honum því, sem ég er áður búinn að svara, að hér er ekki um neinar bætur að ræða, og ef um lélegt ár eða erfiðleika verður að ræða, þá er sjálfsagt að taka það til athugunar, þegar þar að kemur. En það liggur ekkert fyrir um það nú.

Út af því, að ástæða hefði kannske verið til að hafa þennan skatt eitthvað lægri, skal ég aðeins segja það, að það, sem hefur líka ýtt undir að lækka prósentuhlutann nú og dreifa skattinum yfir lengri tíma, er það, að sumar af útflutningsvörum sjávarútvegsins hafa lækkað í verði og skapa erfiðleika, sem ekki lágu fyrir og ekki var vitað um, þegar þessar tölur voru ákveðnar við samningu efnahagslaganna. Ég skal ekki fara að telja upp fyrir honum, hverjar þær eru, hann veit það sjálfsagt eins vel og ég. Það eru vörutegundir, sem talsvert mikið munar um fyrir útflytjendurna, og það var líka ástæða fyrir því, að orðið var við óskum þeirra um að dreifa skattinum yfir lengri tíma.