25.04.1960
Sameinað þing: 42. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3618 í B-deild Alþingistíðinda. (1781)

Landhelgismál

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hefja umræður um landhelgismálið, eins og það liggur nú fyrir á ráðstefnunni í Genf, hvorki um aðalatriði þess né einstök atriði. Ég var ekki viðstaddur, þegar hæstv. forsrh, talaði hér, svo að mér er ekki kunnugt um, hvaða upplýsingar hann hefur viljað gefa Alþ. um málin, eins og þau liggja nú fyrir í dag í Genf. En ég hefði viljað spyrja hæstv. forsrh., hvaða upplýsingar ríkisstj. getur gefið hv. Alþ. í dag um eitt atriði, það, hver er afstaða Bandaríkjastjórnar til þeirrar brtt. Íslands, sem nú hefur verið flutt í Genf. Mér þykir það næsta ólíklegt, að hæstv. forsrh., nýkominn heim frá London eftir að hafa ráðfært sig þar við hæstv, utanrrh. og hæstv. dómsmrh. um stöðuna í Genf, geti ekki skýrt Alþ. frá því höfuðatriði, sem er höfuðatriði í mínum augum a.m.k., hver er afstaða Bandaríkjastjórnar til þessarar fram komnu brtt. Íslands. Ég trúi því ekki, að sendinefndin í Genf og ríkisstj. hér, hvorugur hluti ríkisstj., sá, sem hefur verið hér heima síðustu daga, né hinn, sem hefur verið erlendis, viti ekki, hvaða afstöðu Bandaríkjastjórn og sendinefnd hennar í Genf ætlar að taka til þessarar brtt. Íslands við atkvgr. á morgun. Bandaríkjastjórn hefur í Genf beitt öllu því afli, sem hún á yfir að ráða í heiminum, á alþjóðaráðstefnu til þess að safna um sig meiri hluta, 2/3 hluta ríkjanna, sem eiga atkvæði á ráðstefnunni í Genf, á móti hagsmunum Íslands, á móti lífshagsmunum Íslands, eins og við viðurkennum allir, að þeir séu mestir. Það hefur tekið Bandaríkjastjórn nokkurn tíma og kostað hana mikið erfiði að tryggja, ef henni hefur þá tekizt það, að tryggja 2/3 atkv. í Genf á móti 12 mílna fiskveiðilandhelgi. En það er sagt svo, að sendinefnd Bandaríkjanna í Genf láti vel yfir því, að þetta hafi nú tekizt, með því að safna ríkjum eins og páfastólnum og San Marinó og Austurríki og fleiri slíkum, sem engra hagsmuna hafa að gæta á sjó eða við sjó, á móti þeim ríkjum, sem eins og Ísland eiga alla hagsmuni sína undir því. Hefur þessum mikla og góða bandamanni okkar og verndara, Bandaríkjunum, e.t.v. tekizt að gera út af við alla von um það, að Íslendingar geti búið við 12 mílna landhelgi næstu 10 árin?

En hvað sem er um þetta, þá er það alveg víst nú, að brtt. Íslands, sem þýðir það, að því er hún er skýrð af hálfu okkar ríkisstj. og sendinefndar, að Ísland verði undanþegið næstu tíu árin frá hinum sögulega rétti, hún kemur vitanlega til atkv. á eftir till. Bandaríkjanna, — hún er flutt sem viðaukatill. við hana, — og eins og ég sagði áðan, þykir mér næsta ólíklegt, að sendinefnd okkar í Genf hafi ekki reynt að kynna sér það hjá sendinefnd Bandaríkjanna eða ríkisstj. okkar hjá ríkisstj. Bandaríkjanna, hvað Bandaríkin, forusturíkið, sem ræður e.t.v. yfir 2/3 atkv. á ráðstefnunni í Genf, ætlar sér að gera sjálft. Hvað ætla þau að gera sjálf, og hvað ætla nánustu bandamenn þeirra, Bretar, sem þetta er gert fyrir, því að þetta er ekki gert vegna hagsmuna Bandaríkjanna, þetta er gert vegna hagsmuna Breta? Er það trúlegt, að ríkisstj. hér og sendinefndin í Genf hafi ekki gert tilraun til að kynna sér þetta, svo að forsrh. okkar hæstv. í dag geti sagt Alþ. það? Hvaða afstöðu hefur stjórn Bandaríkjanna til þessa lífshagsmunamáls Íslands, eins og það er lagt fyrir af Íslands hálfu í Genf? Við vitum, að Bandaríkin ráða yfir tugum atkv. þarna í Genf.

Þau geta ráðið miklu um það, hvort þessi brtt. okkar verður samþ. eða ekki. Ég er ekki að spyrja um það, ég er ekki að spyrja hæstv. forsrh. eða hæstv. ríkisstj. um það, hver verði afdrif okkar till., því að ég ætlast ekki til þess, að hæstv. ríkisstj, eða hæstv. forsrh. viti það í dag. En hitt spyr ég um: Hvað veit hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstj. og sendinefnd okkar í Genf um afstöðu Bandaríkjanna til okkar till., eins og hún liggur fyrir?