03.03.1960
Neðri deild: 41. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3625 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

Veiðafæratjón vélbáta af völdum togara

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en mér finnst samt rétt að vekja athygli á því, að ég held, að það sé óhætt að slá því alveg föstu, að sá atburður, sem gerðist við Snæfellsnes í gær, er langsamlega alvarlegasti atburðurinn, sem hingað til hefur gerzt í viðskiptum Íslendinga og Breta, síðan hin svokallaða landhelgisdeila hófst. Ég held, að það hafi ekki gerzt áður, að brezkum togurum undir herskipavernd hafi verið stefnt inn á sjálf aðalveiðisvæði bátanna á vetrarvertíðinni, eins og gert er í þessu tilfelli. Það hefur ekki heldur komið fyrir áður, að brezkir togarar hafi gert sér eins leik að því að spilla veiðarfærum og eyðileggja veiðarfæri eins og gert var í gær, og heldur aldrei komið fyrir eins og virðist hafa átt sér stað, eftir því sem blöð skýra frá, að beinlínis hafi verið gerð tilraun til þess að sigla íslenzka báta niður. Þetta eru tvímælalaust langsamlega alvarlegustu atburðirnir, sem hafa gerzt í þessari deilu hingað til, og þess vegna finnst mér, að ekki sé um það eitt að ræða, eins og kom fram hjá hæstv. dómsmrh., að bæta þeim mönnum það tjón, sem þeir hafa orðið fyrir af þessum völdum, heldur þurfi jafnframt að athuga, — og það sé það, sem skiptir langsamlega mestu máli, — hvaða ráðstafanir kunni að vera hægt að gera til að koma í veg fyrir, að slíkir atburðir endurtaki sig og jafnvel enn þá alvarlegri atburðir en þessir. Og í þeim efnum nægir ekki það eitt að mótmæla eða senda mótmæli til brezku stjórnarinnar. Sú leið hefur verið reynd svo oft áður, án þess að nokkur árangur hafi af því fengizt.

Mér finnst, að vegna þessa atburðar við Snæfellsnes hljóti það mjög að koma til athugunar, sem sjómenn á Akranesi og í Keflavík bentu á við upphaf deilunnar, og það var, að það væri sérstakt varnarlið hér í landinu, sem ekki væri óeðlilegt að kæmi Íslendingum til aðstoðar, þegar þeir verða fyrir svipuðu ofbeldi og því, sem hér hefur átt sér stað. Á það má líka benda, að samkv. 5. gr. varnarsamningsins, sem er í gildi milli Íslands og Bandaríkjanna, hafa Bandaríkin tekið að sér að sjá um, að öryggi íslenzku þjóðarinnar sé tryggt, svo sem frekast er kostur. En það held ég, að öllum sé ljóst, að okkar öryggi er ekki tryggt, á meðan enskir landhelgisbrjótar geta staðið uppi í íslenzkri landhelgi undir herskipavernd, eins og þeir gerðu við Snæfellsnes í gær. Ég held, að það komi þess vegna mjög til athugunar, hvort það sé ekki orðið tímabært að prófa það, hvort ekki sé hægt að koma í veg fyrir, að slíkir atburðir eins og þessir endurtaki sig, með því að reyna á það, hvort það sé nokkra vernd að hafa af okkar verndurum gegn slíkum atburðum eins og þessum. Það, sem skiptir nú mestu máli, er að reyna að gera þær ráðstafanir, sem eru líklegastar til þess, að slíkir ofbeldisatburðir endurtaki sig ekki. Og ég held, að það séu margir landsmenn þeirrar skoðunar, alveg eins og sjómennirnir á Akranesi og í Keflavík, að það sé vafasamt gagn af því að hafa svokallað varnarlið í landinu, ef það getur ekki veitt aðstoð gegn slíkum árásum eins og þeim, sem hér hafa átt sér stað. Ég held, að það hljóti þess vegna mjög að koma til athugunar hjá hæstv. ríkisstj., jafnframt því sem hún fer hina venjulegu mótmælaleið og mótmælir þessu við brezku stjórnina, hvort ekki sé ástæða til þess a.m.k. að vekja athygli þeirrar ríkisstj., sem hefur tekið að sér að vernda Ísland, alveg sérstaka athygli á þessum atburðum og benda henni á, að það muni ekki mælast vel fyrir meðal íslenzku þjóðarinnar, ef slíkir atburðir endurtaki sig og ekkert sé gert af hálfu þeirrar ríkisstj. eða þess varnarliðs, sem hér er, til að koma í veg fyrir slíka atburði.

Ég vil minna á það í þessu sambandi, að það mun hafa gerzt, nokkru eftir að landhelgisdeilan hófst eða Bretar byrjuðu sínar árásir í landhelginni, að þáv. forsrh. sneri sér sérstaklega til ameríska sendiherrans og gerði honum grein fyrir því, að það mundi ekki vel séð af hálfu íslenzku þjóðarinnar, ef ofbeldi Breta innan landhelginnar leiddi til alvarlegra árekstra. Og mér er ekki fjarri að halda, að einmitt sú aðvörun hafi átt sinn þátt í því, að Bretar hafi ekki hagað sér eins dólgslega og þeir ella mundu hafa gert.

Nú virðist það hins vegar komið á daginn, eins og atburðirnir við Snæfellsnes í gær sýndu, að Bretar eru að færa sig hér upp á skaftið og það geti jafnvel hvenær sem er fylgt því hinir alvarlegustu árekstrar, ef ekki verður komið í veg fyrir þetta, og þess vegna held ég, að það sé alveg tímabært að fara þá leið að nýju, sem var gerð af þáv. forsrh. haustið 1958, að vekja athygli fulltrúa Bandaríkjanna á því, hvaða afleiðingar það gæti haft, ef mjög alvarlegir atburðir gerðust hér innan íslenzku fiskveiðilandhelginnar, og jafnvel fylgja því svo fast eftir, að þess væri óskað, að 5. gr. varnarsamningsins kæmi til fullra framkvæmda, þar sem Bandaríkjamenn heita því að tryggja öryggi íslenzku þjóðarinnar fyrir hernaðarlegum árásum.

Ég sem sagt álít það ekki nægilegt, að ríkisstj. mótmæli þessum atburðum við Breta, heldur athugi frekari ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að slíkir atburðir endurtaki sig, og þess vegna mundi ég telja æskilegt, að þegar ríkisstj. er búin að fá þær skýrslur og athuga þær skýrslur, sem hæstv. dómsmrh. minntist á hér áðan, þá yrði haft samráð við Alþ. um, hvernig á þessu máli yrði haldið framvegis. Það hefur tekizt nú að undanförnu að hafa algera samstöðu flokkanna um helztu aðgerðir í landhelgismálunum, og það væri í samræmi við það, að ríkisstj. ráðfærði sig um frekari aðgerðir í þessu máli, sem hún teldi nauðsynlegar, við Alþ. og andstöðuflokka sína þar.