03.03.1960
Neðri deild: 41. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3627 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

Veiðafæratjón vélbáta af völdum togara

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Út af þessum umr. vil ég aðeins gera tvær athugasemdir.

Það var misskilningur hjá hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ), að ég hefði sagt, að það eitt nægði að bæta þeim mönnum tjón, sem orðið hefðu fyrir því. Eins og hann kom inn á í síðari ræðu sinni, sagði ég, að ákvarðanir um frekari aðgerðir yrðu teknar, þegar skýrslur málsins lægju fyrir, og hef ég ekki frekar við það að bæta.

Út af ummælum hv. 4. þm. Austf. (LJós) vildi ég einungis segja það, að þau atriði, sem hann benti á, eru vissulega ein meðal þeirra, sem helzt koma til álita í þessu máli og ég hafði í huga, þegar ég gaf mína yfirlýsingu áðan.