03.03.1960
Neðri deild: 41. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3628 í B-deild Alþingistíðinda. (1789)

Veiðafæratjón vélbáta af völdum togara

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram í ræðu hæstv. dómsmrh., liggja ekki fyrir þær skýrslur um þá atburði, sem gerðust við Snæfellsnes í gær, að um það verði dæmt til hlítar, hvað þar hefur í raun og veru farið fram, og ekki heldur verður tekin ákvörðun um það á þessu stigi að óathuguðu máli, hvernig við skuli snúast. Það er þó alveg ótvírætt, að brezkir togarar hafa beinlínis gert sér leik að því að eyðileggja veiðarfæri íslenzkra skipa, sem þarna voru að veiðum innan íslenzkrar fiskveiðilögsögu. Framferði togaranna við Snæfellsnes virðist beinlínis vera fólskuleg hefndarráðstöfun í garð íslenzkra fiskimanna, vegna þess að brezkum togurum hefur verið haldið burt úr íslenzkri fiskveiðilögsögu. Það er ómögulegt að sjá annað af því, sem fyrir liggur, en togararnir hafi að óþörfu verið að gera sér leik að því að eyðileggja þarna veiðarfæri. Þessi framkoma er því ámælisverðari sem það er viðtekin og viðurkennd regla af öllum, að skip skuli forðast að spilla veiðarfærum fiskibáta á þeirra veiðisvæðum og það án tillits til þess, hvort veiðarnar eru stundaðar innan eða utan hinnar venjulegu fiskveiðilögsögu. Það hefur nokkrum sinnum komið fyrir, að þetta hefur verið gert, og þá hafa þeir, sem tjóninu hafa valdið, stöðugt talið sér bera skyldu til að bæta þetta tjón, og að sjálfsögðu, eins og hæstv. dómsmrh. tók fram, kemur ekki annað til mála en að þeir, sem þarna hafa orðið fyrir tjóni, verði að fá fullar bætur. Og þeir, sem bæturnar eiga að greiða endanlega, eru að sjálfsögðu engir aðrir en þeir, sem tjóninu hafa valdið.

En út yfir þetta liggja ekki og hafa ekki legið fyrir alveg fram að þessu þær upplýsingar, sem nauðsynlegar eru til þess að gera sér grein fyrir málinu í heild, og sérstaklega hafa ekki legið fyrir fram að þessu upplýsingar um það, hver þáttur brezku herskipanna er í þessu máli öllu. Eftir því sem ég nú rétt nýverið hef heyrt, virðist brezka herskipið hafa komið þarna á vettvang rétt eftir að íslenzku varðskipin komu til aðstoðar fiskibátunum. Brezka herskipið var aðgerðalaust á vettvangi, það reyndi ekki, eftir því sem bezt er vitað, að aðstoða togarana. Fyrstu og einustu aðgerðir þess virðast hafa verið þær, að þegar íslenzka landhelgisgæzlan krafðist þess af herskipinu, að það vísaði brezku togurunum burt af netasvæði bátanna, þá gerði varðskipið þetta. Þetta eru þær upplýsingar, sem fyrir liggja að svo stöddu máli. En að sjálfsögðu þarf að athuga þetta allt nánar. En ég minnist bara á þetta hér, til þess að menn geri sér grein fyrir því, að það er ómögulegt að taka neinar ákvarðanir eða fullyrða neitt í þessu máli, fyrr en tækifæri hefur gefizt til þess að rannsaka allar upplýsingar og finna niðurstöðuna út úr því, enda þótt það sé ljóst þegar í upphafi, að þarna hefur verið framið mjög alvarlegt brot, sem að sjálfsögðu verður að bæta að fullu og frekari ráðstafanir verða að gera út um.

En það er annað atriði, sem hefur ekki komið fram í þessu máli, sem mér finnst fullkomin ástæða til að vekja athygli hér á og út af fyrir sig er fullt eins þýðingarmikill atburður og þessar fólskulegu aðfarir togaraskipstjóranna vestur við Snæfellsnes. Því hefur verið lýst yfir, að Bretar væru að hverfa með sinn fiskiskipa- og herskipaflota burt úr íslenzkri fiskveiðilögsögu, meðan á landhelgisráðstefnunni í Genf stæði. Engu að síður heyrum við það, að einmitt nú þessa sólarhringana eru Bretar að gera ráðstafanir til þess að opna tvö verndarsvæði innan íslenzkrar fiskveiðilögsögu. Þessar ákvarðanir tekur brezka ríkisstj. á sama tíma, sem okkur er tjáð, að þeir ætli að víkja héðan í burtu úr 12 mílna fiskveiðalögsögunni, a.m.k. á meðan á Genfarráðstefnunni stendur.

Mér finnast þessar aðgerðir Breta ekki aðeins ósvífnar og ofbeldisfullar, heldur sannast að segja mjög furðulegar. Þeirra ákvörðun um það að víkja burt úr íslenzkri fiskveiðilögsögu, á meðan á Genfarráðstefnunni stendur, getur ekki verið tekin af öðrum ástæðum en þeim, að þeir gera sér ljóst, að þeirra aðferðir við Ísland hafa skaðað þeirra málstað. Á því getur enginn vafi verið. Þess vegna tilkynna þeir heiminum, að þeir ætli nú að hafa frið hér í okkar fiskveiðilögsögu þennan tíma. En á sama tíma er þessi tilkynning þeirra svo mótsagnakennd, að ný verndarsvæði eru opnuð við okkar strendur.

Við skulum vona, að Bretar eigi eftir að komast að þeirri niðurstöðu sjálfir, að allar þeirra aðgerðir við Íslendinga í landhelgismálinu hafa verið þeim sjálfum og þeirra málstað til óþurftar, hafa kastað rýrð á Breta sjálfa, og þeir eigi að hætta þessu athæfi og aldrei að taka það upp aftur. Því fyrr sem Bretar gera sér þetta ljóst, því betra, ekki aðeins fyrir okkur, heldur einnig fyrir þá sjálfa.