03.03.1960
Neðri deild: 41. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3629 í B-deild Alþingistíðinda. (1790)

Veiðafæratjón vélbáta af völdum togara

Lúðvík Jósefsson:

Það voru aðeins nokkur orð í tilefni af því, sem hæstv. utanrrh. sagði hér nú um málið. Hann sagði, að það lægi ekki ljóst fyrir, hver hefðu verið afskipti hins brezka herskips af þessum atburði, og mér fannst það koma greinilega fram í túlkun hans, að raunverulega hefði, eftir því sem bezt væri vitað, hið brezka herskip ekkert af sér gert í þessum efnum, og skildi ég þetta helzt sem svar við þeirri aths., sem ég gerði hér, þar sem ég taldi, að þessi margföldu lögbrot, sem þarna hefðu átt sér stað, hefðu raunverulega farið fram undir herskipavernd. Í tilefni af þessu vildi ég aðeins benda á það, að eins og blöð skýra frá þessu, — ég hef t.d. fyrir mér í Morgunblaðið nú í morgun, — þá er skýrt frá þessu algerlega á annan veg. Þar segir á þessa leið: „Varðskipið Ægir var nærri, en fékk ekkert að gert vegna nærveru hins brezka vígdreka.“ Enda sýnist mér það gefa alveg auga leið, að hér hefur brezkur togari verið að toga innan 12 mílna markanna. Hann er því brotlegur. Hann hefur verið að brjóta aðra reglugerð, sem ég hef minnzt á hér áður, þar sem hann togar beint yfir veiðarfæri báta, sem eru að draga inn veiðarfærin. Íslenzka varðskipið, sem þarna var nærstatt, hefur beinlínis ekki gert skyldu sína, hafi það ekki gert tilraun til þess að taka þennan togara. Mér sýnist það þá rannsóknarefni út af fyrir sig, hafi það verið svo, að okkar varðskip hafi ekki reynt að taka þennan lögbrjót. Og engin önnur ástæða getur þarna legið til þess, finnst mér, að lögbrjóturinn hefur ekki verið handsamaður, en sú, sem blöðin skýra frá og kemur svo vel heim og saman við það, sem við þekkjum af öðrum slíkum atvikum, að brezka herskipið kemur í veg fyrir það, að íslenzka landhelgisgæzlan geti haldið uppi lögum og rétti á þessu svæði, og því er það, að einnig þessa reglugerð, sem ég minntist á og Bretar viðurkenna og eru aðilar að, — þeir láta nú brezkan togara brjóta þessa reglugerð um hábjartan dag og vernda hann með herskipakosti sínum til þess að koma þessum lögbrotum fram.

Ég vænti þess, eins og ég sagði áður, að þetta verði athugað til hlítar, en ég vona líka, að það reynist svo, að það sé réttara, sem fram hefur komið í blöðunum, fremur en hitt, að íslenzka landhelgisgæzlan hafi eitthvað látið á sér standa í þessum efnum að halda uppi lögum og reglu, eins og henni raunverulega ber skylda til.