03.03.1960
Neðri deild: 41. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3630 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

Veiðafæratjón vélbáta af völdum togara

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég mun ekki gera að umræðuefni þau atriði, sem þegar er búið að ræða, enda hygg ég, að í höfuðatriðum sé ekki um að tala, að við séum ekki allir sammála því, að ríkisstj. geri allt, sem unnt er, til þess að rétta hag okkar í þessu máli.

Hér hefur nokkuð verið rætt um, hvað sé hægt að gera til að rétta hlut Íslands og sérstaklega til að fyrirbyggja, að svona atburðir endurtaki sig. Augljóst er, að þarna er um að ræða verulega hættu, ekki aðeins varðandi eignir, veiðarfæri og skip, heldur jafnvel líf sjómanna.

Í framhaldi af því, sem menn hafa bent á á þessu sviði, vil ég nefna eitt atriði, hið umdeilda orð áróður. Það hefur komið í ljós af ræðum þeirra manna, sem þegar hafa tekið til máls, að Bretar telja aðgerðir sínar hér við land ekki vera þeim til framdráttar gagnvart almenningsáliti í heiminum. Þess vegna kom að því, að þeir tilkynntu, að þeir mundu draga herskip sín héðan burtu, meðan á Genfarfundinum stendur. En sýnilega hafa togaraeigendur fengið framgengt, að það yrði ekki degi fyrr en ráðstefnan hefst. Það vill svo til, að einmitt núna stendur yfir vetrarvertíð og beztu miðin eru við Suður- og Vesturland. Virðist hið sama hafa gerzt og í fyrra, að togaraeigendur hafa krafizt þess að fá opnuð svæði á þessum beztu miðum og brezk stjórnarvöld látið undan. Þar með hafa Bretar einmitt nú, þegar þeir ætluðu sér að vinna almenningsálit í heiminum með því að fara héðan, meðan á ráðstefnunni stendur, ráðizt að okkur, þar sem við erum sárastir fyrir, á okkar höfuðmiðum á höfuðvertíð. Með því að þeir ráðast einmitt nú á landhelgina, þar sem hún er viðkvæmust, höfum við öðlazt atriði, sem nauðsynlegt er að heimurinn fái að heyra um. Okkur ætti að vera augljóst, hversu mikil nauðsyn þetta er, þegar við íhugum, hvernig Bretar hafa sjálfir með aðgerðum sínum viðurkennt, að þessi atriði eru þeim andstæð í baráttunni um almenningsálitið.

Það hefur mikið verið um þessa hlið landhelgismálsins talað. Stjórnarvöld okkar hafa yfirleitt í orði sýnt þessu skilning og öðru hverju gripið til aðgerða, sem ég tel að hafi, svo langt sem þær hafa náð, verið mjög í rétta átt. Svo hefur áróður dottið alveg niður af þeirri einföldu ástæðu, að ríkisvald okkar er ekki það langt á veg komið að hafa í gangi áróðursvél, þó að við gætum sannarlega notað hana í þessu tilfelli. Til samanburðar vil ég benda á það, að einmitt þessar vikur fyrir Genfarfundinn hafa brezkir togaraeigendur ákveðið að eyða rúmlega einni millj. kr. í sérstaka blaðaáróðursherferð til undirbúnings ráðstefnunni. Þessi herferð gengur þannig fyrir sig: Útgerðarmenn hafa í þjónustu sinni stórt áróðursfyrirtæki í London, sem heitir Galatzin and Sons, og borga því stórar upphæðir. Sérfræðingar þessa fyrirtækis hafa með fulltrúum togaraeigenda sett saman litprentaðan pésa, mjög fallegan, sem hefur verið dreift út. Síðan hefur aðalefni þessa pésa verið sett saman í auglýsingu; sem fyrst var til byrjunar birt í brezkum blöðum, en nú hefur skotið upp kollinum í grískum blöðum, í portúgölskum blöðum og mjög víða annars staðar. Við sjáum á því, hvaða lönd þeir velja, að þeir vita vel, hvar kann að hafa mesta þýðingu að eyða þessari millj. kr.

Þá vil ég geta þess, að íslenzk blöð og blaðamenn hafa oft kvartað undan því, að þeim berist fréttir af viðburðum á íslenzku miðunum ekki frá íslenzkum yfirvöldum, heldur frá brezkum fréttastofum. Fréttirnar eru fljótari að fara frá herskipunum til Lundúna, gegnum flotamálaráðuneytið til Reuters, um loftskeytastöðvar Reuters út í heim og aftur hingað, heldur en þær eru að berast til blaðanna hér. Þetta gerist svo fljótt, að það skiptir ekki höfuðmáli fyrir blöðin, vegna þess að þau bíða ekki marga daga eftir fréttunum, en þetta gefur auga leið um það, að brezka frásögnin af því, sem gerist, er ekki aðeins langt á undan að komast út í heim, heldur er komin um allan heim, áður en fréttaritarar hér á landi hafa hugmynd um málið og byrja að spyrjast fyrir um, hver sú íslenzka frásögn af atburðinum raunverulega sé. Og við vitum, að lygin kemst norður á Langanes, áður en sannleikurinn sér Elliðaár. Það er mjög erfitt í fréttaheiminum að leiðrétta það, sem einu sinni er komið á kreik, ef menn eru ekki vakandi og koma sínum eigin frásögnum út um heim samsíða þeim, sem andstæðingarnir senda. Á þetta vil ég benda, því að ég tel alveg nauðsynlegt, að landhelgisgæzlan eða aðrir aðilar stjórnarvaldanna hafi miklu nánara og fastara samstarf við þá menn hér á landi (sem eru yfirleitt Íslendingar), sem eru fulltrúar erlendra fréttastofnana, og tryggi það, að þeir hafi eitthvert efni til þess að senda út, eins fljótt og hægt er, um þessa viðburði. Það þarf sérstaklega að vera á verði um það, að höfuðstaðreyndir eins og staðsetning skipa, sem oft ber á milli í erlendum fréttum og innlendum, liggi a.m.k. fyrir, svo og hvert okkar álit er á þessum og þessum atburði.

Ég er það trúaður jafnvel á blöð í þeim löndum, sem eru okkur andstæðust, að þetta muni geta borið verulegan árangur. Reynsla okkar af starfseminni s.l. sumar, þegar við fengum hingað tugi blaðamanna víða utan úr heimi, sýndi það, að árangurinn var einmitt langsamlega mestur af því að fá hingað brezka blaðamenn. Við verðum þarna að vera á verði og nota okkur þeirra eigin blaða- og útvarpskost, eins og við framast getum.

Ég vil leggja á það höfuðáherzlu, að höfð sé uppi af Íslands hálfu eins mikil og eins ör upplýsingaþjónusta og hægt er.

Það er furðulegt, hvað fram kemur í enskum blöðum um þetta mál. Stórar frásagnir voru nýlega í mörgum enskum blöðum um það, að stýrimaður á togara, ólærður, hefði orðið að setja saman þriggja tommu skurð á höfðinu á enskum sjómanni, sem hafði slasazt. Og af hverju? Af því að þeir gátu ekki farið til íslenzkrar hafnar. Með svona sögum er vísvitandi verið að rægja okkur. Það eru fluttar ræður um þetta mál í Rótarý-klúbbum og ýmsum stofnunum í Englandi. Og einn slíkur ræðumaður fékk það haft eftir sér í enskum blöðum, að hann vonaðist til þess, að Krúsjef leyfði Íslendingum að vera dálítið sanngjarnir í þessum málum framvegis. Þetta eru sýnishorn, og af þeim væri hægt að koma með fjöldann allan, sem sýna, hvað í gangi er. Það þýðir ekki að ganga fram hjá þessum atriðum. Við verðum að vera með á áróðurssviðinu líka.

Ég legg því áherzlu á, að eitt hið allra sterkasta, sem við getum gert í landhelgismálinu til að fyrirbyggja endurtekningu þessara atburða, er að láta heiminn vita, hvað hefur gerzt.