19.04.1960
Sameinað þing: 40. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3633 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

Veiðafæratjón vélbáta af völdum togara

Jón Skaftason:

Herra forseti. Í framhaldi af orðum hv. 3. þm. Norðurl. v. vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. dómsmrh. eða annan þann ráðh., sem kynni að vilja svara þeirri fsp., hvort þeir, sem hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni, útgerðarmenn og sjómenn úr Grindavík, vegna íslenzku togaranna á föstudaginn langa, geti gert sér vonir um það, að ríkisstj. muni gera einhverjar ráðstafanir til þess, að þeir fái tjón sitt bætt.

Fyrir nokkrum vikum var rætt hér á hv. Alþ. um svipaðan atburð. Það var þegar brezkir togarar spilltu netum Ólafsvíkurbáta á veiðisvæði þeirra. Þá var því lýst yfir af hæstv. dómsmrh., að ég hygg, að Íslendingarnir mundu fá það tjón, sem þeir höfðu beðið, bætt og það yrði greitt úr ríkissjóði.

Mér er kunnugt um, að um 12 bátar úr Grindavík hafa tapað að meira eða minna leyti netum sínum á föstudaginn langa, þegar íslenzku togararnir ösluðu yfir veiðisvæði þeirra og hlífðu þar engu, enda þótt netin væru greinilega merkt og ágætisveður væri, þannig að skipstjórunum á togurunum hefði verið mjög auðvelt að sjá, hvar net voru fyrir. Ég sé ekki, að neinn eðlismunur sé á því, þótt í þetta skipti séu það íslenzkir togarar, sem valda tjóni á netum fiskibátanna, en í hinu tilfellinu voru það brezkir togarar. Ég tel, að ríkissjóður eigi í þessu tilfelli eins og í hið fyrra skipti að bæta það tjón, sem hér hefur orðið, því að eins og hv. 3. þm, Norðurl. v. gat um, var áður búið að biðja landhelgisgæzluna og yfirstjórn varðskipanna — eða yfirmenn þeirra — að gæta svæðisins, þar sem Grindvíkingar höfðu þá nokkrum dögum áður orðið þess varir, að íslenzkir togarar voru að toga fast upp að netasvæði þeirra.