19.04.1960
Sameinað þing: 40. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3634 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

Veiðafæratjón vélbáta af völdum togara

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hygg, að um það þurfi ekki að efast, að hv. alþm. séu sammála um, að sá atburður, sem gerðist á föstudaginn langa í Grindavíkursjó, sé til leiðinda og eins og komizt var að orði hér áðan: til skammar. Hér hefur veiðarfærum verið spillt, og það má vera, að það sé út af einhverjum misskilningi milli aðila, að svo hefur orðið. Ég hef rætt við forstjóra landhelgisgæzlunnar um þessi mál í morgun, og það er auðheyrt á því, sem hann hefur hér um að segja, að hér er vægast sagt um misskilning að ræða. Forstjóri landhelgisgæzlunnar hefur vakið athygli á þeim erfiðleikum, ef landhelgisgæzlan ætti að taka að sér að gæta neta báta alla leið frá Vestmannaeyjum og hér vestur á Snæfellsnes, því að það eru net í sjónum alla þessa leið, — að það hlyti að vera miklum erfiðleikum bundið. Tjónið á netum Grindvíkinganna átti sér stað um 10 mílur undan landi, og það er talið, að það sé nú sjaldan, sem þeir leggi svo djúpt. En þetta mál er í rannsókn, og það er ekki hægt á þessu stigi málsins að fullyrða um það, hvort hér er um sök að ræða hjá landhelgisgæzlunni Til þess vantar þá rannsókn, sem hlýtur fram að fara í málinu. Og þá þarf einnig að rannsaka það, hvort fullyrðingar formanna af bátum í Grindavík um það, að þeim hafi verið lofað vernd, eru á rökum reistar. Þetta er mikill leiðindaatburður, og það verður að rannsaka málið til hlítar, og er ekki heldur heppilegt, að það skyldi eiga sér stað einmitt nú, að íslenzkir togarar séu innan við 12 mílurnar að fiska. Það gæti á vissum stöðum valdið misskilningi, enda þótt þeir hafi ekki verið í landhelgi. Þeir hafa á þessum tíma rétt til þess að fiska inn að 8 mílunum hér við Suðurlandið, og við, sem þekkjum lítið til þessara mála margir, við skiljum ekki, hvernig stendur á því, að íslenzkir togarar hafa rétt til þess að fiska innan við 12 mílurnar. Og ef sá réttur hefði ekki verið gefinn, þá hefði þetta mál ekki komið fyrir. En það er önnur saga.

Hér hefur gerzt leiðindasaga, sem verður að rannsaka til fulls, og hún er ekki að öllu leyti hliðstæð því, sem gerðist við Snæfellsnes. Hún er ekki að öllu leyti hliðstæð því, ekki vegna þess, að það voru brezkir togarar þar, en íslenzkir hér fyrir sunnan, heldur vegna þess, að brezku togararnir voru í landhelgi, þegar þeir gerðu spjöllin hjá Ólafsvíkurbátum, en íslenzku togararnir á föstudaginn langa voru ekki í landhelgi, og það er vitanlega reginmunur.

Ég vil ekki á þessu stigi málsins gefa ákveðið loforð um, að Grindvíkingar fái tjónið bætt. Ég geri mér hins vegar fyllilega ljóst, að þetta er mjög tilfinnanlegt tjón, og ég tel ýmis rök hníga að því, að þeir eigi að fá tjónið bætt. En málið þarf áreiðanlega að rannsaka, áður en loforð eru um það gefin.

Það má vel vera, að Grindvíkingar hafi svo hreinan skjöld í þessu máli, að þeir eigi ekki aðeins siðferðilega kröfu, heldur jafnvel lagalega kröfu á bótum, og þá þarf ekkert um það að deila. En ef það ætti sér nú stað, sem mörgum finnst ólíklegt, að þeirra fullyrðingar séu vægast sagt á misskilningi byggðar, þá hafa þeir misst lagalega réttinn, en siðferðilega réttinn kunna þeir eigi að síður að hafa. Og þá er það vitanlega matsatriði, hvort þeim skuli bætt þetta tjón, sem þeir hafa orðið fyrir, og verður áreiðanlega tekið til vinsamlegrar athugunar á síðara stigi. En það, sem ég vil segja um þetta og tel ekki ástæðu á þessu stigi málsins að fjölyrða þar um, er það, að þetta mál verður auðvitað rannsakað til hlítar og reynt að fá sannleikann upp í þessu máli. Og þessi leiðindasaga, sem nú hefur gerzt, ætti að vera til þess að kenna okkur að búa þannig um hnútana eftirleiðis, að atburðir eins og þessi eigi sér ekki stað aftur.