05.02.1960
Neðri deild: 23. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (1982)

48. mál, efnahagsmál

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Í tíð fyrrv. ríkisstj. s.l. haust, eftir kosningarnar, þegar auðséð var, að þeir, sem völdin höfðu, töldu, að það þyrfti að gera nýjar ráðstafanir í efnahagsmálum, og látið var að því liggja, að þær væru stórfelldar, fór ég fram á það við þáv. hæstv. forsrh., að ég fengi f.h. Framsfl. aðgang að þeim upplýsingum, sem verið var þá strax að safna saman til afnota við ákvarðanir í þessum málum. Mér var kunnugt um, að efnahagsráðunautur ríkisstj. hafði þá þegar gert skýrslur til hennar. En mér var af fyrrv. forsrh. neitað um aðgang að þessum upplýsingum.

Þegar núv. ríkisstj. tók við og það sama var látið í veðri vaka, að mikils þyrfti við, og mér var kunnugt um, að nýjar skýrslur voru gerðar eða var verið að gera og jafnvel höfðu að sumu leyti verið notaðar af ríkisstj. til þess að gefa — að vísu mjög ófullkomnar upplýsingar —, fór ég fram á það sama við núv. ríkisstj. og með sama árangri. Ég hef ekki getað fengið neinar upplýsingar frá henni um þau efni, sem hagfræðilegir ráðunautar ríkisstj. hafa dregið saman, enda þótt þeir að sjálfsögðu vinni þau störf ekki sem neinir einkaþjónar hæstv. ráðherra, heldur sem launaðir starfsmenn ríkisins.

Niðurstaðan af þessu öllu saman hefur þess vegna orðið sú, að það er ekki fyrr en í fyrradag kl. 1.30, þegar fundur byrjaði hér á hv. Alþingi, að ég fæ af hendi ríkisstj. nokkrar upplýsingar um þessi efni og þá aðeins þetta frv. sjálft, sem hér liggur fyrir, með þeirri grg., sem með því var þá þegar prentuð.

Ég hef notað allan tímann, sem ég hef haft ráð á, síðan ég fékk þetta í hendur, til þess að reyna að átta mig á því, hvað í þessu felst, og höfuðdrættina er auðvitað hægt að sjá eftir þennan tíma af því, sem hér liggur fyrir. En því fer fjarri, að einstök atriði hafi verið hægt að skoða á þeim tíma, því að svo mikill tími hefur farið í að átta sig á höfuðdráttunum í málinu. En hvað sem því líður, mun smátt og smátt koma betur í ljós, hvað verið ar að gera og hverjar afleiðingar af því verða.

Hægt er að sjá í þessu nú þegar meginlínurnar, þótt upplýsingum hafi verið haldið leyndum. Mun ég á grundvelli þess, sem nú þegar liggur fyrir, byggja þær hugleiðingar, sem ég mun flytja hér við 1. umr. almennt um þessi mál, um þetta frv., sem hér liggur fyrir, og um efnahagsmálastefnu ríkisstj. í heild, því að vitaskuld verður þetta frv. ekki slitið úr sambandi við fjárlagafrv. né önnur frv., sem hafa verið boðuð, en ekki eru enn þá komin fram og menn vita því ekki enn nema að nokkru leyti, hvað í felst.

Ég skal ekki tefja tímann með því að hafa langan sögulegan inngang að því, sem ég segi. En þó vil ég minnast á það, af því að ég tel það nauðsynlegt og viðeigandi og ég tel það þannig vaxið, að það eigi ekki að gleymast, að sú valdasamsteypa, sem stendur að þeim efnahagsmálaráðstöfunum, sem ráðgerðar eru í þessu frv., gekk til kosninga í landinu fyrir örfáum mánuðum undir kjörorðinu: Stöðvun dýrtíðarinnar án nýrra skatta. — Og þetta kjörorð og þessi málflutningur var rökstutt þannig, að hér væri ekki verið að fara með fleipur eitt, var rökstutt með dómi reynslunnar, að því er þeir sögðu, sem fyrir þessum málum stóðu: Reynslan væri augljós. Valdasamsteypan hefði þegar starfað nærri því heilt ár og framkvæmt þetta, stöðvun dýrtíðar án skatta. Útflutningssjóður stæði betur en nokkru sinni fyrr, — nú er okkur raunar sagt, að það vanti í hann 180 millj. fyrir s.l. ár, af þessum sömu mönnum, — og ríkisbúskapurinn væri í bezta horfi. Siðan var því bætt við af einum þeirra, sem mest stóð hér fyrir málum, að það yrði að styðja þessa samsteypu til valda, því að eftir kosningarnar ætti að vinna í þessum anda og á sama hátt og gert hefði verið á þessu ári að lausn vandamálanna. Úr annarri deild þeirrar valdasamsteypu, sem nú er orðin og þá var orðin, heyrðust heróp eins og t.d. þessi: Leiðin til bættra lífskjara er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. — Það var ekkert minnzt á það þá, að menn lifðu um efni fram eða hefðu lifað um efni fram.

Framsóknarmenn leyfðu sér að benda á blekkingarnar og rangfærslurnar í þessum málflutningi og sögðu þjóðinni það, sem þeir vissu sannast, að verðbólgan hefði því miður ekki verið stöðvuð, heldur hefði henni verið leynt í bili. En jafnframt sýndu framsóknarmenn fram á, að það hefði verið hægt að gera fullnægjandi ráðstafanir í efnahagsmálunum, halda áfram uppbyggingarstefnunni, án þess að minnka þyrfti kaupmátt tímakaupsins frá því, sem hann var í október 1958.

Framsóknarmenn sögðu einnig þá nokkuð um það, hvað hinir hefðu í hyggju, eins og augljóst var af málflutningi þeirra að öðru leyti, þegar frá voru skilin kjörorðin, sem mest var látíð bera á. Við sögðum, að það, sem þessir aðilar hefðu í hyggju, væri samdráttarstefna í íslenzkum þjóðarbúskap. Það væri að koma uppbyggingar- eða byggðastefnunni, sem fylgt hefði verið í íslenzku efnahagslífi, fyrir kattarnef, og að þeir mundu nota þær aðferðir til þess að koma á nýrri stefnu að magna dýrtíðina í landinu til þess að draga saman framkvæmdirnar.

Í þessu sambandi er líka nauðsynlegt að minnast á það, að ekki höfðu Sjálfstæðisflokksmenn og Alþýðuflokksmenn fyrr lokið kosningabaráttunni undir vígorðunum: Stöðvun dýrtíðarinnar án nýrra skatta — og: Leiðin til bættra lífskjara er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, — en blaðinu var algerlega snúið við og byrjað af jafnmiklum ákafa að prédika það fyrir mönnum, að þeir lifðu um efni fram, þjóðin lifði um efni fram. Og siðan var því bætt við af fullkominni óskammfeilni, að það væri stórkostlegur halli á ríkisbúskapnum og á útflutningssjóðnum, en yfir tæki þó með öllu hinn gífurlegi greiðsluhalli við útlönd, sem hefði orðið hvorki meira né minna en 1000 milljónir eða rúmlega það á síðustu 5 árum, og var hæstv. forsrh. að enda víð að endurflytja þennan boðskap hér á hv. Alþ., sem er þó kunnur orðinn utan þings.

Þetta var og er þá það, sem þjóðinni hefur verið sagt um þessi efni eftir kosningarnar. Erlendar skuldir væru orðnar gersamlega óviðráðanlegar og ekkert væri þó eins hættulegt og lántökur til stutts tíma. Menn yrðu að þrengja stórkostlega að sér til þess að bjarga frá þjóðargjaldþroti, ekki sízt vegna skuldanna við útlönd og þessa gífurlega greiðsluhalla. Hér var sem sé upp tekinn þessi áróður til að reyna að hræða þjóðina til að beygja sig undir þá samdráttarstefnu, sem stjórnin hugðist beita sér fyrir.

En hvað er þá til í því, sem mönnum er nú sagt um þessi efni, t.d. að innleiða þurfi stórfelldari álögur en nokkru sinni fyrr til þess að bjarga við atvinnurekstrinum í landinu og forða þjóðargjaldþroti út á við? Þetta er sams konar uppspuni og tröllasögurnar fyrir kosningarnar um stöðvun dýrtíðarinnar án skatta og sú fjarstæða, að leiðin til bættra lífskjara væri sú að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Við skulum íhuga þetta ofur lítið nánar, vegna þess að hér liggur kjarni málsins. Skoðum afstöðuna út á við og kenninguna um hinn gífurlega greiðsluhalla, sem sé að sliga þjóðina, þúsund millj. eða meira á 5 síðustu árum. Þessar tölur eru býsna einkennilega fundnar, og þessi kenning er harla undarleg. Þessi greiðsluhalli er búinn til þannig, að það eru taldar til halla afborganir af föstum lánum út úr landinu, sem sé skuldalækkanir við útlönd. En aðalatriðið er þó að búa til þennan greiðsluhalla með því að telja Sogsvirkjunina, raforkuáætlunina að verulegu leyti, sementsverksmiðjuna, heilan flota af kaupskipum og fiskiskipum, mikinn hluta ræktunarinnar í landinu og útihúsabygginganna og hafnargerða í landinu og hvers konar framfarir, sem framkvæmdar hafa verið fyrir erlent lánsfé, að nefna þetta allt greiðsluhalla við útlönd. Með þessu móti er fengin þessi niðurstaða, sem á að vera til þess að hræða þjóðina til að veita fylgi ráðstöfunum hæstv. ríkisstjórnar.

Þetta er álíka speki og að útgerðarmaður, sem hefði keypt fiskibát, eða bóndi, sem hefði komið sér upp fjárhúsi, teldi andvirði þessara framkvæmda til tekjuhalla eða taps á árinu, þó að hann hefði tekið lán til þeirra að einhverju verulegu leyti. Þetta eru með öðrum orðum ótíndar blekkingar. Eða máske eigi í þessari kenningu að felast sú hugmynd eða það sé hugsjón þeirrar samsteypu, sem nú hefur tekið við völdunum, að Íslendingar eigi aldrei að taka framar nein erlend lán til framkvæmda í landinu, því að vitaskuld hlýtur að koma fram greiðsluhalli á þeim reikningi, sem svona er settur upp, á meðan slíkt er gert. Er þetta máske yfirlýsing um, að það eigi aldrei framar að taka lán erlendis til uppbyggingar atvinnurekstrar í landinu?

Síðan er því bætt við þessar upplýsingar, ef upplýsingar skyldi kalla, að Ísland geti alls ekki fengið framar lán til uppbyggingar, til framkvæmda, nema þær ráðstafanir séu gerðar, sem núv. hæstv. ríkisstj. ætlar að beita sér fyrir. Það væri fróðlegt að víta frá hæstv. ríkisstj., hver þetta hefur sagt, hvaðan hún hefur þessar upplýsingar og yfirlýsingar, eða hefur hún bara búið þetta til. Er þetta bara tilbúningur hæstv. ríkisstj., eða hvaðan hefur hún þetta? Hver hefur sagt henni þetta? Ekki kannast ég við, að þetta sjónarmið hafi verið ríkjandi, og ekki var þetta sjónarmið ríkjandi um þær mundir, sem verið var að undirbúa þá 6 millj. dollara lántöku, sem á að vera til framkvæmda í landinu, sem fyrrv. ríkisstjórn hafði undirbúið að verulegu leyti, áður en hún fór frá völdum.

Ég er ekki í neinum vafa um, að þetta er tilbúningur hæstv. ríkisstj. til þess að finna tylliástæður fyrir þeim ráðstöfunum, sem hún er nú að beita sér fyrir í efnahagsmálum. Og ég vil segja í þessu sambandi, án þess að fara lengra út í það, að áreiðanlega verður aldrei með tölum talið til fulls það tjón, sem ríkisstj. er búin að gera út á við með óhróðri sínum um efnahagsmálaástandið á Íslandi, með röngum frásögnum um það, hvernig Ísland stendur út á við og hvað það er, sem raunverulega hefur gerzt hér í landinu á undanförnum árum, t.d. með því að leyfa sér að túlka það greiðsluhalla og vott þess, að þjóðin lifi um efni fram, að hún tekur lán til stærstu framkvæmda í landinu, á sama hátt og fjöldamargar aðrar þjóðir heimsins gera, þar sem svipað er ástatt. Og hvernig hugsa þessir menn sér, að hægt sé að notfæra sér möguleika Íslands í framtíðinni til þess að byggja upp, ef á ekki að taka lán til framkvæmda erlendis? Hvað ætla þeir að gera? Halda þeir, að Íslendingar geti byggt upp allt það fjármagn með því að leggja það til hliðar sjálfir, sem þarf til þess að byggja eðlilega upp hér í landinu? Er það kannske það, sem þeir halda? Eða hvað hugsa þeir sér?

Vítaskuld er með öllu óhugsandi, að slíkt geti átt sér stað. Það er fullkomlega eðlilegt, og ég fullyrði, að skilningur er á því hjá þeim mönnum, sem hafa ráð yfir fjármagni í heiminum, að land eins og Ísland þarf á lánum að halda til stórframkvæmda í landinu. Hitt er annað mál, að það er oft nokkuð erfitt að sannfæra erlenda fjármálamenn um það, hversu þarfir Íslands í þessu tilliti vegna uppbyggingarinnar eru miklar, samanborið við fólksfjölda. Og það þarf oft að leggja mikla vinnu í að skýra, að það sé eðlilegt að lána Íslendingum jafnmikið og gert hefur verið og gera þarf til þess að byggja upp, þótt þeir séu svo fáir. En slíkt hefur tekizt fram að þessu. Að sýna fram á, að það þarf óvenjulega mikið fé til þess að byggja upp þjóðarbúskapinn á Íslandi, þótt við séum ekki fleiri en íbúar lítilla borga í stórum þjóðlöndum. Það hefur tekizt fram að þessu að sannfæra þá, sem fyrir fjármagni hafa ráðið, um það, að þessi nauðsyn sé fyrir hendi og Íslendingar muni geta staðið í skilum vegna þess, hversu framleiðslan hér á Íslandi er tiltölulega miklu meiri en svo að segja í nokkru öðru landi jarðarinnar, miðað við íbúatölu. En hitt skal svo segjast, að núv. ríkisstj. hefur áreiðanlega ekki gert það léttara á næstu árum að flytja málstað Íslendinga fyrir þeim mönnum, sem fyrir fjármagni ráða, með þeim — ég vil leyfa mér að segja, með þeim tilhæfulausa óhróðri, sem hún hefur borið út um efnahag sinnar eigin þjóðar, — tilhæfulausa óhróðri, sem hún hefur borið út um efnahag sinnar eigin þjóðar, því að það er ekki hægt að kalla það öðru nafni að útbreiða það, að Ísland hafi búið við 1000–1100 millj. kr. greiðsluhalla á síðari árum, þegar mestur hluti þeirrar fjárhæðar eru lán til langs tíma, sem gengið hafa til þess að byggja upp mannvirki eins og þau, sem ég hef greint.

Ég hef ekki aðstöðu til þess í dag að gagnrýna í einstökum atriðum þær tölur, sem hæstv. forsrh. nefndi í þessu sambandi, t.d. áætlun þeirra um það, hvernig farið hefði íslenzkur þjóðarbúskapur 1959. Hann nefndi þar gífurlega fjárhæð, sem hann taldi greiðsluhalla, og var það ekki sérlega ánægjulegur vitnisburður um þetta fyrsta ár valdasamsteypunnar, ef það væri rétt. En það var auðvitað allt villandi, vegna þess að þar eru innifaldar mjög miklar lántökur til stórframkvæmda til langs tíma. En ég vil leyfa mér núna að taka þrjú ár af þessu tímabili og segja mönnum nánar, hvernig því er varið um þau, til að sýna fram á, hversu þokkalegur þessi málflutningur er. Ég tek árin 1956–58. Í því sambandi er í grg. talað um 637 millj. kr. greiðsluhalla. Á móti þessum 637 millj. koma svo 135 millj. kr. afborganir af erlendum lánum, lækkanir á öðrum lánum, sem ekki eru dregnar frá, þannig að nettóhækkun skulda er 502 millj. En erlend lán opinberra aðila og einkaaðila á þessum árum eru 551 millj., og langsamlega mestur hluti þess eru þessi framkvæmdalán, sem ég hef verið að greina frá. En síðar er sagt: Það var greiðsluhalli á þessu tímabili víð útlönd, sem nam svona gífurlegum fjárhæðum, og það verður að leggja á íslenzku þjóðina mörg hundruð milljón króna álögur til þess að koma í veg fyrir slíkan greiðsluhalla framvegis.

Nú skyldu menn halda, að ríkisstjórn, sem í málflutningi sínum fordæmir á þennan hátt lántökur til nauðsynlegustu framkvæmda í landinu, lífsnauðsynlegustu framkvæmda í landinu, og segir, að það þurfi að gera stórfelldar ráðstafanir til þess að fyrirbyggja það, að greiðsluhalli þeirrar tegundar, eins og ég var hér að lýsa, eigi sér stað framvegis, — nú skyldum við halda, að sú stjórn, sem þannig ræðir um þetta atriði, og sú stjórn, sem líka hefur þráfaldlega lýst því yfir, að ekkert sé jafnhættulegt í þessu sambandi og erlendar lántökur til stutts tíma, ráðgerði ekki miklar lántökur sjálf. En ef við lítum í þá efnahagsáætlun, sem nú hefur verið lögð fyrir af hæstv. ríkisstj., þá sjáum við, að hún vill fá heimild til þess að taka 20 millj. dollara gjaldeyrislán og kallar þetta sjóð. 20 millj. dollara gjaldeyrislán eða 780 millj. kr. lán vill hún hafa heimild til að taka og til stutts tíma.

Nú skyldu menn álita, að ríkisstj. hefði meira en litlar áhyggjur af því, hvernig hægt væri að endurgreiða slíka gífurlega fjármuni til viðbótar þeim lánum, sem fyrir eru og hún hefur sagt þjóðinni að hún muni tæpast einu sinni megnug að standa undir. En ef við lítum í athugasemdirnar, sem áætluninni fylgja, og skoðum þetta atriði sérstaklega, þá sjáum við, að um þetta hefur ríkisstj. það að segja, að endurgreiðsla þessara stuttu lána eða yfirdráttarlána ætti ekki að verða örðugleikum bundin. Svo bætir hún að vísu við: Svo framarlega sem þær efnahagsráðstafanir, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, bera tilætlaðan árangur.

M.ö.o.: ríkisstjórnin, sem fordæmir framkvæmdalántökur og kallar þær greiðsluhalla við önnur lönd, hefur í hyggju, eftir því er hún segir sjálf, að taka stórfellt gjaldeyrislán til skamms tíma og lýsir því þar næst yfir, að hún telji, að engir örðugleikar muni verða á því að standa skil á þeim peningum aftur á fáum árum, að viðbættu öllu því, sem þarf að greiða af þeim lánum, sem þegar er búið að taka til framkvæmda í landinu. Allt í einu horfir dæmið þannig við, að það á að vera þjóðinni mögulegt að standa undir því á næstu árum að endurgreiða stórfellt gjaldeyrislán, sem tekið væri til stutts tíma, til viðbótar við greiðslurnar af þeim framkvæmdalánum, sem þegar hafa verið tekin, en stjórnin hefur áður sagt að væru svo stórkostlegar, að það mundi vart verða undir þeim einum risið, hvað þá meira, og til þess að ráða við það vandamál yrði að leggja gífurlegar álögur á þjóðina og þrengja að henni með öllu hugsanlegu móti.

Hver sér nokkra heila brú í þessum hugsunargangi eða þessari áætlun hæstv. ríkisstj.? Það er skilningur hæstv. ríkisstj., að það sé hættulegt að taka framkvæmdalán, og það er kallaður greiðsluhalli á viðskiptunum við útlönd, þjóðhættulegur greiðsluhalli, sem verði að koma í veg fyrir. En það er óhætt að taka eyðslulán. Það er óhætt að taka kramvörulán, ef þannig mætti að orði komast, eins og sagt var hér í gamla daga. Og endurgreiðsla slíks láns, jafnvel á stuttum tíma, er ekki líkleg til þess að valda neinum sérstökum erfiðleikum. Og hvernig halda menn svo, ef þessi stefna yrði raunverulega framkvæmd, — hvernig halda menn svo, að mundi ganga á næstu árum að fá nauðsynleg framkvæmdalán fyrir Ísland, þegar búið væri að bæta við þessum gífurlegu kramvörulánum ofan á það, sem nú er fyrir? Búast menn þá við því, að þeir geti fengið stórfelld framkvæmdalán, sem þarf að fá, þar enn til viðbótar? Eða á, eins og ég hef margsinnis spurt, á að hætta því að taka lán til framkvæmda á Íslandi? Hverjum dettur í hug, ef þessi stórfelldu gjaldeyrislán verða raunverulega tekin, að þeim verði skilað aftur á örstuttum tíma, eins og hæstv. ríkisstj. bollaleggur í sinni áætlun. Við höfum ofur litla reynslu af þessu hér hjá okkur. Við höfum gert tilraunir til þess á undanförnum árum að tryggja okkur aðstoð hjá EPU, Greiðslubandalagi Evrópu, til þess að auka hér frelsi í víðskiptum, og við höfum tekið lán í þeirri stofnun til þess að hjálpa til við þá framkvæmd og kaupa almennar vörur inn í landið og auka vörubirgðir í landinu. En hvernig fór með þau lán, sem þannig voru tekin? Hafa þau verið greidd til baka? Voru þau greidd til baka? Reyndist mögulegt að greiða þau til baka á stuttum tíma, eða hafa þau verið greidd? Nei, þau hafa ekki verið greidd, og þau eru enn í dag hluti af skuldum Íslands. En það voru ekki framkvæmdalán. Það voru lán ákaflega hliðstæð þeim gífurlegu lántökum, sem núverandi hæstv. ríkisstj. talar um af svo mikilli léttúð í þeirri áætlun, sem hún hefur nú lagt fram. Nei, vitanlega er stórhættulegt að taka stórfelld gjaldeyrislán til stutts tíma, því að hættan er sú, að það verði ekki viðráðanlegt að greiða þau lán til baka á stuttum tíma ásamt greiðslum af föstum lánum, sem fyrir eru, og að þetta allt saman færi efnahagsmál landsins út á við í háskalegri hnút en þau hafa nokkru sinni áður verið, sem gæti þá orðið til þess að koma í veg fyrir, að nauðsynleg framkvæmdalán gætu fengizt.

Hér eru í raun og veru höfð algerlega, að mínu viti, endaskipti á hlutunum á þann hátt, sem ekki má gera, þar sem sú stefna er með þessu í raun og veru lögð á hilluna að taka framkvæmdalánin, en í þess stað hugsunin að fara inn á þá braut að taka gífurleg gjaldeyrislán eða vörukaupalán til stutts tíma. Það er í raun og veru, þó að það sé stórfurðulegt að heyra, skilningur hæstv. ríkisstj., að það sé stórháskalegt fyrir Ísland að auka lántökur sínar til þess að kaupa skip og reisa aflstöðvar og til framkvæmda yfir höfuð í landinu, en hitt sé ekki aðeins forsvaranlegt, heldur hið mesta bjargráð að taka lán til stutts tíma til almennra vörukaupa.

En hvernig stendur á því, að þessi stefna skuli hafa orðið ofan á hjá hæstv. ríkisstjórn, eins og þessi mál standa? Þar kemur að sjálfsögðu margt til greina, sem ég hef ekki tök á að rekja í dag. En eitt er alveg augljóst. Þessi stefnubreyting í lánamálunum er sem sé nauðsynleg undirstaða þess að koma samdráttarstefnunni í framkvæmd á Íslandi. Það er vitanlega ekki hægt að framkvæma stefnu, sem er byggð á því að koma á samdrætti í framkvæmdum og atvinnu, með því að taka framkvæmdalán erlendis og verja þeim til framkvæmda í landinu sjálfu. Til þess að hægt sé að koma slíkri stefnu á og í framkvæmd, verður að hætta að taka framkvæmdalánin eða draga stórkostlega saman seglin í því efni.

Þetta er ein ástæðan til þess, að núv. hæstv. ríkisstj. söðlar hér algerlega um og tekur upp nýja stefnu í þessu, sem er einn liður í þeim samdrætti í þjóðarbúskapnum, sem hún vill koma á.

Þessi stefnubreyting í lánamálunum er einnig lífsnauðsynleg undirstaða þess, að hæstv. ríkisstj. geti komið því höggi á uppbyggingarstefnuna eða nánar tiltekið byggðastefnuna í atvinnumálum landsins, sem kjördæmabreytingin, sem síðast var sett, var miðuð við. Það er ekki hægt að koma því við að fella niður framkvæmd byggðastefnunnar með því að taka lán erlendis og verja þeim lánum til uppbyggingar víðs vegar um landið. Það verður að hætta því. Þetta er einn alveg óhjákvæmilegur liður í þeirri stefnubreytingu, sem þá var hugsuð. En nú kemur þetta fyrst nakið fram á yfirborðið.

Ekki vil ég neita því, að við vanda sé að fást í efnahagsmálum okkar, eins og þeim er háttað. Og ég sé glöggt, að það er nokkur halli í efnahagskerfinu, eins og afkoma útflutningssjóðs og ríkissjóðs sýnir. En hættulegt ósamræmi í efnahagskerfinu minnkaði þó stórkostlega við efnahagslöggjöfina frá 1958, þegar 55% yfirfærslugjaldið var lögfest. Og það er nauðsynlegt fyrir menn að hafa það í huga. En það, sem mér sýnist nú vera að ske, það er blátt áfram það, að þennan vanda, sem er fyrir hendi, en áreiðanlega er minni nú en oft áður, þennan vanda ætlar peningavaldið í landinu með Alþýðuflokkinn sem hjálpartæki að notfæra sér til þess að taka upp alveg nýja efnahagsmálastefnu, sem á að efla þetta vald í öllum greinum. Það á að notfæra sér þann vanda, sem fyrir hendi er, til þess að taka upp þvílíka stefnu. Og þetta er framhaldið af kjördæmabreytingunni, af afnámi gömlu kjördæmanna, og einn angi af þeirri áætlun, sem þá var lögð.

Þeim vanda, sem fyrir liggur, er hægt að mæta með tvennu móti, alveg eins og einstaklingur velur um leiðir, ef hann þarf að gera ráðstafanir til þess að brúa bil í sínum búskap. Önnur leiðin er áframhaldandi uppbygging, sem miðar að fullri atvinnu allra og fyllstu notkun allra möguleika, djarfri stefnu, eins og óneitanlega hefur verið framkvæmd hér á siðari árum, en þeir skakkar, sem þá eru fyrir hendi eða koma fram í efnahagskerfinu, séu jafnaðir með því að draga úr þeirri fjárfestingu eftir vali, sem helzt má missa sig eða helzt má biða, miðað við almannahag, og með því að skattleggja þá eyðslu, sem er umfram nauðsyn, og þá, sem mest mega sín. Þetta er önnur leiðin og sú rétta leið og vel fær, eins og þessi mál standa. Það sýndi athugun þessara mála haustið 1958, þegar það var óvefengd niðurstaða, að hægt væri að koma þessum málum þannig fyrir, að kaupmáttur tímakaups rýrnaði ekki frá því, sem hann var í október það haust. Og það samrýmist líka slíkri leið að komast út úr uppbótakerfinu í áföngum, eins og byrjað var á 1958.

En hin leiðin — (Forseti: Ég vildi spyrja hv. þm., hvort hann teldi, að hann gæti lokið sínu máli á skömmum tíma, 5–10 mín. eða svo, því að ef svo er ekki, þá væri eðlilegra að gera nú eitthvert hlé á fundinum. ) Það er ekki hugsanlegt, að það geti tekizt. (Forseti: Ef þingmaður telur sig ekki geta lokið máli sínu á svo skömmum tíma, þá verður umr. nú frestað í bili og fundi frestað til kl. 5.) — [Fundarhlé.]

Hin leiðin, þegar svo stendur á, að brúa þarf bil í búskap, er aftur á móti sú, sem stjórnarliðið hefur valið. Það er samdráttarleiðin, sú leið að draga saman. Og hún er fólgin í því, sú aðferð, sem hæstv. ríkisstj. ætlar að nota, að magna dýrtíðina svo stórkostlega í landinu með öllu í senn: gengislækkun, nýjum álögum og vaxtahækkun, að menn hafi ekki ráð á að leggja í framkvæmdir né kaupa áhöld, tæki og neyzluvörur í neitt svipuðum mæli og verið hefur, — koma þannig á meira jafnvægi, eins og það er kallað, skulum við segja, með því að draga stórkostlega úr neyzlu, framkvæmdum og atvinnu. Og þessi leið, sem hæstv. ríkisstj. og hennar flokkar hafa valið, miðar að minni þjóðartekjum en þyrfti að vera og rýrari lífskjörum.

En höfuðástæðan til þess, að einmitt þessi leið er valin, er sú, eins og ég sagði áðan, að hún færir peningavaldinu í landinu, sem stjórnar Sjálfstfl., völdin í atvinnu- og efnahagslífi þjóðarinnar í vaxandi mæli. Þetta er undirrótin í öllu málinu. Og einmitt af því, að þetta var meiningin, þá þurfti að hafa fleira með í förinni en rétta og slétta gengislækkun. Það varð að fylgja alger stefnubreyting í þá átt, sem ég hef verið að lýsa.

En skýrum þó fyrir okkur myndina ofur lítið. Í hverju hefur þessi uppbyggingarstefna, sem ég hef verið að tala um, verið fólgin? Við getum sagt, að byggðastefnan hefur verið einn mikilsverður þáttur í uppbyggingarstefnunni. Einn meginþáttur í uppbyggingarstefnunni hefur verið sá að beina fjármagni þjóðarinnar með opinberri íhlutun í þýðingarmestu atvinnugreinar landsins og styðja sjálfstæðan atvinnurekstur og búskap sem flestra landsmanna um leið. Ég leyfi mér að taka nokkur dæmi um uppbyggingarstefnuna, eins og hún hefur verið í framkvæmdinni á síðustu áratugum.

Ég nefni fyrst erlendar framkvæmdalántökur. Því fé, sem tekið hefur verið að láni erlendis, hefur yfir höfuð verið varið til uppbyggingar atvinnulífinu í landinu víðs vegar. Ég nefni Sogsvirkjanirnar sem dæmi, sem eru undirstaða bæði aukinna þæginda og atvinnurekstrar á miklum hluta landsins. Ég nefni aðrar virkjanir. Ég nefni skipakaup og bátakaup. Ég nefni það fé, sem gengið hefur til þess að auka ræktun í landinu og framleiðslu í landbúnaðinum. Og þannig mætti halda áfram að telja, hvernig framkvæmdalánin hafa verið liður í uppbyggingarstefnunni.

Ég nefni vaxtapólitíkina, sem rekin hefur verið í landinu og hefur einnig miðað í þessa sömu átt. Hér hafa verið hafðir lágir vextir á stofnlánum til uppbyggingar í sjávarútvegi og landbúnaði og lágir vextir til stuðnings fólki, sem hefur verið að koma sér upp húsnæði til eigin afnota, svo að ég nefni aðeins þessa höfuðþætti. Þessir vextir hafa verið hafðir lágir með stuðningi ríkisvaldsins með margvíslegu móti og fyrir íhlutun frá Alþingi og þeim ríkisstjórnum, sem setíð hafa. En þessi vaxtapólitík, sem hefur verið rekin, er snar þáttur í því að styðja sem almennasta uppbyggingu í landinu og koma í veg fyrir, að peningavaldið í landinu verði einrátt um hana og um það, í hvaða átt uppbyggingin beinist. Þessi vaxtapólitík hefur verið liður í því að gera sem flestum landsmönnum kleift að standa undir þeim stofnkostnaði, sem því er samfara að verða sjálfstæður atvinnurekandi eða lifa sjálfstæðu lifi í sinni eigin íbúð. Þetta er meginhugsunin, sem hefur legið á bak við þá vaxtapólitík, sem í landinu hefur verið rekin áratugum saman, og sannast að segja hafa þeir, sem á annað borð hafa verið félagslega hugsandi, ekki fundið aðrar leiðir heppilegri til þess að styðja að skynsamlegri þróun í þessa átt en einmitt þá, að hið opinbera ætti hlut að því, að vextir af stofnlánum yrðu ekki hærri en svo, að menn gætu ráðið við þá. Einmitt þannig væri stuðlað að því, að hinir mörgu efnaminni gætu lagt í talsvert dýrar framkvæmdir, en ekki aðeins auðmennirnir í landinu. Þessi vaxtapólitík hefur blátt áfram verið undirstaða þess, hversu almenn uppbyggingin hefur orðið hér og hversu mikið er hér um fólk, sem er efnalega sjálfstætt.

Ég nefni fjárlagastefnuna, eins og hún hefur verið oft og tíðum. Það hefur verið reynt að miða hana við að hafa fremur afgang en hitt. Og þeim greiðsluafgangi hefur stundum verið varið til þess að styðja uppbygginguna, til viðbótar lánsfé og öðrum framlögum, sem hið opinbera hefur lagt fram í þessu skyni. Mætti nefna um það mörg dæmi. Ég nefni atvinnuaukningarféð, sem tekið hefur verið upp á síðari árum og notað hefur verið til þess að veita fjármagni inn í þau byggðarlög við sjávarsíðuna, þar sem lítið fjármagn hefur verið fyrir hendi, en þörfin fyrir uppbygginguna mikil, og þýðingarmikið talið fyrir þjóðarbúskapinn, að þessi byggðarlög gætu ekki aðeins staðizt, heldur þróazt eðlilega og tekið vaxandi þátt í framleiðslulífinu, auk þess sem slík uppbygging, einmitt í þessum plássum, hefur orðið til þess að draga úr þeim óheppilega fólksstraumi, sem orðið hefur á einn stað í landinu.

Ég nefni ríkisábyrgðapólitíkina, sem rekin hefur verið og hefur verið miðuð blátt áfram við það, að ríkið hefur tekið ábyrgðir fyrir byggðarlög sérstaklega og félagslegar framkvæmdir úti um land og í landinu raunar yfirleitt. Og þessar ábyrgðir hafa verið teknar, þótt menn hafi séð greinilega, að það hlaut að verða tjón af því í bili fyrir ríkissjóðinn sjálfan, að í þessar ábyrgðir væri gengið. En þær hafa verið teknar samt. Það mætti nefna hafnargerðir, sem aldrei hefðu komizt af stað, ef þessari ríkisábyrgðastefnu hefði ekki verið fylgt. Og þannig mætti halda áfram að telja endalaust. Það mætti nefna eitt dæmi, sem er áreiðanlega ofarlega í hugum manna, og það er Þorlákshöfn. Halda menn kannske, að það hefði átt sér stað sú framkvæmdaþróun í Þorlákshöfn, sem orðin er, ef þeirri ríkisábyrgðastefnu hefði verið fylgt, sem núv. ríkisstj. er að byrja að boða, sem sé þeirri, að aldrei verði tekin ríkisábyrgð á neinu láni, nema öruggt sé fyrir fram, að það verði staðið við greiðslur á því upp í topp. Þá hefði aldrei verið farið af stað með neinar framkvæmdir í Þorlákshöfn. Og þannig mætti nefna mýmörg dæmi víðs vegar að af landinu, bæði um hafnargerðir, sem eru undirstöðuframkvæmdir í framleiðslulífinu, og fjöldamargar aðrar framkvæmdir.

Þetta eru aðeins örfá atriði til þess að skýra, hvað það er, sem átt er við, þegar talað er um uppbyggingarstefnu, og til þess að skýra þá stefnubreytingu, sem nú á að verða með tilkomu þeirrar valdasamsteypu, sem nú beitir sér hér fyrir algerri stefnubreytingu. Og lítum svo á stefnubreytinguna, í hverju hún er fólgin, varðandi þessi fáu dæmi, sem ég hef nefnt.

Fyrst er að fæla þjóðina frá því að halda áfram framkvæmdalántökum. Það er sem sé alveg nauðsynlegur fyrsti liður í þessari nýju samdráttarstefnu, sem hér er boðuð, af þeim ástæðum, sem ég hef rakið. Engum manni dylst, að það er ekki hægt að breyta hér um stefnu nema draga saman lántökur erlendis til framkvæmda. En í staðinn á svo að setja eyðslulán eða gjaldeyrislán, eins og hér hefur verið lýst. Lítum á vaxtapólitíkina, sem er ein undirrót og undirstöðuatriði í þessu málí. Ríkisstj. leggur hér fram lagabálk, og þar er ein lítil grein, — ætli hún sé ekki 6 línur, — en um hvað er þessi grein? Hún er um það; að ríkisstj. fái valdið í sinar hendur til að ákveða vexti og lánstíma á öllum lánum, sem héðan af verða veitt úr stofnlánadeildum framleiðsluatvinnuveganna, úr íbúðalánasjóðnum og úr verkamannabústaðasjóðnum. Þetta er ein litil lagagrein, sem ætlazt er til að stjórnarliðið hér á þinginu samþykki og á að færa ríkisstjórn Íslands það vald að ákveða þessa vexti og þennan lánstíma án íhlutunar Alþingis. Hér er sem sé stefnt að því að afnema með einni lítilli lagagrein fjöldamarga lagabálka, sem settir hafa verið á Alþingi á undanförnum áratugum með langri þróun og eru einn undirstöðuþáttur í okkar þjóðarbúskap, löggjöfina um stofnlánasjóðina og að Alþingi ákveði, hverjir vextir og lánstímar þar skuli vera, m.ö.o.: að Alþingi ákveði, hver skuli vera stuðningur þjóðfélagsins til þeirra, sem ætla að byggja upp atvinnurekstur og heimili. Og ríkisstj. er meira að segja svo óskammfeilin, að hún lýsir því yfir, að hún ætli að fá þetta vald til þess að hækka vextina og stytta lánstímann, til þess að breyta um stefnu einmitt í þessu efni. Ríkisstj. ætlar að fá vald til þess að umturna þannig því fyrirkomulagi, sem hér hefur verið ákveðið með lagasetningu á Alþ. með áratugalangri þróun. Það á allt að feila í rúst með 5 eða 6 línum í þessu frv. Það er einn liðurinn í þessari stefnubreytingu, sem hæstv. ráðherrar og þeirra lið eru að boða nú þessa dagana.

Ég nefndi fjárlögin og stuðning við framkvæmdir í sambandi við þau, og það er alveg sama sagan. Það er sem sagt sama, hvar gripið er niður. Það er allt í samræmi hvað við annað, eins og eðlilegt er, vegna þess að hér er verið að valda straumhvörfum — hreinlega straumhvörfum — í þessa átt, að efla aðstöðu peningavaldsins í landinu, en draga úr hinni þjóðfélagslegu íhlutun um uppbygginguna og hinum þjóðfélagslega stuðningi við fólkið í landinu.

Við skulum athuga þetta með fjárlögin, hvernig það horfir við. Þar á að skera niður og þrengja að verklegum framkvæmdum. Og það er einkennandi fyrir þessa samsteypu, að fyrsta árið, sem hún hefur setið að völdum, er enginn greiðsluafgangur í ríkisbúskapnum til þess að verja til uppbyggingarinnar. Það er öðru nær en svo sé, heldur mun vera hreinn greiðsluhalli, og þar að auki er étinn upp greiðsluafgangurinn frá í fyrra á þessu fyrsta ári samsteypunnar. Það er nokkuð táknrænt að bera þetta saman við það, hvernig greiðsluafgangur á undanförnum árum hefur yfirleitt verið notaður mjög til þess að styðja uppbygginguna. Nú er því hætt. Það er einn liðurinn í þessari nýju stefnu.

Ef við skoðum svo einn lið eins og atvinnuaukningarféð, sem ég minntist á áðan, þá verður nákvæmlega það sama upp á teningnum. Þetta fjármagn, þótt ekki sé stórfellt, hefur víða riðið alveg baggamuninn í því, að það hefur verið hægt að leggja í stórkostlegar framkvæmdir fyrir ýmis af þessum byggðarlögum, sem annars hefði alls ekki verið hægt að sinna. Menn hafa reytt inn í framkvæmdir allt, sem þeir gátu við sig losað heima fyrir, og það, sem hægt hefur verið að fá af lánum með aðstoð hins opinbera og á annan hátt, en svo hefur oft verið bil, sem ómögulegt hefur verið að brúa. En þá hefur verið reynt að brúa það einmitt með atvinnuaukningarfénu. Þannig hafa komið ný glæsileg skip í fjöldamörg af sjávarplássum landsins. Þannig hafa verið byggðar upp myndarlegar iðnaðarstöðvar í þessum sömu plássum. Og til þessa hefur verið varið mest á ári 15 millj. kr., en þar næst 13.5 millj. En hvað ætlast þessi nýja samsteypa fyrir í þessu efni? Auðvitað í nákvæmu samræmi við þá stefnu, sem höfð er. Hún ætlar að láta það nægja, að í þetta séu hafðar á fjárlögunum 10 millj. kr. Þegar tekið er tillit til þeirrar stórfelldu verðhækkunar, sem verður í landinu á öllum byggingarvörum og öðru slíku, þá mun ekki fjarri lagi, að atvinnuaukningarframlagið sé raunverulega skorið niður um helming frá því, sem það var, á meðan það var t.d. 13.5 millj. kr.

Og minnumst svo loks á ríkisábyrgðaþáttinn, sem ég minntist á hér áðan og hefur verið stórfelldur liður í uppbyggingunni, einmitt það, hvernig ríkisábyrgðastefnan hefur verið framkvæmd. Nú keppast hæstv. ráðherrar við að lýsa því yfir, að hér eigi að verða stefnubreyting, og munu nú þegar vera farnir að framkvæma þessa stefnu. En ef þeir standa við það að framkvæma þá stefnu, eins og gefið hefur verið í skyn, þá verður afleiðingin af því stórkostlegt högg í garð þeirrar uppbyggingar, sem framkvæmd hefur verið víðs vegar um landið.

Þetta eru bara dæmi, sem ég hef nefnt um nokkur atriði varðandi uppbyggingarstefnuna annars vegar og samdráttinn hins vegar. En það er miklu fleira í þessu máli en hægt er að rekja í einni ræðu við 1. umr. þess.

Ég vil þó nefna hér eitt dæmi enn. Nú er sett inn í þetta frv. ein lítil grein, og hún er um það, að framvegis skuli vera hægt að krefjast þess, að einhver hluti af fjármagni innlánsdeilda kaupfélaganna í landinu verði dreginn inn í bankakerfi landsins. Þegar við nú íhugum, að samvinnufélögin og kaupfélögin eru ásamt verkalýðsfélögunum alveg tvímælalaust langþýðingarmestu almannasamtökin í landinu og þau samtök, sem ásamt verkalýðsfélögunum hafa komið alþýðu þessa lands að langmestu gagni í lífsbaráttunni, og þegar við íhugum, að kaupfélögin eru í mörgum byggðarlögum þær stofnanir, sem fólkið hefur helzt á að treysta til þess að standa fyrir uppbyggingunni og til þess að koma í veg fyrir, að allt fjármagn sé hreinlega dregið í burtu úr plássunum, og þau eru í raun og veru í sumum plássum nær einu stofnanirnar, sem fjármagn hefur stöðvazt í, þá sjáum við svona hér um bil, að hverju er stefnt með þessu ákvæði. Þessar stofnanir almennings í landinu skulu ekki fá að vera í friði. Loppan á líka að koma þar við og taka þaðan peningana, til þess að sjá um, að þangað verði ekki flúið til að fá fjármagn til framkvæmdanna, þegar búið er að loka öðrum leiðum. Það væri synd að segja, að þeir, sem hér eiga hlut að máli, væru ekki sjálfum sér samkvæmir í því, hvernig þeir byggja upp þetta nýja kerfi. Vitanlega er þetta ákvæði hrein óhæfa og árás á þessi almannasamtök, sem ég hika ekki við að fullyrða, að séu þau þýðingarmestu í landinu fyrir almenning ásamt verkalýðsfélögunum.

Þá vil ég nefna eitt dæmi enn um það, hvert þessi stefna leiðir, sem hæstv. ríkisstj. ætlar sér nú að taka til framkvæmda. Það voru lagðir 50 aurar á benzínlítra til útflutningsuppbóta. Nú er gert ráð fyrir því, að þessu gjaldi á benzíni verði haldið, en nú skuli það renna í ríkissjóð nema 6 aurar. Það á ekki að fella það niður, þó að útflutningsuppbæturnar falli niður, og það er þannig yfirleitt með allar álögurnar, að þær eiga að haldast, þó að útflutningsuppbæturnar falli niður, og er það, sem er einkennandi fyrir úrlausnir ríkisstjórnarinnar. Þessir 50 aurar eiga sem sagt að haldast, en þeir eiga bara að renna inn í ríkissjóðinn. En síðan á að bæta 34 aura gjaldi á hvern benzínlítra við, þannig að þetta verða 84 aurar, sem eiga að renna inn í ríkissjóðinn, umfram það, sem verið hefur, og einir 6 aurar af öllu þessu gífurlega fjármagni eiga að renna til aukinna framkvæmda í vegagerðum og brúargerðum. En það mun ekki einu sinni duga, ekki neitt nándar nærri duga til þess að jafna þann stórkostlega kostnaðarauka, sem verður á þessum framkvæmdum. Niðurstaðan er því sú, að á sama tíma sem stórfelldar nýjar álögur eru settar á benzínið í landinu, verða minnkaðar framkvæmdir í samgöngumálum.

Nú vita allir hér um bil, hvernig raunverulega er ástatt í okkar samgöngumálum. Það hefur verið okkur erfitt að byggja upp samgöngukerfið, enda eru vegirnir þannig, að það er alls ekki hægt að nota á þeim hagkvæm flutningatæki vegna þess, hve þeir eru fátæklegir. En það er nú síður en svo, að það sé stefnt í þessu sambandi að því að bæta úr þessu, heldur er með þessum tillögum haugað nýjum gjöldum á benzínið, en vegamálin eiga að verða í enn verra ástandi en þau hafa nokkru sinni áður verið. Það á að minnka heildarframlög til vegamála raunverulega, þegar miðað er við kostnaðinn. Það hefði þó ekki mátt minna vera, þegar svo var haugað nýjum gjöldum á benzínið, sem í öðrum löndum yfir höfuð er notað sem gjaldstofn til þess að koma áfram stórframkvæmdum í samgöngumálum, — þá hefði ekki mátt minna vera en það hefði verið stóraukið það framlag, sem ríkið lætur til vegagerða í landinu. En það samrýmist auðvitað alls ekki samdráttarstefnunni, að slíkt geti komið til greina. Það eitt samrýmist samdráttarstefnunni að hauga nýjum álögum á benzínið, en láta þær renna til almennrar eyðslu.

Það er svo kapítuli út af fyrir sig, að í framhaldi af þessu er svo boðaður stórfelldur samdráttur lána, og er það vitanlega í stíl við aðrar uppástungur, sem fram koma hjá hæstv. ríkisstjórn.

Af þessum dæmum, sem ég hef nú nefnt, er það augljóst, að stjórnin beitir geiri sínum gegn allri þeirri uppbyggingu í landinu, sem hefur verið studd af þjóðfélaginu, sem hefur verið studd með félagslegum aðgerðum af þjóðfélagsins hendi. Það er það, sem í kjördæmabaráttunni síðastliðin ár var kölluð hin pólitíska fjárfesting. Það er stuðningurinn við uppbyggingu landbúnaðarins, það er stuðningurinn við uppbyggingu sjávarútvegsins víðs vegar um landið, sem felst í vaxtapólitíkinni, ríkisábyrgðapólitíkinni, framkvæmdalánunum og ríflegum fjárveitingum á fjárlögum til slíkrar uppbyggingar. Þetta er hin pólitíska fjárfesting, sem núverandi valdasamsteypa sagði stríð á hendur í sambandi við kjördæmabreytinguna, og nú er að koma í ljós, hvernig þetta er útfært. Það á sem sé að þrengja að öllu þessu. En það er hin efnahagslega fjárfesting, sem þá var kölluð, sem á að standa, sem sé sú fjárfesting, sem hinir ríku hafa efni á að ráðast í og þeir vilja láta verða. Þetta er það, sem á að ske.

Þessar tillögur hæstv. ríkisstj. hafa nú þegar stöðvað fjölda þýðingarmikilla framkvæmda víðs vegar um landið. Menn hafa orðið að hætta við undirbúning þessara framkvæmda, þegar þeim varð ljóst, að ríkisstj. vann að því að leggja stein í götu þeirra, í stað þess að á undanförnum árum hafa menn, sem hér hafa setið að völdum, gert allt, sem þeir gátu, til þess að greiða fyrir því, að slíkar uppbyggingarframkvæmdir gætu átt sér stað. Það er sem sé hvorki meira né minna en algerlega snúið við blaðinu. Og þetta hefur nú þegar orðið til þess, að fjöldamargar áætlanir um framkvæmdir hafa menn orðið að leggja til hliðar síðustu vikurnar. Og það á að verða framhald á þessu, ef þessir aðilar fá að ráða.

Ég sakna þess mjög, að í ræðu hæstv. forsrh. hér áðan var engin tilraun gerð til þess, svo að ég yrði var við, að útilsta það, hvað hér er í raun og veru að gerast. Hvað er stjórnin að leggja miklar álögur á þjóðina? Og hvernig er þeim ætlað að koma niður? Hverjir eiga að bera þessar álögur? Og hverjar eiga að verða afleiðingarnar af þeim? Ég hélt, að hæstv. forsrh. mundi leggja fram áætlun um þetta efni fyrir hv. Alþingi, og þykir raunar einkennilegt, að í grg. frv. skyldi ekki vera gerð grein fyrir þessu. Hæstv. forsrh. var að endurtaka hér eða lesa hér upp þann fróðleik, sem er í grg. um það, hvað vísitalan mundi hækka mikið og hversu stjórnin hefði fundið ágætt ráð til þess að koma í veg fyrir, að nokkur fyndi í raun og veru til þess, sem ætti að gera, með því að borga niður vísitöluna með fjölskyldubótum og einhverjum niðurgreiðslum á kaffi og sykri. Þetta endurtók hæstv. forsrh. En ég varð alls ekkert var við, að hann gerði hina minnstu tilraun til þess að gera hæstv. Alþ. grein fyrir því, hversu mikill fjármunatilflutningur raunverulega á sér stað í þjóðfélaginu með þessum ráðstöfunum, ef þær ná því, sem mætti kalla tilgangi sínum, og hvað þess vegna er í raun og veru að gerast. Um þetta var ekki eitt einasta orð í ræðu hæstv. forsrh. Ef háttvirtir efnahagsráðunautar ríkisstj. hafa gert ríkisstj. grein fyrir þessu, þá hefur því verið stungið undan í þeirri greinargerð, sem fyrir þessu frv. hefur verið lögð fram. En hvers vegna? Hvers vegna á ekki að koma fram mynd af þessu? Og er hugsanlegt að átta sig á því, hvað hér er að gerast, nema reynt sé að draga upp slíka mynd?

Ég hef nú haft, eins og ég sagði, takmarkaðan tíma þetta mál til meðferðar og ekki haft aðgang að öllu því, máske, sem þarf til þess að draga upp slíka heildarmynd, svo að hún verði nákvæm í einstökum atriðum. En ég vil samt gera tilraun til þess að draga fram nokkrar þýðingarmiklar staðreyndir og að sumu leyti áætlanir um þetta efni.

Ég sé ekki betur en nýjar álögur til ríkisins samkv. fjárlagafrv., sem lagt hefur verið fram, miðað við fjárlögin 1959, eins og stjórnin gerir í grg., og þegar búið er að draga frá lækkun tekjuskattsins, líka miðað við árið 1959, — þá fæ ég ekki betur séð en nýjar álögur til ríkisins séu ekki undir 370 millj. En ég skal taka það fram, að ég byggi þessar tölur algerlega á þeim áætlunum, sem ríkisstj. hefur látið gera t.d. um væntanlegan innflutning og ég hef alls ekki séð enn þá sundurliðaðar. Ég hef aðeins séð heildarniðurstöðutöluna, sem ríkisstj. áætlar innflutninginn á næsta ári og byggir tekjuáætlun fjárlaganna á og annað í þessu sambandi. Og það get ég sagt, að sú heildaráætlun er um það, að innflutningurinn verði verulegum mun minni á þessu ári, sem nú er að líða, en hann var a.m.k. áætlaður fyrir s.l. ár og minni en hann varð 1958. M.ö.o.: að stjórnin áætlar verulega lækkun á innflutningnum, og má segja, að það sé f samræmi við það, að hún ætlar sér að minnka neyzluna í landinu og framkvæmdirnar. Og þessi innflutningsáætlun ríkisstj., þegar hún kemur fram, sem hlýtur auðvitað að verða síðar í málinu, þá sýnir hún, að ríkisstj. ætlar auðvitað að innleiða samdrátt framkvæmda og kjaraskerðingu, sem á að koma fram í lækkuðum innflutningi. Nú skal ég ekkert segja, hvernig þetta verður í reyndinni, um það er lýkur. Ég veit ekkert um það. En ég vil taka fram, að það er á þessari lágu innflutningsáætlun ríkisstj., sem ég byggi þær tölur, sem ég hef hér, en alls ekki á þeim innflutningi, sem áður hefur verið. Og þess vegna gæti vel svo farið, að allar þessar tölur, sem ég hér nefni, ættu að vera miklu hærri. En mér sýnist það gera máliðflóknara að fara að gera nokkrar aukaáætlanir í því og hef þess vegna byggt þessar hugleiðingar á heildarniðurstöðu innflutningsáætlunarinnar, sem ríkisstj. hefur látið gera eða gert. Og samkv. þeim plöggum virðast nýjar álögur eftir fjárlögunum vera a.m.k. 370 millj. Ég vil enn bæta því við í því sambandi, að þá er verðtollshækkunin vegna gengislækkunarinnar ekki áætluð nema lítill hluti af því, sem raunverulega yrði, ef innflutningurinn yrði jafnhár á þessu ári og hann var í fyrra. Þetta er sem sagt byggt á þessari lágu áætlun ríkisstj.

Ég hef beðið hagstofuna að skoða fyrir mig, hver heildarverðhækkun á innflutningi til landsins, miðað við þessa áætlun ríkisstj., sem hagstofan hefur hjá sér, yrði af völdum gengislækkunarinnar, og beðið um, að ekki væri þá tekin með sú hækkun, sem verður á rekstrarvörum útflutningsins, því að sá liður gengur út og inn í dæminu og að mínu viti því bezt að draga hann strax frá, þannig að þar komi bara fram sú hækkun, sem á að verða á öðrum innflutningi en þeim, sem gengur út og inn hjá útflutningsatvinnuvegunum. Enn fremur hef ég beðið um, að þarna væri engin tollahækkun talin með, af því að hún er talin með í álögunum. Hagstofan áætlar þessa hækkun um 575 millj. kr. Þá áætlar hagstofan, það er lausleg áætlun, segir hagstofan, gerð í flýti, hækkun á duldum greiðslum og dreifingarkostnaði innanlands vegna gengislækkunarinnar um 152 millj. Þetta eru samtals 1117 millj. Frá þessu þarf siðan að draga, að mínu viti, hækkun á fjárlögunum vegna gengisbreytingarinnar, sem er komin inn í álögurnar og má ekki tvítelja, og niðurfellingu á innanlandssöluskatti, sem runnið hefur til útflutningssjóðs og mér er sagt eftir plöggunum, að líka eigi að falla niður, eða um 119 millj. Þannig skilst mér, að nettóálögurnar séu um 1000 millj., miðað við þessa lágu innflutningsáætlun ríkisstjórnarinnar.

En þá er eftir að reikna áhrif vaxtahækkunarinnar, og þau hefur mér ekki tekizt að fá áætluð á þessum stutta tíma, sem til umráða hefur verið. En það dylst mér ekki, að stórfelld vaxtahækkun bætir hundruðum milljóna við þessar álögur. Enn fremur er mér ljóst, að nýju álögurnar verða í reyndinni meiri en í fjárlögunum er áætlað og sömuleiðis verðhækkanir vegna gengisbreytingar af ástæðum, sem ég hef þegar drepið á, sem sé vegna þess, hvað innflutningsáætlunin er lág. Svo eru það vextirnir, eins og ég hef tekið fram. Lægstu tölur, að mínu viti, eftir því sem ég hef getað skoðað á þessum stutta tíma, lægstu tölur, sem hægt er að nefna í sambandi við álögurnar í heild, eftir því, hve vaxtahækkunin verður mikil, eru 1200–1300 millj., en sennilega miklu meira eða a.m.k. verulegum mun meira.

Síðan segir hæstv. ríkisstj., að á móti þessu eigi að koma 152 millj. í fjölskyldubótum og 37 millj. í auknum niðurgreiðslum, og það er það, sem þjóðin á að fá í staðinn, almenningur í landinu á að fá í staðinn.

Nú ráðgerir ríkisstj., að kaupgjald í landinu standi óbreytt og að verð það, sem bændur fá sjálfir fyrir afurðir sínar, verði óbreytt, væntanlega þó með þeirri breytingu, sem úrskurðuð verður af þeirri 6 manna nefnd eða hagstofustjóra, sem nú rannsakar verðgrundvöllinn sjálfan, en að öðru leyti verði þáð óbreytt. Kaup fiskimanna á að verða óbreytt yfirleitt. M.ö.o.: það á að halda óbreyttum tekjum almennings í landinu, en menn eiga að fá 152 millj. í fjölskyldubætur og 37 millj. í auknar niðurgreiðslur. Ég fæ ekki betur séð en það séu þess vegna fyrirætlanir ríkisstj. að minnka neyzlu og fjárfestingu í landinu á einu ári um a.m.k. 1000 millj. kr. eða yfir 1000 millj. kr. Og spyr ég nú hæstv. ríkisstj.: Hefur hún ekki látið reikna þetta dæmi, og hvað mikið af þessu á að koma niður á fjárfestingunni að hennar áliti, og hvað mikið á að koma fram sem hrein kjararýrnun, minnkun á neyzlunni? En það er að gera grín að fólki að flytja mál sitt þannig, að þessum álögum eigi að mæta með 152 millj. í fjölskyldubótum og 37 millj. í niðurgreiðslum, þannig að enginn eigi í raun og veru að missa nokkurs í. Það er að hæða sjálfan sig að viðhafa slíkan málflutning. Og það er enn fremur ókurteisi við fólk að láta þar við sitja. Því spyr ég: Hefur hæstv. ríkisstj. ekki látið reikna þetta dæmi? Hvar á þetta að koma niður? Hvað hugsar hún sér, að fjárfestingin minnki mikið af þessum yfir 1000 millj., og hvað á að verða bein og hrein kjaraskerðing strax? Það eru þessi meginatriði, sem þarf að gera grein fyrir í þessu sambandi. En ekkert sýnir betur en þessar tölur, þótt ófullkomnar kunni að vera og standa til endurskoðunar, hvílík fásinna það er, sem hæstv. ríkisstj. er að leggja út í.

Svona heljarstökk er ekki hægt að gera og koma standandi niður, það er alveg víst. Og ef menn svo í þessu sambandi athuga, að eftir því sem hagfræðingur sagði mér í dag, munu allar þjóðartekjur Íslendinga hafa verið áætlaðar tæpir 5 milljarðar, þá sjá menn enn betur, hvílík fásinna það er, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að kokka þessar vikur, sem hún hafði til afnota, eftir að hún hafði sent Alþingi heim.

Svona ráðstafanir er blátt áfram ekki hægt að gera. Þetta eru hreinar panik-ráðstafanir. Það er með öllu gersamlega óskiljanlegt, hvernig nokkrum manni dettur í hug að koma fram með svona áætlanir eða svona fyrirætlanir. Hefur þetta alls ekki verið athugað eða hvað? Hafa þessir hæstv. ráðherrar ekki gert sér neina grein fyrir því, hvað þeir voru raunverulega að fara? Hvernig halda menn, að áhrifin af þessu verði í þjóðarbúskapnum? Og dettur mönnum í hug, að svona lagað sé framkvæmanlegt?

Ég vil í fullri alvöru biðja hæstv. ríkisstj. að endurskoða þessar fyrirætlanir og endurskoða þessar áætlanir, því að vitanlega er ekkert til hættulegra í efnahagsmálum landsins en það að gera einhverjar panik-ráðstafanir, sem enga stoð eiga í raunveruleikanum og enga möguleika hafa til að heppnast. Menn hafa ekki leyfi til þess að gera slíkar ráðstafanir, vegna þess að slíkt hlýtur að stórauka vandann frá því, sem hann er eða hefur verið. Það væri hægt að ræða miklu nánar en ég hef tíma til eða tel rétt að fara út i, hvaða áhrif þetta hefur í einstökum atriðum.

En hugsíð ykkur bara viðhorf t.d. unga fólksins í landinu, eftir að þessum ráðstöfunum hefur verið hellt yfir þjóðina. Hugsið ykkur annað eins, — fólk, sem kannske hefur alveg nýlega sökkt sér á kaf í skuldir til þess að eignast þak yfir höfuðið eða á það alveg eftir og hefur hugsað sér að reyna slíkt. Það kemur stórkostleg hækkun á allan byggingarkostnað í landinu, og þar að auki er meiningin að innleiða, eftir því sem hæstv. ríkisstjórn hefur lýst yfir, vaxtahækkun, að því er manni skilst bæði á lausalánum, sem þetta fólk hefur orðið að taka í stórum stíl og þarf að taka, ef það á að geta komið áfram sínum áhugamálum, og einnig á föstum lánum, þeim sem veitt verða framvegis. Það verða margir illa fyrir barðinu á þessum ráðstöfunum, sem hér er verið að reyna að gera, en engir eru þó eins hörmulega leiknir og unga fólkið í landinu, og væri hægt að færa fyrir því miklu greinilegri ástæður. En þetta er bara eitt dæmið um það, hvernig þetta verkar fyrir ungu kynslóðina.

Þá eru það útreikningarnir um það, hvað dýrtíðin muni vaxa vegna þessara ráðstafana. Við fáum ofur litla hugmynd um það af þessum tölum, sem ég var að nefna, um það, hverjar álögurnar raunverulega eru og hverjar þjóðartekjurnar hafa verið, hvernig þetta muni vera. En það er sagt eða einhverjir reiknimeistarar hafa reiknað út, að það verði 14% dýrtíðaraukning. Það er nú held ég þrisvar sinnum orðið „líklega“ í sambandi við þennan útreikning, þannig að það er á þessu hafður góður fyrirvari, enda sennilega vissara, því að sannleikurinn er sá, og af því höfum við bitra reynslu, að allir slíkir reikningar hafa reynzt þannig, að það hefur vaxið meira dýrtíðin í landinu en gert hefur verið ráð fyrir. Ég hef ekki séð útreikningana sjálfa, en það er greinilega tekið fram í grg., að hér sé aðeins miðað við fyrstu áhrif af sjálfri gengislækkuninni, en ekkert tekið til íhugunar, hver áhrifin verða af vaxtahækkuninni og ekki heldur af nýja söluskattinum, sem manni skilst að eigi að innleiða á allar vörur. Og fleira og fleira er það vitaskuld, sem er ekki tekið til greina, eins og augljóst verður, ef menn bara reyna að setja upp fyrir sér heildarmynd af því, sem raunverulega er að gerast, og setja inn í þessar skýrslur það, sem hæstv, ríkisstj., sennilega af ásettu ráði, hefur látið vanta.

Ég hef ekki haft aðstöðu til þess að kynna mér, hvernig þetta verkar fyrir einstakar atvinnugreinar í landinu, og verð að láta það að mestu liggja milli hluta við þessa umr., því að starfið hefur farið í annað, en það hlýtur að verða skoðað og rætt í sambandi við þetta mál. En ég vil þó strax láta í ljós þá skoðun, sem er raunar ekki skoðun, heldur augljóst og þess vegna staðreynd, að þessar ráðstafanir munu þrengja mjög hag smábátaútgerðarinnar frá því, sem verið hefur, því að það hafa sérstakar ráðstafanir verið gerðar vegna hennar, sem eru algerlega felldar niður í sambandi víð þetta mál, og er þar ekki um eins þýðingarlítið mál að ræða og ég býst við að sumir af feðrum þessa frv. geri ráð fyrir, því að satt að segja býst ég við, að þeir muni heldur lítið inni í þeim málum og að sjónarmið þeirra muni ekki ná mikið út fyrir þeirra heimabyggðir, og við vitum allir, hvar þeir eru búsettir. Ég óttast, að þeirra sjónarmið nái ekki langt út fyrir þeirra heimabyggðir.

Þá er það mjög athyglisvert í þessu sambandi, að gert er ráð fyrir því, að útflutningurinn verði skattlagður með 5% skatti, og það er sagt þarna einhvers staðar nægilega greinilega, til þess að það skiljist, að það á að ganga til að greiða hallann á útflutningssjóði. Það er einkennilegt. Okkur var sagt, að á honum væri enginn halli og hann stæði betur en nokkru sinni fyrr. Nú er það allt í einu komið í ljós, að það þarf að skattleggja alla framleiðsluna í landinu, til þess að greiða þennan halla á útflutningssjóði, sem átti ekki að vera til, — innleiða alveg nýtt kerfi til þess að greiða þetta. En síðan er ekkert um það getið í þessu máli, hvernig þessum fjármunum skuli varið, en skatturinn á að halda áfram, þangað til hann er þá numinn úr gildi með sérstökum lögum. Hann er ekki tímabundinn, skatturinn. Og þá virðist það vera ætlunin, eða maður verður að líta svo á, að það sé ætlunin, að ríkisstj. geti ráðstafað þessum skatti eða þessum sjóði, og kem ég að því ofur lítið siðar. En rökstuðningurinn fyrir þessu er ákaflega einkennilegur, því að hann er sá, að útvegsmenn geti ákaflega vel borgað þennan skatt, því að gengisbreytingin sé það ríflega til tekin, að hún sé miðuð við það, að útvegsmenn geti afskrifað nýju skipin sin og bátana með nýja verðinu, sem þeir verði að kaupa þau á. Og það er rökstutt með þessu, að þeir geti vel séð af þessum 5%. M.ö.o.: manni virðist eftir þessu, að ríkisstj. líti svo á, að útvegurinn þurfi alls ekki að búa við þau kjör, að hann geti afskrifað skipin með nýja verðinu, sem á þeim verður eftir gengisbreytinguna, þess þurfi ekki, það megi draga þar frá 5% og setja til þess að greiða þennan makalausa halla á útflutningssjóðnum, sem allt í einu fannst eftir kosningarnar.

Ég hef nú farið nokkrum orðum um þetta mál og þær ástæður, sem hæstv. ríkisstj. hefur fært fyrir því. Þeir hafa sagt í fyrsta lagi, að það yrði að grípa til þessara örþrifaráða, — það er varla hægt að kalla þetta annað en örþrifaráð, — til þess að forða þjóðinni frá því að sökkva í skuldir og vanskil út á við. Ég hef nú gert því, að því er mér finnst, allrækileg skil, að þetta er hrein tylliástæða, því að það er svo fjarri því, að þessi ríkisstj. ætli að forðast það að taka lán, ef þau eru bara ekkí til framkvæmda. Þá ætlar hún að taka meiri lán en nokkru sinni hafa áður þekkzt á Íslandi. Bara að þau séu ekki til framkvæmda, það er það, sem þarf að forðast.

Þá hefur verið sagt, að þetta heljarstökk yrði að taka til þess að komast alla leið út úr uppbótakerfinu. Það er ein ástæðan, sem færð er fram, og hæstv. forsrh. gerði mikið úr þessu. Það yrði að taka í sig karlmennsku og sveifla sér hringinn heilan og koma standandi niður út úr uppbótakerfinu. Ég var búinn að segja það hér áðan, að ég trúi því ekki, að menn komi úr þessu standandi niður, — hvernig þeir koma niður, hvað það verður, sem kemur niður, annað en fæturnir, skal ég ekki fullyrða neitt um að svo vöxnu. En það er sagt, að það þurfi að taka þetta heljarstökk til þess að komast alla leið út úr uppbótakerfinu. Þetta áfangatal og öll varasemi í þessu sambandi sé af illri rót runnið og eiginlega til komið frá þeim, sem hafi ekki skilning á efnahagsmálum landsins. Þetta verði allt að gera í einu stökki.

En við skulum íhuga þetta svolítið nánar. Og þá verður það fyrst fyrir, að ríkisstj. kemst alls ekki út úr uppbótakerfinu, jafnvel þó að hún kæmi standandi niður úr þessu heljarstökki. Uppbótakerfið er ekki bara útflutningsuppbæturnar, það eru niðurgreiðslurnar engu síður. Niðurgreiðslurnar og útflutningsuppbæturnar eru eins og tveir endar á sama prikinu. Útflutningsuppbæturnar eru notaðar til þess að auka tekjur framleiðslunnar, þegar vantar, en niðurgreiðslurnar til þess að lækka kostnaðinn við framleiðsluna. Þá er farið í þann endann. M.ö.o.: Stjórnin kemst ekkert nærri því út úr uppbótakerfinu. Hún eykur það meira að segja í vissum greinum með því að auka niðurgreiðslurnar og taka upp alveg nýja siði í því sambandi, sem eru fjölskyldubæturnar, sem má ýmislegt gott um segja. En við getum bara séð, hvort fjölskyldubæturnar, sem hæstv. ríkisstjórn er nú að leggja í, eru venjuleg félagsmálaleg ráðstöfun eða ekki, með því að íhuga, að menn eiga að fá uppbætur með fyrsta barni, hversu háar tekjur sem þeir hafa og hversu ríkir sem þeir eru. Þetta eru ekki venjulegar félagslegar ráðstafanir. Þetta er aðeins einn liður í uppbótakerfinu, nýr liður, sem settur er inn í uppbótakerfið, þ.e. að greiða niður vísitöluna á þennan hátt, og vitum við vel, af hverju það er gert. Það er gert vegna þess, að með því að gera þetta svona, þá er hægt að reikna þetta laglega út. Menn fá uppbornar, að því er manni skilst, þúsund milljónir í álögum með 152 millj. Það er dálítið freistandi að viðhafa svoleiðis skömmtunarlag.

Menn komast því ekki út úr uppbótakerfinu, þó að gripið sé til svona örþrifaráða, eins og hæstv. ríkisstj. hefur nú flanað út í. Útflutningssjóðurinn sjálfur á að lifa áfram, og það stendur í lagagrein einni fremur en í grg., að útflutningssjóður skuli standa, þangað til meginhlutverki hans sé lokið að dómi ríkisstjórnarinnar. Hann er hafður opinn. Það er allt opið upp á gátt og meira að segja 5% þarna, sem á að vera einhver hulinn varasjóður. Þessar tvær meginástæður, sem færðar eru fyrir málinu, eru því markleysa. Önnur sú, að þetta sé allt gert vegna þessa gífurlega greiðsluhalla við útlönd, sem stafi af framkvæmdalánunum, og svo hin, að þetta þurfi að gera og einmitt þetta, því að væri minna að gert, væri það kák og bara áfangi. En þetta væri öll leiðin á enda og þess vegna yrðu menn að sætta sig við það, þó að á þessu væru ýmsir erfiðleikar, og setja kraft í stökkið. Þessar ástæður eru alveg dottnar.

Nú er sagt í þessu sambandi, að það verði meira frelsi en verið hefur. Ég skal ekki feila neinn fullnaðardóm um þetta, en æði miklir skuggar eru á því. Því er sem sé lýst yfir, að 40% af innflutningnum eigi að vera undir innflutningsleyfum áfram, og einhver góður maður sagði mér, að 1958 hefðu 68% af gjaldeyrissölunni í landinu verið frjáls. Þetta þarf allt saman mikilla skýringa við, ef það er að innleiða nú allt í einu meira frelsi og eitthvað alveg sérstakt, sem aldrei hafi skeð áður í seinni tíð, að 40% eigi að vera undir leyfum áfram. Þá á að innleiða stórfelldan nýjan söluskatt. Og það er kapítuli út af fyrir sig, að það á að fara að breyta mjög tekjuskattinum, vegna þess að menn dragi undan í tekjuskattsframtölum, — og ekki skal ég gera lítið úr því, — og taka upp almennan söluskatt í staðinn. Það er sennilega fyrir það, að menn muni alls ekki draga undan söluskattinum — eða hitt þó heldur, sem var einmitt numinn úr lögum vegna þess, hversu vitað var, að hann var dreginn undan. En það er atriði, sem verður rætt í öðru sambandi. En einhver ofur lítil skerðing er það nú á frelsinu að fá slíkt yfir sig á nýjan leik fyrir þá fjölmarga, sem áður voru þar ekki undir.

Síðan á frelsið að vera fólgið í því, að innleiða á stórkostlegri lánsfjárhöft og lánsfjárskömmtun en nokkru sinni áður hefur þekkzt í þessu landi. Það er einn liður í frelsismálinu að innleiða stórkostlegri lánsfjárskömmtun og lánsfjárhöft en nokkru sinni hafa áður átt sér stað. Svo er verið að tala um, að það þurfi að endavenda öllu á þennan hátt, taka hér upp stórfellda kjaraskerðingu og stórfelldan samdrátt í framkvæmdum til þess að ná þessu glæsilega marki, að innleiða aukið frelsi. Þetta frelsistal er markleysa. Þar er þriðja meginástæðan fallin, sem borin er fram fyrir þessu máli.

Það er áreiðanlegt, að þjóðin stendur agndofa út af þessum áætlunum, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram. Þessi valdasamsteypa, eins og ég minntist á í upphafi máls míns, sem gekk í haust til kosninga undir kjörorðinu: „Stöðvun dýrtíðarinnar án skatta og bætt lífskjör“, beitir sér nú hreinlega fyrir því að magna dýrtíðina með öllum ráðum til þess að koma á samdrætti og kjaraskerðingu. Einn meginþáttur stefnunnar er svo sá að draga úr stuðningi þess opinbera við uppbygginguna í landinu, en efla um leið aðstöðu þeirra, sem fjármagninu ráða. En það vitum við að eru hvorki framleiðendur í landinu almennt né almenningur, sem yfir mestu fjármagninu ráða, og þeir vita líka í stóra stjórnarflokknum, hverjir það eru. Þeir vita það vel. Og þarna er að finna ráðninguna á þeirri gátu, að ráðizt er með svo mikilli frekju gegn uppbyggingarstefnunni og gripið til þessara örþrifaráða, sem hér eru á ferðinni. Það var ekki nauðsynlegt til þess að jafna greiðsluhallann við útlönd, ekki heldur til þess að komast út úr uppbótakerfinu, því að það komast menn ekki með þessari ráðstöfun heldur, ekki heldur til þess að auka yfirleitt almennt frelsi, því að ýmsar ástæður má færa fram fyrir því, að það er stefnt til meira ófrelsis og meiri þvingunar á allan hátt en nokkru sinni hefur áður þekkzt.

En ástæðan er þessi, að þá erfiðleika, sem þjóðin á í og eru nokkrir, en þó minni en oft áður, á að nota nú til þess að koma fram alveg nýrri stefnu í efnahagsmálum, sem er byggð á þessu, sem ég hef verið að skýra. Það á að gersnúa öllu við, minnka öll þjóðfélagsleg afskipti af uppbyggingunni í landinu og færa völdin í vaxandi mæli yfir til þeirra, sem yfir fjármagninu ráða. Hverjum getur dulizt það, sem íhugar þessi efni, að þetta er stefnan?

Framsfl. mun beita sér eindregið gegn lögfestingu þeirrar meginstefnu, sem ríkisstj. hefur ákvarðað, og berjast af öllu afli fyrir uppbyggingarstefnunni í málefnum landsins, eins og hann hefur gert frá fyrstu tíð.

Að lokum vil ég minnast þess, hve ógiftusamlega hefur að mínum dómi og sorglega tekizt um undirbúning þessa máls og meðferð þess, síðan hin nýja valdasamsteypa tók við þessum málum. Menn skyldu ætla, að þeir, sem litu svona á málefni landsins, eins og þeir hafa verið að lýsa, mundu hafa haft áhuga fyrir því að fylkja sem flestum saman til átaka í þessum málum. En það gerðu þeir ekki og hafa aldrei gert. Þvert á móti munu þeir hafa hugsað, þegar þeir voru að undirbúa þessi mál, að þeir þyrftu engan stuðning neins staðar frá, þeir kynnu þetta allt og gætu allt, sem þyrfti að gera. Þegar stjórnin var komin á laggirnar og var veik og vanburða til þess að ráða við þessi mál, því að það getur engum dulizt og gat engum dulizt frá byrjun, þá hefði það átt að vera ásetningur hennar að reyna að styrkja sig með viturlegum starfsaðferðum, reyna að laða sem flesta í landinu til samstarfs við sig um það, sem átti að gera, og til skilnings á þeim vanda, sem stjórnin taldi vera fyrir hendi. En hvað hefur ríkisstjórnin gert í því?

Hún byrjaði með því að neita andstæðingunum um allar upplýsingar um þessi mál. Næsta skref var að neita Alþingi sjálfu um allar skýringar og upplýsingar um það, hvernig efnahagsmálin stóðu, en senda það þess í stað heim, á meðan hún, ríkisstjórnin, skoðaði þetta og tæki ákvarðanir um, hvað ætti að gera. Og hún sendi ekki aðeins andstæðinga sína heim, hún sendi líka stuðningslið sitt heim og sagði, að þeir og aðrir alþm. gætu fengið að vita um, hvernig þessi mál stæðu, þegar þeir kæmu til baka. Þá yrði þetta allt skýrara og lægi gleggra fyrir. En þeir bættu því ekki við, sem þó var auðvitað staðreynd, að þá ætluðu þeir líka sjálfir að vera búnir að ákvarða það, hvað ætti að gera, meira að segja án samráðs við sina eigin stuðningsmenn á Alþingi. Þeir áttu að vera heima á meðan — og hafa verið heima og ekki kvaddir til neins í þessu sambandi. Síðan eiga þeir að standa frammi fyrir því sem gerðum hlut, sem ákvarðað hefur verið, og þannig á að þvinga þetta fram, ekki aðeins aðra stefnu en stjórnarandstæðingar í Framsfl. vilja, heldur stefnu, sem áreiðanlega er í raun og veru í mótsögn við það, sem sumir af eigin stuðningsmönnum stj. vilja, ef þeir þá hafa skilið, hvað verið er að fara, vegna þess að upplýsingarnar hafa þeir ekki fengið og þeir hafa ekki fengið að fylgjast með þessum málum stig af stigi, eins og verður að vera, ef menn eiga að taka þátt í að móta úrræðin. Það er ekki hægt að vera heima hjá sér og eiga um leið þátt í því að móta úrræðin í svona málum, eins og sú stórfellda benda af nýjum ráðstöfunum, sem nú er lögð fram, gefur gleggsta hugmynd um. Það er ekki hægt. Þeir, sem eru þannig settir út í horn, geta ekki átt þátt í að móta svona mál. Það eru aðrir, sem móta þetta, og síðan er þeim sagt að samþykkja.

Þessar vinnuaðferðir allar saman hjá hæstv. ríkisstj., að neita samvinnu ekki aðeins við andstæðinga sina og reyna ekkert að skjóta breiðari grundvelli undir það mál, sem þeir eru með; en þeir hafa gert, og loka meira að segja sitt eigið stuðningslið frá því að hafa áhrif á málið, jafnóðum og það mótast, — þessar vinnuaðferðir eru stórámælisverðar. Það er ástæða til þess að harma þessi vinnubrögð, þau eru óviturleg og óheppileg og líkleg til þess að verða til tjóns og allt öðruvísi en þjóðin vill láta starfa að þessum málum.

Og að lokum þetta: Það er mikil sekt þeirra manna, sem fara gálauslega með þýðingarmestu málefni landsins, því að ekkert er verra en að efna til glæfra með þessi mál án þess að hugsa nokkuð um það, hvað framkvæmanlegt er, því að þá verður allt verra en nokkru sinni fyrr og verra en ekki. Það er þetta, sem ég tel að núverandi hæstv. ríkisstj. hafi gert sig seka um, og það er hættulegt að þvinga fram úrlausnir í þessum málum, sem engan hljómgrunn eiga með þjóðinni og hafa alls ekki nauðsynlegan stuðning. Slíkar aðfarir geta og hljóta að verða til þess, að ástandið verði verra en nokkru sinni fyrr.

Ég skal svo láta þessum aths. mínum við 1. umr. málsins lokið, en tek það fram, að ýmsa þætti þess, eins og t.d. hvernig þetta kemur við sjávarútveg og landbúnað og ýmsar aðrar greinar, hefur ekki verið hægt að skoða enn þá, vegna þess að enn hafa ekki komið fram þær upplýsingar, sem nauðsynlegar eru til þess. En þetta er um megindrættina í málinu, sem nú þegar liggja sæmilega ljóst fyrir.