05.02.1960
Neðri deild: 23. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (1983)

48. mál, efnahagsmál

Menntmrh. ( Gylfi Þ. Gíslason ):

Herra forseti. Í hinni löngu ræðu hv. 1. þm. Austf., sem hann var nú að ljúka, voru þrjú aðalatriði. Í fyrsta lagi sagði hann, að Alþ. ætti nú eins og fyrr að velja milli tveggja meginleiða í efnahagsmálum þjóðarinnar, og kallaði hann þær uppbyggingarstefnu og samdráttarstefnu. Það, sem hann nefnir uppbyggingarstefnu, er stefna undanfarinna ára, sem byggist á greiðsluhalla gagnvart útlöndum, söfnun erlendra lausaskulda, styrkjum og ívilnunum til óarðbærra framkvæmda og uppbóta- og gjaldakerfi, sem lamar heilbrigða framleiðslu, en ýtir undir atvinnurekstur með lélegum afköstum. Þessa stefnu á ekki að kenna við uppbyggingu. Hún er rétt nefnd halla- og styrkjastefna, sem einnig mætti kenna við sukk og sérréttindi.

Hin stefnan, sem hann nefndi samdráttarstefnu, er sú, sem nú á að taka upp. En hún grundvallast á því að láta allar greinar útflutningsins sitja við sama borð, þannig að sú framleiðsla búi við bezt skilyrði, sem er þjóðhagslega hagkvæmust. Hún byggist á því að eyða halla í viðskiptum þjóðarinnar gagnvart útlöndum og lifa af eigin aflafé. Þetta er viðreisnarstefna, eina stefnan, sem er samboðin þjóð, sem vill vera sjálfstæð.

Í öðru lagi sagði hv. þm., að álögur á þjóðina vegna þessara ráðstafana, sem nú eru hér til umræðu, næmu 1000 millj. kr. á ári. Þjóðviljinn hafði það í morgun eftir Lúðvík Jósefssyni, að álögurnar næmu 2000 millj, kr. á þjóðina á ári. Báðar þessar tölur eru algerlega villandi og út í hött. Það, sem þessir menn kalla álögur, er flutningur tekna milli framleiðslugreina, endurskipting á þjóðartekjunum, sem með engu móti verður talin álögur í venjulegri merkingu þess orðs. Ef sú gengisbreyting, sem nú er lögð til, hefur í för með sér 1000 eða 2000 millj. kr. álögur, hverjar voru þá álögur ríkisstj. Hermanns Jónassonar, sem ég mun sýna fram á hér á eftir? Hann lækkaði gengið meira á valdaárum sinum en nú er lagt til. Og ef gengisbreyting almennt hefur svona miklar álögur í för með sér, hvers vegna lagði þá hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, til hliðstæða gengislækkun vorið 1958 í vinstri stjórninni, eins og ég mun skýra nánar frá hér á eftir. Hann svarar því væntanlega síðar í umræðunum.

Í þriðja lagi kvað hann það fyrirætlun ríkisstj. að taka stórfellt eyðslulán erlendis, krambúðarlán, held ég að hann hafi kallað það, og átti þá víst við yfirdráttarheimildirnar hjá Efnahagssamvinnustofnuninni eða í Evrópusjóðnum og hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Í því sambandi minnti hann á, að Ísland hefði áður tekið slíkt lán hjá Efnahagssamvinnustofnuninni eða Greiðslubandalagi Evrópu og það hefði orðið fast lán og væri núna. Þetta er rétt að skýra svolítið nánar, áður en lengra er haldið.

Samkv. samningnum um Greiðslubandalag Evrópu var svo ráð fyrir gert, að 1/4 hluti þeirrar yfirdráttarskuldar, er myndaðist á mánuði hverjum, yrði að föstu láni, sem þyrfti ekki að greiðast, á meðan Greiðslubandalagið stæði. Enda þótt ekki væri ákvæði um það í bandalagssamningnum, var alltaf búizt við því, að þegar Greiðslubandalagið hætti störfum, mundi sérstaklega samið um greiðslu þessarar skuldar. Sú varð líka reyndin, að þegar Greiðslubandalagið hætti störfum í ársbyrjun 1959, fóru fram samningar á milli þeirra ríkja, sem skulduðu Greiðslubandalaginu, og þeirra, sem áttu inneign hjá því, og var samið um greiðslu skuldanna á nokkrum árum, sjö árum að því er Ísland snerti.

Samkv. Greiðslusamningi Evrópu, sem nú er í gildi, er hins vegar ekki um nein slík yfirdráttarlán að ræða. öll viðskipti verða að gerast upp mánaðarlega. Aftur á móti var samkv. Greiðslusamningnum stofnaður sérstakur sjóður, Evrópusjóðurinn, sem getur veitt meðlimum Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu yfirdráttarlán til allt að tveggja ára til þess að komast yfir tímabundna gjaldeyrisörðugleika. Þessi lán eru því aðeins veitt, að stjórn Evrópusjóðsins telji gilda ástæðu til þess að ætla, að landið komist úr gjaldeyrisörðugleikum sínum á skemmri tíma en tveimur árum og því ekki hætta á, að lánið festist.

Ísland hefur um margra ára skeið rekið þjóðarbúskapinn með halla út á við og ekki gert viðhlítandi ráðstafanir til að binda endi á hallann. Til þess að greiða hallann varð stöðugt að fá erlend lán, eins og ICA-lánin. Fasta yfirdráttarskuldin við Greiðslubandalag Evrópu var sama eðlis. Íslenzk yfirvöld létu þá skuld myndast einmitt vegna þess, að þau vissu, að hér var um fast lán að ræna, sem gengið gat upp í greiðsluhallann um skeið. Þörfin á þessum lántökum var stöðug, meðan greiðsluhallinn hélzt. Nú horfir málið þannig við, að greiðsluhallinn mun hverfa vegna þeirra ráðstafana, sem verið er að gera. Það verður því ekki þörf neinna lána til að jafna greiðsluhallann. Aftur á móti er þörf gjaldeyrisvarasjóðs til þess að mæta árstíðabundnum sveiflum í gjaldeyrisviðskiptum og sveiflum á milli ára, sem stafa t.d. af aflabresti eins og 1957 eða töfum á útflutningi eins og 1959. Án slíks varasjóðs er ekki hægt að halda uppi jöfnum innflutningi og yfirfærslum og þar með ekki heldur eðlilegum rekstri í atvinnulífinu. Yfirdráttarlánið hjá Evrópusjóðnum og heimildin til gjaldeyriskaupa hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum koma í stað slíks varasjóðs og eru því allt annars eðlis en venjuleg lán til framkvæmda eða vörukaupa. Það er ekkert náttúrulögmál, að menn hljóti að eyða sparifé, sem menn eiga. Þess vegna er það ekkert náttúrulögmál heldur, að þjóð hljóti að eyða gjaldeyrisvarasjóði, þótt hún noti af honum um sinn. En ef þjóð á engan gjaldeyrisvarasjóð, kemur það í sama stað niður að hafa yfirdráttarheimild. Hún þarf ekki að verða að föstu láni, frekar en nauðsynlegt sé að eyða varasjóðnum endanlega. Þetta er ég víss um, að hv. 1, þm. Austf. skilur vel. Allt það, sem hann sagði um þetta mál, krambúðarlánið, sem hann kallaði svo, held ég þess vegna að hljóti að vera sagt gegn betri vitund.

Allar götur síðan 1951 hafa Íslendingar búið við efnahagskerfi, sem er óþekkt í nálægum löndum, hvort sem þeim er stjórnað af vinstri sinnuðum eða hægri sinnuðum flokkum. Með bátagjaldeyriskerfinu, sem tekið var upp 1951, var farið inn á þá braut í efnahagsmálum, sem siðan hefur verið kennd við bætur eða styrki. En réttara er þó í raun og veru að kenna hana við margfalda gengisskráningu. Megineinkenni þessa kerfis er það, að þeir, sem afla þjóðarbúinu erlends gjaldeyrís, fá ekki eitt og hið sama verð fyrir gjaldeyrinn. Vissum greinum útflutningsframleiðslunnar er greitt meira fyrir þann gjaldeyri, sem þær skapa, en öðrum í formi einhvers konar bóta eða styrkja. Fjár til þess að standa undir greiðslu bótanna eða styrkjanna er síðan aflað með einhvers konar gjöldum á þeim vörum, sem fluttar eru til landsins frá útlöndum. Það var að mínu viti óheillaspor, þegar bátagjaldeyriskerfið var tekið upp á sínum tíma. Kerfi, er tvöfaldar eða margfaldar gengisskráningu, má ekki standa til langs tíma. Ef yfir mjög stuttan tíma er lítið, má segja, að það sé ekki mjög varhugavert, en þegar fram í sækir, koma mjög alvarlegir ágallar í ljós. Framleiðslan beinist þá eðlilega að þeim þáttum útflutningsins, sem hagkvæmasts gengis eða hæstra bóta og styrkja njóta, alveg án tillits til þess, hvort sú framleiðsla er hagkvæmust frá þjóðhagslegu sjónarmiði eða ekki. Ef verðbreytingar verða erlendis eða aðrar breytingar á markaðsskilyrðum, er mjög líklegt, að snúizt yrði gegn þeim með hækkun eða lækkun bóta og styrkja til þess að vega á móti hagstæðum eða óhagstæðum áhrifum verðbreytinganna á afkomu hlutaðeigandi aðila hér innanlands, en með slíkum breytingum væri komið í veg fyrir áhrif verðbreytinganna erlendis eða hinna breyttu markaðsskilyrða þar á útflutningsframleiðsluna. Eðlileg tengsl milli framleiðslunnar í landinu og hinna erlendu markaða þjóðarinnar væru í raun og veru rofin og önnur atriði en þau, hvaða vörur seljast fyrir hæst eða hagkvæmast verð á erlendum markaði, látin ráða því, hvað framleitt yrði í landinu til útflutnings. Með því móti er verðmæti þjóðarframleiðslunnar í raun og veru gert minna en ella. Þá er komið í veg fyrir, að útflutningsframleiðslan beinist inn á þær brautir, sem skila þjóðarbúinu mestum afrakstri, en atvinnugreinar, sem hafa minnkandi þýðingu fyrir þjóðarbúskapinn, eru óbeint studdar með bótum eða styrkjum, þ.e.a.s. með því að láta þær njóta hagkvæmara gengis við framleiðslu sína en aðrar greinar útflutningsframleiðslunnar njóta. Ef fjár til greiðslu slíkra bóta og styrkja er aflað með álagi á innflutning eða gjaldeyrissölu til kaupa á innfluttum vörum, svo sem að langmestu leyti hefur verið gert hér undanfarin ár, er mjög hætt við því, að slík gjöld hafi alveg hliðstæð áhrif á framleiðsluna í landinu, bæði útflutningsframleiðsluna og framleiðsluna fyrir innanlandsmarkað. Sumar erlendar vörur verða óeðlilega dýrar, og veitir það ýmiss konar innlendri framleiðslu mikla verndun, þannig að almenningur verður að kaupa ýmsa innlenda framleiðslu, sem hvorki stenzt samkeppni við erlenda vöru hvað snertir verð né gæði, en getur hins vegar verið mjög ábatasamt að framleiða í landinu vegna hinna miklu innflutningsgjalda á erlendum vörum sams konar. Þær vörur, sem lítil eða jafnvel engin gjöld eru lögð á, reynast hins vegar mjög ódýrar og eru í raun og veru greiddar niður. Þetta veldur því, að um mjög mikla notkun þeirra verður að ræða, oft og einatt svo mikla, að það er beinlínis skaðlegt frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Þjóðarheildin er þá í raun og veru farin að styrkja notkun ýmissar erlendrar vöru, sem af þeim sökum er notuð í óhófi, þótt notkun innlendra framleiðsluþátta eða vinnuafls væri í raun réttri miklu hagkvæmari frá þjóðhagslegu sjónarmiði.

Þetta er í grundvallaratriðum meginhættan, sem uppbóta- eða styrkjakerfi eins og það, sem hér hefur verið allar götur síðan 1951, hefur í för með sér. Þessir gallar hafa komið í ljós í sívaxandi mæli, eftir því sem árin hafa liðið. Í útflutningsframleiðslunni hafa þeir sérstaklega bitnað á togaraútgerðinni og síldarútveginum. Á því er enginn vafi, að í bótakerfinu og framkvæmd þess er að leita meginskýringarinnar á því, að togaraflotinn hefur ekki verið endurnýjaður sem skyldi s.l. áratug. Það er búið að reynast þjóðinni dýrt og á þó eftir að reynast henni enn þá dýrara. Að því er aðra þætti framleiðslu landsmanna snertir hafa gallar bóta- og styrkjakerfisins fyrst og fremst komið fram í því, að þeir hafa stuðlað að óeðlilega mikilli fjárfestingu innanlands og óeðlilega mikilli notkun erlends gjaldeyris, en þó ekki hvað sízt í því, að fjárfestingin innanlands hefur beinzt inn á rangar brautir. Allt of mikill hluti fjárfestingarinnar hefur gengið til ýmiss konar óarðbærra framkvæmda, sem standa ekki í sambandi við bætt skilyrði til þess að auka þjóðarframleiðsluna og bæta lífskjörin, heldur til eflingar á framleiðslu, sem verður ekki talin eiga að hafa forgangsrétt, til fjárfestingar eða þá til neyzluaukningar.

Þegar alþingiskosningarnar fóru fram sumarið 1956, var í raun og veru komið alveg skýrt fram, að uppbótakerfið, sem tekið hafði verið upp 5 árum áður, var meingallað og að bráðnauðsynlegt var að gera hér breytingu á. Þegar eftir að ríkisstjórn Hermanns Jónassonar hafði verið mynduð, skömmu eftir þær kosningar, lét hún gera ýmsar athuganir á efnahagsmálum þjóðarinnar. M.a. fékk ríkisstj. tvo mjög reynda sérfræðinga frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington til þess að gera heildarathugun á ástandi efnahagsmálanna þá. Var það í september 1956. Niðurstaða þeirra var í rauninni mjög svipuð og innlendra sérfræðinga, sem gert höfðu athugun á efnahagsmálunum fyrir ríkisstj. Ólafs Thors á árinu 1955.

Mikilvægustu staðreyndirnar, sem við blöstu sumarið 1956, þegar ríkisstj. Hermanns Jónassonar tók við völdum, voru, að þrátt fyrir góðar aðstæður í útflutningnum, erlenda fjárhagsaðstoð og sérstakar tekjur vegna framkvæmda á Keflavikurflugvelli hafði greiðsluhalli Íslands gagnvart öðrum löndum numið um 20 millj. dollara, eða um 320 millj. kr., miðað við skráð gengi, á 6 ára tímabilinu 1950–55. Mikill ofvöxtur útlána átti sér stað í bankakerfinu. Verðlag fór mjög hækkandi. Frá því í marz 1950 hafði verðlag hækkað um 85%. Tilsvarandi hækkun hafði orðið á kaupgjaldi. Hækkun verðlags og kaupgjalds hér var orðin miklu meiri en í viðskiptalöndum okkar. Þar sem gengisskráningunni hafði að formi til verið haldið óbreyttri, hefði fyrir löngu verið komið til algerrar stöðvunar útflutningsframleiðslunnar, ef henni hefðu ekki verið greiddar sívaxandi bætur og styrkir. Krónan var því í raun og veru orðin mjög ofmetin í gengisskráningu bankanna, sem var þannig orðin algerlega óraunhæf.

Þeir erlendu sérfræðingar, sem hér störfuðu á vegum ríkisstj. Hermanns Jónassonar í september 1956, töldu greiðsluhallann 1955 hafa verið einhvers staðar á milli 100 og 150 millj. ísl. kr., eða um 3–5% þjóðarteknanna, og þeir áætluðu greiðsluhallann á árinu 1956 svipaðan. Þeir lögðu megináherzlu á, að endir yrði bundinn á greiðsluhallann, verðlag erlendrar vöru samræmt verðlaginu innanlands, þ.e.a.s. hækkað, jafnvægi komið á peningamálin í landinu með því að takmarka útlánaaukningu við sparifjármyndun og með því að hækka vexti. Þeir töldu þurfa að flytja kaupmátt til útflutningsframleiðslunnar frá öðrum greinum þjóðarbúskaparins og nauðsynlegt að draga nokkuð úr fjárfestingu. Til þess að koma efnahagsmálum þjóðarinnar á réttan kjöl töldu þeir þjóðina þurfa í bráð að sætta sig við 2–3% kjaraskerðingu.

Þessar staðreyndir lágu ljóst fyrir ríkisstj. Hermanns Jónassonar þegar haustið 1956. Þær voru þrautræddar í ríkisstj. á þessum haustmánuðum. Á undanförnum árum hefur það hvað eftir annað verið sagt í Þjóðviljanum, að ráðherrar Framsfl. og Alþfl. hafi viljað gengisbreytingu þegar haustið 1956. Ég sé nú enga ástæðu til þess að þegja um það, að þetta er rétt. Ráðherrar Framsfl. lýstu því margsinnis yfir, að breyting á skráðu gengi krónunnar væri langréttasta leiðin út úr efnahagsvandamálunum. Við ráðh. Alþfl. lýstum því líka yfir, að við værum reiðubúnir til þess að taka till. um gengislækkun upp í flokki okkar, ef ríkisstj. yrði sammála um að fara þá leið. Ráðh. Alþb. reyndust hins vegar ekki vilja á það fallast, að skráðu gengi krónunnar væri breytt.

Niðurstaða margra mánaða samningaumleitana urðu síðan ráðstafanir þær, sem gerðar voru í desember 1956. Var þar um eins konar milliveg að ræða. Öðrum þræði var haldið áfram á braut uppbóta- og styrkjakerfisins með hækkun bóta og aukningu innflutningsgjalda. En hinum þræðinum var farið inn á braut gengisbreytingar, með því að lögtekið var 16% yfirfærslugjald á svo að segja allar gjaldeyrisyfirfærslur. Þetta 16% yfirfærslugjald var í raun og veru hrein gengisbreyting. En þegar öllu var á botninn hvolft, var gengisbreytingin þó meiri, sem svaraði meðalhækkun útflutningsbótanna og meðalhækkun innflutningsgjaldanna.

Þótt Alþb. hafi ekki viljað fallast á opinbera gengisbreytingu, þ.e.a.s. gengisbreytingu, sem kölluð væri réttu nafni, féllst það á dulbúna gengisbreytingu, sem skýrð var sem yfirfærslugjald. Alþb. virtist það vera einhver huggun, að gengisbreytingin væri ekki nefnd sinu rétta nafni, og var þá ekki um annað að gera en láta þá fá þeim vilja sínum framgengt. En ég held, að óhætt sé að segja, að bæði ráðherrar Alþfl. og Framsfl. og þingflokkar þeirra hefðu kosið að ganga hreinna til verks en gert var og þá umfram allt að hafa ráðstafanirnar myndarlegri og gagngerari.

Það verður að segjast af fullri hreinskilni, að vandamálið, sem við blasti við valdatöku stjórnar Hermanns Jónassonar sumarið 1956, var alls ekki leyst með ráðstöfununum í desember 1956. Ég vissi ekki þá og veit ekki enn. hvort ráðh. Alþb, var það ljóst eða ekki, en hitt vissi ég þá þegar, að ráðh. Framsfl. var það vel ljóst. Ráðstafanirnar í desember 1956 voru vissulega spor í rétta átt, að því er yfirfærslugjaldið snerti, en það var stigið með of miklu hiki og ekki nógu stórt. Grundvallarvandinn var óleystur. Ekki hafði verið tekið fyrir halla gagnvart útlöndum. Ekki var gripið í taumana í peningamálunum innanlands. Öflin, sem snúið höfðu verðbólguhjólinu, voru enn að verki. Gallar uppbótakerfisins hlutu áfram að segja til sín. Við þetta allt saman bættist svo, að árið 1957 var vegna lélegra aflabragða og lækkunar tekna af Keflavíkurflugvelli að ýmsu leyti mjög erfitt. Þess vegna var ráðherrum allra þeirra þriggja flokka, sem að ríkisstj. stóðu, orðíð það ljóst haustið 1957, að grípa þurfti til allróttækra ráðstafana til þess að ráða fram úr vandanum.

Hófust umræður um efnahagsmálin þegar haustið 1957, og sýndist enn sem fyrr sitt hverjum, þegar efnahagsmálin bar á góma. Þessar samningaviðræður stóðu í marga mánuði. Þeim lauk ekki fyrr en um vorið 1958, þegar samkomulag náðist um flutning efnahagsmálafrv. í maí það ár. Vandinn var af ýmsum sökum orðinn meiri vorið 1958 en hann hafði verið í desember 1956, ekki aðeins vegna þess, að árið 1957 hafði verið þjóðarbúskapnum óhagstætt, eins og ég gat um áðan, heldur einnig af ýmsum öðrum orsökum. Kaupgjald og verðlag hafði að vísu haldizt óbreytt að mestu, en annað hafði þó gerzt, sem aukið hafði mjög stærð vandamálsins. Ber þó fyrst og fremst að nefna það, að í þeim samningum, sem Lúðvík Jósefsson sjútvmrh. gerði við útgerðina fyrir hönd ríkisstj. um áramótin 1956–57 og aftur 1957–58, voru bætur og styrkir til sjávarútvegsins auknir mjög verulega og gengisskráningin gagnvart sjávarútvegi og landbúnaði þannig hækkuð mjög verulega, eða m.ö.o. krónan lækkuð í útflutningsverzluninni.

Við samráðherrar sjútvmrh. úr hinum stjórnarflokkunum voru honum sammála um, að hag sjávarútvegsins þyrfti að bæta um bæði áramótin, en við gerðum okkur hins vegar ljóst, að fjár þyrfti að afla til greiðslu bótaaukningarinnar. Við gerðum okkur m.ö.o. ljóst, að ef gengi krónunnar væri fellt í útflutningsverzluninni, væri að sjálfsögðu óhjákvæmilegt að fella það líka í innflutningsverzluninni.

En hér reyndust ráðh. Alþb. á öðru máli. Þeir voru jafntregir til þess að afla tekna til greiðslu bóta- og styrkjaaukningarinnar og þeir voru fúsir til að samþykkja þá aukningu. Þeir voru m.ö.o. jafntregir til gengislækkunar í innflutningsverzluninni og þeir voru fúsir til hennar í útflutningsverzluninni.

Meginorsakir þess, hve samningaumleitanirnar um efnahagsmálin drógust á langinn árin 1957–58, voru í raun og veru þær, að ráðh. Alþb. höfðu mjög mikinn áhuga á því að bæta kjör sjávarútvegsins með auknum bótum og styrkjum, en alls engan áhuga á því að afla tekna til að standa undir greiðslu bótaaukningarinnar. Það var og önnur ástæða til þess, að vandinn var orðinn stærri vorið 1958 en hann hafði verið í árslok 1956. Reynslan af þeirri aukningu bóta- og gjaldakerfisins, sem gerð var í desember 1956, var engan veginn góð. Það nýja misræmi, sem skapazt hafði í verðlagi ýmissa erlendra vörutegunda, hafði að mörgu leyti óheilbrigð áhrif, og áætlanir, sem gerðar höfðu verið um afkomu útflutningssjóðs, stóðust ekki, bæði af þessum sökum og vegna aflabrestsins 1957.

Þegar samningaviðræðurnar um efnahagsmálin stóðu sem hæst í ríkisstjórninni vorið 1958, lögðu ráðh. hvers stjórnarflokks um sig fram skriflegar till. sínar um það, hvernig ráða skyldi fram úr vandanum. Enginn ágreiningur var um það, að vandinn væri orðinn mjög mikill, þótt menn greindi hins vegar á um það, um hversu miklar fjárhæðir væri að ræða. Ég álít, að nú, þegar umræður hefjast hér á hinu háa Alþ. um frumvarp það um efnahagsmál, sem ríkisstj. hefur lagt fram, sé nauðsynlegt, að það komi fram, hvað flokkar þeir, sem að ríkisstj. Hermanns Jónassonar stóðu, lögðu til, að gert yrði í efnahagsmálunum vorið 1958. Segi ég þetta með sérstakri hliðsjón af því, sem málgögn samstarfsflokka Alþfl. í þeirri ríkisstj. hafa sagt um þær efnahagsráðstafanir, sem nú eru á döfinni, undanfarna daga og vikur. Allir stjórnarflokkarnir lögðu till. sínar fram skriflega í ríkisstj., og fengu allir ráðh. afrit af þeim. Ég minnist þess ekki, að opinberlega hafi verið frá þeim skýrt áður, en ég fæ ekki séð, að þær geti verið nokkurt leyndarmál nú. Þær varpa hins vegar mjög glöggu ljósi á afstöðu flokkanna þá og eru mjög fróðlegar til rétts skilnings á afstöðu flokkanna nú.

Till. Framsfl. hófust á greinargerð um uppbótakerfið og galla þess. Þar eð sú grg. er mjög vel samin og ber þess ljósan vott, að ráðherrum Framsfl. voru þá a.m.k. mjög ljósir gallar uppbótakerfisins, les ég grg. einnig og þannig skjal það í heild, sem ráðherrar Framsfl. lögðu fram í ríkisstjórninni í marz 1958. Það hljóðar þannig:

„Núverandi uppbótakerfi hefur eftirfarandi höfuðgalla, einkum vegna þess, hve uppbætur eru orðnar háar:

Þær atvinnugreinar, sem ekki hafa uppbætur, hljóta að dragast saman og að lokum að hverfa úr þjóðarbúskapnum.

Sá iðnaður og sú framleiðsla, sem keppir við þær aðfluttar vörur og þá erlenda þjónustu, sem nýtur sérstakra hlunninda í kerfinu, hlýtur að dragast saman.

Nýjar atvinnugreinar eða aukning annarra atvinnugreina en þeirra, sem hæstar fá uppbæturnar, koma tæplega til mála.

Þeir þættir sjávarútvegsins, sem búa við óhagstæðar uppbætur, svo sem togaraútgerð og síldveiðar fyrir Norðurlandi, hljóta að komast í þrot eða a.m.k. njóta sín miður en efni standa til.

Vegna þess, hve mikið er byggt á að afla tekna með háum aðflutningsgjöldum á óþarfavörur, hlýtur annaðhvort að draga til stórfelldrar aukningar á innflutningi óþarfavara og að sama skapi minnkandi innflutnings á nauðsynjum, sem leiðir til vöruskorts, eða þá að skorta hlýtur stórlega fjármagn til greiðslu uppbótanna og niðurgreiðslu á vörum innanlands, en á hvoru tveggja þessu ber nú mjög.

Þetta fyrirkomulag ber því með sér þá hættu, að framleiðslan dragist saman frá því, sem hún ella gæti orðið, og þjóðartekjurnar og þannig lífskjör almennings verði mun rýrari en verið gæti og rýrnandi. Enda þótt víssar ráðstafanir til þess að styðja einstakar atvinnugreinar eigi rétt á sér, þá er augljóst, að hið mikla misræmi í þjóðarbúskapnum, sem svo stórfellt uppbótakerfi veldur, er mjög hættulegt fyrir afkomu almennings. Brýna nauðsyn ber því til að gera nýjar ráðstafanir, sem geti orðið grundvöllur að nýjum framförum í þjóðarbúskapnum, aukinni framleiðslu í sem flestum greinum og aukinni fjölbreytni í framleiðsluháttum og þannig verði komið í veg fyrir rýrnun lífskjara og atvinnuleysi, sem að óbreyttu búskaparlagi sýnist óhjákvæmilegt. Fyrir því leggjum við til eftirfarandi:

Í stað uppbótakerfis þess, sem nú gildir, verði lögleitt almennt yfirfærslugjald á keyptan og seldan gjaldeyri, sem komi í staðinn fyrir núverandi útflutningsbætur annars vegar og 16% yfirfærslugjald svo og innflutningsgjald í uppbótakerfið hins vegar. Þetta gjald verði við það miðað, að bátaútvegurinn við þorskveiðar búi við eigi lakari kjör en nú. Jafnframt þessu séu aðflutningsgjöld hækkuð eins og fært þykir á þeim neyzluvörum, sem ekki teljast til brýnna nauðsynja, og það fé, sem þannig innheimtist, sé notað til þess að draga úr verðhækkunum á brýnustu nauðsynjum, einkum innlendum vörum, og til annarra ráðstafana, er miða til hagsbóta fyrir almenning. Séu þessar ráðstafanir gerðar í samráði við stéttasamtökin. Leitað verði samkomulags við launþegasamtökin og bændasamtökin um, að þau falli að einhverju leyti frá að taka kaupgjalds- og afurðahækkun samkv. framfærsluvísitölunni, til þess að komizt verði hjá óheppilegri víxlverkun til hækkunar á kaupgjaldi og afurðaverði, sem þó kæmi hvorugum aðilanum að gagni, sbr. samkomulagið um vísitölustigin 6 sumarið 1956 og í sambandi við löggjöfina um útflutningssjóð o. fl. Samráð verði haft við þessi samtök um megindrætti þessarar nýju stefnu í efnahags- og framleiðslumálum, verðlagspólitík og ráðstafanir til þess að halda uppi nægilegri atvinnu o.fl., o.fl. Leitað verði enn fremur samkomulags við launþegasamtökin um að taka upp nýjan grundvöll að kaupgjaldsvísitölu, sem að verulegu leyti væri miðuð við aukningu þjóðartekna, þjóðarframleiðslunnar. Gerðar séu ráðstafanir til þess, að samið verði um kjör fiskimanna við þessa nýju skipan. Áfram sé haldið ráðstöfunum til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Gerðar séu ráðstafanir til þess að vísitölutryggja sparifé framvegis í ríkara mæli en nú er gert og þá innleidd um leið að sama skapi vísitölubinding lána.“

Svo mörg eru þau orð.

Þetta var afstaða Framsfl. í marz 1958. Í grg. fyrir till. kemur það eins ljóst fram og verða má, að ráðherrum flokksins voru þá fullljósir allir gallar uppbótakerfisins. Þeim er í grg. fyrir till. í meginatriðum lýst á alveg sama hátt og í grg. fyrir þessu frv., sem nú er hér til 1. umr. Hitt er þó enn þá athyglisverðara, hvert er aðalatriði tillagna þeirra, sem Framsfl. lagði þarna fram í ríkisstjórn Hermanns Jónassonar.

Fyrsta atriði till. og aðalatriði þeirra var, að lögleitt yrði almennt jafnhátt yfirfærslugjald á bæði keyptan og seldan gjaldeyri, og skyldi það koma í staðinn fyrir 16% yfirfærslugjaldið, sem í gildi var, og sömuleiðis allar útflutningsbæturnar og innflutningsgjöldin, sem lögð hefðu verið á vegna útflutningsbótanna. Gjald þetta skyldi vera miðað við það, að bátaútvegurinn byggi á þorskveiðum við ekki lakari kjör en hann hafði.

Framsfl. lagði m.ö.o. til, að jafnhátt yfirfærslugjald skyldi tekið af öllum keyptum og seldum gjaldeyri. Innheimta slíks yfirfærslugjalds á bæði keyptan og seldan gjaldeyri jafngildir að sjálfsögðu algerlega hreinni gengisbreytingu. Till. Framsfl. vorið 1958 var því um hreina gengisbreytingu, þótt það orð væri að vísu ekki notað, en það var auðvitað ekki gert vegna þess, að vitað var, að Alþb. hafði fengið mikinn ímugust á opinberri gengisbreytingu eða orðinu gengislækkun. Hins vegar voru ráðherrar Alþb. auðvitað svo veraldarvanir, að þeir voru fljótir að svara því til, að hér væri um alveg hreina og ómengaða gengislækkun að ræða, eins og auðvitað var alveg rétt hjá þeim. Fyrir lágu útreikningar sérfræðinga ríkisstj. um það, hve slíkt almennt yfirfærslugjald þyrfti að vera hátt, til þess að bátaútvegurinn á þorskveiðum byggi við eigi lakari kjör en hann hafði, og niðurstaða þeirra útreikninga var sú, að gjaldið þyrfti að vera 90%. Almenna 16% yfirfærslugjaldið þurfti a.m.k. að hækka upp í 90%, og svaraði það því til 64% hækkunar á verði erlends gjaldeyris miðað við 16% gjaldið eða til 39% lækkunar á gengi íslenzku krónunnar.

Vorið 1958 var því skoðun ráðh. Framsfl. sú, að 39% lækkun á gengi krónunnar væri nauðsynleg, þótt þeir settu till. um gengisbreytinguna að vísu fram í því formi, að komizt yrði hjá orðinu „gengisbreyting“, ef það mætti verða til þess, að Alþb. féllist frekar á breyt. Þegar það er haft í huga, að ráðh. Framsfl. voru allan tímann, sem ríkisstjórn Hermanns Jónassonar sat, eindregið fylgjandi gengisbreytingu og lögðu meira að segja fram skriflega till. í ríkisstjórninni í marz 1958, þar sem gert var ráð fyrir 39% lækkun á gengi krónunnar, þá hlýtur andstaða þess flokks gegn þessu frv. nú að fá á sig nokkuð sérstakan blæ.

Þá ætla ég að lofa þingheimi að heyra þær till., sem ráðh. Alþb. lögðu fram í ríkisstjórninni í marzlok 1958. Þær voru í 7 liðum og hljóða þannig:

1) Lánveitingar fjárfestingarsjóða, svo sem ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs, séu stranglega miðaðar við tekjur og eignir sjóðanna og beinar erlendar lántökur.

2) Endurkaupalán í Seðlabankanum hækki alls ekki miðað við 1. jan. 1958, nema í samræmi við auknar útflutningsbirgðir af seljanlegri vöru.

3) Viðskiptabankarnir auki ekki skuldir sínar við Seðlabankann á árinu 1958.

4) Lán það, sem nú er verið að semja um í Sovétríkjunum, verði 100 milljónir króna, þar af 33–50 milljónir króna í frjálsum gjaldeyri. Láninu verði eingöngu varið til greiðslu á fiskiskipum, — 58 millj. kr. gengju til greiðslu á þegar keyptum skipum, 17 að tölu. Kæmu þá þær fjárhæðir, sem þegar hafa verið greiddar vegna þeirra skipa, sem laus gjaldeyrir. Það, sem eftir er af láninu, gangi til báta- og togarakaupa 1958, og ætti þá ekki að þurfa að taka neitt af gjaldeyristekjum ársins til fiskiskipakaupa.

5) Gerð verði áætlun um skiptingu gjaldeyrissölunnar á árinu og tryggilega gengið frá því, að eftir henni verði farið. Í áætluninni sé miðað við: 1) Gjaldeyrissala verði svipuð og árið 1957, og sé ekki miðað við, að gjaldeyrisstaðan geti batnað á árinu, nema gjaldeyristekjur fari vaxandi. 2) Gjaldeyrissala til hátollavöru sé 10% meiri en 1957. 3) Gjaldeyrissala til fjárfestingar sé 20% minni en 1957. 4) Dregið sé úr gjaldeyrissölu til véla- og tækjakaupa og takmörk sett á gjaldeyrissölu til nokkurra vöruflokka.

6) Dregið verði úr fjárfestingu á árinu, m.a. með því að veita 20-30% minni fjárfestingarleyfi en gert var 1957.

7) Útgjöld ríkissjóðs vegna framkvæmda verði lækkuð frá fjárlögum um ca. 20 millj. kr. og þannig dregið úr fjárfestingu af hálfu ríkisins.

Og hér lýkur tillögunum.

Það, sem fyrst og fremst er athyglisvert við þessar till., er, að þar vottar ekki fyrir neinum skilningi á göllum uppbóta- og styrkjakerfisins. Hins vegar kemur í fyrstu 3 liðunum fram ákveðinn skilningur á nauðsyn þess, að bankarnir dragi mjög verulega úr útlánum sínum. Er þetta í áberandi ósamræmi við málflutning Alþb. á opinberum vettvangi bæði fyrr og síðar. Að öðru leyti eru aðalatriði tillagnanna þrjú:

1) 100 millj. kr. lántaka í Sovétríkjunum, sem meira að segja að þriðjungi til helmingi átti að vera í frjálsum gjaldeyrí.

2) Innflutningur á hátollavörum eða óhófsvöru skyldi aukinn til þess að færa útflutningssjóði auknar tekjur.

3) Dregið skyldi mjög verulega úr fjárfestingu eða framkvæmdum, bæði einkaaðila og opinberra aðila, og úr innflutningi véla og tækja.

Það er í fyrsta lagi mjög einkennandi fyrir afstöðu Alþb. fyrr og síðar að vilja leysa efnahagsvandamál með lántökum. Og það er í öðru lagi mjög einkennandi fyrir afstöðu þess flokks, að hann vill, að lánin, sem tekin séu, séu tekin í Sovétríkjunum. Þó má segja um þennan lið tillagnanna, að hann sé í samræmi við opinberan málflutning Alþb., því að ekki hefur verið dregin dul á það, að Alþb. telji stóra lántöku í Sovétríkjunum eðlilega og jafnvel sjálfsagða. Annað atriði tillagnanna er hins vegar í ósamræmi við það, sem Alþb. hefur viljað kannast við sem stefnu sína, þ.e.a.s. till. um að auka innflutning á hátollavöru eða óhófsvöru. En sú till. stendur þarna svört á hvítu. Það, sem er allra athyglisverðast við till. ráðherra Alþb. í marzlok 1958, er þó sá þáttur þeirra að leysa vandamálið með því að draga mjög verulega úr framkvæmdum í landinu.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hver áhrif það hefði haft á framkvæmdir í landinu, ef á árinu 1958 hefði verið seldur fimmtungi minni gjaldeyrir til þess að flytja inn fjárfestingarvörur en gert hafði verið á árinu 1957 og ef mjög verulega hefði verið dregið úr gjaldeyrissölu til véla- og tækjakaupa. En Alþb.-ráðherrarnir voru sjálfum sér alveg samkvæmir þá, því að þeir lögðu einnig til að draga svo stórkostlega úr veitingu fjárfestingarleyfa, að leyfisveitingarnar yrðu 20–30% minni 1958 en þær höfðu verið 1957 og að útgjöld ríkisins á fjárlögum vegna framkvæmda lækkuðu einnig. Þetta meginatriði tillagna þeirra frá því í marz 1958 er sannarlega í ekki litlu ósamræmi við málflutning Alþb. gagnvart almenningi bæði þá og ekki síður nú.

Í heild má segja um þessar till. Framsfl. og Alþb. vorið 1958, að á þeim báðum voru bæði kostir og gallar. Till. Framsfl. báru þess ljósan vott, að hann skildi þá stórgalla uppbótakerfisins og vildi gengisbreytingu. Hins vegar báru þær líka vott um, að flokkurinn hafði engan skilning á nauðsyn jafnhliða ráðstafana í peningamálum og fjárfestingarmálum. Till. Alþb. báru hins vegar vott um, að ráðh. þess skildu nauðsyn breytinga í peningamálum og fjárfestingarmálum, en skorti hins vegar allan skilning á göllum uppbótakerfisins og nauðsyn hreinnar stefnu í gengismálinu.

Ég skal nú að síðustu lofa þingheimi að heyra till. þær, sem ráðherrar Alþfl. lögðu fram í ríkisstj. vorið 1958, en þær hljóða þannig:

1) Í stað núverandi útflutningsbóta komi eitt gjald, er sé ákveðinn hundraðshluti af fobverðmæti og greiðist útflytjendum í bönkum, er þeir afhenda gjaldeyri. Sé gjald þetta miðað við það að veita bátaútveginum sömu rekstrarafkomu og hann býr nú við. Um leið og þetta gjald væri ákveðið, væru kjarasamningar sjómanna endurskoðaðir, sama gjald greitt á allar tegundir útflutnings og duldar gjaldeyristekjur vegna skipa og flugvéla.

2) Í stað núverandi 16% yfirfærslugjalds og innflutningsgjalda komi þrjú mismunandi yfirfærslugjöld. Í fyrsta lagi lággjald, gjald á nauðsynlegustu neyzluvörur, er væri svipað eða lítið eitt hærra en núverandi 16% yfirfærslugjald. Þetta gjald væri greitt af þeim neyzluvörum fyrst og fremst, sem nú eru með yfirfærslugjaldi, en án innflutningsgjalda. Þetta gjald væri enn fremur á yfirfærslum vegna náms- og sjúkrakostnaðar. Gert er ráð fyrir, að innlendar landbúnaðarvörur hækki ekki meir en erlendar neyzluvörur. Í öðru lagi almennt gjald. Þetta gjald væri sama og greitt væri á útflutning. Greiddist það af öllum almennum innflutningi, þar með taldar rekstrarog fjárfestingarvörur, enn fremur af öllum duldum greiðslum, að yfirfærslum vegna námsog sjúkrakostnaðar undanskildum. Í þriðja lagi hágjald. Þetta gjald væri miklu hærra en hið almenna gjald til þess að vega upp á móti lággjaldinu. Greiðist það fyrst og fremst af þeim vörum, sem nú eru í 55, 70 og 80% innflutningsgjaldaflokknum.

3) Greiðsla gjaldsins fari fram í bönkum, þegar gjaldeyririnn er yfirfærður. Þó færi endanleg flokkun vara eftir yfirfærslugjöldum fram við tollafgreiðslu, og væru þá hinar upphaflegu greiðslur yfirfærslugjalda í bönkunum leiðréttar, ef flokkunin þar reynist röng.

4) Verðtollur og söluskattur á innflutningi væri reiknaður af fob-verði að viðbættu lággjaldi eftir 1. flokki og hinu almenna gjaldi í 2. og 3. flokki. Athugaðir væru möguleikar á því að hækka almenna tolla á nokkrum þeim vörum, sem nú bera lægst innflutningsgjöld. Væru tekjur af tollhækkuninni m.a. notaðar til þess að auka fjölskyldubætur og ellilífeyri, lækka tekjuskatta eða á annan hátt til að rétta hlut launafólks.

5) Leitað sé samkomulags við samtök launþega og bænda um, að samið verði samtímis til eins árs í senn um kaupgjald og verð landbúnaðarafurða.

Og lýkur þar till. Alþfl.

Við í Alþfl. gerðum okkur að sjálfsögðu alveg ljóst, að algerlega vonlaust væri að fá Alþb. til þess að fallast á þá umbúðalausu gengisfellingu, sem Framsfl. lagði til, auk þess sem Framsfl. lagði ekki til neinar þær hliðarráðstafanir, sem Alþfl. taldi þá og telur enn að verði að gera samhliða gengisbreytingu. Í 4. lið till. Alþfl. var einmitt gert ráð fyrir því að afla með sérstökum hætti tekna, til þess að unnt væri að auka fjölskyldubætur og ellilífeyri og lækka tekjuskatta.

Framsfl. sýndi engan áhuga á þessum þáttum í till. Alþfl. og Alþb. raunar ekki heldur. Í núverandi ríkisstj. hefur það hins vegar verið talið sjálfsagt af báðum stjórnarflokkunum, að samhliða því, sem breyting yrði gerð á genginu, verði gerð stórkostleg aukning á bótum almannatrygginganna og felldur niður tekjuskattur af almennum launatekjum.

Þegar menn bera þessar tili. saman við efni efnahagsmálafrv. frá því í maí 1958, er augljóst, að í aðalatriðum svipar því mest til þeirra till., sem ráðh. Alþfl. lögðu fram. Þar var ekki um að ræða hreina gengisbreytingu, eins og ráðh. Framsfl. lögðu til. Þar var ekki heldur um að ræða ráðstafanir til almenns niðurskurðar á framkvæmdum, aukningu á hátollavöruinnflutningi, sem greiddur yrði með lántöku í Sovétríkjunum, án þess að nokkrar breytingar yrðu á aðstöðu útflutnings og innflutnings, þ.e. á raunverulegri gengisskráningu í útflutningi og innflutningi, eins og ráðherrar Alþb. lögðu til.

Eins og menn muna, var bótakerfið allt með lagasetningunni gert mun einfaldara en áður var og þrjár bótaupphæðir eða þrjú gengi lögtekin í útflutningnum, 55%, 70% og 80% bætur, og enn fremur ákveðnir þrír aðalgjaldaflokkar í innflutningnum, 30% lággjaldaflokkur, 55% almennur yfirfærslugjaldaflokkur og síðan hágjaldaflokkur með 3 tegundum gjalda á vörur, sem telja mátti til óhófsvarnings.

Þótt enginn vafi geti leikið á því, að löggjöfin frá því í maí 1958 var mjög stórt spor fram á við til leiðréttingar á því misræmi, sem ríkjandi var í efnahagskerfinu, og til stuðnings heilbrigðum útflutningi og heilbrigðri framleiðslustarfsemi fyrir innanlandsmarkað, þá er því ekki að neita, að sporið var ekki stigið til fulls. Útflutningsbótakerfinu var enn haldið, og þar með héldust allir þeir ágallar, sem á slíku kerfi eru. Hitt var þó ekki síður mikilvægt, að ekki var samræmi milli þeirra heildarútflutningsbóta, sem greiddar voru, og þeirrar heildaryfirfærslu- og innflutningsgjalda, sem innheimt voru. Útflutningsbæturnar voru í heild hærri en yfirfærslu- og innflutningsgjöldin, svo að halli var í kerfinu, — halli, sem ekki var hægt að jafna nema með því að halda áfram að taka erlend lán, auka lausaskuldir bankanna erlendís og hagnast á viðskiptum við varnarliðið á Keflavíkurflugvellí.

Þetta var ljóst frá upphafi. Á þessu er ógerningur að ráða bót nema með því að innheimta jafnhá gjöld af öllum innflutningi og annarri gjaldeyrisnotkun og greidd eru með útflutningi og annarri gjaldeyrisöflun, elns og Framsfl. lagði til vorið 1958 og í raun og veru er gengislækkun, þótt formlegri skráningu gengis í bönkunum sé ekki breytt, eða þá með því að breyta skráningu gengis í bönkunum, eins og gert er ráð fyrir í frv., sem hér er nú til umræðu, og er auðvitað hreinni og í alla staði heilbrigðari aðferð.

Það er mjög athyglisvert að bera nokkuð saman ráðstafanirnar frá vorinu 1958, sem þeir þrír flokkar, er stóðu að ríkisstj. Hermanns Jónassonar, urðu sammála um, og ráðstafanir þær, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. og þeim öðrum, sem því eru tengd og bráðlega verða lögð fyrir Alþingi.

Þegar ráðstafanirnar vorið 1958 voru gerðar, var gert ráð fyrir því, að af þeim mundi hljótast 19 stiga hækkun á framfærsluvísitölunni, eða milli 11 og 12% hækkun framfærslukostnaðar. Á móti þeirri hækkun skyldi koma aðeins 5% hækkun grunnkaups. Það var því ekki gert ráð fyrir, að launþegar fengju bættan nema tæplega helming þeirrar verðhækkunar, sem áætlað var að mundi eiga sér stað. Um þetta urðu Framsfl. og Alþb. sammála í maí 1958. Þá samþ. þeir m.ö.o. löggjöf, sem gerði beinlínis ráð fyrir 5–6% kjaraskerðingu. En þá voru þeir báðir aðilar að ríkisstj., og það sem meira var, þeir ætluðu sér báðir að vera aðilar að ríkisstj. áfram. Með hliðsjón af þessu hlýtur að vekja furðu hin hatramma andstaða þeirra gegn þeim ráðstöfunum, sem nú er gert ráð fyrir og hafa munu í för með sér 13%o verðlagshækkun, sem þó verður bætt að meira en 3/4, þannig að um aðeins 3% kjaraskerðingu verður að ræða fyrir þá fjölskyldu, sem framfærslukostnaður vísitölunnar er miðaður við, en hins vegar alls enga kjaraskerðingu fyrir stærri fjölskyldur og nokkra aðra hópa í þjóðfélaginu.

Með sérstakri hliðsjón af því, að Alþb. og Framsfl. telja þá gengisbreytingu, sem ríkisstjórnin nú leggur til, óhæfilega og jafnframt gífurlega kjaraskerðingu, er mjög fróðlegt að athuga, hverjar breytingar urðu á útflutningsbótum og gjöldum á innflutning á valdatíma stjórnar Hermanns Jónassonar, því að öllum hv. þm. er áreiðanlega ljóst, að hækkun á meðalbótum og meðalgjöldum á innflutningi jafngildir gengislækkun.

Ríkisstj. Hermanns Jónassonar gerði fyrstu ráðstafanir sinar ekki fyrr en í árslok 1956, og þær höfðu því ekki áhrif fyrr en á árinu 1957. Á árinu 1956 voru meðalbætur á útflutning 24.8%, og svarar það til kr. 20.40 gengis á dollar. Eftir að ríkisstjórn Hermanns Jónassonar hafði gert síðustu ráðstafanir sínar í maí 1958, voru meðalútflutningsbætur orðnar 76.6%, en það svarar til kr. 28.90 gengis á dollar.

Hækkun þess meðalgengis, sem útflutningurinn fékk, nam þannig 43% á valdatíma stjórnar Hermanns Jónassonar, en það svarar til 30% lækkunar á gengi krónunnar.

Meðalgjöld á innflutningi voru 1956 18%, en það svarar til kr. 19.20 gengis á dollar. Eftir ráðstafanirnar í maí 1958 voru meðalgjöldin á innflutningi orðin 68.5%, en það svarar til kr. 27.50 gengis á dollar. Þetta er um það bil sama hækkun á meðalgjöldum og bótunum, eða um 43%, og er þar með 30% lækkun á gengi krónunnar í innflutningnum eins og í útflutningnum.

Sú gengisbreyting, sem ríkisstj. nú leggur til, er 20% lækkun á gengi krónunnar í útflutningi og 34% lækkun í innflutningi. Þessi gengislækkun er m.ö.o. minni en sú gengislækkun á krónunni, sem ríkisstj. Hermanns Jónassonar lögleiddi í nokkrum áföngum á 21/2 árs valdatíma sínum, þar eð hún nam 30% bæði í útflutningi og innflutningi.

Er hægt að taka alvarlega hina hörðu fordæmingu Framsfl. og Alþb. á gengisbreytingunni nú, þegar þetta er haft í huga?

Svo að ég víki aftur að þróuninni á árinu 1958, þá er öllum enn í fersku minni, að öðruvísi fór þá en ætlað var. Launahækkanirnar urðu miklu meiri en þau 5%, sem lögin höfðu gert ráð fyrir. Í október 1958 var samið um 16.2% launahækkun hjá verkamönnum eða um 10.7% umfram það, sem ráðstafanirnar í maí voru miðaðar við. Hjá flestum öðrum stéttum höfðu hækkanirnar orðíð 12.5%, eða 7% umfram það, sem lögin gerðu ráð fyrir. Við þá hækkun var verð landbúnaðarafurða miðað í september 1958. Um haustið áætlaði hagstofan, að vísitala framfærslukostnaðar mundi alls hækka um 31 stig vegna ráðstafananna í maí, þeirra kauphækkana, sem síðar höfðu átt sér stað, og þeirrar hækkunar álagningar, sem um haustið var leyfð með samþykki bæði fulltrúa Framsfl. og Alþb. í innflutningsskrifstofunni. 1. des. var vísitalan síðan komin upp í 202 stig, og þýddi það, að almennt verkamannakaup var orðið 21% hærra en það kaup, sem útflutningsbætur voru miðaðar við 1. maí 1958, og annað kaup 17% hærra.

Ef þessi þróun hefði verið látin halda áfram, var talið, að haustið 1959 hefði vísitalan verið komin í 270 stig eða hefði hækkað um um það bil fjórðung á einu ári.

Þessir erfiðleikar urðu stjórn Hermanns Jónassonar, eins og kunnugt er, að falli fyrir áramótin 1958 og 1959.

Það var augljóst mál, að kauphækkanirnar á síðari hluta ársins 1958 voru algerlega óraunhæfar. Það var í raun og veru viðurkennt af öllum 3 stjórnarflokkunum og kom fram í því, að Framsfl. lagði til í síðustu tilraununum, sem gerðar voru til þess að halda stjórnarsamstarfinu áfram, að launþegar gæfu eftir bótalaust sem svaraði 15 vísitölustigum. Fulltrúar Alþb. játuðu líka, að kauphækkunin hafi verið óraunhæf, með því að telja sig reiðubúna til þess að taka til athugunar eftirgjöf, sem svaraði 6 vísitölustigum.

Alþfl. taldi hins vegar, að eftirgjöf 10 vísitölustiga mundi nægileg til þess að halda jafnvægi á árinu 1959, miðað við óbreyttar aðstæður að því er snerti útflutningsbætur, innflutningsgjöld og notkun lánsfjár til þess að halda uppi innflutningi.

Þetta varð og sú stefna, sem framkvæmd var af stjórn Emils Jónssonar, sem mynduð var með hlutleysi Sjálfstfl. í desember 1958. Verðlag var greitt niður sem svaraði 17 stigum og kaup síðan lækkað sem svaraði 10 vísitölustigum, eða um 5.4%. Nam sú kauplækkun ekki jafnmiklu og kauphækkunin hafði numið seinni hluta ársins 1958, þannig að tekjur launþega urðu í krónum hærri árið 1959 en þær höfðu verið 1958.

Það verður að taka skýrt fram, að ráðstöfunum stjórnar Emils Jónssonar í efnahagsmálum var aldrei ætlað að vera varanleg lausn á þeim vanda, sem við blasti, þegar ríkisstjórn Hermanns Jónassonar tók við sumarið 1956, en tókst ekki að leysa nema að takmörkuðu leyti. Takmark ráðstafananna var fyrst og fremst að stöðva þá geysilega öru verðbólguþróun, sem átti sér stað siðari hluta árs 1958 og hefði leitt til enn örari verðbólguþróunar á árinu 1959 og 1960, ef ekkert hefði verið að gert. Það má fullyrða, að ef hinn sívaxandi snúningur verðbólguhjólsins hefði ekki verið stöðvaður, væri gamla vísitalan nú ekki undir 270 stigum. Hefði, miðað við þær aðstæður, átt að skapa útflutningsatvinnuvegunum hliðstæð kjör og nú er gert, hefði gengið á Bandaríkjadollar þurft að vera um það bil 60 kr. í stað þeirra 38 kr., sem nú eru nægjanlegar til að tryggja þeim óbreytt kjör frá því, sem nú er. Það er slík þróun, sem ríkisstj. Emils Jónssonar setti sér að koma í veg fyrir, og það tókst.

Á árinu 1959 var stöðugt verðlag og kaupgjald, útflutningsframleiðslan gekk með eðlilegum hætti, og innflutningur var einnig með eðlilegu móti fram á síðustu mánuði ársins. Stefnan, sem stjórn Emils Jónssonar markaði í upphafi, var við það miðuð, að notað væri það erlent lánsfé, sem gert var ráð fyrir að fáanlegt yrði og var svipað og notað hafði verið árlega árin áður. Þótt ekki væri í raun og veru notaður nema nokkur hluti þessa lánsfjár, tókst samt að halda jafnvægi mestan hluta ársins, og það var ekki fyrr en á síðustu mánuðum ársins, sem mjög alvarlegir gjaldeyriserfiðleikar gerðu vart við sig, vegna þess að dráttur varð á útflutningi birgða. Þá hófst sú mikla gjaldeyriskreppa, sem nú stendur yfir og án efa mundi leiða til alvarlegrar stöðvunar í útflutningsframleiðslu, iðnaði og innflutningsverzlun, ef ekki væri nú gripið gagngert í taumana, eins og ríkisstjórnin leggur til að gert sé. Á þetta verður að leggja sérstaka áherzlu, að ríkisstj. Emils Jónssonar skoðaði það aldrei verkefni sitt að ráða varanlega bót á þeim göllum efnahagskerfisins, sem leiðir af því, að það er bóta- og styrkjakerfi, sem haldið hefur verið gangandi með erlendum lántökum.

Stefna ríkisstj. var við það miðuð að halda jafnvægi í efnahagslífinu á árinu 1959, meðan bráðnauðsynlegar breytingar yrðu gerðar á kjördæmaskipun landsmanna, og búa þannig í haginn fyrir meirihlutastjórn, sem vitað var að hlyti að taka við völdum eftir síðari kosningarnar, sem kjördæmabreytingin gerði nauðsynlegar.

Þetta tókst með ráðstöfununum í marz 1959. Þær tryggðu jafnvægi á því ári og komu í veg fyrir, að vandinn, sem við yrði að glíma fyrir nýja meirihlutastjórn, yrði enn miklu stærri og óviðráðanlegri en hann hefur nú reynzt.

Ég skal að síðustu fara fáum orðum um það, sem ég tel vera kjarna þeirra ráðstafana, er ríkisstj. leggur nú til að gerðar verði. Í raun og veru hvíla þessar ráðstafanir á fjórum hornsteinum.

Hinn fyrsti er, að skráð sé rétt gengi og að allar greinar útflutningsframleiðslunnar njóti sama gengis. Með réttu gengi á ég við gengisskráningu, sem veitir heilbrigðri útflutningsframleiðslu skilyrði til þess að greiða nauðsynlegan framleiðslukostnað innanlands.

Annar hornsteinninn er sá, að stjórn peningamála sé heilbrigð, þ.e. bankarnir láni ekki meira fé en þeir fá til umráða með heilbrigðum sparnaði þjóðarinnar, að fjárlög séu hallalaus og að vextir séu þannig, að hægt sé að fullnægja eðlilegri eftirspurn án strangrar skömmtunar.

Þriðji hornsteinninn er afnám þeirra hafta, sem enn hvíla á innflutningsverzluninni hér á landi, þótt allar nágrannaþjóðir, hvort sem þeim er stjórnað af vinstri sinnuðum eða hægri sinnuðum flokkum, hafi afnumið slík höft hjá sér, enda hafa þau lamandi áhrif á viðskipti, draga úr afköstum þjóðarbúsins, takmarka vöruúrval og viðskiptaþjónustu og geta jafnvel orðið undirrót spillingar í viðskiptalífinu.

Fjórði hornsteinninn, sem brýna nauðsyn ber til, að ekki sé síður traustur en hinir, er stóraukning eða meiri en tvöföldun á bótum almannatrygginganna og afnám tekjuskatts af almennum launatekjum, þ.e. ráðstafanir til þess að draga úr þeirri byrði, sem viðreisn efnahagslífsins hlýtur að hafa í för með sér í bráð fyrir þjóðarheildina.

Alþfl. telur, að með því að stuðla að framkvæmd þessara ráðstafana sé hann að gera rétt. Það væri bæði óhyggilegt og óheiðarlegt að reyna að leyna sjálfan sig eða aðra því, að sú viðreisn atvinnu- og viðskiptalífsins, sem nú er nauðsynleg, kostar þjóðarheildina nokkra fórn í bráð. En Alþfl. hefur ávallt talið það höfuðmarkmið stefnu sinnar að tryggja öllum stöðuga atvinnu við sem hæstu kaupi. Ef ekki væri nú snúið við á þeirri braut, sem gengin hefur verið undanfarin ár, er öldungis víst, að atvinnuvegirnir hefðu vegna gjaldeyrisskorts lent í þvílíkum erfiðleikum alveg á næstunni, að atvinnuleysi hefði verið á næsta leiti og skollið yfir innan skamms. Það eru brýnir hagsmunir þjóðarheildarinnar, að komið sé í veg fyrir slíkt. Nokkur fórn í bráð er vel þess virði, ef þetta mætti takast. Þess vegna telur Alþfl. sig vera að gera rétt með því að stuðla að framkvæmd þessara ráðstafana. Auk þessa er þess að geta, að samhliða þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru atvinnu og viðskiptalífinu til viðreisnar, eru gerðar viðtækar ráðstafanir öllum almenningi til hagsbóta.

Þegar Alþfl. lagði til í vínstri stjórninni, að almannatryggingarnar yrðu auknar og tekjuskattar lækkaðir, hlaut það engar undirtektir hjá Framsfl. eða Alþb., eins og ég gat um áðan. Þeim mun ánægjulegra er það, að báðir núverandi stjórnarfl. skuli hafa talið jafnstórkostlega aukningu á bótum almannatrygginganna og jafnalgert afnám tekjuskatts af almennum launatekjum og raun ber vitni sjálfsagða.

Meginefni heildartillagna ríkisstj. er því annars vegar að leggja traustan grundvöll að heilbrigðu atvinnu- og viðskiptalífi og hins vegar að endurskipta þjóðartekjunum þannig, að byrðarnar, sem bera verður í bráð vegna endurskipulagningar efnahagskerfisins, dreifist af fyllsta réttlæti á þjóðfélagsþegnana. Þetta er sumpart alger þjóðarnauðsyn og sumpart fyllsta réttlætismál.