05.02.1960
Neðri deild: 23. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (1986)

48. mál, efnahagsmál

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti: Áður en ég vík að því máli sérstaklega eða almennt, sem hér liggur fyrir, vildi ég beina einni fyrirspurn til hæstv. ríkisstjórnar vegna atriðis, sem er hér í grg., en kemur hins vegar ekki nægilega ljóst fram, hvað er átt við, en þetta atriði er um það, að samkv. lögum um útflutningssjóð frá 1958 sé ákveðið að kaupa gjaldeyri af varnarliðinu á 16 kr. og selja hann aftur á 25 kr. og þaðan af hærra verði, en svo er sagt, að með hinni ráðgerðu gengisbreytingu sé ætlunin að hverfa frá þessu fyrirkomulagi og að því er manni virðist að borga þá varnarliðinu fyrir dollarann samkvæmt gengisbreytingunni. Þetta hlýtur að sjálfsögðu að hafa það í för með sér, að gjaldeyristekjur þjóðarinnar frá varnarliðinu hér hljóta að verða miklu minni en þær hafa verið að undanförnu. Svo segir að vísu síðar í grg., að það standi yfir sérstakir samningar milli ríkisstj. og Bandaríkjastjórnar um að haga þessu nokkuð á annan veg, þannig að tjón Íslendinga af þessu verði fyrst í stað ekki eins mikið og gengisbreytingin gefur til kynna. Mig langar til að fá upplýst, ef hæstv. ríkisstj. væri við því búin, hvernig hún hefur hugsað sér framkvæmdina á þessu atriði og hvort lokið sé samningum milli hennar og Bandaríkjastjórnar um þetta atriði, en það skiptir talsverðu fyrir málið að vita, hvernig framkvæmdinni í þessu efni verður háttað.

Ég verð nú að játa það, þó að mér þyki leiðinlegt að gera það, vegna þess að ég hef talið hæstv. ráðh. Gylfa Þ. Gíslason allgóðan viðskmrh., að hann hefur gert frekar fátt í seinni tíð, sem mér finnst ástæða til þess að þakka honum fyrir. Þess vegna gleður það mig, að mér finnst, að ég hafi sérstaka ástæðu til að þakka honum fyrir það að upplýsa hér í ræðu sinni áðan um þær tillögur, sem ráðherrar Framsfl. lögðu fram í vinstri stjórninni á sínum tíma og hafa ekki verið birtar fyrr en nú. Ástæðan til þess, að ég sé ástæðu til þess að þakka hæstv. viðskmrh. fyrir þessar upplýsingar, er sú, að þessar tillögur, sem ráðherrar Framsfl. lögðu fram í vinstri stjórninni, sýna það glögglega, að Framsfl. hefur sömu stefnu í ríkisstj. og í stjórnarandstöðu. Meginatriði þeirra till. ráðherra Framsfl., sem viðskmrh. las hér upp, hnigu í þá átt, að uppbyggingarstefnunni skyldi haldið áfram af fullum krafti og staðið gegn samdráttarstefnunni af frekasta megni. Þetta var höfuðatriðið í þeim till., sem hann las upp. Þetta var stefna Framsfl., meðan hann var í ríkisstj., og þetta er líka stefna hans nú, í stjórnarandstöðunni, sem á einn meginþátt í því, að hann beitir sér gegn því, sem hæstv. ríkisstj. ætlar að gera með því frv., sem hér liggur fyrir.

Þá kom það fram í ræðu hæstv. viðskmrh., að hann taldi gæta nokkurs ósamræmis í því hjá Framsfl. að vera á móti þessu frv., vegna þess að hann hefði áður staðið að gengislækkunum, bæði beinum og óbeinum. Í sambandi við það finnst mér rétt að láta það koma fram, að það er meginmisskilningur, að Framsfl. sé fyrst og fremst á móti þessu frv. vegna þess, að í því felist gengisbreyting. Það er alveg rétt, að Framsfl. hefur oft áður verið með ráðstöfunum, sem hafa falið í sér ýmist beina eða óbeina gengisbreytingu, og þær aðstæður geta vel legið fyrir hendi og geta jafnvel legið fyrir hendi nú, að þurfi að gera einhverjar slíkar ráðstafanir, einhverjar þær ráðstafanir, sem fela í sér beina eða óbeina breytingu á genginu. En það, sem um er deilt í sambandi við þetta mál, er ekki þetta. Það, sem um er deilt hér, er það, hve mikil sú gengisbreyting eigi að vera, sem hér þarf að gera, hvernig sem hún verður gerð, og hvernig hún verði framkvæmd og hvaða ráðstafanir gerðar verði í sambandi við hana. Það er í þessu tvennu, sem meginástæðan liggur fyrir því, að Framsfl. er á móti þessum ráðstöfunum, Í fyrsta lagi er það vegna þess, að við teljum gengislækkunina eða gengisbreytinguna, sem hér er gerð, vera óhæfilega mikla, fela í sér miklu meiri kjaraskerðingu en nokkur ástæða sé til, eins og ég mun koma að síðar. Hin ástæðan, sem er jafnvel enn stærri, er sú, hvernig á að framkvæma þessa gengisbreytingu og hvaða ráðstafanir á að gera í sambandi við hana. Það sýndi sig ljósast í þeim till. ráðh. Framsfl. í vinstri stjórninni, sem hæstv. viðskmrh. las hér áðan, að það er alveg útilokað, að Framsfl. geti undir neinum kringumstæðum, ef hann á að fylgja þeirri stefnu, sem hann hefur haft og hefur enn, fylgt þeim meginráðstöfunum, sem gert er ráð fyrir í sambandi við gengislækkunina. Það hefur aldrei getað komið fyrir og getur ekki komið fyrir, að Framsfl. fylgi jafnmikilli vaxtahækkun og hér er ráðgerð. Það er gersamlega útilokað vegna þeirrar uppbyggingarstefnu, sem flokkurinn fylgir. Það hefur líka verið útilokað og verður útilokað vegna þeirrar stefnu, sem Framsfl. hefur, að hann geti fylgt jafnmiklum samdrætti í útlánum bankanna og hér er ráðgerður, og þeirri skerðingu á framkvæmdum, sem af því hlýtur að leiða. Það er jafnframt alveg útilokað vegna þeirrar stefnu, sem Framsfl. hefur fylgt á undanförnum árum og fylgir enn, að hann geti sætt sig við þá skerðingu á framlögum til verklegra framkvæmda, sem felst í fjárlagafrv. Vegna þeirrar uppbyggingarstefnu og framfarastefnu, sem flokkurinn fylgir, er það fullkomlega útilokað, að hann geti stutt ráðstafanir eins og þessar. Margt fleira mætti nefna, sem hnígur í þessa átt, sem veldur því, að Framsfl. hlýtur að beita sér gegn þeim ráðstöfunum, sem hér eru ráðgerðar, vegna þeirrar stefnu, sem hann hefur fylgt á undanförnum árum og hann mun fylgja í framtíðinni.

Ég held það sé rétt að víkja þá nokkrum orðum að því, sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh.

Hæstv. forsrh. var ákaflega kampakátur og státinn yfir því, að með því frv., sem hér lægi fyrir, væri nú Sjálfstfl. í raun og veru að framkvæma þá stefnu, sem hann hefði lofað hæstv. kjósendum í seinustu kosningum. Mér finnst rétt að athuga þetta nokkru nánar, og vegna þess, hvernig sjálfstæðismenn settu upp sína kosningastefnuskrá fyrir seinustu kosningar, er tiltölulega auðvelt að gera þetta. Sjálfstfl. útbjó sína kosningastefnuskrá með þeim hætti, að hann dró hana saman í sex aðalatriði, og með því að minnast á þessi aðalatriði og bera svo frv. saman við þau má mjög glögglega sjá og í tiltölulega stuttu máli, hvernig Sjálfstfl. fer að því að framkvæma þau loforð, sem hann gaf hv. kjósendum fyrir seinustu kosningar.

Fyrsta atriðið í stefnuskránni, sem Sjálfstfl. birti fyrir kosningarnar, er stöðvun verðbólgunnar. Fyrsta atriðið, það sem var nr. 1 í hans stefnuskrá og hann reyndi að telja kjósendum alveg sérstaklega trú um að hann mundi gera, ef hann fengi völdin eftir kosningarnar, var að stöðva verðbólguna. Hvaða sjálfstæðismaður er það hér í þessari deild eða annars staðar, sem treystir sér til að halda því fram, að í því frv., sem hér liggur fyrir, sé verið að stöðva verðbólguna? Nei, hér er verið að vanefna þetta loforð, sem Sjálfstfl. gaf fyrir seinustu kosningar, eins fullkomlega og framast er mögulegt, því að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er sú stærsta ráðstöfun, sem nokkru sinni hefur verið gerð á Íslandi og gengur í þá átt að auka verðbólguna. Aldrei fyrr hefur hér á þingi verið lagt fram frv., sem felur í sér jafnstórfelldar verðhækkanir, vaxtahækkanir og aðrar hækkanir, sem auka verðbólguna, og einmitt þetta frv. hæstv. ríkisstj. Það er þess vegna fullkomlega satt, þegar það er sagt, að það sé ekki hægt að svíkja loforð sitt fullkomlegar en þegar Sjálfstfl. lofar því fyrir seinustu kosningar að stöðva verðbólguna og flytur svo strax á eftir, á næsta þingi, mesta verðbólgufrv., sem nokkru sinni hefur verið flutt í þingsögunni.

Annað atriðið í stefnuskrá Sjálfstfl. hljóðar um það að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Því er raunar svarað í þessu frv. sjálfu, hvernig það er tryggt að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum með þessum tillögum, vegna þess að það er eitt aðalatriðið í þeim, að það er gert ráð fyrir svo stórfelldu ójafnvægi í þjóðarbúskapnum, að ríkisstj. óskar eftir að fá heimild til þess að taka nær 800 millj. kr. lán til að bæta upp það ójafnvægi í þjóðarbúskapnum, sem hún telur vera fram undan eftir þeim ráðstöfunum, sem hún er að gera. Þannig er nú Sjálfstfl. að efna þetta loforð sitt um jafnvægi í þjóðarbúskap.

Þá skal ég koma að þriðja atriðinu í kosningastefnuskrá Sjálfstfl. fyrir kosningarnar í haust. Það atriði er ekki nema eitt orð, en það er ákaflega fallegt orð, stéttafriður. Hver treystir sér til að halda því fram, að með því frv., sem hér liggur fyrir, sé verið að vinna að samkomulagi og bættri sambúð milli stéttanna í þjóðfélaginu? Þetta frv. hefur verið undirbúið með þeim hætti, að hæstv. ríkisstj. hefur haft samráð við atvinnurekendasamtökin og kaupmannasamtökin í landinu, en hún hefur gersamlega vanrækt að tala nokkuð við fulltrúa hinna vinnandi stétta í landinu, bænda og launamanna, eða millístétta. Hún hefur eingöngu samið þetta frv. í samráði við atvinnurekendurna og kaupmennina í landinu, en gersamlega vanrækt að hafa nokkurt samráð við hinar stéttirnar, enda er efnið í þessu frv. þannig, að það er eins og hnefahögg í andlit hins vinnandi manns, hins vinnandi fólks í landinu. Það allt miðar að því að skerða kjör þessa fólks meira og minna. Hver treystir sér til að halda því fram, að með slíku máli, að með slíkum tillögum sé verið að stuðla að stéttafriði í landinu? Nei, hér er ekki verið að stuðla að stéttafriði, eins og líka mun því miður sjást, heldur er hér í raun og veru stefnt að meiri stéttaófriði í landinu en nokkru sinni hefur áður verið efnt til. Og það sést bezt á þeim vinnubrögðum, sem Sjálfstfl. hefur hér viðhaft, hve mikið er að marka það, þegar hann er að auglýsa sig sem flokk allra stétta í landinu, allra stétta flokkinn. Það sést af því, að þegar hann er að undirbúa tillögur eins og þessar, þá snýr hann sér til stóratvinnurekenda, þá snýr hann sér til kaupmanna og ber sig saman við þá. En hann vanrækir að tala við verkamenn, vanrækir að tala við bændur, vanrækir að tala við millistéttirnar. Það sést bezt af þessu, hverra stétta flokkur Sjálfstfl. er í raun og veru. Það sést á undirbúningi hans í sambandi við þetta frv.

Þá kem ég að fjórða atriðinu í kosningastefnuskrá Sjálfstfl., sem hljóðaði á þessa leið: Uppbygging atvinnuveganna. — Hver treystir sér til að halda því fram, að með því frv., sem hér liggur fyrir, sé verið að stuðla að uppbyggingu atvinnuveganna í landinu? Undantekningarlaust allt í þessu frv. stuðlar að því að vinna gegn uppbyggingu atvinnuveganna í landinu. Með því að gera allar framkvæmdir dýrari, eins og stefnt er að með gengisbreytingunni, er unnið gegn uppbyggingu atvinnuveganna í landinu. Með vaxtahækkuninni, sem er ráðgerð, er líka torveldað að byggja upp atvinnuvegina í landinu. Með því að draga stórkostlega úr útlánum bankanna, eins og gert er ráð fyrir í frv., er líka verið að vinna gegn uppbyggingu atvinnuveganna í landinu. Og þannig mætti halda áfram að rekja þetta. Ég held í sannleika sagt, að ekki sé hægt að leggja fram frv., sem gengur öllu meira gegn þeirri stefnu að byggja upp atvinnuvegina í landinu en einmitt þetta frv., sem hér liggur fyrir og Sjálfstfl. hefur haft aðalforustu um.

Ég kem þá að fimmta atriðinu í kosningastefnuskrá Sjálfstfl. fyrir seinustu kosningar, sem hljóðar á þessa leið: Hlutdeild í frjálsum viðskiptaheimi. Það verður að vísu ekki sagt, að þetta frv. fjalli svo mjög mikið um þetta atriði, nema það, að gengislækkunin, hvað hún er mikil, er m.a. rökstutt með því, að til þess að geta dregið úr síldarsölu til jafnvirðiskaupalandanna og auka síldarsöluna vestantjalds þurfi að hafa gengislækkunina svona mikla. En ég held satt að segja, að þegar almenningur hefur verið að hugsa um það, hvernig okkar hlutdeild í frjálsum viðskiptaheimi ætti að vera háttað, og hefur verið að hugleiða þetta loforð Sjálfstfl. fyrir kosningarnar, þá hafi almenningur ekki beinlínis hugsað sér, að það yrði á þá leið, að við þyrftum að hafa gengislækkun m.a. óeðlilega mikla til þess að geta öðlazt hlutdeild í þessum svonefnda frjálsa viðskiptaheimi.

Þá kem ég að síðasta meginatriðinu, sjötta meginatriðinu í kosningastefnuskrá Sjálfstfl. fyrir seinustu kosningar, og það hljóðar þannig: Aukin framleiðsla og bætt lífskjör. Þær ráðstafanir, sem ráðgert er að gera í þessu frv., miða flestar, ef ekki allar, gegn þessu fyrirheiti, því að með því að draga úr uppbyggingu atvinnuveganna, eins og ég hef hér lýst að frv. muni stuðla að, þá er að sjálfsögðu verið óbeint að stuðla að því að draga úr framleiðslunni og minnka hana, eða a.m.k. gera framleiðsluaukninguna miklu minni en hún gæti annars orðið. Og hvað snertir bætt lífskjör, þá held ég, að öllum komi saman um það, og það játa líka forsvarsmenn stjórnarflokkanna öðru hverju, að þrátt fyrir þá blekkingu, sem verið er að tala um, að þessu fylgi ekki nema 3 vísitölustiga kjaraskerðing, þá játa þeir samt, að þessum ráðstöfunum fylgi verulegar fórnir, veruleg kjaraskerðing, og þá sjá menn, hverjar eru efndirnar á þessu fyrirheiti Sjálfstfl. að stuðla að bættum lífskjörum.

Það væri ástæða til að rekja þetta atriði nokkru nánar, hvernig Sjálfstfl. í þessu frv. efnir þau fyrirheit, sem hann gaf kjósendunum fyrir seinustu kosningar. En ég held, að það, sem ég hef hér sagt, nægi alveg til þess að sýna, að það er vafalaust ekki hægt að komast lengra í svikum en Sjálfstfl. gerir með því frv., sem hann stendur hér að og liggur fyrir þinginu til umræðu.

Ég get líka aðeins til viðbótar minnzt á eitt atriði enn, og þá kemur að því, þegar Sjálfstfl. fer í stefnuskrá sinni að útfæra þau 6 meginatriði, sem ég hef rifjað hér upp.

Fyrsta útskýringaratriðið á framangreindum punktum í kosningastefnuskrá Sjálfstfl. hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Náð verði samkomulagi milli launþega og framleiðenda um stöðvun víxlhækkana milli kaupgjalds og verðlags.“

Það, sem hér er lofað, er í raun og veru það, að leitað skuli eftir samningum við fulltrúa framleiðenda og launþega um að draga úr þeim víxlhækkunum, sem fylgja vísitöluuppbótunum. Hefur Sjálfstfl. samkv. þessu fyrirheiti sínu snúið sér til launþegasamtakanna og samtaka framleiðenda með þá málaleitun, að þessir aðilar reyni nú að koma sér saman um að draga úr þeim víxlhækkunum, sem leiðir af vísitöluákvæðinu víð kaupgjaldssamninga? Ég hef verið að grennslast eftir því, hvort Sjálfstfl. hefur gert þetta, og fengið þær upplýsingar, að hann hafi alls ekki snúið sér til stéttasamtakanna hvað þetta snertir. En Sjálfstfl. gerir annað í því frv., sem hér liggur fyrir. Hann gerir það hér að tillögu sinni, að það skuli lögbundið að banna vísitöluhækkanir. Og ég hygg, að ef ýmsir kjósendur, sérstaklega meðal launamanna, sem hafa fylgt Sjálfstfl., hefðu álitið, að hann mundi fylgja fram þessu loforði sínu á þann hátt að koma fram með tillögu um lögbindingu í stað þess að leita eftir samningum, eins og hann lofaði, þá hefði kannske afstaða þeirra verið talsvert á annan hátt.

Þetta er aðeins eitt dæmi þess til viðbótar öllu hinu, hvernig Sjálfstfl. efnir þau fyrirheit, sem hann gaf kjósendum fyrir seinustu kosningar. En fyrst ég er farinn að minnast á þessi atriði, þá held ég sé rétt að koma örlítið nánar að kaupgjaldsmálunum og vísitölumálunum.

Ég held, að það sé orðið nokkuð viðurkennt, að það muni vera hin heppilegasta stefna í kaupgjaldsmálum, ef tekst að gera heildarsamninga um kaupgjald til langs tíma. Þetta hefur verið gert í nokkrum nágrannalöndum okkar með góðum árangri, og það eru ýmsir flokkar, — ég held m.a. bæði Framsfl, og Sjálfstfl. og jafnvel fleiri, — sem hafa það á sinni stefnuskrá, að reynt skuli að vinna að því að taka upp heildarsamninga um kaupgjaldsmál til langs tíma. En þar sem slíkir samningar hafa verið gerðir í öðrum löndum, heildarsamningar um kaupgjald til langs tíma, hafa þeir yfirleitt byggzt á því, að í þessum samningum hafi verið ákvæði annaðhvort um vissar vísitölubætur eða þá um það, að þegar vísitala hefur náð ákveðnu marki, þá skuli samningar vera lausir. Með því að setja það í lög að banna algerlega allar vísitöluhækkanir sé ég ekki annað en sé verið að leggja stein í götu þeirrar stefnu, að það takist að koma því á hér að gera heildarsamninga til langs tíma. Getur hver og einn séð það, að launþegasamtökin verða mjög treg til þess að fallast á slíka samninga til langs tíma, nema þau hafi í samningunum einhverjar vissar tryggingar fyrir bótum eða þá samningarnir séu lausir, ef óeðlilega miklar verðhækkanir eiga sér stað, og þess vegna finnst mér, að með þessu ákvæði, burt séð frá öðru, sé verið að leggja stein í götu mjög mikils nauðsynjamáls, sem sé að reyna að koma á samningum um kaupgjaldsmálin, heildarsamningum til langs tíma. Hitt er að vísu alveg rétt, að eins og vísitölumálin hafa verið framkvæmd hjá okkur, hefur framkvæmdin að ýmsu leyti verið óheppileg. Aðrar þjóðir hafa hins vegar aðra reynslu í þessum efnum, og þar hefur jafnvel þetta vísitöluákvæði, um hækkun kaupgjalds samkv. vísitölu að vissu marki, haft þau áhrif, að bæði ríkisvald og atvinnurekendur hafa lagt kapp á að halda verðlagi í skefjum til þess að koma í veg fyrir, að kaup hækkaði vegna vísitöluákvæðisins. En ég skal ekki ræða öllu nánar um þetta atriði að þessu sinni, því að við 2. umr. eða 3. getur gefizt tækifæri til þess að fara nánar út í það.

Ég hef nú vikið nokkrum orðum að því, hvernig Sjálfstfl. efnir kosningaloforð sín með því frv., sem hér liggur fyrir. En ég held það sé ekki rétt að gleyma alveg garminum honum Katli, eins og þar er sagt, og minnast ekki örlítið á það, hvernig Alþfl. eða hinn stjórnarflokkurinn hefur efnt sín kosningafyrirheit, og það get ég gert í mjög stuttu máli.

Alþýðublaðið segir frá því 21. sept. s.l., að það hafi verið haldinn fundur hjá Alþýðuflokksfélagi Reykjavíkur og þar hafi mætt þáverandi forsrh., núverandi hæstv. sjútvmrh., og flutt þar að sjálfsögðu mikla og snjalla ræðu um efnahagsmálin. Og Alþýðubl. segist svo frá þessari ræðu eftir að hafa rakið nokkur atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„Emil sagði í lok ræðu sinnar, að Alþfl. vildi halda niðri verðlagi og kaupgjaldi til að hindra dýrtíðarskrúfu, afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög án nýrra skatta og afla útflutningssjóði nægra tekna án nýrra byrða á almenning.“

Þetta var það í stuttu máli, sem Alþfl. lofaði kjósendum fyrir seinustu kosningar. Alþfl. lofaði kjósendum, að hann skyldi halda niðri verðlagi og kaupgjaldi til að forðast nýja dýrtíðarskrúfu.

Það er alveg rétt, að í þessu frv. efnir Alþfl. það fyrirheit sitt að halda niðri kaupgjaldi, því að í þessu frv. er lagt til að afnema allar vísitölubætur og stefnt að því að halda kaupgjaldinu alveg óbreyttu. En því fer hins vegar æði mikið fjarri, að Alþfl, efni það með þessu frv. að halda niðri verðlagi, því að eins og ég hef hér áður lýst, þá hafa ekki áður verið fluttar till. eða frv. á Alþingi, sem hafa haft í för með sér meiri verðhækkanir en það frv., sem hér liggur fyrir.

Svo lofaði Alþfl. að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög án nýrra skatta. Fjárlagafrv. hefur nú verið lagt fram af núverandi hæstv. ríkisstj., og hvernig er þar efnt þetta fyrirheit Alþfl. um greiðsluhallalaus fjárlög án nýrra skatta? Það er efnt þannig, að skattar og tollar í frv. eru hækkaðir um 350–400 millj. kr. frá því, sem nú er, eftir að búíð er að draga frá tekjuskattslækkunina. Það er með þessum hætti, sem Alþfl. efnir kosningaloforð sitt um greiðsluhallalaus fjárlög án nýrra skatta, — það er með því að hækka skattana til ríkisins um 350–400 millj. kr.

Þá er komið að síðasta atriðinu í loforðum Alþfl. Það er að afla útflutningssjóði nægra tekna án nýrra byrða á almenning. Þetta er efnt með þeim hætti, að stefnt er að því að vísu að leggja útflutningssjóðinn niður, en í staðinn fyrir að afla útflutningssjóði tekna, nægra tekna án nýrra byrða á almenning, þá er komið með gengislækkun, sem felur í sér hundruð millj. kr. kjaraskerðingu.

Ég held, að þetta stutta yfirlit, sem ég hef hér gefið, sýni, að jafnvel þó að Sjálfstfl. hafi gengið langt í því að svíkja þau loforð, sem hann gaf fyrir seinustu kosningar, þá sé það Alþfl., sem eigi metið í þeim efnum.

Mér finnst rétt eftir það, sem ég nú hef sagt, að víkja nokkuð að því, sem kom fram í ræðu hæstv. forsrh. og fjallaði um frjálsræðið, að með því frv., sem hér lægi fyrir, væri verið að auka frjálsræði, glæða framtak einstaklinganna og afnema höft. Ég held satt að segja, ef menn íhuga þetta frv. til nokkurrar hlítar, að þá sé ekki hægt að segja öllu meiri öfugmæli en hæstv. forsrh. hefur sagt með þessum orðum sínum, því að þetta frv. er tvímælalaust eitthvert mesta eða mesta haftafrv. og frv. til skerðingar á einkaframtaki, sem nokkru sinni hefur verið lagt fram á Alþ. Hvað er það annað en höft, hvað er það annað en skerðing á framtaki einstaklinganna, þegar framkvæmdir eru gerðar eins stórkostlega dýrari og stefnt er að með þessu frv.? Hvað er það annað en höft, hvað er það annað en skerðing á framtaki einstaklinganna, þegar vextir eru hækkaðir eins gífurlega og ríkisstj. ráðgerir? Og hvað er það annað en höft, hvað er það annað en skerðing á einkaframtaki og sérstaklega framtaki hinna efnaminni einstaklinga og efnaminni fyrirtækja, þegar dregið er eins stórkostlega úr útlánum bankanna og hér er ráðgert? Nei, það er vissulega rétt, að það er ekki hægt að hugsa sér öllu meira haftafrv., öllu víðtækari ráðstafanir til að draga úr framtaki einstaklinganna en gert er með því frv., sem hér liggur fyrir.

Það frv., sem hér liggur fyrir, er eins og miðað við það að draga úr framtaki efnaminni einstaklinga og fyrirtækja í landinu, en að sjálfsögðu verkar þetta öðruvísi fyrir hina svokölluðu stóru og ríku einstaklinga og fyrirtæki í landinu, vegna þess að með þessu frv. er að ýmsu leyti og flestu leyti stefnt að því að auka svigrúm þeirra og bæta þeirra aðstöðu. Og þá kemur hér líka greinilega fram, hvernig viðhorf Sjálfstfl. til einkaframtaksins í raun og veru er. Sjálfstfl. er ekki með einkaframtakinu á þann veg, að hann vilji auka almennt einkaframtak, framtak hinna mörgu einstaklinga í landinu, hinna máttarminni og efnaminni einstaklinga í landinu. Hann vill aðeins auka framtak hinna stóru, svokölluðu stóru og sterku einstaklinga í landinu, á kostnað allra hinna. Og það er einmitt hér, sem kemur greinilega fram munurinn á afstöðu aðalflokkanna í landinu, Sjálfstfl. og Framsfl., til einkaframtaksins og aðstöðu einstaklinganna. Framsfl. vill miða stjórnarstefnuna og ráðstafanir hins opinbera við það, að sem allra flestir einstaklingar hafi aðstöðu til að njóta krafta sinna og sýna framtak sitt í verki, þó að það verði hins vegar til þess í mörgum tilfellum, að það verði með þeim hætti að skerða framtak hinna svokölluðu stóru, sterku og ríku einstaklinga í landinu. Sjálfstfl. vill hins vegar fyrst og fremst hlúa að þessum fáu stóru og sterku einstaklingum, þó að það verði til þess að ganga út yfir alla hina.

Ég get aðeins nefnt eitt dæmi til að útskýra betur þann meginmun, sem er í þessum efnum á afstöðu Framsfl. og Sjálfstfl. Framsfl. hefur með sínum aðgerðum í húsnæðismálunum stuðlað að því, að sem allra flestir einstaklíngar geti eignazt eigin íbúðir. Sjálfstfl. hefur hins vegar sýnt stefnu sína í verki á þann hátt, og það hefur varaformaður flokksins gert, núverandi hæstv. dómsmrh., að í lánastofnun, sem hann ræður yfir, voru fyrir nokkru einum einstaklingi veitt 24 íbúðarlán. Honum var þannig sköpuð aðstaða til þess að eiga 24 íbúðir til þess að leigja út, í staðinn fyrir það, ef hér hefði verið fylgt stefnu Framsfl., að þá hefði þessum lánum verið skipt á milli 24 manna. Stefna Sjálfstfl. í húsnæðismálunum er sú, ef hann fengi að ráða, að sem flestar íbúðir séu í eign örfárra manna og leigðar út. Stefna Framsfl. er hins vegar sú, að sem allra flestir einstaklingar eigi sjálfir eigin íbúðir. Þetta dæmi skýrir ákaflega vel þann mun, sem er á afstöðu okkar framsóknarmanna og Sjálfstfl. til einkaframtaksins í landinu.

Það, sem ég vildi segja í framhaldi af þessu, er þetta: Í eins konar pésa eða bók um kjördæmamálið, sem Sjálfstfl. gaf út fyrir seinustu kosningar, sagði hann, að lokið skyldi vera því tímabili, sem hefði einkennzt af störfum og baráttu Framsfl. á undanförnum 40 árum, og nú skyldi hefjast nýtt tímabil. Framsfl. má vera ánægður af mörgu því, sem hann hefur komið fram á þessu tímabili og sérstaklega má þakka honum, vegna þess að hann er sá flokkur í landinu, sem mest hefur mótað þá stjórnarstefnu, sem fylgt hefur verið á undanförnum 40 árum. Það má benda á margar glæsilegar og stórar framkvæmdir í atvinnumálum og öðru slíku til sönnunar um það, hve miklu hefur hér verið áorkað. En það, sem ég tel þó langsamlega þýðingarmest og langsamlega glæsilegasta minnismerkið um þá stefnu Framsfl., sem Sjálfstfl. talaði um í sinni kjördæmabók að afnema, er það, að eftir þetta 40 ára tímabil, sem hefur einkennzt af forustu Framsfl. meira en nokkurs annars flokks, eru á Íslandi tiltölulega fleiri efnalega sjálfstæðir einstaklingar, bjargálnamenn, heldur en sennilega í nokkru landi öðru. Ég held það sé leitun á því í öðrum löndum, að þar sé hægt að finna tiltölulega eins marga einstaklinga, sem eru efnalega sjálfstæðir, sem eru það sem kallað er bjargálnamenn. Og það, sem kannske er eitt hið hættulegasta við það frv., sem hér liggur fyrir, og það, sem boðar þá nýju stefnu, sem Sjálfstfl. ætlar að láta koma, eftir að búið væri að brjóta gömlu kjördæmin og Framsfl. á bak aftur, er einmitt það, að með þessu frv. er stuðlað að því, að flestir menn í landinu verði fátækari en nú er, en aftur á móti safnist auðurinn og eignirnar meira á fárra manna hendur. Það er kannske hið allra hættulegasta við þá þróun, sem mundi verða, ef þetta frv. næði fram að ganga.

Ég skal þessu næst víkja nokkuð að því frv., sem hér liggur fyrir, og þeim ástæðum, sem valda því, að ég er því andvígur.

Hið fyrsta, sem þá kemur til athugunar, finnst mér vera það, hvort það sé nauðsynlegt að ganga eins langt í kjaraskerðingu og gert er með því frv., sem hér liggur fyrir, hvort það sé nokkur þjóðarnauðsyn, sem rekur til þess, að það sé gert. Þeirri spurningu svara ég hiklaust neitandi. Og ég skal rökstyðja þetta nokkru nánar.

Í grg. stjfrv. virðist mér, að einkum séu færðar þær ástæður fyrir því, að það sé nauðsynlegt að ganga eins langt í kjaraskerðingu og hér eru gerðar till. um, að það sé í fyrsta lagi nauðsynlegt vegna þess, hvað þjóðin hafi tekið mikið af erlendum lánum á undanförnum árum, þess vegna verði hún nú að þrengja að sér og skerða kjör sín. Ég held, að hver sanngjarn maður, sem kynnir sér þær lántökur, sem átt hafa sér stað á undanförnum árum, geri sér það fullkomlega ljóst, að þetta eru falsrök ein, vegna þess að undantekningarlaust öll þau lán, sem hafa verið tekin á undanförnum árum, hafa ýmist stuðlað að því að koma upp framkvæmdum, sem hafa sparað gjaldeyri, eða framkvæmdum, sem afla gjaldeyris: Þessar framkvæmdir standa því fullkomlega undir sér á þann hátt, að þær gefa af sér miklu meiri gjaldeyri en svarar vöxtum og afborgunum af þeim lánum, sem þær eru gerðar. fyrir. Og þegar þessi staðreynd er athuguð, þá nægir það alveg til að sýna, að það eru alger falsrök, að þjóðinni hafi verið stofnað í einhverja hættu með þeim lántökum, sem áttu sér stað á undanförnum árum, eða við séum komnir of langt á þeirri braut, vegna þess að í staðinn fyrir lánin höfum við ýmist fengið stóraukinn gjaldeyri eða sparað gjaldeyriseyðslu. Þannig gera lánin miklu meira en standa undir sér, enda kemur það líka fram í sjálfu frv: og grg. þess, að stjórnin ógildir fullkomlega þessa. röksemd sína, að það þurfi að gera einhverjar sérstakar neyðarráðstafanir vegna þess, að erlendu lánin séu orðin of mikil. Það er einmitt eitt aðalatriðið í stjórnarfrv. að auka lántökurnar alveg stórkostlega, — ég held næstum því að tvöfalda þau lán, sem við höfum núna. Stjórnin fer fram á heimild til að taka nær 800 millj. kr. erlent lán. Dettur nokkrum í hug, að ríkisstj. væri að fara fram á þessa heimild, ef hún teldi okkur stafa hættu af þeirri skuldasöfnun, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum? Hvers vegna væri hún þá að koma fram með till. um að tvöfalda þessar skuldir? Nei, það er alveg þýðingarlaust fyrir stj. að ætla að bera fram röksemdir eins og þessar, að við þurfum að gera einhverjar sérstakar neyðarráðstafanir vegna þess, að skuldir okkar séu orðnar allt of miklar, á sama tíma sem stj. flytur svo till. um að stórauka lánin.

Ég vil segja það hins vegar í þessu sambandi, að sú skuldastefna, sem stj. beitir sér fyrir, er allt annars eðlis en sú skuldasöfnun, sem átti sér stað á undanförnum árum. Sú skuldasöfnun, sem hefur átt sér stað á undanförnum árum, hefur farið svo að segja öll til þess að byggja upp gagnlegar framkvæmdir í landinu. Sú skuldasöfnun, sem ríkisstj. ætlar hins vegar að beita sér fyrir, stefnir í þá átt að auka eyðsluna í landinu. Hún á eingöngu að fara til vörukaupa og vera stutt lán. Þar er raunverulega um þá hættulegu skuldasöfnun að ræða.

Og ég verð að segja það, get ekki komizt hjá að segja það, vegna þess að ég tel mig fylgjandi vestrænni samvinnu, að eftir þær upplýsingar og eftir þær till., sem hér hafa komið fram og felast í þessu frv., er ekki alveg laust við það, að ég sé að sumu leyti orðinn hálfsmeykur við vestræna samvinnu. Ég satt að segja skil ekki þá vestrænu samvinnu, sem beinist að því, eftir því sem hér kemur fram, að bjóða okkur upp á stórkostleg eyðslulán, 800 millj. ísl. kr. samkv. hinu nýja gengi. En svo virðist það jafnframt koma fram, að þessar þjóðir séu orðnar ákaflega tregar að veita okkur lán til framkvæmda. Hvernig á maður að skilja þetta, ef vestrænar þjóðir eru orðnar þess sinnis, að þær vilja ekki veita okkur lán til framkvæmda, en vilja veita okkur lán til eyðslu? Hver er tilgangurinn með þessu? Er það fyrirætlunin að setja á okkur eitthvert sérstakt skuldahnappeldi? Ég held, að við verðum mjög að stinga við fótum í þessum efnum, og það gildir stundum það ráð, að menn skuli vara sig á vinum sínum. Ég a.m.k. er þeirrar skoðunar, að við eigum mjög að forðast, ef við ætlum ekki að stefna okkar sjálfstæði í einhverja sérstaka hættu, þau eyðslulán, sem hér er boðið upp á, og eigum alls ekki að þiggja þau, ekki undir nokkrum kringumstæðum að þiggja þau, vegna þess að í þeim getur orðið fólgin hætta fyrir sjálfstæði okkar. Við skulum segja, að við tökum þessi eyðslulán, notum okkur það alveg til fulls, 800 millj., og svo getur farið svo af einhverjum ástæðum, að við getum ekki staðið fullkomlega skil á þessu láni. Hvað verður þá? Til hvers verður þá sú aðstaða notuð? Ég held, að ef þjóðin ætlar að gæta þess að vera nægilega sjálfstæð út á við, þá sé nauðsynlegt fyrir hana að forðast lántökur eins og þessar og að hún eigi alls ekki undir neinum kringumstæðum að taka slík eyðslulán eins og þau, sem hér er boðið upp á. Ef vestrænar þjóðir aftur á móti bjóða okkur upp á lán til framkvæmda, sem skapa okkur gjaldeyri eða spara gjaldeyri, þá eigum við að þiggja þau, því að það er auðséð, að það býr vinátta á bak við slíka fyrirgreiðslu.

En ég get ekki séð með mínum bezta vilja, að það búi nein vinátta á bak við það að bjóða okkur upp á eyðslulán.

Það, sem ég hef hér rakið, sannfærir mig um það, að ekki sé nokkur nauðsyn að grípa til þeirra ráðstafana, sem hér eru fyrirhugaðar, vegna skuldasöfnunarinnar, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, eins og hæstv. ríkisstj. heldur fram.

En þá er komið að þessu: Er nauðsyn að gera þessar ráðstafanir vegna þess, hvernig ástatt er með atvinnuvegina í landinu og þá sérstaklega með útflutningssjóðinn? Ég held, að það sé hægt að færa ákaflega skýr rök að því, að af þeim ástæðum er engin þörf fyrir jafnróttæka gengislækkun og þá, sem hér á sér stað. Það vill svo vel til, að frá þeim tíma, þegar vinstri stj. lét af völdum, liggur fyrir alveg glögg úttekt á því, hvernig ástandið var þá og hvað þá þurfti að gera. Sú úttekt var ekki gerð af vinstri stjórninni sjálfri eða hennar fylgismönnum eða hennar sérfræðingum, sú úttekt var gerð af þáverandi stjórnarandstöðu og hennar sérfræðingum, af Sjálfstfl. og hagfræðingum hans. Og því verður ekki haldið fram með neinum rétti, að þeir aðilar hafi átt að vera vinstri stj. eitthvað sérstaklega vilhallir. Úttekt Sjálfstfl. og sérfræðinga hans var á þann veg, að það þyrfti 6% kauplækkun — eða taka aftur þá kauphækkun, sem Sjálfstfl. og fylgifiskar hans höfðu knúið fram sumarið 1958, og ef þessi kauplækkun ætti sér stað, þá ætti ekki að vera þörf frekari ráðstafana, a.m.k. ekki í þessa átt, — „ekki frekari þörf“, eins og stendur í grg., „nýrra skatta og tolla“.

Nú gerðist það á s.l. þingi, eins og kunnugt er, að þessi 6% kauplækkun var lögbundin og þar með átti að vera tryggt, að atvinnuvegirnir gætu gengið áfram, ef ekki væri neitt gert til að íþyngja þeim frá því, sem átti sér stað í tíð vinstri stjórnarinnar. Og ef engar nýjar ráðstafanir til aukinna útgjalda hefðu verið gerðar, þá hefði ekki átt að vera þörf neinna nýrra ráðstafana. Það gerðist hins vegar í millitíðinni, og það skal glöggt tekið fram, að sú stjórn, sem Sjálfstfl. lét Alþfl. mynda á s.l. ári, jók nokkuð uppbætur og niðurgreiðslur, og það hlaut að vísu að orsaka nokkurn halla. Og það er alveg rétt að viðurkenna það, og það sögðum við framsóknarmenn líka alveg greinílega í seinustu kosningum, að hér hefði myndazt nokkur halli, sem yrði að vinna upp eftir kosningarnar, — það mundi koma eftir kosningarnar bakreikningur fyrir þann halla, sem stjórn Emils Jónssonar hefði stofnað til. Hæstv. forsrh., Ólafur Thors, upplýsti það, nokkru eftir að hann varð forsrh., að sá halli, sem hér væri um að ræða, mundi vera eitthvað um 250 millj. kr. En ég held, að það sé ákaflega ríflega reiknað, því þó að stjórn Emils Jónssonar héldi að mörgu leyti heldur illa á þessum málum, þá held ég, að það sé ekki hægt að færa rök að því, að hennar ráðstafanir hafi samt verið það óhagstæðar, að hún hafi látið eftir sig svona mikinn halla, heldur hafi hér verið ofreiknað. En jafnvel þó að við föllumst á þessa útreikninga, sem hæstv. núv. forsrh. var með í nóvembermánuði s.1., og við gerðum allríflegar ráðstafanir, þá ætti samt ekki að þurfa að afla nýrra tekna til að standa undir atvinnuvegunum nema sem svaraði 250 millj. kr. Það ætti að vera hámark þess, sem þyrfti að gera.

En hvað er svo lagt til í þessu frv.? Er það í nokkru samræmi við þær upplýsingar, sem hæstv. núv. forsrh. gaf á Varðarfundi í nóvembermánuði s.l.? Er ekki farið fram á neitt meira í þessu frv. en að afla þeirra 250 millj. kr., sem þá var taliðnauðsynlegt?

Jú, hér er farið fram á það með gengislækkuninni og öðrum ráðstöfunum í tengslum við hana, eins og vaxtalækkuninni, að leggja á byrðar eða stofna til kjaraskerðingar, sem nemur mörgum sinnum þessari upphæð og hlýtur að vera fullkomlega óþörf samkvæmt þeim upplýsingum, sem hæstv. forsrh. gaf fyrir 2 mánuðum.

Ég held, að það, sem hér hefur verið rakið, sýni alveg fullkomlega, að það er engin þörf jafngífurlegrar kjaraskerðingar og hér er farið fram á og er mörgum sinnum meiri en sú kjaraskerðing, sem hæstv. forsrh. taldi nauðsynlega fyrir 2 mánuðum. Að vísu eru sérfræðingar ríkisstj. núna með allt aðra útreikninga en þá. En um þessa útreikninga sérfræðinga ríkisstj. vildi ég segja það, að öll reynslan af þeim er slík, að það ber að taka þeim með fyllstu varúð. Og ég ætla aðeins að nefna eitt dæmi um það, hve nauðsynlegt það er að taka útreikningum sérfræðinga hæstv. ríkisstj. með fyllstu varkárni.

Á seinasta þingi lá hér fyrir frv. um útflutningssjóð, sem var undirbúið af þáverandi ríkisstj., og það stóð að henni raunverulega sama flokkasamsteypan og stendur að núverandi ríkisstj., og þetta frv. var undirbúið af sérfræðingum hennar. Í grg. þessa frv. segir, að eftir að búið sé að afla þeirra tekna, sem um ræðir í því frv., þá skorti á 150 millj. kr. til þess, að afkoma útflutningssjóðs sé sæmilega tryggð á árinu 1959. Þegar fjárlögin voru svo afgreidd fyrir þetta ár, var útflutningssjóður látinn fá þessar 150 millj. kr. Samkv. þeim útreikningum og áætlunum, sem sérfræðingar ríkisstj. Emils Jónssonar gerðu í marzmánuði s.l., átti að vera alveg fullkomlega nægilega séð fyrir öllum tekjum handa útflutningssjóði og hann átti að verða rekinn hallalaus á árinu 1959. Á þessu var svo alltaf tönnlazt síðan og vitnað í sérfræðingana af fyrrverandi ríkisstj. og báðum stjórnarflokkunum, og seinast í útvarpsumræðunum fyrir kosningarnar 25. okt. sagði hæstv. sjútvmrh., að afkoma útflutningssjóðs hefði aldrei verið betri og stæðust alveg þeir útreikningar, sem sérfræðingar stj. hefðu gert á s.l. vetri, það væru tryggðar nægar tekjur handa útflutningssjóði og rekstur hans mundi verða hallalaus. Hvað kemur svo á daginn, þegar þetta frv., sem hér er til umræðu, er lagt fram í þinginu? Er það upplýst, að útreikningar sérfræðinga ríkisstj. á s.l. ári hafi reynzt réttir? Er það upplýst, að það hafi orðið, eins og þar var sagt, enginn halli á rekstri útflutningssjóðs? Ekki aldeilis. Þar er bara upplýst, að hallinn á útflutningssjóði muni verða sennilega um 180 millj. kr., hvorki meira né minna, að útreikningarnir, sem sérfræðingarnir gerðu á s.l. vetri, hafi verið svo kolvitlausir, að útkoman verði 180 millj. kr. lakari en þar hafi verið sagt. Nú held ég, að sannleikurinn í þessum efnum sé sá, að útreikningarnir, sem sérfræðingarnir gerðu á s.l. vetri, hafi verið mjög óvarlegir, og ég held, að þeir hafi verið gerðir óvarlegir vegna þess, að þáverandi ríkisstj. þurfti á því að halda, að þeir væru óvarlegir, til þess að hún þyrfti ekki að leggja á aukna skatta fyrir kosningarnar, — og af sömu ástæðum held ég, að því hafi verið haldið fram í samráði við sérfræðingana, að það væri allt í lagi með útflutningssjóðinn fyrir seinustu kosningar. Nú aftur á móti er ástandið orðið þannig, að ríkisstj. þarf á því að halda til að koma þessu máli í gegn, að afkoma útflutningssjóðs sé máluð sem allra dekkstum litum. Og þá er þetta fundið upp, að hallinn sé 180 millj. kr., án þess að hallinn sé raunverulega svo mikill, enda er nú skýrlega tekið fram, að þetta sé bara áætlunartala og geti breytzt.

Mér sýnist, að það verk, sem þessir sérfræðingar ríkisstj. séu að vinna, sé aðallega fólgið í því að láta ríkisstj. fá útreikninga eftir pöntun, eftir því, hvort hún heldur þarf á að halda hagstæðum eða óhagstæðum útreikningum. Ég get ekki dregið aðra ályktun af því dæmi, sem ég hef nefnt, og þannig mætti nefna fjöldamörg önnur dæmi. Þess vegna get ég látið það koma fram, að að því leyti er ég á nokkuð öðru máli en hv. 1. þm. Austf., að ég legg enga sérstaka áherzlu á að fá þessa útreikninga, sem sérfræðingar ríkisstj. hafa verið að gera, vegna þess að ég tek ekki nokkurt mark á þeim vegna þeirrar reynslu, sem fengin af þessum útreikningum á undanförnum árum. Ég álít, að þeir séu meira og minna settir upp til að þóknast valdhöfunum og gera það trúlegt, sem þeir vilja koma fram. Og þetta. sem ég hef sagt, styður fullkomlega þá skoðun mína, sem ég hélt fram fyrir nokkrum dögum hér á Alþingi, að við ættum að losa okkur við þetta blessaða efnahagsmálaráðuneyti sem fyrst, vegna þess að útreikningar þess eru ekki svo merkilegir.

Það, sem ég hef hér rakið, sýnir fullkomlega að mínum dómi, að það er langt frá því, að það sé þörf slíkrar gengislækkunar sem hér er farið fram á, heldur mætti komast af með miklu minni aðgerðir en hér er stefnt að og það sé allt annað, sem valdi því, að gengið sé svona langt til verks, en að það sé þörf á því vegna atvinnuveganna í landinu, það séu aðrar ástæður, sem valdi því, eins og ég mun koma að.

En þá vík ég að annarri ástæðu, sem veldur því, að ég er andstæður því frv., sem hér liggur fyrir. Og það stafar af því, að þær ráðstafanir, sem hér er verið að gera, koma mjög misjafnlega og ranglátlega niður. Ef þarf að gera ráðstafanir til kjaraskerðingar, á að stefna að því, að þær komi sem jafnast niður og þó þyngst á þá, sem hafa breiðust bökin. Hér er ekki neitt skeytt um þetta sjónarmið, heldur í mörgum tilfellum hið gagnstæða.

Það er kunnara en frá þurfi að segja og þarf ekki að færa rök fyrir því, vegna þess að það er viðurkennd staðreynd, að gengislækkun verður yfirleitt til þess að gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari. En það er margt fleira í þessu frv., sem er til þess að gera aðstöðu manna ójafna og gera misjafnt á milli manna. Vaxtahækkunin er t.d. ein af slíkum ráðstöfunum. Hún kemur ákaflega óréttlátlega niður. Hún kemur mjög þungt niður á efnalitlu fólki, sem hefur ráðizt í íbúðabyggingar og skuldar þá meira og minna. Hún er mjög ranglát gagnvart því fólki, sérstaklega ef það er ekki búið að útvega sér föst lán. Aftur á móti gagnvart þeim, sem eru vel á veg komnir með að greiða sínar íbúðir og hafa föst lán með föstum vöxtum, er allt annað upp á teningnum. Og þannig mætti halda áfram að nefna fleiri dæmi um það, hvað þessar ráðstafanir koma óréttlátlega niður. Sama gildir um þær svokölluðu mótráðstafanir gegn kjaraskerðingunni, sem ríkisstj. gumar nú mest af. Þær koma ákaflega misjafnlega niður. Þessar mótráðstafanir eru auknar almannatryggingar og tekjuskattslækkun. Ég skal aðeins nefna eitt eða tvö dæmi um þetta, vegna þess að mér er það nokkuð kunnugt. Það er af tveimur mönnum, sem búa í nágrenni við mig í bænum.

Annar þessara manna er iðjuverkamaður. Það mætti segja mér, að kaup hans á síðasta ári hafi verið eitthvað í kringum 60 þús. kr. eða jafnvel innan við það, þó kannske það með þeirri eftirvinnu, sem hann hefur haft. Þessi maður hefur fjögurra manna fjölskyldu, konu og tvær dætur, 16 og 17 ára gamlar. Hann hefur nýlega keypt sér íbúð, á um þriðjunginn af henni, en skuldar hitt, og að verulegu leyti hvíla á íbúðinni lán, sem fylgja bankavöxtum og hljóta þess vegna að hækka. Hvað fær svo þessi maður af þessum mótráðstöfunum ríkisstj.? Tekjuskattslækkunin, sem hann fær, er sáralítil upphæð. Hann fær ekki fjölskyldubætur, þó að hann hafi allþunga fjögurra manna fjölskyldu. Eina uppbótin, sem hann fær hjá ríkisstj., er niðurgreiðslan á kaffi og kornvörum. Móti niðurgreiðslunni á kaffi og kornvörum fær hann á sig stórfellda kjaraskerðingu vegna gengislækkunarinnar, vegna söluskattsins og vegna vaxtahækkunarinnar. Og hann fær ekkert á móti þessu. Kjör þessa manns hljóta alveg stórkostlega að versna við þessar ráðstafanir.

Hinn maðurinn, sem ég nefni, er heildsali, og eftir þeim tekjum, sem hann virtist hafa á s.l. ári, eða samkv. hans útsvari og skattgreiðslum, hafa laun hans verið alltaf 160 þús. samkvæmt framtalinu. Hann hefur fjögurra manna fjölskyldu eins og hinn. Hann hefur tveggja ára og fjögurra ára gamalt barn. Þessi maður á sína íbúð skuldlausa, stóra og mikla íbúð, og hann sleppur þess vegna við vaxtahækkunina hvað íbúðina snertir. Þessi maður fær mjög verulega kjarabót vegna lækkunar á tekjuskattinum. En þessi maður fær líka fjölskyldubætur eða ómagabætur fyrir tvö börn. Hann kemur sennilega til með að fá svona 10, 15, 20 eða 30 þús. kr. vegna tekjuskattslækkunarinnar og fjölskyldubóta og fær þess vegna fullkomlega uppbætta og sennilega alveg uppbætta þá kjaraskerðingu, sem verður af gengislækkuninni.

Þarna sjá menn, hvernig þessar ráðstafanir ríkisstj. verka. Heildsalinn með fjögurra manna fjölskylduna, sem á sína íbúð sjálfur, með sín háu laun, hann fær stórkostlegar uppbætur, sem sennilega vega að verulegu leyti á móti þeirri kjaraskerðingu, sem hann verður fyrir. Iðjuverkamaðurinn, sem hefur miklu meira en helmingi lægri laun, hann fær engar bætur og hann fær á sig alla kjaraskerðinguna. Finnst mönnum, að það sé nokkurt réttlæti í slíkum ráðstöfunum eins og þessum? Halda menn, að það sé nokkur réttlætishugsun, sem stjórnar slíkum ráðstöfunum? Og þannig er þetta í fjöldamörgum tilfellum og sýnir það, að þessar ráðstafanir hæstv. ríkisstj. koma ákaflega misjafnlega og ranglátlega niður, og þó að það væri ekki nema það eitt, þá er það ærin ástæða til þess, að menn væru á móti þessum ráðstöfunum.

Svo hefur verið vikið að því hér áður, og skal ég þess vegna ekki fara öllu nánar út í það, að þessar ráðstafanir bitna alveg sérstaklega ranglátlega á öllu ungu fólki í landinu. Það verður alveg sérstaklega fyrir barðinu á þessum ráðstöfunum. Og ég held, að það sé ekki rétt gert að vera að þyngja sérstaklega aðstöðu hinnar uppvaxandi kynslóðar í landinu og möguleika hennar til þess að mennta sig, eins og tvímælalaust er gert með þeim ráðstöfunum, sem hér er ætlazt til að gera.

Ég kem þá að þeirri ástæðu, sem kannske ræður mestu um það, að ég er á móti frv. og þeim ráðstöfunum, sem þar eru fyrirhugaðar. Þar er um það að ræða, að þessar ráðstafanir hljóta óhjákvæmilega að leiða til þess að draga úr uppbyggingu, að draga úr framförum og draga úr atvinnu í landinu. Þegar allt kemur til alls, er það sennilega þó það hættulegasta og skaðlegasta, sem felst í þessu frv. Og ég er alveg sannfærður um það, að ef þessar ráðstafanir yrðu framkvæmdar eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., þá mundi ekki líða nema örstuttur tími, þangað til það væri komið af þeim stórfellt atvinnuleysi í landinu, og stórkostlegur samdráttur á framkvæmdum og framförum. Og það má aðeins hafa það í huga í því sambandi, að þegar Bandaríkjastjórn fyrir nokkrum árum gerði ráðstafanir til samdráttar, sem voru ekki nærri eins viðtækar og þessar, þá var tala atvinnuleysingja þar í landi orðin 5 millj., áður en hagfræðingar ríkisstj. vissu af. Það var alls ekki meining þeirra með samdráttarráðstöfununum í Bandaríkjunum að stuðla að atvinnuleysi, en þessar ráðstafanir, sem þeir létu gera, höfðu bara þessar verkanir, áður en þeir gerðu sér grein fyrir því. 5 millj. atvinnuleysingja í Bandaríkjunum er svipað og það væru 5 þús. atvinnuleysingjar á Íslandi. Og það er alveg víst, að ef þessar ráðstafanir væru framkvæmdar, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., þá hlytu þær óhjákvæmilega að hafa í för með sér verulegt atvinnuleysi, mikinn samdrátt á framkvæmdum og framförum innan mjög lítils tíma. Og gagnvart mjög mörgu fólki, sérstaklega launafólki í bæjunum, væri kannske allra mesta kjaraskerðingin einmitt fólgin í samdrætti á atvinnunni, vegna þess að menn misstu þá sína eftirvinnu og aukavinnu, sem þeir hafa og gerir það að verkum, að t.d. margt verkafólk núna getur þrátt fyrir allt lifað mannsæmandi lífi, eins og t.d. Dagsbrúnarverkamenn og Iðjuverkamenn, sem þeir gætu alls ekki, ef þeir hefðu ekki eftirvinnu. En hér virðist alveg stefnt markvisst að því að ná henni af mönnum.

Til viðbótar þessu mundi svo verða stórkostleg skerðing á framförum og framkvæmdum í landinu. En af öllu nauðsynlegu í þessu landi er það tvímælalaust nauðsynlegast að halda áfram uppbyggingu atvinnuveganna og framförunum með elns miklum hraða og framast er unnt. Við þurfum að einbeita okkar fjármagni og vinnuafli að því að byggja sem mest upp í landinu. Aðrar þjóðir leggja nú kapp á að taka upp nýja tækni og breyta sínum atvinnuvegum, og það er alveg óhjákvæmilegt fyrir okkur Íslendinga að fylgjast með í þeirri þróun og dragast ekki aftur úr. Við verðum að reikna með því, að við verðum að umskapa okkar atvinnuvegi meira og minna á næsta áratug, og við getum ekki gert það, nema við höfum fjárfestinguna í landinu sem allra mesta og beitum henni að réttum verkefnum.

Hér er stefnt að því að skerða stórkostlega fjárfestinguna og þar með uppbygginguna og framfarirnar. Það er stefnt að því að skapa atvinnuleysi, stefnt að því, að þjóðin dragist stórkostlega aftur úr öðrum þjóðum. Og þrátt fyrir það, þó að margt hættulegt og margt rangt og vitlaust felist í þessu frv., þá er það þó langhættulegast og vitlausast í frv., sem beinist að því að draga saman atvinnuna og draga saman framfarirnar og draga saman framkvæmdirnar, að stöðva að meira eða minna leyti þá nauðsynlegu uppbyggingu í landinu.

Ég skal svo ekki að þessu sinni hafa það öllu lengra, sem ég segi nú. Að seinustu vildi ég aðeins segja þetta: Ég skora á hæstv. ríkisstj. að endurskoða vel þær till., sem hún hefur lagt hér fram, taka þeim ráðleggingum og ábendingum, sem hér hafa komið fram, og draga úr þeim ráðstöfunum, sem hún hefur ætlað sér að framkvæma. En ef ríkisstj. gerir þetta ekki, ef hún vill ekki taka heilbrigðum ráðleggingum, þá hlýtur hún að sjálfsögðu sjálf að taka ábyrgðina og afleiðingarnar af sínum gerðum, og þá hlýtur það að leiða til þess, að allt frjálshuga fólk í landinu, allt framfarasinnað fólk í landinu, allt fólk í landinu, sem vill ekki óeðlilega og ranga kjaraskerðingu, verður að taka höndum saman, hvar í flokki sem það hefur áður staðið, hvort sem það hefur verið í stjórnarandstöðuflokkunum eða stjórnarflokkunum, — það verður að taka höndum saman, hvar í stétt og hvar í byggðarlagi sem það hefur áður verið, það verður að taka upp harða og einbeitta baráttu gegn þeirri samdráttar- og kjaraskerðingarstefnu, sem hér er á döfinni, og það má ekki linna þeirri baráttu og verður að beita öllum lýðræðislegum ráðum í þeirri baráttu, unz það er búið að brjóta þessa stefnu á bak aftur. Og það verður því betra fyrir okkar land, fyrir uppbyggingu og framfarir og sjálfstæði okkar lands, að þessi stefna verði sem fyrst brotin á bak aftur.