06.02.1960
Neðri deild: 24. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

48. mál, efnahagsmál

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það þýðingarmikla frv., sem hér liggur fyrir, grípur inn á öll fjármál okkar þjóðar og hefur áhrif á hag allra manna í þessu landi. Það er þess vegna ekki nein furða, þó að um þetta geti orðið nokkuð skiptar skoðanir og miklar umræður hér á hv. Alþingi. En þær umr., sem hér hafa farið fram af hálfu stjórnarandstæðinga, eru með nokkuð undarlegum hætti, því að þær eru byggðar á árásum á núv. ríkisstj. frá þessum fóstbræðrum, hv. framsóknarmönnum og hv. Alþýðubandalagsmönnum, — þessum fóstbræðrum og andlegum frændum eins og síðasti ræðumaður orðaði það á fundum í vor. Og þó er það vitað, að þessir menn, a.m.k. sumir af þeim, eru aðalsakaraðilarnir í fjármálum hér á landi.

Í gær hlustaði ég á tvær ræður, sem stóðu samtals nokkuð á fimmta klukkutíma, fluttar af hv. 1. þm. Austf. og hv. 4. þm. Austf., þessum mönnum, sem fyrir 14 mánuðum fóru úr ríkisstj., af því að hún var orðin gjaldþrota, þessum mönnum, sem eiga meiri sök en flestir, ef ekki allir aðrir Íslendingar, á því ástandi, sem nú blasir við augum. Ég ætla ekki að fara að svara öllum þeim rökvillum, sem þarna komu fram, en ég fann, að hjá þessum mönnum virtist sama hugsunin og svo oft áður, þessi: Með hverju getum við helzt blekkt landslýðinn? Með hverju getum við blekkt landslýðinn til fylgis við allar okkar sögur? — En ég vil segja, að báðir þessir menn hefðu getað endað sína ræðu með því að segja: Allt þetta, sem við höfum verið að lýsa, er okkur að kenna meira en öðrum mönnum.

Það, sem hér er verið að gera með því frv., sem hér liggur fyrir, er að gera upp þrotabú vinstri stjórnarinnar, sem sagði af sér 4. des. 1958, með þeirri yfirlýsingu frá þáv. hæsta. forsrh., sem hljóðaði á þá leið: Ný verðbólgualda er risin og engin samstaða í stjórninni til úrbóta. — M.ö.o.: þessi stjórn varð undir holskeflunni, sem hún hafði sjálf látið rísa. Eftir nokkra daga var, eins og kunnugt er, mynduð bráðabirgðastjórn Alþfl., — bráðabirgðastjórn, sem átti að hafa það hlutverk að halda þrotabúi vinstri stjórnarinnar gangandi um nokkurra mánaða skeið á nauðasamningagrundvelli. Þessi stjórn gerði það og gerði það á margan hátt betur en hefði mátt búast við af svo fámennum hóp sem þar var um að ræða. En nauðasamningatíminn varð lengri en til var ætlazt, töluvert lengri en við var búizt. Og það var af því, að í vorkosningunum tókst framsóknarmönnum með öllum sínum æsingi og látum að ná til sín nokkur þúsund atkv. umfram það, sem ella hefði mátt búast við, sem hafði það í för með sér, að þegar sumarþingið kom saman, voru nákvæmlega jöfn atkv. hér á þingi, annars vegar frá hálfu þeirra flokka, sem nú eru stjórnarflokkar, og hins vegar frá fóstbræðrunum, framsóknarmönnum og kommúnistum. Þess vegna var ekki hægt að breyta neitt til, eins og til var ætlazt, enda til þess ætlazt, að þá yrði mynduð sú samstjórn, sem nú hefur tekið við. Þá hefði nauðasamningatíminn orðið nokkrum mánuðum styttri, og þær ráðstafanir, sem nú er verið að gera og undirbúa, hefðu getað komið í gildi fyrir síðustu áramót.

Nú er það svo, að menn geta spurt: Hver er það, sem er að fella gengið, og hver hefur fellt gengi krónunnar? Það er alger misskilningur hjá þeim mönnum, sem segja: Það er núv. ríkisstj., sem er að fella gengið. — Það eru aðrir menn. Það eru þeir menn, sem hafa stjórnað okkar málum í gáleysi og óreiðu á undanförnum árum. Þeirra verk hefur alltaf verið að rífa niður gengi og gildi okkar krónu, og það, sem núv. ríkisstjórn er að gera með þessu frv., er það eitt að viðurkenna sannleikan, viðurkenna hann í verki, þannig að skrá gengi íslenzkrar krónu í samræmi við það, sem gildi hennar er, eða sem næst því.

Hv. 4. þm. Austf. sagði í ræðu sinni í gær, að s.l. ár mundu útflutningsuppbæturnar hafa verið nálægt 87% að meðaltali. Ég geri ráð fyrir því, að maðurinn viti þetta rétt. En þegar menn leggja það saman, að það var búið að feila gengi um 55%, því að 55% yfirfærslugjaldið var ekkert annað en gengisfall, þó að það væri falsað með því að kalla það allt öðru nafni, og þrátt fyrir það þarf þó 87% meðaltalsútflutningsuppbætur, þá geta allir menn séð, að gildi krónunnar er orðíð svo lágt, að það er ekki mjög fjarri því, sem nú er ákveðið með 38 kr. á dollara. Að vísu má ekki leggja þessar tölur alveg saman, vegna þess að þessar prósentur eru ekki byggðar á sömu grunntölu.

En það er svo sem ekki neitt nýtt í okkar sögu að fella gengið, því að það er búið að gera það með ráðstöfunum á Alþingi a.m.k. fjórum sinnum á rúmum 20 árum. Og þó hefur það ekki verið á þann hátt nema þrisvar að breyta skráningu okkar krónu.

Í fyrsta lagi í aprílmánuði 1939, þá var vinstri stjórnin fyrri búin að starfa í 41/2 ár og koma okkar málum þannig fyrir, að allt var að fara í strand gersamlega. Og þá var leitað af þeirra hálfu til okkar sjálfstæðismanna til hjálpar, og úrræðið var það að breyta skráningu krónunnar, sem þá var auðsjáanlega stórkostlega fallin. Ef hv. þm. vilja lesa gengislögin frá því í apríl 1939, þá geta þeir séð, að þar voru gerðar margvíslegar og skynsamlegar og veigamiklar ráðstafanir til varnar því, að gengisbreytingin yrði brotin niður. En það fór svo, að þessar ráðstafanir voru allar afnumdar, áður en árið var liðíð, enda var þá heimsstyrjöldin komin í algleyming. Í ársbyrjun 1940 var gert annað verra og versta strik, sem gert hefur verið í okkar fjármálum að mínu áliti. Þá var vísitöluskrúfan sett í gang.

Ég ætla ekki hér, vegna þess að það yrði of langt mál, að rekja sögu þessara mála á fimmta áratug þessarar aldar. En þegar komið var fram undir árslokin 1949, var auðséð enn á ný, að gengi íslenzku krónunnar var fallið í stórum stíl, og þá var það, að undirbúíð var frv. á mjög svipaðan máta og nú um það að breyta skráningu krónunnar þannig að hækka erlendan gjaldeyri um 74%. Þetta var gert í bæði skiptin til þess að viðurkenna sannleikann, ekki vegna verka þeirra, sem framkvæmdu breytinguna á skráningunni, heldur af þeim mönnum, sem höfðu stjórnað í millibilinu, þeim mönnum, sem höfðu rifið niður þær varnir, sem voru settar gegn því, að verðhækkun, launahækkun og skattahækkun, sem hvað skrúfaði annað upp, yrði til þess að eyðileggja gildi okkar krónu.

Í þeim gengislögum, sem samþykkt voru 1950, voru nokkrar ráðstafanir gerðar til þess að koma í veg fyrir það, að áfram þyrfti að halda á þessari feigðargöngu. En það fór um það eins og ráðstafanirnar 1939, að þær voru

rifnar niður, þó ekki allar eins fljótt og þá var, og endirinn er sá, sem nú blasir við augum. Þess vegna er það víst, að gengið, sem nú er verið að ákveða að skrá rétt, er fallið raunverulega, og það, sem verið er að gera, er þá aðeins að viðurkenna sannleikann.

Hv. 1. þm. Austf, sagði í gær, að það væri botnlaus óhróður um vinstri stjórnina að kenna henni um þetta fall. Ég veit ekki, hvað maðurinn kallar óhróður. Hvers vegna fór þessi stjórn? Fór hún ekki af því, að það var allt komið í strand? Fór hún ekki af því, að hún var búin að brjóta niður gildi okkar peninga? Ég held, að hún hafi farið af því. Líklega er það þó svo, að jafnvel þeir þrír hv. ráðh. vinstri stjórnarinnar, sem eru í þessari hv. d. og eru í stjórnarandstöðu nú, hafa verið óánægðir við sinn forsrh, fyrir það að segja stopp. Það var hann, sem skar úr, hann stakk við fótum og sagði: Hingað og ekki lengra — Hann vildi ekki keyra fram af hömrunum.

Nú hef ég hér í höndum tvo ríkisreikninga. Annar reikningurinn er frá árinu 1955, síðasta árinu, sem samstjórn sjálfstæðismanna og Framsóknar var við völd undir forustu núv. forsrh., Ólafs Thors, sem þá skilaði sínum reikningi. Hinn reikningurinn er frá árinu 1958, þremur árum seinna, þegar vinstri stjórnin er búin að vera við völd að mestu leyti þann tíma og skila reikningum þá. Þannig liggur það ljóst fyrir, hver er hækkun á útgjöldum á þessu tímabili. Ég hef slegið hér upp samanburði, af því að ég hef þessa reikninga í höndunum.

Árið 1955 eru öll gjöld ríkissjóðs á sjóðsyfirliti 655 millj. kr. Árið 1958 eru öll gjöld ríkissjóðs á sjóðsyfirliti 936 millj. kr., en þá er búið að setja á stofn útflutningssjóð, sem allir vita að er líka ríkisstofnun, og hans gjöld voru á árinu 1958 692 millj. kr. Samtals vora því gjöldin á árinu 1958 hvorki meira né minna en 1628 millj. á mótí 655 millj. árið 1955. Þau höfðu hækkað á þremur árum um 973 millj. kr. Þó er ekki þarna sögð öll sagan, vegna þess að ráðstafanirnar stóru, 55% yfirfærslugjaldið og allir skattarnir, sem samþ. voru í maímánuði 1958, voru ekki búnar að vera í gildi nema hálft ár. Þess vegna eru útgjöld og tekjur útflutningssjóðs ekki hærri á árinu 1953 en þetta. En á árinu 1959 eru útgjöld útflutningssjóðs, eins og þau voru samkv. rekstrarreikningi, sem ég hef afrit af í mínum höndum, 1135 millj., og samkv. þeim reikningi er ekki neinn halli á útflutningssjóði, sem kominn er í ljós eða kominn er til reiknings í árslok s.l. En allur sá halli, sem talað hefur verið um í sambandi við árið 1959, er sprottinn af birgðum, geysimiklum birgðum af útflutningsvörum, sem ekki var búið að borga uppbætur á og ekki var búið að flytja út.

Nú er það svo, að ef við lítum yfir einstaka liði og greinar ríkisreikninganna á þessum árum, þá er það mjög athyglisverð skýrsla og sýnir áhrifin af starfsemi vinstri stjórnarinnar á þessu þriggja ára tímabili. Ég skal lesa hér upp fyrir hv. þm. skýrslu um það, hvernig þessum hækkunum er varið á öllum helztu útgjaldaliðum ríkisins. Póstmál kostuðu 1955 14.4 millj., 1958 27.4 millj., þau hafa hækkað um 13 millj. Útgjöld símans voru 46.7 millj. 1955, 86.8 millj. 1958, hafa hækkað um 40.1 millj. Rekstrarkostnaður áfengisverzlunar var 11.2 millj. 1955, 18.4 millj. 1958, hækkun 7.2 millj. Rekstrarkostnaður tóbakseinkasölu var 4.8 millj. 1955, 7.9 millj. 1958, hækkun 3.1 millj. Ríkisútvarpið, kostnaður 1955 10.9 millj., 1958 14.8 millj., hækkun 3.9 millj. Ríkisstj. kostaði 1955 10.7. millj., en 1958 14.2 millj., hækkun 4.1 millj. Til utanríkismála var varið 1955 7.7 millj., en 10.9 millj. þremur árum seinna, hækkun 3.2 millj. Dómgæzla og lögreglustjórn kostaði 1955 35.4 millj., 1958 58.3 millj., hækkun 22.9 millj. Opinbert eftirlit 1.4 millj. 1955, 2.7 millj. 1958, hækkun 1.3 millj. Innheimta tolla og skatta 14.2 millj. 1955, 23.8 millj. 1958, hækkun 9.6 millj. Heilbrigðismál 35.9 millj. 1955, 60.5 millj. 1958, hækkun 24.6 millj. Kirkjumál 9.7 millj. 1955, 12.7 millj. 1958, hækkun 3.0 millj. Kennslumál 73.8 millj. 1955, 127 millj. 1958, hækkun 53.2 millj. kr. Söfn og listir, 15. gr., 6.4 millj. 1955, 10 millj. 1958, hækkun 3.6 millj. Rannsóknir í opinbera þágu 7.9 millj. 1955, 12.7 millj. 1958, hækkun 4.8 millj. Félagsmál, 17. gr., 61.4 millj. 1955, 108.1 millj. 1958, hækkun 46.7 millj. Eftirlaun og styrktarfé, 18. gr., 15.1 millj. 1955, 24.3 millj. 1958, hækkun 9.2 millj. Óviss útgjöld, sem eru einn mesti eyðsluliður á fjárl. og í höndum ríkisstj., voru 4.8 millj. 1955, 8.4 millj. 1958, hækkun 3.6 millj. Eignahreyfingar, sem eru útlán og framkvæmdir, sem var að miklum meiri hluta til afgreitt án samþykkis Alþingis, voru 1955 94.3 millj., en 1958 197 millj., hækkun 102.7 millj. Svo kemur það, sem er kannske athyglisverðasti liðurinn í þessu öllu og mjög hefur verið rætt um í þessum umr., og það eru ábyrgðir ríkisins. Þær voru í árslok 1955 579 millj. kr.. en í árslok 1958 1269.7 millj. M.ö.o.: Ábyrgðir ríkissjóðs hækkuðu á þessum þremur árum hvorki meira né minna en um 690.7 millj. kr. Ég skal ekkert fara út í það nánar að tilgreina, hvernig þar hefur verið að unnið, en geta þess aðeins, að greiðsla ríkissjóðs vegna ríkisábyrgðarlána var á árinu 1955 aðeins 12.6 millj., en var orðin á árinu 1958 23.8 millj. Og það er augljóst af öllum hlutum, að greiðslur vegna ríkisábyrgðanna munu fara stórkostlega hækkandi á komandi árum.

Hvað sýnir nú þessi samanburður? Hann sýnir það, að eyðsla ríkisins, kostnaður við ríkisstarfsemina og útflutningssjóðinn hefur hækkað á þessu þriggja ára tímabili vinstri stjórnarinnar meira en nokkru sinni áður, og það hefur það í för með sér, að allur kostnaður atvinnuveganna til sjávar og sveita, kostnaður bæjarfélaganna, kostnaðurinn í verzluninni o.s.frv., það hefur allt saman hækkað, ekki kannske alls staðar að sama skapi, en allt í áttina. Og allt hefur þetta miðað að því að brjóta niður gildi okkar krónu. — allt miðað að því, — enda var svo komið á miðju ári 1958, eins og kunnugt er, að ríkisstjórnin sá sér ekki annað fært en lækka gengi krónunnar um 55%, þó að hana skorti hreinskilni og drengskap til þess að viðurkenna þetta opinberlega, heldur kallaði þetta yfirfærslugjald, sem í rauninni er hrein fölsun, því að þetta er ekkert annað en gengislækkun á sama hátt og sú, sem nú er verið að framkvæma og þetta er tekið inn í.

Það hefur verið talað um það í þessum umræðum, hvaða ráðstafanir aðrar ætti að gera í sambandi við þessa gengisbreytingu, og satt er það, að það er mikið meginatriði, eins og reynslan hefur sýnt bæði á 5. og 6. áratug þessarar aldar. Það hefur óendanlega mikla þýðingu, hvort þær ráðstafanir, sem í sambandi við gengislækkunina eru gerðar, halda þannig, að hún komi að því gagni að koma upp jöfnuði, koma okkar fjármálum í eðlilegt horf. Þetta brast á 5. áratug aldarinnar, og þetta hefur brostið á 6. áratugnum. Þess vegna stöndum við nú í þeim ömurlegu sporum, sem við stöndum, að við vitum það af þessari 20 ára reynslu, að eftir því sem oftar er brotið niður gildi okkar krónu, eftir því verður stökkið gífurlegra. Og ég óttast það og verð að segja það, ekki sízt við hv. stjórnarandstæðinga, sem virðast hafa allt á hornum sér í sambandi við þetta mál, að ef þeim skyldi takast að brjóta niður þær ráðstafanir, sem nú eru fyrirhugaðar í þessu sambandi, þá veit ég ekki, hvað við tekur. Ég gæti bezt trúað, að við tæki þá það eitt, að við yrðum að hætta alveg við okkar krónu og taka upp einhverja aðra mynt. Þá er búið að sýna sig, að þá er ekki hægt að standa gegn því, að það sé alltaf hamazt á því með óeðlilegum kröfum í launamálum, skattamálum og verðlagsmálum að brjóta niður gildi okkar krónu.

Þeir eru að tala um það hér, hver á fætur öðrum, hv. framsóknarmenn, og þeir hömruðu á því sjálfsagt á hverjum einasta fundi í öllum kosningabardaganum í haust, að það væri samdráttarstefna Sjálfstfl., sem nú ætti að taka við af uppbyggingarstefnu Framsfl. Ég hef aldrei orðið var við það og hef þó töluvert langa reynslu, að það sé hægt að þakka fremur Framsfl. en öðrum flokkum, a.m.k. ekki fremur en Sjálfstfl., það uppbyggingarstarf, ræktun, byggingar og framkvæmdir, sem gerðar hafa verið á síðustu 20–30 árum. Þar hefur verið samvinna um á margan hátt. En hinu er ekki að leyna, að það hefur kannske borið meira á því og töluvert meira oft og einatt hjá framsóknarmönnum, að þeir hafi verið ógætnari í því að leggja á skatta og tolla og taka lán, hvar sem hægt er að fá lán, og hirða ekki um það, þó að þetta hefði allt það í för með sér að brjóta niður gildi okkar peninga. En þessi samdráttarstefna, sem þessir menn eru að tala um og eigna sérstaklega Sjálfstfl., — ég kannast ekki við hana. Ég þekki hana ekki. Og ég fullyrði það, að ég þekki engan mann, hvorki í þingflokki sjálfstæðismanna né Alþfl., sem hefði vilja til þess að standa gegn nauðsynlegum framkvæmdum. Það er ekki nein stefna, sem þar er að verki. og það er ekki vilji að neinu leyti í þá átt. En það er stundum annað, hvað menn vilja gera og hvað menn verða að gera. Og þess vegna er það, að afleiðingarnar af óstjórn liðinna ára, sem enginn flokkur á meiri sök á, eins og hér var sagt í gær, heldur en Framsfl., — afleiðingarnar af þeirri óstjórn hljóta að verða þær, að það dragast saman í mjög stórum stíl framkvæmdir í landinu.

Þegar óreiðumenn verða gjaldþrota, þá vita það allir menn, að þeir verða að breyta gersamlega um lifnaðarhætti. Þeir verða að hætta við framkvæmdir og dýr fyrirtæki, sem þá langar til að gera. Og þeir verða að spara við sig peninga á allt annan máta en áður var. Nákvæmlega sama lögmál gildir um okkar þjóðfélag. Fyrst við erum komnir út á þessa háskalegu braut og höfum orðið fyrir þeirri ógæfu að fela óreiðumönnum hvað ofan í annað oft og lengi stjórn okkar mála, þá hlýtur afleiðingin að verða sú, og hún er að koma fram mjög greinilega nú, að framkvæmdirnar hljóta að dragast saman, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Það er vegna þess, að þær hafa alltaf verið að verða dýrari og dýrari, og það er vegna þess, að það verður örðugra, eftir því sem lengra líður, að fá lánsfé til framkvæmda heldur en áður hefur verið. Það er ekki hægt að halda því áfram að taka alltaf erlend lán til innlendra framkvæmda, og það er ekki hægt að halda því áfram endalaust að leggja á skatta og tolla til þess að verja því fé til framkvæmdanna. Alveg á sama máta er það með lifnaðarhætti fólksins að öðru leyti, það er ekki til neins að leyna því. Það er eins eðlilegt og það, að nótt fylgir degi, að þegar verður að viðurkenna svo stórkostlegt gengisfall sem hér er á ferðinni, þá getur það ekki haft annað í för með sér en það, að lífskjör þjóðarinnar verða eitthvað að verða þrengri en verið hefur, og það verður hún að þola, ef hún á annað borð vill koma sínum fjármálum, sínu atvinnulífi, sínu gengi á nokkurn veginn heilbrigðan grundvöll.

Þegar ég heyrði um ákvæði 23. gr. þessa frv., þá fylltist ég mikilli gleði, því að þar er loks viðurkennt það, sem ég hef haldið fram í 20 ár og hamrað á, oftast móti flestum hér á hv. þingi, einstaka sinnum haft einn eða tvo með mér o.s.frv. Og ákvæði þessarar 23. gr. er það að nema úr lögum, að það megi borga laun og kaupgjald með vísitölu og láta hvað skrúfa annað upp, eins og verið hefur. Eins og ég sagði áðan, þá er það mesta vitleysan í mínum augum, sem gerð hefur verið í okkar fjármálum, þegar vísitöluskrúfan var sett í gang 1940, og ég held, að það sé óhætt að segja, að allar ríkisstjórnir, sem síðan hafa fallið, — starfað og fallið, — þær hafi að meira eða minna leyti dáið af baráttunni við vísitölufjandann.

Nú er það svo, að menn hafa oft og einatt sagt við mig: Vísitalan er nauðsynleg, hún er ekkert annað en hitamælir á það, hvernig ástandið er í þjóðfélaginu. — Þetta hefur nokkuð til síns máls, að vísitalan hefur verið hitamælir, en hún er mælir á sótthita þeirrar vitleysu, sem vísitöluskrúfan hefur búið til. Ef við viljum fá réttar upplýsingar um það. hvernig veðrið sé eða hvernig veðrið verði á næstu klukkutímum eða sólarhringum, þá verðum við að nota venjulega annað tæki, sem er þýðingarmeira en hitamælirinn, og það er loftvogin. Og loftvogin í fjármálum á Íslandi hefur verið, verður og ætti að vera gengi okkar krónu. Ef menn hugsa alltaf svo, að það sé óhætt að gera kröfur um hærri laun, hærra verð, betri lífskjör, meiri þægindi o.s.frv., og láta sig engu varða, þó að alltaf sé verið að brjóta niður gildi okkar krónu, þá er um leið víst, að þessi loftvog okkar fjármála verður sífallandi, eins og hún hefur verið núna í 21 ár.

En ég vil bæta því við, að þó að það gleddi mig mjög að sjá þessa 23. gr. í frv. hæstv. ríkisstj., þá féll þar nokkuð mikill skuggi á, þegar ég sé það og finn, að hæstv. stjórn vill láta reikna út vísitölu áfram. Ég hefði viljað láta það fylgja að banna, að nokkur opinber stofnun mætti reikna út vísitölu á þeim grundvelli, sem gert hefur verið. En það er nú svona, menn verða að taka sín stökk til góðs í áföngum, og ég treysti því, að núv. hæstv. ríkisstj. afnemi þetta, áður en langt um líður, og hugsi ekkert um að láta reikna út vísitölu ellegar að borga hana niður, heldur hitt að reyna að koma niður gjöldunum, bæði þeim opinberu og öðrum gjöldum, þannig að atvinnuvegirnir geti þolað þau. Og það verð ég að segja, að mér urðu það nokkur vonbrigði, þegar ég heyrði um þessar ráðstafanir, að þar er ekki nein viðleitni til þess að skera niður ríkisbáknið, skera niður gjöldin. En ég hef fengið tvö í sjálfu sér mjög eðlileg svör hjá hæstv. ráðherrum við minni aðfinningu í þessu efni. Í fyrsta lagi það, að ef hyggilega er haldið á fjármálum og sparsamlega á allan máta, þá er hægt að spara stórar upphæðir án þess að það séu lækkuð fjárlögin. Það er hægt að draga úr eyðslunni mjög mikið, og satt að segja verð ég að segja það, að ég treysti núv. hæstv. ríkisstj. til þess að gera það. Í öðru lagi er svo hitt, sem er meira virði, að til þess að skera niður ríkisútgjöldin í stórum stíl þarf margvíslegar skipulagsbreytingar. Það þarf að leggja niður stofnanir, það þarf að afnema óþörf embætti í tuga- eða hundraðatali, en til þess þarf breyt. á lögum og breyt. á skipulagi. Allt þetta tekur sinn tíma og ekki hægt að gera það jafnundirbúningslaust og nú hefur verið um að ræða fyrir hæstv. ríkisstjórn.

Ég verð því að segja það, að það er eitt af því, sem ég legg ákaflega mikla áherzlu á, að núv. ríkisstj. beiti sér á allan hátt, eftir því sem hún hefur aðstöðu til, til þess að draga úr ríkisútgjöldunum á allan þann máta, sem unnt er, og einkum og sérstaklega þeim óþörfu ríkisútgjöldum, sem eru í stórum stíl hingað og þangað, bæði hér í bænum og víðs vegar úti um land.

Eitt af því, sem hér hefur verið talað mjög mikið um og er stórkostlegt atriði í þessu sambandi, eru vextirnir. Menn hafa staðið hér upp hver á fætur öðrum og barið sér á brjóst og sagt, að það væri ekkert vit að ætla sér að hækka vexti. En ég verð að halda, að þessir menn hafi ekki gert sér grein fyrir því, hvað þeir eru að tala um. Ég held, að vexti hefði átt að hækka fyrir löngu og það mjög verulega, því að það er ekki á neinu viti byggt, að þeir menn, sem fá lán, græði alltaf, en þeir, sem safna peningum og eiga í sparisjóðum og bönkum, séu alltaf að tapa.

Það er upplýst, að öll sparifjáreign landsmanna sé eitthvað rúmar 2000 millj. kr., og þetta fé eiga yfirleitt ekki neinir stórríkir menn. Það er allur almenningur, sá hluti almennings, sem sparar við sig, sem á þetta fé gamalt fólk, börn, launafólk og uppgjafaatvinnurekendur o.s.frv. En í öllum þessum gengislækkunarherferðum hefur það alltaf verið viss, örugg regla, að það er gengið á þessa menn, það er níðzt á þeim, það er níðzt á þeirra fé.

Nú þegar svo langt er farið, eins og nauðsyn hefur borið til og gert er ráð fyrir með þessu frv., í lækkun á okkar gengi, þá er það augljóst, að það verður að hækka innlánsvextina og það í verulegum mæli, og það er ekki hægt að gera, nema því aðeins að útlánsvextirnir séu líka hækkaðir.

Það eru ýmsir menn, sem þekkja ekki inn á þetta mál og virðast halda, að það sé hægt að halda þessu vaxtafyrirkomulagi eins og það er, og það kom ljóst fram hjá hv. 3. þm. Vesturl. (HS), að hann hélt, að það væri hægt óendanlega að halda vöxtum byggingarsjóðs og ræktunarsjóðs og annarra sjóða eins og þeir hafa verið. Þetta er óskaplegur misskilningur. Ég þekki þetta mjög vel, vegna þess að ég er í stjórn þessara sjóða. Og það er ákaflega mikill misskilningur hjá þessum hv. þm., að það, sem hér er lagt til um, að ríkisstj. fái heimild til að breyta vöxtum í þessum sjóðum, sé algerlega að leggja valdið í hennar hendur. Það er ekki, því að það er tiltekið, að það sé gert í samráði við stjórnir þessara sjóða.

Nú skal ég segja ykkur það, hv. alþm., sem mér er kunnugast, og það er ástandið í okkar þýðingarmikla sjóði, ræktunarsjóði. Eftir að 55% yfirfærslugjaldið var sett á, var útkoman sú, að sjóðurinn verður að borga af erlendum lánum, sem veitt eru með 6.5% grunnvöxtum, þá verður hann að borga um 10%. Yfirfærslugjaldið kemur bæði á vexti og afborganir. Svo þegar þetta fé er lánað út fyrir 4%, þá sjá allir menn, að þetta getur ekki þrifizt til lengdar, enda hefur verið reiknað út, að ef þetta á að halda áfram, þá étur ræktunarsjóðurinn sig alveg upp á 12 árum. Og nú versnar enn þá mikið við þá breytingu á genginu, sem nú er verið að gera. Þess vegna er það alveg víst, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, hvort sem það er ógeðfellt eða geðfellt, það er náttúrlega engum geðfellt, — þá verður það að gerast, að það verður að hækka vexti í þessum sjóðum eins og í bönkum og sparisjóðum. Sú hækkun getur auðvitað ekki komið á þau lán, sem búið er að veita og gera samninga um, það nær ekki til þeirra, heldur aðeins til nýrra lána. En þetta er eitt dæmi af því, hvernig ástandið var, þegar vinstri stjórnin skildi víð, því að það hefur ekkert breytzt síðan með ræktunarsjóð og þessa sjóði, að það var alveg opið gjaldþrot fram undan fyrir þessum nytsamlegu sjóðum okkar bændanna.

Ég held jafnvel, að það sé óskynsamlegt, þrátt fyrir það, hve mikil nauðsyn er á að lána út, að hafa útlánsvexti í nokkrum sjóði lægri en almennir inniánsvextir eru á sparifé. Ég held það sé óskynsamlegt.

Nú skal ég ekki fara um þetta fleiri orðum, en víkja hér aðeins að tveimur atriðum öðrum. Það var einn hv. þm., — ég held það hafi verið hv. 3. þm. Vesturl., sem var að minnast á það, að hækkun fjárlaganna væri nú um hálfan milljarð, og virtist svo sem hann gerði sér ekki grein fyrir, af hverju þessi hækkun stafar eða aðalatriðið í henni. Hún stafar fyrst; og fremst af því, að útflutningssjóðurinn er lagður niður. Eins og ég sagði áðan, þá eru útgjöld útflutningssjóðs á árinu sem leið, þau sem voru orðin reikningsfærð á nýári, 1135 millj. kr. Af því voru útflutningsuppbætur 800 millj. Sú upphæð fellur, um leið og gengið er fellt, út úr heiminum. Eftir eru á fjórða hundrað millj., sem eru alla vega niðurgreiðslur innanlands. Þessi gjöld færast yfir á ríkið og þeir tekjustofnar, sem þessi sjóður hafði, aðrar en 55% gjaldið, sem var náttúrlega aðaltekjustofn útflutningssjóðs. Þess vegna er það stærsta orsökin til þess, að fjárl. hækka svona mikið frá því, sem var, að útflutningssjóðurinn er lagður niður. Og þó að fjárlagafrv. sé upp á 1464 millj., eins og það mun vera, þá er breytingin talsverð, því að gjöld útflutningssjóðs og ríkissjóðs á árinu sem leið voru hjá hvorum um sig töluvert mikið á tólfta hundrað millj. Og ég verð að segja það, að það hefur verið eiginlega ákaflega óheilbrigð meðferð á reikningsfærslu, sem haldið hefur verið fast í að undanförnu, að taka ekki útflutningssjóðinn inn á ríkisreikning, því að eins og allir vita, þá er þetta ríkisstofnun, sem átti að vera á ríkisreikningi á svipaðan máta og t.d. Tryggingastofnun ríkisins og fleiri stofnanir.

Varðandi þær miklu fjölskyldubætur, sem nú á að lögleiða, vil ég segja, að það er náttúrlega gott alltaf, ef hægt er að láta fólkið hafa bætur. En allar bætur hafa í för með sér gjöld. Einhvers staðar verður að taka peningana. Og ég fyrir mitt leyti tel það of langt gengið að ætla að fara að gefa með fyrsta barni, eins og nú er gert ráð fyrir. Hitt er eðlilegt og gott, að það sé hægt að hækka bætur við annað og fleiri börn og eins við gamalt fólk og öryrkja og sjúklinga. Það er út af fyrir sig mjög gott. En því miður er ég dálítið smeykur um, að þetta geti ekki lengi haldizt vegna þess, hvernig ástandið var í Tryggingastofnun ríkisins, þegar vinstri stjórnin skildi við, og sjálfsagt hefur það ekki mikið lagazt síðan. É g skal gera grein fyrir því nánara, ef ég verð eitthvað hér áfram á hv. Alþingi, hvernig ástandið var í Tryggingastofnuninni í árslok 1957 og 1958, en eitt af því, sem mér þótti athyglisvert, er það, að þrátt fyrir allar öfgar, öll lán, alla skatta og allan þann peningastraum, sem ríkisstjórnin hafði, þá skorti á fimmtu milljón á, að hún hefði greitt gjöld ríkisins til Tryggingastofnunarinnar í árslok 1958, og það skorti í árslok 1957 á áttundu milljón, að ríkissjóður hefði staðið við það, sem honum bar að greiða til atvinnuleysistryggingasjóðs.

Síðasti ræðumaður, sem hér talaði, hv. 5. þm. Norðurl. v. (BP), sagði ýmislegt skrýtið eins og stundum fyrr. En hann var með eina till., sem mér fannst hann telja vera það, sem ætti að gerast. Hann sagði, að það, sem ætti að gerast, væri að afnema allar útflutningsuppbætur, allar niðurgreiðslur og lækka gengið sem allra minnst. Þetta var það, sem hann taldi vera það, sem koma ætti. Ég skal nú ekki rökræða það mikið, en ég vildi ráðleggja þessum hv. þm. að fara á stéttarsambandsfund bænda eða búnaðarþing og bera þessa till. þar upp, því að ég er hræddur um, að nokkuð illa færi fyrir okkar landbúnaði, þótt ekki sé annað nefnt en það að afnema niðurgreiðslurnar innanlands, og það er bara af þeirri einföldu ástæðu, að niðurgreiðslurnar eru orðnar svo stórkostlegur hluti af verði varanna, að ef það ætti að fara að hækka þær um það, sem niðurgreiðslunum nemur, þá mundi sala vörunnar stórkostlega mikið minnka, og þar að auki kæmi það fram í kjaraskerðingu, sem forstöðumenn launastéttanna mundi hrylla enn meira við en þá virðist nú hrylla við þessu frv., sem þó virðist ekki mikið á bætandi.

Nú skal ég ekki fjölyrða meira um þetta stóra mál. Það er búíð að ganga í gegnum marga hreinsunarelda hjá hæstv. ríkisstjórn, hjá mörgum hagfræðingum, forstöðumönnum stofnana og á margvíslegan hátt, og það á auðvitað eftir að ganga í gegnum þá hreinsunarelda, sem eru fjhn. beggja deilda hér á hv. Alþingi. En eins og gefur að skilja, þá er það svo, að við, sem á annað borð erum stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar, hljótum að fylgja þessu frv., enda þótt við séum ekki ánægðir með öll atriði í því. Og eins og ég hef sagt í þessum orðum, sem ég hef hér talað, þá eru þau atriði, sem ég er einna óánægðastur með, þannig vaxin, að ég treysti þessari hæstv. ríkisstjórn til þess að breyta þar um til bóta, svo fljótt sem hún mögulega sér sér fært, og auðvitað er þetta stóra mál þannig, að það verður að breyta um margt, eftir því sem reynslan kennir þeim mönnum, sem framkvæmdina hafa.