06.02.1960
Neðri deild: 24. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (1994)

48. mál, efnahagsmál

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég heyrði það á ræðu þess hv. þm., sem síðast talaði, hv. 4. þm. Norðurl. v. (JPálm), að hann hefur nokkrar áhyggjur út af fjárlagafrv. hæstv. ríkisstjórnar. Hann virðist í fyrsta lagi hafa nokkrar áhyggjur út af hækkuninni á útgjöldum fjárlaga, sem nemur hátt á 5. hundrað millj. kr., og af því að hann er kunnugur fjárlögum og ríkisreikningum sem yfirskoðunarmaður, hefur hann farið að leita í fjárlögum fyrri ára, hvort hann fyndi þar nokkrar hlíðstæður. Þær hefur hann sýnilega ekki fundið, því að hann hefur tekið það ráð að taka til samanburðar hækkun, sem hafði orðið á þremur árum. Gerði hann þetta án frekari útskýringa á því, hvernig á þeim hækkunum stæði. Í öðru lagi hafði hann sýnilega talsvert miklar áhyggjur af því, að hæstv. ríkisstj. hefði á þeim tíma, sem hún hafði til að semja fjárlagafrv. nýja, ekki fundið nein ráð til þess að draga neitt úr ríkisbákninu. Hann mun ekki vera einn um þetta, því að margir munu hafa búizt við því eftir þau ummæli, sem um það hafa fallið frá þeim, sem nú skipa ríkisstjórnina, að auðvelt væri að draga úr ríkisbákninu, að stjórninni tækist á þessum tíma, þótt ekki sé langur, að finna eitthvað. En hún virðist ekki hafa fundið neitt enn þá. Á þessu furðar hv. þm., og á því furðar mig raunar nokkuð líka, að hún skyldi ekki finna neitt, þótt tíminn væri stuttur, miðað við það, sem áður hefur verið um þetta sagt. En kannske er þetta hægara sagt en gert.

Ég skal nú ekki fara mikið út í almennar umræður um það frv., sem hér liggur fyrir um efnahagsmál. Það hefur verið rætt svo rækilega, bæði í gær og í dag. Samkv. frv. og grg. þess á að fella niður allar útflutningsuppbætur nema þær, sem greinir í 9. og 10. gr. laga nr. 68 1959, hækka verð erlends gjaldeyris um nálega 133% frá skráðu gengi eða 50–78% miðað við núverandi yfirfærslugjald, leggja á söluskatt, sem er áætlaður nettó 245 millj. kr., og 5% útflutningsskatt og hækka benzínskattinn um 34 aura. Þá á að afhenda ríkissjóði tekjur útflutningssjóðs af aðflutningsgjöldum o.fl. eða tekjustofnana að vísu ofur lítið breytta, og eru þær tekjur í greinargerð metnar á 226 millj. kr. Enn fremur á að afnema greiðslu vísitöluuppbótar á launatekjur, heimila nýja myndun lausaskulda erlendis, sem nemur 20 millj. dollara, eða samkv. nýju gengi 760 millj. kr., hækka greiðslur almannatrygginganna um rúmlega 150 millj. og afhenda bæjar- og sveitarfélögum 56 millj. af hinum nýja söluskatti. Niðurgreiðslur innanlands á að auka um nál. 40 millj. kr. Ríkisstjórninni er veitt alræðisvald til að ákveða vexti af helztu lánum opinberra stofnana til langs tíma og almenn vaxtahækkun boðuð. Fleira mætti telja, en þetta eru helztu atriði frv., og skal ég láta hér staðar numið.

Hæstv. ríkisstj. hefur sett upp dæmi úr stórum misverkandi tölum. Niðurstaða: Útflutningsframleiðslan ber sig, meðaltalsframfærslukostnaður landsmanna hækkar um 3%, þ.e.a.s. 150 kr. af 5000 kr. mánaðarlega. Með 20 millj. dollara skuldaaukningarheimild í skiptareikningi út á við telur hún í grg. „landinu skapast gjaldeyrisvarasjóður“, en auðvitað eiga hinir útlendu aðilar þennan sjóð. Hún telur, að fyrirhuguð löggjöf muni hafa þau áhrif, að ekki þurfi að sækja neitt í þennan sjóð, er stundir líða.

Ég ætlaði, eins og ég sagði áðan, ekki að ræða nema nokkurn hluta af þessari lauslegu efnisskrá frv. En almennt vil ég aðeins segja þetta: Ég held, að það hefði verið viðráðanlegra að setja upp minna dæmi og útkoman öruggari. Ég efast ekki um, að sérfræðingar stjórnarinnar hafi reiknað eins rétt og þeir gátu það dæmi, sem fyrir þá var lagt. Og ég tek ekki undir það, að sú vinna, sem hagfræðingar leggja fram, sé ómerkileg vinna. Allar ríkisstjórnir hafa hagfræðinga sér við hlið nú á tímum og verða að hafa. Og það er raunar ekki ástæða til þess að ræða sérstaklega um þessa hagfræðinga, það er ríkisstj., sem að sjálfsögðu leggur línuna í því, sem gera skal, og ber ábyrgð á því, sem lagt er fyrir Alþingi, en ekki hagfræðingarnir, þó að þeir hafi unnið fyrir hana verk eftir hennar fyrirmælum og á hennar ábyrgð. En hér er í mikið lagt og þó ekki hægt að afnema niðurgreiðslukerfið. Mér finnst miklu hætt, ef svo kynni að fara, að tjalda yrði til skamms tíma. Svona ráðstafanir eru erfiðar í framkvæmd, og þessari þjóð hefur tekizt ýmislegt betur á undanförnum árum en að starfa saman að skipan efnahagsmála. Ég hefði kosið að hafa stífluna lægri, ef svo mætti að orði komast, því að flóðið verður mikið, ef þessi stífla brestur, — allt of mikið.

Á árinu sem leið gerði Alþingi umdeilda breyt., svo að ekki sé meira sagt, á stjórnarskrá lýðveldisins. Sú breyt. var í því fólgin að svipta 27 af 28 kjördæmum landsins sínum sögulega rétti til að eiga sérstaka fulltrúa á löggjafarsamkomunni og þar með því takmarkaða sjálfstæði innan ríkisheildarinnar, sem í þessu var fólgið. Og nú, eftir að búið er að kjósa í fyrsta sinn samkv. hinni nýju kjördæmaskipun, er hafizt handa um að setja eins konar viðbótarstjórnarskrá í efnahagsmálum, sem hefur að vísu í rauninni ótiltekinn gildistíma, en sumt af því, sem hún mælír fyrir um, verður þó ekki aftur tekið, ef úr því verður. Að fyrri stjórnarskránni stóðu þrír þingflokkar, enda gat hún ekki gengið fram á sínum tíma að öðrum kosti. Að þessari efnahagsmálastjórnarskrá, sem ég leyfi mér að nefna svo, standa aðeins tveir af þessum þremur þingflokkum. Þegar búið var að breyta kjördæmaskipuninni, gátu þessir tveir flokkar sem sé haft meiri hluta hér á Alþingi tveir einir, eins og hæstv. forsrh. vakti athygli á fyrir nokkru í grein, sem hann skrifaði í blað sitt, og þá töldu þeir sig ekki þurfa meira lið. Þarna álít ég raunar, að þeim missýnist, því að við lausn efnahagsmála virðist eftir reynslu að dæma helzt ekki veita af, að allir flokkar þingsins standi saman.

Stjórnarskránni var breytt til þess að svipta kjördæmin hinum sérstöku þingfulltrúum sínum, og sumir af forstöðumönnum þessa verks voru ómyrkir í máli. Frá þeirra sjónarmiði var héraðavaldið eða byggðavaldið of mikið á Alþingi. Byggðavaldið á Alþingi og þá fyrst og fremst sá flokkur, sem ég telst til, átti að þeirra dómi sök á því, að fjármagninu væri dreift um of. Of miklar framkvæmdir úti um land, sögðu þeir, og of langt að bíða ávaxtanna, þar sem menn eru að byggja upp frá grunni og bæta landið. Þeim þótti það léleg kaupmennska að halda úti nýjum skipum fyrir Norður-, Austur- eða Vesturlandi til að veiða smáfisk og ýsu eða steinbít, eða að byggja síldarverksmiðjur á Austfjörðum. Ekki er hægt á þann hátt að láta kapítalið alheimta daglaun að kvöldum. Þetta var alveg málefnaleg afstaða. Þetta var stjórnmálastefna, þó að ég væri henni andvígur — og margir aðrir — og sé enn. En þessi stefna var af brautryðjendum hennar og liðsmönnum ekki mikið rædd við hlutaðeigandi kjósendur í kosningunum. Þeir létu lítið yfir henni, létu jafnvel í veðri vaka, að hún væri ekki til. Hún var enginn sýnisgripur í kosningunum af þeirra hálfu. Ýmsir hrekklausir flokksmenn reyndu að trúa því, að hún væri hugarburður. En það var þó beygur í mörgum. Menn þóttust eygja blikur á lofti. Þeir gátu ekki skilið það, að þingmaðurinn þeirra væri lýðræðinu hættulegur, eins og gefið var í skyn, þó að þeir fengju að kjósa hann út af fyrir sig. Þeir höfðu til skamms tíma ekki heyrt annað en að Ísland væri og hefði eiginlega alltaf verið fyrirmyndar lýðræðisríki, t.d. á borð við Bretland eða Bandaríkin, sem höfðu svona kjördæmaskipun, elns og við höfðum. Þeir skildu, að annað bjó undir, og það sýndu þeir í kosningunum 28. júní að nokkru leyti.

Og glöggt er það nú, hvað þeir vilja, þessir frumkvöðlar stjórnarskrárbreytingarinnar á árinu, sem leið. Það verð ég raunar að segja, að ég hafði varla gert mér í hugarlund, að það segði svo fljótt til sín hér á Alþingi sem raun er á. En fyrstu tilburðirnir í þessa átt sögðu til sín strax í vor. Þegar sýnt þótti, að stjórnarskrárbreyt. næði fram að ganga, var yfir lýst af hálfu þess flokkafélags, sem þá og nú fer með völd, að dregið yrði úr framkvæmdum samkv. 10 ára rafvæðingaráætluninni sem svaraði 100 millj. kr., hætt við vatnsorkuver, sem búið var að kaupa inn vélar til, og strikaðar út nokkrar fyrirhugaðar orkuveitur, m.a. á Norðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum. Þannig var um þetta talað þá hér á Alþingi af valdamönnum, hver sem raunin verður á. Svo komu brbl. í haust, þar sem bændum var gert að afhenda 3–4% af búsafurðum sínum endurgjaldslaust til 15. des. Þeir, sem að því verki stóðu, hlutu andstöðu, sem varð þeim ofjarl, a.m.k. fyrst um sinn, en fljótlega mun verða úr því skorið, hvort látið verður þar við sitja eða stríðið tekið upp á nýjan leik með nýjum aðferðum. Ég vil þó gera ráð fyrir, að hér verði rétt að málum staðið og án undanbragða. Það ber venjulega einhvern árangur að halda vöku sinni.

En hvað er það svo í þessu frv. um efnahagsmál, sem stefnir í sömu átt? Það er fleira en eitt og fleira en tvennt, og nægir, þótt ekki væri annað, til þess að ég mun ekki sjá mér fært að greiða atkv. með þessu frv., eins og það liggur fyrir. Ýmis ákvæði í þessu frv. og fyrirætlanir, sem getið er um í grg, þess, miða að því beint og óbeint að færa fjármagnið saman í landinu og draga úr dreifingu þess, minnka skynsamlegar og nauðsynlegar framkvæmdir víðs vegar um land, — framkvæmdir, sem bæði kaupstaðir, þorp og sveitir byggja framtíðarvonir sínar á og gera mönnum þar erfiðara fyrir að framleiða verðmæti til uppbyggingar og sér til lífsframfæris.

Þarna er verið að hefja kalt stríð gegn lífsskoðun þeirra, sem vilja byggja landið allt sem víðast, gegn jafnvægi í byggð landsins. Það er sjálfsagt gert í góðri trú, byggt á þeirri skoðun, að þetta sé rétt fyrir þjóðina. En ef einhverjir halda, að þeir, sem í hlut eiga, skilji ekki þetta kalda stríð, þá halda þeir, að menn skilji færra en þeim er þörf á að skilja. Menn gera sér fyllilega grein fyrir því, ekkert síður en bændur flestir gerðu sér grein fyrir nýlendustefnunni, sem átti að reka gegn þeim með brbl. í haust. Það á að draga úr fjárfestingu landsmanna í heild. Það kemur glögglega fram. Það á að gera á ýmsan hátt, en eiginlega með öllum öðrum ráðum fremur en því, sem heilbrigðast er og samboðnast góðri og sterkri stjórn. Stjórnarvöldin virðast ætla að hliðra sér hjá að velja, velja á milli þess, sem þarflegast er og mest aðkallandi, og hins, sem fremur þolir bið. Ég vil ekki vera ósanngjarn við þessa hæstv. ríkisstj., og þess vegna viðurkenni ég það, og mér er það alveg ljóst, að fyrri ríkisstjórnir hafa flestar gengið of skammt í því að taka á sig þennan vanda, að velja á milli þess, sem þjóðin þarf nauðsynlega, og þess, sem getur beðið, því að það er alltaf vandi og þarna eins og annars staðar verða alltaf einhver mistök. En það er þjóðhollt verk, hver sem það gerir, að taka á sig þennan vanda af valinu.

Nú virðist mér eiga að draga úr fjárfestingunni með því aðallega að fækka þeim, sem hafa möguleika á að ráðast í framkvæmdir, fækka þeim nógu mikið. Þetta er fjárfestingartakmörkunin, sem koma skal. En hverjir, hvaða einstaklingar eða hvaða aðilar verða eftir, þegar búið er að framkvæma valið á þennan hátt? Halda menn kannske, að það verði endilega þeir, sem vilja vinna þörfustu verkin? Halda menn, að það verði þeir, sem eru að reyna að vernda byggðina í hinum dreifðu kaupstöðum, þorpum og sveitum? Halda menn, að það verði þeir? Ég held ekki. Og þeir, sem að þessu standa, halda það ekki heldur. Það verða fyrst og fremst þeir, sem verða að bíða betri tíma. Þessir menn, sem gjarnan vilja byggja landið og vinna þörfustu verkin, það verða fyrst og fremst þeir, sem verða að sætta sig við að bíða betri tíma.

Hér á landi hafa með atbeina ríkisins verið byggðir upp ýmsir stofnlánasjóðir, sem veita lán affallalaust til langs tíma, sumir með lágum vöxtum, aðrir með vöxtum, sem eru a.m.k. mun lægri en þeir almennu útlánsvextir, sem nú virðist gert ráð fyrir. Það hafa verið stofnaðir íbúðabyggingasjóðir, bæði til að byggja upp sveitabæi eða reisa nýbýli og til að byggja íbúðir í kaupstöðum og þorpum, t.d. á stöðum, þar sem enginn banki er til og jafnvel enginn sparisjóður, — sjóður til að veita bændum lán til að rækta land, koma upp byggingum vegna framleiðslunnar, sjóður til að veita lán til kaupa á fiskibátum, til að koma upp mannvirkjum og vélum, til að vinna markaðsvöru úr sjávarafla, og sjóður til stuðnings rafvæðingu. Lánskjör í þessum sjóðum eru nú ákveðin í lögum a.m.k. nærri alls staðar, — ákveðin í lögum, sem Alþingi hefur sett. Það hafa þau alltaf verið. Nú biður hæstv. ríkisstj. um, að Alþingi afhendi henni eða hverri annarri stjórn, sem koma kann, alræðisvald til þess að breyta lánskjörum allra þessara sjóða, eftir því sem henni sýnist. Hún má hækka vextina og stytta lánstímann án þess að spyrja Alþingi. Það má hún gera. Það er það, sem þetta lagaákvæði felur í sér. Auðvitað tekur þetta, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, ekki til lána, sem þegar hafa verið veitt. En það mun t.d. eiga að ná til íbúðalána, sem bændur gerðu ráð fyrir og höfðu ástæður til að vera í góðri trú að þeir mundu fá fyrir árslok 1960, og til þess fjölda af ræktunarsjóðslánum, sem biðu fram yfir áramótin síðustu og bíða enn, þó að verkin væru unnin s.l. sumar og lengi hafi tíðkazt að veita slík lán fyrir áramótin. Sama er að segja um þau lán, sem húsnæðismálastjórn hefði, miðað við fyrri venjur, veitt fyrir áramótin. Svo er ráðgert að flytja hluta af innstæðufé sparisjóða og innlánsdeilda úti um land í Landsbankann í Reykjavík. Ég get nú hugsað mér, að hæstv. landbrh. segi, hver sem hugur hans er í þessu máli, og heyrði það reyndar á hv. þm., sem síðast talaði, að menn ætla að segja um þetta mál, þeir sem að því standa, að byggingarsjóð sveitabæja og ræktunarsjóð skorti fé, þá skorti mjög tilfinnanlega fé og að í viðskiptum þeirra sé svo mikill greiðsluhalli vegna útlendra lána, sem yfirfærslugjald féll á og hin nýja gengisbreytingarhækkun fellur á nú, ef úr henni verður, að þetta skapi slíkan greiðsluhalla, að það eyði með tímanum höfuðstól þeirra. Að þessu vék hv. þm. áðan, sem hér talaði síðast. Og það var eins og hann hugsaði sér, að bændur yrðu látnir greiða þessa gjaldeyrishækkun, eins og hún leggur sig, í hækkuðum vöxtum. Ég á erfitt með að trúa því, að það vaki fyrir mönnum, hvað sem öðru líður. En þetta mun eiga að færa fram sem ástæðu fyrir því, að nú verði að hækka vexti og stytta lánstíma hjá þessum sjóðum. En er það þá meiningin, þegar þessi þjóð er komin í nokkur efni, eins og Íslendingar eru ómótmælanlega nú, að þá hafi hún ekki lengur ráð á að reka þá uppbyggingarog ræktunarpólitík fyrir landbúnaðinn, sem hún tók upp fyrir 30 árum, þegar hér voru miklu minni möguleikar til alls, og staðið var við á dögum fátæktar og kreppu hér á landi? Er þetta sá stórhugur og sú bjartsýni, sem bættur hagur hefur skapað hér í landi, að þjóðfélagið telji sér ekki lengur mögulegt að sinna svona verkefnum, að veita hagkvæm lán til langs tíma og með lágum vöxtum til þess að rækta upp landið og koma þar upp framkvæmdum, sem er ekki hægt að koma upp öðruvísi en lánstíminn sé langur og vextirnir séu lágir og hvergi í neinu landi er komið upp öðruvísi, a.m.k. ekki í nágrannalöndunum. Þar hafa verið gerðar ráðstafanir til þess, að landbúnaðurinn nyti hagkvæmra lána. Ég skil ekki það umkomuleysi í hugsunarhætti, sem í þessu felst, að við getum ekki gert nú á þessu sviði það, sem við gátum gert, þegar við vorum sem þjóðfélag miklu fátækari en við erum nú, og þá uppgjöf, sem í þessu felst, nema með þeirri skýringu, sem ég reyndar veit að er á þessu öllu, en það er hin breytta stefna gagnvart byggðum landsins. Þetta er allt í órofasambandi. Og þó er ég ekki viss um, að allir, sem að því vinna, geri sér það fyllilega ljóst. En það er engin smáræðisbreyting, sem hér er verið að gera, ef nú á allt í einu að sleppa hendinni af þeim, sem dregizt hafa aftur úr og nú þurfa að leggja í meiri kostnað en hinir. Ég held, að til þess að jafna þennan greiðsluhalla, sem talað er um hjá sjóðunum og menn alltaf hafa vitað um og áður hefur verið til staðar og verið ráðin bót á, séu önnur ráð til, að hægt sé að bæta hér úr á annan hátt og það sé ekki neitt gífurlegt vandamál.

Það kann að hljóma vel, og ég veit það, að það hljómar vel í eyrum margra að fella niður með öllu verðbætur á útfluttar vörur. Það er ekki vinsælt þetta uppbótakerfi, og ýmsir gera sér far um að benda á ýmsa galla á því, gera það hlægilegt. Sízt skal ég hafa á móti því, að útflutningsuppbótakerfið verði gert umfangsminna en það er nú. Mér finnst alveg rétt að stefna að því að gera það umfangsminna. Ég skal ekki heldur hafa á móti því, að það kunni að vera eðlilegt eða megi virðast eðlilegt að skrá gengi erlends gjaldeyris meira í samræmi við raunveruleikann en nú er gert. Það sýnist auðvitað hlálegt að halda áfram von úr viti að skrá útlendan gjaldeyri langt undir sannvirði, rétt eins og ýmsum finnst það líka hlálegt að hafa fasteignamatsverðið eins og nú er gert, þegar litið er á gangverð fasteigna. Þar vitum við að er ekki samræmi. Ég skal ekki ræða um það almennt nú, hvort togaraútgerðin eða bátaútgerðin í heild hafi hag af gengisbreytingunni. En hitt liggur í augum uppi, að ef gengisbreytingin er hæfileg, miðað við bátaútveginn í heild, þá verður mjög óhagstætt að veiða þann fisk, sem sérbætur hafa verið greiddar á undanfarið, eins og smáfisk, ýsu og steinbít. Það stendur í grg. frv. á bls. 33, að meðalverðuppbætur, sem hafa verið greiddar á bátafisk, þegar allt er tekið í einni heild, þ. á m. fiskur veiddur á ýmsum tímum árs, stærri og smærri fiskur og hinar einstöku fisktegundir, séu nú 94.5% og að gengisskráningin sé við þetta miðuð, að hún eigi, þegar allt kemur til alls og þegar búið er að gera fyrir því, að rekstrarvörur hækki í verði og stofnkostnaður aukist, að jafngilda því, að 94.5% útflutningsuppbætur séu greiddar. En á vissar fisktegundir hafa verið greiddar miklu hærri útflutningsuppbætur og þó ekki veitt af. Ég hef nýlega fengið í hendur tölur um þetta, sem ég skal ekki þreyta þm. á að lesa upp, en munurinn er mjög verulegur. Útflutningsuppbæturnar, sem hafa verið greiddar á smáan þorsk og ýsu og steinbít og sérstaklega á sumarveiddan fisk, hafa verið miklu hærri en á annan bátafisk og miklu hærri en meðaltalið, sem hér er gerð grein fyrir. Þess vegna er það alveg auðsætt, eins og ég sagði áðan, að ef gengisbreytingin er hæfileg fyrir bátafiskinn í heild, þá er verðið allt of lágt fyrir þær fisktegundir, eða þann hluta aflans, sem ég nú hef nefnt. Það yrði allt of lágt fyrir smáfiskinn og allt of lágt fyrir ýsuna og steinbítinn og of lágt fyrir sumarveiddan fisk. Nú má segja, að þetta gerði í sjálfu sér minna til, ef hver fiskibátur eða hver verstöð veiddi nokkurn veginn jafnmikið af þessum fiski hlutfallslega, og þá gerði það ekkert til, ef verðið fyrir stærri fiskinn væri nógu ríflegt. Þá gerði ekkert til, þó að verðið á smáfiskinum væri eitthvað neðan við hitt. En þannig er það ekki, það vita allir, sem til þessara mála þekkja, hafa einhverja staðarþekkingu. En hana geta náttúrlega ekki allir haft. Til eru menn, sem vita ekki, að t.d. á Norður- og Austurlandi, þar sem aðallega veiðist á sumrin, vor, sumar og haust, þar er fiskurinn mun smærri en hér syðra. Hlutfallslega mjög stór hluti bátaaflans í þessum landshlutum er það, sem kallað er smáfiskur, og í aflanum er líka mikið af ýsu. Ég hef heyrt dæmi um það, að smáfiskurinn hafi verið á tilteknum tíma í tiltekinni verstöð, sem ég þekki nokkuð til, 85% af öllum aflanum. En sérbæturnar, sem hafa verið greiddar á þennan fisk, byggjast á því, að það fæst hlutfallslega minna af fullunninni vöru úr fiskinum upp úr sjó, þegar hann er smár, og auk þess kostar mun meira að vinna úr smáum fiski. Hins vegar er þessi vara að jafnaði ágæt vara og þar alveg í fremstu röð, en útflutningsverðið er yfirleitt það sama. En út af þessu var á sínum tíma tekin upp barátta fyrir séruppbótunum á þennan fisk, og þær fengust í áföngum, þangað til þær voru orðnar eins og þær eru nú. Ég held, að það sé sameiginlegt álit þeirra, sem hafa kynnt sér þessi mál, að þar sé ekkert óhóf í, að þessar sérbætur séu ekki hærri en þær þurfa að vera, miðað við þann mun, sem er á vörumagninu, sem fæst úr fiskinum, hráefninu og vinnunni, sem í þetta fer. En ýmsum hefur fundizt fátt um þetta. Þeir, sem láta sér finnast fátt um dreifingu fjármagnsins, hafa kallað þennan fisk Framsóknarýsu eða Eysteinsstútung, af því að framsóknarmenn áttu nokkuð mikinn þátt í að koma þessu fram. Ég hef meira að segja séð orðið „Framsóknarýsa“ á prenti í grein fræðilegs efnis eftir kunnan mann hér í bænum, sem virðist hafa þessi sjónarmíð. En ef nú á að lækka til mikilla muna verðið á þessum fiski eða þeirri útflutningsvöru, sem unnin er úr þessum fiski, miðað við fisk upp úr sjó, þá eru, elns og ég sagði áðan, mörg sjávarpláss á Norður-, Austur- og Vesturlandi a.m.k. mjög illa stödd, svo að ekki sé meira sagt, ef ekki verður ráðin bót á. Og ég er forviða á því, að hér skuli ekki vera gerð einhver ráðstöfun eða einhver fyrirhyggja koma fram, úr því að uppbóta- og niðurgreiðslukerfið í heild er ekki að fullu afnumið, sem hefur ekki reynzt kleift, — að menn skuli ætla sér að láta þá, sem að þessari framleiðslu standa, sigla sinn sjó, nema skýringin sé þessi, sem ég nefndi í upphafi, að ýmsir, sem nú ráða málum, gráta þurrum tárum og telja ekkert óhagkvæmt, þó að eitthvað drægi úr framleiðslu og eitthvað fækkaði fólki hér og þar á landinu og það flytti á staði, þar sem þeir telja að betur sé búið fyrir þjóðina. En hér er áreiðanlega ekki að uppbyggingu stefnt.

Ég skal svo ekki ræða þessi mál nánar að sinni. Eins og ég sagði í upphafi, þá kemur mér það ekki á óvart í sjálfu sér, þó að þessarar stefnu, sem er andvíg dreifingu fjármagnsins og ekki kærir sig um að leggja mikið í sölurnar til að halda landinu í byggð, gæti nú meira en fyrr, þó að þessi stefna komi fram nú og sjái sér leik á borði. Þetta er afleiðingin af því, sem búíð er að gera á s.l. ári. En þess er ekki að vænta, að samkomulag verði hér á Alþingi um aðgerðir af þessu tagi.