06.02.1960
Neðri deild: 24. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (1995)

48. mál, efnahagsmál

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þessar umræður hafa nú staðið alllengi, eins og raunar eðlilegt er, þar sem hér er um mjög þýðingarmikið og stórt mál að ræða, og ekki undarlegt, þó að það sé rætt fram og til baka. En efnislega hefur því nú verið lýst svo vel og rækilega af þeim, sem fyrir því hafa mælt, að ég þarf ekki að hafa um það út af fyrir sig mörg orð. En mér þykir hlýða að segja aðeins nokkur orð um ummæli, sem hér hafa komið fram í garð fyrrv. ríkisstjórnar alveg sérstaklega og þá tilraun, sem gerð hefur verið hér af tveimur hv. framsóknarmönnum alveg sérstaklega í þá átt að reyna að telja hv. alþm. trú um það, að þessi stjórn hafi lýst því yfir, þegar hún tók við völdum og síðar, að hún teldi sig munu geta leyst allan efnahagsvandann, svo að þar þyrfti engu við að bæta. Svo hafa þeir, þessir hv. þm., reynt að sýna fram á það, hvernig þetta hafi allt saman tekizt miður en lofað hafi verið, og það raunar hafi verið þessari stjórn að kenna, að nú er komið sem komið er.

Hv. 1. þm. Austf. (EystJ) sagði, að kjörorðið fyrir kosningar hefði verið stöðvun dýrtíðar án skatta og ekkert hefði þá verið minnzt á, að lifað væri um efni fram. Hv. 3. þm. Vesturl. sagði í sinni ræðu hér eitthvað á þá leið, að Alþfl. hefði haldið því fram, að þessi flokkur hefði leyst öll vandamál efnahagslífsins. Í öðru lagi sagði hann, að stjórnarstefna fyrrv. ríkisstj. hefði mistekizt, og á því er þessi lagasetning byggð. Þetta sagði hv. þm. orðrétt. Og hann spurði í sinni ræðu: Er þetta, sem hér er að gerast, ávöxturinn af eins árs stöðvunarstefnu Alþfl. og Sjálfstfl., sem kemur fram í því að fá nú á sig meiri álögur en nokkru sinni fyrr?

Þessir hv. þm. hafa bæði fyrr og síðar og blað flokksins, Tíminn, reynt æ ofan í æ að gera tortryggilegar þær aðgerðir, sem Alþfl.- stjórnin kom í framkvæmd, vissulega að nokkru leyti með aðstoð Framsfl., í ársbyrjun 1959, og hjásetu framsóknarmanna við afgreiðslu þeirra mála, sem þá voru afgr. í sambandi við lausn þessara mála. Þeir vilja koma því inn, að þessar aðgerðir Alþfl. hafi haft á sér yfirvarp annars en þess, sem þær raunverulega voru, og það, sem flokkurinn hafi lofað að gera, hafi mistekizt.

Við skulum nú athuga þetta ofur lítið nánar og hvernig þessa hluti bar að. Á árinu 1958, undir forustu Hermanns Jónassonar og vinstri stjórnarinnar, hækkaði vísitalan í landinu um 34 stig, úr 191 stigi 1. jan. 1958 og upp í 225 stig, sem vísitalan hefði orðið 1. jan. 1959, ef ekki hefði þá verið gripið til niðurgreiðslu. Þetta er það, sem mætti kalla, eins og hv. þm. nefndi það, óðaverðbólgu, og þessa óðaverðbólgu réð ekki vinstri stjórnin við. Hún hljóp frá öllu saman án þess að gera tilraun til að leysa vandann, og það sem meira var, hún vildi ekki þiggja stuðning þeirra flokka, sem buðu henni að leysa vandann.

Alþfl. skrifaði forsrh, fyrrv., Hermanni Jónassyni, bréf, eftir að það hafði heyrzt, og hann raunar tjáð það, að hann mundi segja af sér, vegna þess að verðbólguholskeflan væri riðin yfir og engin ráð til úrlausnar, og óskaði þess við hann, að hann bæri málið inn í þingið og reyndi þar að koma á framfæri þeirri lausn, sem Alþfl. og Framsfl. voru að miklu leyti sammála um og raunar Alþb. að nokkru leyti. Þetta vildi hann ekki gera, heldur hljóp og skildi allt eftir í öngþveiti. Þá voru gerðar ýmsar tilraunir til stjórnarmyndunar, sem tókust ekki, og það var ekki önnur lausn finnanleg en sú, að Alþfl. myndaði minnihlutastjórn með óbeinum stuðningi Sjálfstfl., sem hét því að firra stjórnina vantrausti, ef fram yrði borið. Það var ekki eðlilegt, að þessi stjórn og raunar ekki þessir flokkar báðir þá, Alþfl. og Sjálfstfl., sem höfðu ekki samanlagt meirihlutavald á Alþingi til þess að koma málum fram, gætu ráðizt að kjarna málsins. En hvaða verkefni tókst þessi stjórn á hendur? Hún tókst á hendur það verkefni að reyna að koma í veg fyrir þetta, sem hv. þm. kallaði óðaverðbólgu, reyna að hafa hemil á verðbólguaukningunni á árinu 1959, þangað til meirihlutastjórn yrði mynduð, sem gæti tekið að sér lausn vandans.

Vandi efnahagsmálanna er margs konar. Verðbólguaukningin er ekki nema einn þáttur vandans. Það var sá þátturinn, sem ógnaði um áramótin 1958 og 1959, og það var að þeim hluta vandans, sem Alþfl. sneri sér og hét því að freista þess að leysa. Hann tók líka að sér að freista þess að leysa kjördæmamálið, þannið að meira réttlæti fengist í skipan Alþingis í hlutfalli við flokkaskipunina í landinu, og hann gerði sér ljóst, að eftir að hafa lokið því verkefni mundi hann og hans stjórn hætta og meirihlutastjórn taka við, hvernig svo sem hún yrði mynduð. En verkefni hans var fyrst og fremst að reyna að koma í veg fyrir það þann tíma, sem stjórnin sat, að verðbólguaukningin yrði eins óhófleg og hún varð á síðasta stjórnarári vinstri stjórnarinnar. Þá varð hún hvorki meira né minna en 34 stig, eða í kringum 17%. Hér er talað um með þessum aðgerðum öllum hækkun á vísitölu, sem nemur 13%. Það var greinilegt, að ef þessi verðbólguaukning, sem byrjaði svona hastarlega á árinu 1958, hefði fengið að halda áfram óstöðvuð á árinu 1959, þá hefði allt endað með skelfingu þá þegar. Það var sannað, eða a.m.k. voru færðar fyrir því sterkar líkur, að ef ekki yrði að gert, þá mundi vísitalan komast upp í 270 stig, þegar kæmi fram á haustið 1959, og hér var sýnt fram á það í gær, að ef það hefði skeð, þá hefði okkur ekki nægt að lækka gengi íslenzku krónunnar það mikið, að dollarinn yrði 38 kr. virði, heldur hefðum við orðið að borga 60 kr. fyrir dollarann. Hvað er það þá, sem stjórn Alþfl. gerði á árinu 1959? Hún kom í veg fyrir það, að sama óðaverðbólgan sem hér var 1958 héldi áfram 1959 og endaði svo með þeirri skelfingu, að við yrðum að breyta gengisskráningunni á krónunni þannig, að dollarinn yrði 60 kr., í staðinn fyrir að við þurfum þó ekki að fara í nema 38 núna, sem er vissulega ærið.

Þetta er það, sem Framsfl. er sí og æ að reyna að gera okkur tortryggilega fyrir og segja, að við hefðum ætlað að leysa allan vanda efnahagsmálanna. Það er fráleitt, því að minnihlutastjórn Alþfl. hafði í fyrsta lagi engan möguleika til þess að gera það, og henni datt það ekki í hug. Hún réðst aðeins að þessum eina þætti, og hún leysti hann á þann veg, að vísitalan, sem var 100 1. marz 1959, er 100 enn í dag. Og það hefur ekki í annan tíma í þessu þjóðfélagi verið meiri stöðvun á verðbólgunni en einmitt hefur orðið, síðar þessar aðgerðir voru gerðar um áramótin 1958 og 1959. Það er þess vegna algert öfugmæli, eins og hv. þm. sagði, að stjórnarstefna fyrrv. ríkisstjórnar hefði mistekizt og á því væri þessi lagasetning byggð.

Hv. þm. framsóknarmanna sögðu, þegar lögin um niðurfærslu verðlags og launa voru sett í ársbyrjun 1959, að byrðunum af þessum aðgerðum væri velt yfir á framtíðina og að bæði ríkissjóður og útflutningssjóður mundu koma út með stórkostlegu tapi, sem síðan yrði velt yfir á þjóðina. Þegar það kom í ljós samkv. vitnisburði formanns stjórnar útflutningssjóðs og af yfirliti, sem kom fram' um afkomu ríkissjóðsins, að líkur væru til, að báðir þessir sjóðir mundu standast þær kröfur, sem til þeirra yrðu gerðar á árinu, hallalítið eða hallalaust, þá var hörfað í aðra víglínu og sagt, að þetta væri fengið með óhóflegum innflutningi hátollavara. Hver er svo niðurstaðan af því? Niðurstaðan af því var, að það var flutt inn á árinu 1959 nákvæmlega jafnmikið af hátollavöru og gert var 1958, eða fyrir 190 millj. kr. Áætlanir okkar voru að vísu lítils háttar lægri en vinstri stjórnarinnar 1958, þ.e.a.s. 212 í staðinn fyrir 226 millj., en eigi að síður var ekki hægt að standa við áætlunina. Við gátum ekki flutt inn meiri hátollavöru en þetta, ef nauðsynjavörur átti ekki að skorta, og skorti þær þó siðasta mánuð ársins nokkuð vegna þeirrar stöðvunar, sem þá varð í bönkunum á yfirfærslu um skeið.

Ég skal ekki hér fara út í það að ræða um afkomu ríkissjóðs á árinu 1959. Það mun hæstv. fjmrh. gera við 1. umr. fjárlaga, sem fer hér fram á mánudaginn. En ég get þó sagt eftir þeim upplýsingum, sem ég hef um það fengið, að það mun ekki verða greiðsluhalli á árinu 1959.

Um útflutningssjóðinn er það að segja, að þegar tekið er saman, eins og útflutningssjóðurinn hefur alltaf verið gerður upp um áramótin, sjóðseign og óinnheimtar gjaldfallnar tekjur miðað við 31. des. 1959 annars vegar og óafgreiddar gjaldfallnar kröfur hins vegar, þá er mismunurinn þar á milli um 30 millj. kr., sem skortir á, að útflutningssjóðurinn geti staðið við þessar skuldbindingar sínar að fullu. Þó er þess að geta, að í þessu eru 32 millj. kr., sem er óuppgerð og ógreidd umboðssala frá árinu 1958, þannig að ef sú tala er dregin frá, þá er útflutningssjóðurinn, miðað við áfallnar og ógreiddar kröfur, nokkurn veginn í járnum, þegar tekjurnar eru teknar með, þær sem hann á von í, en ekki er búið að greiða inn. Ríkissjóðsframlagið hefur verið greitt að fullu að undanskildum 11 millj., sem var ekki búið að heimta inn um áramótin, og óinnheimtar tekjur, sem vitað var um að kæmu, voru 18 millj. rúmar og sjóðseign 15 millj. Þetta er til samans 45 millj.kr., en kröfurnar eru í kringum 30 millj. kr. hærri.

Þetta breytir ekki því, að birgðasöfnunin, sem orðið hefur í landinu, gerir það að verkum, að útflutningssjóður á ógreitt út á þær. En á móti því kemur aftur hitt, að það lán, sem ætlað var að taka á árinu og vera undirstaðan undir þeim jöfnuði, sem reiknað var með, 6 millj. Bandaríkjadollara, hefur ekki verið innborgað á árinu nema að örlitlu leyti. Ég ætla, að um áramótin hafi verið yfirfærð af því rúmlega 1 millj. dollara, þannig að þó að nokkurt fé hafi verið tekið til láns út á birgðirnar, þá eru enn ókomnar tekjur handa sjóðnum, sem hefðu numið, ef þær hefðu komið fyrir áramótin, yfirfærslugjaldinu af þeim vörum, sem fyrir þessa dollara hefðu verið keyptar.

En hitt er eftirtakanlegra, að í þessum greiðslum útflutningssjóðs fyrir árið 1959 eru innifaldar mjög stórar greiðslur fyrri ára. Á árinu 1959 hafa verið greiddar útflutningsbætur, sem heyra árinu 1958 til, upp á rúmar 300 millj. kr., og útflutningsbætur fyrir árið 1957 upp á tæpar 15 millj. kr., eða samtals 325 millj. frá tíð vinstri stjórnarinnar, sem var greitt á árinu. Við þetta bætast svo þessar 32 millj., sem ég nefndi að enn væru ógreiddar fyrir óuppgerða umboðssölu frá 1958, þannig að í heild verður greiðslan fyrir árið 1959 347 millj. kr., 315 plús 32.

Þessi gífurlegi hali hefur löngum valdið erfiðleikum, og hann heldur áfram að valda vaxandi erfiðleikum, eftir því sem hann lengist. Ef nú er skorið á þennan hala og þessar útflutningssjóðsgreiðslur 15. febr. n.k., eins og frv. gerir ráð fyrir, þá lítur út fyrir, að til greiðslu komi hjá útflutningssjóði eða ógreitt vexti, þegar tekjurnar hætta að koma inn, í kringum 270 millj., eins og grg, frv. segir frá. Þessara 270 millj. kr. er ætlað að afla í fyrsta lagi með mismuninum á söluverði afurðanna eftir hinu nýja gengi og þeirri upphæð, sem eigendunum verður greidd, sem er reiknuð á gamla genginu plús venjulegar uppbætur, — fyrir þetta er talið að fáist 150 millj. kr. eða þar um kring, — og síðan 120 millj. af þeim útflutningsskatti, sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég tel þess vegna, að með þeim erfiðleikum, sem þetta kerfi ber í sér, hafi eftir atvikum ekki illa til tekizt um þessa framkvæmd. Það sé ekki byrðum velt yfir á framtíðina óhóflega og það sé ekki heldur óhóflegur innflutningur hátollavara. En endarnir ná ekki til fulls saman, vegna þess að á skortir með það lán, sem reiknað hafði verið með á árinu. M.ö.o.: kerfið, þetta uppbótakerfi, sem við búum við, þrífst ekki, nema við í mjög ríflegum mæli annaðhvort flytjum inn þessa hátollavöru, sem við kannske þurfum ekki nema að litlu leyti á að halda og hefðum miklu betur notað féð til annars, eða þá að við tökum lán, sem keyptar verða vörur fyrir, sem við getum skattlagt og látið sjóðinn njóta í tekjum.

Þetta er, eins og margtekið hefur verið fram í þessum umræðum, ástæðan til þess, að kerfið getur ekki staðizt, og það verður að gera þarna breytingu á. Og breyt., sem er sú eina breyt., sem fær er, er sú að skrá gengið jafnt fyrir innflutninginn og útflutninginn. Að vísu kostar það álögur í bili, því er ekki að neita. Það kostar ekki þær gífurlegu tölur, sem hér hafa verið nefndar, 1000 millj., 1300 millj. og 2000 millj., það kostar ekki það. En það er ómögulegt að neita því, að það kostar byrðar. En kerfið verður ekki heilbrigt, á meðan þetta sjúklega ástand varir, og það er til þess að koma í veg fyrir það, sem þetta frv. er flutt. En úr þunga byrðanna er reynt að draga hjá þeim, sem erfiðasta hafa aðstöðuna. Það er reynt að draga úr þunganum hjá barnmörgum fjölskyldum, og það virðist með þeim ráðstöfunum, sem sagt er frá í grg. frv. og önnur frv. verða borin fram um nú bráðlega, vera hægt að koma því til vegar, að byrðarnar á vísitölufjölskyldunni verði ekki nema í kringum 3% og á fjölskyldu með 3 börn eða fleiri verði þær byrðar, sem af þessu leiðir, með svipaðar tekjur ekki teljandi. Hins vegar er því ekki að leyna, að ýmsar fjölskyldur í þessu landi og einhleypingar og aðrir eru þannig settir, að þeir njóta ekki þessara fríðinda, sem hér eru boðuð, og á þeim lendir byrðin þess vegna þyngra. Þó er á henni þetta ákveðna hámark, sem vísitöluhækkunin skýrir frá, og kannske ekki að fullu og ekki nálægt því að fullu hjá mörgum, þó að þeir njóti ekki fríðindanna. En með frumvörpunum, sem koma, eru gerðar ráðstafanir til þess, að bæði barnmörgu fjölskyldurnar og gamalmenni og öryrkjar fái þessa hækkun fullkomlega upp borna.

Ég skal segja það fyrir mig, að ég er vissulega ekkert glaður yfir því að þurfa að taka þátt í þessum aðgerðum, og það er ekkert fagnaðarerindi, sem við hér erum að boða, og það hefur heldur enginn haldið því fram. En ég tel, að það þýði ekki annað, að það sé bókstaflega talað að stinga höfðinu í sandinn að horfa fram hjá því, að einhverjar aðgerðir svipaðar þessu eru nauðsynlegar. Það er ekki hægt að halda áfram með uppbótakerfið óbreytt, eins og það hefur gengið, og það er ekki hægt að lagfæra það, það höfum við líka kannað, — það er ekki hægt að lagfæra það nema með tilkostnaði og byrðum, sem sízt verða léttari á almenningi en það, sem hér er að gerast.

Það er stundum rætt um kaupmátt launa, og það er ekki tilviljun, að okkur hefur ekki tekizt þrátt fyrir öfluga verkalýðshreyfingu og blómlegt atvinnulíf, góða markaði og fleira, sem þarna kemur til greina, að þrýsta kaupmætti launanna verulega upp síðasta áratuginn. Þetta stafar af því, bókstaflega talað, að öllum hækkunum á launum, sem fram hafa komið, og þær eru miklar, hefur jafnóðum verið velt yfir á ríkissjóðinn og ríkissjóður veltir þeim svo aftur yfir á almenning. Á meðan þessi vítahringur heldur áfram, þá er ekki að búast við, að lagfæring fáist hér á. Lagfæring verður ekki fyrr en launþeginn getur samið beint við atvinnurekandann um sín laun og það, sem hann fær til viðbótar í hækkuðu kaupi, sé frá honum tekið, en ekki öðrum, og að hann hafi ekki aðstöðu til þess að færa það yfir á aðra.

Gjaldeyrisstaða þjóðarinnar er ákaflega ísjárverð, og hún hefur alltaf verið að versna upp á síðkastíð. Og það er náttúrlega fyrst og fremst vegna þess, að lántökurnar hafa verið nauðsynlegar til þess að halda kerfinu gangandi, og það alveg burtséð frá því, hvort þurfti að nota lánin til einhverrar ákveðinnar fjárfestingar. Það þurfti alveg eins að fá þessi gjaldeyríslán, hvort sem peningarnir voru notaðir til Sogsvirkjunar eða áburðarverksmiðju, eins og hv. 1. þm. Austf. nefndi hér í gær og var að telja upp að væru óánveranlegar framkvæmdir. En gjaldeyrislánin voru alveg jafnnauðsynleg, þó að til þessara framkvæmda hefði ekki komið, vegna kerfisins.

Við áttum hér í stríðslokin digra sjóði. Þeir eru allir uppétnir. Við nutum, þegar þeir voru uppétnir, svokallaðrar Marshallaðstoðar um nokkur ár. En síðan það hvort tveggja er búið, höfum við orðið að lifa á því að safna skuldum. Og nú eru skuldirnar orðnar svo miklar, að líkur eru til þess, að það verði mjög miklum erfiðleikum bundið að fá þessar lántökur áfram og áfram, enda greiðslubyrðin, sem mér heyrist sumir hv. þm. hér jafnvel gera grín að, orðin svo mikil, að við ráðum ekki við hana eins og hún er, hvað þá að hún vaxi. Ef vel ætti að vera, þá ættum við að eiga gjaldeyrissjóð, eins og flestar þjóðir eiga. Við höfum átt hann. Hann er horfinn, og í staðinn fyrir gjaldeyrissjóð er komin nettóskuld. Yfirdrættir, sem bankarnir hafa erlendis, eru notaðir að heita má að fullu, og í desembermánuði s.l. var svo komið, vegna þess að útflutningur gekk ekki eins greiðlega og búizt hafði verið við, að það hélt við, að yfirfærslur bankanna stöðvuðust. Þetta er náttúrlega svo ótryggt ástand, að það er ekki nokkur lifandi leið að búa við það til frambúðar. Gjaldeyrisvarasjóð tekur náttúrlega tíma að byggja upp, og það er rétt, að menn veiti því athygli, að kerfið, þetta uppbótakerfi, gerir það ómögulegt, að nokkurn tíma sé safnað gjaldeyrisvarasjóði, af því að ef við eignumst pening, hvort sem er með láni eða á annan hátt, þá verður að flytjast inn fyrir hann eitthvað, sem útflutningssjóðurinn getur haft tekjur af, svo að gjaldeyrisvarasjóðsmyndun undir núverandi uppbótakerfi er útilokuð. Ef við ætlum að reyna að vinna upp einhvern slíkan sjóð, sem við vissulega verðum að gera, þá verðum við að byrja á því að afnema kerfið. Það er ekki von, að við getum unnið upp gjaldeyrísvarasjóð, sem miklu máli skiptir, á stuttum tíma. En til þess að komast yfir þá erfiðleika, sem óumflýjanlegir eru framvegis, höfum við fengið heimild til yfirdráttar fyrir 20 millj. dollara, eins og segir í grg. frv. En það hefur verið túlkað hér sem algerlega það sama og um lántöku væri að ræða, um eyðslulántöku. En það er alls ekki það. Ég þarf ekki að fara út í að skýra það fyrir þeim mönnum, sem vilja skilja, hver munur er á þessu tvennu, að eiga innhlaup um stuttan tíma til þess að geta notað fjármuni til greiðslu á nauðsynlegum hlutum, og svo hinu, að fá lán, sem notuð eru varanlega í eyðslu, annaðhvort fjárfestingu eða aðra eyðslu, og ekki er gert ráð fyrir að skilað sé svo að segja strax aftur. Muninn á yfirdráttarláni og venjulegu láni þekkja allir hv. þm., svo að það er mjög villandi að rugla því nokkuð saman.

Ég ætlaði mér ekki að hafa hér mörg orð, og ég skal ekki gera það, því að umræður eru orðnar nokkuð langar og málið verður að komast til n. í kvöld, eða ég vil vona það a.m.k., svo að ég skal ekki hafa um þetta miklu fleiri orð. En það, sem ég aðeins vildi undirstrika, voru í fyrsta lagi þau öfugmæli, sem hv. framsóknarmenn hafa hér haft um þær aðgerðir, sem Alþfl.-stjórnin hafði í efnahagsmálunum, — ég vil undirstrika, að þó að mér að sumu leyti þyki erfitt að þurfa að bera fram eða vera með till. eins og hér er gerð um breyt. á genginu, þá verður það ekki umflúið. Og ég vil líka undirstrika þær lagfæringar, sem gerðar verða á aðstöðu þeirra, sem erfiðasta eiga aðstöðuna, svo sem barnafjölskyldna og gamalmenna. Ég held líka, að þegar við erum að bera saman þá kjaraskerðingu, sem af þessu hlýzt, þá sé það ekki samanburður, sem sé einhlítur. Það, sem við raunverulega eigum að bera saman, er þetta frv. og það, sem mundi koma, ef þetta frv. hefði ekki komið fram. Það er það, sem við eigum völ á, sem við þurfum að bera saman, en ekki það, sem útilokað er að við höfum völ á, því að óbreytt ástand er útilokað.