11.02.1960
Neðri deild: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

48. mál, efnahagsmál

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta stjórnarfrv. hefur verið til athugunar í fjhn. d. Ég legg fram í d. sérstakt álit um þetta mál. Það liggur ekki hér fyrir enn þá, en svo hefur talazt til milli mín og hæstv. forseta, að ég þrátt fyrir það geri grein fyrir nál.

Það er ekki nýtt í sögunni, að, fjallað sé um efnahagsmál hér á Alþingi. Það hefur komið fyrir oft áður nálægt áramótum, að þessi mál hafi verið rædd á þingi og ákvarðanir teknar um þau. Þá er það venja manna að gá til veðurs, athuga aðstæður allar og ástæður í atvinnu- og efnahagsmálum, eftir því sem föng eru á. Ég tel, að það sé eðlilegt að gera það einnig nú.

Liggur þá fyrst fyrir að íhuga, hvernig afkoman hefur orðið á næstliðnu ári hjá ríkissjóði og hjá útflutningssjóði, sem hefur á næstliðnum árum haft það hlutverk að greiða útflutningsbætur til þeirra, sem flytja út íslenzkar framleiðsluvörur til annarra landa, og sömuleiðis hefur þessi sjóður gegnt því hlutverki að greiða niður verð á ýmsum innlendum vörum á innlendum markaði. Eins og kunnugt er, hefur tekna verið aflað til sjóðsins fyrst og fremst með yfirfærslugjaldi og einnig á annan hátt, með sérstöku innflutningsgjaldi, og nokkra fleiri tekjustofna hefur hann haft. Hæstv. fjmrh. skýrði frá því við 1. umr. um fjárlagafrv. nú fyrir fáum dögum, að hjá ríkissjóði hefði orðið nokkur greiðsluafgangur á árinu sem leið, — mig minnir, að hann nefndi um 8 millj. kr. En á það er að lita, að á árinu var notaður tekjuafgangur frá fyrra ári, sem hæstv. ráðh. taldi að verið hefði, ef ég man rétt, 43.5 millj. kr. Samkv. þessu ætti greiðsluhallinn hjá ríkissjóði á árinu sem leið, ef það er tekið út af fyrir sig, að hafa numið 35–36 millj. kr.

En hvað er þá að segja um útflutningssjóðinn? Það eru nokkrar upplýsingar um hans útkomu árið sem leið og hans hag í aths., sem fylgja þessu frv. En nokkuð eru þær upplýsingar þó á reiki og illt að átta sig á því til hlítar, hvernig afkoma hans raunverulega hefur orðið, þó að um þetta hafi orðið umræður nokkrar, m.a. í fjhn.

Á bls. 15 í aths. með frv. segir, að ætla megi, að hallinn hjá útflutningssjóði hafi numið um það bil 180 millj. kr. á árinu 1959. Þó hefur það komið fram í umræðum hjá hæstv. ráðh., að þessi upphæð mundi sennilega oftalin um 30 millj., og samkv. því ætti hallinn að vera 150 millj. En síðar í aths. er sagt frá því, að þær kröfur eða skuldbindingar, sem á útflutningssjóði hvíldu um næstliðin áramót, megi ætla að hafi numið alls um 270 millj. kr. Þetta er það, sem fyrir liggur frá stjórninni um afkomu sjóðsins.

Útflutningssjóður var stofnaður upphaflega með lögum í árslok 1956. En á árinu 1958 voru sett ný lög um sjóðinn, allmikið öðruvísi en þau upphaflegu. Var kerfið þá allt gert einfaldara en áður var, og má held ég óhætt fullyrða, að þá hafi verið gerðar á því verulegar endurbætur. Má vel líta á það skref, sem þá var stigið, sem þýðingarmikið byrjunarskref til að komast út úr því uppbótakerfi, sem við höfum búið við. En ef maður vill reyna að gera sér grein fyrir, hver útkoman hefur orðið hjá útflutningssjóði allan þann tíma, sem hann hefur starfað frá árslokum 1956 og þar til nú, þá verður að taka þar með í reikninginn, að útflutningssjóðurinn tók við skuldbindingum, þegar hann byrjaði, sem þá hvíldu á framleiðslusjóði og gamla bátagjaldeyrískerfinu, sem upp var tekið árið 1951. Fjhn. fékk upplýsingar um það hjá stjórn útflutningssjóðs í bréfi nú fyrir nokkrum dögum, að þessar kröfur, sem á útflutningssjóð féllu, hefðu verið halli framleiðslusjóðs, 18.4 millj. kr. rúmlega, og innlausnir B-skírteina svonefndra, 87.7 millj. Samtals gerir þetta rúmlega 106 millj., og ef menn vildu sjá hina raunverulegu útkomu af rekstri útflutningssjóðs, síðan hann tók til starfa, þá yrði að sjálfsögðu að draga þessa upphæð frá þeim kvöðum, sem nú hvíla á honum.

En þá kemur spurningin: Hvað mikið þarf að gera nú til þess, að vonir standi til, að útflutningsframleiðslan geti orðið rekin með eðlilegum hætti þetta ár og einnig að ríkisreksturinn verði hallalaus? Þarf að gera sérstakar ráðstafanir í þessu efni og þá hvað miklar? Í aths. með þessu stjórnarfrv. segir, að gengisskráningin, sem till. er gerð um í 1. gr., sé við það miðuð, að stærsta grein útflutningsframleiðslunnar, þ.e. bátaútgerð til þorskveiða, beri jafnmikið úr býtum eftir gengisbreytinguna og nú með því fyrirkomulagi, sem nú er búið við. Í þessu felst yfirlýsing frá ríkisstjórninni um, að það þurfi ekki nú að gera sérstakar viðbótarráðstafanir vegna þessarar stærstu greinar útflutningsframleiðslunnar, sem stjórnin nefnir svo. Hins vegar er litið svo á og kemur fram í þessu frv. og aths. með því, að það muni þurfa að gera nokkrar ráðstafanir til að bæta hag togaraútgerðarinnar og síldarútvegsins.

Mér sýnist málið þá liggja þannig fyrir, að það ætti að vera hægt að leysa þessi mál þannig nú fyrir árið í ár, að ekki þurfi að leggja fram neinar stórar fjárhæðir í því skyni. Það væri hægt að skapa viðunandi rekstrarskilyrði fyrir útflutningsframleiðsluna án nokkurra stórbreytinga. En það mundi þurfa að afla nokkurra nýrra tekna til þess, og það tel ég að ætti að vera hægt án mikilla örðugleika.

Í því sambandi vil ég benda á það, að hæstv. ríkisstj. leggur til, að samþ. verði hækkun á nokkrum ríkistekjum, þ.e.a.s., hún leggur til að hækka nokkuð skatta og taka þá hækkun í ríkissjóðinn. Hún leggur t.d. til að hækka aukatekjur ríkissjóðs, hækka gjald af innlendum tollvörutegundum o.s.frv. En auk þess leggur stjórnin til, að lagður verði á nýr skattur, almennur söluskattur, sem á að gefa allmikið fé. Þetta sýnir það, að hæstv. ríkisstjórn telur möguleika til þess að auka tekjur ríkisins með ýmsu móti. Nú lít ég svo á, að almennur söluskattur sé margra hluta vegna mjög óheppilegur tekjustofn. Um það skal ég ekki ræða frekar, því að frv. um hann liggur hér ekki fyrir, og ég tel því, að það gæti ekki síður komið til greina að afla tekna, sem nauðsynlegt væri að ná í, eftir öðrum leiðum. En eins og ég sagði áður, tel ég, að á því ættu ekki að verða neinir sérstakir örðugleikar að afla þess, sem þyrfti nú, ef menn vildu leggja sig fram um athugun á því máli.

Ég tel því, að til þess að tryggja áframhaldandi rekstur aðalatvinnuveganna á þessu ári og til þess einnig að tryggja viðunandi afkomu hjá ríkissjóði sé ekki þörf fyrir þá gerbyltingu, sem ríkisstj. leggur til að gerð verði með þessu frv. Aðalatriðið í frv. stj. er sem sé ekki það að gera óhjákvæmilegar ráðstafanir til þess að tryggja atvinnureksturinn og afkomu ríkissjóðs á þessu ári. Aðalatriði hennar er allt annað, og stjórnin fer ekki dult með þá fyrirætlun. Það er hennar fyrirætlun að taka upp nýja þjóðmálastefnu, sem er fullkomlega andstæð þeirri stefnu, sem þjóðin hefur fylgt í efnahagsmálum og atvinnumálum nú um langt skeið. Raunar má segja, að þetta hafi verið boðað í yfirlýsingum Sjálfstfl., sem hann gaf út fyrir kosningarnar á næstliðnu vorí. Þar var þáttur um það, að það þyrfti að hverfa frá þeirri stefnu, sem fylgt hefði verið undanfarna áratugi og kenna mætti við Framsfl., og taka upp nýja stefnu. Það var líka mörgum ljóst, að breyt. á kjördæmaskipuninni, sem þrír þingflokkar stóðu að á árinu sem leið, var undirbúningur þess að taka upp þessa nýju stefnu. Og það var raunar byrjað að framkvæma hana við fjárlagaafgreiðsluna í fyrra. Þá voru skorin niður framlög til ýmissa framkvæmda, eins og t.d. til rafmagnsframkvæmdanna. En nú, eftir að kjördæmabreytingin er á komin og þing hefur verið kosið samkvæmt hinni nýju skipan, þá munu núv. stjórnarflokkar og ríkisstj. þeirra telja, að aðstaða þeirra hafi verið svo styrkt, að nú sé óhætt að taka munninn nokkuð fullan og stofna til mikilla hervirkja.

Það hefur verið mikil framfarasókn hjá þjóðinni á undanförnum áratugum. Það þarf ekki að rekja það í löngu máli, það er þingi og þjóð kunnugt. Það hafa verið miklar framfarir á öllum sviðum atvinnulífsins. Þjóðin hefur náð í mikinn flota skipa, fiskiskip og farmskip. Það hafa verið byggðar vinnslustöðvar fyrir afurðir í kaupstöðum og kauptúnum umhverfis allt landið, frystihús og síldarverksmiðjur og aðrar vinnslustöðvar. Ræktun landsins hefur stóraukizt og uppbygging í sveitum. Iðnaðurinn hefur tekið risaskref fram á við. Það hefur verið komið hér upp stóriðjufyrirtækjum, áburðarverksmiðjunni og sementsverksmiðjunni, sem eru ákaflega þýðingarmikil fyrirtæki fyrir þjóðarbúskapinn. Það hafa verið hafin stór átök til rafvæðingar landsins, byggð stór orkuver og mikið fé lagt í það nú síðustu árin að dreifa rafmagninu um landið. En þrátt fyrir allt þetta eru framtíðarverkefnin fyrir höndum að segja má óþrotleg. Við búum í landi, sem á mjög mikið af ónotuðum möguleikum, og það verður verkefni þeirrar kynslóðar, sem á eftir kemur, að hagnýta gæði landsins betur og í ríkara mæli en núlifandi menn hafa haft tök á.

Það er ör fólksfjölgun í landinu. Skýrslur hagstofunnar sýna, að um næstliðin áramót hafi Íslendingar verið milli 173 og 174 þúsund. Með hlutfallslega sömu fólksfjölgun á næstu árum eins og hér hefur orðið um undanfarin ár verða landsmenn orðnir 200 þús. eftir aðeins 7 ár, og með sama áframhaldi fjölgar þjóðinni um tugi þúsunda á hverju fimm ára tímabili. Af þessu má sjá það glöggt, að þjóðin þarf að stefna að því að byggja landið allt. Öll byggileg svæði þess þurfa að vera setin og auðlindirnar notaðar, hvar sem þær eru á landinu, svo og fiskimiðin umhverfis landið. Og vegna fyrirsjáanlegrar fólksfjölgunar, eða a.m.k. verðum við að vona það, að fólkinu fjölgi hér ekki minna eftirleiðis en verið hefur nú um skeið, þá er það lífsnauðsyn fyrir þjóðfélagið í heild, að atvinnumöguleikar séu skapaðir í öllum byggðum landsins, um landið allt, svo að engin héruð leggist í auðn.

En það þarf fleira að gera en skapa atvinnuskilyrði fyrir fólkið um land allt. Til þess að þau skilyrði verði notuð, þarf að vinna að því að jafna lífskjörin og lífsþægindin. Það þarf að halda áfram að koma rafmagninu í öll byggðarlög og til allra heimila á landinu. Það þarf að halda áfram að byggja upp heilbrigðisstofnanir og menningarstöðvar, eftir því sem þörfin krefur og eftir því sem möguleikar þjóðfélagsins standa til. Það þarf að halda áfram framkvæmdum í samgöngumálum, bæta hafnarskilyrðin, og þannig mætti telja margt fleira. Það þarf að halda áfram að veita stuðning frá því opinbera til allra slíkra nauðsynjaframkvæmda. En hér liggur fyrir frv. frá hæstv. ríkisstj., og það þarf enginn að vera í vafa um það, hvaða boðskap það flytur, sem kynnir sér þetta mál. Það flytur þann boðskap, að ríkisstj. ætlar að stefna í þveröfuga átt, hún ætlar að stefna að samdrætti, hún ætlar að stefna að því að minnka þann opinbera stuðning, sem nú er veittur eða hefur verið veittur til framfaramálanna.

Ég mun rökstyðja þetta með nokkrum dæmum um ákvæði þessa frv. Lagt er til að breyta gengisskráningunni, en stjórnin ætlar jafnframt að halda öllum þeim gjöldum, sem undanfarið hafa verið innheimt og lögð í útflutningssjóðinn til þess að standa undir því kerfi, sem við höfum búið við að undanförnu. Hún ætlar að heimta þessi gjöld eftir sem áður af þjóðinni og láta þau renna í ríkissjóð. Verði frv. samþykkt, hefur það í för með sér að sjálfsögðu miklar verðhækkanir á öllum innfluttum vörum, og með þeim hætti verður áreiðanlega þrengt kosti margra. Og þessi verðhækkun, sem kemur á allt efni til framkvæmda og innflutt tæki til atvinnuveganna, mun að sjálfsögðu torvelda mjög allar framkvæmdir og uppbyggingu atvinnulífsins. Það verður stórum erfiðara en áður fyrir ungt fólk að stofna til heimilismyndunar og atvinnurekstrar. Það verður stórum erfiðara fyrir marga aðra, sem hafa framkvæmdir með höndum, að halda þeim áfram. Og það verður stórum örðugra að afla nauðsynlegra atvinnutækja erlendis frá. Það má nefna það sem dæmi, að fiskibátar og vélar til þeirra munu hækka í verði um nálægt 50%. Hlutfallslega sama hækkun eða svipuð verður á verði dráttarvéla og tækja til þeirra, sem eru bráðnauðsynleg tæki fyrir bændurna. Þannig verða áhrif verðhækkunarinnar í ótal myndum til þess að styðja þessa stefnu ríkisstjórnarinnar, að draga úr framkvæmdum og framförum í landinu.

En hér kemur fleira til. Í V. kafla frv. eru ákvæði um vexti, sem gert er ráð fyrir að hækka. Í sama frumvarpskafla eru ákvæði snertandi ýmsa stofnlánasjóði. Þar segir í 32. gr., að ríkisstjórninni skuli heimilt að kveða á um vaxtakjör og lánstíma á lánum hjá ýmsum stofnlánasjóðum sjávarútvegs og landbúnaðar og einnig hjá byggingarsjóðum. Þessi heimild á að ná til að ákveða lánakjör hjá fiskveiðasjóði og stofnlánadeild sjávarútvegsins, hjá ræktunarsjóði og raforkusjóði, hjá byggingarsjóði sveitabæja, byggingarsjóði verkamanna og byggingarsjóði ríkisins, þeim, sem húsnæðismálastjórn hefur nú yfir að ráða. Þessir sjóðir hafa gegnt ákaflega þýðingarmiklu hlutverki í þjóðfélaginu, starfa allir samkv. lögum frá Alþ., og það hefur aldrei komið fyrir áður, að nokkur ríkisstj. seildist eftir heimild til þess að ákveða lánstíma og vaxtakjör í þessum sjóðum að eigin geðþótta. Með þessu er verið í einni lagagrein, sem er rúmlega 6 línur, að nema burt aðalatriðin úr þessari löggjöf, sem Alþ. hefur verið að samþykkja á undanförnum áratugum og hefur, eins og ég gat um áðan, haft geysilega þýðingu til þess að styðja uppbygginguna og framfarirnar í landinu á mörgum sviðum.

Það er fleira í þessum frumvarpskafla. Að undanförnu hafa verið í lögum ákvæði um það, að Seðlabanki Íslands gæti skyldað sparisjóðina til þess að leggja hluta af sparifénu, sem þeir hafa yfir að ráða, inn á reikning í seðlabankanum. Eftir þeim upplýsingum, sem fjhn. fékk, hefur þessi heimild ekki verið notuð að undanförnu. En samkv. því, sem segir í athugasemdum með þessu frv., mun það nú ætlun stjórnarinnar að breyta hér um og vinna að því, að heimildin verði notuð. Ekki hafa þeir fengizt til að segja neitt um það, sem fyrir þessu standa, hve mikinn hluta af sparifénu sjóðirnir eigi að leggja inn í banka hér í Reykjavík. Það á eins og fleira að vera á valdi annarra en Alþingis.

Það er alkunnugt, að sparisjóðir hafa starfað víða um land um langt skeið, og þeir hafa gegnt þar mjög þýðingarmiklu hlutverki. Það er áreiðanlegt, að vegna starfsemi sparisjóðanna hefur sparifjármyndunin hér á landi orðið meiri en hún ella hefði orðið. Það fé, sem sjóðirnir hafa fengið til ávöxtunar, hafa þeir undantekningarlítið notað til þess að styrkja atvinnurekstur og nauðsynlegar framkvæmdir heima í þeim byggðarlögum, þar sem sjóðirnir hafa starfað. Það þarf ekki að lýsa því fyrir hv. þm., hve mikla þýðingu þetta hefur haft fyrir viðkomandi héruð. Okkur er það að sjálfsögðu öllum jafnljóst. Ég held, að það sé óhætt að fullyrða það, að. undantekningarlítið a.m.k. hafi þessum sparisjóðum verið stjórnað gætilega og skynsamlega, og því hlýtur að verða mótmælt, ef það á að taka hluta af fé þeirra, hver veit hvað mikið, til þess að draga það hingað inn í Seðlabankann. Það er full þörf fyrir þetta fjármagn í þeim byggðarlögum, þar sem sjóðirnir starfa, og ég dreg það mjög í efa, með fullri virðingu þó fyrir öllum öðrum forstöðumönnum peningastofnana, að fé þessu verði skynsamlegar varið eftir en áður. Það er a.m.k. nokkuð, sem er víst, að , það notast ekki eins og áður í þeim byggðarlögum, þar sem sparisjóðirnir hafa sitt heimili og ætti að nota það fyrst og fremst, því að úr þeim byggðarlögum, frá fólkinu þar, er það runnið.

Það er fleira í þessari tveggja línu frvgr. en ákvæði um sparisjóðina. Það er þar einnig svo fyrir mælt, að þetta skuli einnig ná til innlánsdeilda kaupfélaganna. Í innlánsdeildum kaupfélaganna er fé kaupfélagsmannanna, sparifé þeirra, sem þeir fela þessum félögum sínum til varðveizlu og ávöxtunar, og það hefur verið notað sem rekstrarfé kaupfélaganna, eins og á að gera og ætlazt er til samkv. landslögum. Það er eins með það og fé sparisjóðanna víðs vegar um landið, að það er full þörf fyrir þetta fé heima fyrir.

Kaupfélögin hér á landi, flest a.m.k., hafa ekki takmarkað starfsemi sína við það að undanförnu að annast um viðskipti, kaupa inn vörur handa félagsmönnum og öðrum og selja framleiðsluvörur. Þau hafa mjög mörg lagt mikla fjármuni í það að byggja upp nauðsynleg fyrirtæki á þeim stöðum, þar sem þau starfa.

Það hefur oltið á ýmsu um atvinnurekstur í sjávarþorpunum hér á landi. Það er kunn saga, að oft hefur það farið svo, að þegar einstakir athafnamenn hafa stofnað til atvinnurekstrar í ýmsum þorpum, þá hafa þeir — eða þeir, sem tóku við af þeim — einn góðan veðurdag hætt atvinnurekstri af ýmsum ástæðum og þá selt eignir sínar, sem þar voru, og farið með fjármuni sína burt úr héraðinu. Þetta hefur oft komið fyrir, ef þeir af einhverjum ástæðum hafa ekki talið sér fært að halda atvinnurekstrinum áfram eða þá talið sér þægilegra og ábatavænlegra að ávaxta fjármuni sína á öðrum stöðum í landinu. Þetta er alkunn saga. Það hefur oft valdið örðugleikum í viðkomandi byggðarlögum, þegar slík fyrirtæki einstaklinga eða hlutafélaga hafa hætt störfum. Oft hefur það verið þannig, að viðkomandi sveitarfélög hafa þurft að brjótast í því að koma upp atvinnufyrirtækjum til þess að hindra atvinnuleysi og vandræði á þessum stöðum. Víða er það einnig þannig, að fólkið í þessum byggðarlögum hefur ákveðið þátttöku sinna eigin félaga, samvinnufélaganna, í slíkum atvinnurekstri.

Kaupfélögin hafa þannig stöðugt í vaxandi mæli haft með höndum margþættan atvinnurekstur. Þau hafa að sjálfsögðu komið upp sláturhúsum og kjötfrystihúsum til þess að geta tekið á móti afurðum frá félagsmönnum. Þau hafa, ýmis þeirra, komið upp mjólkurbúum eða mjólkurstöðvum. Þau hafa komið upp fiskfrystihúsum einnig og ýmiss konar vinnslustöðvum öðrum. Þau hafa komið upp viðgerðarstöðvum fyrir vélar, og margt, margt fleira mætti telja.

Mér er kunnugt um, að það er svo um mörg kaupfélög, sem hafa lagt stórfé í það að koma upp ýmsum slíkum nauðsynlegum framleiðslu og atvinnufyrirtækjum, að þau hafa fengið mjög lítil og sum jafnvel engin bankalán til þessara framkvæmda. Þau hafa getað þetta vegna þess fyrst og fremst, að félagsmennirnir sjálfir hafa talið það rétt, heppilegast fyrir þá sjálfa og byggðarlagið, að það fé, sem þeir kynnu að hafa aflögu á hverjum tíma frá daglegum þörfum, væri ávaxtað í þessum félögum þeirra, þeirra eigin félögum, og notað á þennan hátt.

Nú virðist það vera ætlun ríkisstjórnarinnar að fara eins með innlánsdeildirnar og sparisjóðina, taka hluta af þessu fé félagsmannanna sjálfra í kaupfélögunum, draga það hingað til Reykjavíkur, inn í banka hér, enginn veit, hve mikið af því, hulin ráðgáta, en það má öllum ljóst vera, að slíkt verður til þess að torvelda mjög nauðsynlega uppbyggingu og atvinnurekstur á félagssvæðum kaupfélaganna.

Það er ástæða til að vekja athygli á því í þessu sambandi, að það er allt annað um samvinnufélögin en hina einstöku atvinnurekendur, sem ég var að nefna dæmi um áðan. Eignir kaupfélaganna verða aldrei fluttar burt úr þeim héruðum, þar sem þau starfa. Það eru ákvæði í landslögum, sem girða fyrir það, og þeir, sem eiga félögin og stjórna þeim, hafa heldur engan áhuga fyrir slíku. Það getur enginn kaupfélagsstjóri eða kaupfélagsstjórn selt fasteignir kaupfélagsins á einhverjum stað, farið með andvirði þeirra til annarra staða til þess að ávaxta það með ýmsu móti þar. Og ef kaupfélag hættir störfum, eru ákvæði um það í landslögum, að eignir þess — hreinar eignir þess — skuli ávaxtaðar í byggðarlögunum áfram. En nú er það meining stjórnarinnar að takmarka að meira eða mínna leyti rétt samvinnumannanna í landinu til þess að nota sitt eigið fé með sama hætti og þeir gera nú. Og það kemur ljóst fram í þessu frv., að þáð er meining stjórnarinnar að takmarka lánveitingar frá bönkunum einnig. Þá verður ekki þangað að leita, hvorki fyrir kaupfélögin né fyrir þá, sem áður hafa notið lána hjá sparisjóðunum í héruðunum, til þess að fá peninga þar í staðinn.

Það liggur í augum uppi vitanlega, hver áhrif mikill niðurskurður á bankalánunum muni hafa í þjóðfélaginu, þegar þær verðhækkanir, sem hér er stofnað til, eru komnar fram, og stjórnin lýsir því yfir, að hún ætli ekki að taka framkvæmdalán erlendis. Hér ber allt að sama brunni.

Og stjórnin leggur til í fjárlagafrv. hér á þingi, að fjárveitingar til ýmiss konar verklegra framkvæmda víða um land skuli óbreyttar verða í krónutölu þrátt fyrir allar hækkanirnar, þrátt fyrir alla þá hækkun á framkvæmdakostnaði, sem hlýtur af þessu að leiða. Þannig er þetta allt í stíl hvað við annað, það stefnir allt í sömu áttina, eins og vænta má, torveldar framkvæmdir, torveldar áframhaldandi framkvæmdir, uppbyggingu og framfarir í landinu.

Við verðum að athuga það í þessu sambandi, að ef framfarasókn er stöðvuð, þá er skammt til afturfarar og undanhalds. Þetta getur hæglega leitt til þess, að ýmsar byggðir tæmist af fólki, þar sem nú er þó haldið uppi atvinnurekstri. Það stendur víða tæpt með, að byggð haldist í landinu.

Ég verð að segja það, að mér finnst aðfarir ríkisstjórnarinnar og fyrirætlanir hennar, eins og þær birtast í þessu frv., vera á margan hátt einræðiskenndar. Stjórnin heimtar rétt, eins og ég gat um áðan, til að ákveða lánstíma og vaxtakjör hjá stofnlánasjóðunum. Engin stjórn áður hefur farið fram á slíkt. Er þetta fyrir það, að þjóðin sé svo miklu fátækari nú en hún hefur verið áður, að það sé ekki lengur hægt að veita lán úr þessum sjóðum með tiltölulega lágum vöxtum og hagstæðum kjörum að öðru leyti fyrir þá, sem eru að byggja upp landið ?

Það er fleira af svipuðu tagi. Það er fleira, sem bendir til þess, að hér eigi að fara að stjórna að verulegu leyti með tilskipunum. Það eru víst dæmi um þetta annars staðar úr heiminum, og Íslendingum hefur yfirleitt ekki þótt þau vera þannig, að þau væru sérstaklega eftirbreytnisverð. Það má nefna til dæmis ákvæði frv. um hinn nýja útflutningsskatt, sem á að leggja á. Það á að leggja 5% útflutningsskatt á allar útfluttar vörur. Það er sagt, að fyrst um sinn eigi að nota hann til að ljúka við að greiða halla, sem sé á útflutningssjóði, þegar hann hættir, eða ógreiddar kröfur á sjóðinn. Ákvæðið um útflutningsskattinn er ekki tímabundið í frv. Það liggur ekkert fyrir um það, hvað stjórnin ætlar að gera við þennan skatt, þegar hún er búin að greiða hallann á útflutningssjóði. Það er þó áætlað, að þetta verði 120 millj. kr. á ári. Það lítur út fyrir, að hún ætli að verja honum eftir sínu höfði, án þess að fá nokkur lagafyrirmæli um það frá Alþingi.

Ein ástæðan, sem hæstv. ríkisstj. flytur fram til stuðnings þessum byltingarkenndu aðförum, sem hún nú viðhefur, er sú, að það hafi verið svo mikill halli á þjóðarbúskapnum síðustu árin. Stjórnin fær þetta út með því að telja allar erlendar lántökur á undanförnum árum halla á þjóðarbúskapnum, þó að lánum þessum hafi verið varið til nauðsynlegra framkvæmda, sem gefa fullan arð í þjóðfélagi okkar. Það er svipað og ef útvegsmaður hefði keypt sér nýjan bát og tekið lán til þess að verulegu leyti, því að hann hefði ekki getað greitt allt bátsverðið af tekjum sínum á einu ári, — og það væri talinn halli á rekstrinum hjá þessum manni, — eða ef bóndi byggir fjós fyrir 10 eða 20 kýr og heygeymslur við og tekur til þess lán að þó nokkru leyti að borga kostnaðinn. Nú sést það, þegar hann fer að gera upp sína ársreikninga og telja fram til skatts, að tekjur hans hafa ekki hrokkið til að borga þessar framkvæmdir. Nú, ríkisstj. segir: Gífurlegur halli er á búskapnum hjá þessum manni. Nú verður að grípa til nýrra ráða og taka upp nýja stefnu í þjóðmálum, til þess að þessi halli geti ekki þrifizt áfram og margfaldazt. — Eins og ég sagði áðan, hefur langmestur hluti skuldaaukningarinnar við útlönd síðustu árin orðið vegna framkvæmda, nauðsynlegra framkvæmda.

Ég get tekið hér dæmi um lántökur á árunum 1956–58, þ.e.a.s. á tímum vinstri stjórnarinnar. Samkv. því, sem segir í athugasemdum með frv., telur stjórnin, að hallinn á þjóðarbúskapnum út á við þessi þrjú ár hafi verið 627 millj. kr. og borgaður með lántökum. Við skulum virða fyrir okkur nokkuð lántökur þessara ára, sem eiga að sýna hallann á þjóðarbúskapnum.

Frá 1. júlí 1956 til ársloka 1958 voru tekin lán með ríkisábyrgð, sem munu hafa numið samtals um 453 millj. kr. Þar að auki var svo um önnur lán að ræða erlendis án ríkisábyrgðar. Eimskipafélag Íslands fékk lán, Eimskipafélag Reykjavíkur og Samband ísl. samvinnufélaga. Þessi lán voru til skipakaupa og námu samtals 108.4 millj. kr. Þetta gerir samtals rúmlega 560 millj. kr. En það er bezt að athuga lítið eitt, til hvers þessi lán fóru, þessar 450 millj. kr., sem ég nefndi áðan að hefðu verið teknar gegn ríkisábyrgð. Ég ætla að nefna hér nokkur dæmi. Bandarískt lán að upphæð 65.3 millj. kr. fór til fiskveiðasjóðs og sementsverksmiðjunnar. Lán í Þýzkalandi fór til að kaupa flökunarvélar, 17.6 millj. kr. Þýzkt lán var einnig tekið, 6.7 millj. kr., til hafnargerðarinnar á Akranesi. Nú kemur stór upphæð, sem eykur hallann gífurlega, það er bandarískt lán tekið vegna Sogsvirkjunar og raforkusjóðs, og það er hvorki meira né minna en 81.6 millj. kr. Og ekki lízt mér á, þarna kemur líka annað bandarískt lán litlu neðar á listanum. Það er vegna raforkusjóðs, sementsverksmiðjunnar, ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs. Það er líka 81.6 millj. Þá er lán vegna Sogsvirkjunarinnar, 36.4 millj., enn lán vegna ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs 32.9 millj., og enn þá kemur lán vegna Sogsvirkjunarinnar og rafmagnsveitna ríkisins upp á 27.7 millj. Þá er lán Flugfélags Íslands til flugvélakaupa 33 millj. og lán til kaupa á 12 skipum 50 millj. Það eru þarna nokkrar smáupphæðir innan við 10 millj. hver, eins og t. d. lán vegna landssímans 9 millj., — engar aðrar en þær, sem ég hef talið, sem nema yfir 10 millj. kr. Það er þarna lán vegna rafmagnsveitna ríkisins 4.8 millj., lán vegna bæjarútgerðar Hafnarfjarðar 2.9 millj., vegna Akraneshafnarinnar 1.4, lán vegna frystihúsa o.fl. 1.9. Þá held ég, að þetta sé allt talið.

Samtals nema þessar lántökur þá yfir 560 millj. kr., og þó eru ekki taldar þar með allar framkvæmdalántökur á þessum þremur árum, því að einhverjar munu hafa átt sér stað fyrir 1. júlí 1956. Svo er í þessu hallauppgjöri ríkisstjórnarinnar ekkert tillit tekið til þess, að á þessu tímabili voru greiddar úr landi 135 millj. til lækkunar á eldri lánum. Af þessu má glöggt sjá það, að fullyrðingar um halla á þjóðarbúskapnum á þessum árum, sem íþyngi þjóðinni og geri nauðsynlegt að þrengja mjög að, eru alveg rangar. Það er vitanlega alrangt, að það verði erfiðara en áður fyrir þjóðina að standa undir greiðslum af erlendum lánum fyrir það, að lán hafi verið tekin til þessara nauðsynjaframkvæmda. Það er alrangt. Þessar framkvæmdir hafa minnkað innflutningsþörfina og stóraukið útflutninginn.

Það er alveg ljóst, að rangar og villandi upplýsingar stjórnarinnar um greiðsluviðskiptin við önnur lönd undanfarið eru gerðar aðeins til þess að reyna að koma mönnum í skilning um það, þeim sem lesa þetta frv., að það hafi verið stefnt út í einhverja ófæru og þess vegna þurfi að grípa til þessara ráðstafana, sem hér eru á ferð. Þetta eru tylliástæður. Þetta eru rangar staðhæfingar, sem þarna er farið með.

Stjórnin hefur orðið fyrir miklu slysi núna þessa dagana. Hún hefur gefið út bók, bókin er í hvítri kápu, og stjórnin auglýsir í ríkisútvarpinu og blöðunum, að nú sé komin „hvít bók“ um efnahagsmál. Það hafa verið gefnar út hvítar bækur hér áður, bækur um landhelgismálið. Það mun enginn hafa að því fundið. Það var nauðsynlegt fyrir þjóðina að kynna málstað sinn fyrir öðrum þjóðum. Við útgáfu þeirra rita mun þess hafa verið gætt að segja það eitt í þessum bókum, sem gat staðizt, það eitt, sem var satt og rétt, og túlka málstað Íslands með drengilegum hætti. En þetta slys, sem hér hefur hent ríkisstj., verður sennilega til þess, að það verður aldrei framar hægt að gefa út hvíta bók á Íslandi, hvorki um landhelgismál né annað. Stjórnin hefur séð fyrir því. Það er ekki enn séð, hvernig stjórnin fer að komast frá þessu. Auðvitað birtir hún í þessari nýju bók sinni, sem á að dreifa um land allt, inn á hvert heimili, þessar villandi upplýsingar og blekkingar um viðskiptin við önnur lönd á liðnum árum. Og það er fleira af slíku tagi í bókinni, því að stjórnin hefur sett í hana, sýnist mér, — ég hef ekki lesið nema lítið í henni, — alla grg., sem fylgir þessu frv. hennar, og það eru fleiri falsanir og blekkingar þar en um greiðsluhallann við útlönd. Ég kem e.t.v. að því síðar.

Ég vil þessu næst, herra forseti, víkja aðeins að einstökum greinum í frv.

Í 16. gr. þess segir, að ríkisstjórninni skuli heimilt að innheimta sérstakt gjald af innfluttum bifreiðum og bifhjólum, og þess er getið í grg., að áður hafi slíkt gjald runnið í útflutningssjóð, en nú er meiningin að taka það til ríkissjóðs, eins og önnur þau gjöld, sem fóru áður í útflutningssjóðinn. Ég mun, ef afgreiðslu frv. þessa verður áfram haldið, bera fram brtt. við þessa grein um þetta gjald. Það er ekki búið að útbýta henni, en ég vil leyfa mér að lýsa henni.

Í frvgr. segir, að gjaldið megi nema allt að 135% af fob-verði hverrar bifreiðar. Ég mun leggja til, að þessu verði breytt þannig, að í staðinn fyrir þetta komi: Ríkisstj. er heimilt að innheimta allt að 135% gjald af fob-verði hverrar bifreiðar eða bifhjóls. Gjaldið má þó ekki vera hærra en 60% af leigubifreiðum og læknabifreiðum. Landbúnaðarbifreiðar, jeppar og vörubifreiðar skulu þó alveg undanþegnar gjaldi þessu. — Eins og frvgr. er orðuð, er heimilt eftir henni að leggja þetta gjald á jeppa og vörubíla, en ég tel eðlilegt, að þær bifreiðategundir séu undanþegnar gjaldinu, og sömuleiðis þykir það eðlilegt, að leigubifreiðar og læknabifreiðar njóti nokkurrar sérstöðu þarna og þyrftu ekki að greiða eins hátt gjald og tekið er af hinum.

Þá er hér í næstu gr., 17. gr., ákvæði um innflutningsgjald af benzíni til viðbótar gjaldi því, sem nú er innheimt. Samkv. frv. á innflutningsgjaldið af benzíninu að hækka um 34 aura á lítra, 3 aurar af þessari hækkun eiga að renna í brúasjóð og 3 aurar í sjóð til vegalagninga milli byggðarlaga. Þá eru eftir af hækkuninni 28 aurar, sem stjórnin vill fá beint í ríkissjóðinn. Hitt virðist þó eðlilegra, að því fé, sem þarna kann að innheimtast við hækkun gjaldsins af benzíni, verði öllu varið til vega- og brúargerða, og það því fremur sem gert er ráð fyrir samkv. fjárlagafrv., að framlag til þeirra framkvæmda standi óbreytt í fjárl. fyrir árið 1960 þrátt fyrir þá hækkun á vega- og brúargerðakostnaði, sem samþykkt frv. mun hafa í för með sér og ég gat um áður.

Ég mun því leggja fram brtt. um þetta, þannig að af benzíngjaldinu, sem alls er gert ráð fyrir að nemi 1.16 kr., skuli 17 aurar renna í brúasjóð, 22 aurar í sjóð til að gera akfæra þjóðvegi milli byggðarlaga, 7 aurar til endurbyggingar gamalla þjóðvega, 3 aurar til endurbyggingar gamalla brúa og 10 aurar til að gera þjóðvegi úr steinsteypu. Með þessu er lagt til, að þessi hækkun, 34 aurar, fari öll til þessara framkvæmda auk þess hluta af núverandi benzínskatti, sem fer til vega- og brúargerða.

Eins og ég minnti á áðan, segir í aths. um frv., að þetta fyrirhugaða gengi sé við það miðað, að þorskveiðar bátanna beri það sama úr býtum og þær gera með þeim útflutningsbótum, er nú gilda, en það er talið, að þær séu nú 94% af útflutningsverðmæti bátafisks. Sé þetta svo, versnar mjög aðstaða þeirra, sem mest eiga undir þeim sérbótum, sem nú eru greiddar umfram þessar almennu bætur út á smáfisk og sérstakar fisktegundir, sumarveiddan fisk, en samanlagðar núgildandi bætur út á þennan hluta aflans nema miklu hærri hundraðshluta en þarna er tilgreindur. Ef þessar sérbætur verða alveg felldar niður, mun það koma sérstaklega þungt niður á ýmsum útvegsmönnum á Norður-, Austur- og Vesturlandi, því að sá hluti aflans, sem hefur notið sérbótanna, er þar hlutfallslega mjög stór.

Í samræmi við þetta, sem ég hef nú sagt, hef ég hugsað mér að leggja fram brtt. um það, að ríkisstj. geti ákveðið, að útflutningssjóður greiði vinnslustöðvum sérstakar bætur á smáfisk, tilteknar fisktegundir og fisk veiddan á vissum tímum árs, og nemi þessar bætur ákveðinni upphæð á hvert kg af fiski, sem vinnslustöð tekur á móti, en þannig mun þetta hafa verið áður.

Þá er það 23. gr. frv. Í henni er bann við því, að kaup eða nokkurt annað endurgjald fyrir unnin störf skuli fylgja breytingum á vísitölu á einn eða annan hátt. Oft hefur verið á það bent, að fyrirkomulagið á greiðslu vísitöluuppbóta, sem hér hefur verið notað, sé gallað og á ýmsan hátt varhugavert. Þegar vinstri stjórn Hermanns Jónassonar lagði fram frv. sitt um útflutningssjóð o.fl. á Alþ. 1958, komst hún svo að orði í aths., sem fylgdu frv., um þetta efni, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna þess að breytingar á vísitölu framfærslukostnaðar hafa áhrif á nærri allt kaupgjald í landinu og verðlag á öllum innlendum landbúnaðarafurðum, hefur jafnvel hin minnsta breyting á vísitölunni mjög víðtæk áhrif á allt efnahagskerfið og getur bakað útflutningsatvinnuvegunum útgjöld, sem þeir fá ekki risið undir, nema gerðar séu sérstakar ráðstafanir til þess að auka tekjur þeirra. Á hinn bóginn er aftur varla hægt að komast hjá því, að slíkar ráðstafanir hafi aftur áhrif á vísitöluna. Í sambandi við lausn efnahagsvandamálanna er því nauðsynlegt að taka sjálft vísitölukerfið til athugunar, þ.e. þá skipan, að allt kaupgjald og afurðaverð breytist sjálfkrafa með breytingu á framfærsluvísitölu. Ríkisstj. er ljóst, að slíkt mái verður að leysa í nánu samstarfi við stéttasamtökin í landinu, og mun beita sér fyrir samstarfi við þau um þetta efni. Munu þessi mái verða tekin til nánari athugunar, þegar þessi samtök halda þing sin síðari hluta þessa árs.“

Á næstliðnu hausti kom fram yfirlýsing frá Sjálfstfl., sem gaf til kynna, að hann vildi fara sömu leið og vinstri stjórnin til breytinga í þessu efni, þ.e. leita samkomulags um málið. Í kosningastefnuskrá Sjálfstfl., sem birt var í Morgunbl. 2. okt. s.l., segir m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Náð verði samkomulagi milli launþega og framleiðenda um stöðvun víxlhækkana á millí kaupgjalds og verðlags.“

Það er því í fullu ósamræmi við kosningaloforð sjálfstæðismanna, er þeir leggja nú til, að lögbindingarleiðin verði farin. Í stað þess að fara inn á þá braut virðist sjálfsagt að reyna að leysa málin með samkomulagi, og flyt ég brtt. um það. Brtt. mín verður orðuð í samræmi við fyrirheitið, sem Sjálfstfl. gaf í sinni kosningastefnuskrá.

Þetta mái snertir alla launamenn, sem taka laun sín að nokkru leyti í vísitöluuppbótum, en það snertir einnig bændur og fiskimenn. Núgildandi fyrirkomulag um verðlagningu landbúnaðarafurða er þannig, að vinnutekjur bænda eiga að breytast með kaupgreiðsluvísitölu. Hliðstæð ákvæði um breytingu á tekjum sjómanna á bátum og togurum eru nú í lögum.

Það eru allmiklar bollaleggingar um það í aths. með frv., hver áhrif samþykkt þessa frv. muni hafa á framfærslukostnaðinn. Það er sagt, að þetta muni valda 13% hækkun á verði þeirra vara, sem ganga inn í vísitöluna, skilst mér. En stjórnin kann nokkur ráð við þessu. Hún ætlar að greiða niður verð á vissum innfluttum vörum, nefnir kornvörur, kaffi, sykur o.fl., og hún ætlar að beita sér fyrir verulegri hækkun á bótum almannatrygginga, og stjórnin segir, að hækkun framfærslukostnaðar vegna gengisbreytingarinnar, sem hefði numið 13%, ef engar gagnráðstafanir hefðu verið gerðar, verði aðeins 3%, en kjör þeirra, sem mestrar bótaaukningar muni njóta hjá almannatryggingum, sem næst óbreytt. Það eru birtar töflur aftarlega í grg., sem eiga víst að vera til stuðnings ýmsu því, sem haldið er fram. Á bls. 34 er tafla nr. 6, og segir þar í yfirskrift, að þetta sé samanburður á fjölskyldubótum og útgjaldaaukningu vegna gengisbreytingarinnar. Þar eru dálkar fimm. Fyrir ofan einn stendur „eins barns“, það er víst eins barns fjölskylda, svo tveggja barna, þriggja barna, fjögurra barna og aftast fimm barna. Og taflan byrjar þannig: Aukning útgjalda vegna 11% hækkunar verðlags, — og svo eru færðar tölur þar út í dálkana, viðeigandi staði. Þar sem er um eitt barn að ræða, segja þeir, að aukning útgjalda vegna 11% hækkunar verði 6650 kr. Í næsta dálki stendur líka, að aukning útgjalda vegna 2 barna fjölskyldu sé 6650 kr., það er sama talan. Svo breytist þetta svolítið. Þegar krakkarnir eru orðnir 3, þá er aukning útgjaldanna 6800, þ.e. 150 kr. hækkun. En svo fara nú karlar heldur að græða sig, því að þegar börnin eru orðin 4, hækkar þessi aukning útgjalda allt í einu upp í 7100, eða um 300 kr. Næst dregur svolítið úr þeim, því að þegar krakkarnir eru fimm, þá er aukning útgjaldanna þó aðeins 200 kr. meiri en hjá þeirri fjölskyldu, sem átti fjögur börn. Nú eru þetta útreikningar, sem ég á ákaflega bágt með að botna í, en á þessum fyrstu tölum í töflunni eru svo byggðir útreikningar, sem á eftir koma, og svo náttúrlega niðurstöður af öllu saman. Ég fékk engar skýringar á þessu við meðferð málsins í n. og reyndi þó nokkuð til þess, og nú vildi ég beina þeirri fsp. til hæstv. ríkisstjórnar, hvernig eigi að skilja þessa töflu, fá á þessu sem allra nákvæmastar skýringar. Ég sé, að hæstv. fjmrh. er hér, og ég vænti þess, að hann beiti sér fyrir því, að ég fái við tækifæri við þessa umr. nánari skýringar á þessu. Vel getur verið, að það hefði verið heppilegra, að hagfræðingurinn í ríkisstjórninni, hæstv. viðskmrh., hefði verið hér viðstaddur til að taka á móti fsp., en ég treysti hæstv. fjmrh. fullkomlega til þess að sinna þessari beiðni minni.

Þessi speki er náttúrlega í bókinni eins og fleira, — þessari seinustu hvítu bók, sem gefin verður út á Íslandi, ef allt fer að líkum.

Það er fleira hér í aths., sem kemur dálitið einkennilega fyrir sjónir. Á bls. 15, þ.e. í kaflanum um stöðu útflutningssjóðs, segir, að það sé ljóst af því, sem áður hefur verið fram tekið í grg., að afkoma útflutningssjóðs hafi frá því fyrsta byggzt á því, að notkun erlends lánsfjár væri mikil, að mikið væri flutt inn af hátollavöru og gjaldeyristekjum væri ekki varið til þess að bæta gjaldeyrisstöðuna. Og siðar, þar sem talað er um galla bóta- og gjaldakerfisins, segir, að núverandi bóta- og gjaldakerfi sé þannig upp byggt, „að því aðeins er hægt að afla nægilegra tekna til að standa straum af bótagreiðslum útflutningssjóðs, að mikill halli sé á greiðslujöfnuðinum. Þessi galli er svo veigamikill, að hann einn gerir það að verkum, að kerfið getur ekki staðið til frambúðar, þar sem því eru ákveðin takmörk sett, hversu mikill halli getur verið og hversu lengi hann getur staðið.“

Hæstv. forsrh. minntist nokkuð á þetta atriði í framsöguræðu sinni við 1. umr. Hann segir, að kerfið nærist á greiðsluhalla, og þess vegna sé ekki hægt að búa áfram við uppbótakerfið. Kerfi, sem algerlega byggist á lántökum, er dauðadæmt, sagði hæstv. forsrh. Ef ég man rétt, var eitthvað svipuð merking þeirra orða, sem hæstv. sjútvmrh. hafði um þetta síðar við þá umr. En hvað er að segja um þessar fullyrðingar? Við vitum, hvernig þetta er núna. Gjaldeyrisálagið — eða yfirfærslugjald er það víst nú nefnt, sem nú er innheimt, það er lægra en þær útflutningsuppbætur, sem sjóðurinn greiðir til útflytjenda, og munar þar allmiklu. Það hafa varla verið innheimtir sérstakir skattar eða sérstök gjöld á lögð til þess að jafna þann mismun, sem þarna er um að ræða, innflutningsgjald og ýmis önnur gjöld, sem hafa runnið til útflutningssjóðs að undanförnu. Ef halli kemur fram á sjóðnum, eru vitanlega ýmis ráð til þess að bæta úr því. Það er það ráð t.d. að minnka þennan mismun, gera þá breyt. á kerfinu, að það verði minni munur á þeim upphæðum, sem útflutningssjóður þarf að greiða í útflutningsbætur, og þeim tekjum, sem hann fær af yfirfærslugjaldi. Það er líka önnur leið til, og hún er sú að afla meiri tekna til þess að jafna þennan halla. Ég fæ ekki annað séð .en þetta sé vel mögulegt, og ég vil fá skýringar hjá hæstv. ráðh. — Er nú sá eini farinn, sem var hér áðan, það er nú verra? Ég vil fá skýringar á þessum fullyrðingum hæstv. forsrh. Já, einmitt það, form. fjhn. er þarna, það er nú gott. Ég vildi fara fram á það við hv. meðnm. minn í fjhn., að hann komi þessum skilaboðum til ríkisstjórnarinnar. Ég óska að fá skýringu á þessum fullyrðingum ráðh. í athugasemdum og ræðum um þetta efni. Ég vænti þess, að hann komi þessu á framfæri og að ég fái þetta betur upplýst við fyrstu hentugleika. Þetta er í bókinni auðvitað.

Á bls. 18 neðst í frv. er talað um viðskiptin við Bandaríkjastjórn vegna varnarliðsins, en samþykkt frv. hefur að sjálfsögðu áhrif á þau viðskiptí. Það er gert ráð fyrir því, og ríkisstj. segir hér í athugasemd:

„Um þetta atriði hafa átt sér stað undanfarið viðræður milli fulltrúa frá ríkisstjórnum beggja landa, og telur ríkisstj., að viðunandi lausn þess máls muni fást, þannig að komið verði í veg fyrir þá byrjunarörðugleika, sem lækkun gjaldeyristekna frá varnarliðinu mundi ella hafa í för með sér.“

Nú vil ég enn fara fram á það við hv. form. fjhn., að hann komi á framfæri við ríkisstj. fyrirspurn frá mér um það, hvernig þessum viðræðum sé háttað, um hvað þær snúist og hvaða lausn sé átt við þarna, hvers konar lausn. Ég vænti þess, að hann taki þetta til íhugunar.

Og enn er það spurning. Ég sé ekki annað fært en hlaða slíku áfram á minn hv. meðnm., úr því að ráðh. sjást hér ekki. Það er hér á bls. 24. Það er eitthvað um bankastarfsemi, ráðstafanir í peningamálum, þar segir: „Leggja verður höfuðáherzlu á það, að útlán bankakerfisins í heild verði ekki meiri en svarar þeirri eðlilegu sparifjármyndun, sem á sér stað í bankakerfinu. Til þess að ná þessu markmiði verður fyrst og fremst að takmarka endurkaup seðlabankans á afurðavíxlum við það stig, sem þau eru komin á nú.“

Ég hreyfði því í fjhn. að fá skýringar á þessu, við hvað væri átt þarna, og fékk þar ekki neinar fullnægjandi upplýsingar frá ríkisstj., hvað hún ætlast fyrir þarna eða hvernig þessari takmörkun yrði fyrir komið. Ég vildi fara fram á það einnig við hv. nefndarform., að hann kæmi á framfæri fsp. frá mér um það að fá skýringar á þessu.

Það er hér eitt enn, þótt undarlegt megi virðast. Hér stendur í framhaldi af þessu. (Gripið fram í.) Já, það er nú það. Það er hér fleira í framhaldi af þessu. Hér stendur:

„Til þess að hafa hemil á útlánum viðskiptabanka og sparisjóða mun ríkisstj. beita sér fyrir því, að þessar stofnanir fallist á að auka ekki útlán sín samtals um meira en 200 millj. kr. á árinu 1960, enda er þá miðað við eðlileg aflabrögð og sölumöguleika á framleiðsluvörum landsmanna.“

Já, það er einmitt það. Ég hefði gjarnan viljað fá nánari skýringar á þessu einnig frá hæstv. ríkisstjórn.

Eins og ég hef áður sagt, stefnir hér allt í sömu áttina. Í stað þess að Alþ. hefur gert margháttaðar ráðstafanir til þess á undanförnum árum að dreifa því fjármagni, sem það hefur til ráðstöfunar, um landið og til almennings til þess að styðja þar að margháttuðum framkvæmdum, þá á nú samkv. frv. að draga saman sem mest, hirða hluta af þessu fjármagni, sem hefur verið til ráðstöfunar víða um land, draga það inn í banka í Reykjavik. Það eru peningarnir, sem eiga að ráða fyrst og fremst, og sjónarmið þeirra, sem hafa umráð yfir peningunum.

Það er vel hægt að viðurkenna, að það eru ýmsar veilur í efnahagsmálum okkar og peningamálum og hafa verið. Það má benda á margt, sem betur hefði mátt fara í þeim efnum eins og fleirum. En þrátt fyrir allt er þjóðin rík. Hún er líklega betur efnum búin nú, ef allt er athugað ofan í kjölinn, heldur en nokkru sinni fyrr. Þjóðin er vel efnum búin, og það er almennur, mikill áhugi fyrir því í landinu, að áfram sé unnið að alhliða framförum í þjóðfélaginu. Þessi áhugi er svo almennur, að hæstv. ríkisstj. getur ekki gert sér vonir um það, að landsmenn taki því með þögn og þolinmæði að áframhaldandi uppbygging og framfarir og framkvæmdir í landinu verði torveldaðar eða stöðvaðar á þann hátt, sem stjórnin hefur í hyggju að gera. Því verður mótmælt og það af fullri alvöru, þeim fyrirætlunum stjórnarinnar að skapa kreppu og hnignun á mörgum sviðum í atvinnulífinu með slíkum ráðstöfunum eins og þeim, sem hér er verið að undirbúa, og ég held, að það sé mjög óskynsamlegt af stj. og stuðningsflokkum hennar að leggja út í slíka byltingu og egna með því til mikillar andstöðu. Ég held, að það væri hyggilegra og það eina rétta að komast hjá andstöðunni, komast hjá öllum þeim deilum, sem um þetta hljóta að verða í þjóðfélaginu, með því að gera nú aðelns þær breyt., sem óhjákvæmilegar eru, til þess að allt geti gengið áfram í atvinnumálum okkar með eðlilegum hætti og framfarirnar geti haldið áfram.

Það munu vera um 40 ár síðan Eiríkur frá Hæli, þáv. alþm., varpaði fram þessari spurningu í smákvæði: „Loftarðu þessu, Pétur?“

Ég held, að það væri full ástæða til þess að spyrja hæstv. ríkisstj.: Loftarðu þessu? Stjórnin hefur að vísu 33 af 60 þm. sér til stuðnings hér á þingi, eftir því sem bezt er vitað. Við heyrðum það á framsöguræðu hv. 6. landsk. þm. (BK) hér í dag, þar sem hann talaði fyrir áliti meiri hl. fjhn., að hann er laus við allar efasemdir í þessum málum. Hann er sterktrúaður. Það á bara að halda beint áfram. Engin frávik koma til greina. Það á að halda beint af augum. Leiðin er aðeins ein, engar aðrar til. Mig minnir, að hann væri á einum stað í ræðunni að tala um einhverja þúfu, sem einhver hefði rekið sig á. Þó að hann sé svona sterktrúaður, hv, 6. landsk., þá veit ég ekkert um það, hvort allir aðrir þm. stjórnarflokkanna eru jafnvissir um það í hjarta sínu, að þetta sé það eina rétta og þar af leiðandi sé skylt að fylgja því fram. Ég veit það ekki. En ég held, að það væri viturlegt af þeim að íhuga málið betur og athuga sinn gang, áður en þeir halda lengra áfram beint af augum. Jafnvel þótt þeir geti fengið þetta samþ. hér á þingi og gert að lögum, er ég viss um, að það er mjög mikill fjöldi landsmanna, sem er andstæður þessu, andstæður þessari stefnu, sem hér er verið að boða. Og hæstv. ríkisstj. og hv. alþm. í þeim flokkum, sem hana styðja, ættu vel að íhuga það, hverjar afleiðingar geta af þessu orðið, ef hvorki er litið til hægri né vinstri, en aðeins haldið þeim fram og frv. þetta samþ. eins og það nú er.

Þetta eru óviturlegar aðfarir. Í stað þess að fara svona að, á að reyna að ná víðtækara samstarfi um þessi þýðingarmiklu og víðkvæmu mál. Reynslan hefur sýnt það áþreifanlega, að það er nauðsynlegt, að sem viðtækast samstarf náist um úrræði í efnahagsmálum, til þess að viðunandi árangurs megi vænta. Ég vil því leggja til, að hér verði öðruvísi að farið. Ég vil leggja til, að nú verði reynt að ná viðtækari samvinnu og samstarfi um nauðsynleg úrræði í þessum málum. Ég mun í nál. mínu leggja fram till. til rökstuddrar dagskrár í málinu og ætla að enda mál mítt með því að lesa þessa dagskrártill., með leyfi hæstv. forseta. Hún verður þannig:

„Þar sem deildin lítur svo á, að þjóðarnauðsyn sé, að unnið verði að skipan efnahagsmálanna með sem víðtækustu samstarfi, ályktar hún að beina því til ríkisstj. að skipa nú þegar 8 manna n., 2 frá hverjum þingflokki eftir tilnefningu þeirra, og verði verkefni n.: 1) að gera till. og leggja þær fram á þessu þingi innan 3 vikna um ráðstafanir, er miðist við að halda verðbólgunni í skefjum og atvinnulífinu í fullum gangi, 2) að starfa millí þinga á þessu ári og hafa tilbúnar fyrir næsta reglulegt Alþ. heildartill. um skipan efnahagsmálanna, — og með skírskotun til þess, er að framan greinir, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“