12.02.1960
Neðri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

48. mál, efnahagsmál

Björn Pálsson:

Herra forseti. Brtt. sú, sem ég flyt við 1. gr. frv. ríkisstjórnarinnar um efnahagsmál, er þess efnis, að gengi íslenzkrar krónu verði miðað við, að dollar jafngildi 30 kr. í stað 38.

Í umræðum og grg. hefur komið fram, að hin fyrirhugaða gengisskráning á að miðast við þarfir bátaútvegsins. Ég efast ekki um, að starfsmenn ríkisstj. hafa margfaldað rétt þær tölur, sem þeir settu í reikningsvélarnar. Hitt er ég jafnviss um, að ekki bar nauðsyn til að setja þær tölur í vélarnar og þess gerist ekki þörf að lækka gengi íslenzkrar krónu jafnmikið og gert er ráð fyrir.

Þegar öll þau hlunnindi, sem bátaútvegurinn hefur notíð, eru lögð saman, er talið, að það jafngildi 94.5% útflutningsuppbótum. Eru þá tryggingagjöld þau, sem útflutningssjóður hefur greitt vegna bátanna, talin með. Ég ætlast til, að ríkið greiði þau, a.m.k. þar til séð verður, hvort hið vaxandi aflamagn bátanna verður varanlegt eða ekki. Sé ekki tekið tillit til tryggingagjaldanna, hafa yfirfærslubætur bátanna verið rúm 80%. Þessi liður minnkar því þörfina að lækka íslenzka krónu jafnmikið og gert er ráð fyrir.

Þegar prósentur eru reiknaðar af vörum, er ekki sama, hvort þær eru reiknaðar af vörunni, eftir að lögð hefur verið á hana smásöluálagning eða áður. 10% af kr. 1.30 eru 13 aurar, en 10% af einni krónu eru 10 aurar. Þannig er þetta með skipin, sem á að fara að kaupa. Það er reiknað út, hve hátt fiskverðið þurfi að vera til afskrifta og vaxtagreiðslu af fiskiskipum, sem keypt eru samkv. hinu fyrirhugaða gengi. 75 tonna bátur ásamt veiðarfærum kostar með gengi 38 kr. dollarinn ca. 4.6 millj. kr., en með gengi 30 kr. dollarinn ca. 3.6 millj. Vexti og afskriftir af einni millj. má vafalaust reikna yfir 100 þús. kr. árleg útgjöld fyrir bátinn. Afskriftir og vextir af öllum fiskiskipum landsmanna á að miða við nýju skipin, sem hækkuð eru í verði með gengislækkuninni. Bátur, sem var keyptur og greiddur 1957, 75 tonn að stærð, kostaði með veiðarfærum í kringum 2 millj. kr. , eftir fyrirhugaða gengisbreytingu 4.6 millj. Svo á sá, sem á eldri bátinn, að fá jafnmargar krónur til vaxtagreiðslu og afborgana og hinn, sem keypti dýra bátinn. Hver borgar þennan mismun? Ekki sá, sem keypti dýra bátinn, ekki sá, sem keypti ódýra bátinn, því að hann græðir 1–2 millj. á fyrirhyggjulausri fjármálastjórn. Nei, þeir borga, sem eiga engan bát, íslenzkir launamenn, sem verða að sætta sig við minnkandi verðgildi þeirra peninga, sem greiddir eru í vinnulaun.

Dýrtíðarspólan vefur upp á sig. Sé gengið 30 kr. á móti dollar, þarf ekki að taka tillit til skipa þeirra, sem verið er að kaupa nú, þegar áætlað er, hvað fiskverðið þurfi að vera, til þess að bátaútvegurinn beri sig, því að hin nýju skip munu að ýmsu leyti vera betur útbúin en eldri skipin.

Þriðja atriðið, sem veldur breyttri útkomu, er, að ég ætlast ekki til, að halli útflutningssjóðs verði greiddur af fiskverði bátanna. Hvernig á að greiða hann? mun verða spurt. Því vil ég svara þannig, að það er óvíst, hve mikill sá halli verður. Sé gengisskráningin 30 kr. á móti dollar, er um litla hækkun að ræða á vöruverði. Það væri þá lítil ástæða til að hækka almannatryggingar að mun, a.m.k. ekki í bili. Enn fremur gerðist þess minni þörf að greiða niður kornvörur og sykur. Fleiri útgjaldaliðir mundu lækka, ef um litla gengisbreytingu væri að ræða, tapið á erlendu lánunum mundi verða miklu minna, og sé gert ráð fyrir, að Seðlabankinn greiði þann halla, þá gæti hann alveg eins tekið á sig halla vegna útflutningssjóðs. Ríkissjóður græðir ekki á óþarflega mikilli gengislækkun, slíkar ráðstafanir éta sig upp og meira en það. Í fáum orðum sagt, ríkissjóður getur greitt halla útflutningssjóðs og framlag til bátatrygginga með því að lækka áætlað framlag til tryggingamála, lækka eða fella niður fyrirhugaða niðurgreiðslu á kornvöru og sykri, lækka beina skatta minna en gert er ráð fyrir. Þörfin fyrir þær ráðstafanir er líka hverfandi lítil, ef horfið er frá hinni miklu gengislækkun.

Málið er í sjálfu sér auðskilið. Ég segi: við skulum hafa 30 kr. á dollar, það jafngildir 85% útflutningsuppbótum. Það eru heldur betri kjör fyrir bátana en verið hafa, ef tryggingar eru greiddar fyrir þá. Frystihúsin hafa haft hagkvæman rekstur hin síðari ár. Greiðslur til þeirra fyrir seldan fisk munu koma fyrr en verið hefur, meðan útflutningssjóður starfaði. Þau ættu því að geta greitt hærra verð. Veiðarfæri og olía hækka um 20%. Eitthvað af þeirri hækkun gætu frystihúsin tekið á sig. Rekstur bátanna ætti því ekki að verða að mun óhagstæðari en undanfarin ár. Þess ber og að gæta, að afli báta er meiri en verið hefur. Er ástæða til að ætla, að stækkun landhelginnar valdi þar mestu um og ekki sé um stundarfyrirbrigði að ræða. Reynist þetta svo, gerbreytir það aðstöðu sjómanna, bátaeigenda og fiskvinnslustöðva. Það gæti m.a. valdið því, að bátaeigendur gætu greitt tryggingagjöld af bátum sínum í framtíðinni án hækkaðs fiskverðs. Hins vegar er full ástæða til að taka vátryggingakerfi bátanna allt til endurskoðunar og athuga, hvort eigi mætti finna leiðir til að gera það ódýrara og hagkvæmara. Ríkisstjórnin telur tryggingagjöld báta til útflutningsuppbóta. Um það má deila. Hitt er víst, að á þeim lið er ekki haft rangt við: Það er því betra að greiða tryggingagjöldin í bili en greiða niður sykur og kornvörur, sem notaðar væru að einhverju leyti til skepnufóðurs. Gert er ráð fyrir 40 aura hækkun á fiskverði, sé miðað við 38 kr. á dollar. Af því verða teknir 12 aurar til að greiða halla útflutningssjóðs, a.m.k. í eitt ár. Veiðarfæri og kaupverð skipa verður 27% hærra en sé miðað við 30 kr. á dollar. Það eitt mun éta upp verðmismuninn hjá þeim skipum, sem verið er að kaupa. Almenn kauphækkunaralda mun fara um landíð, sem veldur því, að fiskvinnslustöðvarnar þurfa nokkurn hluta af hækkuninni til sinna þarfa. Nýju skipin mundu því verða verr farin fjárhagslega en ef miðað væri við, að 30 kr. væru í dollar. Eldri skipin mundu aftur á móti græða. Eigendur þeirra mundu græða á kostnað þeirra efnaminni, þeir mundu „verma sitt hræ við annarra eld og eigna sér bráð, sem af hinum var felld“.

Ég viðurkenni, að rétt er margfaldað, en það þarf ekki að setja þær tölur í vélarnar, sem gert er, því að vegna bátaútvegsins þarf ekki að lækka gengið nema í 30 kr. dollarinn. Mismunurinn á útkomunni liggur í því, að byrjað er ofan frá, en ég byrja neðan frá. Þeir ákveða, að bátarnir greiði tryggingagjöldin og greiði halla útflutningssjóðs. Þetta veldur því, að samkv. þeirra reikningi þarf að lækka gengið jafnmikið og gert er ráð fyrir. Ég hef bent á aðrar leiðir. Ef gert væri ráð fyrir því; að 48 kr. væru í dollar, og rekstur þeirra skipa, sem nú er verið að kaupa, reiknaður út frá því gengi, mundi rekstur hinna nýkeyptu skipa ekki verða hagkvæmari, af því að hlutur útgerðarinnar fer nær allur í að greiða vexti og afborganir af kaupverði skipsins, veiðarfæri, olíu, beitu og viðgerðir. Allur þessi kostnaður hækkar í krónutali í réttu hlutfalli við lækkandi gengi ísl. krónu. Að elta slíkt er hliðstætt því, þegar hvolpur snýst um sitt eigið skott. Þeir einu, sem græða, eru þeir, sem hafa keypt skipin, þegar íslenzka krónan var verðmeiri, og geta nú greitt vexti og afborganir með verðminni krónum.

Ég er ekki kunnugur togaraútgerð. En á það skal bent, að þrír af ríkustu mönnum landsins hafa rekið togaraútgerð og virðast ætla að gera það framvegis, svo að ekki hefur hún gert þá félausa. Það er og tekið fram í grg. þeirri, sem fylgir frv. því, sem hér liggur fyrir, að allir atvinnuvegir skuli búa við sömu kjör. Það er því ekki réttlætanlegt að lækka gengi íslenzkrar krónu einhliða vegna togaraútgerðarinnar, enda mundi sú lækkun eingöngu koma þeim togurum að gagni, sem þegar hafa verið keyptir og greiddir. Aðstaða bátaútvegsins hefur batnað við útfærslu landhelginnar, en togaranna orðið lakari. Þetta mun valda því, að bátaútvegur mun aukast og togaraútgerð leggjast niður nema í stærstu bæjum, allt samkv. boðorði hæstv. ríkisstjórnar, að engan skuli styrkja; allir eigi að búa við jöfn kjör hvað afurðaverð snertir. Án efa hafa miklar yfirsjónir verið gerðar og eru að gerast í skipakaupum. Það er óverjandi að láta ekki fara fram athugun á því, hvaða stærð og gerð skipa hentar bezt. Frágangur sumra skipa, sem keypt hafa verið, hefur ekki verið svo góður sem æskilegt hefði verið, og má það vafalaust kenna íslenzkum aðilum að einhverju leyti.

Sé miðað við, að gengi íslenzkrar krónu sé samkv. brtt. þeirri, sem ég hef lagt hér fram, mundi hlutur togaranna verða sem svarar 85% útflutningsuppbótum, sem er 2–3% hærra en verið hefur. Gætu frystihúsin greitt heldur hærra verð vegna góðrar afkomu undanfarin ár, aukins hráefnis og fljótari greiðslu á afurðum, gæti hlutur togaranna orðið svipaður og verið hefur. Vitanlega hafa verðsveiflurnar á heimsmarkaðnum mikil áhrif á síldarafurðir. En ógerlegt er að lækka gengi íslenzkrar krónu óeðlilega mikið, þótt verðlag á mjöli og lýsi sé ekki hagstætt í bili.

En það eru fleiri atriði en þessi, sem koma til greina. Við getum tekið verzlunarfyrirtækin. Þau hafa undanfarin ár búið við rekstrarfjárskort. Svo á að bæta því ofan á að lækka gengi íslenzkrar krónu þannig, að vörurnar, sem þau þurfa að kaupa, munu hækka allt að því um þriðjung. Í viðbót við þetta á að þrengja kosti þeirra, sem þurfa á lánsfé að halda. Hvað haldið þið, að slík fyrirtæki segi um þetta, ef hægt er svo að benda á, að gengið sé lækkað óþarflega mikið? Ég hygg, að þau verði óánægð, sætti sig ekki við slíkar ráðstafanir. Við getum athugað kjör bændanna. Þeir selja mest vörur sinar innanlands. Þeir eru flestir í rekstrarfjárskorti. Svo á að bæta því ofan á að lækka íslenzka krónu um 27% meira en nauðsynlegt er. Spilin eru ekki lögð rétt á borðið, þeim er ekki raðað á réttan hátt. Við getum tekið sparifjáreigendurna. Ætli þeir verði þakklátir hæstv. ríkisstjórn fyrir að taka 27% meira af verðmæti sparifjárins en ástæða er til?

Frsm. meiri hl. nál. var í gær að ræða um það, að verðbólgan væri skaðleg. Hann var að tala um það sem eins konar sárabætur við sparifjáreigendur, að innlánsvextir yrðu hækkaðir. En ég vil spyrja: Eru það ekki beztu sárabæturnar fyrir þá, að verðgildi þeirra eigna, sem þeir hafa trúað þjóðfélaginu fyrir, sé ekki gert minna en ástæða er til og nauðsyn krefur? Og þó að þeir fái 10% vexti í eitt ár, þá er það miklu minna virði fyrir þá heldur en gengi íslenzkrar krónu sé fellt 27% minna en gert er ráð fyrir.

Munurinn á útreikningnum hjá mér og hjá Fiskifélaginu liggur í þremur aðalatriðum, og við getum alveg lagt þetta ljóst niður fyrir okkur. Það er auðvelt að reikna þetta. Það þarf engar vélar til þess. Ef genginu er ekki breytt nema í 30 kr. dollarinn, hvað er það þá, sem hækkar rekstrarkostnað bátaútvegsins? Gerið ykkur þetta bara einfaldlega ljóst. Það er ekkert annað, sem hækkar hjá bátaútveginum, svo framarlega sem hlutaskipti við sjómennina breytast ekki, heldur en veiðarfæri og olía, og af olíunni greiða sjómennirnir helminginn. Þetta hækkar um 20%. Og bátaútvegurinn fær heldur meira fyrir fiskinn en verið hefur, og auk þess er aðstaða hans allt önnur en hún hefur verið, vegna þess að aflabrögðin eru miklu betri. Þau hafa aldrei verið betri en s.l. ár nú yfir lengri tíma. Maður, sem rekur 70–80 tonna bát, fær 2 millj. í sinn hlut með sæmilegri afkomu árið 1959. Verkamaður hér í Reykjavik fær 55–65 þús. kr. í kaup, ef hann fær eftirvinnu og sunnudagavinnu. Er þá rétt, að útgerðarmaðurinn, — við skulum segja, að hann þurfi 400 þús. kr. í olíu og veiðarfæri og viðgerðir, það getur verið meira og getur verið minna eftir því, hvernig gengur, við getum reiknað með, að hann hafi svona 400 þús. í afborganir og vexti, — er rétt, að gengi íslenzkrar krónu sé lækkað 27% meira en þörf er á, til þess að bátseigandinn þurfi ekki nokkurn minnsta halla að bera?

Það, sem er að hjá okkur, er raunar mjög ýkt, því að sannleikurinn er sá, að þegar nýjar stjórnir taka við, þá er allt ómögulegt hjá fyrrv. stjórn. Sannleikurinn er sá, að við höfum alltaf verið að bæta hag okkar, það hafa verið gerðar miklar umbætur og þessir örðugleikar í dag eru bara smámunir, ef við getum komið okkur saman um hlutina, ef flokkar og menn leggjast ekki í fýlu yfir því að vera ekki í stjórn á hverjum tíma, ef menn ganga ekki með einhverja ráðherrasótt, sem gerir allt samstarf ómögulegt innan þingsalanna, og það er fyrst og fremst okkar sök, hvernig hlutirnir ganga, en ekki hins óbreytta sjómanns og verkamanns. Þeir vilja vel. Það eru leiðtogar þessara manna, sem misnota traust þeirra og trúnað til þess að gera óeðlilegar og ósanngjarnar kröfur. Það er ekki von, að vel gangi, þegar einn rífur niður það, sem annar vill byggja upp. Þessi vandamál öll eru auðleyst, ef við vinnum að þeim á heiðarlegan og drengilegan hátt. Það er með öllu óverjandi, að þeir, sem hafa haft bezta aðstöðu í þjóðfélaginu s.l. ár, sem ég vil segja að séu sjómenn og bátaeigendur, taki engar byrðar á sig, en gengi íslenzkrar krónu sé fellt jafngífurlega og gert er ráð fyrir bara til þess að tryggja það, að þeir þurfi engar byrðar að bera. Það eru algerðir smámunir hjá útgerðarmanni, þó að hann taki helming af auknum veiðarfærakostnaði, það mundi e.t.v. vera um 20 þús. kr. , ef frystihúsin eða fiskiðjuverin tækju 20, og ef hann ætti hvort tveggja, þá gæti hann tekið hvort tveggja. Það eru algerðir smámunir hjá manni, sem veltir 2 millj. með rekstri eins báts, að taka á sig 20 þús. kr. byrði, miðað við það, sem er fyrir verkamann hér í Reykjavík, sem hefur um 60 þús. kr. árstekjur, að verðgildi peninga hans sé minnkað 27% meira en þörf er á og öll sú vara, sem hann þurfi að kaupa frá öðrum löndum, hækki a.m.k. um þriðjung, ef hún hækkar þá ekki meira með öllum þeim skattaleikaraskap, sem verið er að framkvæma.

Nei, þetta er leikaraskapur. Hvað er réttlætanlegt við það, að halinn á útflutningssjóði sé lagður á fiskverðið í framtíðinni, sem veldur því svo, að bátaútvegurinn þurfi að fá meira verð fyrir fiskinn, sem veldur því, að það verður að fella gengið meira. Þetta er hrein vitleysa. Hvaða ástæða er til þess að skella tryggingunum endilega inn í nú? Það er miklu betra, að ríkið borgi tryggingarnar fyrir bátana og rannsaki rækilega, hvort ekki sé hægt að lækka þær og bátarnir taki þá við þeim á næstu árum, ef þeir eru færir um það, án þess að gengi íslenzkra peninga lækki við það, heldur en fara að borga niður kornvörur og sykur. Og það er miklu betra fyrir alþýðumenn í Reykjavík, að það séu ekki borgaðar niður kornvörur og sykur, en það sé eitthvert verðgildi í peningunum, sem eru afhentir.

Það er sagt um Halldór Snorrason, að hann var hirðmaður hjá Haraldi konungi. Haraldur var hagsýnn maður og ágjarn, og hann lét blanda saman við mála þann, sem hirðmenn hans fengu, óhreinum málmi, þannig að það var svikið silfur, sem þeir fengu. Það er sagt, að þegar Halldóri Snorrasyni var borið kaupið, þá sló hann það niður í hálm. Hann skildi, að það var lítils virði að fá silfrið, þegar meira og minna var af ónýtum, verðlausum málmi saman við það. Íslenzkir alþýðumenn eru e.t.v. ekki svo vitrir sem Halldór Snorrason. En þeir eru svo vitrir, að þeir munu skilja það, að þetta er leikaraskapur einn. Það er kjaraskerðing að gera verðgildi krónunnar minna. Ef dráttartæki stanzar í halla og það er að fara af stað, þá er skynsamlegt að setja stein aftan við hjólið, þó að hann sé ekki mjög stór, hann getur stöðvað dráttartækið. En það er ekki hygginna manna háttur að setja steininn 20 metra aftan við dráttartækið, þegar það er byrjað að renna af stað, því að þá er ferðin orðin svo mikil á því, þegar það kemur að steininum, að það skoppar yfir hann. Ég er algerlega sammála hæstv. ríkisstjórn um, að við þurfum að setja stein aftan við dýrtíðarvagninn, sem ávallt hefur sigið undan brekkunni hjá okkur. En við eigum ekki að gera það á þann hátt að setja hann 20 metrum neðar en vagninn er. Við eigum að setja hann hálfum metra og helzt ekki nema einu feti aftar, því að þá er hægt að stöðva vagninn, öðruvísi ekki. Annars rennur vagninn niður á jafnsléttu og það getur verið fullerfitt fyrir núv. ríkisstj. og e.t.v. þá næstu líka að koma honum þá upp aftur. Það getur kostað óþarflega mikið erfiði.

Það þarf ekki að reikna með verðhækkun þeirra skipa, sem er verið að kaupa, ef gengið er ekki fellt meira en ég legg til. Sá liður fellur þá út.

Það eru þessi þrjú atriði, sem gera fyrst og fremst muninn, skapa þörfina fyrir það að fella gengið jafnmikið og nú er talið að þurfi. Og þetta eru allt gerviatriði, sem hægt er að koma fyrir á annan og hagkvæmari hátt.

Ég get sagt ykkur, að þegar maður kemur niður af Auðkúluheiði, þá eru þar þrjár stórar vörður. Síðan ég var drengur, hafa þær alltaf staðið á sama stað. Ég hef undrazt það, hvað vörðurnar stæðu, og ég hef athugað, í hverju þetta lægi. Það liggur í því, að steinunum er rétt raðað, þar er hver steinn á réttum stað, og stærstu steinarnir eru neðst.

Núv. ríkisstj. og við raunar allir getum sagt, að við ætlum að fara að hlaða vörðu, einhvers konar dýrtíðarvörðu. En hvernig færi, ef við létum litlu steinana neðst og stærsta bjargið á toppinn, segðum svo við þann, sem kæmi að skoða vörðuna hjá okkur: Var ég nú ekki duglegur og sterkur að koma bjarginu þarna upp á toppinn á vörðunni? — Jú, það gat skeð, að það væri reginátak. En það þýddi bara það, að varðan hryndi.

Ég vil benda hæstv. ríkisstj. á, að þessi fjármálaaðferð að fella gengið óþarflega mikið, gefa eftir skatta, búa til skatta, það er ekkert nema leikaraskapur. Það er ekkert nema leikaraskapur gagnvart íslenzkri alþýðu að gefa henni eftir tekjuskattinn, en leggja á hana söluskatt, sem kemur fram í vöruverði, og hækka vexti. Þetta er ekkert nema gamansemi. Það er hægt að leika þetta. En það er ekki leikaraskapur að fella verðgildi íslenzkra peninga, vegna þess að það er erfitt að auka verðgildi þeirra aftur. Það yrði að skipta algerlega um peninga, með öllum þeim annmörkum og vandræðum, sem því fylgja.

En viðvíkjandi vörðunni, þá er það þetta: Við verðum að láta stærstu steinana neðst, og við verðum að láta hvern stein á réttan stað. Það þurfti mikla æfingu, mikla reynslu til að byggja vörður, þetta var hrein list, ef þær áttu að standa lengi. En það er þetta, sem við verðum að gera í okkar fjármálum. Við verðum að setja stærstu steinana neðst. Við getum svo látið smásteinana efst. En þá verðum við að taka tillit til íslenzkrar alþýðu, en ekki til nokkurra bátaeigenda, húsabraskara eða peningaokrara jafnvel. Það er að setja bjargið á toppinn á vörðunni að taka ekki tillit til hinna fjölmennu stétta.

Ég er sannfærður um, að ef þeir, sem betur eru settir, vilja bera sinn hluta, þá mun íslenzk alþýða taka þær byrðar, sem nauðsynlegar eru til þess að hafa hlutina í lagi. Beztu hjörtun slá undir treyju verkamannsins, en ekki auðkýfingsins og það hefur alltaf sýnt sig, að alþýðan fylgir þeim, sem vill deila við hana kjörum, en ekki þeim, sem vill það ekki. Við getum tekið tvo samferðamenn. Þeir eiga að ganga heilan dag. Annar fer af stað með þrjár eða fjórar brauðsneiðar, hinn fer af stað með hangikjöt, svið og annað góðgæti. Ef sá, sem minna nesti hefur, kemst að því, að sá, sem meira hefur með sér, hefur étið frá honum, þá virðir hann ekki þann samferðamann og óskar ekki hans samfylgdar framar.

Það er þetta, sem er að gerast nú í íslenzku þjóðfélagi. Ég benti á það, að maður, sem er búinn að kaupa bát fyrir 2 millj. árið 1957, á að njóta sömu afskrifta og sá, sem er að kaupa bát nú fyrir 41/2 milljón. Þarna er ekkert annað að gerast heldur en það, að maður, sem hefur haft aðstöðu til að hafa fjármagn og kaupa atvinnutæki, fær 2 millj. gefins, og það er ekki maðurinn, sem kaupir dýra bátinn, sem borgar, það er íslenzk alþýða, sem borgar. Og þið þurfið ekki að imynda ykkur, að þetta verði ekki túlkað fyrir fólkinu. Þetta er alveg eins með húseignirnar, og þetta er yfirleitt svona með allar verðmætar eignir í landinu. Það er eins og hæstv. viðskmrh. sagði áðan, gengisbreyting er tilfærsla tekna innanlands. Það er tilfærsla frá þeim fátækari til þeirra ríku. Þetta er hárrétt. En hann bætti því ekki við. En það er bara þetta, sem fólkið mun ekki sætta sig við. Það mun ekki sætta sig við, að kjör þess verði skert allt að 30% meira en þörf er á, en þeir, sem bezt eru settir, sitja við sömu kjör. Ég græði, svo að skiptir hundruðum þús. kr., á þessum ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar. En ég vil segja það: Ef aðrir þurfa að bera meiri byrðar en þeir hafa nú, þá vil ég taka minn þátt í því, og ég veit, að hver sá, sem fæst við útgerð á Íslandi, ef hann athugar þetta bara, þá er hann sama sinnis og ég, því að þetta eru starfandi menn, og þó að kröfupólitík okkar Íslendinga hafi verið svo heimskuleg, að allir hafi heimtað fleiri og fleiri krónur, þá ætti að vera auðveldara að koma vitinu fyrir þessa menn en fyrir margar þúsundir, sem vinna verkamannavinnu. Þetta verðum við að athuga. Það er ekki til neins að segja við fátækari stéttirnar í þjóðfélaginu: Þið skuluð einar bera þær byrðar, sem við þurfum að leggja á þjóðina. — Það er hreinn barnaskapur, og ef hæstv. ríkisstj. gerir þetta, þá er hún að smeygja snörunni um sinn eigin háls, og það þarf ekkert annað en kippa í spottann til að hengja hana. En ef hún gerir þetta ekki og ef hún lætur yfirleitt þá, sem eru betur settir í þjóðfélaginu, deila kjörum með þeim, sem eru verr settir, á réttlátan og skynsamlegan hátt, þá mun henni takast sú efnahagsviðleitni, sem hún vill gera núna, því að ég viðurkenni, að í raun og veru stefnir hún í rétta átt. Það er bara of langt gengið, það er ekki athugað, hvaða torfærur eru á leiðinni. Það er ekki farið yfir gilið, þar sem auðveldast er að fara yfir það.

Ég er hæstv. ríkisstj. alveg sammála um það, að við eigum að skrá okkar gengi rétt, við eigum að hafa heilbrigða gengisskráningu, en við megum ekki ganga lengra. Það má ekki vera hægt að benda íslenzkri alþýðu á, að það sé níðzt á henni, ekki með réttu. Og þó að það sé reynt að bæta úr þessu misræmi með fjölskyldubótum og öðru slíku, þá eru ekki allir, sem fá ellistyrk og fjölskyldubætur, sem hafa jafna þörf fyrir það. Það eru margir aldraðir menn svo ríkir, að þeir þurfa þess ekki með og eiga betra með að missa af sínum ellistyrk heldur en maður með 60 þús. kr. launum hér í Reykjavík að missa af sínu kaupi. Og það eru ekki allir, sem eiga mörg börn, sem þeir fá styrk með. Þessir menn vilja líka hafa kaup, þótt þeir eigi ekki nema eitt barn og séu að mynda heimili. Það verða nógir, sem hægt er að gera óánægða.

Þess vegna segi ég það: Við skulum hjálpast að því að leysa vandamálin. Ég styð ekki þessa hæstv. ríkisstj. eða er ekki í þeim flokkum, sem styðja hana a.m.k., og hef þess vegna ekki aðstöðu til að koma málum fram. En ég nota þann rétt, sem ég hef. Ég hef bent á þær leiðir, sem ég tel færar. Ég hef bent ríkisstj. á það; að hún er að fara í ófæru, hún er að gera hlut, sem er ekki framkvæmanlegur, hún er að setja stærsta steininn á toppinn á vörðunni, í stað þess að setja litlu steinana þar, og þá hrynur þessi bygging hennar; og hún hrynur meira að segja fljótt. En ef hæstv. ríkisstj. vill byggja sína vörðu af viti, setja stóru steinana neðst, raða þeim á réttan, fallegan og skynsamlegan hátt, þá tekst henni það, sem hún ætlar sér að gera, annars ekki.

Ég skal ekki bæta miklu við þetta. Ég óska eftir því, ef aðrir þurfa að taka á sig auknar byrðar, sem mega sín minna en ég, að ég fái að vera með þeim. Ég veit, að sjómennirnir vilja heldur fá ofur lítið færri krónur en þeir fá, fá ofur lítið minna í hlutaskipti á bátunum, ef með þarf, heldur en að fá 27% verðminni krónur en þeir fá nú, því að það borgar sig betur fyrir þá að gefa eftir örfá prósent en að verðgildi peninganna sé gert 27% minna en þörf er á.