12.02.1960
Neðri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

48. mál, efnahagsmál

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég get nú því miður ekki lofað hv. þm. eða tilheyrendum að vera jafngamansamur í þeim orðum, sem ég segi hér, eins og hv. síðasti ræðumaður. Mig hefur alltaf undrað það; síðan ég heyrði, að Húnvetningar felldu Jón Pálmason, hver væri meginástæðan fyrir því falli, en nú skil ég, að þeir munu meta meira gamansemi en alvörumál og alvörutill. í efnahagsmálum og þar liggi aðalástæðan fyrir því, að þeir breyttu um þm.

Frv. það til l. um efnahagsmál, sem hér er til 2. umr., hefur, sem vænta mátti, verið allmikið rætt og margt borið á góma í þeim umr. Því skyldi engan undra, þótt mál sem þetta fari eigi umræðulítið í gegnum þingið, svo mjög sem það snertir allan almenning og afkomu þjóðarinnar í heild. Og þótt ég eigi ekki sæti í hv. fjhn., sem fjallar um frv., vildi ég segja hér nokkur orð um málíð og skýra afstöðu mína til þess í heild.

Siðan sú stefna var tekin upp fyrir tveimur áratugum að láta kaupgjald og vísitölu elta hvort annað, oftast í fyrirhyggjulitlu kapphlaupi, hafa efnahagsmálin verið mál málanna bæði utan þings og innan. Þau hafa fremur öllum öðrum málum valdið stjórnarskiptum, þingrofum og sambræðslu flokka um stundarsakir með gerólíkum sjónarmiðum, allt í þeirri von og í því trausti, að takast mætti að leysa vandann. En þrátt fyrir þetta hefur engum stjórnmálaflokki eða flokkasamsteypu tekizt að finna þá lausn á vandanum, sem meiri hluti þjóðarinnar hefur getað fellt sig við og fylkt sér um að berjast fyrir til sigurs til langframa. Og þó eru allir sammála um það, að enn í dag sé þetta mesta vandamálið og það verði að leysast á viturlegan og réttlátan hátt fyrir alla þjóðarheildina, og verði það ekki gert, þá sé voðinn vís.

Þegar þessi staðreynd er kunn, veldur það nokkurri undrun að hlusta á ræðumenn stjórnarandstöðunnar verja mestum tíma til þess að ræða málið á þann veg, sem torveldar lausn þess, og draga inn í umr. flokkspólitískan áróður, sem á ekkert skylt við sjálfa lausnina á þeim vanda, sem hér þarf og verður að leysa.

Fyrst framan af var hugsað að leysa þennan vanda með niðurgreiðslum, uppbótum og viðskiptahömlum í stærri stíl en nokkru sinni höfðu þekkzt hér á landi, samfara óvenjulegri fjártöku af þeim þjóðfélagsþegnum, sem vitað var að höfðu bætt verulega hag sinn á stríðsárunum. Sett var á stofn voldugt fjárhagsráð. Skyldu allir aðilar í landinu lúta vilja þess ráðs, og öll afkoma landsmanna til lands og sjávar var háð valdi þess. Fjárhagsráð skyldi vera forsvarsaðili allra manna og allra stétta og skipta réttilega arðinum af þjóðarbúinu á milli þegnanna, um leið og þeim skyldi öllum tryggð nægileg atvinna, hafa skyldi eftirlit með öllu vöruverði í landinu og tryggja lægsta innflutningsverð allrar vöru. Þetta volduga ráð fékk vald yfir öllum gjaldeyri, öllu vinnuafli, öllu verðlagi, allri skömmtun á vörum og öllum lífsgæðum, á öllum leyfum og öllum bönnum gegn sérhverju því, sem komið gæti í veg fyrir, að fyrirskipanir þess eða lög næðu þeim tilgangi að skapa hér öryggi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Til viðbótar þessu voru svo lög um eignakönnun manna um land allt sett, ef vera mætti, að með því móti fyndust duldir fjársjóðir, er grípa mætti til, ýmist til jöfnunar lífskjara eða til eyðslu fyrir ríkissjóðinn, þegar ekki voru lengur fyrir hendi nægilegar tekjur af rekstrarafgangi hjá landsmönnum til þess að mæta útgjöldum ríkis og bæja.

Það væri freistandi að fletta hér upp í lögum nr. 70 1947, þ.e. 2. gr. og 12. gr. þeirra l., til að sýna það geysivald, sem þetta ráð fékk yfir landsmönnum. En ég vil þó ekki tefja störf deildarinnar með þeim lestri, en aðeins benda á, að allar vonir um fjárhagsráð brugðust, ekki einasta þær, að ráðið gæti haldið þessu valdi og á þann hátt náð því takmarki, sem hugsað var að ná í efnahagsmálum þjóðarinnar, heldur og allar aðrar vonir um lausn mála, sem því var falin.

Tilgangur þessarar löggjafar hefur sjálfsagt verið hinn ágætasti. En skilningur þeirra manna, sem undirbjuggu löggjöfina og settu hana, á lífsviðhorfi, skapgerð og sóknarmætti og frelsiskennd þjóðarinnar hefur áreiðanlega verið sorglega lítill og fór síður en svo vaxandi í framkvæmdinni. Reynslan varð og sú, að þjóðin sætti sig ekki við þessa skipan efnahagsmálanna til langframa.

Rúmlega ári eftir að þessi lög voru sett, var Alþingi rofið beinlínis vegna ósamkomulags um aðgerðir í efnahagsmálunum. Uppbóta- og niðurgreiðslukerfið, samfara kapphlaupi vísítölu og kaupgjalds, var þá að sliga alla framleiðslu og skapa hreint öngþveiti í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þrátt fyrir hin ströngu fyrirmæli fjárhagsráðslaganna þaut allt verðlag í landinu upp með geysihraða, og verðgildi krónunnar féll að sama skapi.

Það einkennilegasta og jafnframt óheppilegasta við þingrofið 1949 og kosningarnar, sem á eftir því fóru þá um haustið, — sem beinlínis var knúið fram vegna öngþveitis í efnahagsmálunum, — var, að þá setti enginn flokkur eða flokkasamsteypa fram hreina stefnuskrá í efnahagsmálunum, sem þjóðin gæti aðhyllzt eða hafnað, enda kom enginn flokkur út úr þeim kosningum með meiri hluta á Alþingi. Það var þó fyrir fram vitað, að þingið, sem kom saman að loknum kosningunum 1949, yrði að taka efnahagsmálin til meðferðar og skapa haldbetri stefnu í þeim málum en verið hafði fram að þeim tíma.

Stjórnarflokkunum sýndist það ekki fýsilegt að taka á sig þann vanda. Enginn meiri hluti fékkst á Alþingi til þess að mynda ríkisstj. til undirbúnings þeim málum. Þeim vanda vildu flestir flokkarnir þá víkja frá sér. Og þó hafði þjóðin sent forustumenn þeirra á þing til þess fyrst og fremst að vinna að lausn þessara mála. Efnahagsmálin voru þá eins og nú mál málanna og margt líkt um ástand þeirra þá og nú.

Það féll þá í hlut Sjálfstfl. að mynda minnihlutastjórn og undirbúa lausn efnahagsmálanna. Erlendur gjaldeyrir var þá eins og nú í margföldu verði manna á meðal á hinum svarta markaði, samanborið við hið skráða gengi. Gjaldeyrisforðinn var þá eins og nú þrotinn, Framleiðendur fengu þá eins og nú of fáar íslenzkar krónur fyrir hinn erlenda gjaldeyri, sem þeir lögum samkvæmt urðu að skila bönkunum gegn miklu lægra verði en almenningur vildi kaupa hann fyrir. Þeim varð því þá að hjálpa eins og nú með uppbótum eftir margvíslegum krókaleiðum, sem voru ekki þá frekar en nú alls staðar jafnnauðsynlegar eða réttlátar. Það var þá ljóst alveg eins og nú, að uppbótakerfið gat ekki leyst vandann. Verzlunarhöftin og alræðisvald fjárhagsráðs gat ekki heldur leyst vandann þá frekar en nú. Það varð því að finna aðrar leiðir. Till. Sjálfstfl. þá, sem fram komu í frv. til l. um gengisskráningu o.fl., 125. mál, þskj. 363, á þinginu 1949, fóru í meginatriðum í sömu átt og frv. það um efnahagsmál, sem hér er til umr., þ.e. að viðurkenna opinberlega gildi íslenzku krónunnar og gera síðan ýmsar ráðstafanir aðrar, sem óhjákvæmilegt er að gera í sambandi við gengisbreytinguna.

Í 2. gr. þess frv, var svo ákveðið að heimila ríkisstjórninni, að fengnum till. Landsbankans, að ákveða gengi íslenzkrar krónu og miða þá gengið við það að ná sem mestum jöfnuði í greiðslum við útlönd án gjaldeyrishafta, og skyldi Landsbankanum skylt að taka sérstaklega til athugunar skráningu íslenzku krónunnar, þegar almenn breyting yrði á kaupgjaldi í landinu. Þetta var mjög veigamikið nýmæli í lögum um gengisskráninguna og beinlínis sett inn fyrir þá augljósu staðreynd, að yrðu miklar sveiflur á kaupgjaldi í landi, þar sem vísitala og kaupgjald voru í kapphlaupi, var ekkert, sem auðveldlegar gat brotið niður verðgildi krónunnar en ört hækkandi laun án hliðstæðrar aukningar á útflutningsverðmætum þjóðarinnar.

Eftir að ýmsar breytingar höfðu verið gerðar á frv, og flestar í öfuga átt við tilgang þess, var það gert að lögum. Samfara því mynduðu tveir stærstu flokkar þingsins, Framsfl. og Sjálfstfl., ríkisstj. til þess að framkvæma lögin.

Í meginatriðum var stefna sú í efnahagsmálunum, sem Sjálfstfl. markaði á þinginu 1949, rétt. Hitt var svo annað mál, að hann hafði ekki nægilegt fylgi til þess að geta ráðið að fullu setningu laganna samkvæmt þeirri stefnu, sem þar var mörkuð, og því síður til framkvæmdar laganna síðar. Það varð að taka tillit til sjónarmiða samstarfsflokksins, sem á margan hátt torveldaði að ná þeim árangri, sem hugsaður var í upphafi um það mál.

Ást samstarfsflokksins á haftafarganinu var of rótgróin til þess, að unnt væri að ganga á milli bols og höfuðs þess og skapa í samstarfi við hann frjálsa verzlun og frjálsar athafnir.

Hér var um svo mismunandi lífsviðhorf að ræða, að það bil varð ekki brúað. En þrátt fyrir þetta má segja, að framkvæmd í efnahagsmálunum hafi gengið allþolanlega til ársins 1955, að hið almenna verkfall skall yfir og með því ný verðbólgualda, sem beinlínis kippti fótum undan verðgildi krónunnar og færði því fólkinu engar kjarabætur, eins og nú er af flestum viðurkennt.

2. gr. frv. um gengisskráningu í samræmi við kaupgjaldssveiflur hafði verið felld niður. Um það skal ekkert sagt, hvort það ákvæði, þótt lögfest hefði verið, hefði raunverulega haft nokkur áhrif í kaupdeilunum. En hitt er víst og verður ekki hrakið, að kaupgjaldshækkun sú, sem þá var samið um, og allt, sem á eftir fór, varð til þess að færa efnahagsmálin öll úr skorðum og koma þeim á ný í það öngþveiti, sem þau eru í í dag, og það vegna þess, að kauphækkun á öllum sviðum í landinu var látin fara fram, án þess að henni fylgdi aukið útflutningsverðmæti til samræmis við hækkun á framleiðslukostnaði útflutningsvörunnar.

Ég minnist á þetta hér vegna ummæla hv. 4. landsk. þm., þar sem hann lét fyllilega í það skina í ræðu sinni um þetta mál, að stéttarfélög launþeganna mundu þeyta lúðra sína til verkfalls og hrópa, ef frv. þetta næði fram að ganga, og því væri alveg óvíst, hvort sá árangur yrði af þessum ráðstöfunum, sem reiknað væri með, þegar öllum þeim herskara yrði hleypt lausum til þess að brjóta niður þær umbótatillögur allar, sem hér væri verið að koma á.

Ég held, að allir þeir menn, sem bera raunverulega umhyggju fyrir launastéttunum og afkomu þeirra, og einkum þó þeir, sem lægst launaðir eru, ættu að hugsa sig um oftar en tvisvar og líta nokkuð til fortíðarinnar, áður en þeir taka að sér það hlutverk að hleypa af stað þeim herskara til þess að eyða þannig öllum þeim áhrifum, sem þessi lög geta haft og munu hafa til umbóta á efnahagskerfið, ef þau fá að mæta áróðurslaust þeim skilningi, sem nauðsynlegur er, frá öllum stéttum þjóðfélagsins.

Launahækkanir lágstéttamannanna höfðu ekki verið í gildi í margar vikur árið 1955, þegar hærri launastéttir knúðu fram sams konar hækkanir til leiðréttingar og samræmingar, eins og það þá var orðað, að það endaði með því, að 80 millj. kr. í launahækkunum var kastað það ár inn á viðskiptamarkaðinn, og ekkert eitt atriði í sveiflum viðskiptamálanna jók það ár svo gífurlega eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri, sem jókst ekkert við þessar aðgerðir.

Við vorum aðeins tveir þm. hér í þinginu þá, þáv. þm. A-Húnv., Jón Pálmason, og ég, sem látlaust vöruðum við þessum voða. En rödd okkar var þá ekki heyrð. Seinna kom þó það allt fram, sem við spáðum um afleiðingar þessara aðgerða. Er þeim hollt, sem nú vilja hefja þennan sama leik á ný, að líta um öxl og sjá, hvað áður hefur verið gert í þessum málum og hvaða raunverulegar kjarabætur það færði launastéttum í landinu.

Það er lærdómsríkt að fletta blöðum sögunnar um tíu ára skeið og kynna sér, hvað þessir sömu hv. þm. sögðu þá um gengislækkunarfrv. það, sem þá var hér til umræðu.

Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) var þá einnig í stjórnarandstöðu. Í alllöngu nál., sem hann gefur út 10. marz 1950, segir hv. þm. m.a., með leyfi hæstv. forseta. Nál. hv. þm. um þetta frv. hefur ekki enn komið fram, en ég gæti hugsað mér, að það yrði eitthvað líkt í aðalatriðum og nál. hans um sams konar mál 1950. Mér dettur ekki í hug að þreyta þm. á að lesa allt það langa nál., sem þá var gefið út, en ég vildi þó mega benda hér á einstök atriði. Hann segir m.a. í fyrirsögn hér: „Frv. gengur fram hjá aðalvandamáli sjávarútvegsins, markaðskreppunni.“ Hann segir enn fremur: „Frv. er árás á bátaútveginn. Það gerir hlut hans lakari en nú er.“ Hann segir enn: „Gengislækkunin skerðir lífskjör launþega um 15–18%. Þessi árás á lífskjör alþýðunnar er augsýnilega aðaltilgangur frv. Með þessari árás ætlar afturhaldíð að kóróna þær árásir, sem undanfarin ár hafa verið gerðar á lífskjör launþega.“ Kannast menn ekki við nokkurn veginn það sama, sem hann hefur sagt hér í umræðunum um þetta frv. við 1. umr.? Hann segir enn: „Gengislækkunin skerðir lífskjör bænda og stöðvar vélþróun landbúnaðarins.“ Og enn: „Gengislækkunin rænir sparifjáreigendur og sviptir grundvellinum undan trausti á loforð ríkisvaldsins.“ Og enn: „Gengislækkunin gerir þjóðinni miklu erfiðara fyrir um nauðsynlega fjárfestingu.“ Og hann segir enn: „Frv. þetta, ef að lögum verður, kemur til með að binda í svipinn enda á þá atvinnubyltingu, sem hófst 1945, það átak, sem þá var gert til þess að hefja atvinnulíf vort á miklu hærra stig en fyrr.“ Og að síðustu segir hann hér eitthvað líkt því, sem hann sagði hér í fyrstu ræðu sinni við 1. umr.: „Með þessu frv., ef að lögum verður, er aðstaða erlendra auðfélaga gagnvart Íslandi stórum bætt. Amerískum auðhringum er með gengislækkuninni gert mögulegt að kaupa íslenzkt vinnuafl miklu ódýrar en fyrr. Íslenzkur verkamaður þarf eftir þessa gengislækkun að vinna næstum þrisvar sinnum lengur fyrir andvirði eins dollara í amerískum vörum en hann þurfti í ágúst s.l. Amerískum auðfélögum er með gengislækkununum tveim í haust og nú gert girnilegra en áður að kaupa upp eignir á Íslandi og ná hér tökum á atvinnulífi landsins. Með þessu frv., ef að lögum verður, er verið að kalla fátæktina aftur yfir Ísland, eins sára og hún áður var, og verið að gera amerískum auðdrottnum handhægt að nota þá fátækt til að auðga sig, en ræna Ísland gæðum þess og oss Íslendinga arði vinnunnar og yfirráðum lands vors.“ Svo mörg eru þau spádómsorð.

En hvernig rættist svo þessi spádómur? Hann rættist þannig, að eftir að lögin voru sett, hljóp slíkur vöxtur í allar framkvæmdir, bæði til lands og sjávar, að hver erlendur gestur, sem að garði bar, glápti af undrun yfir þeim grettistökum, sem þjóðin lyfti á öllum sviðum. Þannig rættist spádómurinn. Og þessi uppbygging hélt stöðugt áfram, þar til vinstri stjórninni tókst með gáleysi í efnahagsmálum að skapa það öngþveiti, sem við nú stöndum í.

Þið, sem heyrt hafið þau rök, sem þessi sami flokkur færir nú fram gegn frv., sem hér er til umræðu, og berið þau saman við rökin frá 1950, hljótið að komast fljótt að þeirri niðurstöðu, að í höfuðatriðum eru þau alveg þau sömu og þá.

En munu þessir spádómar Alþb. ganga nú betur eftir en þá? Þekki þjóðin sinn vitjunartíma, reynast þeir enn fjær raunveruleikanum, enda eru sumir þessara spádóma höfuðórar einir sálsjúklings, sem getur ekkert nýtilegt eða gott séð í vestrænu hagkerfi eða vestrænum stefnum.

Fimm dögum síðar gefur fulltrúi Framsfl. í fjhn. út nál. Er flokkurinn þá samþykkur gengislækkun og telur enga aðra leið heppilegrí, enda hefur hann þá samvinnu í stjórnarsamstarfi við Sjálfstfl. um framkvæmd efnahagsaðgerða á grundvelli frv. Í þessu nál. leggur Framsfl. í meginatriðum áherzlu á að auka skattaálögur á þjóðina, sem hann telur höfuðnauðsyn til tryggingar því, að aðgerðirnar nái tilgangi sínum. Viðbrögð Framsfl. eru nú allt önnur, þegar þetta frv. er fram borið. Hann hefur þó nú eins og þá fullreynt, að uppbótakerfið leysti ekki vandann. Hann veit nú eins og þá, að skráning krónunnar er röng og framleiðslan er að stöðvast, ef ekkert er að gert í efnahagsmálunum. En hví er þá viðhorf Framsfl. nú svo gerólíkt því, sem það var þá? Er það vegna þess, að afstaða hans til nauðsynlegra umbóta markast af því og því einu, hvenær og undir hvaða kringumstæðum umbæturnar skuli framkvæmdar, hvort t.d. Framsfl. er í stjórn eða í stjórnarandstöðu? Afstaða flokksins nú til þessara mála verður tæplega skýrð á annan hátt.

Í löngu nál. gerir 3. minni hl., — nú hæstv. viðskmrh., — grein fyrir afstöðu Alþfl. til frv. Hann hefur þá ekki trú á, að gengisfelling eða frjáls verzlun geti umbætt efnahagsmálin. Skal ekki rakið hér nánar allt, sem um þetta mál er sagt, heldur aðeins bent á, að reynsla undanfarinna ára hefur fært hæstv. ráðh. og flokki hans sönnun á því, að rétt sé nú að fara aðrar leiðir. Er gott eitt um það að segja, þegar menn viðurkenna, að vonir hafi brugðizt og viturlegt sé að víkja af braut, sem leiddi ekki að settu marki, og mættu eldri samherjar þessa flokks nokkuð taka sér það til eftirbreytni í jafnalvarlegu máli og því, sem hér er til umr.

Eins og kunnugt er, fóru fram tvennar kosningar til Alþingis á s.l. ári. Til vorkosninganna og þingrofsins var raunverulega stofnað vegna þess, að vinstri stjórnin gafst upp við lausn efnahagsmálanna í nóvember 1958. Um lausn þessara mála fékkst ekkert samkomulag í stjórninni. Við 1. umr. um þetta frv. var upplýst, hvaða leiðir hver af stjórnarflokkunum vildi fara, og sýnist af þeim gögnum, að ekki hafi borið meira á milli Framsfl. og Alþfl. en svo, að unnt hefði verið að jafna þann ágreining með góðum vilja, því að full viðurkenning er þar af hálfu Framsfl. á nauðsyn aðgerða og að gengisfelling sé eina úrræðið. Þessir tveir flokkar höfðu hins vegar ekki nægilegt þingfylgi til þess einir að mynda ríkisstj. og koma fram nokkrum umbótum, og vegna þess að Alþb. er andvígt gengisfellingu, vill það ekki vera með í neinum slíkum ráðstöfunum, sem byggðar eru á annarri gengisskráningu en þeirri, sem fyrir hendi er.

Formaður vinstri stjórnarinnar finnur enga lausn. Dýrtíðaraldan hefur þegar risið svo hátt, að sýnilegt er, að hún muni falla með öllum þunga yfir þjóðarskútuna og færa hana í kaf með allri áhöfn. Stýrið er brotið, og formaður sér enga leið til bjargar. Hans einasta hugsun er að forða sér og flokknum frá skipbroti, um skútuna og stýrið er honum alveg sama. Hann velur þann kostinn, sem hent hefur aðra dugleysingja, að koma sér og liði sínu í bátana og freista þess, að einhver verði til þess að bjarga þeim síðar meir og flytja í örugga höfn. Á þessari stundu stækkaði hann Alþfl., á þessari stundu gaf hann honum tækifæri til þess að sýna, hvað í honum byggi, er hann átti þann einn kost að duga eða drepast.

Nýjar þingkosningar fóru í hönd. Framsfl. varð það til happs, að þær snerust aðallega um breytingu á stjórnarskránni, en um það mál voru mjög skiptar skoðanir manna, eins og kunnugt er, og Framsfl. faldi, svo sem frekast var unnt, öll sín afglöp í efnahagsmálunum í því moldviðri, sem honum tókst að þyrla upp um kjördæmamálið, án þess hefði gengi hans í þeim kosningum fallið jafnvel miklu meira en gengi íslenzku krónunnar.

Í október fóru svo fram nýjar kosningar og nú með öðrum hætti en fyrr, og nú voru það efnahagsmálin, sem voru efst á baugi og aðalmálið. Í Vestfirðingakjördæmi fékkst Framsfl. aðeins til þess að ræða landsmálin sameiginlega við frambjóðendur annarra flokka við einar útvarpsumræður, þar sem vitað var, að mikill meiri hluti kjósenda þar mundi ekki geta notið þeirra vegna lélegra hlustunarskilyrða. Og hverjar voru till. Framsfl. til úrbóta í dýrtíðarmálunum í þeim umræðum? Þær voru aðeins hvatning til kjósenda að ganga í kaupfélögin og standa fast um sérréttindi þeirra. Það var sterkasta varnarvirkið gegn allri dýrtíð, bezta úrræðið gegn öllum gjaldeyrisskorti. Þegar svo væri komið, að kaupfélögin og Sambandið fengju alræðisvald í verzlun, viðskiptum og löggjöf, þá væri allur vandinn leystur í efnahagsmálunum. Ég ætla Framsfl. ekki svo illt, að þetta hafi aðeins verið túlkað þannig til þess á þann hátt að blekkja kjósendur til fylgdar við þann ágæta flokk, heldur hafi hitt og verið trú hans, að með því móti mætti takast að lækka að verulegu leyti verð á innfluttum varningi og hækka að verulegu leyti verð á íslenzkum afurðum seldum á erlendum markaði, því að tækist þetta hvort tveggja, var það óneitanlega mikilvægt spor í áttína til þess að draga úr dýrtíð, auka gjaldeyri og bæta kjör fólksins. Hitt var alveg ósannað, að þessi félagsskapur eða það verzlunarform næði hér jafnlangt, hvað þá lengra en frjáls verzlun á heilbrigðum samkeppnisgrundvelli, og fjöldi dæma lá fyrir, sem sönnuðu hið gagnstæða. Menn vissu þá og vita enn betur nú, að forráðamenn slíkra samtaka geta gert afglöp sem aðrir menn, fallið fyrir freistingum eins og aðrir menn og þokað sér yfir takmörk þess, sem með lögum er dregið á milli þess, sem er leyfilegt, og hins, sem er ekki leyfilegt, eins og aðrir menn.

Frambjóðendur hinna flokkanna ræddu efnahagsmálin á miklu víðtækari grundvelli, og er ég ekki í nokkrum vafa um það, að Alþfl. dró til sín í þeim kosningum allmikið fylgi fyrir að þora að taka á málunum svo sem hann hafði gert og gerir nú. Fólkið skildi vei, að mikilla umbóta er þörf, og það ætlast til þess, að fulltrúarnir, sem það sendir á þing, þori að gera raunhæfar aðgerðir í slíku vandamáli.

Ég hélt því fram á öllum þeim fundum, sem ég var á, að til þess að skapa traust og heilbrigt efnahagskerfl í landinu yrði að gera þrennt og allt í senn, auk þess að skrá gengi krónunnar samkv, framboði og eftirspurn. Það er fyrst að afnema beina skatta. Um þetta atriði skal ekki fjölyrt nú. Það gefst vonandi tækifæri til þess innan skamms að ræða það mál, þegar frv. um breyt. á skattalöggjöfinni verður tekið hér til umræðu í þessari hv. d. En sýnilegt er þó, að fallizt hefur verið að allverulegu leyti á þessa till. Annað er að gefa verzlunina algerlega frjálsa, þriðja að setja viturlega og réttláta vinnulöggjöf, sem gerði hvort tveggja í senn að tryggja vinnufrið og tryggja rétt launastéttanna til mannsæmandi lífskjara og réttlátari skiptingar á arði af framleiðslunni til lands og sjávar. Ég viðurkenni, að efnahagsfrv. gengur engan veginn svo langt sem ég tel nauðsynlegt í neinum þessum meginatriðum, en það er stórt spor í þá átt, og því mun ég leggja til, að það verði lögfest.

Í 1. gr. frv. kveður svo á um, að gengi á bandarískum dollara skuli vera 38 kr. Það er mikil mistúlkun að halda því fram, að með þessu sé Alþingi að fella gengið. Gengi dollara og annars frjáls gjaldeyris hefur verið hér um mánuði og ár miklu hærra í viðskiptum á milli manna. Hér er því ekki gert neitt annað en viðurkenna fall íslenzku krónunnar, viðurkenna, að verðgildi hennar er langt fyrir neðan hið skráða gengi og vonlaust er að hækka verðgildi hennar upp í það, sem krónan er nú opinberlega skráð. Í því eina landi, sem ég þekki til, að íslenzk króna er yfirleitt skráð til kaups og sölu, en það er í Vestur-Þýzkalandi, hefur gengi hennar um langt tímabil verið allmiklu lægra en það, sem hér er sett, og þó hafa þúsundir manna séð sér hag í því að selja stórar og smáar upphæðir í íslenzkum krónum á þeim markaði. Á hvers herðar í þjóðfélaginu leggst sá þungi? Séu það drápsklyfjar að kaupa dollara opinberlega í banka hér á 38 kr. , eins og stjórnarandstaðan fullyrðir, þá er það ekki léttari byrði að kaupa hann á 45–60 kr., en þeim kjörum hafa margir orðið að lúta og verið fegnir að geta fengið hann á því verði. Þess vegna verður bæði þing og þjóð að skilja það, að ef við ætlum okkur að hafa samskipti við aðrar þjóðir sem menningarþjóð, og án þess getum við aldrei notið beztu viðskiptakjara, þá verðum við að lúta sömu viðskiptareglum og þessar þjóðir hafa, og ein af þeim er að hafa ákveðið gengi á gjaldmiðli þjóðarinnar, sem skráð er opinberlega og hver og einn getur keypt hann og selt á frjálsum markaði. (Gripið fram á: Er það ekki svo?) Ja, það er það, sem ætlazt er til að það verði. M.a. ef þessi hv. þm. beitir sér ekki fyrir því, að niðurbrotnir verði þeir varnarveggir, sem settir eru, þá á það einmitt að verða svo.

Útlendingar, sem heimsækja þetta land, og það verður í framtíðinni ein af verulegum tekjum þjóðarinnar að selja þeim hér þjónustu í margvíslegri mynd, fá ekki skilið, að þeim sé fyrirmunað að fá jafnmargar íslenzkar krónur fyrir pundið sitt eða dollara í almennum viðskiptabanka eins og á götunni hjá hverjum, sem þeir af hendingu kynnu að komast í kynni við. Þeim er þetta alveg óskiljanlegt.

Við verðum að skilja, að þetta er eitt af höfuðatriðum í viðskiptalífinu við aðrar þjóðir, regla, sem er ekki hægt að brjóta nema þjóðinni til stórtjóns. Hér getur því ekki verið um neitt annað að ræða en að opinberu gengi íslenzku krónunnar verður að breyta. Hitt kann að valda meiri vafa, hvað á að skrá krónuna í dag. En á það er lagður sá mælikvarði, að með því gengi, sem tiltekið er í frv., sé afkoma útflutningsframleiðslufyrirtækis tryggð, svo framarlega sem ekki komi til óeðlileg óhöpp eða óskynsamlegar gagnráðstafanir. Og til þess er m.a. það ákvæði í frv. að mynda gjaldeyrissjóð til þess að taka af þær sveiflur, sem ætíð koma í viðskiptin milli þjóða, svo að það sé hægt á hverjum tíma að kaupa erlendan gjaldeyri á því verði, sem hann er skráður opinberlega.

Með 2. gr. frv., ef að lögum verður, er ríkissjóði heimilt að taka allt að 12 millj. dollara lán til þess að grípa til sem gjaldeyrissjóðs, ef þurrð er á gjaldeyri á ákveðnu tímabili, m.a. ef hér liggja í landinu stórkostlegar vörubirgðir, sem er ekki búið að selja og innheimta andvirði fyrir, eins og var nú um áramótin.

Þetta eru raunverulega þau tvö meginatriði, sem snerta samskipti okkar við útlönd, og hafa bæði verið harðlega gagnrýnd af stjórnarandstöðunni.

Til þess að gera sér ljóst, hvaða þýðingu það hefur fyrir þjóðarbúið að búa ekki við sífellt gjaldeyrishungur, eins og við nú búum við og höfum búið við um mörg ár, er rétt að skyggnast um og rifja upp núverandi .ástand í viðskipta- og gjaldeyrismálum þjóðarinnar, en það er sem hér segir:

Enginn getur í dag keypt vöru frá útlöndum og greitt hana fyrirvaralaust og þar með hagnýtt sér lægsta vöruverð á markaði; svo sem alls staðar á sér stað, þar sem um engar hömlur á viðskiptalífi eða gjaldeyrisskort er að ræða. En það er frumskilyrði þess að komast að hagkvæmustu innkaupum að geta keypt, þegar framboð er mest, og greiða þá vöruna við samningana. Hér er sá háttur á hafður, að varan liggur hér oft mánuðum saman og sífelldar kvartanir koma frá seljendum um óeðlilegar tafir á greiðslum, sem að síðustu leiðir til þess, að við verðum að sæta miklu óhagkvæmara verði en ella í innkaupum. Íslenzkur almenningur greiðir á þennan hátt þunga skatta í hækkandi vöruverði, og nema þær upphæðir milljónatugum á ári.

Ég hef um 15 ára skeið allmikinn þátt átt í þeim samningum, sem gerðir hafa verið erlendis í sambandi við uppbyggingu atvinnuveganna. Á meðan hægt var að semja á þeim grundvelli að greiða kaupverð við undirskrift verksamningsins eða á þann hátt, sem almennt er venja á meðal þjóða um slík viðskipti, var það engum erfiðleikum bundið að komast að beztum kjörum bæði hvað snerti verð og afhendingu. En jafnskjótt og semja varð um óeðlilega langan greiðslufrest, varð verðlagið allt annað og miklu hærra, auk þess sem miklu færri aðilar höfðu þá möguleika og áhuga fyrir því að semja um slík viðskipti. Ég þykist vita, að hv. 4. þm. Austf. (LJós) hafi ekki gleymt því, hvaða erfiðleikar urðu á vegi okkar á sínum tíma, er við í sameiningu gerðum erlendis einn slíkan samning. Veit ég, að hann fékk þá fullkomna vissu fyrir því, að það er allt annað og léttara að ná beztum kjörum, ef unnt er að bjóða staðgreiðslur.

Þessi ákvæði í frv. miða því beinlínis að hvoru tveggja: að lækka til muna innkaupsverð erlendra vara og þar með almennt vöruverð í landinu og auðvelda uppbyggingu í atvinnuvegunum, alveg gagnstætt því, sem stjórnarandstaðan heldur fram. En hér er miklu fremur um að ræða eitt veigamesta atriðið í baráttu gegn vaxandi dýrtíð í landinu og miklu veigameiri en þótt allir landsmenn gengju í kaupfélög, eins og Framsfl. leggur svo mikla áherzlu á.

Þegar vinstri stjórnin settist að völdum 1956, var hún óspör á loforð um uppbyggingu atvinnuveganna bæði til lands og sjávar. Meðal annars skyldi kaupa 15 stóra togara, 12 smærri og fjölda mótorbáta, auka stórlega fiskiðjuver, verksmiðjur og margt fleira, og til þess alls skyldi ríkissjóður veita aðstoð með allt að 90% ábyrgð á stofnkostnaði. Hv. 1. þm. Austf. (EystJ) rómaði mjög hér við 1. umr. þessa frv. öll þessi verk og þá stefnu, sem vinstri stjórnin markaði hér í uppbyggingu atvinnuveganna. Nú ætti með þessu frv. að breyta til, nú ætti að stöðva þessa þróun og torvelda þá uppbyggingu, sem Framsfl. hefði hér haft forgöngu um að koma á. Einkum og sér í lagi lagði hann áherzlu á þann voða, sem það mundi hafa í för með sér að kippa að sér hendinni um veitingu ríkisábyrgða frá því, sem verið hafði. Og hv. þm. Alþb. tóku mjög undir þessi ummæli. Er fróðlegt að athuga nokkru nánar þennan þátt efnahagsmálanna.

Ég skal ekki gagnrýna það, þótt vinstri stj. gæti ekki uppfyllt öll sín loforð um aukinn skipastól eða um aukningu annarra framleiðslutækja. Ég skal miklu frekar viðurkenna, að í stjórnartíð hennar var verulega haldið áfram á þeirri braut, sem áður hafði verið mörkuð, þó einkum hvað snerti að kaupa nýja báta inn í landið. Ég skal hins vegar draga fram hér nokkur atriði, sem sýna glögglega, að öngþveiti það, sem hér ríkir í efnahagsmálunum, hafi ekki smávægileg áhrif haft á þessi mál öll.

Vinstri stjórnin öll og þó einkum Alþfl. og Alþb. höfðu fullan áhuga á því að afla hinna 15 togara, sem lofað var að láta smíða fyrir landsmenn. Hún lét menn sína þeytast um allar álfur heims, jafnvel alla leið austur til Japans, til þess að leita fyrir sér um tilboð um verð og greiðsluskilmála, og í hverju landi var boðin fram ríkisábyrgð, en ríkisábyrgð þótti hvergi nægileg trygging, til þess að unnt væri að semja á viðunandi verðgrundvelli, og skal ég koma nokkuð inn á þetta atriði.

Svo að segja engar skipasmíðastöðvar hafa fjárhagslega möguleika til þess að semja um skipabyggingar með þeim skilmálum að lána andvirðið til langs tíma. Þær verða því að gera alla slíka samninga í sambandi við viðskiptabanka sína eða viðkomandi ríkisstjórn. Í öllum umræðum um slík mál við peningastofnanir hefur jafnan komið fram, að ríkissjóði Íslands er þar ekki treyst jafnörugglega og bönkum. Og meginástæður fyrir því eru sem hér segir:

1) Þótt ekki verði sagt, að ríkissjóður hafi ekki enn sem komið er staðið að síðustu við þær skuldbindingar, sem hann hefur þannig undirgengizt, þá hefur samt sem áður orðið svo langur dráttur hér á, að nærri hefur stappað afsögn víxla, þrátt fyrir margendurteknar aðvaranir og ábendingar um, hve mikið tjón það hefur í för með sér fyrir álit ríkissjóðs út á við. Þetta veit ég að bæði hv. 4. þm. Austf. og hv. 1. þm. Austf. er vel kunnugt um. Og venjulega hefur þetta dregizt svo fram á síðasta augnablik, að allir aðilar hafa haft af því áhyggjur, óþægindi og margir verulegt fjárhagslegt tjón. Og þetta er ekki leynt neinum bönkum, sem standa í viðskiptasamböndum, hvort heldur er innanlands eða milli landa. Allar slíkar fréttir eru látnar ganga til viðskiptabankanna, hvar í landi sem eru.

2) Vegna þessara ástæðna láta viðskiptabankarnir sér ekki nægja ábyrgð ríkissjóðs, heldur krefjast einnig ríkisábyrgðar í viðkomandi landi eða ábyrgðar jafngildra aðila þar. En einnig það eykur mjög lántökukostnaðinn. Öllum, sem með slík mál fara, er fullkunnugt um þann hátt, sem hér er á hafður um veitingu ríkisábyrgða, og fylgjast enn betur með en jafnvei við sjálfir, hve mjög sú upphæð fer vaxandi, sem ríkissjóður verður að greiða árlega, og vekur þetta óhugnanlega lítið traust á ríkissjóði, og hefur mér stundum þótt erfitt að verja þetta, svo að menn, sem aldir eru upp við það, að staðið sé við allar skuldbindingar og tryggingar séu til þess jafnan, að gengið sé að þeim, ef greiðslur bregðast, skilji þann hátt, sem hér er hafður á. Þeir skilja það ekki jafnauðveldlega og við, sem lifum undir þessum venjum, að ekki sé unnt að koma fram mannvirkjabyggingum í Þorlákshöfn, svo að dæmi sé nefnt, nema ríkissjóður taki á sig fjárhagslegar ábyrgðir, án þess jafnframt að tryggja sér, að upphæðirnar verði greiddar að fullu innan eðlilegs tíma, þótt þær kunni að falla til greiðslu á ríkissjóðinn um eitthvert tímabil. Ég er ekki með þessu að segja, að þessar eða þvílíkar ábyrgðir séu ekki nauðsynlegar eða jafnvel í mörgum tilfellum óhjákvæmilegar. En það raskar ekki hinu, að út á við rýrir þetta ástand álit á ábyrgðum ríkissjóðs og veldur okkur þar margvíslegum erfiðleikum í samningagerðum.

Þegar því um það er að ræða að taka lán erlendis til kaupa á framleiðslutækjum, er langsamlega æskilegast að taka slík lán á grundvelli milliríkjaviðskipta, eins og oft hefur verið gert, en þær leiðir hafa einmitt ekki staðið opnar á síðari árum vegna ástandsins í efnahagsmálum hjá þjóðinni. Í sambandi við kaupin á smærri togurunum var einmitt hafður sá háttur á að semja um heildarlán við ákveðið stórveldi, bæði til langs tíma og með ágætum vaxtakjörum. Hér gerir vinstri stj. hins vegar þau ófyrirgefanlegu mistök að afhenda skilyrðislaust viðskiptaaðila, sem tryggt hafði sér stórar fjárfúlgur af viðskiptunum, að semja um þau verk og gæta þar jafnt hagsmuna sinna eða réttara sagt betur hagsmuna sinna en kaupendanna. Væri fróðlegt, ef hv. 4. þm. Austf., sem fór með framkvæmd þessara mála, vildi upplýsa Alþingi um það, hve miklum upphæðum sá skattur nemur, sem vinstri stjórnin lagði þar með að óþörfu á þennan þátt uppbyggingarinnar í landinu, en ég veit, að það nemur mörgum milljónum. Um önnur mistök í sambandi við þær framkvæmdir skal ekki rætt hér, nema sérstakt tilefni gefist til. Það er annar kapítuli og önnur saga.

Þau atriði, sem ég hef hér rætt, snerta samskipti milli Íslands og annarra þjóða, og verður að fara eftir hætti, sem almennt gildir um slík viðskipti, ef þau eiga ekki að hafa veruleg áhrif á efnahagsmál okkar til hins lakara. Er frv. því, sem hér er til umræðu, ætlað að bæta úr þessum ágöllum og mun áreiðanlega gera það til margvíslegra hagsbóta fyrir þjóðina í heild.

Önnur ákvæði frv., sem gagnrýnd hafa verið, snerta okkar innanlandsviðskipti. Um þau atriði ráðum við sjálfir meira, þar sem við þurfum þar ekki að taka tillit til þeirra viðskiptareglna, sem almennt eru viðurkenndar meðal menningarþjóða.

Skal ég þá fyrst ræða nokkuð það ákvæði í 23. gr., sem kveður svo á um, að eigi skuli kaup, sem greitt er og samið um, fylgja kaupgjaldsvísitölu, svo sem verið hefur. (Forseti: Það var ætlunin að fresta fundi til kl. 5, og ef hv. ræðumaður á talsvert eftir ólokið, þá vil ég biðja hann að gera hlé á ræðu sinni. ) — [Fundarhlé. ]

Herra forseti. Þegar hæstv. forseti gerði hlé á fundinum áðan, hafði ég lýst nokkuð þeim áhrifum, sem þetta frv., ef að lögum verður, hefur á viðskipti Íslendinga við aðrar þjóðir, og skal ég nú snúa mér að þeim greinum frv., sem snerta viðskipti okkar Íslendinga hvers við annan. Skal ég þá fyrst ræða nokkuð það ákvæði í 23. gr., sem kveður svo á um, að eigi skuli kaup, sem greitt er, fylgja kaupgjaldsvísitölu, svo sem verið hefur. Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt þetta ákvæði harðlega og haldið því fram, að hér sé verið með þessu að brjóta niður þann eina varnarmúr, sem launastéttir landsins hafi gegn árásum á lífskjör þeirra.

Ef það hefði verið ófrávíkjanleg regla, frá því að þetta kerfi var lögtekið, að láta kjör launþega ávallt takmarkast við vísitöluna og því mætti ekki raska, mætti með nokkrum rétti halda því fram, að hér væri verið að brjóta niður þennan múr, sem með þessu hefði verið byggður upp sem virki fyrir launþega. En það er langt frá því, að þessari reglu hafi verið fylgt. Í sérhverri baráttu um kjarabætur hefur einmitt ágreiningurinn staðið um hitt, hversu mikið skuli hækka grunnkaup í landinu, án þess þó að raska vísitölukerfinu. Og þegar svo er komið, er óhjákvæmilegt og sjálfsagt að afnema vísitölukerfið og hætta kapphlaupi um kaup og dýrtíð á þann hátt, sem verið hefur í landinu. Ef allur rekstur á þessu landi á ekki að vera áhætturekstur, sem háður er alls konar sveiflum, er nauðsynlegt að vita fyrir fram um gjaldaliði, sem standa að mestu óbreyttir einhvern ákveðinn tíma. En það veit atvinnurekandi ekki, ef hann á á hættu, að kaupgjaldið sé síbreytilegt frá mánuði til mánaðar. Allri þjóðinni er því nauðsynlegt, að skapaður sé traustur grundvöllur undir rekstur framleiðslunnar, sem sé ekki háður sífelldum sveiflum, sem raska skyndilega og öllum að óvörum þeim reikningi um afkomu, sem hverjum atvinnurekanda er nauðsynlegur.

Sé ekki tryggður rekstrargrundvöllur með óbreyttu kaupgjaldi um ákveðinn tíma, verða atvinnurekendur að tryggja sig gegn slíkum sveiflum með því að safna sjóðum til að mæta þeim, en það yrði ekki gert nema lækka laun vinnuþiggjendanna og það langt fram yfir það, sem annars er nauðsynlegt.

Þetta ákvæði er því til að tryggja heildarlaunatekjur vinnustéttanna í landinu, en ekki hið gagnstæða.

Annað atriði, sem mjög er gagnrýnt af stjórnarandstöðunni, er ákvæði 31.–33. gr. um vaxtahækkun. Þessi ákvæði þykja nauðsynleg af tvennum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess, að með þessu eru sparifjáreigendum tryggðar nokkrar bætur fyrir þá rýrnun, sem verður á íslenzkum gjaldeyri, eftir að lögin hafa náð gildi. En innlánsvextir verða hækkaðir að sama skapi, og án þess að hækka hliðstætt útlánsvexti væri ekki unnt að bæta sparifjáreigendum upp þetta tjón. En það virðist ekki umdeilt, að þess gerist mikil þörf, að sparifé landsmanna fari árlega vaxandi, en ekki þverrandi. Í öðru lagi eiga þessi ákvæði að draga úr fjárfestingu, sem færir ekki þjóðinni eða þeim, sem í hana ráðast, skyndilega endurgreiðslu á því fé, sem þannig er fest. En það er eitt af meginatriðunum til þess að ráða bót á efnahagsörðugleikunum að hamla gegn fjárfestingu, sem gefur ekki þjóðinni eða þjóðarbúinu eðlilega fljótt og eðlilega stóran arð, eins og hæstv. viðskmrh. tók greinilega fram í ræðu sinni hér áðan. Skal nokkuð athugað hér, hvaða áhrif þetta hefur á verð innflutningsins í landinu frá því ástandi, sem nú er í þessum málum, því að einmitt það er veigamikið atriði í baráttunni við dýrtíðina í landinu eða þann þátt hennar, sem háður er verðlagi innflutningsvaranna.

Nú er sú regla gildandi, að vilji innflytjandi flytja inn vörur, verður hann að afla sér yfirfærsluleyfis hjá banka. Við móttöku þess verður hann að greiða inn allt að því alla kaupupphæð vörunnar. Þessi upphæð er síðan geymd í bankanum á reikningi viðskiptamanns án vaxtatekna honum til handa allan þann tíma, þangað til varan er til landsins komin og tilbúin til afhendingar. Ef innflytjandi brýtur ekki nein lög eða reglur, sem gilda um innflutning, getur þessi tími orðið allt að heilu ári, allt eftir því, hversu langan tíma það tekur að fá vöruna afhenta og flutta til landsins. Hafi innflytjandi hins vegar tekið á sig þá áhættu að sniðganga lög og reglur og flytja vöruna inn án allra leyfa í trausti þess að hafa fengið þau öll, þegar varan er til landsins komin, þá fær hann verð vörunnar þó ekki yfirfært fyrr en eftir tvo mánuði, nema hann greiði inn til bankanna tvöfalt andvirði hennar, sem þá liggur þar vaxtalaust allan þennan tíma.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að þótt vextir verði hækkaðir, svo sem ákveðið er, mun vara, sem inn er flutt, ekkí hækka í verði fyrir vaxtahækkunina og hún því ekki verða meiri byrði fyrir innflytjendur, svo fremi að sú regla verði afnumin að falla frá kröfu um geymslufé, en það er að sjálfsögðu krafa, að svo verði gert, enda þá fallin ástæða fyrir því að viðhalda reglunni, ef frv. þetta yrði lögfest.

Öll önnur atriði í frv. eru mál, sem ræða má við hinar ýmsu stéttir í landinu, og þegar reynslan hefur sýnt, hvar skórinn kreppir að, er eðlilegt að gera ráðstafanir til að jafna þau met á milli stéttanna, og gefst ávallt tími til þess að gera þar leiðréttingar í framkvæmd laganna.

Hv. 1. þm. Austf. hefur f.h. Framsfl. haldið uppi harðri gagnrýni á þetta frv., eins og raunverulega öll mál, sem núv. hæstv. ríkisstjórn ber fram. Og höfuðástæðan fyrir því, að allt gengur nú í öfuga átt í þjóðmálunum að dómi þessa hv. þm. og allra annarra hv. þm. Framsfl., er sú, að meiri hl. þjóðarinnar og Alþingis hefur breytt stjórnarskrá landsins og kjördæmaskipun þeirri, er áður var í gildi. Og þetta eru ekki ný rök. Allt síðan ég fyrst kom á þing sumarið 1942 hef ég sí og æ heyrt þennan sama tón. Alla tíð siðan hefur Framsfl. og þm. hans haldið því fram, að öll eftirfarandi atriði séu kjördæmabreytingunni að kenna: Stjórnarkreppan haustið 1942, utanþingsstjórnin 1942–1944, stofnun lýðveldis 1944 undir utanþingsstjórn, aukin áhrif kommúnista á stjórnarfar landsins, ósamkomulag um utanríkismál og varnir landsins, — allt, sem aflaga hefur farið í efnahagsmálum þjóðarinnar fyrr og síðar, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Og allt þetta skal vara og versna frá ári til árs, ef kjördæmaskipuninni verður ekki breytt á ný í gamla horfið.

Maður undrast það, að menn, sem bæði hafa haft djúptæk áhrif á landsmál nærri hálfa öld og ætla sér það enn um langan aldur, skuli ekki skilja það, að hverjum vanda ber að mæta með hliðsjón af því, sem er, en ekki sem var. Slíkir menn eru ekki lengur lifandi baráttumenn í landsmálunum. Þá hefur dagað uppi eins og tröllin að fornu. Þeir kunna að vera skemmtilegir hraundrangar, skrýtnir að formi og línum í landi, sem skipar sér í fylkingu með framförum menningar og lifandi hugsjónar. En þeir verða aldrei forustumenn framsækinna þjóða, nema þeir þokist meir og meir frá slíkum fordómum að halda, að réttlát breyting á stjórnskipunarlögum sé einhver landsvoði.

Eitt ágætasta skáld þjóðarinnar segir í einu litlu ljóði:

„Að deyða sjálfan sig,

er synd mót lífsins herra,

en að lifa sjálfan sig

er sjöfalt verra.“

Hv. 1. þm. Austf. gengur nú á móti þeim örlögum sinum að lifa sjálfan sig. Árum saman hélt hann uppi harðri ádeilu á alla þá óhamingju, sem kommúnisminn mundi leiða yfir þessa þjóð, ef forustumönnum hans væri gefið tækifæri til þess að auka áhrif sín og völd í þingi og stjórn og á atvinnulíf þjóðarinnar. Vorið 1956 snýr hann við blaðinu. Þá er hamingja Íslands allt í einu undir því komin, að þessir menn, sem hv. 1. þm. Austf. varði mörgum stundum, mörgum dögum og mörgum árum til að vara þjóðina við, kæmust til valda sem fyrst á Íslandi og hefðu þar sem mest ítök og áhrif.

Stjórnmálaforingi, sem vinnur það til að ómerkja öll sín mörgu orð, sem hann hefur þannig sagt þjóð sinni um þessa hættu, vinnur það fyrir völd ein, hann hefur vissulega lifað sjálfan sig sem þjóðmálaleiðtogi. Honum er hentast að skilja örlög sín og láta aðra taka við forustu í baráttu fyrir málum, sem Íslandi er nauðsynlegt að nái fram að ganga.

Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) sagði við 1. umr. frv., að útvegurinn þyrfti enga sérstaka aðstoð frá því, sem honum hefði verið úthlutað í tíð vinstri stjórnarinnar. Ef útgerðarmenn gætu ekki starfrækt togarana undir því efnahagskerfi, þá skyldu þeir bara afhenda tækin stéttarfélögunum, þau mundu ekki verða í neinum vandræðum með að reka þau sér og þjóðinni til hagsbóta. Þetta voru hans óbreyttu orð hér við 1. umr. Hér hefur nú verið lagt upp tveimur togurum, sem almenningur á Austurlandi hefur rekið árum saman með mikilli samúð og mikilli aðstoð frá ríkissjóði. En þetta hefur ekki dugað. Væri ekki rétt, að hv. 3. þm. Reykv. kæmi því nú í verk, að stéttarfélögin, sem hann ræður svo mjög yfir og trúir svo mjög á, fengju nú tækifæri til þess að sanna ummæli hans og taka þegar við þessum flota til útgerðar? Mætti þá svo fara, að augu hv. þm. opnuðust nokkuð fyrir því, sem gera þarf til þess að tryggja efnahagsafkomu útgerðarinnar, ef hann þá vildi sjá og hafa það, sem sannara reynist.

Íslenzka þjóðin þarf ekki í dag að halda á áróðursmönnum, sem fyrst og fremst bera fyrir brjósti hagsmuni annarra þjóða samfara pólitískum flokkshagsmunum, eða þeim, sem skapa vilja margvisleg sérréttindi fyrir sig og sína flokksmenn, svo sem ljóst er hjá stjórnarandstöðunni. Þjóðinni er meiri nauðsyn á mönnum, sem þora að segja þjóðinni satt um efnahagsástandið, þora að leggja fram till. til úrbóta og þora að berjast fyrir sama frelsi fyrir alla þegna þjóðfélagsins, og að því miðar ákvæði þess frv., sem hér er til umræðu.

Á meðan þjóðin hafði um aldir yfir sér erlenda þjóð, er réð í .einu og öllu lífskjörum hennar og gerði þau jafnan kröpp, fylkti hún sér saman um að brjóta af sér þá hlekki, og þetta tókst að lokum, og hafa lífskjör landsmanna farið síbatnandi siðan tókst að brjóta hlekkina og auka frelsið. Það má því ekki ske, að þjóðin smíði sér nú sjálf hlekki, sem hefti fjör hennar og framtak. Hún verður að standa saman um það að koma efnahagsmálum sínum á traustan grundvöll, bægja frá skuldasöfnun út á við, bægja frá gjaldeyrishungri og atvinnuleysi, en hefja sókn til umbóta á öllum sviðum. En það verður því aðeins gert, að hver og einn taki á sig þær skyldur, sem útheimtast til þess að tryggja öruggan gjaldmiðil og treysta álít þjóðarinnar út á við engu síður en inn á við. Þeir menn, hvar í flokki sem þeir standa, sem að því vilja vinna, eru menn hins nýja Íslands, þess lands, sem neitar að hverfa á ný til örbirgðar, en stefnir með festu og þrótti að síbatnandi afkomu. Þeir menn, sem hafa þá skoðun, að rétt sé að berjast fyrir slíku máli, fylgja því frv. og hjálpa til þess, að það nái tilgangi sínum. Hinir greiða atkv. gegn því.

Ég hlustaði hér á hina rökstuddu dagskrá, sem frsm. 1. minni hl., 1. þm. Norðurl. v. (SkG), boðaði í sambandi við afgreiðslu þessa frv., þar sem lagt er til, að öllum umbótum í efnahagsmálum verði frestað um sinn, en fulltrúar allra flokka verði að komast að samkomulagi um það, hvað gera skuli til úrbóta, og leggja þessar till. fyrir þing innan þriggja vikna. Það er sýnilegt, að ef þessi dagskrá yrði samþ., þá mundu úrbætur allar dragast um óákveðinn tíma og líklega ekki minna en tvo mánuði minnst, þó að samkomulag yrði eftir þrjár vikur að einhverju leyti um þær till. En það mundi verða ómetanlegt tjón fyrir þjóðina, ef slíkur dráttur ætti að verða á afgreiðslu málsins. Þetta mundi því gera það miklu erfiðara að koma á umbótum. En hitt væri þó enn skaðlegra, að þessi meðferð málsins yrði þá fyrst og fremst til þess að gefa þeim flokkum, sem sýnilega hafa hvorki löngun né úrræði til þess að bæta úr þessum málum, aðstöðu til þess að lauma inn í till. til úrbóta afbrigðum, sem aðeins yrðu til þess að tryggja pólitíska aðstöðu stjórnarandstöðunnar, flokkanna, sem nú finna álit þjóðarinnar snúast gegn sér vegna þess úrræðaleysis, sem þeir hafa haft um lausn þessara vandamála, og því á ekki að samþ. þá dagskrá, sem hv. þm. hefur boðað.