12.02.1960
Neðri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (2014)

48. mál, efnahagsmál

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Þegar rætt er um frv. það um efnahagsmál, sem hér er til umr., er rétt að gera sér grein fyrir aðdraganda þess og undirbúningi, en hann er lengri en þinghléið eitt. Það sjá að vísu allir, að ráðstafanir þær, sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa ákveðið að gera í efnahagsmálum, eru í algeru ósamræmi við kosningayfirlýsingar þeirra s.l, haust. Hins vegar eru þær í fullu samræmi við yfirlýsingar Sjálfstfl. í desember 1958, en þeim var af skiljanlegum ástæðum ekki flikað fyrir kosningar.

Þegar þessar till. í efnahagsmálum eru komnar fram, verður líka að fullu ljóst hlutverk ríkisstj. Alþfl. á s.l. ári og þáttur Alþfl.-forustunnar í undirbúningi þeirra.

Hinn 17. des. 1958 birti Morgunblaðið flokksstjórnarsamþykkt Sjálfstfl., þar sem gerð var grein fyrir stefnu Sjálfstfl. í efnahagsmálum um næstu framtíð. Þar var því lýst yfir, að fyrsta skrefið í þessari áætlun væri lækkun á kaupi launþega og annað skrefið væri svo stórfelld gengislækkun, að allir útflutningsatvinnuvegir yrðu reknir með gróða án uppbóta. Og á landsfundi Sjálfstfl. sagði hæstv. núv. forsrh., með leyfi hæstv. forseta, þegar hann ræddi um gengislækkun:

„Ef hins vegar sigla í kjölfarið samsvarandi kauphækkanir og hækkun verðlags innlendrar framleiðsluvöru, rynni gengislækkunin út í sandinn, og er þá verr farið en heima setið:

Stefna Sjálfstfl. var þannig greinilega mörkuð haustið 1958. Gengislækkun og kaupbinding var það, sem koma skyldi. Þetta var stefna Sjálfstfl. haustið 1958, og við fall vinstri stjórnarinnar eygði Sjálfstfl. leið til þess að koma henni í framkvæmd. Og þessari stefnu Sjálfstfl. hefur verið skipulega framfylgt, síðan Alþfl.-stjórn íhaldsins tók við völdum á Þorláksmessu 1958. Sjálfstfl, stóð þá að því að styðja til valda einlita stjórn Alþfl., sem skyldi framkvæma fyrsta skrefið í þeirri áætlun stórgróðaliðsins á Íslandi að ná til sín stærri hluta þjóðarteknanna en tekizt hafði til þess tíma, — stjórn, sem skyldi hafa það hlutverk á hendi að lækka kaup almennings niður í það, sem hæfilegt þætti að binda það i, þegar gengislækkunin yrði framkvæmd. Og ríkisstjórn Alþfl. lét það verða sitt fyrsta verk að lækka laun launþega um sem nam 10 vísitölustigum. Kaup launþega var lækkað um 600–800 kr. á mánuði, og þær fjárhæðir voru fluttar óskertar í vasa atvinnurekenda, sem lögðu ekkert af mörkum. Alþb: hélt því þá þegar fram, að þessi kauplækkun væri aðeins fyrsta skrefið í átt að framkvæmd á stefnu Sjálfstfl. En því var harðlega mótmælt af forustumönnum Alþfl., að þessi ráðstöfun stæði í nokkru sambandi við stefnuskrá Sjálfstfl., Alþfl. væri að framfylgja sinni eigin stefnu, hann væri að stöðva dýrtíðina og binda endi á verðbólguna. Ef launþegar tækju þessum kauplækkunum vel, væri hag þeirra borgið, því að Alþfl. mundi standa gegn öllum verðhækkunum og forða almenningi frá frekari kjaraskerðingu. Alþb. varaði alveg sérstaklega við þessum áróðrí. Alþb. hélt því fram, að Alþfl. setti á svið sýndarbaráttu við dýrtíðina til þess eins að hljóta í þeim kosningum, sem í vændum voru, fylgi, sem dygði til þess að fá Sjálfstfl. og Alþfl. meirihlutavald á Alþingi, og þar skyldu síðan stigin næstu skrefin, gengislækkun og kaupbinding.

En Alþfl.-menn voru ekki alveg á þessu máli, að viðurkenna samstöðu sína með Sjálfstfl, eða hið rétta og eina hlutverk ríkisstjórnarinnar. Þeir settu á svið kosningabaráttu við Sjálfstfl., svo skoplegt sem það sýnist í dag. Hagur launþega um alla framtíð átti að ráðast algerlega af því, hvort þeir kysu Alþfl. eða Sjálfstfl. Alþb. varaði launþega alvarlega við þessum skollaleik, sem nú er svo augljós. Við frambjóðendur Alþb. héldum því fram, að Alþfl. væri að misnota sér til framdráttar þann einlæga vilja alþýðunnar að stöðva verðbólguna, alveg á sama hátt og hann misnotaði fyrir kosningar 1956 þann almenna vilja launþega að standa saman í einu kosningabandalagi gegn íhaldinu. Þá setti Alþfl. á svið ásamt Framsfl. kosningabandalag, sem þessir flokkar kölluðu Umbótabandalag og átti að vera vörn og skjól alþýðunnar í landinu um alla framtíð.

Þessir flokkar áttu þá að vera orðnir einn flokkur. Þetta bandalag var kosningablekking og leystist upp á næsta kjörtímabili, eins og efni stóðu til.

Sama er að segja um stefnu ríkisstj. Alþfl. árið 1959. Hún miðaðist aldrei við annað en koma fram fyrsta atriðinu úr stefnuskrá Sjálfstfl. um kauplækkun. Á þann hátt að fá launþega til að trúa því, að með því að lögbjóða kauplækkun væri stjórnin að vinna bug á verðbólgunni, tókst vorið 1959 að skerða laun almennings án verulegrar mótspyrnu. Vöruverð var greitt niður fram yfir kosningar og látið líta svo út, að ríkisstj. leyfði engar verðhækkanir. Fyrir fram undirbúnar aðgerðir voru vandlega duldar fram yfir kosningar. Alþb. varaði við þessari blekkingarstefnu Alþfl. og sýndi fram á, að kauplækkunarráðstafanir hans vorið 1959 væru ekki til hagsbóta fyrir launþega í nútíð og framtíð, heldur væru þær aðeins fyrsta skrefið í skipulagðri samstöðu Alþfl. og Sjálfstfl. um skerðingu lífskjara íslenzkrar alþýðu og áformum um yfirdrottnun auðstéttarinnar á Íslandi. Kosningabarátta milli þessara flokka væri því hræsnin einber, því að Alþfl.-forustan væri staðráðin í að mynda að kosningum loknum ríkisstjórn með Sjálfstfl., ef Alþfl. fengi nógu mikið fylgi í kosningunum til þess að geta með sínu þingliði bætt við því, sem á vantaði hjá íhaldinu, til þess að þingmeirihluti væri fyrir hendi. Síðan mundi þessi væntanlegi þingmeirihluti sjá um framkvæmd á næsta atriði í stefnuskrá Sjálfstfl. frá í desember 1958, gengislækkun og kaupbindingu. Þessum staðhæfingum mótmælti Alþfl.-forustan þá eindregið og hélt því fram, að stefna ríkisstj. væri sérstök stefna Alþfl. og stæði í engu sambandi við fyrirætlanir Sjálfstfl. frá flokksstjórnarfundinum. Hið eina, sem launþegar þyrftu að gera, væri að tryggja áhrif Alþfl., þá væri tryggt stöðugt og fast verðlag, enginn vanskilavíxill væri til og frekari kjaraskerðingar ekki þörf, eða eins og hv. 10. þm. Reykv. sagði: „óbreytt verðlag, óbreytt ástand“.

Það reyndist því miður svo, að þessi áróður Alþfl. dugði vel. Það kom í ljós, að launþegar virtust hafa í of ríkum mæli trúað því, að þeir væru nú búnir að leggja fram sinn skerf í efnahagsmálum, kjör þeirra væru nú tryggð, ef Alþfl. fengi ráðið. Þessi áróður Alþfl. um stöðvun verðbólgunnar og fast verðlag dugði þannig til þess, sem til var ætlazt, þ.e. að þinglið Alþfl. varð nógu fjölmennt til þess að það tryggði stefnu Sjálfstfl. meiri hluta á Alþingi, varð sá liðsauki Sjálfstfl., sem Morgunblaðið hafði vænzt. Tilganginum var náð, og þá var syndarríkisstj. Alþfl. lögð niður og hinir raunverulegu stjórnendur komu fram í dagsljósið, og tóku opinberlega við stjórninni. Nú var ekki þörf á neinum feluleik meir, kosningarnar voru afstaðnar.

Alþfl., sem hafði þótzt bera hag launþega fyrir brjósti fyrir kosningar, þóttist hafa stöðvað verðbólguna og gaf fögur loforð um baráttu gegn öllum verðhækkunum, gekk með rýtinginn í erminni í allt sumar. Nú er hann hafinn á loft. Nú á að framkvæma annað atriðið í stefnuskrá Sjálfstfl. Nú hafa þessir flokkar lagt fram hér á Alþingi frv, um gengislækkun og afnám vísitöluuppbótar á kaup. Nú er komið fram það frv., sem Alþb. varaði kjósendur við í sumar og Alþfl. þá afneitaði.

Ég hef taliðástæðu til að rekja sérstaklega, hversu illa er fenginn sá liðsauki, sem Sjálfstfl. styðst við hér á hv. Alþ., og ég fullyrði, að þessi liðsauki hefði alls ekki dugað til meirihlutavalds, ef Alþfl. hefði gengið til kosninga með þetta frv. sem opinbera stefnuskrá. Sama má segja um þingstyrk Sjálfstfl. Kosningastefnuskrá Sjálfstfl. var engu siður en Alþfl. í hrópandi mótsögn við þetta frv., og nægir í því sambandi að mínna á kjörorðin „Stöðvun verðbólgunnar, uppbygging atvinnuveganna, stéttafriður, aukin framleiðsla og bætt lífskjör“, þótt frv. sé hins vegar, eins og ég hef áður rakið, í algeru samræmi við flokksstjórnarsamþykkt Sjálfstfl., sem birtist í Morgunblaðinu 17. des. 1958, en henni var ekki flíkað í kosningabaráttunni. Má því öllum vera ljóst, að þótt þetta frv., með þeirri stórfelldu lífskjaraskerðingu, sem það hefur í för með sér hjá alþýðu manna, verði samþ. af meiri hluta Alþingis, þá nýtur það engan veginn stuðnings meiri hl. þjóðarinnar og er þá knúið fram gegn vilja meiri hluta launþega.

Ýmsir í röðum verkalýðsins voru vegna stefnu vinstri stjórnarinnar farnir að gera sér vonir um, að þeirri reglu yrði haldið af ríkisstjórnum, sem síðar tækju við, að hafa samráð við verkalýðsfélögin um mikilvægar ráðstafanir í efnahagsmálum. Ríkisstj. Alþfl. lét sig þó hafa það að afnema þessa hefð, sem var að skapast og hefði verið verkalýðsfélögunum mikilvæg og þjóðinni nauðsynleg. Ráðstafanir Alþfl. í fyrravor voru gerðar algerlega án samráðs við verkalýðsfélögin, og sama er upp á teningnum, þegar þetta frv. er flutt, og svo mikil er fyrirlitning ríkisstj. á verkalýðsfélögunum, að hæstv. fjmrh. fullyrðir í útvarpi, að það hafi svo sem ekki vantað, að samráð væri haft við verkalýðsfélögin, vitandi það manna bezt, að efnahagsmálatillögurnar voru þá fyrst lesnar upp fyrir fulltrúum verkalýðsfélaganna, þegar þær voru fullbúnar og frágengnar, en það er talin kappnóg virðing við verkalýðsfélögin, þegar kosningum er lokið. Það er naumast þörf að minnast á það, að í þessu atriði sem öðrum hafði Alþfl. áður aðra stefnu, en þeirri stefnu hefur nú verið kastað ásamt öðru, til þess að hann geti talizt samkvæmishæfur hjá íhaldinu.

Hinn 3. nóv. 1949 sagði þáv. form. flokksins, með leyfi hæstv. forseta: „Í þriðja lagi tók ég fram, að Alþfl. teldi ófrávíkjanlegt í samræmi við stefnu sína og uppbyggingu, að samráð yrði haft milli hans og launastéttanna um úrræði, sem gripið væri til, og þau einu úrræði gæti Alþfl. valið, sem verkalýðshreyfingin og launastéttirnar yfirleitt gætu sætt sig við og vildu una.“

Já, nú er stefna Alþfl. önnur og uppbyggingin sjálfsagt líka. A.m.k. varðar núv. form. flokksins lítt um það, hvort launastéttirnar yfirleitt geti sætt sig við ráðstafanir hans í efnahagsmálum eða vilji við þær una.

Nú þarf ekki samráð við verkalýðinn á Íslandi um ráðstafanir í efnahagsmálum. Nú er rýtingurinn á lofti. Nú eru kosningaloforðin um festingu á verðlagi og stöðvun verðbólgu lögð til hliðar. Þau hafa náð þeim elna tilgangi, sem þeim var ætlað, og í staðinn er með frv. þessu stefnt að stórkostlegri hækkun á verðlagi en dæmi eru til áður, meiri hækkun en fólk almennt fær trúað.

En stöðvunarstefna Alþfl. og Sjálfstfl. er þó ekki algerlega lögð á hilluna, en hún er þrengd mjög frá því fyrir kosningar. Henni er nú beint að einu einasta marki, kaupstöðvun. Hið einasta eina, sem má ekki hækka, er kaup almennings. Gagnvart því er stöðvunarstefna hinna ábyrgu og kjörkuðu í fullu gildi. Alþfl. staðfestir dirfskuna og áræðið og kjarkinn frá í vor með því að ráðast enn þar á garðinn, sem hann er lægstur.

Vísitöluuppbót á kaup á að afnema, og kaup verkafólks skal bundið við það lágmark, sem ríkisstj. Alþfl. lækkaði það í vor. Þar með hefur stjórnin ákveðið þau lífskjör, sem almenningur skal búa við. En sýnt er, að útgjöld þeirrar meðalfjölskyldu, sem reiknað er með í vísitölugrundvellinum, munu hækka um nálega 13500 kr. á ári. Á mótí þeirri hækkun koma fjölskyldubætur og niðurfelling tekjuskatts, samtals um 6800 kr., og hækka því útgjöld fjölskyldunnar um nálega 6700 kr. á ári eða úr 59300 kr. í 66 þús. kr. á ári.

Laun verkamanns fyrir 8 stunda vinnu eru nú um 48 þús. kr. á ári, og vantar því um 18 þús. kr., til þess að endarnir nái saman, ef ekki kæmi til eftirvinna, en til viðbótar dagvinnunni þarf verkamaðurinn 600 eftirvinnutíma á ári, til þess að jöfnuður fáist eftir gengislækkunina, eða um 230 eftirvinnustundum fleiri á ári en áður.

Enn verri eru horfurnar, ef fjölskyldan hefur staðið í húsakaupum eða byggingarframkvæmdum, því að í þessu dæmi er ekki gert ráð fyrir nema 11400 kr. á ári til húsnæðis eftir gengislækkunina, en sá liður verður annars miklum mun hærri. Svo sem sýnt hefur verið fram á í umræðum hér á Alþingi, mun samþykkt þessa frv. valda samdrætti í atvinnulífinu, en hverfi eftirvinnan, þá verða kjör almennings komin niður á hungurstig, en það virðist ekki valda stjórnarherrunum miklum áhyggjum.

Hæstv. menntmrh. lýsti því hér áðan í fögrum orðum, að ríkisstj. ætlaði sér að forða almenningi frá stórkostlegri skömmtun og víðtækum höftum, sem hefðu þann tilgang að minnka innflutninginn, en á því að minnka innflutninginn taldi hann hina mestu nauðsyn, og hann á að minnka, en ekki með skömmtunum eða höftum. Hvernig hugsar ríkisstj. sér að skera niður neyzluna, en það telur hún höfuðatriðið, enn meira atriði en að auka útflutninginn? Frv. um efnahagsmál er svarið við því. Ríkisstj. ætlar ekki að beita skömmtunarseðlum. Nei, hún ætlar að skerða svo mjög kaupmátt launa, að hin tóma pyngju komi í stað skömmtunarseðlanna. Það á ekki að nota skömmtunarseðla, þannig að hver maður fái sinn skammt af innflutningnum. Nei, þeir, sem hafa fjárráðin og fá þau aukin með ráðstöfunum ríkisstj., skulu fá það, sem þeir vilja, en hin tóma pyngja hinna skal sjá um, að innflutninginn verði hægt að skera niður.

Skömmtun með skömmtunarseðlum er slæm, en skömmtun hinnar tómu pyngju er þó verri. En með hinni stórfelldu kjaraskerðingu fær ríkisstj. óskadraum sinn uppfylltan, þann óskadraum, sem birtist í eftirfarandi setningu eins hv. þm. Sjálfstfl. í blaði hans í sumar og mér er sérlega minnisstæð, en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fyrsta skrefið er að koma á jafnvægi í búskaparháttum einstaklinga.“ Í umræðum hér að undanförnu hafa stuðningsmenn ríkisstj. stundum verið að taka það fram, að þegar talað væri um það, að þjóðin hefði lifað um efni fram, þá ættu þeir ekki við einstaklingana, en í þessari setningu var ekki verið að fela það.

Í frv. ríkisstj. er rækilega gengið þannig frá hnútunum, að hækkanirnar skuli einungis eiga við vöruverð, en ekki laun. En afnám vísitöluuppbóta skal hins vegar eiga einungis við um laun. Það eru til aðrar vísitöluuppbætur en á laun og þær eiga að haldast. Helmingur af húsnæðismálasjóðslánum er bundinn við vísitölu, og afborganir skulu hækka með hækkaðri vísitölu, og þær vísitöluuppbætur eiga að haldast. Þegar allt vöruverð hækkar og vísitöluuppbætur eru skornar af launum, þá skulu launþegar, sem þá hafa enn minni afgang frá brýnustu lífsnauðsynjum, greiða vísitöluuppbætur á afborganir húsnæðismálasjóðslána vegna hækkaðs vöruverðs til launþega.

Af fáu hafa stjórnarflokkarnir gumað meira á undanförnum árum en umhyggju fyrir æskunni. Fyrir fáum mánuðum svall þessi elska á ungu fólki svo í brjósti forustumanna stjórnarflokkanna, að henni varð að veita útrás í sérstökum ástarbréfum til ungs fólks. Einkum beindist þessi fyrirhöfn að þeim, sem náð höfðu 21 árs aldri. Þeim var bréflega skýrt frá því, að þeir flokkar, sem nú fara með völd, hefðu hvor fyrir sig á engu meiri áhuga en því, að ríkisvaldið beinlínis legði sig fram um að auðvelda ungu fólki að eignast þak yfir höfuðið og stofna heimili.

Eftir að þessu unga fólki var svo gefinn kostur á að kvitta fyrir fyrirheitin með einum litlum krossi á blað, hefur ástin birzt í verki, í því frv., sem hér er til umræðu. Og sýnist nú sem ást þessi á ungu fólki og húsnæðisleysingjunum hafi reynzt hverfulli en sumir ætluðu að verða mundi og hafi jafnvel snúizt upp í ást og umhyggju fyrir allt öðrum aðilum, sem enga hagsmuni eiga sameiginlega með þeim, sem þarfnast mest húsnæðis og minnsta hafa getuna til að eignast það.

Áður en unga fólkinu hefur svo mikið sem gefizt tími til að týna bréfunum frá í haust, birta ríkisstjórnarflokkarnir frv. um efnahagsmál, sem setur ungu fólki og launþegum öllum stólinn fyrir dyrnar um húsbyggingar.

Byggingarefni skal hækka í verði um 40–50%, lánsfé skorið niður og vextir stórlega hækkaðir, á sama tíma og allar lífsnauðsynjar hækka auk þess stórlega í verði.

Það fólk, sem að undanförnu hefur lagt vonglatt í slíkt stórvirki að byggja íbúð, eftir að hafa reiknað út, hvern afgang það hefði af launum sínum til að standa undir vöxtum og afborgunum, og oft var einmitt bjartsýnt í áætlunum sinum í trausti þess, að heldur yrðu möguleikarnir bættir, fær nú allt í senn: stórhækkun á verði nauðsynjavöru, vísitölubindingu á kaupi, stórfellda vaxtahækkun og niðurskurð á lánsfé. Þetta fólk hefur unnið nótt með degi til að koma upp húsum sínum og hefur rækilega kynnzt því, að í því basli hefur ekki frekar en endranær gilt kjörorð stórkaupmannsins í Reykjavík. Bara hringja –svo kemur það. — En á því, sem þetta frv. boðar, hefur það ekki átt von.

En það þarf ekki mikla spámenn til að sjá, að hverju er stefnt. Hér halda þeir um stjórnvölinn, sem að því stefna, að eignir margra safnist á fárra hendur.

Og hvað um það unga fólk, sem dvelst erlendis við nám, þegar erlendur gjaldeyrir hækkar nú stórlega í verði? Við vitum, að margt af þessu fólki hefur hlotið aðalnámsstuðning sinn frá venzlafólki sínu. Nú eru lífskjör launþega með þessu frv. svo stórlega skert, að geta efnalítilla foreldra til að veita börnum sínum fjárhagsstuðning við nám verður engin eða a.m.k. margfalt minni en áður. En hver er þá afstaða ríkisvaldsins í höndum þeirra manna, sem í sumar höfðu slíka ofurást á ungu fólki? Hleypur ríkisvaldið ekki undir baggann og eykur stuðning sinn við námsfólk? Ónei, það er nú öðru nær. Ríkisstjórnarflokkarnir þykjast þó láta það fá jafnmikið og áður, því að í grg. frv. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Um íslenzka námsmenn erlendis gildir að sínu leyti svipað og um farmenn og flugmenn, að þeir hafa getað keypt erlendan gjaldeyri á sérstaklega hagstæðu gengi. Þau fríðindi munu nú að sjálfsögðu falla niður. Hefur verið ráð fyrir því gert í fjárlagafrv., að námsmönnum verði þetta bætt að nokkru með því, að námsstyrkirnir hækki í sama hlutfalli og verð hins erlenda gjaldeyris, þannig að styrkirnir geti haldizt óbreyttir í erlendum gjaldeyri, þrátt fyrir gengisbreytinguna.“

Styrkir til námsfólks erlendis námu á fyrra fjárlagafrv. 3 millj. og 40 þús. kr. Þá var námsgjaldeyririnn greiddur með 30% yfirfærslugjaldi, og kostaði hver dollar þá kr. 21.22. Fyrir þessar 3 millj. og 40 þús. kr. fengust þá 143 þús. dollarar. En á hinu nýja fjárlagafrv. nema styrkirnir 4 millj. 625 þús. kr., en nú á dollarinn að kosta 38 kr. Fyrir þessar 4 millj. 625 þús. kr. fást þá 121 þús. dollarar, það er 22 þúsundum dollara minna en áður eða 836 þús. kr. minna en áætlað var á fyrra fjárlagafrv. Þetta er nú stuðningurinn við námsfólkið. (Gripið fram í.) Það munar þá sáralitlu.

Reynslan af ástarbréfum stjórnarflokkanna verður ungu fólki dýr og því sárust, sem veitt hefur þeim meirihlutavald á Alþingi. En það er fyrir miklu að læra af reynslunni, og sá, sem einsetur sér að gera ekki sömu villuna tvisvar, er á réttri leið.

Þegar Sjálfstfl. og Alþfl. hafa við samningu þessa frv. skammtað íslenzkri alþýðu lífskjör um næstu framtíð, hefur ekki þótt nóg að gert með gengislækkuninni einni saman, þótt hún sé hin mesta, sem um getur, og komi í kjölfar stórfelldrar kauplækkunar s.l. vor, heldur eru gjöld og skattar, sem áður voru látin koma í staðinn fyrir gengislækkun, látin haldast og söluskatturinn stórlega hækkaður og án efa miklu meira en frv. gerir ráð fyrir. Í frv. er reiknað með, að innheimtur söluskattur, sem skilað er til ríkisins, nemi af vörusölu og þjónustu 280 millj. kr. En hitt vita allir, að sá skattur verður raunverulega miklum mun hærri og mismunurinn rennur til verzlunarinnar. Af því hafa menn fulla reynslu. Söluskattur í smásölu verkar því að talsverðu leyti sem hækkun á álagningu og rennur til kaupmanna. Er þetta eitt lítið dæmi um, hverra hagsmuna er gætt, þegar frv. þetta er samið. Þetta virtist jafnvei Alþýðuflokksmönnum vera ljóst fyrir 10 árum, en þá sagði hæstv. núv. sjútvmrh. í umræðum á Alþingi, með leyfi hæstv. forseta:

„En hann (þ.e.a.s. almenningur) vill í fyrsta lagi ekki, að þessar byrðar séu lagðar á eins og gert er með gengislækkunarlögunum, og hann vill allra sízt, að versti skattur úr dýrtíðarlögunum sé framlengdur, því að ég fullyrði, að sá af sköttum dýrtíðarlaganna, sem almenningi er tilfinnanlegastur, er söluskatturinn, og hann kemur allra verst við, en það er einmitt hann, sem ríkisstj. gerir ráð fyrir að framlengja.“

Nú á ekki aðeins að framlengja hann, heldur stórlega hækka hann. Þarna lýsir Alþfl. yfir því, að allir skattar séu betri en söluskatturinn. En það hefur greinilega farið eins um þá kenningu og hina, sem eitt sinn gilti líka þar, að allt er betra en íhaldið. Þetta eru nú hvort tveggja orðnar úreltar kenningar í Alþfl.

Allmjög hefur komið hér til umræðu þáttur hagfræðinga ríkisstjórnarinnar í frv. þessu. Má heita ömurlegur hlutur hinna hagfræðilærðu manna, að við stétt þeirra og fræði skuli jafnan vera kenndar þær afturhaldsráðstafanir, sem gerðar eru með gengislækkunarlögum á Alþingi. Aldrei heyrist, að þeir hafi nokkru sinni á það bent, að afla mætti tekna með öðru móti en því að seilast í létta pyngju hinna lægst launuðu. En hvar stendur það í hagfræðibókum, að gróðinn skuli jafnan friðhelgur? Og á móti hvaða hagfræðilögmáli stríðir það, að innflutnings- eða útflutningsverzlunin megi vera í höndum almennings? Hvort stríðir það fremur gegn heila eða hjarta hinna hagspöku? Eru þeir á sama stigi þekkingar í fræðum sínum og Galdra-Loftur, að hún nýtist aðeins hinu illa? Skortir þá kjarkinn að líta upp úr bókunum og horfast í augu við stritandi líf, svo að þeir megnuðu að beita þekkingunni í þágu hins góða og friðhelgi gróðans yrði rofin? Hver öfl eru það, sem trufla svo hagspekingana í særingum sínum, að þeir ná eigi tökum á því, sem duga mætti til góðs, og þeirra ráð yrðu þau, að pyngja hins snauða nyti friðhelgi, en eigi gróðinn.

Sú er nú ákvörðun ríkisstjórnarfiokkanna og hagfræðinga þeirra að taka fram fyrir hendurnar á þjóðinni í uppbyggingarstefnunni og knýja hana með lagasetningu til að draga úr framkvæmdum og framförum, svo að kaupgeta almennings skerðist þá enn að miklum mun. Í framsöguræðu hæstv. forsrh. og í grg. frv. hafa þessar ráðagerðir í rauninni verið afsakaðar með því einu að skírskota til greiðsluhalla við útlönd og greiðslubyrði landsins nú og í næstu framtíð. Þegar í næstu ræðum eftír ræðu hæstv. forsrh. og einkum þó í ræðu hv. 4. þm. Austf. (LJós) var sýnt fram á, að þær tölur, sem stjórnin vitnaði í um greiðsluhalla og greiðslubyrði, eru stórlega úr lagi færðar í grg. frv. og auk þess annarlegar ályktanir dregnar af tölunum. Þar sem hér er um að ræða atriði, sem frv. byggist í rauninni á, en samþykkt þess mundi hafa skelfilegar afleiðingar fyrir fjöldann allan af alþýðufólki í landinu, bjóst ég nú satt að segja við því, að í svarræðu hæstv. forsrh. yrði reynt að koma fram með einhver gagnrök um þessi atriði. Ég hef ekki setið marga fundi á hv. Alþingi, og það er e.t.v. skýringin á því, að ég undraðist svarræðu hæstv. forsrh. En hefði ég ekki m.a. fyrir áralanga aðstoð hins konunglega hirðljósmyndara Morgunbl. þekkt hæstv. forsrh., þá mundi ég hafa ætlað, að hér færi maður húsavillt og hefði ætlað að færa upp gamanleik í Iðnó. Svo einhæf var ræðan af bröndurum og svo gersneydd var hún svörum við þeim ádeilum á frv., sem mestu máli skiptu, þ.e. varðandi greiðsluhallann og áhrif hans, og ég held, að það hefði verið hollt, að sem flest af því alþýðufólki, sem ríkisstj. hefur ákveðið að skuli bera allar byrðarnar af efnahagsmálaráðstöfununum og lítur þessi mál alvarlegum augum, hefði heyrt þá ræðu. Síðan hafa margar ræður verið fluttar, og enn hafa ekki komið fram gagnrök varðandi þessi atriði, sem tekin væru gild. Hins vegar hefur það gerzt, að einn af hagfræðingum þeim, sem taldir hafa verið standa í nánustum tengslum við ríkisstj., hefur opinberlega staðfest flest af því, sem stjórnarandstaðan hefur flutt fram varðandi þessi atriði, sem frv. í raun og veru byggist á.

Ég er sannfærður um; að allur almenningur, sem þessar ráðstafanir bitna á, bíður eftir fullnægjandi svörum um þessi mál. Hann krefst veigameiri raka en enn hafa verið flutt fyrir því, að gerðar séu þær afdrifaríku aðgerðir í efnahagsmálunum, sem frv. fjallar um. Mælgin um frelsi í viðskiptum og aukið vöruval er alþýðu manna ekki sú draumsjón, að hún sætti sig við, að þetta frv. verði samþ. með þeim rökum einum, sem fram hafa komið því til stuðnings. Ég held, að almenningur sé enn á sömu skoðun og hæstv. menntmrh. var, er hann sagði eftirfarandi hér á Alþingi árið 1951, með leyfi hæstv. forseta:

„Fylgjendur hinna frjálsu viðskipta telja það aðalatriðið, að búðirnar séu fullar, þótt almenningur geti litið keypt. Það liggur við, að þeir telji velmegunina þeim mun meiri, sem meira er af vörum í búðunum, en minna hjá almenningi. Það er þessi stefna, þessi íhaldsstefna, sem hæstv. ríkisstj. er nú að leiða yfir Íslendinga.“

Ég held, að þessi orð eigi við enn í dag. Það er þessi stefna, þessi íhaldsstefna, sem hæstv. ríkisstj. er að leiða yfir Íslendinga í dag. Og ég held, að það sé enn fremur hægt að bæta við um þá flokka, sem að ríkisstjórninni standa, því, sem þessi sami hæstv. ráðh. sagði á Alþingi hinn 26. febr. 1951 um þáv. ríkisstjórnarflokka, sem felldu gengið árið 1950 og framkvæmdu viðlíka ráðstafanir og ríkisstj. ætlar sér nú, en það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þrátt fyrir allt er þó eitt gott um hæstv. ríkisstjórn. Flokkarnir, sem að henni standa, villa nú ekki lengur á sér heimildir. Undanfarin ár hefur stundum verið erfitt að sjá, hvað hver flokkur í raun og veru vildi. Nú hafa Íslendingar fengið stjórn, sem hefur hreina stefnu, hreina íhaldsstefnu.“

Átta mánuðum seinna minntist síðan þessi sami hæstv. ráðh. á það í útvarpsumræðum, að um vorið hefði hann kallað ríkisstj., sem framkvæmdi gengislækkunina, fyrstu hreinu íhaldsstjórnina, sem setið hefði á Íslandi um aldarfjórðung, en það, sem síðan hefði gerzt, eftir að gengislækkunarlögin komu til framkvæmda, hefði ekki aðeins staðfest þessi ummæli, heldur leitt í ljós, að sú gengislækkunarstjórn væri mesta afturhaldsstjórn, sem fengið hefði völd á Íslandi. Og hann sagði að lokum, að öll þau spor, sem sú ríkisstjórn hefði stigið, væru spor aftur á bak. Þessi lýsing hæstv. menntmrh. var fyllilega sannleikanum samkvæm. En sporin hræða, og ég er þess vegna fullviss, að sú gengislækkunarstjórn, sem nú situr að völdum, muni engu síður og jafnvel í enn frekara mæli reynast ekki aðeins hrein íhaldsstjórn, heldur verði hún mesta afturhaldsstjórn, sem fengið hefur völd á Íslandi, þótt með sé talin sú ríkisstj., sem felldi gengið árið 1950, og öll þau spor, sem hún stígur, verði spor aftur á bak.