12.02.1960
Neðri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (2015)

48. mál, efnahagsmál

Menntmrh. ( Gylfi Þ. Gíslason ):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til þess að leiðrétta mjög bagalega missögn í ræðu hv. þm., sem var að ljúka máli sinu. Hann fór þar rangt með tölur, sem ég efa ekki að hann hefur gert af misgáningi, þótt óþarfi hefði átt að vera, og vildi ég strax leiðrétta það, sem hann sagði um þau efni.

Hann sagði, að í fjárlagafrv, væri gert ráð fyrir því, að styrkir til íslenzkra stúdenta erlendis beinlínis lækkuðu verulega í erlendum gjaldeyri, og væri þetta í ósamræmi við það, sem sagt hefði verið í ræðum og blöðum að tilætlunin væri. Hann sagði, að í fjárl. fyrir síðasta ár væru veittar 3 millj. kr. til íslenzkra stúdenta erlendis, en í þessum fjárl., sem nú liggja fyrir, væru veittar 4.6 millj. króna, og reiknaði síðan út, að fyrir 4.6 millj. kr. fengjust svo og svo miklu færri dollarar en fyrir 3 millj. kr. Þetta dæmi var rétt reiknað. En tölurnar, sem hann lagði til grundvallar, eru rangar, eins og greinilega kemur fram, ef fjárlagafrv. er lesið. Það stóð í fjárl. síðasta árs: „Til styrktar íslenzkum námsmönnum erlendis og við Háskóla Íslands 3 millj, kr. “ Þær skiptust þannig, að 2 millj. voru til stúdenta við erlenda háskóla og 1 millj. var framlag til lánasjóðs stúdenta við Háskóla Íslands. Þær 4.6 millj. kr. , sem nú eru veittar til styrktar íslenzkum námsmönnum erlendis og við Háskóla Íslands, skiptast þannig, eins og greinilega kemur fram í textanum við frv., að 3.6 millj. eru til stúdenta erlendis og 1 millj. óbreytt framlag til lánasjóðs stúdenta við Háskóla Íslands. Styrkurinn til stúdentanna erlendis breytist því úr 2 millj. í 3.6 millj., en ekki úr 3 millj. í 4.6 millj., og hækkun úr 2 millj. í 3.6 millj. er nákvæmlega hin sama hlutfallslega og verður á því gengi, sem stúdentarnir þurfa að greiða með. Það koma til nákvæmlega jafnmargir dollarar, pund, mörk eða danskar krónur eða hvað sem er út úr 2 millj. kr. upphæðinni í fyrra og 3.6 millj. kr. upphæðinni, sem nú er gert ráð fyrir.

Það var alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að þó að hér sé gert ráð fyrir því, að íslenzkir stúdentar erlendis geti eftir sem áður fengið í námsstyrki sömu upphæð í erlendum gjaldeyri og þeir hafa haft hingað til eða höfðu á s.l. ári, þá kemur mjög til athugunar að reyna að bæta hér enn frekar um, og er það til athugunar hjá ríkisstj., hvort ekki sé unnt að hækka þessa upphæð enn frekar. Þó er þess að geta, að undanfarin ár hefur orðið mjög veruleg hækkun á styrkjum til íslenzkra stúdenta erlendis og þeirra, sem stunda nám í háskólanum hér. En eins og ég sagði áðan, það kemur sannarlega til athugunar og er til athugunar hjá ríkisstj. að hækka þessa upphæð enn umfram það, sem gert er í fjárlagafrv., sem liggur fyrir.