12.02.1960
Neðri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (2016)

48. mál, efnahagsmál

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. viðskmrh. var að upplýsa, virðist 7. landsk, þm. (GeirG) vera fullnuma í þeirri talnafræði, sem Alþb.-menn temja sér nú á hv. Alþingi.

En út af þeim orðum, sem hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj) sagði í sinni ræðu hér áðan um, að færeyskir sjómenn vildu ekki vinna fyrir okkur, þá er þetta mesti misskilningur hjá þessum hv. þm. Það voru ekki færeyskir sjómenn, sem vildu ekki koma hingað til að vinna hjá okkur, það var trúbróðir hans, Erlendur Patursson, sem tók þá afstöðu. Og í því sambandi langar mig til þess að spyrja þennan hv. þm. og skoðanabræður hans um það, hvort þeim sé kunnugt um nokkra íslenzka aðila, sem hafi haldið að þessum manni að taka þá afstöðu, sem hann tók, þegar hann kom hingað heim að semja, — ekki við þá aðila, sem hann átti að semja við, íslenzku sjómannafélögin, heldur við útgerðarmenn. Ég geri þetta að gefnu tilefni, vegna þess að málgagn þessa hv. þm. er eina málgagnið, sem hefur tekið upp vörn fyrir framkomu þessa manns.

Hér í gær var birt eða kom fram álit hv. fjhn. Þessi hv. n. var þríklofin, og þó að ég sé nú að öðru leyti sammála og samþykkur þessu frv., þá er ég ekki að öllu leyti sammála samflokksmanni mínum, hv. 6. landsk. (BK), um það, sem hann fór með, og mun koma að því siðar. En hv. 1. þm. Norðurl. v. lék sér að mjög miklum og fáránlegum blekkingum í sinni ræðu, svo að ekki sé meira sagt. Ég vissi fyrr, að framsóknarmenn gátu verið skakkeygir á sannleikann, en að þeir læsu þær staðreyndir sannleikans, sem koma fram í þessari hvítu bók ríkisstj., með lokuðum augum, það vissi ég ekki, fyrr en ég heyrði þennan hv. þm. tala. (Gripið fram í.) Hann vitnaði hér í og hafði mikið gaman af að lesa úr töflu 6 í skýrslunni um samanburð á fjölskyldubótum og útgjaldaaukningu vegna gengisbreytingar og sagði, að aukning útgjalda vegna 11% hækkunar verðlags væri fyrir eins barns fjölskyldu 6650 kr. , og svo skildi hann ekkert í því, sem á eftir fór, að fyrir tveggja barna fjölskyldu væru það 6650 kr. líka. Og hann var alveg standandi hlessa, þegar það var fyrir 3 barna fjölskyldu aðeins 6800 kr. Nú veit ég, að þessi hv. þm. er bæði sjóndapur og ellimóður eins og flokkurinn hans, en það er vísað í þessum línum niður blaðsíðuna, og þar kemur skýringin. Ég ætla að lesa þessa skýringu fyrir þennan hv. þm., og hún hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér er sýnd sú aukning, sem verður á útgjöldum fjölskyldu, sem hefur sömu útgjöld og grundvöllur vísitölu framfærslukostnaðar gerir ráð fyrir, 60500 kr. fyrir tveggja barna fjölskyldu. Útgjöld 3, 4 og 5 barna fjölskyldu eru talin hærri en þetta, sem nemur núgildandi fjölskyldubótum. Hækkun verðlags um 11% er við það miðuð, að öll hækkun vísitölunnar vegna gengisbreytingarinnar verði 13%, en niðurgreiðslur á kornvörum, kaffi og sykri lækki þetta um 2 stig.“

Til þess að útskýra þetta betur fyrir þessum ágæta þm., þegar hann fer nú að halda fundi heima í sínu kjördæmi, þá get ég lesið fyrir hann hér líka, hvað barnafjölskyldur í hans kjördæmi og á hans verðlagssvæði fá í þessar uppbætur; en þar er 1 barns fjölskylda með 2600 kr., 2 barna fjölskylda með 5200 kr. og 3 barna fjölskylda með 7800 kr. Eftir að ég hef gefið honum þessar upplýsingar, veit ég, að hann fer að skilja, hvernig þessi tafla er byggð upp

En þessi hv. þm. hafði till. fram að færa. Hann hafði till. fram að færa um það, að þessu mikilvæga máli væri vísað til n. og þessi n. ætti að vera skipuð 8 mönnum, tveimur frá hverjum flokki. Það er gamla framsóknarlýðræðið, sem þar átti að ríkja. Og hann hafði eina brtt; við frv. að gera, og sú brtt. var fólgin í því að leggja niður allá innflutningstolla á landbúnaðarbifreiðum, jeppum og þess háttar. Það var ekki að furða, þó að einn kunningi minn, sem ég mætti hér frammi, — hann var að koma ofan af þingpöllum eftir þessa ágætu ræðu, — hann færi með vísu fyrir mig, sem ég ætla að fara með fyrir þennan hv. þm., því að ég veit, að hann er gamansamur, en vísan er á þessa leið:

Þeir eltu hann á tíu hjóla trukkum, og aðra tvo þeir höfðu og til vara, en Skúli bara sat í jeppa sínum og vissi ekki, hvert hann var að fara. Frv. hæstv. ríkisstj. um efnahagsmál felur í sér stórkostlega stefnubreytingu í efnahagsmálum þjóðarinnar. „Megintilgangur ríkisstj. og stuðningsflokka hennar er sá að skapa framleiðslustörfum og viðskiptalífi landsmanna traustari, varanlegri og heilbrigðari grundvöll en atvinnuvegirnir hafa átt við að búa undanfarin ár. Með þessu telur stjórnin, að atvinnuöryggi sé bezt tryggt til frambúðar og líklegri skilyrði sköpuð fyrir aukinni þjóðarframleiðslu og þar með batnandi lífskjörum. Um leið og þessar nauðsynlegu breytingar til viðreisnar í atvinnulífinu eru gerðar, telur ríkisstj. sjálfsagt að gera viðtækar breytingar til bóta í félags- og skattamálum. Með því er byrðunum, sem verða af hinum óhjákvæmilegu breyt., dreift sem réttlátast á þjóðarheildina og hagsmunir þeirra verndaðir, sem framar öðrum ber að forða frá kjaraskerðingu, en það eru barnafjölskyldur, aldrað fólk og öryrkjar.“ Svo segir í hinu ágæta frv.

Þegar þess er gætt, hljóta fullyrðingar hv. stjórnarandstæðinga að vekja furðu, svo að ekki sé meira sagt, meðal þjóðarinnar. Þessar fullyrðingar og staðhæfingar hafa ekki aðeins átt sér stað í umræðum hér á hæstv. Alþingi, heldur einnig á fundum utan Alþingis og í blaðaskrifum. Síendurteknar staðhæfingar um, að upphaf þeirra vandamála, sem nú er glímt við, sé að finna hjá núverandi hæstv. ríkisstj. eða þá hjá bráðabirgðastjórn Alþfl., eru settar fram með hroka og sjálfbirgingshætti, í þeim eina tilgangi að villa og blekkja almenning í landinu og fá launþega til að taka neikvæða afstöðu til þessara mála, til þessara viðreisnaráforma, löngu áður en þau eru kunn. Stjórnarandstæðingar láta nú hver eftir annan þá fullyrðingu í ljós, að þegar vinstri stjórnin fór frá, hafi verið þvílíkt afbragðsástand í fjármálum þjóðarinnar, að dæmi annars slíks hafi ekki þekkzt á byggðu bóli. Það eina, sem skyggt hafi á, hafi verið sú viðleitni þáv. stjórnarandstöðu að segja þjóðinni sannleikann um hið raunverulega ástand efnahagsmálanna, svipta af þeim værðarvoð stjórnleysis og fyrirhyggjuleysis.

Ég hef oft verið með mönnum á minni stuttu ævi, sem umgengust sannleikann töluvert frjálslega. En ég veit, að vellygni Bjarni hefði frekar verið orðaður við sannleiksást heldur en hitt, hefði samtíðarfólk hans fengið að hlýða á málflutning sumra hv. þm. stjórnarandstöðunnar.

Hv. 1. þm. Austf. (EystJ) hefur orðið alltíðrætt um prik eitt með tveim endum, sem hann kallar uppbótaprik. Þegar þess er gætt, að þessi hv. þm. er sú galdrakerling íslenzkra fjármála, sem allra frekast hefur riðið á þessu priki óheiðarlegs og úrelts uppbótakerfis, þá má vera, að skýringin sé fundin á ofsa hans gegn því, að þetta galdraprik hans sé brennt. En þegar það er athugað, að hann og aðrir framsóknarmenn hafa gefið þær yfirlýsingar, að þeir vildu afnema uppbótakerfið í áföngum, fæ ég ekki skilið læti þeirra gegn því, að þetta sé einmitt gert nú. Það eru fleiri en hv. framsóknarmenn, sem hafa bent á það réttilega, að tilheyrandi uppbótafarganinu séu niðurgreiðslurnar innanlands og að þær séu annar aðalþáttur þessa fargans. Það er því fyllilega komið á móti framsóknarmönnum, þegar núv. ríkisstj. afnemur þetta syndakerfi í áföngum og byrjar á því að afnema útflutningsuppbæturnar. Framsóknarmenn þurfa ekkert að óttast. Kýlið hér innanlands verður einnig skorið í burt, — í áföngum, eins og þeir óska.

Þegar þessi hv. þm. og 7. þm. Reykv. (ÞÞ) reyna að telja þjóðinni trú um það, eins og helzt hefði mátt skilja á sumum ræðum þeirra, að Marshall, sem Marshallhjálpin er kennd við, hafi verið framsóknarmaður og féð hafi þess vegna fengizt heim, þá hlær fólk. En þegar þessir herrar ásamt 4. landsk. (HV) taka sér í munn sérstaka vorkunnsemi og samúð með iðnverkafólki, þá blöskrar mér. Skyldu hv. alþm. vera búnir að gleyma þeim viðtökum, sem þetta sama fólk fékk hjá málgögnum þessara þáverandi stjórnarherra, er það fór fram á lágmarksbætur á lítil laun? Ætli það hafi t.d. gleymt því, að hv. 7. þm. Reykv. sagði í blaði sinu, Tímanum, að atvinnurekendur hefðu fært þeim kauphækkanir á gulldiski, eða því, að forseti Alþýðusambandsins sagði í skýrslu sinni í sambandi við launahækkun iðnverkafólks, með leyfi hæstv. forseta, að „af Iðjurausn atvinnurekenda hefði lagt pólitískan þef, sem stéttvíst verkafólk teldi til lítils fagnaðar.“

Ég skal fúslega taka undir það, að þessu fólki og mörgu öðru, sem líkt er ástatt fyrir, veitir ekki af sínu og þótt meira væri. Þess vegna er ég m.a. fylgjandi frv. þessu, að ég veit, að eftir tiltölulega skamman tíma er hægt að koma til móts við þetta fólk með raunhæfum kjarabótum, ef þessi viðreisnaráform takast. En þessir hv. þm. ættu ekki eingöngu að fordæma fyrirhugaðar aðgerðir að óreyndu, — aðgerðir, sem eru beinlínis gerðar til að bæta þessu og öðru launafólki lífskjörin, heldur ættu þeir að taka undir fordæminguna á núgildandi svikakerfi, sem sannanlega hefur tekið kjarabætur vínnandi fólks jafnóðum aftur í síhækkandi vöruverði og aukinni verðbólgu.

Ef hv. 7. þm. Reykv. ber í hjarta sínu einlæga ósk til þess að bæta kjör þeirra einstaklinga, sem öðrum fremur verða illa úti vegna væntanlegra aðgerða, þá vil ég benda honum á, að það er einn aðili, sem hefur hér í umr. um þetta mál á hæstv. Alþingi gefið tvisvar athyglisverða yfirlýsingu fyrir sig og væntanlega stéttarbræður sína. Sá, sem gaf þessa yfirlýsingu, er hv. 5. þm. Norðurl. v., Björn Pálsson, samflokksmaður Tímaritstjórans, en orðrétt var yfirlýsingin hjá honum við 1. umr. á þessa leið: „Ég og mínir missum ekkert. Ég vil missa eins og hinir og hef betri efni á því.“ Ég skal fúslega aðstoða og tel það beinlínis skyldu mína að aðstoða hv. 7. þm. Reykv. við að sannreyna, hvort ekki mætti finna einmitt þarna eða annars staðar nóg til þess að bæta hin skertu lífskjör einstaklinga í verkalýðsstétt. Ég er að vísu ekki trúaður á einlægni hans til þess að gera þetta. Honum fannst a.m.k. ekki ástæða til þess að taka þessi ummæli Björns Pálssonar upp í blaði sínu, þótt ræðan væri birt í heild að öðru leyti.

Staðhæfingar hv. 7. þm. Reykv. og fleiri stjórnarandstæðinga um, að við sjálfstæðismenn höfum sýnt svík við okkar eigin kosningastefnuskrá, sýna tvennt: annars vegar dulið traust samfara ótta um, að Sjálfstfl. tækist þrátt fyrir allt að koma henni í framkvæmd á þessum tveimur mánuðum, sem hann hefur verið við stjórn, en hins vegar ótrúlega óskammfeilni að taka í sinn munn til árása á aðra staðhæfingar um svikna stefnuskrá, því að aldrei í íslenzkri stjórnmálasögu hafa orð og eiðar verið jafnfreklega brotnir og einmitt af þessum núverandi stjórnarandstæðingum, og mætti þó víðar leita. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja þann svikaferil frekar nú, en vil hins vegar benda á þá staðreynd, sem a.m.k. okkur sjómönnum er kunn, að til þess að koma skipi örugglega í höfn, þarf oft að sigla erfiðan sjó. Við sjálfstæðismenn höfum gert okkar stuðningsmönnum það fyllilega ljóst, að til þess að ná þurru, föstu landi í okkar efnahagsvandræðum, verður um ágjafir að ræða. Þeir hafa ekki verið leyndir neinum staðreyndum né logið til um þær við þá. Þeir vita vel, að til þess að ná þessu takmarki, bættum lífskjörum, þarf meira en innantóm loforð forustumanna, það þarf samstöðu fjöldans, og þá samstöðu hefur Sjálfstfl., og í henni er styrkur Sjálfstfl. fólginn.

Sú meginstaðhæfing stjórnarandstöðunnar, að fyrirhugaðar aðgerðir skapi ekki aðeins samdrátt, heldur einnig atvinnuleysi, stendur gegn fullyrðingum þeirra, sem að frv. standa, um, að ef haldið sé áfram á sömu braut, þá bíði okkar atvinnuleysi og hrun. Kommúnistar byggja sínar staðhæfingar á því ástandi, sem ríkti fyrst eftir gengislækkunina 1950, eins og ég mun aðeins víkja að síðar, sem stafaði af stórlega versnandi viðskiptakjörum og válegum aflabresti. Kommúnistar hafa hins vegar margviðurkennt nauðsyn þess að draga stórlega úr fjárfestingu og að auka framleiðsluna með öllum hugsanlegum ráðum.

Framsóknarmenn halda, því hins vegar fram, að það eigi að halda áfram og helzt auka alls kyns fjárfestingu, þá sé vandinn leystur, samfara gengislækkun, sem þeir telja í alla staði hina eðlilegustu og æskilegustu.

Fylgjendur frv. byggja sín rök á því, að í fyrsta lagi liggi við, að landið sé að komast í greiðsluþrot erlendis, og í öðru lagi, að gjaldeyrisskortur muni innan skamms tíma leiða til samdráttar í framleiðslu og allri atvinnu landsmanna. Það ástand, sem af þessu skapast, leiðir af sér versnandi lífskjör almennings vegna skorts á atvinnu og skorts á innfluttum neyzluvörum, og fyrsta óhjákvæmilega ráðstöfunin til viðreisnar er að binda endi á greiðsluhallann við útlönd. Þetta telur ríkisstjórnin að aðeins sé hægt að gera með yfirdráttarheimild þeirri, sem getið er um í frv. Orsakir þessa greiðsluhalla eru röng gengisskráning og útlán banka umfram sparifjáraukningu. Ef þessar meginorsakir eru fjarlægðar, helzt greiðsluhallinn, eins og réttilega var tekið hér upp í kvöld af hv. 6. þm. Sunnl., hann helzt alveg jafnt þótt útflutningsframleiðslan og gjaldeyristekjur aukist. En þegar eðlilegt ástand hefur skapazt í efnahagsmálum, eins og þetta frv. stefnir að, verður viðhorfið það, að framleiðsluaukning mun beinlínis stuðla að því að skapa skilyrði til að mynda nauðsynlegan gjaldeyrisforða samhliða bættum lífskjörum og aukinni fjárfestingu.

Ekki aðeins í þeim löndum, sem sannreynt hafa að ágæti sínu það efnahagskerfi, sem við erum nú að reyna að skapa okkur, heldur og hjá okkur Íslendingum hafa allir starfandi stjórnmálaflokkar það sem höfuðmál á sinni stefnuskrá að fyrirbyggja atvinnuleysi, hafa atvinnu fyrir alla. Þessu vandamáli hefur ekki verið til að dreifa í mörg ár hjá okkur, en hins vegar stórkostlegur hörgull á, svo að til vandræða horfir nú sem endranær, að fá fólk til að starfa að útflutningsframleiðslunni.

Það er því auðfundið áróðursbragðið, þegar því er haldíð fram, að með þessum viðreisnaráformum hæstv. ríkisstj. sé stefnt markvisst að því að skapa atvinnuleysi og að fyrirhugaðar vaxtahækkanir ásamt auknu aðhaldi í óarðbærri fjárfestingu séu nefnd sem dæmi fyrir því. Mér finnst ekki langsótt í gagnrök gegn þessu. Ef þessar aðgerðir stjórnarvaldanna sýna einhver merki um atvinnuleysi, sé ég ekki annað en það sé auðvelt að slaka til á þeim aftur til þess að fyrirbyggja þennan voða. Ég get ekki stillt mig um að skjóta þeirri spurningu hér inn til hv. þm. Alþb., hvort þeir hafi visvitandi verið að stefna að atvinnuleysi, þegar þeir lögðu fram tillögur sínar í vinstri stjórninni vor ið 1958, er byggðust að meginefni til á því að herða mjög á öllum fjárfestingarframkvæmdum. Voru þeir að vinna að því að koma á atvinnuleysi? Eða kannske vakti eitthvað svipað fyrir þeim og núv. hæstv. ríkisstjórn ?

Ef litið er á hvort áðurnefndra atriða um sig, þá er búið hér í hv. d. að margsýna fram á, að mikið af þeim lögboðnu vöxtum, sem í dag gilda, eru algerlega óraunhæfir. Þá munu vaxtahækkanirnar mjög stuðla að aukningu sparifjár, og það er eitt af meginstefnuatriðum ríkisstjórnarinnar. Og þegar aðeins þess er gætt, verkar sú fullyrðing hlægilega, að stefnt sé að atvinnuleysi, þar eð meginsjónarmið stjórnarvaldanna er sparifjáraukning til heilbrigðrar fjárfestingar. Atvinnuleysi og sparifjáraukning geta aldrei farið saman. Breytingar á vöxtum hafa verið notaðar víðs vegar um heim til þess að hafa áhrif á efnahagsjafnvægi þjóðanna. Þegar ofþensla er, reyna stjórnarvöld að draga úr henni með vaxtahækkun, en ef til samdráttar kemur, er framleiðslan örvuð með lægri vöxtum. Þetta hefur verið notað með góðum árangri undanfarin ár í nágrannalöndum okkar og nú nýlega í Danmörku. Vextirnir hér á Íslandi hafa verið mjög lágir, miðað við efnahagsástandið. Afleiðingin hefur verið ofsaleg ásókn í lánsfé, ekki aðeins í nauðsynlega fjárfestingu, heldur

líka í alls kyns verðbólgubrask. Það er því í meira lagi skrýtið að heyra þá menn, sem telja sig höfuðfjendur hvers konar brasks, berjast gegn viðleitni ríkisstj. á þessu sviði. Þessir menn eru því að berjast gegn atvinnuleysi braskara. Þeir eru að berjast gegn atvinnuleysi afætulýðsins, sem þeir eru alltaf að tala um. Þeir eru að berjast gegn atvinnuleysi hjá verðbólgukóngum. Þeir eru ekki að berjast gegn atvinnuleysi hjá verkalýð.

Það hefur verið réttilega bent á, að námsfólk og það fólk, sem þegar hefur hafið eða nýlokið við húsbyggingu og bjargazt við víxillán, að þetta fólk verði hart úti. Hæstv. viðskmrh. minntist hér á námsfólkið, sem verið er að athuga um, hvort ekki sé hægt að veita frekari hjálp. En með það fólk, sem stendur í byggingum og er með mikið af sínu lánaða fé bundið í víxillánum, þá er fullur skilningur hjá stjórnarflokkunum til að hjálpa þessu fólki, og það hefur nú þegar verið skipuð n. innan þingflokka stjórnarflokkanna til þess að athuga um breytingar á húsnæðismálastjórnarlöggjöfinni, m.a. með það fyrir augum að greiða úr þessum vanda.

Ef þetta frv. fer í gegn, þá má vissulega segja, að það verði tilfærsla á vinnuafli, enda stefnt að því að gera útflutningsframleiðslunni kleift að taka til sín sem mest af þeim nýju starfskröftum, sem alltaf eru að bætast á vinnumarkaðinn, eins og á að vera í ört vaxandi þjóðfélagi. Þessum nýju starfskröftum á auðvitað líka að vera persónulegur hagur í því að hverfa að þessari þýðingarmiklu framleiðslu frekar en öðrum störfum. Það er ekki þess vegna um neina samdráttarstefnu að ræða, heldur mætti kannske frekar tala um stefnubreytingu. Það er verið að gera breytingu frá fjárfestingu til framleiðslu. Allt hjal stjórnarandstöðunnar um atvinnuleysisstefnu er bara markleysa og þvæla.

Það eru a.m.k. þrír af hv. þm. stjórnarandstöðunnar, sem voru jafnframt allir ráðherrar í vinstri stjórninni, sem hafa haldið uppi herfilegum blekkingum um hlut sjómanna í þeim viðreisnaraðgerðum, sem nú á að framkvæma, og segja þeirra hlut vera hinn versta. Hv. 4. landsk. sagði hér í hv. d. við 1. umr., að að dómi hans væru sjómenn verst leiknir með „kjaraskerðingaráformum ríkisstj.“. Það er skýrt tekið fram í frv., í fyrsta lagi, að frjálsir samningar ráði eftir sem áður milli atvinnurekenda og launþega. Ég veit, að flokksbræður þessa hv. þm. hafa orðið fyrir vonbrigðum, er ósannindi þeirra undanfarnar vikur um fyrirhugaðar kaupbindingar stóðust ekki og þar með látin eiga sig sú leið „efnahagslegrar viðreisnar,“ sem vinstri stjórnin valdi sér og hófst einmitt með kaupbindingu. Í öðru lagi lýsir ríkisstj. yfir í frv. sínu, að togaramenn hafi sérstöðu, samanborið við aðra launþega. Þeir hafi á undanförnum árum orðið fyrir tekjurýrnun, sem beinlínis standi í sambandi við útfærslu landhelginnar. Ríkisstj. telur því ekki réttlátt, að ráðstafanir, sem gerðar eru með framtíðarhagsmuni allrar þjóðarinnar fyrir augum, bitni beinlínis á einni stétt manna, og stangast þetta nú örlítið á við fullyrðingar hv. 6. þm. Sunnl. hér áðan um, að ríkisstj. gæti ekki viðurkennt það gagn og þau gæði, sem þjóðin gæti haft af landhelginni. Og það er jafnframt talið í frv., að bætt afkoma togaranna vegna gengisbreytingarinnar geri kleift að hækka tekjur togarasjómanna. Og í samræmi við meginstefnu sína í þessum málum telur ríkisstj. jafnframt eðlilegt, að samningar séu frjálsir, ekki síður á þessu sviði en öðrum. Laun togarasjómanna munu því hækka. En um þýðingu ákveðins fiskverðs í þessu frv. getur orkað tvímælis. Það getur bæði verið til hins betra og verra. Ef togarasjómenn fá t.d. 10% launahækkun eða hafa til jafns við bátasjómenn, sem náð hafa mjög sæmilegum kjörum undanfarið, hvort sem það verður með fiskverði eða fastakaupi, þá er í rauninni verið að veita þeim stórkostlega réttarbót, sem þeir hafa að vísu átt lengi inni, en ekki náð út fyrr, einmitt vegna hins úrelta uppbótakerfis, og þessar ráðstafanir munu gerbreyta til hins betra mannahaldi á íslenzka togaraflotanum og það óheillavænlega ástand, sem ríkt hefur á togurunum, hverfa. En í staðinn skapast aðstaða til þess að keppa aftur við aðrar greinar framleiðslunnar á heilbrigðum grundvelli.

Í þessum sem öðrum áformum ríkisstj. ríkir einmitt kjörorðið: Aukin útflutningsframleiðsla og bætt lífskjör. Ef ábyrgir verkalýðsleiðtogar telja ríkisstj. með þessu vera að fara inn á braut kaupbindingar og kjaraskerðingar, þá verða þeir um leið að viðurkenna, að togarasjómenn hafi búið við þrælakjör undirokaðra á vinstristjórnartímabilinu. En þessir herramenn, þegar þeir tala um sjómenn, gleyma einni stétt þeirra, og það eru farmenn. En það gerir hins vegar hæstv. ríkisstj. ekki. Hún viðurkennir í frv. sérstöðu þeirra í þessu máli, og í samræmi við það eru að hefjast samningaviðræður milli sjómanna og útgerðarmanna farskipa og togara. En hvernig höguðu þessir sömu menn sér gegn farmönnum, þegar þeir framkvæmdu sína síðustu gengislækkun? Þáv. hæstv. félmrh., forseti Alþýðusambandsins, 4. landsk., bannaði, hann bannaði, að þessum illa launuðu sjómönnum væri birt bréf Jónasar Haralz, þar sem tvímælalaust var viðurkennt, að þeirra kjör hefðu rýrnað langt fram yfir aðra launþega við aðgerðir vinstri stjórnarinnar. Það var ekki þá, sem þessir sjómenn þurftu að taka upp hinar hörðu stéttarfélagsaðgerðir, sem hv. 4. landsk., forseti Alþýðusambandsins, og skoðanabræður hans eru að boða. Þessi saga um farmennina er alveg sérstakur kapítuli út af fyrir sig í sögu þessara verkalýðsforingja.

Það eru ýmsir úr stjórnarandstöðunni, ekki sízt hv. 4. landsk., sem mikið hafa rætt um snarvitlausa útreikninga þeirra hagfræðinga, sem núv. ríkisstj. styðst við, og telja sig þess vegna vera á móti öllum þeim aðgerðum, sem nú á að framkvæma og byggjast á starfi þessara manna. En hafa þeir alltaf haft þessa skoðun? Hafa þeir alltaf talið hagfræðinga þá óþroskuðu kjána, sem þeir telja nú? Og þá er ég kominn að því atriði í framsöguræðu hv. 6. landsk., sem ég get alls ekki verið sammála honum um, en það er það traust, sem hann lýsir yfir að hann hafi á hv. 4. landsk., forseta Alþýðusambandsins, vegna ummæla hans við 1. umr. Ég hef alls ekki þetta traust á þessum manni, ekki einungis eftir það, hvernig hann hefur talað hér í hv. Nd., heldur hvernig hann hefur talað síðustu ár. Ég veit, að hv. 6. landsk. hefur ekki haft í huga, þegar hann flutti ræðu sína, gamla máltækið: Oft er flagð undir fögru skinni.

Árið 1958 gekkst Bandalag starfsmanna ríkis og bæja fyrir því, að stofnuð var samvinnunefnd launþegasamtakanna, með aðild Landssambands verzlunarmanna og Sambands bankamanna og Iðnnemasambandsins. Alþýðusambandið gerðist óbeinn þátttakandi að þessu samstarfi, en mun síðar hafa skorið sig út úr og fengið Torfa Ásgeirsson hagfræðing til að vinna fyrir sig að hagskýrslum. Nú er rétt að taka það fram strax, að hagfræðingur þessi hefur oft áður unnið að hagfræðilegum rannsóknum fyrir Alþýðusambandið, og er þess skemmst að minnast, að í skýrslu Hannibals Valdimarssonar, forseta Alþýðusambandsins, um verkfallið 1955 getur hann um starf Torfa fyrir Alþýðusambandið þá og segir, að skýrslur hans hafi styrkt mjög aðstöðu verkfallsmanna og aldrei hafi verið gerð tilraun til að vefengja þær. Á hinu sögufræga þingi Álþýðusambandsins haustið 1958 var nokkur hluti af starfi Torfa, sem hann vann fyrir Alþýðusambandið, lagður fyrir þingið í skýrsluformi. Þessum skýrslum var auðsjáanlega ætlað ákveðið hlutverk, enda fagnaði þáv. hæstv. forsrh. þessum vísi að hagdeild, þegar hann kom í sína bónorðsför á þingið, og hann hvatti þingheim mjög að kynna sér þessar skýrslur. En forseti Alþýðusambandsins, hv. 4. landsk. þm., sagði þingheimi, að slíkar skýrslur væru meginstoðin undir kröfum verkalýðsins, annars væru allar kauphækkanir teknar af honum jafnóðum aftur.

Þegar ég fór að blaða í þessum skýrslum eftir þær umræður, sem orðið hafa um efnahagsfrv. hæstv. ríkisstj. hér á Alþingi og þær fullyrðingar nokkurra hv. þm. um, að hagfræðingar hverrar ríkisstj. höguðu útreikningum sínum og niðurstöðum eftir því, sem ráðandi ríkisstj. óskaði eftir hverju sinni, þá las ég innganginn að skýrslu Torfa, sem ber fyrirsögnina „Þjóðarframleiðsla Íslendinga 1950—1958“, með sérstakri athygli og rakst þar m.a. á atriði, sem ég tel nauðsynlegt að rifja upp fyrir þá verkalýðsunnendur og leiðtoga, sem hér hafa farið með ýmsar mjög hæpnar fullyrðingar. Þessi hagfræðingur byrjar á því að samþykkja það, sem við sjálfstæðismenn höfum alltaf fullyrt, að megnið af innistæðufé Íslendinga erlendis í stríðslok hafi verið notað til uppbyggingar atvinnuvegunum, en ekki í óhófseyðslu stríðsgróðamanna, eins og ýmsar málpípur framsóknarmanna hafa haldið fram. Og þá kemur hann að því máli, sem mjög hefur komið við sögu hér í umr. að undanförnu, en það er gengislækkunin 1950. Hann viðurkennir þær staðreyndir, sem fyrir lágu og orsökuðu hana, eða orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Gengislækkunin í marz 1950 var viðurkenning þeirrar staðreyndar, að viðskiptakjörin höfðu snúizt okkur í óhag.“

Þarna kemst hagfræðingur Alþýðusambandsins að ólíkri niðurstöðu, svo að ekki sé sterkara tekið til orða, við þá hv. alþm., sem teljast málsvarar eða vilja telja sig málsvara launþega hér á Alþingi.

Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa lokakaflann úr þessari grg. þessa hagfræðings, sem ber nafnið „Ráðstöfunarfé þjóðarinnar“ :

„Þótt þjóðin, þegar til lengdar lætur, geti ekki haft annað til ráðstöfunar en verðmæti sinnar eigin framleiðslu, þá getur þessu snúið öðruvísi við um stutt eða löng árabil. Það hafa verið örlög okkar Íslendinga, að við höfum haft um lengri tíma til ráðstöfunar fé, sem við höfum ekki aflað okkur með eigin samtímavinnu. Sé litið yfir tímabilíð frá 1944, en þá áttum við sem hæstar innistæður erlendis, þá höfum við haft til ráðstöfunar auk verðmæta okkar eigin framleiðslu, reiknað á gengi 1958 í milljónum króna: Innistæðufé í árslok 1944 ca. 2000, gjafafé frá Bandaríkjunum 1948—1953 ca. 750, Marshalllán sömu ár 130, fastur yfirdráttur hjá Greiðslubandalagi Evrópu 110, lán hjá Alþjóðabankanum 140, lán hjá Export Import Bank í árslok 1957 300, stutt vörukaupalán, aðallega í Vestur-Evrópu, 300, aukning lausaskulda bankanna 80, ýmislegt 120; samtals ca. 3930 millj. kr.

Þetta yfirlit er að mestu miðað við árslok 1957, og sé bætt við þeim lánum, sem við höfum tekið á þessu ári, mun vera óhætt að áætla, að heildarfúlgan sé 4200–300 millj. kr., miðað við núverandi gengi á erlendum gjaldeyri. Með öðrum orðum sagt,“ segir hagfræðingur Alþýðusambandsins, „við höfum haft á þessum árum til ráðstöfunar aukalega fé, sem slagar hátt upp í að samsvara verðmæti allrar þjóðarframleiðslunnar á einu ári.“ Og hann heldur áfram: „Sé horft fram á við, þá er augljóst mál, að þetta lántökuskeið er senn runnið á enda og við blasir tímabil, þar sem þjóðin, í staðinn fyrir að hafa til ráðstöfunar allt verðmæti sinnar eigin framleiðslu og að auki 5–10% af erlendu fé, aðeins hefur til umráða eigin framleiðslu að frádregnum vöxtum og afborgunum hinna erlendu lána.“

Og lokaorðin í þessari skýrslu hagfræðings hv. 4. landsk. hljóða á þessa leið: „Hins vegar mæla sterk rök með því, að barátta samtakanna fyrir bættri afkomu almennings og þá sérstaklega launþega breytist á næstu árum með tilliti til þessara staðreynda.“

Svo mörg voru þau orð.

Og nú vil ég spyrja hv. 4. landsk., forseta Alþýðusambandsins: Hvað skyldi hinn hagfræðilegi ráðunautur hans sjálfs meina með þessum síðustu orðum? Finnst honum, að þessi hagfræðingur haldi fram „allt í lagi“ kenningu sinni? Er þetta í samræmi við þær kenningar kommúnista og Framsóknar í dag, að hinni efnahagslegu viðreisnarstefnu núverandi ríkisstj. eigi að mæta með verkföllum og nýrri kaupskrúfu? En kannske svarið finnist í því, sem á eftir fór á hinu sögufræga þingi Alþýðusambandsins? Það skyldi þó aldrei vera eftir allt, að Hannibal sjálfur hafi átt það heiti, sem hann nú gefur ríkisstj. og stuðningsmönnum hennar og verið sjálfur hörmungarspámaður og hrunkóngur? Við skulum líta aðeins nánar á þann kafla.

Það komu meðal annarra tveir frægir gestir á þetta þing í boði forseta Alþýðusambandsins, þáverandi hæstv. félmrh. Annar þessara gesta var þáverandi efnahagsráðunautur vinstri stj. og núverandi ráðuneytisstjóri, Jónas Haralz. Hann flutti þarna stórmerkilega ræðu, sem fulltrúar 30000 launþega hlustuðu á agndofa, því að þarna fengu þeir fyrst að vita, að hið helsjúka efnahagskerfi, sem vinstri stjórnin tók við, væri nú á banabeði sínum, og þarna var þeim í fyrsta sinn sagt hreint út um, hve mikil vá stæði fyrir dyrum, og þarna var í fyrsta skipti blekkingarhulu vinstri stjórnarinnar svipt algerlega til hliðar. Jónas Haralz staðhæfði í þessari ræðu, að þjóðin eyddi meiru en hún aflaði. Og hv. 4. landsk. þarf ekki að reyna að telja mönnum trú um, að þessi setning hafi fyrst séð dagsins ljós við tilkomu núv. hæstv. ríkisstj. Hann víssi vel um þessa staðreynd í tíð vinstri stjórnarinnar. Því eru þær fullyrðingar hans nú helber uppspuni eins og svo margt annað. Og efnahagsráðunautur vinstri stjórnarinnar vitnaði í þessar sömu skýrslur og ég gerði áðan. Hann sagði, að erlend lán gætu verið raunhæf, og hann sagði, að nauðsynlegt væri að fyrirbyggja þær víxlverkanir, sem vísitölukerfið skapaði. Síðan sagði hann orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Gjaldeyrisstaðan er svo slæm, að ekki þýðir lengur að sækja út. Ef ekki verður staðnæmzt og dregið úr fjárfestingarkappinu um skeið, verða afleiðingarnar mjög örar kauphækkanir og verðhækkanir á víxl, sem munu valda a.m.k. 270 stiga framfærsluvísitölu í nóvember 1959 eða a.m.k. 20—30% hækkun.“

Finnst ykkur, hv. alþm., að þarna hafi verið allt í lagi?

Og Jónas Haralz hélt áfram að ræða við þessa fulltrúa, á fjórða hundrað að tölu, sem komu hvaðanæva af landinu, og hann sagði orðrétt: „Stærsta hagsmunamál ykkar í dag er að koma í veg fyrir þessa öru þróun.“ Eru nú þessi orð í samræmi við kenningar kommúnista og framsóknarmanna í dag, ef þeir telja höfuðnauðsyn á því að koma verðbólguhjólinu í gang aftur og brjóta niður viðreisn stjórnarinnar?

En skyldi svo þessi efnahagsráðunautur ekki hafa bent launþegum á neinar leiðir til þess að stöðva þessa óheillavænlegu þróun? Jú, hann hélt áfram sinni ræðu og sagði, að það væri ekki hægt með sama vísitölukerfi. Hann sagði, að það yrði að endurskoða fjárfestingarstefnuna og draga úr þeirri fjárfestingu, sem skapaði ekki aukin útflutningsverðmæti eða gjaldeyrissparnað. Og hann sagði í þriðja lagi, að þetta væri ekki hægt með breytingu á tekjuskiptingu, því að þá þegar væri gengið svo nærri atvinnufyrirtækjunum, að ekki væri hægt að ganga lengra, og hjá sjávarútveginum væri það þegar komið of langt. Og hann lauk máli sínu með því að segja, að ef ekki fengist frestur til stöðvunar, væri skrefið stigið fram af brúninni. Þetta var nú sagt á „allt í lagi“tímabili vinstri stjórnarinnar.

Þessum gesti var annar gestur, að vísu ekki jafnmerkilegur, samferða í þessa heimsókn, þáv. hæstv. forsrh., 2. þm. Vestf., og hann hélt líka ræðu. Hann fagnaði líka hagskýrslum Hannibals, sem ég vitnaði í áðan, og hann hélt áfram og sagði, að undanfarið — og þannig mundi það verða án gagngerðra breytinga — hefðu öll verkföll farið á einn veg, þann, að kjarabæturnar hefðu verið teknar strax aftur til þess að halda framleiðslunni gangandi. Hann minntist lítillega á hinn eilífa hala allra ríkisstjórna undanfarin ár, en gat ekki þeirrar nafngiftar, sem í upphafi ársins 1957 var á þessum hala. Þá kölluðu sumir ráðh. vinstri stjórnarinnar þetta íhaldshala, en hins vegar mun þessi hali nú bera nafn á meðal almennings, sem kallar hann „loðnu rófuna hans Lúðvíks“. Nei, það var fyrst í þessari ræðu Hermanns Jónassonar, sem fólk fékk að kynnast verkum hinna erlendu sérfræðinga, sem vinstri stjórnin fékk til landsins til þess að vinna m.a. að úttekt þjóðarbúsins. Og Hermann sagði líka, að það þyrfti að endurskoða vísitölukerfið og taka keðjuverkunina út úr. Orðrétt lauk hann ræðu sinni með þessum orðum: „Sannið þið til, þótt þetta mistakist, þá er þetta framtíðin.“ Þetta sagði Hermann um þessar fyrirhuguðu aðgerðir þeirra þá, þegar hann reyndi að fá þing Alþýðusambandsins til að gefa eftir 17 vísitölustig, svo að enn einn fresturinn fengist til þess að vinna að lausn efnahagsmálanna á grundvelli þess, sem ég hef þegar vitnað í úr ræðu Jónasar Haralz.

En hvað sagði forseti Alþýðusambandsins, hv. 4. landsk., sem nú prédikar, að allt sé í lagi, með sinum glæsibrag? Var hann ekki á móti þessum og öðrum aðgerðum, sem nauðsynlegar þóttu haustið 1958, vegna þess að allt væri í lagi? Nei, hann lýsti sig fylgjandi þeim með því að mæla eindregið með, að tilmæli hæstv. forsrh, væru samþykkt. Fyrir 14 mánuðum var Hannibal Valdimarsson og hagfræðingar hans fylgjandi því að taka út keðjuverkun vísitölunnar. Og fyrir 14 mánuðum var Hannibal fylgjandi því að draga úr fjárfestingunni, sem nú á að skapa svo gífurlegt atvinnuleysi. Og fyrir 14 mánuðum viðurkenndi Hannibal, að frekari breyting á tekjuskiptingunni gagnvart atvinnuvegunum væri óraunhæf, það hefði þegar verið gengið of langt. Og á þessu tímabili flökraði Hannibal ekki við gengisfellingu, sbr. yfirfærslugjaldið, sem verkar nákvæmlega eins, og eins og sést á tilvitnunum mínum í skýrslu Torfa hagfræðings Ásgeirssonar, hagfræðings Alþýðusambandsins, en þar styrkir hann Hannibal í þessum skoðunum sínum, og sjálfsagt hefur hagfræðilegi aðalráðunautur vinstri stjórnarinnar, Haraldur Jóhannsson, ekki dregið úr andlegri uppörvun Hannibals, ef dæma má eftir hinum nýútkomna ritlingi, sem hann hefur samið. En eins og fólk veit, þá er Haraldur Jóhannsson aðalefnahagsmálasérfræðingur kommúnista hér á landi, og hann var einkaráðgjafi Lúðvíks Jósefssonar sjútvmrh. í vinstri stjórninni, og dálæti og trú kommúnista á starfi þessa manns sést á því, að þeir gerðu hann að formanni útflutningssjóðs. En í þessum ritlingi sínum viðurkennir hann allt í senn, að þjóðin hafi lifað um efni fram á undanförnum árum, að íslenzka krónan hafi verið skráð á fölsku gengi og að efnahagsmálastefna vinstri stjórnarinnar hafi hrundið af stað skriðu nýrrar verðbólgu. Þessi maður talar af hreinskilni, en það er ólíkt trúbræðrum hans hér á landi og hér á hæstv. Alþingi, sem algerlega hafa söðlað um á síðustu 14 mánuðum.

Hvað skyldi valda þessari breyttu afstöðu í dag? Hvað skyldi valda því, að það, sem þessir herramenn töldu sjálfsagt 1958, þegar þeir voru í stjórn, er talinn þjóðfélagslegur glæpur í dag? Er munurinn aðeins sá, að hv. 4. landsk. var í ráðherrastól þá með öðrum flokksbróður sínum, en er nú í stjórnarandstöðu? Getur virkilega verið, að efnahagslegu sjálfstæði íslenzku þjóðarinnar eigi nú að fórna vegna valdadrauma þessara metorðagjörnu tækifærissinna? Er þá allt mærðarvæl kommúnista um hag launþega eintóm sýndarmennska, sem fer bara eftir valdaaðstöðu þeirra í þjóðfélaginu á hverjum tíma? Ég veit, að ekkert eitt þessara atriða getur gefið svarið. En ef við lítum til baka til þess ástands, sem skapaðist í Mið-Evrópu á þriðja tug þessarar aldar, þegar mikill hluti þeirra efnaminni borgara, sem þó allir áttu eitthvað, tapaði aleigu sinni í óðri verðbólgu, þá sést, að sú upplausn, sem þá átti sér stað, var upphafið að stefnu þeirra til öfgaaflanna til hægri og til vinstri, en það er undir þeim kringumstæðum, sem þeir ríku verða ríkari og þeir fátæku fátækari, enda staðfestist þá, eins og hér var minnzt á í umræðunum í gær, spádómurinn úr kommúnistaávarpinu um, að stórir hópar þeirra stétta, sem fyrir þessu verða, hrapi niður á öreigastigið og skapi grundvöll þeirrar byltingar, sem kommúnistar stefna að. Undrar nú nokkurn, þó að framsóknarmenn séu hreyknir af þessari þróun?