12.02.1960
Neðri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (2027)

48. mál, efnahagsmál

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður var að minnast ofur lítið á það hér. hvernig hv. sjálfstæðismenn höguðu málflutningi sínum á undanförnum missirum og m.a. hæstv. landbrh. Og hann minntist í því sambandi á áróður þeirra út af 55% almenna yfirfærslugjaldinu, sem náði til allra vara eða flestra vara, þ. á m. rekstrarvara landbúnaðarins, og þessi hæstv. ráðh. var svo ósvífinn að kalla Framsóknargjaldíð. Og það átti að vera til þess að sýna illvilja Framsfl., að þetta gjald yfir höfuð hefði nokkurn tíma komið til mála. Og þeir töluðu um þessi efni eins og þetta gjald hefði verið lögleitt algerlega ófyrirsynju og væri óþarft, og þeir, sem á þá hlýddu, gátu ekki annað álitið en Sjálfstfl. mundi beita sér fyrir því að afnema þetta Framsóknargjald, ef honum yrði þess auðið að ráða einhvern tíma einhverju um löggjafarstarf Íslendinga. Svo mikið var við lagt í þessu efni, að ef hér hefði verið um heiðarlega menn að ræða og heiðarlegan málflutning, þá hefði auðvitað ekkert annað átt að geta komið til mála en að þeir, sem að þessum málflutningi stóðu, tækju sér það fyrir hendur sem fyrsta verk, þegar þeir gátu ráðið, að afnema þetta gjald. Það var bókstaflega skorin upp herör út af þessu, og hafði hæstv. núv. landbrh. eins konar forustu í þessu eða það var eins konar sérgrein hans í Sjálfstfl. að standa fyrir þessum rógi.

Þetta gekk svo langt, að ástæða er til þess að rifja upp eitt dæmi, sem ég þekki persónulega í sambandi við þetta. Og það er til þess að sýna mönnum m.a., hvernig svona vinnubrögð verka stundum, og hvert tjón einstökum mönnum getur orðið að svona loddaraspili. Ég þekki sem sé bónda, sem tók þennan málflutning hæstv. núv. landbrh. þannig, að hann hætti við að kaupa dráttarvél, sem hann ætlaði að kaupa vorið 1958, og ætlaði að bíða eftir því, að núv. hæstv. landbrh. kæmist til áhrifa og lækkaði verðið á dráttarvélunum og afnæmi „Framsóknargjaldið“ á dráttarvélunum. Og þessi maður er ekki búinn að kaupa dráttarvél enn. Hann er enn að bíða eftir því, að núv. hæstv. landbrh. beiti sér fyrir því að fella gjaldið niður. Og hann hefur verið í góðri trú, þessi maður. Hann varð bara fyrir þeirri ógæfu að leggja trúnað á málflutning núv. hæstv. landbrh. Hann var auðvitað hans flokksmaður.

En hvað gerir hæstv. landbrh. nú? Hann ætlar ekki aðeins að láta þetta 55% gjald standa, heldur ætlar hann að hækka verðlagið á dráttarvélunum um nálega 50% ofan á „Framsóknargjaldið“ og allt verðið, sem fyrir var. Hvað halda menn nú, að þessi bóndi, sem trúði þessum hæstv. ráðherra og hans málflutningi, muni bíða mikið tjón af því að hafa tekið málflutning hæstv. ráðh. sem góða og gilda vöru? Hvað verða það margir tugir þúsunda, sem hann skaðast á þessari framkomu hæstv. ráðherra? Og þetta er víst áreiðanlega ekki eina dæmið um það tjón, sem svona framkoma getur valdið. Það er alveg áreiðanlegt. Mér er bara persónulega kunnugt um þetta dæmi. Hvað ætlar hæstv. landbrh. að gera fyrir þennan mann? Hvað getur hann gert fyrir hann? Getur hann bætt fyrir þetta óhapp, þetta tjón, sem hann hefur valdið? Ég spyr.

Nei, það væri nauðsynlegt fyrir þessa menn, sem svona hafa hagað sínum málflutningi, að gera sér grein fyrir því gífurlega tjóni, sem þeir hafa gert í ótalmörgum greinum með þessari framkomu, og taka það til greina framvegis.

Mér dettur líka annað í hug í sambandi við þetta. Hugsið ykkur bara annað eins tjón og það, sem hvíta bókin, Viðreisn, sem þeir nú hafa gefið út, getur valdið landinu. Áróðurinn í bókinni, t.d. um hallann á þjóðarbúskap Íslendinga, og hinar margvíslegu röngu og villandi upplýsingar, sem þar eru gefnar til þess að sverta efnahag Íslendinga í augum þeirra, sem lesa bókina, þær eru gefnar út í hvítri bók af ríkisstjórn Íslands og eiga að skoðast sem heimild um efnahagsástand landsins. Haldið þið, að það séu ekki þokkaleg meðmæli í augum þeirra, sem Íslendingar eiga undir að sækja efnahagsmál sín í öðrum löndum, að þeir fái í hendur slíkt plagg frá ríkisstjórn landsins? Ætli það hefði ekki verið þjóðnýtara verk fyrir hæstv. ríkisstj. að leggja vinnu í það að sýna fram á þá stórfelldu uppbyggingu, sem hér hefur átt sér stað á undanförnum áratugum, og hve það lánsfé, sem Íslendingar hafa fengið, hefur verið hyggilega notað, heldur en að taka sér fyrir hendur að búa út þann óhróður um efnahagsmál sinnar eigin þjóðar, sem í þessum bæklingi er að finna? Ég held það. Og sannleikurinn er sá, að það verður aldrei með tölum talið, það tjón, sem hæstv. ríkisstj. er nú þegar búin að gera landinu með þessum áróðri.

Auðvitað er það ekkert sérstaklega létt verk að afla erlendis þess gífurlega fjármagns, sem þjóð eins og Íslendingar þurfa að fá að láni til þess að geta notfært sér þá möguleika, sem landið hefur að bjóða og sjórinn við strendurnar. Og það er ekkert alls kostar létt verk að fá erlenda forráðamenn fjármagns til þess að skilja það, að 170 þús. manns hér norður við Íshaf séu þess megnugar að ávaxta stórfelldar fjárhæðir og standa í skilum með vexti og afborganir, þegar þess er t.d. gætt, að þetta er litlu meiri mannfjöldi en byggir litlar borgir í stærstu meginlöndum. Það er oft nokkuð erfitt verk að sýna fram á, að það sé eðlilegt, að þessi litla þjóð fáí tiltölulega stórar fjárhæðir að láni og sé þess megnug að standa í skilum með vexti og afborganir.

En það er hægt að sýna fram á þetta, ef menn segja satt, ef menn segja satt um möguleika Íslands, um það, hvernig þjóðin hefur hagað sínu starfi í landinu, og um þá reynslu, sem erlendir aðilar hafa haft af viðskiptum sínum við Íslendinga. Enn þá hefur það aldrei komið fyrir, að ekki hafi verið staðið í skilum með vexti og afborganir af opinberum lánum á Íslandi. En haldið þið, hv. þm., að það verði léttara verk að koma þessu sjónarmiði á framfæri og fá þá, sem hér standa fyrir málum í öðrum löndum, til þess að sjá þessa hluti í réttu ljósi, þegar sjálf ríkisstj. gefur út aðrar eins bókmenntir og þær, sem við höfum fengið hér nú alveg nýlega í áróðurspésa ríkisstjórnarinnar? Það er sannarlega illa farið, að hæstv. ríkisstjórn skuli hafa gripið til þessa óyndisúrræðis.

Ég skal ekki fara langt út í að ræða hér við hæstv. viðskmrh. fremur en orðíð er varðandi álögur á þjóðina, sem felast í þessu frv. Hann hefur ekki getað bent á neina veilu í því reikningsdæmi, sem ég hef brugðið upp í þessu sambandi. Þess er ekki heldur að vænta, því að það er alveg rétt sett upp að öllu leyti. Það þarf ekkert um það að deila. Verðhækkun og álögur geta ekki orðið minni í heild en ég hef greint, og það getur ekki komið annars staðar niður en á þeim meginþorra landsmanna, sem á að hafa óbreyttar tekjur í krónutölu, og þó mun lægri en nú er vegna þess samdráttar á atvinnu, sem fyrirhugaður er. Þessu er alveg óhugsandi að hnekkja, hversu langar ræður sem menn halda. Það skiptir engu máli í þessu sambandi, þó að einhverjir hafi áður brugðið upp villandi dæmum af allt öðrum ráðstöfunum fyrir löngu. Það er ekki það, sem hér skiptir máll. Það, sem skiptir málí, er að kryfja til mergjar það reikningsdæmi, sem nú liggur fyrir. Og það er ekkert annað en útúrsnúningur að vera að vísa í einhver gömul dæmi og í veilur, sem í þeim kunna að hafa verið. Það, sem skiptir hér máli, er það, sem nú á að gera, og hvernig það verkar.

Þá var ráðh. ákaflega hneykslaður yfir því, að ég skyldi ekki hafa gert nógu nákvæman greinarmun á því, sem kallað væri greiðsluhalli við útlönd, annars vegar og hins vegar gjaldeyrisaðstöðunni. Hann var mjög hneykslaður yfir þessu. En ég vil nú spyrja hæstv. ráðh. í því sambandi og benda honum á þessa yfirlýsingu, sem ég las úr Alþýðublaðinu frá hagfræðideild Landsbanka Íslands. Til hvers ætli þáv. ríkisstj. og stjórnarblað hennar hafi lagt svona mikla áherzlu á, að þessi yfirlýsing kæmi fram og að það væri hrakið rétt fyrir kosningarnar, að það væri stórfelldur halli á gjaldeyrisviðskiptunum við útlönd, eins og hafði verið bent á í því blaði, sem hann tilgreindi? Hvers vegna ætli þáv. ríkisstj. hafi lagt svona mikla áherzlu á þetta? Jú, ég hygg, að það sé ósköp einfalt mál, hvernig á því stóð. Það var af því, að þáv. ríkisstj., sem þessi hæstv ráðh. átti sæti í, vildi láta það koma fram, hvað landið stæði vel út á við undir þeirra forustu. Eða var það kannske af einhverjum öðrum ástæðum, sem það var lagt slíkt ofurkapp á að hrekja, að það væri verulegur halli á þessum viðskiptum? Og hvernig samrýmist þessi viðleitni, sem þarna kemur fram, hvernig samrýmist hún því, sem þessir sömu menn leyfa sér að halda fram nú, að það hafi orðið 350 millj. kr. greiðsluhalli eða halli á þjóðarbúskapnum árið 1959? En í október var lagt þetta ofurkapp á, að þjóðin fengi þá mynd af málinu, að það væri ekki 140 millj. kr. halli, eins og hafði verið minnzt á í einu blaði, heldur væri hann aðeins 16 millj.

Það má skilja minna en þessi stökk fram og aftur í þessari túlkun, sem er líka í nákvæmu samræmi við alla framkomu í þessu máli, annars vegar á s.l. ári og hins vegar nú, þegar verið er að reyna að hræða þjóðina til þess að fallast á þá stefnubreytingu í efnahagsmálum, sem hér er meiningin að knýja fram, því að það er ekki hægt að kalla þetta öðru nafni en því, að það séu tilraunir til þess að hræða þjóðina til þess að fallast á slíkt, — sá áróður, alveg tilefnislausi áróður um greiðsluhalla og halla á þjóðarbúskapnum, sem hér er uppi hafður.

Hæstv. viðskmrh. talaði hér æðilangt mál um þessar kenningar, um hallann á þjóðarbúskapnum, og fór út í hárfínar skilgreiningar á því, hvað væru eyðslulán og hvað væru uppbyggingarlán eða framkvæmdalán. Og mér skildist á hæstv. ráðh. einna helzt, að hann teldi t.d. þær lántökur, sem framkvæmdar væru til þess að standa undir — við skulum segja mannvirkjum eins og Sogsvirkjuninni, eyðslulántökur að því leyti, sem þær gengju til að greiða vinnulaun innanlands eða því líkt. Þessum skilningi hæstv. ráðh, á lántökum mótmæli ég gersamlega. (Menntmrh.: Þetta er líka misskilningur.) Ja, ef þetta var ekki meiningin, þá var ómögulegt að fá nokkra glóru í það, sem hæstv. ráðh. sagði. Þar við situr. (Gripið fram í.) Ég hlustaði mjög nákvæmlega. Máske hann vildi þá hér á eftir gera tilraun til þess að útskýra þetta betur fyrir þeim hv. þm., sem hér eru nú. Mér finnst, að það væri full ástæða til þess, að hann gerði það. En ef þetta hefur ekki verið það, sem hæstv. ráðh. meinti, þá fékk ég enga glóru í það, sem hann sagði. Ef það hefur verið þetta, sem hann meinti, þá mótmæli ég því. En hafi það ekki verið þetta, sem hann meinti, þá skil ég ekki, hvað okkur ber á milli.

Sannleikurinn er nefnilega sá, að þessar lántökur, sem hér er um að ræða og ég gerði grein fyrir, gengu allar beint í tiltekin verk. Það voru ekki neinar almennar lántökur og einungis hægt að vísa í á móti almennar framkvæmdir. Þær voru allar ætlaðar og gengu beint í tiltekin verk. (Menntmrh.: Gjaldeyririnn líka?) Gjaldeyririnn gekk til almennra þarfa að sumu leyti, en mótvirði gjaldeyrisins gekk til verkanna. Ég var einmitt að gizka á það áðan, að það væri þetta, sem hæstv. ráðh. meinti, að hann vildi kalla þetta eyðslulántökur, vegna þess að gjaldeyririnn gekk til annars, en mótvirðið aftur til Sogsvirkjunarinnar, en þá greip hann fram í og sagðist alls ekki hafa átt við það. Nú grípur hann aftur fram í og segist hafa átt við það. Ég gef því alveg á bátinn að skilja, hvað hæstv. ráðh. á við, nema því aðeins að hann fáist til að útskýra þetta nánar. Og ég skora raunar á hann að gera það. Mér finnst, að það ætti að koma í þingtíðindum, þótt fáir séu nú hér viðstaddir.

En með þessum upplýsingum, sem hér hafa verið gefnar, fellur alveg um sjálfa sig hvorki meira né minna en meginástæða hæstv. ríkisstjórnar fyrir þeirri árás, sem hér er gerð, því að það er upplýst, að það hefur ekki verið neinn stórfelldur greiðsluhalli eða halli á þjóðarbúskapnum. Það er upplýst í málinu, því að það er ekki halli á þjóðarbúskapnum, þó að tekin séu framkvæmdalán.

Hæstv. ráðh. var að tala hér um, hvað menn álitu um, ef það væri allt í einu horfið að því ráði að taka alla þá fúlgu að láni erlendis, sem gengi til fjárfestingar á einhverju tilteknu árí. Þetta er bara út í hött. En hitt væri þýðingarmeira, að hæstv. ráðh. legði sér það á minni, sem ég upplýsti hér í kvöld, að erlendar framkvæmdalántökur námu, eða réttara allur innflutningur á erlendu lánsfé inn í landið nam frá 7–12% af heildarfjárfestingunni árin 1956–58. Það er þess vegna algerlega ástæðulaust fyrir hæstv. ráðh. — (Gripið fram í.) Hæstv. ráðh. er alltaf að taka fram í. Ég vil nú segja eins og hann sagði við mig áðan: ég er að tala núna. Og ef hæstv. ráðh. hefur löngun til þess að bæta hér einhverju við, þá getur hann það á eftir. Það er nógur tími til þess, enginn tímaskortur, svo að hæstv. ráðh. getur komið á framfæri öllum þeim athugasemdum, sem honum sýnist, og því ástæðulaust fyrir hann að vera að grípa fram í þessar fáu mínútur, sem ég tala, ekki sízt þegar þess er gætt, að þessi hæstv. ráðh. og einn af stuðningsmönnum ríkisstj. töluðu hér nærri því allan daginn í dag, en ætla okkur svo að tala hér blánóttina. Þessi hæstv. ráðherra og einn af stuðningsmönnum stjórnarinnar töluðu hér alveg frá miðjum degi til kaffis og meira til, allan ungann úr deginum, en ætla okkur svo nóttina til þess að koma okkar sjónarmiðum á framfæri, bæta því svo ofan á að setja hér tvo ráðh. á vakt, en allir hinir fara að sofa. En slíkt er auðvitað ekkert annað en móðgun við þingið, að hæstv. ráðh. skuli leyfa sér slíkt. (Gripið fram í.) Já, það er móðgun við þingið, að hæstv. forsrh. og hæstv, fjmrh. og aðrir þeir, sem standa fyrir þessu máli, skuli leyfa sér að fara héðan í burtu af þinginu og ætlast til þess, að málið sé rætt, án þess að þeir séu viðstaddir. (Gripið fram á: Þeir hafa verið hér.) Það er ekki nóg, að þeir hafi verið hér, þeir eiga að vera hér núna, enda sýna sig afleiðingarnar af því, sem ég skal koma að örfáum orðum í lokin. Hér fást sem sé ekki svör. Hér fást ekki svör við þeim fyrirspurnum, sem bornar eru fram, og engu líkara en hæstv. ráðherrar, sem á vakt eru, heyri alls ekki það, sem sagt er. Hv. 1. þm. Vesturl. spurði hér margs áðan í sinni ræðu, og hvorugur sá ráðh., sem á vaktinni er, hefur gert nokkra minnstu tilraun til þess að svara hv. þm. eða því, sem hann spurði um.

Ég ætla hér að rifja upp tvennt, sem ég spurði um og alls ekki hefur verið minnzt á, frekar en það hafi alls ekki komið fram. Ég spurði hæstv. ráðh. að því hér í kvöld, hvað það væri, sem hæstv. ríkisstj. hefði farið fram á við Bandaríkjastjórn í sambandi við gengisbreytinguna. Því er lýst yfir í grg. frv., að það standi yfir samningar við Bandaríkjastjórn um einhvers konar bætur vegna gengisbreytingarinnar og .viðskipti Bandaríkjastjórnar við Íslendinga. Hvað er það, sem hæstv. ríkisstjórn hefur farið fram á í þessum samningum? Og hvernig standa þessir samningar? Það hefur meira að segja verið gefið í skyn hér í þessum umræðum, að það hilli undir einhver sérstök úrslit í þessum viðtölum. Við eigum heimtingu á því hér á Alþingi að fá að vita, hvað ríkisstjórnin hefur farið fram á í þessu sambandi í nafni Íslands. Og raunar hefur hæstv. ríkisstj. náttúrlega ekki nokkra heimild til þess að ákvarða það án samráðs við Alþingi, upp á hverju er stungið í máli eins og þessu, — enga heimild til þess. Það er að fara algerlega á bak við Alþingi. Það átti að ráðgast um það þá við Alþ., hvað skyldi gert í þessu, upp á hverju skyldi stungið, og hafa samráð við Alþ. um slíka samninga. Ég spyr enn: Hvað hefur hæstv. ríkisstj. gert í þessu? Og ég vona, að ég fái svar. Ég býst ekki við því, að það verði tækifæri til þess að fá svar við þessari fsp. við 3. umr. Það er ákveðið, að það skuli vera útvarpsumr., og útvarpsumr. er þannig háttað, eins og við vitum, að það er alveg tiltekinn tími, sem útvarpsumr. stendur, og þar er ekki svigrúm fyrir nein orðaskipti af þessu tagi, eins og því t.d. að fá svar við fsp. Ég spyr þess vegna, og ég vil fá svar.

Enn fremur spurði ég, bað um, fór fram á, að hæstv. ríkisstj. gæfi yfirlýsingu í sambandi við 5% skattinn á útflutninginn. Ég benti á, að þessi skattálagning er alveg furðulega sérstæð. Það er hvorki meira né minna en um 120 millj. að ræða. Það er sagt, að þetta skuli renna í útflutningssjóð til að greiða hallann, þennan halla, sem samkv. upplýsingum á s.l. ári var alls ekki til, — það er nú mál út af fyrir sig, — eigi að renna til að greiða hallann. En það er ekkert ákvæði um það í frv., að þessi skattur skuli falla niður, þegar þessi halli hefur verið greiddur. Hann á að halda áfram, skatturinn. Og hvað er ætlun hæstv. ríkisstj. að gera við peningana, þegar búið er að greiða hallann? Ég bað hæstv. ríkisstj. um að gefa yfirlýsingu um það, að þessir fjármunir yrðu alls ekki notaðir til neins annars en þess að greiða halla útflutningssjóðs. Og ég vil enn fara fram á það, að hæstv. ráðh. gefi slíka yfirlýsingu. Ef þeir gefa ekki slíka yfirlýsingu, þá hlýtur að verða að líta svo á, eins og ég sagði í nótt, að það sé einhver bakþanki í þessu hjá hæstv. ríkisstjórn, eitthvað óhreint í þessu. Og ég verð að segja, að mér sýnist Alþingi eiga alveg skýlausan rétt á því að fá hreina yfirlýsingu um þetta mál.

Ég vil svo að lokum minna aðeins á eitt atriði. Ég hef farið fram á það í þessum umræðum, að hæstv. ríkisstj. vildi fallast á að taka greinina um alræðisvald ríkisstj. til handa í vaxtamáli stofnlánadeildanna út úr frv., til þess að þetta mál geti fengið þinglega meðferð. En það eitt kalla ég þinglega meðferð, að þetta sé sett í frumvörp við þá lagabálka, sem þarna er um að ræða. Nú hefur komið fram í umr., jafnvel síðan ég talaði hér í kvöld, atriði, sem gerir þessa ósk enn eðlilegri en áður, og það er, að hæstv. viðskmrh. lagði áherzlu á, að almenn vaxtahækkun, sem fyrirhuguð væri, hún væri ætluð til bráðabirgða. Það væri ætlazt til þess, að hún yrði fljótlega tekin til baka, að það yrði hægt að lækka vextina aftur. Þetta skýtur vitanlega enn sterkari rökum undir, að þessar fyrirætlanir um hækkanir á vöxtum stofnlánasjóðanna séu teknar til endurskoðunar. Hvaða ástæða getur verið til þess, jafnvel frá sjónarmiði þessara manna, að fara að hækka vexti af lánum til langs tíma, stofnlánum til langs tíma, vegna þess að þeir hækki almenna vexti til bráðabirgða? Í slíkri hugsun er ekkert samhengi. Og ég vil þess vegna enn á ný endurtaka þessa ósk og alveg sérstaklega fara fram á að fá svar við fsp. minni um samningana við Bandaríkjastjórn og hreina yfirlýsingu um, að 5% skatturinn á útflutninginn verði ekki undir neinum kringumstæðum notaður til annars en greiðslu á halla útflutningssjóðs.