15.02.1960
Neðri deild: 31. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (2034)

48. mál, efnahagsmál

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ríkisstjórnin boðar nýja stefnu í efnahagsmálum. Hin nýja stefna er fólgin í eftirfarandi ráðstöfunum:

1) Gengislækkun, sem jafngildir almennri verðhækkun, 25–50%.

2) Allir tollar og skattar uppbótakerfisins gamla skulu standa áfram, en auk þess skal nú hækka tolla og leggja á nýjan söluskatt, samtals 400 millj. kr.

3) Kaup skal standa óbreytt í krónutali, hvað sem allri dýrtíð líður.

4) Ný stefna er boðuð í peningamálum. Útlán skulu minnka, vextir hækka og sérstaklega tekið fram, að lán til framleiðslu skuli minnka og stofnlán til framleiðsluframkvæmda verði óhagstæðarí. Taka skal hluta af sparifé fólks úti á landi og geyma það í Seðlabankanum í Reykjavík. Þá er boðaður samdráttur í innflutningi vara til landsins, sem nemur 20%, og sem innsigli á stefnuna boðar ríkisstj. svo, að tekið verði 800 millj. kr. erlent lán, sem einvörðungu skuli varið til almennrar eyðslu, en megi alls ekki fara til framkvæmda.

Þessi er nýja stefnan í efnahagsmálunum. Hvaða rök færir ríkisstjórnin fyrir þessari nýju stefnu? Rökin eru aðallega þessi:

1) Greiðsluhallinn við útlönd. Sagt er, að greiðsluhallinn hafi s.l. 5 ár numið 200 millj. kr. á ári, eða um 1000 millj. kr., þjóðin sé því sokkin í botnlausar skuldir erlendis og gjaldþrot blasi við.

2) Greiðslubyrðin af erlendu lánunum er orðin þjóðinni óbærileg, segir ríkisstjórnin:

3) Uppbótakerfið var úr sér gengið, það beinlínis lifði á erlendum lántökum, er sagt. Útflutningssjóður hlaut að verða rekinn með tapi, vegna þess að hann greiddi. um 87% meðalútflutningsbætur, en fékk ekki nema 69% tekjur af innflutningi. Hið margfalda gengi var hættulegt.

Þetta eru aðalrök ríkisstj. fyrir málinu og þau, sem hún vill réttlæta hinar gífurlega háu álögur með. Við skulum athuga þessi rök nokkru nánar.

Er það rétt, að gjaldeyrishallinn hafi numið 1000 millj. kr. s.l. 5 ár? Nei, það er alrangt: Samkv. opinberum skýrslum hagfræðideildar Landsbankans er greiðsluhallinn árin 1954–58, en það eru síðustu 5 árin, sem skýrslur eru til um, 584 millj. kr., en ekki 1000 millj. kr. Með þessum tölum um greiðsluhallann er þó sagan ekki nema hálfsögð. Í þessum tölum er ekki reiknað með birgðaaukningu, sem orðið hefur á tímabilinu, og ekkert getið um hinn sérstaka innflutning vegna stórframkvæmda, sem unnið var að í landinu á þessum tíma.

Við skulum líta nánar á gjaldeyrisuppgjör ársins 1958, en hagstofan hefur nýlega sent frá sér greinargerð um það. Það uppgjör varpar nokkru ljósi yfir málið. Öll gjaldeyrisútgjöld ársins 1958 eru talin 1626 millj. kr., en allar innkomnar gjaldeyristekjur 1536 millj. kr. Greiðsluhalli er því talinn bókhaldslega 90 millj. kr. En þess ber að gæta, að á þessu ári jukust birgðir af útflutningsvöru í landinu um 90 millj. kr. Sé sú gjaldeyrisframleiðsla, sem liggur í auknum birgðum, talin með, kemur í ljós, að við öfluðum jafnmikils gjaldeyris árið 1958 og við ráðstöfuðum. Þetta ár var því ekki um neinn hallabúskap að ræða. En svo má ekki gleyma hinu, að í gjaldeyrisútgjöldum þjóðarinnar árið 1958 eru taldar 100 millj. kr. vegna sérstakra stórframkvæmda, sem unnið var að á því árí. Þannig er á því ári talinn til útgjalda stórfelldur innflutningur vegna Sogsvirkjunarinnar nýju, vegna stórfelldra skipakaupa, vegna sementsverksmiðjunnar, vegna annarra raforkuframkvæmda, sem þá var unnið að. Árið 1958 var því síður en svo nokkurt hallabúskaparár.

Uppgjör ársins 1959 liggur ekki enn fyrir, en það eitt er vitað um það ár, að þá jókst fiskaflinn um 11% frá árinu 1958, og gjaldeyristekjur þessa árs ættu því að hafa hækkað um 120–130 millj. kr., ef allt er talið.

Fullyrðing ríkisstj. um greiðsluhallann er því hin argasta blekking og byggð á fölskum tölum.

Þá er að víkja að annarri röksemd ríkisstj. fyrir hinni nýju stefnu, greiðslubyrðinni við útlönd. Greiðsla vaxta og afborgana af hinum erlendu lánum er orðin óbærileg, segir stjórnin. Í grg. ríkisstj. fyrir frv. er birt tafla, sem sýnir, að greiðslur vaxta og afborgana hafi numið 5.1% árið 1957 og 5.7% árið 1958 af gjaldeyristekjunum, en muni nema 9.4% árið 1959 og 10.5% árið 1960.

Hér er um hreinar tölufalsanir að ræða. Það liggur skýrt fyrir, að gjaldeyrisuppgjör fyrir árið 1959 er ekki fyrir hendi enn og auðvitað enn þá siður fyrir árið 1960. En ríkisstj. áætlar gjaldeyristekjur ársins 1959, og hvernig er sú áætlun gerð?

Ríkisstj. veit, að gjaldeyristekjur ársins 1958 voru 1536 millj. kr., og auk þess í birgðaaukningu 90 millj. kr. Heildargjaldeyristekjurnar voru því raunverulega 1626 millj. árið 1958. Árið 1959 varð 11% aukning fiskaflans, og gjaldeyristekjur hefðu því átt að hækka um 120-130 millj. kr., eða verða 1746–1756 millj. kr. En ríkisstj. áætlar þær 1466 millj. kr., eða stórum minni en 1958. Þannig er farið með staðreyndir. Þannig eru tölurnar látnar segja ósatt.

Einn af hagfræðingum þeim, sem ríkisstj. annars hefur haft miklar mætur á, enda er hann mikill gengislækkunarmaður, hefur nýlega birt athugasemdir við þessa röksemdafærslu ríkisstj., og honum hefur sýnilega blöskrað óskammfeilnin.

Þessi hagfræðingur er dr. Benjamín Eiríksson. Hann segir alveg umbúðalaust, að greiðsluhallinn stafi ekki af hallabúskap, heldur fyrst og fremst af stórframkvæmdum. Hann segir, að enginn vafi geti leikið á því, að þjóðin standi betur að vígi nú til þess að standa undir greiðslum vaxta og afborgana með öll sín nýju tæki en hún til dæmis gerði árið 1951. Þannig hrynja til grunna aðalröksemdir ríkisstjórnarinnar fyrir nýju stefnunni, ef við þeim er blakað.

Og þá kemur þriðja aðalröksemdin fyrir frv. ríkisstj.: Uppbótakerfið er dauðadæmt, það gat ekki þrifizt, nema tekin væru erlend lán í sífellu. — Hér er um algera blekkingu að ræða. Erlend lán, sem tekin voru til framkvæmda, höfðu engin áhrif á hag útflutningssjóðs. Hann greiddi 55% á slík erlend lán og fékk tekjur, sem námu 55% af innflutningi vegna þeirra lána. Það er alger misskilningur, að halli hafi þurft að vera á útflutningssjóði, þó að meðalbætur hans á útflutning hafi verið 87%, en meðaltekjur af innflutningi 69%. Útflutningssjóður hafði beinar tekjur frá ríkissjóði, sem svo aftur hafði tekjur af innflutningi, og auk þess hafði svo útflutningssjóður aðstöðu til þess að skattleggja sérstaklega allan gjaldeyri frá Keflavikurflugvelli.

Hið margfalda gengi, sem ríkisstj. talar um að hafi verið á innflutningi, á allt að haldast áfram samkv. því frv., sem hér liggur fyrir. Mismunandi gjald á innflutningi verður því áfram, þrír flokkar hátollavöru verða áfram, niðurgreiðslur verða áfram á sykri og kaffi, og allar útflutningsuppbætur eru ekki heldur lagðar niður. Samkvæmt lögum, sem ríkisstj. setti rétt fyrir jólin, verða greiddar útflutningsuppbætur á landbúnaðarvörur. Það liggur því alveg ljóst fyrir, að af gamla uppbótakerfinu skal þetta standa áfram:

1) Uppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur verða áfram í gildi.

2) Niðurgreiðslur á innlendum vörum verða 265 millj. kr., eins og þær voru, en til viðbótar kemur niðurgreiðsla á erlendum vörum, 40 millj. kr.

3) Allir tollar og skattar uppbótakerfisins skulu standa áfram.

4) Mismunandi gjöld á innflutningi skulu vera áfram.

Þannig hrynja öll rök ríkisstj. fyrir hinni nýju stefnu eins og spilaborg, ef andað er á þau.

Ríkisstj. hefur gripið til þess óyndisúrræðis að taka fé ríkissjóðs ófrjálsri hendi til að gefa út áróðursrit fyrir hinni nýju stefnu sinni. Áróðursritið er sent inn á hvert heimili í landinu sem hvít bók. Í þessari bók gefur að lita ýmsar furðulegustu röksemdir, sem sézt hafa frá opinberum aðilum á Íslandi.

Þannig er gefin skýring í hvítu bókinni á hinu stórhættulega ástandi í peningamálum þjóðarinnar. Þar segir orðrétt: „Alls jukust endurkaup Seðlabankans um 187 millj. kr. árið 1958, og um 213 millj. kr. árið 1959. Þessi eini þáttur lánanna hefur því aukizt á þessu tímabili um nærri 90% og tvímælalaust verið ein meginorsök hinnar miklu peningaþenslu, sem þá átti sér stað.“ Sem sagt, sú staðreynd, að aflinn jókst árið 1958 og 1959 og birgðir af framleiddri útflutningsvöru urðu meiri, orsakaði alla ógæfuna. Hefði aflinn orðið minni og engar birgðir safnazt fyrir, þá hefði allt verið í himnalagi. Það hefði farið heldur laglega fyrir okkur, ef sumarsíldveiðin hefði orðið eins mikil og á hinum gömlu og góðu síldarárum 1943 og 1944, þá hefði hlaupið heldur betur þensla í peningakerfið, og auðvitað hefði það sprungið samkvæmt þessari kenningu.

Á öðrum stað í hinni hvítu bók standa þessi spaklegu orð: „Greiðsluhallinn hlýtur að haldast, hversu mikið sem útflutningsframleiðslan og gjaldeyristekjurnar aukast.“ Og enn er sagt: „Það er meira að segja ekki ósennilegt, að aukin framleiðsla og auknar tekjur geti beinlínís leitt til aukinnar fjárfestingar og þannig aukið hallann.“ Já, hvílíkt ástand hjá þjóðinni! Auknar gjaldeyristekjur, sama hvað þær aukast mikið, meiri framleiðsla, slíkt gæti beinlínís fært allt á bólakaf, eða m.ö.o.: óhöpp þjóðarinnar og vandinn í efnahagsmálunum stafa af of miklu fiskiríi. Það er heldur uppbyggilegt að senda slíkan fróðleik sem þennan inn á hvert heimili í landinu og kosta hann úr ríkissjóði!

Allur málflutningur stjórnarfiokkanna hefur verið hinn furðulegasti í sambandi við þetta mál. Það er t.d. ekki langt síðan hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, sagði orðrétt á þessa leið í ræðu hér á Alþingi: „Af öllum þeim sköttum, sem íslenzka ríkið innheimtir nú af borgurunum, má telja söluskattinn óvinsælastan allra. Það, sem fyrst og fremst er ranglátt við söluskattinn, er, að hann leggst hlutfallslega jafnt á allar þær vörur, sem hann er innheimtur af, hvort sem þær eru nauðsynjavörur eða algerar óhófsvörur,“ sagði ráðh. En nú leggur þessi ráðherra til að leggja á nýjan söluskatt upp á 280 millj. kr. Á stefnuskrá Alþfl. segir, að hann sé á mótí neyzlusköttum, en nú leggur hann til, að tollar á nauðsynjavörum séu hækkaðir.

Fyrir nokkrum mánuðum lýsti Alþfl. yfir, að hann berðist gegn dýrtíðinni. Hann krafðist þess, að kaup yrði greitt í samræmi við verðlag, og verkalýðsleiðtogar flokksins tilkynntu hver af öðrum, að ef verðlag hækkaði, þá skyldi kaupið verða hækkað. En nú á að skella yfir gífurlegri verðhækkun, en banna kauphækkanir samkv. framfærsluvísitölu.

Útkoman af stefnu og áróðri Alþfl. er þessi: Söluskatturinn er verstur, og því veljum við hann. Tollar eru á móti stefnuskrá flokksins, og því skulu þeir hækka. Alþfl. er á móti dýrtíð, og því skal verðlagið hækkað. Laun skulu fylgja verðlaginu, og af því þarf að afnema vísitöluna. — Þannig afhjúpa Alþýðuflokksforingjarnir sig sem aumkunarverða loddara.

Og ekki er málflutningur sjálfstæðismanna merkilegri. Árin 1957 og 1958 barðist Sjálfstfl. fyrir kauphækkunum og sagði, að vondir kommúnistar lægju á kjörum verkamanna. Í ársbyrjun 1959 lögbatt Sjálfstfl. kauplækkun, líka hjá lægst launuðu verkamönnunum. Árin 1957 og 1958 fáraðist Sjálfstfl. yfir getuleysi vinstri stjórnarinnar við lánsútvegun erlendis. Morgunblaðið minnti þá á, að Ólafur Thors hefði getað fengið og ætlaði að taka 400 millj. kr. lán í Vestur-Þýzkalandi. En nú segja þeir sjálfstæðismenn, að landið sé komið í botnlausar skuldir erlendis, svo að við blasi gjaldþrot út á við. Og til þess svo að undirstrika alvöru flokksins í þessum efnum boðar nú forsrh. þau tíðindi, að hann ætli að taka 800 millj. kr. eyðslulán erlendis, og þannig ætlar hann vist upp úr því lánakviksyndi, sem hann var að tala um hér áðan.

Er nú hægt að flengja sjálfan sig á öllu eftirminnilegri hátt en þetta? Atvinnulíf þjóðarinnar er eins og margbrotin vél. Það að hafa lært hagfræði og kunna á reikningsstokk er ekki það sama og kunna á vél atvinnulífsins. Þar þarf meira til að koma. Nú á að fikta við þessa vél að ráðum þeirra, sem eru harla ókunnugir atvinnuvegum þjóðarinnar. Þegar þeim er sagt, að þær ráðstafanir, sem þeir nú ætla að gera, muni m.a. leiða til þess, að allur togarafloti landsins hætti veiðum fyrir heimamarkað og muni sigla út með fiskinn unninn, því að það muni skila eigendum skipanna meiri gróða, þá gleypa þeir vind af undrun. Þegar þeim er bent á, að hækkun vaxta og lækkuð lán til framleiðslunnar muni leiða til þess, að sjávarafurðir verði minna unnar í landinu, saltfiskur t.d. fluttur út óverkaður, svo að sloppið verði undan gífurlegri vaxtabyrði í marga mánuði, þá veráa sérfræðingarnir alveg hissa.

Af því fikti, sem nú á að gera, hlýzt þetta í stuttu máli: Verðhækkanir, verkföll, framleiðslustöðvanir, minnkandi gjaldeyrisöflun, rýrnandi þjóðartekjur, og meðan á þessu stendur, á þjóðin að lifa á 800 millj. kr. erlenda láninu.

En er þá allt í lagi í efnahagsmálum landsins? mun margur spyrja. Nei, því fer fjarri, að allt hafi verið eins og það átti að vera. En slíkt heljarstökk sem ríkisstj. ætlar nú að taka nær auðvitað engri átt. Það, sem gera þurfti, var þetta:

1) Við áttum að koma föstu skipulagi á okkar þjóðarbúskap, eins og flestar þjóðir hafa gert að meira eða minna leyti. Þannig áttum við að stjórna fjárfestingunni í landinu, en láta ekki hendingu ráða, hvað gert var. Með heildarstjórn á þjóðarbúinu mátti spara útgjöld, sem nú hafa farið í óarðbæra hluti.

2) Setja átti upp nýtt og öflugt gjaldeyriseftirlit, sem tryggði þjóðinni, að hún fengi að njóta þess gjaldeyris, sem hún raunverulega hefur aflað. Það er alkunna, að gjaldeyri hefur verið skotið undan sem tugum og jafnvel hundruðum millj. nemur á árí.

3) Taka átti upp skattaeftirlit, sem drægi til skatts þær 400–500 millj. kr., sem Gylfi Þ. Gíslason hefur áætlað að gróðamenn og atvinnurekendur landsins skjóti undan skattframtölum. Með því að láta þessa aðila greiða skatt, hefði verið auðvelt að lækka skattinn á lágum tekjum.

4) Gera átti innflutningsverzlunina ódýrari og hagkvæmari fyrir þjóðina, eins og Gylfi Þ. Gíslason, Jónas Haralz og Ólafur Björnsson sögðu 1947 að væri nauðsynlegt. Þá blöskraði þeim, að heildverzlanir voru orðnar 172, en nú eru þær yfir 300. Nú eru fleiri heildverzlanir að ráðstafa gjaldeyri landsmanna en tala allra okkar fiskiskipa er á aðalvetrarvertíðinni, sem aflá þessa sama gjaldeyris.

5) Það þarf með kerfisbundnum ráðstöfunum að draga úr rekstrarkostnaði atvinnuveganna. Það á að minnka rekstrarútgjöld fiskiskipa, fiskvinnslustöðva og annars atvinnurekstrar og bæta hag þeirra með aukinni framleiðni, en án þess að lækka laun þeirra, sem vinna að framleiðslunni.

6) Það á að vinna áfram skipulega að framleiðsluaukningu, bæta kjör sjómanna og annarra, sem vinna beint að framleiðslunni, byggja áfram ný framleiðslufyrirtæki og aðstoða framleiðsluna með auknum vísindalegum rannsóknum. Möguleikar okkar til aukinnar framleiðslu eru stórkostlegir. Margir tugir nýrra fiskiskipa eru að bætast í flotann. Þau eru stærri og betur útbúin en þau eldri. Þessi nýju skip munu færa okkur aukna framleiðslu, en ekki aðeins aukin útgjöld, eins og reiknimeistararnir halda. Ný veiðitækni er að koma til sögunnar. Ekki þætti mér ósennilegt, að síldveiði okkar gæti tvöfaldazt eða þrefaldazt á skömmum tíma. Og ný, ónotuð fiskimið full af flatfiski og öðrum góðfiski verða eflaust tekin í notkun bráðlega.

Þannig höfum við alla möguleika til framleiðsluaukningar, ef vél atvinnulífsins verður ekki stöðvuð með fikti þeirra, sem nú ráðgera grundvallarbreytingar á gangi hennar, en í veg fyrir slíkt verður almenningur í landinu að koma.