15.02.1960
Neðri deild: 31. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

48. mál, efnahagsmál

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég ætla ekki að ræða um það mál í heild, sem hér liggur fyrir, heldur sérstaka þætti í frv. og fyrirætlunum hæstv. ríkisstj. og aðdraganda þeirra. Má vera, að ég endurtaki eitthvað af því, sem ég sagði við 1. umr. fyrir nokkrum dögum.

Á árinu sem leið gerði Alþ. umdeilda breyt., svo að ekki sé meira sagt, á stjórnarskrá lýðveldisins. Sú breyt. var í því fólgin að svipta 27 af 28 kjördæmum landsins sinum sögulega rétti til að eiga sérstakan fulltrúa á löggjafarsamkomunni og þar með því takmarkaða sjálfstæði innan ríkisheildarinnar, sem í þessu var fólgið. Og nú, eftir að búið er að kjósa í fyrsta sinn samkvæmt hinni nýju kjördæmaskipun, er hafizt handa um að setja eins konar viðbótarstjórnarskrá í efnahagsmálum, og sumt af því, sem hún mælir fyrir um, verður ekki aftur tekið.

Að því, sem nú er að gerast, standa aðeins tveir af þeim þrem þingflokkum, sem samþ. afnám kjördæmanna. Þeir tveir hafa nú þann meiri hl., sem þeir höfðu ekki samkvæmt hinni fyrri skipan, og telja sig þá ekki þurfa meira lið. Þarna missýnist þeim að vísu, því að víð lausn efnahagsmála virðist ekki veita af því, að allir flokkar þingsins standi saman, ef unnt væri. Ýmsir Alþb.-menn og fleiri skilja e.t.v. betur nú, hvað þeir voru að gera með því að styðja stjórnarskrárbreyt. á sínum tíma.

Þegar kjördæmin voru lögð niður, voru sumir forstöðumenn þess verks einstaka sinnum ómyrkir í máll. Byggðavaldið var að þeirra áliti of sterkt á Alþingi. Þetta byggðavald átti að þeirra dómi sök á því, að fjármagninu var dreift um of. Of mikil fjárfesting — pólitísk fjárfesting — úti um land, sögðu þeir, og of langt að bíða ávaxtanna, þar sem menn eru að byggja upp frá grunni og bæta landið. Léleg kaupmennska að halda úti nýjum skipum á útkjálkamiðum þrátt fyrir útfærslu landhelginnar eða byggja síldarverksmiðjur á Austfjörðum. Ekki hægt á þann hátt að lára kapítalið alheimta daglaun að kvöldum.

Þetta var málefnaleg afstaða, stjórnmálastefna, þó að ég sé henni andvígur og margir aðrir. En brautryðjendur og liðsmenn þessarar stefnu létu ekki mikið yfir henni í kosningunum, létu jafnvel í veðri vaka, að hún væri ekki til, með nýju kjördæmaskipuninni væri bara verið að vernda lýðræðið eða endurreisa það, eins og hæstv. forsrh. komst að orði á gamlárskvöld.

En aðrir þóttust eygja blikur á lofti. Sumir gátu ekki skilið, að þingmaður þeirra væri lýðræðinu hættulegur, þó að þeir fengju að kjósa hann út af fyrir sig, frekar en t.d. þm. í Bretlandi og Bandaríkjunum, sem hafa einmenningskjördæmi. Margir skildu, að hér bjó annað undir, og létu það í ljós í kosningunum 28. júní.

Glöggt er það nú, hvað þeir vildu, þessir frumkvöðlar stjórnarskrárbreyt., á árinu sem leið. Fyrstu tilburðirnir í þessa átt sögðu til sín strax í vor, þegar þessir frumkvöðlar þóttust báðum fótum í jötu standa. Þá var tilkynnt af hálfu þess flokksfélags, sem með völd fór og fer enn, að dregið yrði úr framkvæmdum samkvæmt 10 ára rafvæðingaráætluninni, m.a. hætt við vatnsvirkjun í Hornafirði, sem búið var að kaupa vélar í, strikaðar út aðrar orkuveitur á Norðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum. Svo komu bráðabirgðalög í haust, þar sem bændum var gert að afhenda 3–4% af búsafurðum sínum endurgjaldslaust fyrir 15. desember. Þeir, sem að því verki stóðu, hlutu að vísu andstöðu, sem varð þeim ofjarl, a.m.k. í bili. Þess er að vænta, að staðið verði við það samkomulag, sem gert var, og að ekki verði talið vænlegt fyrst um sinn að reka þá nýlendustefnu gagnvart bændum, sem reynd var með bráðabirgðalögunum. Það ber venjulega einhvern árangur að halda vöku sinni.

En stefnan, sem undir bjó við afnám kjördæmanna, heldur áfram að segja til sín, stefna þeirra, sem vilja færa saman fjármagnið, atvinnutækin og fólkið. Togaraútgerðarfélagið á Akureyri gat ekki á árinu sem leið fengið leyfi eða fyrirgreiðslu til að kaupa einn togara, þótt slík aðstoð væri veitt um sama leyti til kaupa á nokkrum togurum hér syðra. Því var neitað. En einn togaraútgerðarmaður í bænum fékk að endurnýja skip sitt til að flytja suður. Svo flytur Morgunblaðið þau skilaboð frá þessum framtaksmanni, að hann telji óhagkvæmt að gera út togara frá Akureyri. Þetta er ekki uppörvandi fyrir Norðlendinga og á vist ekki að vera það.

En stefna þeirra, sem hafa andúð á dreifingu fjármagnsins, heldur áfram að sýna sig í þessu frv., sem hér liggur fyrir, og það svo að um munar. Ég ætla að nefna tvö áberandi dæmi.

Hér á landi hafa á undanförnum þrem áratugum eða rúmlega það verið byggðir upp með löggjöf nokkrir stofnlánasjóðir, sem veita affallalaus lán til langs tíma, sumir með lágum vöxtum, aðrir með vöxtum, sem eru a.m.k. lægri en þeir almennu útlánsvextir, sem nú er gert ráð fyrir. Í þessu sambandi má nefna byggingarsjóð sveitabæja, ræktunarsjóð, sem veitir lán til að rækta land og koma upp byggingum vegna framleiðslunnar, fiskveiðasjóð Íslands, sem veitir lán til fiskibáta og til að koma upp húsum og vélum til vinnslu sjávarafurða, byggingarsjóð verkamanna og íbúðarlánasjóð húsnæðismálastofnunarinnar, sem veitir lán í kaupstöðum og þorpum, og raforkusjóð. Um þessa sjóði eru mörg lög frá ýmsum tímum, og í þessum l. eru lánskjörin ákveðin. Nú er í einni grein þessa frv., sem hér liggur fyrir, lagt til, að ríkisstj. fái alræðisvald til að ákveða vexti og lánstíma hjá öllum þessum sjóðum, og þar með raunverulega numið úr gildi eitt meginatriði allra þessara laga. Og það er ekki farið dult með, að þetta sé gert til þess, að hægt sé að hækka vextina og stytta lánstímann án þess að bera það undir Alþingi, — líka hjá þeim, sem samkv. venju áttu að fá lán fyrir síðustu áramót, t.d. í byggingarsjóði og ræktunarsjóði, en hafa ekki fengið þau enn út á unnar framkvæmdir. Það mun eiga að bera því við, a.m.k. um tvo af þessum sjóðum, byggingarsjóð sveitabæja og ræktunarsjóð, að hjá þeim sé greiðsluhalli og yfirvofandi eyðing höfuðstóls vegna mismunar á kjörum tekinna lána og rekstrarlána og vegna gengisbreytingar og að þetta verði nú að leggja á bændur, þ.e.a.s. þá bændur, sem lán taka hér eftir, með því að breyta lánskjörunum. Greiðsluhalli í þessum sjóðum er skiljanlegur, enda ekki nýtt fyrirbrigði og hefur áður verið ráðin bót á. En nú virðist hið ótrúlega eiga að ske, þegar Íslendingar eru orðnir betur stæðir en fyrr, að þá sé þjóðfélaginu talið um megn að veita þann stuðning til uppbyggingar í landbúnaði sínum, sem aðrar þjóðir veita og hér var ákveðinn og staðið við á tímum fátæktar, þegar margt var enn ógert, sem nú er komið í kring.

Það kann að hljóma vel í margra eyrum að fella niður allar verðbætur á útfluttar vörur. Ekki skal ég hafa á móti því, að efnahagskerfið sé gert einfaldara en það er nú, verðbætur umfangsminni. Ég er ekki heldur haldinn þeirri hjátrú, að aldrei megi hrófla við skráningu erlends gjaldeyris eða að það sé eitthvað verra fyrir almenning en að leggja tilsvarandi varanleg aðflutnings- eða yfirfærslugjöld á vörur og yfirfærslur. En allt slíkt þarf auðvitað að gera með varúð.

Ég ræði ekki almennt þá gengisbreytingu, sem nú er fyrirhuguð, en ég vil benda á mikilsvert atriði í þessu sambandi. Í grg. frv. segir, að gengisskráningin sé við það miðuð, að þorskveiðar bátanna í heild berí það sama úr býtum og þær gera nú með öllum útflutningsbótum. Og jafnframt er upplýst, að allar greiddar útflutningsbætur séu 94.5% af heildarútflutningsverðmæti alls bátaaflans á skráðu gengi. Nú hafa verið greiddar sérbætur á smáfisk, ýsu, steinbít, kola og sumarveiddan fisk, og ef sá afli er tekinn út af fyrir sig, eru núgildandi bætur á hann miklu meiri en 94.5% af útflutningsverði hans á skráðu gengi. Að lokinni gengisbreyt. hlýtur þá verðið á þessum hluta bátaaflans að lækka til muna, ef rétt er áætlað. Þetta kemur fyrst og fremst niður á sjávarplássunum á Norður-, Austur- og Vesturlandi, því að þar er sá fiskur, sem sérbótanna hefur notið, mjög mikill hluti aflans. Steinbíturinn á Vestfjörðum er nú talinn allt að helmingi bátaaflans þar, smáfiskurinn sums staðar á Norðurlandi 80–90% á vissum tímum. Ég tel, að jafnvel þótt verðuppbótakerfið verði afnumið að öðru leyti, beri að halda þessum sérbótum, a.m.k. að einhverju leyti, eða taka upp annað fyrirkomulag jafngilt, enda ekki úr háum söðli að detta, þar sem niðurgreiðslukerfinu er haldið innanlands þrátt fyrir allt.

Nú er búið við 2. umr. þessa máls að fella till. frá Framsfl. í þessa átt. Þeir, sem á undanförnum árum hafa talað um Framsóknarýsu og Eysteinsstútung, voru þar að verki. Fiskimenn á þeim slóðum, þar sem verulegur hluti aflans er smáfiskur, ýsa eða steinbítur, eiga eftir þessu að sitja við lægra borð en aðrir. Ekki geta þeir þó valið fiskinn úr sjónum. Þeir framleiða yfirleitt góða vöru, og enginn neitar, að þörf sé á gjaldeyrinum, sem fyrir hann fæst. Hér er — og því miður ekki í ógáti — slegið á starfandi hendur í hinum dreifðu sjávarplássum fyrir norðan, austan og vestan. Mörgum mun þykja kveðjan köld, og þarna er ekki verið að hugsa um jafnvægi í byggð landsins.

Ég nefni þessi dæmi. En hér er fleira á ferðum. Nú virðist eiga að draga úr fjárfestingunni, aðallega með því að fækka þeim nógu mikið, sem hafa möguleika til að ráðast í framkvæmdirnar. Menn ætla að hliðra sér hjá þeim vanda að velja eftir nauðsyn. Þetta er fjárfestingartakmörkunin, sem koma skal. En hverjir verða eftir, þegar búíð er að framkvæma valið á þennan hátt? Það verða ekki endilega þeir, sem vilja vinna þörfustu verkin og hafa þörfina mesta. Það verða ekki endilega þeir, sem eru að reyna að vernda og efla byggðina í hinum dreifðu sveitum, þorpum og kaupstöðum. Nei, þeir verða trúlega fyrst og fremst að bíða betri tíma. Og nú er það líka boðað, að fyrirskipað verði að flytja hluta af innstæðufé útibúanna, sparisjóðanna og innlánsdeilda kaupfélaganna í Landsbankann í Reykjavík.

Í frv, til fjárlaga eru ríkisframlög til hafna, nýrra vega og brúa óbreyttar upphæðir í minni krónum.

Mér kemur ekki til hugar, að þeir, sem hér standa að málum, vilji öðrum illa. Þeir telja sig sjálfsagt hafa á réttu að standa. Hér er um stjórnmálastefnu að ræða, sem sumir menn telja skynsamlega og þjóðfélaginu í heild holla, — því þjóðfélagi, sem þeir vilja skapa. Hér er um aðgerðir að ræða, sem af ráðnum hug er ætlað að hafa sín áhrif. Hver maður eða flokkur hefur rétt til að hafa sína skoðun og fylgja henni eftir. Þeim, sem á öðru máli eru, þýðir ekki að æðrast, þótt þeim þyki hönd valdhafans köld. Þeirra úrræði er að vinna annarri stefnu fylgi. Koma dagar, koma ráð. En hér er verið að hefja kalt stríð gegn lífsskoðun þeirra, sem vilja byggja landið sem víðast og hefja upp merki framtíðarinnar í hverri byggð, tengja líf sitt við landið.

Hæstv. forsrh., Ólafur Thors, ræddi nýlega hér á Alþingi um hina góðu, gömlu daga, þegar hann var að alast upp fyrir 40–50 árum. Þá voru viðskiptin svo frjáls, sagði hann. Þá var gott að vera kaupsýslumaður. En annað fólk í landinu — var ekki eitthvað að hjá því þá? Er það ófrjálsara nú eða verr sett? Hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, sagði í útvarpsræðu um fjárl., að með fyrirhuguðum ráðstöfunum í efnahags- og fjármálum væru gerðar stórbreytingar á þjóðfélagi Íslendinga, — orðrétt þannig. Þar hafa menn það. Fjárfestingarliðir sem almenn regla óbreyttir, sagði hann orðrétt um fjárlagafrv. sitt. Það þýðir, að opinberar framkvæmdir minnka um land allt. Hann skaut því líka inn í einhvers staðar, að of miklu fé væri eytt til að útrýma refum og minkum. Það er víst öldungis rétt hjá ráðh., ef stefnt er að því að fækka bændum um helming, eins og kunnur sjálfstæðismaður í Reykjavík sagði í ræðu s.l. vor.

Hér er komið að kjarna mikilla átaka, sem óhjákvæmileg eru í stjórnmálum landsins. Hér er alvara á ferðum. Þetta er ekki þras um menn eða dægurmál. Í hinni bláu bók Sjálfstfl. í vorkosningunum s.l. ár stóð með feitu letri á fremstu lesmálssíðu, með leyfi hæstv. forseta: „Tímamót í íslenzkum stjórnmálum.“ Þar á eftír segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fyrri kosningarnar í sumar marka lokaþátt stjórnmálatímabils í sögu þjóðarinnar, sem margir menn telja að hefjist með valdatöku Framsfl. fyrir um það bil 30 árum.“ Mikið rétt hjá þeim bláu. Framsfl. vann stórsigur í kosningum 1927. Þessi 30 ár, sem talað er um í bláu bókinni, eru mesta framfaratímabil í sögu Íslendinga. Verk þessa 30 ára tímabils tala í hverri byggð um allt Ísland. En í viðburðum ársins 1959, í viðburðum þessa árs í sambandi við ýmsa þætti þessa frv., lýstur saman tveimur andstæðum stefnum, byggðastefnunni og þeirri samdráttarstefnu í tvöfaldri merkingu, sem kemur harðast niður á hinum dreifðu byggðum. Sú viðureign á eftir að standa lengi í þessu landi. Saga hennar verður löng. Brot úr þessari sögu gerist hér í hv. Nd. Alþingis í kvöld. — Verið þið sæl.