16.02.1960
Efri deild: 23. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

48. mál, efnahagsmál

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur nú lagt fyrir þessa hv. d. efnahagsmálafrv. ríkisstj. til 1. umr., og ég verð að segja það, að hæstv. forsrh. gat varla haft framsöguræðuna takmarkaðri á allan hátt en hann hafði hana. (Forsrh.: Maður hefur nú ekki meira vit en guð gaf.) Ja, meira var það í hv. Nd., því að hérna fór ekki nema 131/2 mín. í framsöguræðuna hjá hæstv. ráðh., og hann nefndi það eitthvað sjálfur, að mig minnir, að þetta kynni nú að þykja hálfgerð óvirðing við deildina. (Forsrh.: Eyðist, þá af er tekið.) Er nú svona komið?

Þetta mál er stórbrotnara en flest önnur frv., sem lögð hafa verið fyrir hæstv. Alþingi í seinni tíð. Þetta snertir hagsmuni hvers einasta mannsbarns í landinu og margra — fjölmargra — á mjög tilfinnanlegan hátt. Það boðar, að upp skuli tekin gömul efnahagsmálastefna, sem var mestu ráðandi hér fyrir fyrri heimsstyrjöld og nokkuð eftir hana. Þessi stefna boðar dýrtíð, stórkostlegan samdrátt í framkvæmdum, lánsfjárkreppu á flestum sviðum og stöðvun kaupbreytinga eftir mælikvarða dýrtíðarinnar.

Þm. þessarar hv. deildar hafa að sjálfsögðu fylgzt nokkuð með þeim umr., sem fram hafa farið í hv. Nd. um þetta mál. Þeir eru því að sjálfsögðu orðnir nokkuð kunnugir þeim röksemdum hæstv. ríkisstj., sem fluttar eru fyrir þeirri stefnu, sem hér er boðuð. Það hefur verið deilt oft hart á hæstv. ríkisstj. vegna þeirra byrða, sem hún leggur á þjóðina með þessum aðgerðum. Sá ráðh., sem einna helzt tók að sér að svara þeim ádeilum í hv. Nd., var hæstv. viðskmrh., enda er hann hagfræðingur og mun því hnútunum kunnugastur hvað þetta snertir. Í ræðu, sem hann hélt í hv. Nd. s.l. föstudag, gerði hann þessu nokkur skil, og blað hans, Alþýðublaðið, birti útdrátt úr ræðunni daginn eftir. Fyrirsögn blaðsins var stór, hún var alveg geigvænlega stór, menn vissu ekki til, að Alþýðublaðið ætti til svona stórt letur, enda mun það hafa fengið það lánað hjá Morgunblaðinu. En fyrirsögnin var: „Engar álögur við afnám bótakerfis.“ Engar álögur við afnám bótakerfis. Þetta eru mikil tíðindi og góð. Þetta er alveg eins og í fyrra, fyrirsagnirnar voru þá t.d. á þessa leið: Stöðvun verðbólgu án nýrra skatta. — Nákvæmlega sama línan. Hann vinnur sannarlega fyrir laununum sinum, ráðh. sá, sem kemur með svona till. En lesi maður útdrátt Alþýðublaðsins úr þessari ræðu hæstv. viðskmrh., kemur nokkuð annað upp á teningnum. Alþýðublaðið hefur eftir hæstv. ráðh. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Í eðli sínu er gengisbreytingin alls engin byrði fyrir þjóðina í heild, ekki frekar en innheimta yfirfærslu- og innflutningsgjalda til greiðslu útflutningsuppbóta er nokkur byrði fyrir þjóðina í heild. Í báðum tilfellunum er um að ræða endurskiptingu á þjóðartekjunum, flutning á tekjum frá einni atvinnugrein til annarrar, frá einni þjóðfélagsstétt til annarrar.“

Þannig fórust hæstv. ráðh. orð, eftir því sem Alþýðublaðið segir.

Manni dettur nú í hug, þegar hæstv. ráðh. talar um, að hér sé ekki um neinar byrðar að ræða, hvað hæstv. forsrh. hafi þá átt við í haust, þegar hann var að tala um 250 millj. kr. byrðar. En er hæstv. viðskmrh. að neita því með þessum ummælum sínum, að verið sé að leggja byrðar á þjóðina? Nei, hann er ekki að gera það. Hann er aðeins að neita því, að verið sé að leggja byrðar á þjóðina í heild með gengisbreytingunni. Hins vegar játar hann, að verið sé að leggja byrðar á nokkurn hluta þjóðarinnar. Og hann segir, að það sé gert með því að flytja tekjur frá einni atvinnugrein til annarrar, frá einni þjóðfélagsstétt til annarrar, svo að notuð séu orð hæstv. ráðherra sjálfs.

En eru þá till. hæstv. ríkisstj. lofsverðar fyrir það, að í þeim felast byrðar fyrir suma þjóðfélagsþegnana, en hagsbætur fyrir aðra? Þær gætu verið það, till. gætu verið lofsverðar með þessum hætti, þ.e.a.s. ef byrðarnar eru lagðar á þá, sem bezt geta borið þær, og ef hagsbæturnar ganga til hinna, sem verst eru settir. En eru það till. hæstv. ríkisstj. nú? Ég býst við, að mönnum finnist eitthvað annað.

Hæstv. ríkisstj. stendur í flutningum. Hún er að flytja, — flytja tekjur frá einni atvinnugrein til annarrar, frá einni þjóðfélagsstétt til annarrar, segir hæstv. ríkisstjórn. En til hverra er hún þá að flytja tekjur, og frá hverjum er hún að taka tekjur, því að á annan hátt getur hún ekki verið að flytja tekjur á milli? Er hún að flytja tekjur frá hinum ríku til hinna fátæku? Er hún að flytja tekjur frá þeim, sem lifa um efni fram, til hinna, sem lifa ekki um efni fram? Er hún að flytja tekjur til verkamanna, iðnaðarmanna, launamanna yfirleitt, til bænda eða sjómanna? Eiga þeir að búa við betri kjör á eftir? Hæstv. ríkisstj. játar í grg. með þessu frv., að svo muni ekki verða. Hún segir þvert á mótí í þessari grg., að þeir einu launamenn, sem fái álögurnar upp bættar, séu þeir, sem eigi nógu mörg börn. Alveg rétt. Nú vita menn, að ríkir menn geta líka átt börn, svo að réttlátur jöfnuður fæst ekki með því einu saman. Fjölskylduuppbætur eru sannarlega réttmætar, ef þær eiga að mæta álögum á láglaunafjölskyldur.

Hæstv. ríkisstj. er ekki að flytja tekjur til láglaunamanna, ekki einu sinni til fjölskyldumanna., Þeir, sem flest eiga börnin, kunna að fá álögurnar upp bættar að einhverju leyti, og kem ég þó betur að því síðar, en heldur ekki meir. Það er líka erfitt að ræða frekar um þær að þessu sinni, þar sem enn er ekki komið fram frv. hæstv. ríkisstjórnar um breyt. á tryggingalöggjöfinni.

Meðal frumstæðustu þarfa fjölskyldumanna er að eignast þak yfir höfuðið. Fyrir hér um bil 40 árum voru það tiltölulega fáir menn, sem létu sig dreyma um slíkan munað. Í sveitum landsins urðu menn þó að gera það, því að þar var ekki um leiguhúsnæði að ræða. Þar leituðust bændur við að ráða fram úr vandanum með því að koma sér upp moldarkofum. Í þeim húsakynnum er fjöldi núlifandi Íslendinga uppalinn. Í bæjunum var leiguhúsnæði athvarf hinna efnalitlu. Á síðustu áratugum hefur orðið hér mikil breyting á. Í sveitunum eru torfbæirnir horfnir. Í bæjunum býr nú mikill meiri hl. manna í eigin íbúðum. Þessar framfarir eru ómetanlegar og hafa tvímælalaust bætt mjög heilsufar þjóðarinnar, enda eru íbúðir manna til sjávar og sveita mun betri nú en húsakynni embættismanna voru fyrir nokkrum áratugum.

Eitt af fyrstu viðfangsefnum nýgiftra hjóna er að eignast íbúð. Mörg hjónaefnin fresta giftingu jafnvel um nokkurn tíma til að geta ráðizt í þessar framkvæmdir. Hvernig er aðstaða ungra, efnalítilla hjóna til að koma sér upp íbúð nú, og hvernig verður þessi aðstaða þeirra eftir „viðreisnarráðstafanir“ hæstv. ríkisstjórnar?

Ég skal taka raunverulegt dæmi af ungum hjónum hér í Reykjavik, sem eru núna að byrja íbúðarbyggingu, og ég skal sýna fram á, hvernig þau sjálf líta á þær hagsbætur, sem víðreisn hæstv. ríkisstjórnar færir þeim.

Áætlaður byggingarkostnaður íbúðarinnar er 350 þús. kr. Hjónin hyggjast greiða þennan byggingarkostnað á eftirfarandi hátt: með láni úr byggingarsjóði húsnæðismálastofnunarinnar 70 þús. kr., með eigin framlagi, sem er aðallega vinna við bygginguna, 70 þús. kr., með fjárhagsaðstoð frá foreldrum 50 þús. kr. og með bráðabirgðalánum, aðallega víxillánum til skamms tíma, 160 þús. kr. Þannig er byggingarkostnaðurinn fenginn. Árleg útgjöld þessara hjóna af þessum lánum eru nú þessi: Afborganir af 70 þús. kr. byggingarsjóðslánum 3733 kr. Afborganir af 160 þús. kr. víxillánum og bráðabirgðalánum til tíu ára 16 þús. kr. Vextir af 70 þús. kr. byggingarsjóðslánum eru á fyrsta ári 4375 kr. Og vextir af 160 þús. kr. bráðabirgðalánum, 7% vextir, eru 11200. Alls eru afborganir og vextir af byggingarlánunum, eins og nú er ástatt, 35308 kr., og er þá reiknað með vöxtunum eins og þeir eru fyrsta árið.

Það er óneitanlega djörf áætlun hjá þessum ungu hjónum að ætla sér að greiða sem svarar tæplega 3000 kr. á mánuði í vexti og afborganir af íbúðarlánunum, þótt sú upphæð fari smálækkandi vegna afborgana. En af því að maðurinn hefur haft 60–70 þús. kr. árstekjur, þá býst hann við að geta þetta, þegar hann þarf ekki lengur að eyða frístundum sínum í vinnu við bygginguna og getur farið að vinna eftirvinnu fyrir sæmilegt kaup. Þannig reiknaði hann þetta dæmi.

En hvernig lítur þetta dæmi út hjá þessum ungu hjónum, eftir að ráðstafanir hæstv. ríkisstj. eru komnar til framkvæmda? Hvað hækkar byggingarkostnaðurinn, og hvað hækka árleg útgjöld hjónanna vegna íbúðarinnar? Um þetta hef ég leitað mér upplýsinga hjá byggingameisturum hér í bænum, auk þess sem ég hef aflað mér upplýsinga um væntanlegar verðhækkanir á byggingarefni.

Ég hef fengið þau svör hjá byggingameisturunum, að byggingarefnið geti ekki verið minna en 35–40% af byggingarkostnaðinum nú, og ég hef fengið þær upplýsingar um væntanlegar verðhækkanir á byggingarefni, að allt erlent byggingarefni muni hækka um 45–48 og jafnvel 50%. Talið er, að varla sé hægt að áætla minni hækkun á byggingarefni almennt, sem er langsamlega mest útlent, en 43%. Séu þessar upplýsingar réttar, þá stenzt það ekki, sem sagt er í grg. þessa frv., að byggingarkostnaður muni ekki hækka nema um 10–11%. Ef byggingarefnið er ekki nema 30% af byggingarkostnaðinum og ef verðhækkunin á byggingarefninu er ekki að meðaltali nema 35%, þá er hægt að fá út 10–11%, það er alveg rétt. En hækki byggingarefnið um 43% og sé byggingarefnið nú 35% af byggingarkostnaðinum, þá hækkar byggingarkostnaðurinn um 15%, og það ætla ég að sé nær sanni.

En ég skal reikna með þessari 11% hækkun, sem hæstv. ríkisstj. segir að muni verða, og sjá, hvernig dæmið lítur út hjá hjónunum, hver hækkunin verður á íbúðinni þeirra og hve mikið árleg útgjöld þeirra vaxa.

Ef byggingarkostnaður þessarar íbúðar hækkar ekki nema um 11%, þá nemur það 38500 kr., en ef hann hækkar um 15%, þá nemur það 52500 kr. Og hvar eiga þessi ungu hjón að fá þessa upphæð? Samkv. stefnu hæstv. ríkisstj. á að draga úr lánveitingum, svo að ekki þarf að búast við, að hjónin fái hærri lán úr byggingarsjóðnum. Ekki getur eigið framlag hjónanna orðið meira við það, að dýrtíðin vex, en kaupið á að standa í stað. Og sama er að segja um fjárhagsaðstoð foreldranna. Ekki þarf heldur að reikna með víxillánum í bönkum. Sennilegast er, að vegna þessarar hækkunar á íbúðinni verði hjónin að hætta við að byggja.

En við skulum gera ráð fyrir því bezta, að þau fái einhvers staðar víxillán eða einhvers konar bráðabirgðalán með víxilvöxtum til þess að geta komið íbúðinni upp og að þau lán verði að meðaltali til 10 ára. Nú er boðuð vaxtahækkun af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, — vaxtahækkun, sem hún ræður alveg sjálf, á að fá alræðisvald til að ákveða, og það er talað um það almennt, og það hefur verið rætt um það hér á hæstv. Alþingi, að þessi vaxtahækkun eigi að nema því, að víxilvextir hækki úr 7% upp í 12%. Sé þetta rangt, þá skal ég sannarlega taka til greina leiðréttingu, ef hún kemur fram.

Hver verður þá hækkun á útgjöldum hjónanna vegna ráðstafana þessara, sem nú er verið að gera? Ég skal reikna með 11% hækkuninni á íbúðinni, eins og hæstv. ríkisstj. segir að hún muni verða. Afborgun af lánum vegna þessarar hækkunar á byggingarkostnaðinum nemur 3850 kr. á ári, ef þeim tekst að fá þessi lán til 10 ára að meðaltalí. Vextir af þessum sömu lánum eru á fyrsta árl. ef þau verða að borga 12% vexti. 4620 kr., og vaxtahækkun af 160 þús. kr. lánunum, sem ég áður taldi, ef vextirnir hækka úr 7% í 12%, verður á fyrsta ári 8000 kr. M.ö.o.: minnsta hækkun á árlegum útgjöldum hjónanna vegna þessara ráðstafana er 16470 kr. En hækki byggingarkostnaðurinn upp í 15%, sem mér sýnast vera miklar líkur til, þá hækkar þessi upphæð upp í allt að 20 þús. kr. Og þetta er í viðbót við 35 þús. kr. útgjöld, sem hjónin bjuggust við að taka á sig.

Ég skal taka það fram, að vaxtagreiðslur fara lækkandi vegna afborgana, svo að fyrrnefnd upphæð, um 52 þús. kr., er komin niður í 39 þús. kr. árleg útgjöld hjónanna eftir 5 ár, ef þau geta komið íbúðinni upp og hækkun byggingarkostnaðar reynist ekki nema 11%. En á hverju eiga þessi ungu hjón að lifa, ef þau eiga að taka á sig þessa útgjaldaaukningu? Þótt þau hafi 65 þús. kr. árstekjur, geta þau ekki tekið á sig 52 þús. kr. árleg útgjöld, og þótt það væri eitthvað minna en það. (KK: Flýta sér að eiga börn.) Ég skal koma að því seinna, hvað þau græða mikið á börnunum. Reyndar stoðar lítið að vera að reikna það út, hvað þessi hjón muni þurfa að greiða á ári í afborgun og vexti af byggingarlánum eftir 5 ár, ef þau stranda strax á fyrsta ári með að koma upp þaki yfir höfuðið vegna þessara ráðstafana. Og ég verð að segja, að það eru litlar líkur til þess, að það þýði neitt fyrir þessi ungu hjón að hugsa um að koma upp íbúðinni, því að það er útilokað.

En það eru ekki öll kurl komin til grafar í þessu máli enn. Það er fleira, sem hæstv. ríkisstj. er með á prjónunum. Það er fleira en þetta, sem ég hef nefnt í þessu dæmi. Í fyrsta lagi vita menn, þótt ekki snerti það þessa hæstv. ríkisstj., að B-lán byggingarsjóðs eru vísitölutryggð, og hækki vísitalan, þá hækka þessi lán sjálfkrafa, og um leið hækka afborganir og vextir af þeim lánum. Ekki hef ég reiknað með neinni slíkri hækkun í þessu dæmi. Í öðru lagi: samkv. þessu frv., sem liggur fyrir, á að fá hæstv. ríkisstj. alræðísvald til að hækka vexti í ýmsum sjóðum, þ. á m. í byggingarsjóði húsnæðismálastofnunarinnar. Og það þarf varla að efast um það, að til þess er hæstv. ríkisstj. að fá þetta vald, að hún ætlar að nota það. Þá hækka útgjöld á fyrrnefndri íbúð vegna þessarar vaxtahækkunar, en ég hef ekki reiknað með neinni slíkri hækkun. Í þriðja lagi er samkv. þessu frv. fyrirhugað, að hæstv. ríkisstj. fái alræðisvald um það að stytta lánstímann í þessum byggingarsjóði. Ef hún gerir það, þá vaxa afborganirnar á ári hverju, en ekkí hef ég reiknað með neinni slíkri hækkun. Í fjórða lagi hlýtur samdráttarstefna sú, sem nú er boðuð, að valda minnkandi atvinnu, sem fyrst og fremst bitnar á aukavinnu manna, sem greidd er mun hærra verði en dagvinna. Falli niður aukavinna þessara manna, þá eru möguleikar þeirra, sem byggja, stórkostlega skertir, bæði til þess að leggja fram eigið framlag og til þess að greiða afborganir og vexti. Og loks má nefna það, að fjöldi ungra manna á ekki von á neinni fjárhagsaðstoð frá foreldrum, sem hér er þó reiknað með og á hvorki að bera afborganir né vexti. Það er algengt, að þetta unga fólk verði að bjargast af sjálfsdáðum, það hefur ekki til annarra að snúa sér. En þegar svo er ástatt, þá vandast málið fyrir þeim. Þegar svo er ástatt, þá eru litlar horfur fyrir þetta fólk að ætla sér að koma yfir sig íbúð, þegar tillit er tekið til hækkunar byggingarkostnaðar, hækkunar vaxta, styttingar lánstíma í byggingarsjóðunum, vaxandi dýrtíðar, minnkandi atvinnu og óbreytts kaupgjalds.

Ég hef rakið hér allýtarlega, hvers konar ,.viðreisn“ tillögur hæstv. ríkisstj. eru fyrir fjölskyldumann með 60–70 þús. kr. árstekjur, sem er nú að ráðgera að koma sér upp íbúð. Það er fljótsagt, að vonir slíkra manna um íbúðarbyggingu eru með öllu þurrkaðar út, og það er sama, hvort um er að ræða fjölskyldu hér í Reykjavík, í kaupstöðum, í kauptúnum eða í sveitum. Dæmi þetta, sem ég hef nefnt, á alls staðar við í öllum aðalatriðum.

Mig undrar, að tveir stjórnmálaflokkar skuli hafa getað náð samkomulagi um svo kaldrifjaða meðferð á ungum og efnalitlum fjölskyldum. Það á hér við: „Frá þeim, sem ekkert hefur, skal tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.“

Hæstv. ríkisstj. segist vera að framkvæma tekjuflutning frá einni þjóðfélagsstétt til annarrar. Ég hef sýnt hér mynd af því, hvernig þessir flutningar ganga fyrir sig hvað snertir þá, sem byggja. En hæstv. ríkisstj. segist líka vera að framkvæma tekjuflutning frá einni atvinnugrein til annarrar. Ég vil taka dæmi úr atvinnulífinu. Útgerðarmaður ætlar að kaupa sér fiskibát, sem kostar með núverandi verði á erlendum gjaldeyri um 3 millj. kr. Hann á von á því, að fiskveiðasjóður láni honum 2/3 hluta af verði bátsins eða um 2 millj. Sjálfur þarf hann að geta lagt fram eina millj. kr. En þegar þetta frv, er orðið að lögum, kostar báturinn 41/2 millj. kr. Ef fiskveiðasjóður lánar eftir sem áður 2/3 hluta andvirðisins, þá eru það 3 millj., en kaupandinn verður að borga úr eigin vasa hálfa aðra milljón, eða 1/2 millj. kr. meira en hann þurfti áður. Hvaðan fær hann þessa peninga? Ekki mun vera ætlazt til þess, að hann fái bankalán fyrir þessari hækkun. Á hann þá að taka þessa hálfu milljón úr eigin vasa? Og hvaða möguleikar eru til þess, að hann geti það? Er ekki langlíklegast, að útgerðarmaðurinn verði að hætta við að kaupa bátinn? Allur erlendur rekstrarkostnaður fiskibáta, eins og olía, veiðarfæri o.fl., hlýtur að hækka í verði við þessar ráðstafanir, um allt að 50%. Lánsfé til þessara hluta ætla ég að hafi verið alltakmarkað að undanförnu, þrátt fyrir það að ekki hefur verið neitt bann við því, að bankar láni til þessara hluta. En samkvæmt stefnu hæstv. ríkisstj. verður ekki annað séð en nú eigi að neita með öllu að lána meira til þessa rekstrarkostnaðar útgerðarinnar en áður var. Hvaðan á þá útgerðarmaðurinn að taka fé til þess að greiða verðhækkunina á þessum nauðsynjum útgerðarinnar? Á hann líka að taka það úr eigin vasa?

Svo sem kunnugt er, hefur útflutningssjóður greitt sérstakar bætur á smáfisk, einstakar fisktegundir og fisk veiddan á vissum tímum árs. Þessar bætur hafa verið misháar eftir fisktegundum, veiðitíma og verkunaraðferðum. Þessar sérbætur hafa byggzt á því, að miklu dýrara er að vinna þennan fisk í útflutningsvöru en annan fisk, og auk þess fæst hlutfallslega mun minni útflutningsvara úr þessum fiski, sem notið hefur sérbótanna, en öðrum fiski. Veiði og vinnsla þessa fisks hefur fyrst og fremst byggzt á þessum sérbótum. Í grg. þessa frv. er gerð grein fyrir þessum sérbótum, og sést á þeirri skýrslu, að þær eru ekkert hégómamál fyrir útgerð í þeim landshlutum, þar sem verulegur hluti aflans er fiskur, sem nýtur þessara bóta. Eins og kunnugt er, hafa útflutningsuppbætur á bátafisk numið að meðaltali 941/2 %, en útflutningsbætur t.d. á steinbít, ýsu og flatfisk, veiddan eftir 15. maí, hafa komizt allt upp í 143.1%, eins og segir í grg. frv. Samkv. þessu frv. eiga allar þessar sérbætur á fisk að falla niður eins og útflutningsuppbætur yfirleitt. Gengisbreytingin á að bæta upp útgerðinni að fullu þær 941/2 % uppbætur, sem bátaútgerðin fær að meðaltall. En hún bætir að sjálfsögðu ekki upp að fullu þær vörur, sem hafa notið hærri bóta en þetta. Hvað verður þá um útgerð í þeim sjávarþorpum, þar sem meira en helmingur aflans hefur notið sérbóta og það allt upp í 143%? Þessar fiskveiðar hljóta að búa við mjög skarðan hlut, fáist ekki breyting á frv. hvað þetta snertir. Hér er því ekki aðeins um tekjuflutning hæstv. ríkisstjórnar að ræða milli þjóðfélagsstétta og atvinnugreina, eins og hæstv. ríkisstj. orðar það. Hér er hreinlega um tekjuflutning að ræða milli landshluta, þar sem sumir landshlutar búa að því að veiða þennan fisk.

Fulltrúi Framsfl. í hv. fjhn. Nd. flutti brtt. við þetta frv. á þskj. 98 um heimild fyrir ríkisstj. að greiða þessar sérbætur áfram. Þessa till. felldu stuðningsmenn stjórnarinnar í Nd. allir með tölu. Ég gerði mér nú vonir um, að hv. þingmenn Vestfjarða mundu taka nærri sér að fella þessa till., en sú von brást. Engum landshluta munu þessar sérbætur hafa orðið meira virði en Vestfjörðum vegna hinnar miklu steinbítsveiði, sem þar er, en steinbítur er sú fisktegund, sem notið hefur hæstu sérbóta. Þessi brtt. mun verða flutt aftur í þessari hv. d., og reynir enn á Vestfjarðaþm., hvernig þeir taka þessu hagsmunamáli Vestfirðinga.

S.l. sunnudagskvöld barst mér símskeyti frá Ísafirði. Skeytið var frá Útvegsmannafélagi Ísfirðinga fyrir hönd útvegsmanna á Vestfjörðum. Ég tel rétt, að ég lesi þetta skeyti upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftirfarandi símskeyti sent Landssambandi íslenzkra útvegsmanna. Vegna fyrirsjáanlegs verðfalls steinbíts með niðurfellingu tegundabóta samkvæmt efnahagsmálatillögum ríkisstjórnarinnar viljum við sérstaklega taka fram: steinbítsafli Vestfjarðabáta undanfarið hefur verið fullur helmingur alls vertíðarafla. Með tilliti til loforða stjórnarvalda í janúar s.l. um, að hlutur bátaútvegsins skyldi eigi skertur frá því, sem var árið 1959, krefjumst vér þess, að hráefnisverð á steinbít haldi sama hlutfalli við þorskverð og var á s.l. ári,

Fyrir hönd útvegsmanna á Vestfjörðum. Útvegsmannafélag Ísfirðinga.“ Samkvæmt þessu skeyti segja útvegsmenn á Vestfjörðum, að fyrirsjáanlegt sé verðfall á steinbít með niðurfellingu tegundabótanna samkv. efnahagsmálatill. ríkisstj. Þeir segja einnig, að fullur helmingur vertíðaraflans þar sé steinbítur. Það er þá fyrirsjáanlegt verðfall á fullum helmingi aflans við Vestfirði. Þeir krefjast þess, að hráefnisverð á steinbít haldi sama hlutfalli við þorskverð og var á síðasta árí. Og loks byggja þeir þessa kröfu sína á því loforði stjórnarvaldanna í janúar s.l., að hlutur bátaútvegsins skyldi eigi skertur frá því, sem hann var í fyrra.

Fáist ekki leiðrétting á frv. í þessa átt í þessari hv. d., þá er verið að skerða stórkostlega hlut útgerðarmanna og sjómanna á Vestfjörðum, eins og segir í skeytinu. Og þá eru stjórnarvöldin að bregðast því loforði, sem þau gáfu útgerðarmönnum í janúar í vetur. Það mun verða tekið eftir því á Vestfjörðum, hvernig verður snúizt við væntanlegri brtt. við þetta frv. hér í þessari hv. deild.

Eitt af boðorðum hæstv. ríkisstjórnar er það, að tekjuskattur skuli afnuminn á almennum launatekjum. Það mun vera líka einn liðurinn í stefnunni að flytja tekjur frá einni þjóðfélagsstétt til annarrar, og sjálfsagt mun vera ætlazt til þess, að þetta verði skilið á þann veg, að þarna sé þó sannarlega verið að flytja tekjur frá hinum ríku til hinna fátækari.

Höfuðröksemd hæstv. ríkisstj. fyrir afnámi tekjuskatts er sú, að skattaframtöl séu fölsuð og stórkostleg skattsvik eigi sér stað. Þó er ekki ætlun hæstv. stjórnar að afnema tekjuskattinn, heldur á að hækka persónufrádrátt, svo að menn með lægri tekjur þurfi ekki að greiða tekjuskatt. Hins vegar þurfa menn að skila skattframtölum eins og áður, og hálaunamenn svo og félög og fyrirtæki verða að greiða tekjuskatt eftir sem áður. Skattatofur og skattanefndir verða að starfa eins og fyrr, svo að ekki verður um sparnað að ræða hjá ríkinu í skrifstofukostnaði við þetta. Meira að segja kostnaðurinn við álagningu og innheimtu á hverri milljón tekjuskatts getur orðið um það bil helmingi hærri á eftir en áður. Það er ekkert verið að horfa í það. En hverjir græða þá á þessari niðurfellingu tekjuskattsins? Þar sem ekki er hægt að svara þessari spurningu af neinni nákvæmni, fyrst frv. er ekki komið fram, skal ég aðeins ræða eina hlið þessa máls.

Samkvæmt fjárlagafrv. er áætlað, að tekjur ríkisins lækki vegna lækkunar á tekjuskatti um 75 millj. kr., miðað við fjárlög 1959. En á þá ríkissjóður ekki að fá neitt í staðinn? Jú, hann á að fá söluskatt í staðinn. Talað er um, að þessi söluskattur muni eiga að nema 3% á alla vörusölu og þjónustu. Og hverjir bera svo þennan nýja söluskatt? Söluskattinn bera auðvitað allir, sem kaupa vörur og þjónustu, líka láglaunamennirnir, sem eiga að sleppa við tekjuskattinn. Lækkun tekjuskattsins á að nema 75 millj. kr., eins og ég gat um áðan, en nýi söluskatturinn á að nema 280 millj. kr. eða hér um bil fjórum sinnum hærri upphæð. Í hvers þágu er verið að framkvæma þessi skipti á sköttum, að taka upp söluskatt, en lækka tekjuskatt? Ef hjón með tvö börn hafa 60 þús. kr. árstekjur og nota 3/4 hluta þeirra til að kaupa fyrir vörur og þjónustu, þá greiða þau 1350 kr. í söluskatt, ef hann verður 3%, en samkvæmt núgildandi skattalögum mundu þau greiða um 1100 kr. í tekjuskatt. Söluskatturinn étur þá upp tekjuskattinn og 250 kr. betur.

Þetta eru skiptin fyrir hjónin með tvö börn og 60 þús. kr. tekjur. En væru þessi hjón með 90 þús. kr. tekjur og keyptu sama magn af vörum og þjónustu, þá slyppu þau við 4800 kr. tekjuskatt, en greiddu þessar 1350 kr. í söluskatt og græddu á þessu 3450 kr. Hagnaðurinn af því að fá söluskatt í staðinn fyrir tekjuskatt er enginn fyrir láglaunamennina, en þó nokkur fyrir þá, sem betur eru launaðir, og langsamlega mestur fyrir þá hálaunuðu, því að þeir, sem hafa að undanförnu greitt kannske 40–50 þús. kr. í tekjuskatt, munu áreiðanlega ekki eiga að greiða mjög háan skatt eftir nýju væntanlegu skattalögunum.

En þá kem ég að skattsvikunum. Þeir, sem hafa ekki hærri tekjur en svo, að þeir komast ekki í tekjuskatt, hagnast ekkert á því að skila röngum framtölum. Skattsvik af þeirra hálfu eru því útilokuð, því að þeir verða að greiða söluskatt í staðinn, og undan honum komast þeir ekki, þar sem þeir verða að borga hann um leið og þeir kaupa lífsnauðsynjar sínar. En hvað er þá um hátekjumennina, sem verða að greiða einhvern tekjuskatt áfram, og hvað um fyrirtæki, sem skattalækkunin á ekki að ná til? Er engin hætta á neinum skattsvikum þar? Og svo söluskatturinn. Hann skilar sér náttúrlega allur upp á eyri frá þeim, sem innheimta hann af almenningi. Ja, þar þarf ekki að líta eftir. Þar eru engin skattsvik! Enn ber hér að sama brunni, að hér er um flutning tekna að ræða, ekki frá hinum ríku til hinna fátæku, heldur öfugt.

Í aths. með þessu frv. er nokkuð rætt um hækkun verðlags, sem leiði af samþykkt þessa frv. Orðalag allt um þessa hluti er býsna óákveðið í aths. frv. Skal ég drepa á örfá dæmi um það, hvernig orðalagið er. Á bls. 20 í grg. frv. segir: „Að svo komnu máli verður ekki um það sagt með nákvæmni, hversu mikil verður hækkun útsöluverðs einstakra vörutegunda.“ Nei, það verður ekki sagt með neinni nákvæmni. Neðar á bls.: „Séu teknar þær innfluttu vörur, sem í vísitölunni eru, verður meðalhækkun þeirra sennilega 25%. Innlendar landbúnaðarafurðir munu væntanlega hækka um 12%. Hins vegar verður hækkun vísitölunnar allrar líklega ekki meiri en 13%. Áætlað er, að gengisbreytingin hafi í för með sér 10–11% hækkun á byggingarkostnaði. Búast má við einhverjum öðrum hækkunum, svo sem hækkun tryggingarsjóðsgjalds, sjúkrasamlagsgjalds, útvarpsgjalds o.fl. Þessar hækkanir, sem eru gengisbreytingunni óviðkomandi, nema líklega um það bil einu stigi.“ Og neðst á bls. 21: „Sú aukning fjölskyldubóta og þær niðurgreiðslur á innfluttum neyzluvörum, sem að framan hefur verið lýst, munu draga mjög úr þeirri hækkun á vísitölu framfærslukostnaðar, sem breyting gengisskráningarinnar að öðrum kosti hefði í för með sér. Er gert ráð fyrir, að hækkunin verði 3% í stað 13%.“

Þannig úir og grúir af dularfullu orðalagi, sem ómögulegt er að henda neinar reiður á. En eftir alla þessa varnagla í grg. er þó einu slegið föstu á bls. 22. Þar stendur: „Með þessum ráðstöfunum er það tryggt, að kjör fjölskyldna, sem hafa um 60 þús. kr. tekjur og í eru þrjú eða fleiri börn, verða ekki skert og ekki heldur kjör ellilífeyrisþega og öryrkja.“ Þetta er tryggt, ekkert af hinu var tryggt.

En þótt hæstv. ríkisstj. vilji ekkert fullyrða um það, hversu mikil verður hækkunin á útsöluverði vara, hvort hún verður 25% á innfluttum vörum og 12% á landbúnaðarvörum eða eitthvað meira, hvort vísitalan hækkar um 13%, 14% eða eitthvað miklu meira, hvort byggingarkostnaðurinn hækkar um 11% eða ríflega það, hvort kjaraskerðingin verður 13% eða 3% eða engin, — þótt hæstv. ríkisstj. vilji ekkert af þessu fullyrða, þá fullyrðir hún þó eitt, þetta, sem stendur á bls. 22, að það sé tryggt, að kjör fjölskyldnanna versni ekki. Þau verða ekki skert, ekki um eyri. En hvernig getur hæstv. ríkisstj. fullyrt þetta, fyrst hún gat ekkert fullyrt um hitt, forsendurnar að þessu? Er annars ekki viðbúið, að þetta orðalag sé allt haft með ráðnum hug? Ef þessar hækkanir allar verða kannske miklu meiri en þetta, þá getur hæstv. ríkisstj. sagt á eftir: Við fullyrtum aldrei neitt um þetta, þetta voru bara áætlaðar tölur.

Ég á einna lakast með að skilja það, að innfluttar vörur hækki ekki nema sennilega um 25%, þar sem flestar nauðsynjavörur erlendis frá hljóta að hækka um 45–50% komnar til landsins, að ég nú ekki tali um vörurnar, sem á að borga niður, en þær hækka vegna gengisbreytingarinnar um 70 og yfir 80%. En þær á að borga niður. Ekki veit ég, hvað þeir ætla að borga mikið niður. Það er hægt að borga þær svo lítið niður, að hækkunin verði allmikil á þeim. Og til eru vörur, sem verða ekki borgaðar niður, en hækka þó alldrjúgt, vörur, sem allur almenningur notar, sérstaklega börn, unglingar og vinnandi fólk. Nefna má bómullarefni í fatnað. Það hækkar um 77.4%, gúmmískófatnaður hækkar um 78.4% og gúmmístígvél hækka um 87%, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Þetta eru sannarlega vörur, sem almenningur notar, og það kemur við fólk að taka á sig þessar hækkanir, jafnvel þó að þetta verki kannske ekki mikið í vísitölunni. En hitt er rétt, að öll finni efni, silki og þess háttar, krep og hvað það heitir, það hækkar ekki svona mikið, og finni skótegundir hækka ekki svona mikið.

Þá hefur mér fundizt athyglisvert orðalag hér á bis. 21, þar sem rætt er um áhrif gengisbreytingarinnar á lífskjörin. Þar stendur: „Sú hækkun vísitölu framfærslukostnaðar um 13%, sem að framan er getið, sýnir þau áhrif, sem gengisbreytingin mundi hafa á lífskjör almennings.“ Á að skilja þetta svo, að það sé gengisbreytingin ein út af fyrir sig, sem reiknað hefur verið með í öllum þessum tölum um hækkanir? Hefur þá verið sleppt að reikna með þeim áhrifum, sem hækkun fjárl. hefur á lífskjör almennings og þ. á m. 280 millj. kr. söluskattur?

Ég vil ekki gera ráð fyrir svo stórkostlegum blekkingum. En ég rek þó augun í það, að alltaf heldur ríkisstj. sig við 13% í þessum útreikningi. En af hverju ekki 14%? Hún er búin að segja það á sömu bls., að vísitalan muni hækka um 14%. Af hverju sleppir hún einu prósentinu? Af því að það er ekki vegna gengisbreytingarinnar, heldur af öðrum ástæðum.

Samkv. þeirri samdráttarstefnu, sem hæstv. ríkisstj. boðar og fram kemur í þessu frv. og öðrum frv. stjórnarinnar, getur varla hjá því farið, að atvinnan dragist saman í landinu. Þessi samdráttur atvinnunnar hlýtur fyrst og fremst að koma niður á aukavinnu manna. Það er kunnugt, að menn hafa haft allverulega aukavinnu, og það hefur orðið þeim drjúg tekjuöflun. Nú er eftirvinna greidd með 50% hærra verði en dagvinna. Dagsbrúnarverkamaður, sem vinnur tveggja tíma eftirvinnu á dag, fær fyrir hana 62 kr. eða eitthvað rétt nálægt því. Tapi hann þessari eftirvinnu, nemur það 1545 kr. á mánuði eða um 18500 kr. á ári. Þó yrði þetta ekki taliðneitt atvinnuleysi, þvert á móti. Sá maður er talinn hafa fulla vinnu, sem vinnur 8 tíma á dag. En hefur sá fjölskyldumaður nægar árstekjur til þess að lifa á, þegar árstekjur hans lækka úr 68 þús. kr. hér um bil á ári, ef hann er með tveggja stunda eftirvinnu á dag að meðaltalí, niður í 49500 kr.? Er þá tryggt, eins og stendur í grg. frv., að kjör hans versni ekki, þótt hann sé með þrjú börn? Til þess að mæta þessu atvinnutapi duga engar þriggja barna fjölskyldubætur, hækkun þeirra er ekki nema 6634 kr., og þær geta ekki mætt 18500 kr. tekjutapi, ef maðurinn tapar eftirvinnunni.

Ef hækkun fjölskyldubótanna ætti að bæta upp tveggja klukkutíma eftirvinnutap á dag, hvað þyrftu börnin að vera mörg hjá þessari fjölskyldu? Það er mjög fróðlegt að reikna það út. Til þess að mæta 18500 kr. tekjulækkun á ári, hvað þurfa börnin að vera mörg hjá fjölskyldunni, svo að hún standi rétt eftir og „tryggt“ sé, að hún haldi óskertum lífskjörum, eins og stjórnin segir. Mér reiknast til, að á fyrsta verðlagssvæði þurfi börnin að vera 47. Menn geta reynt að reikna þetta, og ég skal fúslega taka sönsum, ef ég fer með rangt mál. (Fjmrh.: Hvað þyrfti íbúðin að vera stór?) Hún verður hvorki stór né lítil, því að eftir þessar ráðstafanir getur þetta fólk ekki byggt. Ég skal gera frekari grein fyrir, hvað þessar fjölskyldubætur eru stórkostlegar, sem ríkisstj. er að boða. Hafa menn ekki tekið eftir því, að alltaf nefnir ríkisstj. þrjú börn, þegar hún er að tala um þessar væntanlegu fjölskyldubætur? Hjón með þrjú börn munu eiga að fá um 6634 kr. hækkun á fjölskyldubótunum, ef ég hef reiknað þetta rétt, sem hæstv. ríkisstj. er að boða. En hvað hækka fjölskyldubæturnar á hvert barn, eftir að komið er yfir þrjú börn, t.d. hérna í Reykjavík? Er það ekki rétt reiknað hjá mér, að þær hækki um einar 269 kr. á barn? Ef þetta er rangt, þá óska ég alveg sérstaklega eftir, að þetta sé leiðrétt hjá mér. Er það ekki rétt, að fjölskyldubæturnar eigi að hækka um einar 269 kr. á hvert barn, eftir að komin eru þrjú börn? Það munar um það! Það er ekki fyrir einum barnsskóm. Ef hjón eignuðust nú fimm börn í viðbót við þrjú, sem þau ættu áður, svo að börnin yrðu átta, þá yrði líklega glæsilegur hagur þeirra samkv. stefnu ríkisstjórnarinnar! Hvað verður hækkunin á fjölskyldubótunum fyrir þessi fimm börn, sem bætast við þau þrjú, sem áður voru? Það verða 1345 kr. yfir árið. Það er ekki ein kápa á eina telpuna. Og svo fullyrðir hæstv. ríkisstj., að hjón með þrjú börn eða fleiri fái bætt upp að fullu þá kjaraskerðingu, sem gengisbreytingin hefur í för með sér.

Þannig sýnist mér, að innihaldið sé í þeim miklu „hagsbótum“, sem fjölskyldubæturnar eiga að verða, eins og þær eru boðaðar.

Hæstv. ríkisstj. segir, að það yrði þungbært fyrir fjölskyldur að taka á sig 13% vísitöluhækkun án bóta. Ég held, að það sé alveg rétt. Ég held, að það yrði þungbært. En ég er farinn að halda, að það þungbærasta sé ekki komið í ljós. Það er, að hagur barnmargra fjölskyldna verði ægilega miklu verri á eftir en hefur verið látið í veðri vaka. Hæstv. ríkisstj. hefur auglýst svo rækilega fjölskyldubæturnar, að hún mun vera farin að treysta því, að þær geti bjargað henni út úr öllum vandanum.

Ég hef sýnt fram á, að fjölskyldubæturnar bæta ekki upp það, sem nú er í vændum. Ég hef sýnt fram á, að aðeins eftirvinnutapið yrði tilfinnanlegt fyrir margar fjölskyldur. Og ég efast ekki um, að það getur orðið þungbært fyrir hæstv. ríkisstj. að stefna þannig að atvinnutapi hjá almenningi með þeirri samdráttarstefnu, sem er meginkaflinn í þessu frv. og öðrum þeim frv., sem hún boðar. Þessi tegund af tekjuflutningi frá einni þjóðfélagsstétt til annarrar, eins og hæstv. ríkisstjórn orðar það, verður áreiðanlega mörgum þungbær.

Þegar hæstv. ríkisstjórn er að rökstyðja till. sínar um þá gerbyltingu í íslenzku efnahagslífi, sem hún ætlar nú að framkvæma, þá leggur hún mestan þungann á greiðsluhallann við útlönd. Hún vítir harðlega þær erlendu lántökur, sem átt hafa sér stað á undanförnum árum og varið hefur verið til framkvæmda hér innanlands. Að dómi hæstv. ríkisstjórnar eiga þessar lántökur að koma þjóðinni fram á barm gjaldþrots og örbirgðar. Ég býst við, að allir þeir, sem hlustað hafa á útvarp að undanförnu, muni seint gleyma því, sem hæstv. stjórnarsinnar hafa sagt um þennan „voða“, sem nú steðji að þjóðinni og hefur gert að undanförnu.

Ég skal nefna hér eitt dæmi um það, hvernig erlend lántaka færir þjóðina fram á barm gjaldþrots, og þetta dæmi er sementsverksmiðjan, en til hennar var tekið erlent lán. Ég hef í dag aflað mér allnákvæmra upplýsinga um þessi efni og veit, að þær eru öruggar. Útgjöld sementsverksmiðjunnar á s.l. ári í erlendum gjaldeyri, að viðbættu 55% yfirfærslugjaldi, urðu þessi: Leiga á skipi til flutninga á skeljasandi um 4.3 millj., olía 41/2 millj., gips, pokar o.fl. til framleiðslunnar 31/2 millj., afborganir af erlendum lánum 61/2 millj. og vextir af erlendum lánum 4.4 millj. Alls eru útgjöld sementsverksmiðjunnar á s.l. ári í erlendum gjaldeyri 23.2 millj. kr. Á móti þessu kemur sementsframleiðslan, sem nam á árinu sem leið 85 þús. tonnum. Þetta sement hefði þurft að flytja inn í landið, ef sementsverksmiðjan hefði ekki verið og ef ekki hefði verið tekið lán til að koma henni upp. Verð á erlendu sementi var í fyrra um 140 shillingar á tonnið eða í íslenzkum krónum með yfirfærslugjaldi kr. 495,80. Þessi 85 þús. tonn hefðu þá kostað í erlendum gjaldeyri 42 millj. 143 þús. kr. Gjöld í erlendum gjaldeyri voru, eins og ég sagði áðan, 23.2 millj., og gjaldeyrissparnaður sementsverksmiðjunnar á s.l. ári hefur því orðið rétt um 19 millj. kr. Þetta er þá „gjaldþrotið“, sem yfir okkur vofir vegna erlendrar lántöku til sementsverksmiðjunnar. Það er 19 millj. kr. sparnaður á einu ári í erlendum gjaldeyri.

En við höfum fleiri „gjaldþrot“ af þessu tagi í okkar landi. Við höfum fleiri fyrirtæki en sementsverksmiðjuna, sem tekin hafa verið til erlend lán til að koma þeim upp. Við höfum „gjaldþrotafyrirtæki“ eins og áburðarverksmiðjuna, Sogsvirkjunina, fiskiskipin, kaupskipin, fiskiðjuverin, ræktunina og rafvirkjanirnar, svo að nokkuð sé nefnt. Og ætli útkoman yrði ekki eitthvað svipuð þessu og ég nefndi um sementsverksmiðjuna, ef allt væri krufið til mergjar? Á þessum stoðum stendur allt gjaldþrotatal hæstv. ríkisstj. vegna erlendu lánanna, sem tekin hafa verið til framkvæmda í landinu.

Herra forseti. Ég hef rætt hér nokkuð þann flutning á tekjum frá einni atvinnugrein til annarrar, frá einni þjóðfélagsstétt til annarrar, sem hæstv. ríkisstj. er að framkvæma. Ég hef nefnt um þetta nokkur dæmi, og ég hef sýnt með þessum dæmum, hversu skaðlegur slíkur tekjuflutningur er fyrir efnaminni einstaklinga, — einstaklingana, sem leggja mest á sig í erfiði og áhættu við framleiðslustörfin í landinu, — einstaklingana, sem eru þó mikill meiri hluti þjóðarinnar. Ég hef sýnt fram á, hversu skaðlegur þessi tekjuflutningur getur verið fyrir einstakar stéttir, fyrir einstakar atvinnugreinar, fyrir einstaka landshluta, fyrir ýmiss konar atvinnuuppbyggingu í landinu. Ég fullyrði, að þessi stefna, þessi tekjuflutningur, eins og hæstv. ríkisstj. orðar það, er skaðleg öllu jafnvægi í byggð landsins. Hún er skaðleg efnahagslegu jafnvægi milli stétta og einstaklinga.

Mér er sagt, að spilamenn iðki stundum spil eitt, sem heitir 21. Ég þekki ekki þetta spil, en mér er sagt, að í þessu spili geti menn hlotið ofsalegan gróða og auðvitað líka óskaplegt tap. Og það merkilega við þetta spil, 21, er það, að gróðinn fer ekki eftir hæfileikum manna, ekki eftir viti eða þekkingu, ekki eftir fimi eða neins konar list, gróðinn, þegar gróði verður hjá einhverjum, þá fer hann eftir tilviljun, hann fer eftir því, hvernig spilin liggja. Mér sýnist, að stefna hæstv. ríkisstjórnar sé hliðstæð spilinu 21, að hæstv. ríkisstj. sé að spila glæfraspil. Og það alvarlega við hlutina er það, að hæstv. ríkisstjórn hefur ekkert vald á þessu glæfraspili fremur en menn hafa í hinu spilinu.