18.02.1960
Efri deild: 24. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (2056)

48. mál, efnahagsmál

Frsm. 1. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Af hálfu formælenda þessa frv. er því haldið fram, að íslenzka þjóðin hafi um langt skeið og þó sérstaklega síðustu árin lifað um efni fram, hafi safnað óeðlilegum, hættulegum og óbærilegum gjaldeyrisskuldum og riði nú á barmi gjaldþrots og glötunar efnahagslegs sjálfstæðis af þeim sökum. Þessar ástæður leiði til þess, að óhjákvæmilegt sé, að almenningi í landinu sé lögskipað að herða að sér sultarólina, lífsnauðsynlegar framkvæmdir séu stöðvaðar, lagðar á drápsklyfjar nýrra skatta og tolla og mannréttindi mikils hluta þjóðarinnar skert.

Í þeim miklu og á margan hátt merku umræðum, sem þegar hafa orðið hér á hv. Alþingi um þetta frv., hefur sannazt, að þær forsendur þess og þeirrar stefnu, sem það boðar, eru falskar. Fyrir alþjóðaraugum og eyrum hefur hæstv. ríkisstj. undanfarna daga verið hrakin úr einu víginu í annað varðandi sjálfar höfuðforsendurnar og stendur berskjölduð að kalla. Það má heita að bera í bakkafullan lækinn að ræða miklu frekar um sjálfan grundvöllinn, sem allur þessi óskapnaður er byggður á, enda mun ég að fáu einu víkja í því sambandi.

Í grg. frv. er sagt, að breyt. á gjaldeyrisstöðu okkar á síðustu 5 árum, frá 1954 til ársloka 1959, sýni versnandi stöðu, sem nemi um 300 millj. kr., eða sem nemur 60 millj. kr. á ári að meðaltall. Hinu er sleppt, að á þessu tímabili hefur birgðaaukning fullunninna og seljanlegra framleiðsluvara aukizt úr rúmlega 100 millj. kr. í 370 millj., þ.e.a.s. ef öll birgðaaukningin hefði verið flutt úr landi fyrir s.l. áramót, væri aðeins um að ræða verri stöðu á þessum 5 árum, sem næmi 30–40 millj. kr. eða 6–8 millj. kr. að meðaltali á ári. Samkv. töflu 3 í grg. frv. er gjaldeyrisstaðan talin hafa versnað um 92 millj. kr. á s.l. ári, en það ár nam birgðaaukning útflutningsvara á annað hundrað millj. Gjaldeyrisstaða okkar versnaði því raunverulega ekki það ár, en jafnvei batnaði. Auðvitað er rétt að taka fullt tillít til þess, þegar viðskipti okkar við aðrar þjóðir eru metin, að föst erlend lán eru ekki meðtalin í gjaldeyrisstöðunni, og vissulega er það rétt, að þau hafa aukizt og munu nú nema 700–800 millj. kr. Það er hins vegar sannað, svo að ekki verður um deilt, að einmitt þessar lántökur, sem að öllu eða svo til öllu hafa gengið til öflunar framleiðslutækja, sem ýmist spara stórfelldan gjaldeyri eða skapa gjaldeyrí, gera það að verkum, að geta okkar til þess að standa undir skuldbindingum okkar í gjaldeyrisviðskiptum okkar er nú meiri og betri en verið hefur síðasta áratuginn. Er framlag dr. Benjamíns Eiríkssonar til þeirra umræðna, sem um þær hafa orðið, landfrægt um þessar mundir og kunnara en hér þurfi að rekja. En vissulega verður það að teljast táknrænt, að þessi aðalmeðhjálpari ásamt þeim hv, síðasta ræðumanni, sem hér talaði, við gengisfellinguna 1950 getur ekki orða bundizt um þær falsanir, sem ríkisstj. hefur í frammi, heldur ræðst fram og hrekur þær á eftirminnilegan hátt. Ekki svo að skilja, að fræðilegra sannana sé þörf í þessu efni. Brjóstvit hvers leikmanns hlýtur auðvitað að segja honum, að þegar lán er tekið til kaupa á skipi, sem skilar andvirði sínu árlega í gjaldeyri, þá er slíkt ekki gjaldeyrishalli, né heldur þegar verksmiðja er reist, sem sparar margfalt andvirði sitt á fáum árum.

Enn fáránlegra er það svo, þegar hæstv. ríkisstj. bætir greiðslum afborgana af lánum ofan á framkvæmdalánin og aukningu útflutningsbirgðanna til þess að gera myndina af greiðsluhallanum sem afskræmdasta og hryllilegasta. Ríkisstj. virðist hafa fundið upp þá frumlegu hagfræðiformúlu, að framkvæmdalán plús aukning framleiðslubirgða plús afborganir af lánum sé sama og greiðsluhalli. En enginn heilskyggn maður lætur blekkjast af svo augljósri endileysu.

En þetta þykir ekki nóg. Þegar ríkisstj. eða sérfræðingar hennar fara að meta greiðslubyrðarnar í hlutfalli við gjaldeyristekjurnar, er gripið til hreinna talnafalsana.

Í töflu 2, sem fylgir grg. frv., eru gjaldeyristekjur ársins 1959 taldar 1466 millj. kr., enda þótt nú sé með víssu vitað, að þær hafi reynzt 1700–1800 millj. kr., ef reiknað er með birgðaaukningu, sem varð á árinu.

En þrátt fyrir þær tölur, sem þannig eru fengnar, og þrátt fyrir það, að ekki er reiknað með, að við náum þeim gjaldeyristekjum, sem reynslan hefur sannað að við náðum á s.l. ári, fyrr en á árinu 1963, neyðist ríkisstj. til að viðurkenna, að við séum nú og á næstu tveimur árum í hámarki hvað g;reiðslubyrðarnar snertir, en úr því taki ört að léttast fyrir fæti. Hér er því, jafnvel þótt hin afskræmda mynd af gjaldeyrisbyrðunum, sem ríkisstj. dregur upp, sé lögð til grundvallar, óvefengjanlegt, að um mjög tímabundna örðugleika er að ræða, sem einvörðungu stafa af því, að lán til skamms tíma hafa verið tekin til kaupa á fiskiskipum og vélum, sem þó skila andvirði sínu í gjaldeyri miklum mun örar en tilfallandi greiðslur þeirra vegna.

Það er sagt, að þjóðin lifi um efni fram og þar verði að stemma á að ósí. Samkv. öllum venjulegum skilningi á því, hvað sé að lifa um efni fram, verður sá maður eða stofnun, sem þannig hagar viðskiptalífi sínu, fátækari með hverju árinu sem líður. Kaupi maður varanlega og góða eign eða stofni til skuldar við að koma á fót arðberandi fyrirtæki, sem vissa er fyrir að standi undir skuldinni, verður hann ekki að snauðari. Hann hefur ekki vegna þeirra framkvæmda sinna stofnað til þess ámælis, að hann lifi um efni fra m. Auðvitað gildir hið sama um þjóðina alla. Þegar fullyrðingar um, að hún lifi umfram efni, eru metnar, hlýtur að verða að taka fullt tillit til þess, hvað hún hefur eignazt á þeim tíma, sem til hinna erlendu lána var stofnað. Og það hygg ég að ekki sé hrekjanlegt, að íslenzka þjóðin hafi á síðari árum sífellt verið að efnast og það mörgum sinnum meira en nemur greiðsluhalla eða skuldasöfnun.

Á þeim 5 árum, 1954 til ársloka 1959, sem sérstaklega er vitnað til að þróunin hafi verið uggvænlegust, vegna þess að gjaldeyrisstaðan hafi þá versnað um 300 millj. kr. og gjaldeyrishalli hafi orðið um 200 millj. kr. á ári, sem reyndar er hvort tveggja alrangt, ef réttilega er skoðað, — á þessum árum nam fjárfestingin í landinu um 7500 millj. kr. eða 71/2 milljarði. Á þessum árum höfum við því lagt til hliðar í varanlegar eignir, húsakost, vegi, skóla, sjúkrahús, skip, verksmiðjur og orkuver o.s.frv., upphæð, sem svarar til allra þjóðarteknanna í 11/2 ár, en skuldirnar nema aðeins 1/10 hluta þessarar upphæðar. Auðvitað má ekki heldur gleymast, að það er einmitt sá hluti þessarar fjárfestingar, sem runnið hefur til framleiðsluatvinnuveganna, sem gert hefur þessa stórfelldu eignaaukningu mögulega. Opinberar skýrslur herma líka, að innlendur sparnaður í hlutfalli við heildarframleiðslu hafi á þessum árum numið frá fjórðungi og upp í þriðjung hennar.

Þessar staðreyndir sanna auðvitað, að því fer víðs fjarri, að allt sé á hraðri leið í hið neðsta um afkomu þjóðarinnar sem heildar, eins og hæstv. ríkisstj. vill láta menn halda. Þar með er þó ekki fullyrt, að ekki hefði þurft að halda betur á málum. Hin gífurlega fjárfesting hefur verið skipulagslaus og tilviljunum háð, hlutur atvinnuvega þeirra, sem standa undir framleiðslunni og gjaldeyrisöfluninni, hefur verið of lítill, en ýmis óarðbær fjárfesting því meiri. Er ekki vafa undirorpið, að skynsamleg heildarstjórn á fjárfestingunni, eins og Alþb. hefur enn án árangurs beitt sér fyrir að upp væri tekin og flutt um till. á hverju þingi eftir annað, hefði með öllu komið í veg fyrir þá tímabundnu erfiðleika, sem nú er við að etja í gjaldeyrismálunum og nú er reynt að nota sem tylliástæðu til þeirra örþrifaráða, sem verið er að grípa til af stjórnarflokkunum. Og enn mundi slík heildarstjórn á þjóðarbúskapnum auðveldlega geta jafnað metin milli gjaldeyriseyðslu og útflutningsframleiðslu, án þess að skert væru í nokkru þau lífskjör, sem almenningur í landinu hefur að undanförnu búið við.

En stjórnarflokkarnir virðast ekki ætla að læra hér neitt af reynslunni. Að því er bezt verður séð, á ríkisvaldíð nú að sleppa með öllu hendinni af stjórn fjárfestingarmálanna. Á undanförnum árum hefur þó þrátt fyrir allt verið gert nokkuð til þess með ríkisafskiptum að beina fjárfestingu til útflutningsatvinnuveganna og hamla jafnframt gegn óarðbærari framkvæmdum.

Nú á hins vegar, að því er bezt verður séð, að sleppa taumhaldinu með öllu. Hér eftir á að innleiða frelsi í þessum málum. Það verður að vísu takmarkað með lánsfjárskorti og vaxtaokri, þannig að þeim, sem ekki ráða yfir miklu fjármagni, hvort sem um er að ræða einstakling, félag eða bæjarfélag, verða allar bjargir bannaðar til að koma á fót atvinnufyrirtækjum, en sá, sem hefur komizt yfir fjármagn, mun njóta fulls frelsis til að festa það í hverri þeirri framkvæmd, sem hann girnist að ráðast í, hvort sem hún samrýmist þjóðarhagsmunum eða ekki. Á máli stjórnarflokkanna heitir þetta athafnafrelsi, en er í reyndinni einræði peninganna. Þeir, sem yfir þeim ráða, eiga einir og óáreittir að beina þeim í þann farveg, sem ákjósanlegastur er frá gróðasjónarmiði augnabliksins. Slík stefna mun ekki leiða til þess, að tryggð verði sú atvinnuuppbygging, sem nauðsynleg er sem undirstaða fyrir batnandi lífskjör. Slíkt gæti því aðeins orðið, að fjárfesting í framleiðsluatvinnuvegunum væri gerð gróðavænlegri en öll önnur fjárfesting og fyrir henni greitt sérstaklega. En hvergi örlar á neinu slíku í þeim till., sem nú eru fram bornar. Þvert á móti er sjálfri undirstöðunni, sjávarútveginum, sköpuð hin mesta óvissa hvað rekstur snertir og erfiðleikar við uppbyggingu og í sumum greinum hans stefnt til algerrar stöðvunar, sem ég mun víkja að síðar.

Forsendur þessa frv. eru, eins og ég gat um í upphafi máls míns, sagðar óhæfilegar skuldir við erlendar þjóðir. Ég hef bent á, að tölulega séð er sú mynd, sem af þessu er dregin af ríkisstj., afskræmd mynd af sannleikanum. Hitt er rétt, að gjaldeyristekjur okkar þurfa að aukast verulega á næstu árum, ef vel á að fara. En öll skilyrði eru líka fyrir hendi til þess, að svo geti orðíð, ef öll atvinnutæki okkar eru nýtt til hins ýtrasta og ný atvinnuuppbygging verður ekki stöðvuð. Skipastóll okkar til fiskveiða hefur á síðustu 2–3 árum vaxið um 8000 lestir, og enn eru ókomnir í gagnið bátar og togarar, sem verið er að smíða, og nemur smálestatala þeirra hartnær þeirri aukningu, sem þegar er orðin. Þessi mikla aukning framleiðslutækjanna á eftir, eftir öllum líkum að dæma, að geta haft stórfelld og betri skilyrði en áður hafa þekkzt til þess að skila miklum afköstum og vaxandi gjaldeyristekjum. Afli bátaflotans er þegar farinn að vaxa í skjóli landhelgisútfærslunnar. Fiskimenn okkar eru um þessar mundir að ná fullu valdi yfir nýrri tækni í síldveiðum, þar sem eru hin fullkomnu leitartæki og flotvarpan. Virðist nú full vissa fengin fyrir því, að alger bylting sé fram undan í síldveiðunum, tæknibylting, sem geti skilað þjóðarbúinu hundruðum millj. kr. árlega. Banni, sem nú er orðin hrein heimska, á dragnótaveiðum undir eftirliti hlýtur senn að verða af létt, og með því fæst betri nýting á smærri fiskibátum, sem þá fá tækifæri til að starfa með stórauknum árangri og leggja þjóðarbúinu mjög vaxandi tekjur.

Raunverulegar gjaldeyristekjur okkar uxu um 200 millj. kr. á árinu 1958 og svipað á árinu 1959. Allt bendir til þess, að þessi þróun geti orðið enn örari næstu árin, ef allir möguleikar eru hagnýttir, og við munum ekki einasta verða vel færir um að standa undir greiðslubyrðum, sem nema 180 millj. kr. það árið, sem þær verða mestar eftir útreikningum ríkisstjórnarinnar, heldur einnig geta smám saman bætt stöðu okkar eins og nauðsynlegt er.

Með þessu frv. segist hæstv. ríkisstj. ráðast að kjarna efnahagsvandamálanna, gjaldeyrishallanum, ekki á þann hátt að stuðla á nokkurn hátt að því að hraða þessari þróun eða notfæra möguleika til aukinnar framleiðslu, því að sú stefna, sem með því er upp tekin, leiðir augsýnilega á margvíslegan hátt til samdráttar í framleiðslunni ekki síður en á öðrum sviðum, enda er það skoðun ríkisstjórnarinnar, sem kemur fram í grg., að vandinn í gjaldeyrismálunum sé ekki sá, að gjaldeyristekjurnar og framleiðslan sé ekki mikil, heldur of mikil kaupgeta.

Nei, vandinn á ekki að leysast á þennan hátt, heldur á þann hátt að draga stórlega úr innflutningi. Það er hin neikvæða lausn vandans, sem þar er valin. En hér er þó ekki aðeins um neikvæða aðferð að ræða, heldur er svo að henni staðið, að allt horfir í þá áttina, að þjóðin fjarlægist hröðum skrefum það takmark að geta verið sjálfbjarga af eigin framleiðslu.

Hjá okkur standa málin svo, að í landinu er nokkru meiri kaupgeta en svarar til möguleika okkar til kaupa á erlendum vörum. Þess vegna þurfum við, meðan svo er, að hafa nokkrar hömlur á innflutningi og láta heildarhagsmuni ráða verulega um magn og skiptingu hans. Ríkisstj. segist nú ætla að afnema þessar hömlur að mestu, en minnka innflutning á sama tíma um rúmlega 200 millj. á ári, eða nálægt 20%. En þá verður auðvitað jafnframt að skera fyrir undirrót innflutningshaftanna, þ.e. kaupgetuna. Hana á að skerða svo mikið, að jafnvægi náist, m.ö.o. að getuleysi og fátækt á að gegna hlutverki haftanna. Sá, sem fjárráð hefur, á að njóta fulls frelsis til þess að kaupa hvaða erlenda vöru sem hann girnist, hvort sem hún er þjóðinni þörf eða óþörf. Og sá snauði á að njóta hins sama frelsis til þess að horfa á þann varning, sem hann hefur enga getu til að kaupa. Hér á að gera það sama og með fjárfestinguna, vald og vilji peninganna á að taka við hlutverki vitsmunanna, fátæktin á að verða forsjá okkar og skömmtunarstjóri. Það er slík tegund af frelsi, sem stjórnarliðið boðar nú þjóðinni með þessu frv. og öðrum fyrirætlunum sínum.

Hver er svo aðferðin, sem beita á til þess að nálgast takmarkið, sem sagt er að stefnt sé að, hina neikvæðu lausn gjaldeyrismálanna og það þokkalega frelsi, sem okkur á að veitast í skjóli hennar? Um það fjallar þetta frv. og aðrar þær ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur boðað eða hefur á prjónunum.

Í sem stytztu máli er aðferðin þessi: Ný skráning gengisins ásamt stórfelldum nýjum tolla- og skattaálögum og hækkuðum vöxtum á að tryggja allsherjarverðhækkun í landinu, sem nemur alls á þriðja milljarð kr., þar af hreinar álögur, sem geta ekki reynzt undir 1000 millj. kr. á ári eða 1/5 — 1/6 hluta allra þjóðarteknanna. Þessari óhemjulegu flóðöldu verðbólgu og dýrtíðar er ætlað að skella óbrotinni á launastéttunum. Laun þeirra eiga að standa í stað þrátt fyrir stórfelldustu verðhækkunaröldu, sem nokkru sinni hefur skollið yfir þjóðina. Jafnframt er svo stefnt að því, að atvinna og framkvæmdir dragist saman vegna minnkaðra bankaútlána, vaxtahækkunar og minni kaupgetu, einnig gagnvart innlendri framleiðslu, sem leiða mun til þess, að lífskjaraskerðing verkafólks og annarra launamanna og bænda verður enn óbærilegri. Kjör sjómannastéttarinnar verða rýrð á sama hátt og afkoma þeirra, sem stunda smáútgerð, enn meira. Loks er alveg sérstaklega vegið að framkvæmdamöguleikum úti um landsbyggðina, m.a. með þeirri árás, sem gerð er á smáútgerðina með því að afnema flesta þá fyrirgreiðslu, sem ríkisvaldið hefur veitt til atvinnuveganna og atvinnuuppbyggingarinnar þar, með því að hrifsa úr byggðarlögunum hluta af spari- og framkvæmdafé íbúanna og með því að draga stórlega úr fjárfestingu samkvæmt fjárlögum. Möguleikar ungs fólks til náms, sérstaklega erlendis og reyndar heima líka, eru skertir svo gífurlega, að það jafngildir einkarétti hinna efnameiri til menntunar. Stofnun heimila og flest framtak ungs fólks er torveldað á hinn óskammfeilnasta hátt.

Þetta eru m.a. þær fórnir, sem krafizt er af hæstv. ríkisstj., að henni séu færðar, og í meginatriðum á að lögfesta með þessu frv. Það er það, sem hæstv. ríkisstj. heldur fram að sé að jafna byrðunum réttlátlega á þjóðfélagsþegnana. Þetta er sú stefna, sem jafna á greiðsluhallann við útlönd og skapa atvinnuvegunum traustan, varanlegan og heilbrigðan grundvöll, eins og það heitir, og færa okkur athafnafrelsið.

Skal nú vikið nokkru nánar að einstökum atriðum frv. og afleiðingum þeirra á lífskjör almennings.

Engum dylst, að megintilgangur frv. er sá að minnka kaupgetu almennings, þ.e.a.s. lækka laun hans. 23. gr. frv., þar sem ákveðið er að svipta launamenn þeirri vernd, sem þeir hafa notíð gegn verðhækkunum með samningum sínum um greiðslu verðlagsuppbótar á laun, á að tryggja, að allar verðhækkanirnar og nýju álögurnar verki sem bein launalækkun. Með afnámi vísitölunnar er þó ekki aðeins verið að lögþvinga launalækkun, heldur er jafnframt ráðizt að þeim rétti, sem verkalýðshreyfingin telur sér helgastan, réttinum til þess að ákveða með frjálsum samningum við atvinnurekendur launakjör sín og hvernig þeim skuli skipað í smáu og stóru. Þessi réttur er mannréttindi, sem ósamboðið er hverri ríkisstjórn eða löggjafarvaldi í lýðfrjálsu landi að skerða eða skemma, — mannréttindi, sem verkalýðshreyfingin getur ekki þolað að séu afnumin, hvorki með lögum né ólögum.

Hér er ekki aðeins um það að ræða, hvort verðlagsuppbætur á laun séu æskilegar eða ekki æskilegar, ekki aðeins um það að tefla, hvort launamönnunum hafi af þessari skipaninni eða hinni orðið meiri eða minni hagsbót, heldur um það, hvort þessari ríkisstj. og þeim, sem á eftir koma, á að löghelgast réttur til þess að ráðskast með grundvallaratriði í mikilvægustu réttindum þjóðfélagsþegnanna. Þessi mannréttindasvipting er e.t.v. hin alvarlegasta af öllum hinum hættulegu ákvæðum þessa frv. Með henni er lagt út á þá braut, sem enginn getur nú séð fyrir, hvern enda taki, ef ekki er við spornað þegar í upphafi.

Á því er auðvitað lítill eðlismunur að banna kauphækkanir í formi verðlagsuppbóta á laun og banna aðrar kauphækkanir og þar með skipa öllum launamálum vinnustéttanna með lögum eða tilskipunum, og að því er greinilega stefnt með þessu frv., og að nokkru leyti er sú skipan tekin upp nú þegar.

Í 28. gr. frv., sem tekin er óbreytt úr lögunum um útflutningssjóð, er ríkisstj. heimilað að verja fé úr ríkissjóði til þess að halda niðri verði á vörum og þjónustu. Samkvæmt fjárlagafrv. er gert ráð fyrir, að þessar niðurgreiðslur geti numið 302.9 millj. kr. Með afnámi vísitölunnar breytist allt eðli þessara niðurgreiðslna. Hingað til hafa þær verið tengdar vísitölunni, og tilhneiging stjórnarvalda hefur því óhjákvæmilega verið sú að nota þær til hins ýtrasta til þess að halda henni niðri og þar með kaupi launamanna.

Nú gerbreytist þetta. Þó að niðurgreiðsla minnki, hækka launin ekki, og nú er hvergi stafkrókur um það, að ríkisstj. sé skylt að greiða vöruverð niður. Henni er lagalega algerlega í sjálfsvald sett, hvort hún notfærir sér þessa heimild eða ekki. Hún getur haft niðurgreiðslurnar miklar eða litlar eftir eigin geðþótta. Þetta jafngildir því, að ríkisstj. hafi í hendi sér að lækka laun sem svarar öllum niðurgreiðslunum, eða sem svarar a.m.k. 10–15 vísitölustigum umfram það, sem ákveðið er að gera með öðrum hætti með þessu frv. Henni er þannig gefið vald til þess að ráða raunverulegu kaupgjaldi með einföldum tilskipunum og ríkisstjórnarsamþykktum.

Auðvitað verður nú ekki fullyrt um það, hvort eða að hve miklu leyti ríkisstj. notar þetta vald. Hitt er staðreynd, að henni er fengið þetta vald í hendur, og óneitanlega hlýtur sterkur grunur að læðast að manni um það, hvað undir býr, t.d. við lestur grg. frv., þar sem segir t.d. á einum stað um niðurgreiðslu á kaffi, sykri og kornvöru, á bls. 27 í grg. frv.:

„Þær vörur, sem fluttar hafa verið inn með 30% yfirfærslugjaldi, mundu að öðru óbreyttu hækka tiltölulega meira en aðrar vörur og þær vörur, sem innflutningsgjald hefur verið lagt á, tiltölulega minna. Er þetta óhjákvæmileg afleiðing þess, að nú er dregið úr því verðmisræmi, sem gjaldakerfið hefur skapað. Þetta verðmisræmi er hins vegar orðið svo gífurlega mikið, að því er einstakar vörutegundir snertir, að leiðrétting þess í einu stökki mundi koma afar illa niður á neytendum hinna ódýru vörutegunda, sem lengi hafa vanizt hinu lága verði. Af þessum sökum leggur ríkisstj. til, að hér sé farinn nokkur millivegur og fyrst um sinn dregið úr verðhækkunum með niðurgreiðslu nokkurra vörutegunda, sem hingað til hafa verið fluttar inn með 30% yfirfærslugjaldi.“

M.ö.o.: verðhækkunin má ekki koma í einu stökki, af því að neytendur eru orðnir vanir hinu lága verði. Þess vegna á fyrst um sinn að greiða hið rétta verð niður. Þegar frá líður, virðist því mega hækka verðið, eins og efni standa til. Þegar þess er svo gætt, hvernig læðzt hefur verið aftan að verkalýðshreyfingunni varðandi afnám samningsréttarins um verðlagsuppbæturnar, á þann hátt að lýsa því yfir fyrir kosningar, eins og Sjálfstfl. gerði, að samkomulags verði leitað milli atvinnurekenda og launamanna, en grímulausu ofbeldinu beitt strax eftir kosningar, eins og verkin sanna, þá gefur slíkt ótvíræða bendingu um, hvert hugurinn stefnir, og um þá misbeitingu niðurgreiðslukerfisins, sem nú er opnuð leið fyrir.

Og meðal annarra orða: Það hefur verið nokkuð hljótt um það mikla áhugamál Sjálfstfl. að endurbæta vinnulöggjöfina nú að undanförnu, þ.e.a.s. að skerða rétt stéttarsamtakanna til þess að verja eða bæta launakjör sín með þeim hætti, sem nú er lögverndaður í landinu. Finnst jafnvel ráðamönnum Sjálfstfl., að nú hafi nóg verið að gert í bili á braut mannréttindaskerðingar og launakúgunar og að ekki muni hyggilegt að hafast frekar að í bili? Eða er hitt nær sanni, sem marga grunar, að fullbúin sé nú til flutnings hér á hv. Alþingi löggjöf, sem ætlað er að kippa stoðunum undan verkalýðshreyfingunni? Um það væri fróðlegt að fá fréttir af hendi hæstv. ráðherra.

En sök hæstv. ríkisstj. í réttinda- og kjaramálum launastéttanna er vissulega ærin, þótt henni séu ekki gerðar neinar getsakir um óorðna hluti. Með þessu frv. er svo frá gengið, að hrein kjaraskerðing meðalfjölskyldu getur ekki orðið minni en 11%, þótt ekki sé tekið tillit til nýja söluskattsins, sem ætlað er að láta koma jafnt niður á brýnustu nauðsynjum sem óþarfari varningi, og ekki heldur til þeirrar miklu vaxtahækkunar, sem ákveðin er. Og í fjölmörgum tilvikum er kjaraskerðingin miklum mun meiri, sem auðvelt er að sanna og raunar liggur í augum uppi.

Ríkisstjórnin áætlar vísitöluhækkunina, sem launamönnum er ætlað að bera bótalaust, 13 stig, og ber hagfræðinga sína fyrir, en játar þó, að sitthvað sé þar ótalið, svo sem hækkun tryggingargjalda, sjúkrasamlagsgjalda, útsvarsgjalda og húsaleigu. Enn fremur er þá ótalin hækkun útsvara og engin hækkun gerð vegna vaxtahækkunar né söluskattsins, að því er bezt verður séð. En einmitt þessir liðir, sem viðurkennt er að ekki sé reiknað með, eru mjög afgerandi um afkomu manna.

Þeir vísu menn, sem að þessu frv. standa, segja, að húsaleiga hækki mjög lítið eða nær ekkert og alls ekki fyrr en eftir langan tíma. Ein fyrsta afleiðingin af þessu frv. verður þó óumdeilanlega sú, að byggingarefni hækkar um 50% og húsbyggingar dragast mjög mikið saman, e.t.v. og líklega um helming, þar sem útilokað verður, að láglaunafólk geti ráðizt í að koma þaki yfir höfuð sér eftir þá miklu hækkun efnivara, sem ráðgerð er jafnhliða launaskerðingunni. Með samdrætti í húsbyggingum skapast fljótlega húsnæðisskortur, sem aftur leiðir af sér húsaleiguokur. Raunveruleg húsaleiga hlítir fyrr og betur lögmálum framboðs og eftirspurnar en nokkurt annað verðlag. Pappírsútreikningar ráða engu um það. Húsaleiga þeirra, sem búa í eigin húsnæði, stórhækkar, strax og þetta frv. verður að lögum, vegna vaxtahækkunarinnar, sem þar kemur þyngst niður á þeim efnaminnstu eins og reyndar öll meginatriði þessara ráðstafana.

Okkur er sagt, að útsvör muni lækka. Allir, sem eitthvað þekkja til rekstrar bæjarfélaganna, vita, að þetta er helber blekking. Þær 56 millj., sem bæjarfélögin eiga að fá af söluskattinum, sem þyngstur verður þeim í skauti, sem stærstar hafa fjölskyldurnar, munu hvergi nærri duga almennt til þess að vega á móti þeirri gjaldabyrði, sem bæjarfélögin verða að taka á sig vegna gengisbreytingarinnar, þó að ekki sé reiknað með óumflýjanlegum hækkunum öðrum, og því siður, að sú upphæð dugi til að jafna bæði útgjöld vegna gengisbreytingarinnar og eðlilegra hækkana. Útsvörin koma því áreiðanlega til með að hækka, en ekki lækka.

Okkur er sagt, að auknar tryggingar upp á 152 millj, kr. og niðurfelling tekjuskatts upp á 75 millj., eða samanlagt 227 millj. kr., jafni fyllilega 10/13 hluta af verðlagshækkun þeirri, sem af gengisfellingunni leiðir. Furðulegri blekkingu er varla hægt að hugsa sér. Þótt 37 millj. kr. auknum niðurgreiðslum sé bætt við þessa upphæð, nær þetta allt ekki nýja söluskattinum, hvað þá öllum nýju tolla- og skattaálögunum. En þá er bara öll verðlagshækkunin vegna gengisfellingarinnar og vaxtahækkunarinnar eftir. Auðvitað er unnt að benda á eitt og eitt heimili, sem þannig er ástatt um, að það fær allverulegar sárabætur í formi afnáms tekjuskattsins og að einhverju leyti með fjölskyldubótunum. En dæmin um slíkt verða naumast tekin nema af þeim, sem borið hafa háan tekjuskatt til þessa, þ.e.a.s. þeim, sem helzt geta borið einhverjar byrðar, en þeir snauðustu fá minnstu bæturnar, þar á meðal barnflestu fjölskyldurnar, eins og hér hefur áður verið sýnt fram á í umr. Það er rétt, að hjón með þrjú börn, sem hafa 100 þús. kr. árstekjur, fá tekjuskattseftirgjöf, sem nemur allt að 6–7 þús. kr., en verkamaður með sama ómagafjölda, sem vinnur fyrir Dagsbrúnarkaupi, 8 stundir dag hvern árið um kring og nýtur ekki eftirvinnu og hefur því rétt helmingi lægri tekjur, fær eftirgjöf upp á 150–180 kr. Þannig er réttlætið og jöfnun byrðanna, og þannig er tekjujöfnunin, sem sagt er að eigi að framkvæma.

Við eigum enn eftir að sjá hina nýju skattalöggjöf, þar sem ákveðið verður um afnám tekjuskattsins á tekjur innan við 70–100 þús.kr., svo að um það verður að sjálfsögðu ekki að fullu dæmt að sinni. En grunur minn er sá, að þeir, sem nú standa og standa, eiga ofan við afnámsmörkin, muni, þegar til kastanna kemur, bera drýgstan hagnað þar frá borði, þegar þeir eru settir á neðsta þrepið í skattstiganum. Og ég dreg raunar ekki í efa, að þeir muni fá miklar bætur fyrir verðlagshækkanirnar.

Jafnhliða hinni beinu launaskerðingu, sem leiðir af gengisfellingunni og afnámi vísitölunnar, er einnig sótt að lífskjörum almennings úr annarri átt, og er sú atlaga sízt hugnanlegri. Margvíslegar og lævíslegar aðgerðir eiga að tryggja það, að atvinna dragist saman. Fyrsti áfanginn verður afnám yfirvinnu, sem í fjölda tilfella gefur þriðja til fjórða hlutann af vinnutekjunum. Annar áfanginn ónóg atvinna, miðað við eðlilegan vinnudag, og fæ ég ekki betur séð en þeim áfanga verði mjög skjótlega náð, víða um land á örskömmum tíma.

Þær aðgerðir, sem hér er aðallega um að ræða, eru í fyrsta lagi allsherjarsamdráttur í öllum fjárfestingarframkvæmdum, húsbyggingum og framkvæmdum hins opinbera.

Í öðru lagi stöðvun á allri útlánaaukningu bankanna, þrátt fyrir aukningu rekstrarfjárþarfar, sem nemur allt að 50% í ýmsum atvinnugreinum.

Í þriðja lagi, að bæjarfélögum og öðrum þeim aðilum, sem ráða ekki yfir neinu teljandi eigin fjármagni, er fyrirmunað að ráðast í atvinnuframkvæmdir með lánsfjárbanni og vaxtaokri.

Í fjórða lagi, að ráðizt er harkalega gegn hagsmunum smáútgerðarinnar og annarrar bátaútgerðar víða um land með afnámi sérbóta á fisk og jafnframt stuðlað að því, að togararnir sigli með óverkaðan fisk í stað þess að leggja hann upp í frystihúsin.

Það væri ærið tímafrekt að rekja nákvæmlega hvern þessara þátta samdráttarstefnunnar, og hitt er einnig, að ýmsir þeir, sem hér hafa talað á undan mér, hafa gert þeim allveruleg skil, enda mun ég ekki lengja mál mitt með því að ræða alla þessa þætti nákvæmlega, svo auðskilda hluti sem hér er um að ræða. En ef menn halda, að getsakir einar séu hér á ferðinni vildi ég ráðleggja þeim hinum sömu að rýna í innflutningsáætlun þá, sem ríkisstj. hefur látið hagfræðinga sina gera. Hún gefur glögga mynd af því, hvert ríkisstj. sjálf reiknar með að stefna hennar leiði. Í þessari áætlun er gert ráð fyrir, að innflutningur á byggingarefni minnki um 35 millj. kr. frá því, sem var árið 1958. Tel ég líklegt, að það svari til þess, að byggðar verði a.m.k. 700 íbúðum færra en nú hefur verið árlega um skeið. Áætlað er, að samanlagður neyzluvöruinnflutningur minnki um 10–15% frá árinu 1958 þrátt fyrir fólksfjölgun tveggja ára, og það, sem kannske er allra athyglisverðast, er það, að gert er ráð fyrir, að innflutningur rekstrarvara sjávarútvegs og landbúnaðar minnki úr 139.9 millj., eins og hann var 1958, í 129.9 millj. árið 1960. Þrátt fyrir stórfellda aukningu fiskiskipaflotans, sennilega nálægt 10%, og því mjög vaxandi þarfir, miðað við úthald skipanna, á að draga saman innflutning rekstrarvaranna, sem útgerðinni eru jafnnauðsynlegar og lifandi veru loftið, sem hún andar. Þessi áætlun sannar, að ríkisstj. reiknar með því, að flotinn liggi að verulegu leyti í höfn langtímum saman, að hún reiknar með auknum siglingum togaranna og meiri eða minni rekstrarstöðvunum. Þessi áætlun er sönnun þess, að hæstv. ríkisstj. stefnir vitandi vits að stórfelldum samdrætti í aðalatvinnugreinunum og atvinnuleysi í kjölfar þess. Og alls á vöruinnflutningurinn að minnka úr 1164 millj. kr. 1958 og 1167 millj, kr. 1959 í 960 millj. kr., eða um 207 millj. kr. á einu ári.

Kjaraskerðingin á að sjá fyrir minnkun neyzluvarningsins, og samdráttur og rekstrarstöðvanir eiga að halda innflutningi rekstrarvaranna niðrí. Svo ætla þeir menn, sem fyrir þessu standa, að rifna af vandlætingu, eins og hv. þm.. Ólafur Björnsson, ef minnzt er á samdráttarstefnu og atvinnuleysi og ef vefengt er í nokkru, að hér sé verið að veita okkur hið eina og sanna frelsi. Og síðan á að taka 800 millj. kr. vörulán til þess að veita okkur frelsi til þess að kaupa 200 millj. kr. minna vörumagn en við höfum gert að undanförnu og höfum getað greitt með okkar eigin. framleiðslu.

Á það hefur verið bent, að hér á landi sé einkaauðmagnið vanmegnugra en í flestum öðrum auðvaldslöndum, og þess vegna þörfnumst við mikils lánsfjár, ef eðlilegt framtak á að eiga sér stað í atvinnulegum efnum. Augljósustu dæmi þess eru, að í velflestum sjávarþorpum og kaupstöðum landsins er það almenningur, bæjarfélögin og félitir framtaksmenn, sem myndað hafa uppistöðuna í atvinnulífinu, hafa haft forgöngu um byggingu frystihúsa og annarra fiskvinnslustöðva og aukna útgerð. Þessar framkvæmdir hafa orðið mögulegar og því aðeins mögulegar, að ríkisvaldið hefur veitt mikla aðstoð og lánastofnanir fyrirgreiðslu. Ef treysta hefði átt á einkafjármagnið eitt, væri meginhluti sjávarþorpanna úti um landsbyggðina í eyði.

Nú er stefnan sú að draga á allan hátt úr opinberri fyrirgreiðslu við atvinnuvegina, minnka öll lán a.m.k. sem gengisfellingunni svarar og auk þess dæma smáútgerðarmenn og fiskimenn, sem með þeim starfa, til stórfelldustu kjaraskerðingar allra stétta. E.t.v. verða auknar siglingar togaranna á erlendan markað ein allra fyrsta afleiðing þessara ráðstafana. Um 30–40% af öllum útgerðarkostnaði togaranna er erlendur kostnaður, sem nú hækkar um 50–60%. Hækkun á fiskverði, sem togararnir fá e.t.v., mun tæplega og að dómi togaraeigenda alls ekki vega á móti þessari hækkun og öðrum, sem óumflýjanlegar eru. Og þrátt fyrir hinn gífurlega kostnaðarauka, á ekki að auka rekstrarféð um eyri. Afleiðing þess verður vitanlega sú, að togaraeigendur leitast við að koma fiskinum strax eða sem fyrst í verð og jafnframt að ná sem hagstæðustu verði á útgerðarnauðsynjum. Siglingar togaranna leiða óhjákvæmilega af sér tafarlaust atvinnuleysi víða um land og jafnframt stórminnka gjaldeyrisöflun.

Á öndverðum þessum vetri færði núv. hæstv. sjútvmrh. þingi Landssambands íslenzkra útvegsmanna þann boðskap, að hagur útvegsmanna yrði í engu skertur við væntanlegar efnahagsaðgerðir. Ýmsum og þó engum frekar en smáútvegsmönnum víða um land munu þykja efndir þessa loforðs með verulegum meinbugum. Sagt er að vísu, að gengisfellingin sé við það miðuð, að þorskveiðar bátanna beri hið sama úr býtum og þær nú gera með öllum sérbótum. Ég vil að svo komnu gera ráð fyrir, að hagfræðingum hafi tekizt að reikna þetta rétt, þótt það sé nú vefengt í mörgum greinum af þeim aðilum ýmsum, sem gerst ættu að vita, og jafnvel viðurkennt af reiknimeisturunum sjálfum, að veruleg missmíði kunni að vera á. En væri það rétt, að þorskveiðar bátanna komi til með að búa við sömu kjör eftir gengisfellinguna, þá er hitt fullvíst, að útgerðarmenn og fiskimenn í þeim verstöðvum, sem hafa að meira eða minna leyti búið við hinar svonefndu sérbætur á ýmsar fisktegundir, smáfisk, ýsu, steinbít og sumarveiddan fisk, koma til með að verða fyrir stórfelldum skakkaföllum og jafnvel svo gífurlegum, að til algerrar stöðvunar horfi um sumarveiðar. Þeir eru nú sviptir þessari jöfnun aðstöðumunar, sem talin hefur verið nauðsynleg til þess að tryggja smáútveginn víða um land. Þessi svipting sérbótanna mun leiða til þess, að fiskverð til smærri útvegsmanna stórlækkar eða jafnvel um 25–30%, þrátt fyrir þá stórfelldu hækkun, sem leiðir af gengisfellingunni, á olíum, veiðarfærum, vélum og vélahlutum og öllum öðrum rekstrarkostnaði. En kjaraskerðing þeirra, sem hér eiga hlut að, rennur til þeirra, sem betur eru settir.

Þessi árás á smáútgerðina er hvort tveggja í senn heimskuleg og óréttlát. Smáútgerðin er uppistaðan í atvinnulífi flestra sjávarþorpa í þremur landsfjórðungum. Við enga atvinnugrein í þessu landi er vinnuafl svo gernýtt sem þar. Allir leggja hönd að framleiðslunni, útvegsmaðurinn sjálfur, konur og börn fiskimannanna, en þeir eiga í mörgum tilfellum sinn hlut í útgerðinni. Þar er ekki hlaðið skrifstofubáknum eða dýrum forstjórum á kostnaðarreikninginn, og engin tilviljun er það, að einmitt sjávarþorpin, sem byggja á smáútgerðinni, skila þjóðarbúinu meiri gjaldeyrisframleiðslu á mann en nokkur önnur byggð ból í landinu, og þessi hluti framleiðslunnar er fenginn með lengri og strangari vinnudegi en víðast, ef ekki alls staðar annars staðar. Smáútgerðin er vissulega það stór þáttur í atvinnulífinu og gjaldeyrisöfluninni, að hún verður ekki, svo að vel fari, afgreidd með háðsyrðum um dreifbýlisfisk eða framsóknarýsu.

Gengisfellingin leiðir beint af sér stórfellda kjaraskerðingu smáútgerðarinnar og bátaútvegsins víða úti um land og allra, sem af þessum atvinnugreinum hafa framfæri sitt. Það er einn þátturinn af mörgum í þessum aðgerðum öllum, sem miða að þeirri allsherjar hrörnun atvinnuveganna og lækkun lífsstigsins, sem að er stefnt.

En hefur þá loforð hæstv. sjútvmrh. til útvegsmanna á s.l. hausti ekki að öðru leyti verið efnt? Um það skal ég ekki fullyrða. Hitt veit ég, að bátaútvegurinn og raunar líka togaraútgerðin búa nú við algera óvissu um fiskverðið, sem auðvitað er hið eina, sem ákvarðar kjör þessara atvinnugreina. Sjálfur grundvöllurinn í öllum útreikningunum, sjálf undirstaðan, afkoma bátanna, hangir í lausu lofti. Samkv. upplýsingum Davíðs Ólafssonar fiskimálastjóra á sameiginlegum fundum fjhn. beggja deilda hafa hinir óskeikulu hagfræðingar reiknað út, að fiskverð til bátanna ætti að geta hækkað um 28% frá verðinu kr. 2.12, eða í um það bil kr. 2.50, þegar frá hefur verið dregið hið nýja gjald í útflutningssjóð. Nú mun raunverulegt verð hafa verið um kr. 2.35, þegar tillit er tekið til þess, að ríkið hefur greitt vátryggingar, og hækkun til bátanna ætti því samkv. þessum reikningum að geta orðið um 15 aurar á kg á móti öllum þeim hækkunum, sem af gengisfellingunni leiðir.

En það þykjast fleiri geta reiknað en hagfræðingar ríkisstjórnarinnar. Þannig hefur Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna nú nýlega, í gær, að ég held, gert stjórnarsamþykkt um það, að kaupverð á þorski geti ekki orðið a.m.k. teljandi hærra en kr. 2.07, þ.e.a.s. að kaupverð fisksins standi í stað eða lækki frá því, sem nú er. Og það þykjast enn fleiri geta reiknað en fiskkaupendur. Útvegsmenn hafa líka reiknað sitt dæmi og segja, að verðið megi alls ekki verða undir kr. 2.60 til kr. 3.00 eftir tegundum. Þar höfum við þrjú fiskverð, ríkisstjórnarfiskverð á kr. 2.50, útvegsmanna á kr. 3.00 og frystihúsanna á kr. 2.07. Það munar ekki nema 50% á hæstu og lægstu tölu, og allir þykjast reikna frá sama grundvelli. Hver hefur reiknað skakkt? Ég skal ekki dæma um það, en það fer að verða skiljanlegra í ljósi þessara staðreynda, sem fyrir liggja um þessa útreikninga, að þótt hefur nauðsynlegt af hendi ríkisstj. að synja bæði mér og öðrum nm. í fjhn. um alla þá útreikninga á afkomu bátsins, afkomu frystihúsanna, sem mestu skipta í þessu sambandi. Og þessum upplýsingum er ekki aðeins haldið leyndum fyrir okkur, heldur fyrir öllum þingheimi, sem ætlað er að samþykkja og afgreiða þetta frv.

Það er sagt, að gengisfellingin, sem þjóðin á að þola ásamt með öllum tilheyrandi afleiðingum, sé byggð á afkomu bátanna, en þessum útreikningum er haldið leyndum, og þeir virðast vera svona ábyggilegir, eins og þessi dæmi sanna.

Ég ætla ekki að dæma um þessa útreikninga, en ég veit, að allir þessir þrír aðilar hafa reiknað dæmið að einu leyti skakkt. Þeir hafa gleymt fjórða aðilanum, þ.e.a.s. þeim, sem skila aflanum á land, sjómönnunum. Þeir hafa allir reiknað með því, að þeir mundu sætta sig við að fá kr. 1.66 fyrir sinn hluta aflans, og þar er komið fjórða verðið.

Var ekki verið að tala um heilbrigðan og traustan og varanlegan grundvöll fyrir atvinnuvegina og þó alveg sérstaklega bátaútgerðina? Sannleikurinn er sá, að aldrei í manna minnum hefur slíkur glundroði verið innleiddur í þessum málum sem nú, gagnstætt því, sem tíðkaðist a.m.k. á stjórnarárum vinstri stjórnarinnar og meðan Lúðvík Jósefsson var sjútvmrh. Þá voru gerðir samhliða samningar við frystihúsin, við útgerðina, við sjómenn og þannig tryggður fullur og stöðvunarlaus rekstur. Nú er aftur á móti efnt til sleitulauss ófriðar, ef ekki hreinnar styrjaldar milli allra aðila, sem að þessum atvinnuvegi standa, og fær nú í dag enginn séð fyrir, hvern enda slíkt fær né hver vandræði kunna af þessu að hljótast. Og þetta átti að vera sjálfur grundvöllurinn. Hvernig mundi þá með stöðugleika yfirbyggingarinnar?

Í grg. þeirra Ólafs Björnssonar og dr. Benjamíns Eiríkssonar fyrir gengisfellingarlögunum 1950 var svo að orði komizt, að gengislækkunin yllí ekki neinni kjaraskerðingu hjá þjóðinni í heild, þar sem hún minnkaði ekki þjóðartekjurnar, það yrðu jafnmikil verðmæti til skiptanna og áður. Eitthvað virðist á reiki hjá núv. hæstv. ríkisstj. um gildi þessarar kenningar, því að henni er tíðrætt um byrðar, sem jafna verði á þjóðarheildina, en a.m.k. hæstv. viðskmrh., sem mest barðist á móti þeim félögum 1950, virðist hafa tekið ástfóstri við þessa kenningu og hefur hana nú orðrétta sem sína speki. Að þessum ummælum hefur verið vikið hér í hv. d. áður.

Auðvitað er það rétt, að eitt aðaleinkenni og afleiðing gengisfellingarinnar er hin gífurlega fjármunatilfærsla í landinu frá launastéttunum og hinum mörgu smærri eigendum sparifjár til þeirra, sem sölsað hafa undir sig yfirráð fjármagnsins. En hún er jafnframt og ekki síður byrði, sem velt er á þjóðina í heild, vegna þess að hún ásamt þeim öðrum ráðstöfunum, sem eru fyrirhugaðar, stefnir til minnkandi framleiðslu og minnkandi þjóðartekna og leiðir þannig til þess, að minna kemur til skiptanna en áður. Þetta skilja nú ýmsir þeir aðilar, sem í augnablikinu kunna að sjá stundarhagsmuni sína glæðast, t.d. sumir útvegsmenn og jafnvel kaupsýslumenn. Þessir aðilar margir gera sér ljóst, að sjálft kerfið, sem að er stefnt að skapa, hlýtur að rýra þeirra hlut einnig, þegar til lengdar lætur. Minnkuð kaupgeta almennings étur fyrr en varir stundargróðann, sem kaupmaðurinn kann að fá með því að færa upp verðið á birgðum verzlunar sinnar, og það, sem hann kann að geta hrifsað með hækkaðri álagningu í skjóli verðhækkana. Iðnrekandinn græðir í dag á því að fá vinnuna keypta á lággengi, en á morgun sér hann fram á samdrátt vegna lánsfjárskorts og hinn daginn fram á stöðvun vegna sölutregðu, bæði af völdum hins frjálsa innflutnings og minnkandi kaupgetu. Fiskkaupandinn kann að stórgræða í dag og á morgun, en hann veit, að hinn daginn sækir sjómaðurinn sinn skerta hlut úr hendi útgerðarmannsins og útvegsmaðurinn krefur fiskkaupandann aftur um sitt réttmæta fiskverð, og hann sér líka fram á hráefnaskort vegna siglinga togaranna með óunna vöru á erlendan markað og verri afkomu af þeim sökum og vegna samdráttar í smáútgerðinni.

Þetta eru m.a. ástæðurnar fyrir því, að jafnvel þeir, sem beinlínis er ætlaður gróðinn af gengisfellingunni, eru uggandi og óánægðir, þ.e.a.s. þeir, sem sjá eitthvað fram fyrir tærnar á sér. Og svo aumt er hlutskipti þeirrar ógæfustjórnar, sem Íslendingar hafa nú yfir sér, að hún á engan heils hugar bakhjarl, jafnvel í þessum stéttum, sem að jafnaði eru þó fúsastar til að fylgja kjaraskerðingu og launaráni. Hinir einu, sem eru almennt ánægðir, er fávís heildsalastétt hér í höfuðborginni, sem heldur, að mannréttindi og frelsi í landinu standi og falli með því, hvort þeir sjálfir losni undan þeirri kvöl að norpa á biðstofunni á Skólavörðustíg 12 eða gjaldeyrisafgreiðslu bankanna. En kannske læðist líka að sumum þeirra grunur um, að 800 milljónirnar geti einhvern tíma gengið til þurrðar, og kannske líka sá, að biðin eftir því, að vörur þeirra seljist, reynist litlu kvalaminni en biðin eftir gjaldeyrisleyfunum nú.

En hins er ekki að dyljast, að þó að fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar eigi sér fáa formælendur hér innanlands, þá á hún bræður að baki eða kannske réttara sagt húsbændur meðal erlendra valdamanna. Reseptið að aðgerðunum er líka þaðan fengið. Meðan allir innlendir aðilar, sem mestra hagsmuna hafa að gæta í sambandi við efnahagslegar breytingar voru hunzaðir, voru málin rædd og brædd í París og Washington, og hefur sú dæmalausa undirgefni verið feimnislaust viðurkennd hér á hv. Alþingi. Og verkin sýna hér líka merkin. Hernámsliðið á Keflavíkurflugvelli getur nú heimtað íslenzkt vinnuafl fyrir meira en helmingi lægra verð en áður. Gróði þess af gengisfellingunni nemur ekki undir 6 millj. dollara á árí, miðað við sömu framkvæmdir og undanfarin ár, eða 200 millj. kr. miðað við nýja gengið. Og það eru ef til vill fleiri, sem hér eftir vilja kunna að notfæra sér það einstaka tækifæri til gróða að fá vinnustund íslenzks verkamanns keypta á rúmlega hálfan dollar, þegar vinnustund amerísks verkamanns kostar 3 dollara, eða 5 sinnum meira. Slík kjarakaup eru ekki boðin viða annars staðar í heiminum og næsta líklegt, að eftir þeim verði sótt. Og þeir menn munu líka finnanlegir hérlendis, sem líta á slíka sölu á íslenzku vinnuafli til erlendra auðhringa sem framtíðarbjargræði. Auðsætt er, að þessar aðgerðir ryðja þar veginn fyrir fjárfestingu erlendra fyrirtækja eða leppa þeirra, með öllum þeim geigvænlegu hættum, sem slíkt hefur í för með sér fyrir okkar litla þjóðfélag.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er stríðsyfirlýsing á hendur íslenzkri alþýðu og verkalýðshreyfingu hennar. Með lögfestingu þess eru launakjör hennar skert meira en nokkur dæmi eru til í einu vetfangi ofan á það launarán, sem framíð var fyrir réttu ári og enn stendur óbætt. Með þessu frv. er samningsréttur verkalýðshreyfingarinnar skertur í einu veigamesta atriði, þar sem lögbannað er að festa í samningum nokkra vernd gegn verðhækkunum í framtíðinni. Lögbundið, hvernig megi semja og hvernig megi ekki semja. Mannréttindum stolið. Atvinnuleysi boðið heim. Slíkt er frelsið, sem verkalýðshreyfingunni er ætlað af hinum skinhelgu hræsnurum, sem þykjast meta það öllu meira, þegar heildsalalýður Reykjavíkur er annars vegar.

Verkalýðshreyfingin varaði Alþfl. við launaráninu og réttindaskerðingunni í fyrra. Hún hefur varað núv. ríkisstj. við að framkvæma það verk, sem nú er verið að reyna. Mótmæli og aftur mótmæli hafa dunið yfir daufum eyrum hennar. Hvert einasta verkalýðsfélag, sem enn hefur rætt þetta frv., og þau eru mörg, hefur einróma andmælt því, varað við framkvæmd þess og fordæmt það. Þá má telja á fingrum sér, sem reynzt hafa svo sljóir fyrir hagsmunum sínum og sæmd verkalýðsstéttarinnar, að þeir hafa af flokksþægð stunið upp varnarorði fyrir þau afglöp, sem nú á að fremja og er ákveðið að fremja. Yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar skilur, hvað einróma andstaða verkalýðshreyfingarinnar boðar, fagnar henni og er reiðubúinn til að styðja hana í þeim átökum, sem koma hljóta, skilur, að þessi árás er dæmd til að mistakast, þó að hátt sé til höggsins reitt. Eini aðilinn í landinu, sem þykist ekkert skilja, er hæstv. ríkisstjórnin. Hún þykist báðum fótum í jötu standa með sitt 800 millj. dollara eyðslulán í bakvasanum og virðist halda, að það geti tryggt henni líf og sigur yfir verkalýðshreyfingunni og þeim yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar, sem hana styður. Við, sem höfum verið með í verkalýðshreyfingunni s.l. tvo áratugi og þekkjum nokkuð viðbrögð hennar við smærri árásum en þessi síðasta og versta er, við undrumst þessa glámskyggni. Við hljótum að mæla okkar varnaðarorð. Þótt þau verði nú ekki metin hátt, má vera, að þeirra verði minnzt siðar. Verkalýðshreyfingin hefur víssulega ekki æst til ófriðar við löggjafann eða ríkisvaldið, heldur þvert á móti boðið samstarf um vandamálin. Hún hefur nú um sinn sýnt fjandsamlegri ríkisstj. ótrúlega biðlund, meðan klækir hennar og bellibrögð voru að sýna sig til fulls. En nú mun hún segja: Hingað og ekki lengra. — Hún óttast hvorki stríðsyfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar né ögranir, en lýsir allri ábyrgð af þeim á hendur þeim, sem til ófriðarins hafa stofnað.