18.02.1960
Efri deild: 24. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

48. mál, efnahagsmál

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég hefði nú helzt óskað eftir því, að landbrh. gæti verið viðstaddur, þegar ég flyt mál mitt. Ég vil því mælast til þess við forseta, að hann stuðli að því, að ráðh. geti komið innan tíðar, og a.m.k. fyndist mér viðeigandi, að frsm. meiri hl. væri staddur í deildinni, mér finnst varla hægt að hefja fund án þess. En ég vil mjög mælast til þess, að landbrh. geti verið viðlátinn. (Forseti: Já, ég veit ekki annað en frsm. meiri hl. komi rétt strax, en ég skal gera tilraun til þess að ná í landbrh, vita, hvort hann getur mætt. )

Það má með sanni segja, að síðan þjóðinni varð nokkurn veginn ljós tilgangurinn með því frv., sem hér um ræðir, hafi hún fyllzt ótta og kvíða um framtíð sína, og slíkt er alls ekki ástæðulaust, þar sem engin viðleitni virðist vera hjá hæstv. ríkisstj. til að efna þau loforð, sem þeir flokkar, sem að stjórninni standa, gáfu fyrir kosningarnar á s.l. hausti. Sem kunnugt er, deildu þessir flokkar líka um það sín í milli, og þeir báru það upp á hvor annan, að hinn hefði stolið stefnuskránni frá sér, svo að það sýnir, hversu lík stefnuskrá þessara tveggja flokka hefur verið, að þeir skyldu fara að deila um það, svo að ekki er undarlegt, þó að samkomulag sé gott nú um þá stefnu, sem upp er tekin.

Sjálfstfl. hefur gefið út marga bæklinga á undanförnum árum. Hann gaf út bækling, sem hann nefndi „Dóm reynslunnar“, 1956, þá fyrir kosningarnar, á s.l. vori gaf hann út bækling, sem hann kallaði „Aldrei framan vinstri stjórn“, og í haust gaf hann út bækling, sem átti að lýsa því, hvernig leiðin til bættra lífskjara væri. Nú, ég vil ekki segja, að það sé beint Sjálfstfl., sem hafi gefið út þennan síðasta bækling, sem var útbýtt hér í Alþingi, þ.e. þann, sem kallaður er „Viðreisn“, en a.m.k. stóð Sjálfstfl. að því og ríkisstj., og hann er gefinn út á kostnað ríkisins. Og það er dálítið sérstakt við dreifingu þess bæklings, að það kom fyrirskipun frá póst- og símamálastjóra til allra póststöðva í landinu að sjá um dreifingu heima fyrir á þessum bæklingi. Slíkt mun vera algert einsdæmi.

Ég ætlaði að lýsa hér þeim stefnuskráratriðum, sem standa í bæklingnum um leiðina til bættra lífskjara.

Fyrsta atriðið var: stöðvun verðbólgunnar, annað: jafnvægi í þjóðarbúskapnum, þriðja: stéttafriður, fjórða: uppbygging atvinnuveganna, fimmta: hlutdeild í frjálsum viðskiptaheimi, og sjötta: aukin framleiðsla og bætt lífskjör.

En Alþfl.-menn hins vegar töluðu um, að það væri kosið um stöðvunarstefnuna.

Þessu var hvoru tveggja lofað af þessum flokkum, sem að stjórninni standa, að bæta lífskjörin og stöðva dýrtíðina, og ég efast ekki um, að hæstv. ríkisstj. nýtur þess nú, að hún gaf fyrst og fremst þessi loforð fyrir kosningarnar í haust og hefði ef til vill aldrei verið mynduð, ef hún hefði greint frá hlutunum eins og hún ætlaði sér að framkvæma þá eftir kosningarnar.

Alþfl. taldi raunar fólkinu trú um, að hann væri eiginlega búinn að lækna dýrtíðina, og þeir héldu því fram, Alþýðuflokksmenn sérstaklega, að ríkissjóður stæði sig ágætlega og útflutningssjóður sömuleiðis. Og það virtist allt vera í ágætu lagi, þannig að það þyrfti ekki eftir kosningar að grípa til neinna róttækra ráðstafana í efnahagsmálum, því að þannig voru lýsingarnar á þessum hlutum fyrir kosningarnar, og þeir töluðu um, að nú væri kosið um stöðvunarstefnuna, þ.e.a.s. að stöðva dýrtíðina í landinu.

En skjótlega eftir að Alþingi kom saman í haust, varð maður þess vísari, að sú hæstv. ríkisstj., sem þá birtist í skammdegisbirtunni, var nokkuð feimin, fór hjá sér, er hún var spurð um það, hvernig fjárhagur ríkisins væri og hvernig landsmálin blöstu við yfirleitt. Og hæstv. ríkisstj. gaf engin svör önnur en þau, að hún sagði við þingheim: Farið þið heim, hér hafið þið ekki neitt að gera. Við þurfum bæði tíma og næði til að hugsa. — Það var þá komið svo, að hæstv. ríkisstj. þurfti tíma og næði til að hugsa málin, sem öll voru og virtust vera í lagi fyrir kosningarnar eða nokkrum vikum áður. En hæstv. forsrh. skýrði óvart frá því á Varðarfundi, að það þyrfti nú skjótlega að fá 250 millj. til þess að borga hallann hjá ríkinu, og varð hann því fyrstur manna til að koma upp um það, að Alþfl.-menn höfðu sagt ósatt um fjárhag ríkisins fyrir kosningarnar. Það var hann fyrstur manna, sem tilkynnti landslýð það, að Alþfl.-menn hefðu farið með ósannindi fyrir kosningarnar. Og það var flokkurinn, sem sagði, að það væri kosið um stöðvunarstefnuna. En hver er stöðvunarstefna Alþfl. eða sú stöðvunarstefna, sem lýst er samkv. því frv., sem hér liggur fyrir?

Það er að vísu sagt í frv., í grg. þess, að vísitalan hækki aðeins um 13 stig — og raunar ekki nema um 3 stig, þegar búið er að taka með niðurgreiðslur og auknar fjölskyldubætur. En í vísitöluútreikningi eru aðeins þær brýnustu lífsnauðsynjar, sem almenningur þarf á að halda, og það eru ekki aðrar hækkanir teknar með í þennan útreikning en það, sem gengisbreytingin ein leiðir af sér. Allar aðrar hækkanir heldur hæstv. viðskmrh. fram að séu tilfærsla á milli manna og stofnana og félaga í landinu, það sé ekki skerðing á lífskjörum, heldur bara tilfærsla. En eftir hvaða leiðum fer þá þessi tilfærsla, sem hæstv. ráðh. heldur fram að eigi sér stað? Mér virðist hún fara mjög eftir leiðinni, sem hæstv. forsrh., Ólafur Thors, hefur margsinnis lýst að væri stefna Sjálfstfl., þ.e. fyrst að hugsa um einkahagsmuni, þar næst hagsmuni Sjálfstfl. og síðast þjóðarhagsmunina. Eftir þessum leiðum fer tilfærslan samkv, frv. þessu. Það eru færðar til tekjur á milli manna, frá þjóðinni, ef máður mætti svo segja, til einstakra manna, þ.e.a.s., það er tilfærsla á kostnað almennings í landinu. Að öðru leyti vil ég segja þetta um stöðvunarstefnuna, sem lofað var í haust af báðum þeim flokkum, sem að stjórninni standa, að hún er ekki í dýrtíðarmálum. Hún liggur á allt öðru sviði. Það er stöðvun á framkvæmdum hjá alþýðu manna, hjá þeim, sem minnst mega sín í landi voru, það er unga fólkið, sem hefur horft björtum augum til framtíðarinnar og ætlar sér að koma upp eigin heimili, eigin húsnæði og eignast vistlegt heimili eða hefja atvinnurekstur í sveit eða við sjó. Þeim fjárhagslega stuðningi, sem veittur hefur verið til þessa fólks, er algerlega kollvarpað með þessu frv. Öll lán og styrkir verða að engu í því dýrtíðarflóði, sem nú er að hefja innreið sina undir forustu þeirra manna, sem sögðu í haust, að það væri kosið um stöðvunarstefnuna og um leiðina til bættra lífskjara eins og sjálfstæðismenn héldu fram.

Stöðvunarstefna Alþfl. í framkvæmd er því ekki að stöðva dýrtíðina, heldur að stöðva og minnka framkvæmdir til stórra muna frá því, sem verið hefur á undanförnum árum.

Fjárveitingar samkv. fjárlagafrv. eiga að standa í stað í krónutölu, en það þýðir færri og minni skóla, færri og minni hafnir, færri brýr og styttri vegi og minnkandi rafmagnsframkvæmdir ásamt miklu minna fjármagni til atvinnuaukningar úti á landsbyggðinni en verið hefur. Síðar, þegar fóru fram umræður um fjárlagafrv., kórónaði hæstv. fjmrh. þetta allt saman með því að boða landslýð, að nú ætti sannarlega að láta hamar fógetans falla á þá, sem verið hefðu að byggja hafnir og kaupa atvinnutæki á undanförnum árum, ef þeir gætu ekki staðið í skilum með greiðslur, eins og ákveðið er samkv. samningum. Sem sagt, það á að hætta að láta ríkið standa við sínar ábyrgðir og það á að hætta að styrkja menn til að auka framleiðsluna víðs vegar um landið, eins og verið hefur á undanförnum árum. Og þvert ofan í gefin fyrirheit á alls staðar að kreppa skóinn að öllum almenningi, en jafnframt auka rými einstakra manna, sem eiga að erfa landið og drottna yfir gæðum þess á kostnað alls almennings í landinu.

Sjálfstæðismenn töluðu mjög um það, eins og stendur í þessum bæklingi, sem ég lýsti áðan, að leiðin til bættra lífskjara væri að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Við skulum athuga nánar, hvernig leiðin til bættra lífskjara liggur hjá Sjálfstfl. og í því frv., sem hér liggur fyrir, hvernig þessi lífskjör, góðu lífskjörin, sem flokkurinn býður upp á, kunna að vera í framkvæmd. Það á t.d. að hækka alla vexti, svo af stofnlánum sem öðrum lánum, og síðan stytta lánstíma og hækka stimpilgjöld ásamt aukatekjum ríkissjóðs. Það er líka vitað mál, að rekstrarvörur til landbúnaðar hækka frá 20 og upp í 50%, byggingarefni 47%, fatnaður um 40–90% og búsáhöld um 40–50%, og þannig má lengi telja upp, hvert leiðin til bættra lífskjara liggur hjá öllum almenningi í landinu.

En á mótí þessum hundruð milljóna hækkunum eiga að koma auknar tryggingar upp á 152 millj. og aukin niðurgreiðsla 38 millj. kr. Hvernig skyldi nú dæmið líta út hjá ungum hjónum, sem eru með 5 börn og ætla að stofna heimili í sveit? Við skulum segja, að þau þurfi að kaupa 10 nautgripi og fá einn grip á 5 þús. kr. eða gripirnir kosti allir 50 þús. kr., að þeir hækki ekki meira en það til vorsins. Með þeim góðu kjörum, sem hæstv. ríkisstj. býður þessum hjónum upp á, þurfa þau að greiða í ársvexti 6000 kr. eða eitt kýrverð og einu þúsundi betur, það eru 6 þús. kr. á einu ári án afborgana, eða á rúmum 8 árum hefur verð kúnna tvöfaldazt, þá kosta þær 100 þús. kr. með þeim vöxtum, sem ætlazt er til að verði greiddir af lánum í framtíðinni. Þetta eru þau góðu lífskjör, sem Sjálfstfl. býður þessum ungu hjónum upp á.

Sama fjölskylda þarf ef til vill að kaupa dráttarvél, og eftir þeim upplýsingum, sem hv. frsm. 2. minni hl. gat um hér áðan, mundi slík vél núna, ef um Ferguson-dráttarvél er að ræða, kosta um 90 þús. eða hækka um 30 þús., — hækka um 30 þús., eftir leiðinni til bættra lífskjara eða stöðvunarstefnunni.

Alþýðuflokksmenn mundu kannske segja, að þessi fjölskylda væri ekki alveg á flæðiskeri stödd, þar sem hún fengi svo miklar fjölskyldubætur, ef hún væri með 5 börn. En það er þess að geta, að þó að þessi fjölskylda notaði fjölskyldubæturnar bara til þess að greiða þann aukakostnað, sem dráttarvélin leiðir af sér nú með þessari hækkun, þá tekur það hana 3 ár, hækkunin gleypir fjölskyldubæturnar á 3 árum, það er hvorki meira né minna. En hins vegar, ef þessi hjón þyrftu að taka lán til þess að kaupa dráttarvélina einnig og greiða 12% í vexti, þá eru það 10800 kr. á ári. Sem sagt bara fyrir það, ef keyptar eru 10 kýr og ein dráttarvél, þá er vaxtaspursmálið á einu ári 16800 kr. Ég er hræddur um, að ef búskapurinn í landinu á að bera uppi þessi kjör, þá megi verulega hækka verð landbúnaðarvara frá því, sem nú er. En það virðist vera öðru nær af þessu frv. en að slíkt muni eiga sér stað, því að það er gert ráð fyrir því að halda verði á landbúnaðarafurðum eins niðri og unnt er, eins og raunar öllu öðru en því, sem fólkið þarfnast og á að kaupa til sinnar framleiðslu og sér til lífsviðurværis.

Það má með sanni segja, að þegar ríkið réttir eina krónu að þegnunum, þá tekur það hana margfaldlega aftur. Það er óhætt að segja, að það tekur hverja krónu margfaldlega aftur, sem það lætur þegnana hafa. Þessi dæmi sýna nokkurn veginn, hvernig fólki er fyrirmunað að njóta sin við framleiðslustörf eða að mynda heimili, því að allar aðrar hækkanir verða eftir þessu, sem ég hér áður lýsti, og gefin fögur fyrirheit sjálfstæðismanna eru algerlega svikin, því að allir finna, hvernig lífskjörin eru eftir leið sjálfstæðismanna til bættra lífskjara.

Mér þykir raunar slæmt, að hæstv. landbrh. skuli ekki vera hér, en ég þurfti sérstaklega nú að minna hann á nokkur atriði, og vildi ég mælast til þess við hv. frsm. meiri hl., að hann kæmi þeim orðum til hans, sem ég hér segi, af því að ég sé mér ekki fært að bíða. En ráðh. er sjálfsagt upptekinn við ýmsa aðra hluti, því að hann virðist meta allt annað meira en að hugsa um sitt aðalstarf sem landbrh., því að hann sést aldrei hér í deildinni, þegar slík mál eru til umræðu. (Forseti: Ég vil tilkynna hv. þm.. það, að ég gerði ráðh. orð að koma. Meira get ég ekki gert. Hann veit um þetta. ,Ég vil geta þess, að hann á ekki sæti hér í deildinni, hæstv. ráðh., og ég geri ekki ráð fyrir, að hann hafi frekar vitað það en ég, að ræðumaður, hv. þm.., ætlaði sérstaklega að tala við hann í þessari ræðu sinni.) Ég vil geta þess út af því, sem hæstv. forseti sagði nú, að ég hélt, að ráðherrum, þó að þeir eigi ekki atkvæðisrétt nema í annarri deildinni, beri að vera viðstaddir umræður jafnt í báðum deildum, því að þegar önnur eins mál og nú eru hér á dagskrá, þá geta þeir alltaf búizt við því, að þeir verði að einhverju leyti að standa fyrir svörum, jafnt landbrh. sem aðrir ráðherrar.

Já, hæstv. landbrh. sagði vorið 1958, þegar verið var að ræða þá um efnahagsmál, og það var í útvarpsumr., með leyfi hæstv. forseta:

„Landbúnaðurinn, sem engan málsvara virðist hafa átt, þegar verðbólgufrv. var samið, verður fyrir hvað mestum skakkaföllum vegna þessara ráðstafana. Allar rekstrarvörur landbúnaðarins eru stórum hækkaðar og 55% yfirfærslugjald lagt á brýnustu nauðsynjavörur landbúnaðarins.“

En hvað leggur hæstv, ráðh. til núna? Hvað leggur hæstv. landbrh. til núna, samkv. því frv., sem hér er verið að ræða? Eftir að hafa lofað í mörg ár að lækka rekstrarvörur landbúnaðarins, þá stórhækkar hæstv. ríkisstj. og þ. á m. þessi ráðh. allt og lætur hvergi örla á því, að neitt eigi að mæta þessum gífurlegu hækkunum. Ráðh. undirstrikar með þessu frv., að hann hafi ekki neitt meint með masi sínu á undanförnum árum um lækkun á yfirfærslugjaldi á rekstrarvörum landbúnaðarins. Hann afhjúpar algerlega eigin ósannindi. Og svo sagði þessi sami hæstv. ráðh., þegar verið var að ræða frv. til laga um landnám, ræktun og byggingar í sveitum, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er ekki unnt að hefja búskap nú í sveit nema hafa í hendinni eða ráð á nokkrum hundruðum þús. kr., og það er það, sem gerir æsku þessa lands erfitt fyrir með að verða kyrr í sveitunum. Æskan hefur ekki farið úr sveitum þessa lands af því, að hún hafi ekki viljað vera í átthögunum og helga þeim sína starfskrafta, heldur eingöngu vegna þess, að hana hefur skort fé til þess að stofna bú í sveit, til þess að byggja hús, til þess að kaupa jörð, til þess að kaupa vélar og öll tæki, sem búskapurinn þarfnast. Það hefur verið hægara fyrir æskufólkið að gifta sig og taka á leigu íbúð hér í Reykjavík. Til þess hefur þurft minna stofnfé. Það er þess vegna, sem margt af okkar efnilega æskufólki hefur farið gegn vilja sínum úr sveitinni að sjávarströndinni.“

Það er undarlegt, að þessi hæstv. ráðherra skuli nú gera þessu fólki, sem hann talar um, algerlega ókleift að hefja búskap í sveit. Og hæstv. ráðh. er sannarlega kaldrifjaður maður að ætla sér að eyðileggja alla uppbyggingu samkv. nýbýlalögunum og láta þá, sem þar byggja hús, engin lán hafa, eins og nú á sér stað, og er það í fyrsta skipti, síðan stofnlánasjóðirnir tóku til starfa, að ekki hefur verið hægt að sjá þeim fyrir tilskildum lánum eins og öðrum, sem hafa verið að byggja.

Ráðh. gerir ekki heldur endasleppt í þessum efnum, því að samkv. þessu frv. óskar hann eftir því að fá heimild til þess að hækka vexti af lánum hjá þessum aðilum og sömuleiðis stytta lánstíma, þ.e.a.s. ef hann getur þá nokkurn tíma útvegað nokkra peninga til þess að lána þessum aðilum. Nei, þarna er hæstv. landbrh. að hefja þá stefnu, sem sjálfstæðismenn hafa lýst mjög á undanförnum árum, og það er, að það sé nauðsynlegt, það sé þjóðhagslega nauðsynlegt að fækka bændum landsins um helming. Það hefur enginn talað jafndigurbarkalega um þessi málefni bændanna og hæstv. núv. landbrh., og það hefur heldur enginn afhjúpað svo ósannindin og blekkingarnar, sem hann hefur farið með, eins og hann hefur gert með þessu frv. Þarna stefnir allt í þveröfuga átt við það, sem ráðh. hefur lýst á undanförnum árum, og það sést bezt, fyrir hvað hann hefur keypt ráðherraembættið á sínum tíma. Það er ekki til að þjóna bændastéttinni til góðs, heldur að framkvæma allt í þveröfuga átt við það, sem hann hefur áður um talað hér á hv. Alþingi og annars staðar.

Það er sannast sagna, að þessar ráðstafanir allar samkv. frv. eru mjög fráleitar fyrir landbúnaðinn og ekki sízt séð frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Það örlar nú nokkuð á því, að mjólkurframleiðslan sé ekki nægileg miðað við neyzluþörf þjóðarinnar á mjólkurafurðum. Nú ætti að gera einmitt róttækar ráðstafanir til þess að stórauka landbúnaðarframleiðslu, en ekki stefna í gagnstæða átt. Það má aldrei verða hlé á því að rækta eða klæða landið gróðri, því að sé slakað á taumunum í því efni, fara með hverju árinu sem líður ekki aðeins fleiri býli í eyði, jafnvel heilar sveitir.

Vera má, að þau lífskjör, sem hæstv. ríkisstjórn býður almenningi upp á samkv. þessu frv., verði svo naum, eins og allt bendir til, að fólk verði að neita sér um að drekka mjólk, borða kjöt og grænmeti, svo að það sé allt í lagi, þó að framleiðslan dragist saman. Og ríkisstj. má gjarnan hugleiða það, hvert stefnir með frv. þessu varðandi samdrátt í landbúnaðarframleiðslu og minnkandi neyzlu. Og með leyfi hæstv. forseta, þá stendur í grg. frv.:

„Þá er það einnig ætlun ríkisstjórnarinnar að leyfa engar verðhækkanir á innlendum vörum og þjónustu vegna launahækkana.“

Við skulum segja sem svo, að það verði launahækkanir í landinu, þó að hæstv. ríkisstj. ætlist ekki til þess, þá er ekki leyfilegt að reikna með slíkum launahækkunum inn í verðlagsgrundvöll landbúnaðarafurða samkv. frv. þessu, þannig að bændur eiga ekki þar að njóta sömu kjara og aðrir í þjóðfélaginu. Þeir eru þarna, eins og byrjað var á undir stjórn Alþfl. og sjálfstæðismanna raunar líka fyrir ári, settir skör lægra í þjóðfélaginu, eins og oft áður, þegar þessir flokkar hafa farið með völdin í landinu.

Það er undarlegt, hvernig hæstv. ríkisstjórn getur ráðizt á unga fólkið og hvers það á að gjalda hjá hæstv. ríkisstjórn. Það er útilokað, að það geti hafið búskap í sveit, það getur ekki keypt eða byggt yfir sig í kaupstað, og það getur ekki kostað sig til náms erlendis, þar sem það þarf nú að borga 17900 kr., þar sem það greiddi 10 þús. kr. fyrir nám áður. En það er sagt og segir í grg. frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Um íslenzka námsmenn erlendis gildir að sínu leyti svipað og um farmenn og flugmenn, þeir hafa getað keypt erlendan gjaldeyri á sérstaklega hagstæðu gengi. Þau fríðindi munu nú að sjálfsögðu falla niður. Hefur verið ráð fyrir því gert í fjárlagafrv., að námsmönnum verði þetta bætt að nokkru með því, að námsstyrkir hækki í sama hlutfallí og verð hins erlenda gjaldeyris, þannig að styrkirnir geti haldizt óbreyttir í erlendum gjaldeyri þrátt fyrir gengisbreytinguna.“

Það má vel vera, að það verði við það staðið að hækka styrkina. En ég vil benda á það, að þeir, sem verða ekki í náðinni hjá hæstv. stjórn, sem vafalaust útbýtir þessum styrkjum, fá engan veginn og ekki á nokkurn hátt uppborið þá hækkun á gjaldeyri, sem þeir verða að greiða nú, þ.e.a.s. 79%, og þar með er efnilegum fátækum mönnum algerlega fyrirmunað að njóta jafnréttis við aðra, sem hafa efnahagslegar ástæður til að kosta sig erlendis.

En það eru ekki aðeins námsmennirnir, sem verða að kaupa gjaldeyrinn miklu dýrari en þeir þurftu áður. Það eru einnig hinir, sem af heilsufarslegum ástæðum verða að fara til annarra landa. Það eru sjúklingar. Þeir verða nú að borga gjaldeyrinn 79% dýrara en áður var, svo að það er með sanni hægt að segja, að þarna er ráðizt á garðinn, þar sem hann er lægstur, þar sem sjúkir menn munu eiga í hlut, því að yfirleitt fara ekki aðrir til lækninga erlendis en þeir, sem eru mjög sjúkir, og það vita allír, að slíkt er líka mjög kostnaðarsamt.

Það er alveg sama, hvar borið er niður í frv. þessu, það er ráðizt alls staðar á garðinn, þar sem hann er lægstur, á þá, sem þjóðfélagið ætti að styrkja til að skapa sjálfstæða þegna í lýðfrjálsu landi.

Frv. þetta felur í sér stórfellda skerðingu á réttindum manna fyrir utan allt annað. Hinn óbreytti borgari á hér eftir ekki sama rétt og áður til að fá fjárhagslega aðstoð til að mynda heimili, eins og hann hefur átt nú um skeið. Hann á það líka á hættu að geta ekki séð sómasamlega fyrir sér og sinni fjölskyldu, og það er líka ráðizt á þær stofnanir úti á landsbyggðinni, eins og sparisjóðina og innlánsdeildir kaupfélaganna, sem hafa orðið til þess að byggja upp atvinnutæki víðs vegar á landinu og auka framleiðsluna. Það er talið, að það þurfi að leggja áherzlu á að bæta gjaldeyrisaðstöðu þjóðarinnar. En þarna er ráðizt á þá aðila, sem verr eru settir og hafa til þessa haft fjármagn heima fyrir til þess að reyna að byggja upp atvinnulífið og búa fólkinu, sem þar er, sómasamleg lífsskilyrði.

Ég gat í upphafi máls míns, hverju sjálfstæðismenn hefðu lofað, þegar gengið var til kosninga í haust. Ég hef líka fært rök fyrir því, að hvert einasta atriði, sem þeir lofuðu, það svíkja þeir nú með því frv., sem hér liggur fyrir, því að þetta frv. stuðlar ekki að stöðvun verðhækkunar, heldur þveröfugt. Það eru litlar líkur fyrir því, að stéttafriður myndist um það, og engar líkur til, að það skapi neitt jafnvægi í þjóðarbúskapnum, og útilokað, að nokkur uppbygging atvinnuvega eigi sér stað samkv. því. Það myndar ófrelsi og viðskiptahöft í stað frjálsra viðskipta. Það dregur saman framleiðsluna og rýrir lífskjör alls almennings. Það stefnir á allan hátt í þveröfuga átt við það, sem hæstv. stjórnarflokkar lofuðu fyrir kosningar í haust eftir „leiðinni til bættra lífskjara“.

Ég er þeirrar skoðunar, að það, sem ætti að gera í efnahagsmálum núna, sé að taka hlutunum rólega, halda áfram eins og unnt er að efla og byggja upp atvinnulífið, svo að aukin framleiðsla til lands og sjávar geti mætt auknum byrðum, en ekki takmarkalaus kjaraskerðing þeirra, sem sízt mega við því, eins og stefnt er að með frumvarpi þessu.