18.02.1960
Efri deild: 24. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

48. mál, efnahagsmál

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, hefur nú verið rætt mjög mikið í báðum deildum þingsins. Í mörgum ræðum, sem um það hafa verið haldnar, hefur verið sýnt fram á með glöggum rökum, að samkv. þessu frv. á að leggja gífurlegar álögur á þjóðina og taka upp samdráttarstefnu í atvinnulífi og framkvæmdum. Vegna þess, hve þessi stefna, meginstefna frv., hefur verið ýtarlega rakin, mun ég ekki beina orðum mínum sérstaklega að heildarstefnunni, sem frv. markar, heldur fremur gera að umtalsefni nokkur einstök atriði málsins.

Þegar þurft hefur að gripa til þess áður að breyta gengi krónunnar, eins og t.d. var gert 1939 og aftur 1950, þá var ástæðan til þess sú, að það þurfti með þeim ráðstöfunum að rétta hag útflutningsframleiðslunnar, að útflytjendur og þá sérstaklega framleiðendur sjávarafurða fengju til ráðstöfunar fleiri krónur, eftir að gengisbreytingin hafði verið gerð, heldur en þeir höfðu áður. Nú kemur í ljós, að með grg. þessa frv. fylgir ekki yfirlit yfir rekstrarafkomu bátaútvegsins, sem hefði þó vitanlega átt að vera og réttmætt er að gera kröfu til, til þess að þm.. geti fyllilega áttað sig á því undirstöðuatriði málsins. Og stundum áður, þegar hagfræðingaálit hafa verið lögð fyrir þingið eða afhent þingmönnum til athugunar, hafa slík yfirlit verið látin fylgja. En í grg. þessa frv. er það tekið fram, að gengisskráningin, sem frv. gerir ráð fyrir að gildi eftirleiðis, sé við það miðuð, að hagur vélbáts á þorskveiðum verði svipaður og verið hefur að undanförnu samkv. uppbótakerfinu, og hér hefur í þessum umræðum verið rækilega sýnt fram á það með óhrekjandi rökum, að í sumum greinum framleiðslunnar, þar sem um vissar fisktegundir er að ræða og mikill smáfiskur veiðist, er með þessu frv. stefnt að augljósum halla fyrir bátaútveginn. Sá hagur, sem togaraútgerðinni á að hlotnast af samþykkt þessa frv., er áreiðanlega ekki meiri en svo, að það hefði verið hægt að jafna þann halla með áhrifaminni ráðstöfunum en stefnt er að með þessu frv. Af þessu er Ijóst, að sú gengislækkun, sem nú er fyrirhuguð, er ekki fyrst og fremst gerð vegna sjávarútvegsins, gagnstætt því, sem verið hefur undanfarið, t.d. bæði 1939 og 1950.

Meginröksemd fyrir því nú, að nauðsyn beri til þessarar gengisfeilingar, sem hér er lagt til, er sú, að þetta þurfi að gera vegna greiðslugetu landsins út á við og til þess að létta þá greiðslubyrði, sem á þjóðarbúskapnum hvílir nú vegna erlendra lána.

Afleiðingin af þeirri uppbyggingarstefnu, sem fylgt hefur verið undanfarin ár, er sú, að útflutningur landsmanna hefur farið vaxandi ár frá ári að magni til og raunar að verðmæti líka. Ef við lítum á vörumagnsvísitölur, sem hagstofan hefur gert úr garði og liggja fyrir, þar sem miðað er við árið 1935 og hlutfallið þá sett 100, þá er vörumagnsvísitala útflutnings þannig: 1952 209, 1953 237, 1954 284, 1955 280, 1956 339, 1957 322 og 1958 349, m.ö.o., að útflutningurinn að vörumagni til hefur farið vaxandi ár frá ári að undanförnu samkv. yfirliti hagstofunnar. Samsvarandi tölur liggja ekki fyrir enn fyrir árið 1959, en það er kunnugt, að framleiðsla sjávarafurða nam á árinu 1958 505 þús. smál., en samkv. bráðabirgðayfirliti um fiskafla 1959 hefur hann numið 556 þús. smál., eða m.ö.o. aflamagnið hefur aukizt um nálega 11% á árinu 1959 frá því árið 1958. Í viðbót við þetta ber að gæta þess, að þjóðin er að fá ný og afkastameiri framleiðslutæki til nota einmitt nú á s.l. ári og á þessu ári, þannig að öll skilyrði eru fyrir hendi til þess, að þessi þróun haldi áfram á næstu árum, að framleiðsluaukningin vaxi.

Þegar á þetta er litíð, þessa þróun, vekur það eftirtekt, að í þeim töflum, sem fylgja þessu frv. og eru í raun og veru grundvöllur þessa máls, eru gjaldeyristekjur þjóðarinnar, bæði í heild og af útflutningi sérstaklega, furðulega lágt áætlaðar á árinu 1959, þegar tillit er tekið til þess, að aflamagnið jókst um nálega 11% það ár frá árinu 1958. Ég tel, að hæstv. ríkisstj. sé mjög ámælisverð fyrir það, að hafa ekki látíð endurskoða og leiðrétta þá tölu, sem er skráð í þessari töflu, sem fylgir frv., um gjaldeyristekjur þjóðarinnar 1959, í samræmi við þær upplýsingar og það bráðabirgðauppgjör, sem nú er hægt að gera og e.t.v. liggur fyrir í febrúarmánuði 1960. Ég tel þetta mjög ámælisvert, vegna þess að þetta er í raun og veru grundvöllur þeirra rökræðna, sem fara fram um þetta mál, og það er öllum skylt að hafa það, sem sannast reynist, og hafa þann grundvöll, sem rökræðurnar byggjast á, sem allra traustastan. En þegar á þetta er litið, þá kemur í ljós, að um gjaldeyristekjur ársins 1959 er aðeins birt hér áætlunartala, og það er áætlunartala, sem sýnir lægri gjaldeyristekjur í heild á árinu 1959 en þær reyndust á árinu 1958, þrátt fyrir þá aukningu á aflamagni, sem ég hef áður getið um.

Það mun nú vera augljóst, að þessi tala er ekki raunhæf, heldur munu raunverulegar gjaldeyristekjur ársins 1959 vera allmiklum mun hærri en hér er sagt. Hins vegar munu afborganir og vextir eða gjaldabyrðin vegna erlendra lána vera rétt tilgreind samkv. þessari töflu. En við það, að grundvöllurinn, þ.e.a.s. gjaldeyristekjur ársins 1959, er raunverulega hærri en hér er sagt, þá er prósentutalan 9.5%, sem á að sýna gjaldabyrðina, ekki heldur rétt. Þar er um lægri prósenttölu að ræða eftir því, hvernig grundvöllurinn breytist, sem reiknað er frá. Og þegar á þessa töflu er litíð, sem er undirstöðuatriði málsins, vekur það eftirtekt og vekur furðu, hvað þær áætlanir eru lágar um gjaldeyristekjur næstu ára, sem hér eru birtar, með tilliti til þeirra framleiðslutækja, sem þjóðin á, og með tilliti til þeirrar reynslu um útflutning, sem við höfum frá s.l. árum.

Mér virðist, þegar á þetta er litið, að hér hljóti að koma til eitt af þrennu: Að ríkisstj. og þeir, sem að undirbúningi þessa frv. hafa unnið, geri raunverulega ráð fyrir miklum samdrætti í atvinnulífi þjóðarinnar, gagnstætt því, sem þeir halda þó fram í orði. Í öðru lagi, að þeir geri ráð fyrir verðfalli fyrir íslenzkar afurðir á erlendum mörkuðum eða sölutregðu langt umfram það, sem verið hefur, en það er einnig gagnstætt því, sem þeir halda fram í orði. Eða í þriðja lagi, að þessum tölum sé hagrætt svona vísvitandi í blekkingarskyni, og væri það vissulega mjög ámælisvert.

Það er játað í grg. þessa frv., að af því muni leiða nokkra kjaraskerðingu fyrir almenning í landinu. En samkv. niðurstöðum grg. á þó sú kjaraskerðing ekki að verða nema mjög lítil eða jafnvel ekki yfir 3%. Það hefur verið sýnt fram á það í umræðum um þetta mál, að álögur samkv. þessu frv. nemi um eða yfir 1 milljarð kr., hins vegar séu bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og niðurfelling tekjuskatts, sem eigi að vega upp á móti þessu, ekki nema hátt á annað hundrað millj. kr. Það þarf ekki annað en að virða fyrir sér þessar tölur til þess að gera sér grein fyrir því, að kjaraskerðing samkv. þessu frv. hlýtur að verða í heild miklum mun meiri en gert er ráð fyrir í grg. frv. En það er einnig eftirtektarvert, að þeir útreikningar, sem byggt er á í grg. frv. um þetta atriði, eru eingöngu miðaðir við vísitöluna. Og þar er sagt, að verðhækkanir á erlendum vörum, sem færast inn í vísitöluna, muni sennilega verða um 25%, en verðhækkanir á landbúnaðarvörum muni væntanlega verða um 12%. En niðurstaðan er þó sú, eins og sýnt hefur verið fram á í þessum umræðum, að meðaltal þessara hækkana á að verða 13%.

Mönnum verður fyrst fyrir, þegar þeir lesa þetta, að hugsa til þess, hvaða liðir það eru í vísitölunni, sem vega svo mikið, þar sem búizt er við, að erlendu vörurnar geri 25% hækkun, að meðaltalshækkunin verði ekki nema um 13%. Það virðist vera, að sá liður í vísitölunni, sem á að vega einna mest í því efni að lækka meðaltalið, sé húsaleigukostnaður. Mér virðist, þegar ég les grg. og talað er um húsaleiguhækkunina, að þá sé einungis miðað við afleiðingar af gengisbreytingunni sjálfrí, en ekki í því sambandi tekið tillit til vaxtahækkunarinnar. Nú er það þó vitanlegt, að í sambandi við húsnæðismálin er mikið fé í veltunni, og vaxtahækkunin hlýtur að koma fram með miklum þunga í sambandi við húsnæðisliðinn, áður en langir tíma líða. Þess ber einnig að gæta, að eftir að þær gífurlegu verðhækkanir hafa átt sér stað, sem stefnt er að því að komi í kjölfar þessa frv., ef að lögum verður, þá hlýtur að draga mjög úr íbúðarhúsabyggingum. En ef samdráttur verður á þeirri starfsemi, hlýtur innan skamms að hefjast kapphlaup um íbúðarhúsnæðið á vissum stöðum á landinu og þó að það sé ekki gert í hvítu bókinni, þá hafa hagfræðingar oft bent á það, að þar sem húsnæðisskortur er og framboðið samsvarar ekki eftirspurninni, þá leiði það af sér innan skamms mikla hækkun á húsaleigu, sem naumast verði rönd við reist. Mér virðist alls ekki vera tekið tillit til þessa í sambandi við þetta atriði málsins.

Þær hagsbætur, sem ætlazt er til að veittar verði samkv. þessu frv. til að vega að nokkru á móti þeim gífurlegu verðhækkunum og kjaraskerðingu, sem af því leiðir, eiga að fást aðallega með breyt. á tryggingalöggjöfinni. Það hefur verið föst venja undanfarið, þegar meiri háttar breyt. hafa verið gerðar á tryggingalöggjöfinni, að þá hafa þær verið vandlega undirbúnar, jafnvel af milliþinganefndum, sem hafa fjallað um þau mál. 1954 var t.d. skipuð fimm manna milliþn. til þess að endurskoða tryggingalöggjöfina, og sú nefnd starfaði um skeið og skilaði rækilegu áliti, sem var lagt til grundvallar við þá endurskoðun á löggjöfinni, sem fór fram 1956. En nú virðist svo sem tekin hafi verið upp ný aðferð að þessu leyti. Það er ekki kunnugt, að nein fræðileg athugun hafi farið fram á tryggingalöggjöfinni til undirbúnings þeim breyt., sem nú eru boðaðar í sambandi við þetta mál, heldur munu þær hafa verið ákveðnar af ríkisstjórninni og ráðunautum hennar í efnahagsmálum sem liður í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar og þingmeirihlutans. Ég bendi á þetta til að sýna, að þær breytingar, sem nú eru fyrirhugaðar á tryggingalöggjöfinni, eru ekki fyrst og fremst félagsmál, heldur liður í efnahagskerfi því, sem ríkisstj. er að koma á, og ég bendi á þetta einnig til þess að minna á, að með þeim breyt., sem nú eru boðaðar á þessari löggjöf, er vikið enn lengra frá því en áður hefur verið, að tryggingalöggjöfin sé framkvæmd á hreinum tryggingagrundvelli, eins og upphaflega var þó ráðgert.

Það mun vera ráðgert að raska verulega nú þeim hlutföllum um tekjustofna trygginganna, sem hafa verið nokkurn veginn í föstum skorðum mörg undanfarin ár milli einstaklinga, sveitarfélaga og ríkisins. Ég er ekki í sjálfu sér að deila á hæstv. ríkisstj. fyrir þetta, en bendi aðeins á, að hér er farið inn á nýja braut, sem í raun og veru er ekki séð fyrir endann á, því að vitanlega hafa þeir aðilar, sem leggja Tryggingastofnuninni fé, bæði einstaklingar og sveitarfélög, mikla tilhneigingu til þess að breyta þessu hlutfalli enn frá því, sem nú er fyrirhugað, sér í hag.

Það er fullyrt í grg. þessa máls, að það verði tryggt, að kjör ellilífeyrisþega og öryrkja verði ekki skert. Þessari tryggingu á að ná samkv. ákvæðum frv. á þann hátt að hækka lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins um ca. 44%, að mér skilst. En það kemur hvergi fram í skýringum við þetta mál né í ræðum forsvarsmanna málsins, að það eru fleiri í þessu landi, sem lifa á lífeyrí, heldur en það fólk, sem fær lifeyri sinn greiddan hjá Tryggingastofnun ríkisins. Samkv. yfirliti, sem hagstofan hefur nýlega gert og birt í Hagtíðindum um starfandi lifeyrissjóði í landinu, eru nú starfandi hvorki meira né minna en 34 lífeyrissjóðir auk Tryggingastofnunar ríkisins. Þeir skiptast þannig: lífeyrissjóðir ríkis og ríkisstofnana 9, lífeyrissjóðir bæjarfélaga 6, lífeyrissjóðir bundnir við einstök fyrirtæki 10, lífeyrissjóðir stéttarfélaga 9 — eða samtals 34 sjóðir. Það er hlutverk þessara sjóða að greiða lífeyri til gamals fólks og öryrkja. Sumir þeirra annast lífeyrisgreiðslurnar að öllu leyti til vissra þjóðfélagsþegna, sem njóta ekki lífeyris hjá Tryggingastofnun ríkisins, en aðrir þessara sjóða veita lífeyrisþegum viðbót við tekjur sínar — við þær fjárhæðir, sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir. Nú hefur það hvergi komið fram í umræðum um þetta mái, að það eigi að bæta því fólki, sem nýtur lífeyris úr hinum sérstöku lífeyrissjóðum, upp þá skerðingu, sem það verður fyrir á sínum ellilífeyri, en vitanlega minnka þær tekjur að kaupmætti í sama hlutfalli og aðrar launatekjur. Ef ekki eru fyrirhugaðar neinar sérstakar ráðstafanir í þessu efni, fær ekki heldur staðizt sú afdráttarlausa fullyrðing, sem haldið er fram, að kjör lífeyrisþega í landinu almennt verði ekki skert.

Þá er gert ráð fyrir því, að fjölskyldum verði bætt verulega sú tekjurýrnun, sem verðhækkanirnar valda, með auknum fjölskyldubótum. Um það er út af fyrir sig allt gott að segja. En sá ljóður virðist þó vera á um þann þátt málsins, sem hv. 4. þm.. Vestf. sýndi greinilega fram á með tölum við 1. umr. þessa máls hér í d., að þessar auknu fjölskyldubætur eiga fyrst og fremst að falla í skaut þeim fjölskyldum, sem hafa á framfæri ekki fleiri en þrjú börn. Ef fjölskyldan er stærri eða börnin fleiri, sem eru á framfæri foreldranna, þá hækka fjölskyldubæturnar á fyrsta verðlagssvæði aðeins um 269 kr. vegna hvers barns, sem er umfram þrjú í fjölskyldu.

Ég gat um það áðan, að breytingar á almannatryggingalöggjöfinni hefðu að undanförnu verið vandlega athugaðar og undirbúnar, áður en til þess hefði komið að lögfesta slíkar breytingar á Alþingi. Mþn., sem skipuð var 1954 til þess að endurskoða tryggingalöggjöfina, leitaði álits sveitarstjórna í landinu og margra félagssamtaka um mörg atriði í sambandi við tryggingalöggjöfina. Þessi n. fékk svör frá 165 sveitarstjórnum og nokkrum félagasamböndum í viðbót. Þá um skeið, þegar sú n. gerði till. sínar, hafði þeirri reglu verið fylgt að greiða fjölskyldubætur með öðru barni í fjölskyldu og svo þeim börnum, sem fram yfir þá tölu voru, sleppa einungis fjölskyldubótum með fyrsta barni. En niðurstaðan af athugun mþn. varð sú, sem lögfest var 1956, að hverfa frá því að greiða fjölskyldubætur með öðru barni í fjölskyldu, en verja heldur þeim fjármunum, sem áður höfðu farið til þeirra hluta, til þess að auka tryggingarnar á öðrum sviðum, og síðan 1956 hefur þeirri reglu verið fylgt, sem enn er í lögum, að greiða ekki fjölskyldubætur með fyrsta og öðru barni í fjölskyldu. Af þeirri athugun, sem fór fram á þessu máli, áður en breyt. á tryggingalögunum var gerð 1956, má draga þá ályktun, að það hafi til þessa verið nokkuð almenn skoðun í landinu, að ekki bæri brýna nauðsyn til þess að greiða fjölskyldubætur, a.m.k. ekki með fyrsta barni og jafnvel ekki með öðru barni í fjölskyldu heldur. Þó að þessu eigi nú að breyta, þá endurtek ég, að það er í sjálfu sér allt gott um það að segja. En það virðist koma einkennilega fyrir, að þegar horfið er að þessu ráði, að greiða fjölskyldubætur með fyrsta og öðru barni í fjölskyldu, þá skuli fjárhæðin vera hlutfallslega miklu lægri, sem á að falla í skaut barnmörgum fjölskyldum heldur en þeim fjölskyldum, sem einungis hafa fá börn á framfæri. En það lítur út fyrir, að jafnvel þetta sé sett inn í frv. vitandi vits. Og það vekur eftirtekt, þegar grg. er lesin og vitnað er til þeirra áhrifa til tekjuauka, sem fjölskyldubæturnar eiga að veita, að þá er yfirleitt tekið fram, að það sé miðað við fjölskyldu, þar sem eru þrjú börn eða fleiri, sérstaklega miðað við fjölskyldu, þar sem eru þrjú börn. Og það er næsta eftirtektarvert, sem ég held að hafi ekki verið bent á fyrr í þessum umræðum, a.m.k. ekki í þessari hv. d., hvernig komizt er að niðurstöðu í grg. frv. um þau áhrif, sem auknar fjölskyldubætur eiga að hafa til að vega á móti gjaldaaukningunni, sem af verðhækkunum leiðir. Það er komizt að þeirri niðurstöðu í töflu á bls. 34 í grg. frv., að vegna þess að fjölskyldubætur eins og aðrar greiðslur frá Tryggingastofnuninni eru nú nokkru lægri á öðru verðlagssvæði en á fyrsta verðlagssvæði, en á hinn bóginn er hér ráðgert, að fjölskyldubætur verði jafnháar til allra barna, hvar sem þau alast upp í landinu, þá muni fólkið, sem býr á öðru verðlagssvæði trygginganna, þ.e.a.s. í sveitum og kauptúnum, hagnast á þessum ráðstöfunum, þannig að þegar um fimm barna fjölskyldu er að ræða, þá verði hagur þeirrar fjölskyldu þannig, að hlutföllin verði áður 100, en allt að 118, eftir að þetta frv. hefur verið samþykkt. Þetta er vissulega eftirtektarvert, og ég get ekki látið hjá líða að benda á það í þessum umræðum, hvernig þessi tala er fengin.

Hún er fengin þannig, að útgjaldaauki fjölskyldu, þar sem um er að ræða hjón með eitt barn, aukist vegna áhrifa gengislækkunarinnar um 6650 kr. á ári Ef nú bætist annað barn í fjölskylduna, þá á útgjaldaaukinn samkv. þessu frv. að verða 6650 kr., nákvæmlega jafnhár og þegar um eitt barn í fjölskyldu væri að ræða. Framfæri annars barnsins á sem sé samkv. þessum tölum ekki að kosta neitt. Nú bætist enn við barn í fjölskyldu, svo að þau verða 3. Þá á útgjaldaaukinn að verða alls fyrir fjölskylduna 6800 kr., þ.e.a.s. útgjöldin eru talin hækka um 150 kr. á ári vegna þriðja barnsins, það er kr. 12.50 á mánuði eða 42 aurar á dag. Enn stækkar fjölskyldan og börnin verða fjögur. Þá er samkv. töflunni í frv. útgjaldabyrði heimilisins hækkuð upp í 7100 kr., gjöldin á ári hækka um 300 kr. alls, þ.e. 25 kr. á mánuði fyrir fjórða barnið í fjölskyldunni eða 83 aurar á dag. Og enn stækkar fjölskyldan, svo að börnin verða fimm, og þá er sagt, að útgjöld heimilisins muni hækka um 7300 kr. vegna áhrifa frv., þ.e.a.s. vegna fimmta barnsins í fjölskyldu um 200 kr. á ári, kr. 16.67 á mánuði eða 56 aura á dag. Og þegar þær tölur, sem þannig eru fengnar og stillt upp á þennan hátt, eru lagðar til grundvallar sem röksemd fyrir þessum þætti málsins, þá er fengin sú niðurstaða, að hagur þeirra, sem búa á öðru verðlagssvæði trygginganna, batni samkv. þessu, þannig að hlutföllin verði 118, eftir að þetta frv. hefur verið samþ., á móti 100 áður. Það má vera, að til séu hagfræðingar, sem telja þessar tölur raunhæfar, vera í samræmi við raunhæfa búreikninga. Það má vera, að hæstv. ríkisstj., sem flytur þetta frv., trúi því, að þetta, sem lagt er til grundvallar fyrir þessum þætti málsins og birt er í hvítu bókinni m.a., sem ríkisstj. hefur gefið út, sé raunvísindi, sé hagspeki byggð á raunhæfum búreikningum. En fólkið í landinu veit, að þetta er ekki raunhæf mynd af þessum þætti málsins. Þetta felur ekki í sér neina raunhæfa hagspeki, þó að tölur séu fengnar út á þennan hátt til þess að reyna að gylla málið í augum almennings.

En vegna þess að í grg. er sérstaklega tekið fram, að það fólk í landinu, sem býr á öðru verðlagssvæði trygginganna, þ.e.a.s. í sveitum og kauptúnum, muni hagnast umfram aðra á þeim ráðstöfunum, sem hér á að lögleiða, þykir mér rétt að drepa á örfá fleiri atriði í því sambandi.

Það er mjög ánægjulegt, að vel sé séð fyrir hag gamalmenna og öryrkja, hvar sem þeir búa í landinu, og vitanlega ekki síður þess fólks, sem býr á öðru verðlagssvæði trygginganna, heldur en þeirra, sem búa á fyrsta verðlagssvæði. En það skulu menn þó gera sér ljóst, að velgengni sveita og kauptúna grundvallast ekki fyrst og fremst á því, að hlúð sé að gamalmennum og öryrkjum, heldur grundvallast hún fyrst og fremst á því, hvernig búið er í haginn fyrir atvinnulífið á þessum stöðum og hverra kosta unga fólkið, sem á að erfa landið og vill byggja það, á að njóta.

Það hefur oft borið á því í þessum umræðum, að menn gera greinarmun á launþegum og atvinnurekendum. Mér finnst það ekki nægilega koma fram hjá mörgum ræðumönnum, að það er til allstór hópur í þessu landi, þar sem þetta tvennt er sameinað, þar sem teknanna er aflað með eigin atvinnurekstri og það fólk, sem þeirra tekna aflar, er í raun og veru hvort tveggja í senn launþegar og framleiðendur. Þannig er um bændastéttina og að nokkru leyti um smáútvegsmenn líka. Og þær byrðar, sem leggjast á þetta fólk, eru því tengdar báðum þessum þáttum, framfæri fjölskyldunnar og atvinnurekstrinum sjálfum og þeim rekstrarkostnaði, sem verður að inna af hendi í sambandi við hann. Þessir þættir eru svo tvinnaðir saman, að í raun og veru verður ekki á milli þeirra greint í framkvæmd.

Ég ætla þá að víkja að því, sem fram kom hjá einum ræðumanni við 1. umr. þessa máls hér í d., hv. 9. landsk., að sú vaxtahækkun, sem gert er ráð fyrir að eigi sér stað, eftir að frv. þetta er orðið að lögum, muni lenda á atvinnurekendum, en ekki launþegum, — þá vaxtahækkun eigi atvinnurekendurnir einir að bera, sagði hv. 9. landsk. við 1. umr. þessa máls.

Mér finnst, að í þessu komi fram annaðhvort vísvitandi blekking eða að þeir, sem að þessu frv. standa og eru formælendur þess, geri sér alls ekki rétta grein fyrir því, hvernig áhrifa þessa frv. muni gæta í framkvæmd. Ég tek vaxtabyrðina sem dæmi, einmitt í sambandi við þá, sem búa á öðru verðlagssvæði trygginganna, þ.e. úti um land, í sveitum og í sjávarþorpum. Þeir, sem búa langt frá verzlunarstað og aðalhöfnum landsins, þar sem vörur eru fluttar mjög þétt til landsins og frá, búa við þá aðstöðu að verða að draga að sér vörubirgðir, oft með löngum fyrirvara, bæði til hagræðis, til tímasparnaðar og vegna þess, að vegasambönd eru alls ekki trygg, t.d. yfir vetrarmánuðina. Og þeir, sem framleiða sauðfjárafurðir og garðávexti, eru þannig settir með atvinnurekstur sinn og tekjuöflun, að framleiðsluvörur þeirra koma á markað í einu lagi síðara hluta árs, aðallega í september og októbermánuði. Fyrri hluta ársins verða þeir að draga að sér vörubirgðir til heimila sinna til framfærslu fjölskyldunnar, efni til hvers konar framkvæmda, sem vitanlega verður að vinna á sumarmánuðunum, og að miklu leyti eða jafnvel mestu leyti rekstrarvörur til búskaparins. Verzlanirnar, sem þetta fólk skiptir við, láta þessar vörubirgðir í té, ekki gegn staðgreiðslu, heldur með því að færa andvirði þeirra í viðskiptareikninga. Nú hafa margar verzlanir og þar á meðal a.m.k. sum kaupfélög fyrir nokkru tekið upp þá reglu að reikna viðskiptamönnunum vexti mánaðarlega eftir því, hvernig hagur reikningsins stendur um hver mánaðamót. Þetta þýðir það, að allir þeir, sem fá tekjur sínar af sauðfjárframleiðslu og garðávöxtum, verða að bera lausaskuldabyrði í viðskiptareikningi sínum 9–10 mánuði ársins og greiða hann síðan upp með innleggi á síðustu mánuðum ársins. Vitanlega færa verzlanirnar vaxtabyrðina með hinum aukna þunga, sem hinir hækkuðu vextir hafa í för með sér, inn í viðskiptareikninga fólksins. Verzlanirnar velta vaxtabyrðinni af sér, en hún skellur með vaxandi þunga á alþýðuheimilunum í þessu landi og kannske fyrst og fremst á því fólki, sem býr á öðru verðlagssvæði almannatrygginganna. Ég hygg, að ef þeir, sem hafa samið þetta frv. og grg. þess, hefðu gert sér grein fyrir þessu og viljað leggja málið alveg efnislega og rökrétt fyrir, þá hefði verið óhætt að sleppa útreikningunum um ágóðann eða haginn, sem fólkið á öðru verðlagssvæði almannatrygginganna á að fá af þessum ráðstöfunum.

Farmgjöld eiga að hækka. Vitanlega bitnar það fyrst og fremst á þeim, sem þurfa að láta flytja vörur langa vegu, ýmist sjóleiðis eða landveg. Byggingarkostnaður hlýtur því að hækka jafnvel enn meira úti um landsbyggðina heldur en í þéttbýlinu, þar sem flutningar eru tiltölulega ódýrari en út um land. Í viðbót við þetta á svo að koma alger óvissa fólksins, sem stendur í framkvæmdum, um stofnlán t.d. úr ræktunarsjóði og byggingarsjóði sveitanna, um lánstíma og um vaxtakjör. Menn kunna að segja, að í þessu sambandi beri að gæta þess, að í verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða sé tekið tillit til vaxtagreiðslna. Það er rétt, svo langt sem það nær. En það er eingöngu miðað við meðalbú og meðaltöl um þennan lið eins og aðra kostnaðarliði. En þeir, sem eru ofan við meðaltalið, þeir, sem eru þannig í sveit settir, að flutningskostnaður og rekstrarkostnaður við búskapinn er meiri en meðaltalið, verða sérstaklega að bera halla af þessum sökum.

Jafnframt þessu á svo að skerða hlutfallslega framlög til samgöngumála, — ég segi hlutfallslega við þann kostnað, sem af framkvæmdunum leiðir. Og enn er atriði, sem hefur ekki verið bent á í þessum umræðum, að eftir að þessi löggjöf hefur verið samþ. og þegar hún kemur til framkvæmda, þá hækkar vitanlega í hlutfalli við annað kostnaður við ræktun landsins. En ef jarðræktarlögunum verður ekki breytt í sambandi við þessar efnahagsráðstafanir, þá skekkist um leið hlutfall um framlag ríkisins til jarðræktar frá því, sem verið hefur, gagnvart því kostnaðarhlutfalli, sem bóndinn sjálfur leggur fram.

Vel má vera, að hæstv. ríkisstj. hafi í huga að bera fram á þessu þingi frv. til breyt. á jarðræktarlögunum, þar sem þetta fáist leiðrétt, en ég hef ekki heyrt neinar yfirlýsingar um það af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. En það nægir ekki í þessu falli að hækka fjárframlög í fjárlögum til þessara mála, vegna þess að greiðslan á hverja verkeiningu er bundin í jarðræktarlögunum.

Það hefur nokkuð verið víkið að því áður í þessum umræðum, hvernig hagur unga fólksins í sveit og við sjó muni verða, eftir að ákvæði þessa frv. hafa orðið að lögum og komið til framkvæmda. Hvernig skyldi það verða um stofnun nýbýla í sveit, eftir að þessar ráðstafanir hafa verið gerðar? Skyldi það verða aðgengilegra en verið hefur, eða ætli því fylgi ekki stórkostlega auknir erfiðleikar vegna áhrifa þessa máls? Ég hygg, að svo sé. En það hefði verið vel þess vert, að einn kafli í hvítu bókinni, sem ríkisstj. hefur gefið út, fjallaði um þetta, en ekki eingöngu um það, hvernig ætti að hlúa að hinu aldraða fólki í landinu.

Það hefur verið minnzt á það hér áður, að t.d. algeng tegund heimilisdráttarvéla, Ferguson, mundi hækka um ca. 30 þús. kr. í útsöluverði, þ.e.a.s. í innkaupi fyrir bóndann, eftir að þessar ráðstafanir hafa verið gerðar. Við sjáum, þegar þetta er borið saman við heildartekjur verkamanns og þá jafnframt tekjur þær, sem bóndinn á að hafa, þegar þær eru metnar í hlutfalli við þennan eina kostnaðarlið, hvernig hagur unga fólksins muni verða að þessum ráðstöfunum gerðum, þar sem miðað er við heildarárstekjur verkamanns og bónda, 60–70 þús. kr., en hækkun á einni dráttarvél nemur um 30 þús. kr.

Eitt af því, sem fært er fram sem rök fyrir þessu máli, er það, að uppbótakerfið leiði til ójafnvægis í atvinnurekstri þjóðarinnar, þannig að ef bætur eru mismunandi á framleiðsluna, þá sé hætta á, að framleiðslan aukist óeðlilega á þeim sviðum eða vinnuaflið beinist um of að þeim framleiðslugreinum. Orðrétt segir svo um þetta í grg. á bls. 16:

„Þegar bætur eru mismunandi, beinist framleiðslan hins vegar inn á þau svíð, þar sem bæturnar eru tiltölulega hæstar samanborið við framleiðslukostnað, og það má einmitt gera ráð fyrir, að hæstu bætur séu greiddar með þeirri framleiðslu, sem ella ætti örðugast uppdráttar.“

Þessar hagfræðilegu kennisetningar eru í sjálfu sér ekkert óálitlegar við fyrstu sýn. En sá ljóður er á, að atvinnulíf íslenzku þjóðarinnar sýnir, að þær eru ekki í samræmi við raunveruleikann. Í fyrsta lagi er hér ekki tekið tillit til þess, að atvinnulífið hjá okkur Íslendingum er þannig að það er í sumum greinum árstíðabundið. Á vissum árstímum verður að leggja mesta rækt við að veiða þorsk hér við suðurströndina, á öðrum tíma árs að veiða síld fyrir Norðurlandi o.s.frv., þannig að það er alls kostar eðlilegt og nauðsynlegt í þjóðfélaginu, að hreyfing eigi sér stað á vinnuaflinu í samræmi við þetta.

Þá er kunnara en frá þurfi að segja, að að undanförnu hefur vinnuafl þjóðarinnar leitað frá undirstöðuatvinnuvegum hennar, framleiðslunni í landbúnaði og sjávarútvegi, en meira að þeim greinum, sem skapa ekki gjaldeyri, heldur annast ýmiss konar þjónustu, svo sem verzlun og þjónustu af öðru tagi. Nú er það hagfræðilega séð sjálfsagt hagkvæmt þjóðinni, að það fólk, sem vinnur við verzlun og ýmiss konar þjónustu, sé ekki fleira en brýna nauðsyn ber til, svo að þjónustan sé innt af hendi, en það sé þjóðfélagslegur hagur, að sem flestir vinni af fullum krafti að framleiðslunni og hún sé stunduð hvarvetna um land og meðfram ströndum landsins.

Þegar athuguð er hagfræðikenning eins og sú, sem ég drap á og flutt er hér í grg., þá er ekki úr vegi að lita á, hvernig fólksfjölgun þjóðarinnar á undanförnum árum hefur skipzt á milli landshluta og atvinnugreina, því að það er hið raunhæfa gagnvart íslenzkum þjóðarbúskap, eins og hann hefur verið undanfarin ár og eins og þau mál standa nú í dag. Þegar þessi samanburður er gerður, þá er það álitamál, hvernig eigi að skipta landinu og við hvaða tímabil eigi að miða. Ég hef gert á þessu athugun, sem er miðuð við tímabilið árslok 1954 til ársloka 1958, þ.e.a.s. 4 ára tímabil, og ég hef í þessu falli skipt landinu í svæði eftir hinum nýju kjördæmum. Hin raunverulegu áhrif samkv. þeirri hagfræðikenningu, sem ég gat um, hafa þá sérstaklega átt að koma fram á s.l. 4 árum, þegar uppbótakerfið hefur verið aukið, ef á að rekja áhrifin til þess, og af þeim ástæðum vel ég þetta tímabil.

Á þessu fjögurra ára tímabili hefur fólksfjöldi í Reykjavík aukizt um 11.6%, fólksfjöldi í Reykjaneskjördæmi hefur aukizt um 26.4%, fólksfjöldi í Vesturlandskjördæmi hefur aukizt um 7.5%, fólki í Vestfjarðakjördæmi hefur fækkað um 2.9%, fólki í Norðurlandskjördæmi vestra hefur fækkað um 0.4%, fólki í Norðurlandskjördæmi eystra hefur fjölgað um 1.9%, fólki í Austfjarðakjördæmi hefur fjölgað um 3.5%, og í Suðurlandskjördæmi hefur fólksfjölgun numið 6%. Hvað sýna nú þessar staðreyndir um þjóðarbúskap Íslendinga að þessu leyti? Hefur haftakerfið og hinar misjöfnu bætur, sem greiddar hafa verið og nú á að afnema, leitt til þess, að það hafi orðið of mikið eða óeðlilegt aðdráttarafl hjá þeim framleiðslugreinum, sem notið hafa hinna hæstu útflutningsbóta? Nei, þvert á móti. Í sumum landshlutum, þar sem atvinnuvegirnir hafa notið þessara sérstöku bóta, hefur ekki tekizt að halda fólksfjöldanum alveg í fullum skorðum, en í öðrum landshlutum hefur hann aukizt dálítið, en þó miklu minna en á ýmsum öðrum svæðum landsins. M.ö.o.: það, sem gert hefur verið, hefur vegið á móti straumi aldarandans og áhrifum fjármagnsins, þar sem það er mest samandregið, að verulegum mun, en þó ekki fyllilega nægilega til þess, að jafnvægi næðist að þessu leyti. Nú á með þeim rökum, að aðdráttarafl framleiðslugreina útí um land kunni að verða óeðlilega mikið, ef sérstakar bætur eru greiddar á vissar greinar útflutningsins, að afnema þær. Það gefur bendingu um, hvernig þróunin muni verða að þessu leyti á næstu árum og að hverju er stefnt um þennan þátt málsins af hæstv. ríkisstjórn og fylgismönnum þessa frumvarps.

Þá er það ein meginröksemd, sem færð er fram fyrir þessu máli, að það þurfi að koma jafnvægi á þjóðarbúskapinn, og í hvítu bókinni og grg. þessa frv. er vitanlega kafli um jafnvægisleysið í þjóðarbúskapnum gagnvart viðskiptunum við útlönd. En því er nú svo háttað, að þeir, sem setið hafa á þingi um skeið að undanförnu, hafa stundum áður fengið í hendur allt hagfræðinga, og sum þau álit hafa að mínum dómi verið miklum mun skilmerkilegri en grg. með þessu frv. Í sumum þeim hagfræðingaálitum, sem þm.. hafa áður fengið í hendur, er t.d. bent á það með allsterkum orðum, að jafnvægisleysi geti skapazt innbyrðis í þjóðfélaginu með mismunandi dreifingu fjármagnsins. Það sé hagfræðilegt lögmál, að fólkið leiti þangað, þar sem fjármagnið er fyrir hendi og sé undirstaða framkvæmda og atvinnulífs fremur á einum stað en öðrum. Af þessu misvægi innanlands leiði samdrátt, rýrnun og jafnvel eyðingu verðmæta á sumum stöðum á landinu, en á öðrum stöðum komi í kjölfar þess ofþensla, kapphlaup á vinnumarkaði, húsnæðisskortur, húsaleiguokur og fleiri fylgikvillar þessa jafnvægisleysís. Þetta valdi aftur erfiðleikum fyrir bæjarfélög, tekjurýrnun hjá sumum, en á öðrum stöðum verði öll fyrirtæki of smá, áður en líður, og valdi bæjarfélögunum á þeim stöðum geysilegum erfiðleikum við nauðsynlega uppbyggingu.

Það er eftirtektarvert, að í hvítu bókinni er enginn kafli um þetta efni, sem hagfræðingar hafa þó oft lagt mikla áherzlu á.

Það hefur einnig legið fyrir hér á hv. Alþingi, að ýmsir málsmetandi hagfræðingar hafa dregið fram önnur sjónarmið en þau, sem lögð eru til grundvallar í grg. þessa frv. Þegar gengislækkunarfrv. var til meðferðar hér á hv. Alþingi 1950, skilaði hagfræðingurinn Gylfi Þ. Gíslason, núv. hæstv. menntmrh., ýtarlegu nái., sem er raunverulega hagfræðileg álitsgerð um hagþróun Íslands síðan 1939 og fleiri þætti, sem þar eru teknir til meðferðar. Þá komst hann í þeirri hagfræðilegu álitsgerð að öðrum niðurstöðum í veigamiklum atriðum en nú eru lagðar til grundvallar þessu frv., og vil ég leyfa mér að benda á örfá dæmi þess, en skal ekki fara langt út í það efni.

Hagfræðingurinn, núv. hæstv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, sagði m.a. svo 1950 um gengislækkunarfrv., sem þá var til meðferðar:

„Það er höfuðeinkenni þessa frv., sem hér er um að ræða, að því er aðeins ætlað að vera tilraun til þess að ráða bót á jafnvægisleysinu í fjárhagsmálum þjóðarinnar. Það er ekki tilgangur þess að ráða jafnframt nokkra bót á hinu félagslega jafnvægisleysi með gagngerum ráðstöfunum til tekju- og eignajöfnunar. Sérhver ráðstöfun, er snertir fjárhagsjafnvægið, snertir jafnframt félagslega jafnvægið. Þess vegna verða þessi tvö mál ekki aðgreind. og þess vegna hefði það átt að vera liður í undirbúningi þeirra tillagna, sem hér er um að ræða, að athuga tekju- og eignaskiptinguna, eins og hún er nú, sem og sérstakar aðstæður, sem miklu máli skipta fyrir lífskjörin, svo sem húsnæðismálin. Með því móti einu hefði fengizt öruggur grundvöllur til þess að byggja á till., er tryggðu, að hin nauðsynlega endurskipting þjóðarteknanna vegna sjávarútvegsins yrði réttlát.“

Hvernig er nú þessarar reglu gætt í sambandi við þetta mál? Hvernig er um framkvæmd á þessu boðorði? Eru gerðar samhliða þessu frv. gagngerar ráðstafanir til tekju- og eignajöfnunar í þjóðfélaginu, sem höfð er í huga og öðrum þræði lögð til grundvallar við endurskiptingu þjóðarteknanna?

Í þessum umræðum hefur verið lögð á það áherzla m.a. af hæstv. menntmrh., sem talaði um málið í Nd., að með þessu frv. væru gerðar ráðstafanir til mikils tilflutnings á tekjum milli stétta í þjóðfélaginu. Það má því að vissu leyti segja, að hér sé stefnt að endurskiptingu þjóðarteknanna, eins og Gylfi Þ. Gíslason orðaði það 1950. En ég fæ ekki séð, að þessi endurskipting þjóðarteknanna sé nú miðuð við það að rýra hlut eignamannsins, en bæta hlut hins eignaminni, heldur þvert á móti.

Þá sagði hagfræðingurinn Gylfi Þ. Gíslason um gengislækkunina 1950:

„Að öðru leyti er það um þetta að segja, að ég tel það ekki eiga að vera höfuðmarkmið þeirrar stefnu, sem fylgt er í efnahagsmálum, að hægt sé að halda uppi svonefndri frjálsri verzlun. Ég tel höfuðmarkmiðið eiga að vera það, að haldið sé uppi fullri atvinnu og full hagnýting allra framleiðslutækja tryggð, svo álit ég, að verzlunin eigi að vera eins frjáls og samrýmist þessu höfuðmarkmiði. Ýmis fræðileg rök og gömul og ný reynsla virðist benda til þess, að vafasamt sé, að hvort tveggja geti farið saman: algerlega óheft framtak í framleiðslu og viðskiptum annars vegar og full atvinna og full hagnýting atvinnutækja hins vegar.“

Ég legg áherzlu á þetta, að hér er mikið sagt af hagfræðingi: Fræðileg rök og gömul og ný reynsla benda til, að það geti ekki hvort tveggja farið saman: algerlega óheft framtak í framleiðslu og viðskiptum annars vegar og full atvinna og hagnýting framleiðslutækja hins vegar. — Mér virðist, að það, sem nú er lagt til grundvallar þessu máli, sé það sjónarmið, sem hagfræðingurinn Gylfi Þ. Gíslason sagði 1950 að ætti ekki að vera aðalatriði. En hagfræðilegar niðurstöður eiga vitanlega að standa óhaggaðar án tillits til, hverjir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu hverju sinni. Hér er um fræðigrein að ræða, en ekki pólítíska afstöðu.

Enn fremur benti hagfræðingurinn Gylfi Þ. Gíslason á það 1950, hve margs þyrfti að gæta í sambandi við gengislækkanir og ráðstafanir, sem gerðar væru jafnhliða. M.a. þyrfti þess að gæta að hafa um það samráð við verkalýðshreyfinguna og reyna að tryggja heillavænlega framkvæmd málsins á þann hátt, Um þetta segir svo orðrétt í þessari álitsgerð:

„Frv. hefur að engu leyti verið undirbúið í samráði við verkalýðssamtökin. Ýmis ákvæði þess eru til þess fallin að vekja tortryggni af hálfu þeirra, og er það miður farið. Verkalýðssamtökin gera sér vafalaust ljóst, að engum er gagn að gagnkvæmum hækkunum á kaupgjaldi og verðlagi, sízt hinum vinnandi stéttum sjálfum. Alþýða manna mun vafalaust ekki skorast undan því að taka á sínar herðar sanngjarnan hluta af þeim byrðum, sem á þjóðina í heild kann að verða að leggja vegna versnandi markaðsskilyrða, ef málin eru lögð hreinskilnislega fyrir hana og hún telur sig geta borið traust til þeirra, sem með framkvæmdavaldíð fara. En það er eðlileg krafa verkalýðssamtaka, að þeir fórni fyrst og fórni mest, sem haft hafa stórtekjur og safnað hafa stóreignum á undanförnum áratug.“

Hvernig er þessu boðorði fylgt af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í sambandi við undirbúning þessa máls? Það hefur komið fram í þessum umræðum, að það hafi alls ekki verið haft samráð við verkalýðssamtökin og þannig brugðið frá þeirri reglu, sem hæstv. núverandi menntmrh. lagði mikla áherzlu á að fylgt væri 1950. Mér skilst, að í þessu frv. séu ákvæði, sem eru til þess fallin að vekja tortryggni hjá verkalýðshreyfingunni, og mér skilst, að það sé fullkomlega vafasamt, þótt ekki sé dýpra tekið í árinni, að verkalýðshreyfingin beri nú traust til þeirra, sem með framkvæmdavaldið fara. Og hvað er um fórnirnar? Hvernig hefur hæstv. menntmrh. og Alþfl. tryggt það nú í sambandi við undirbúning þessa máls, að þeir fórni fyrst og fórni mest, sem safnað hafa stóreignum á undanförnum árum? 'Ég verð ekki var við, að þess gæti nokkurs staðar í þessu frv.

Það má segja, að hér eigi við gagnvart hæstv. menntmrh. og Alþfl. í sambandi við þetta mál orð Hallgríms um manninn, sem hugsaði meira um að halda völdum en að dæma rétt:

„Þetta, sem helzt nú varast vann,

varð þó að koma yfir hann.“

Nú er horfið að því ráði að leggja til grundvallar við úrlausn mála það sjónarmið, sem síður skyldi, að dómi hagfræðingsins Gylfa Þ. Gíslasonar, þ.e. frelsi í viðskiptum, en ekki lögð aðaláherzla á fulla atvinnu og hagnýtingu atvinnutækjanna. Þetta á sennilega að gera m.a. til þess að framkvæma það stefnuskráratriði Sjálfstfl., að Ísland ætti að fá hlutdeild í frjálsum viðskiptaheimi. En í umræðum, sem hér hafa farið fram á þingi undanfarin ár um afstöðu þjóða í sambandi við tollabandalög og sambönd í hinum frjálsa viðskiptaheimi og markaðsskilyrði, hefur ævinlega, eftir því sem ég man bezt, verið lögð á það áherzla, að fyrir hendi væri skilningur meðal þjóðanna á því, að einstök ríki, sem væru skammt komin í uppbyggingu atvinnuvega, sérstaklega að iðnaðarþróun þeirra væri á lægra stigi en stórvelda, yrðu að fá vissar undantekningar í sambandi við þessi frjálsu viðskipti. Nú virðist svo sem hæstv. ríkisstjórn skoði Ísland sem lítinn bróður í þessu félagi þjóðanna og sé sér þess meðvitandi, að Ísland þurfi að fá aðstoð til þess að geta fyllilega orðið hlutgengt í hinum frjálsa viðskiptaheimi. Þessa aðstoð á að fá með 760 millj. kr. lánsheimild við erlendar peningastofnanir. En innbyrðis gagnvart stéttum þjóðfélagsins og hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér að dreifa byrðunum á þær, þá er ekki litið sömu augum á hinn máttarminni bróður, því að hér örlar ekki á því, að hinum sterkari efnahagslega sé íþyngt umfram hinn veikari, þvert á móti er það öfugt. Hér á fyrst og fremst að leggja byrðarnar á alþýðustéttirnar í þessu landi til sveita og sjávar. Í þessu m.a. speglast siðgæði þessa máls.

Það hefur nú verið rakið svo rækilega, að í raun og veru er ekki miklu við það að bæta, hvað þetta mál kemur þjóðinni að óvörum vegna þess, hve talið var víst fyrir kosningar, að allt væri í góðu lagi um þjóðarhag og stefnt væri að því að fylgja áfram stöðvunarstefnunni. Það þarf í raun og veru ekki miklu við það að bæta, sem aðrir hafa tekið fram um þetta atriði. Þessu til stuðnings og til þess að fylla þau rök, sem áður hafa verið dregin fram, skal ég þó minna á tvenn ummæli forustumanna Alþfl., sem að þessu lúta.

Rúmum mánuði fyrir kosningar hafði Alþýðubl. það eftir þáv. forsrh., Emil Jónssyni, að hann hefði sagt í ræðu um stefnu Alþfl.:

„Emil sagði í lok ræðu sinnar, að Alþfl. vildi halda niðri verðlagi og kaupgjaldi til að hindra dýrtíðarskrúfu, halda atvinnuvegunum gangandi, afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög án nýrra skatta og afla útflutningssjóði nægra tekna án nýrra byrða á almenning.“

Þetta er haft eftir fyrrv. forsrh. orðrétt í Alþýðublaðinu 21. sept. í haust. Hér er ekki litlu lofað af manni í þeirri stöðu: að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög án nýrra skatta og afla útflutningssjóði nægra tekna án nýrra byrða á almenning.

Og Eggert Þorsteinsson, varaforseti Alþýðusambands Íslands og hæstv. varaforseti þessarar hv. d., sem að sönnu er fjarstaddur nú í bili, sagði orðrétt um þetta fáum dögum fyrir kosningar:

„Undanfarið hafa birzt í Alþýðublaðinu ummæli margra helztu forustumanna þeirra launþegasamtaka, sem Alþýðuflokksmenn hafa forustu fyrir. Þeir eru allir á sömu skoðun, að við krefjumst status quo, óbreytts ástands. En ef opnuð verður nokkur gátt fyrir dýrtíðarflóðið, þá munum við ekki sitja hjá, heldur fara af stað með okkar kröfur. Ég er algerlega sammála þessari stefnu. Ég mun leggja alla áherzlu á að fylgja henni fram. Aðrir flokkar verða að gera sér ljóst, hvað í húfi er.“

Og í kosningastefnuskrá Sjálfstfl. kemur mjög svipað fram. Þar segir m.a. svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Um 20 ára skeið hefur verðbólgan, með nokkrum hléum þó, dregið úr framförum og gert afraksturinn af erfiði þjóðarinnar minni en efni stóðu til. Við verðbólguþróuninni hefur verið brugðizt með ýmsum hætti og tímabundnum árangri, en alda hennar hefur nú risið svo hátt, að vandamálinu verður ekki lengur skotíð á frest.“

Það getur verið, að það séu til menn, sem hafa gaman af að viðhafa orðaleiki eins og t.d. það, að það sé engin verðbólga í landinu, ef svokallað jafnvægi er á viðskiptunum við útlönd og þjóðarbúskapnum, án tillits til þess, hvert verðlagið á vörunum er. En slikir orðaleikir hafa ekkert gildi í augum almennings í landinu, enda er svo skýrt kveðið á um þetta efni í kosningastefnuskrá Sjálfstfl., að það tekur af allan vafa, hvernig beri að skilja efni málsins, því að við það, sem ég las áðan, er þessu bætt:

„Að vísu voru s.l. vetur gerðar bráðabirgðaráðstafanir gegn vexti verðbólgunnar. En öllum er ljóst, að verðhækkunaralda mun senn rísa á ný með meiri þunga en áður, ef ekkert er að gert.“

Það er sem sé ótvírætt, að það er lofað aðgerðum gegn verðhækkunaröldu. Og það, sem hefur gildi í augum almennings í þessu málí, eru ekki orðaleikir og ekki í sjálfu sér flóknar hagfræðikenningar, heldur blátt áfram hvernig viðskiptakjör heimilanna í landinu verða, eftir að þessar ráðstafanir hafa verið gerðar, samanborið við það, sem áður var, — blátt áfram, hvort opnaðar eru flóðgáttir fyrir verðhækkunaröldu eða leitazt við að standa við það loforð Sjálfstfl. að reisa skorður við henni.

Mér virðist, að það ákvæði, sem fjallar um það að afnema vísitöluuppbætur á laun, muni vera til þess fallið að vekja tortryggni verkalýðshreyfingarinnar, í því formi, sem það er nú í frv. Og mér virðist, að heilræða hagfræðingsins Gylfa Þ. Gíslasonar frá 1950 hafi ekki verið nægilega gætt í sambandi við þetta ákvæði frv. Ég vil einnig minna á það, að hæstv. varaforseti þessarar d. og varaforseti Alþýðusambands Íslands, Eggert Þorsteinsson, kvað mjög skýrt að orði um þessi efni skömmu fyrir kosningar í haust. Þá sagði hann enn, í viðbót við það, sem ég hef áður greint, þetta, með leyfi hæstv. forseta:

Alþfl. heimtar óbreytt ástand. Við í launþegasamtökunum styðjum þá stefnu. Þjóðin veit, að hverju hún gengur. Hennar er að velja á milli. Ef dýrtíðarflóðinu verður aftur hleypt yfir þjóðina, þá erum við lausir allra mála. Við munum hefja okkar varnarráðstafanir þegar í stað. Þetta er aðvörun til stjórnmálaflokkanna, en það er um leið aðvörun til þjóðarinnar.“

Þegar ég las ákvæði frv. um afnám verðlagsuppbóta á laun, kom mér í hug, hvort hæstv. ríkisstjórn hefði verið búin að gleyma þessari yfirlýsingu eins af stuðningsmönnum sínum eða hvort hún hefði ekki haft samráð við hann um samningu frv. og ákvæða þess. Mér þykir þó næsta ólíklegt, að svo geti verið, vegna þess, hve skorinorð þessi yfirlýsing er.

Á undanförnum árum hefur verið mjög á dagskrá hér á þingi og með þjóðinni þetta hugtak, sem kallað er að stuðla að og viðhalda jafnvægi í byggð landsins. Það munu hafa verið þm.. úr Framsfl. og Sjálfstfl., sem sameinuðust um það að flytja inn í þingið till. til þál. um þetta efni og fengu hana samþykkta. Á grundvelli þeirrar þál. var skipuð n. til þess að taka þessi mál til gaumgæfilegrar athugunar, og hefur sú n. samið frv., sem felur í sér ráðstafanir til þess að stuðla að og viðhalda jafnvægi í byggð landsins.

En ef á að koma fram eða ná árangri í þessu efni, þá er leiðin til þess ekki sú að láta fjármagnið ráða framkvæmdum og framkvæmdirnar dragast einvörðungu í hendur þeirra, sem hafa fjárhagsgetu til þess að leysa þær af hendi, heldur er leiðin sú, að með aðgerðum ríkisvaldsins sé höfð stjórn á fjárfestingunni og dreifingu fjármagnsins og jafnvægi í byggð landsins aukið eftir þeim leiðum.

Ég fæ ekki betur séð en með þessu frv. sé unnið gegn þeirri viðleitni að koma á jafnvægi í byggð landsins og að Sjálfstfl. mót von minni hafi tekið upp nýja stefnu í þessu efni og hugsi sér að hverfa frá þeirri braut, sem hann hafði markað ásamt okkur framsóknarmönnum að þessu leyti, því að nú á einkafjármagnið, — eins og það fellur í farvegi samkv. hinu aukna frelsi, sem á að veita, — að ráða að miklu leyti eða jafnvel mestu leyti uppbyggingunni í landinu, hvernig hún verður og af hverjum hún verður framkvæmd og á hvaða stöðum. Og til þess að auka áhrifin að þessu leyti, til þess að halla enn á landsbyggðina frá því, sem verið hefur, koma í kjölfarið eða til viðbótar ákvæðin um afnám hinna sérstöku bóta á smáfisk og sérstakar fisktegundir og minnkandi fjárframlag til ræktunarmála og samgöngumála, eins og ég hef áður rakið. Með þessu er því greinilega stefnt að auknu ójafnvægi í byggð landsins, jafnframt því að almennur samdráttur í framkvæmdum og atvinnulífi hlýtur að eiga sér stað. Þessi stefna, sem liggur til grundvallar þessu frv., er því sannnefnd samdráttarstefna, eins og aðrir ræðumenn, sem áður hafa talað í þessu máli, hafa margir greinilega sýnt fram á.

Hv. 9. landsk. þm.., sem talaði hér við 1. umr. málsins í þessari hv. d., fann ástæðu til þess að fella það inn í ræðu sína, að hv. 1. þm.. Austf. (EystJ) hefði í Nd. sagt, að byggðastefnan væri einn þáttur uppbyggingarstefnunnar, og hv. 9. landsk. leyfði sér að tala um þetta og raunar þetta alvarlega mál í heild af léttúð og litlum skilningi.

Það hefur þegar verið rakið bæði af mér og öðrum, að sú stefna, sem liggur til grundvallar þessu frv., er samdráttarstefna. Framsfl. vill bregðast við þeim vanda, sem nú er við að etja í efnahagsmálum þjóðarinnar, á þann hátt að auka framleiðsluna og örva uppbygginguna hvarvetna um land, skattleggja eyðslu og komast út úr uppbótakerfinu í áföngum, en ekki með því heljarstökki, sem hér á að taka. Það liggur í augum uppi, að þetta er alveg gagnstætt samdráttarstefnunni, þetta er uppbyggingarstefna.

Hv. frsm. 2. minni hl. fjhn. hefur leitt að því glögg rök, bæði í ræðu sinni hér áðan og í nál., að sú stefna, sem mörkuð er í þessu frv., sé byggð á lögmálum vetrarins, — eins og hann orðaði það með skáldlegri líkingu, — frostsins, sem takmarkar gróðurinn, hreinsar úr vegi hið veikburða, eins og Einar Benediktsson segir um hollustu hafíssins, en gefur þá um leið því, sem sterkara er, aukin tækifæri, og hann varar við þessu og segir, að íslenzka þjóðin eigi ekki að byggja efnahagslíf sitt á hagfræði hinna kaldrænu, tillitslausu lögmála hæfilegs atvinnuleysis og hafta eða takmarkana, sem getuleysið stjórnar, þ.e.a.s. fátæktin.

Um leið og ég ítreka þetta og legg á það áherzlu, að hér er vissulega rétt farið með staðreyndir, vil ég ljúka þessum orðum mínum með því að bæta við þetta enn einni líkingu, ef verða mætti, að Alþfl. a.m.k. og þeir, sem tala fyrir hann, fengju þá aukinn skilning á þessu máli.

Það má segja, að arðurinn af atvinnurekstri yrði ekki minni í heild, þó að verkamenn hefðu ekki með sér nein samtök um kaupkröfur. En arðurinn skiptist vissulega öðruvísi. Það kæmi meira í hlut fjármagnsins, en minna í hlut vinnunnar. Verkamennirnir hafa séð sig neydda til þess eða talið sjálfsagt að mynda með sér öflug félagsleg samtök, verkalýðshreyfinguna, sem vinnur öðrum þræði að menningarmálum á vegum verkalýðsins, en er öðrum þræði og jafnvel fyrst og fremst hagsmunasamtök. Og þau átök, sem fara fram á milli verkalýðsfélaganna annars vegar og atvinnurekenda hins vegar, eru jafnvel fyrst og fremst um skiptingu arðsins á milli fjármagnsins og vinnunnar. Því meira sem fjármagnið fær af arðinum í sinn hlut, því meiri líkur eru til þess, að uppbyggingin verði í höndum hinna fáu, sem fá arðinn af fjármagninu, en hlutur hinna mörgu, sem leggja til vinnuna, verði svo smár, að þeir hafi ekki færi á því að vinna að uppbyggingunni eins og framfaraþrá þeirra þó gjarnan segir til um. En með því að auka hlut vinnunnar, hlut hins vinnandi manns, þá vaxa líkurnar fyrir því, að uppbyggingin verði í höndum margra, að verkamennirnir, sem vinna og fá endurgjald fyrir vinnu sina, fáí svo riflegan hlut, að þeir taki sjálfir þátt í uppbyggingunni jafnframt atvinnurekendunum.

Þessi líking ætti að vera svo ljós, að Alþfl. og þm.. hans skilji hana, vegna þess að Alþfl. hefur þó hingað til taliðsig félagslega sinnaðan. En ef við stækkum nú sviðið, sem þessi líking nær til, og lítum á þjóðfélagið sem heild, þá er það svo, að þeir þættir fjármagnsins, sem Alþingi ræður ekki yfir, þ.e.a.s. bankafjármagnið og einkafjármagnið, það er samandregið að langmestu leyti á fáum stöðum á landinu. Þetta má rökstyðja tölulega, ef ástæða þætti til. Það, sem hefur vegið á móti þessu að undanförnu, er dreifing ríkisfjármagnsins út um land að tilhlutun Alþingis. Ef sú stefna verður nú upp tekin, að horfið verði frá að dreifa ríkisfjármagninu í jafnríkum mæli út um land eins og verið hefur, þá leiðir það til þess, að það leggst í sömu farvegi og einkafjármagnið og bankafjármagnið, það eykur fjármagnið í víssum landshlutum, en skerðir það á öðrum. (Forseti: Má ég vekja athygli hv. þm.. á því, að það var hugmyndin að gera hlé núna klukkan ellefu, og ef hann á mikið eftir af ræðu sinni —) Ég er alveg að ljúka máli mínu, á svona fimm mínútur eftir. Ætli það þætti þá ekki bezt, að ég — (Forseti: Jú, ef það verður ekki mjög langt, það sem eftir er.)

Hér er því með byggðastefnunni, svo að ég haldi líkingunni áfram, unnið að vissu leyti á hliðstæðan hátt og verkalýðsfélögin vinna gagnvart fjármagninu hjá atvinnurekendunum. Það er verið að gæta að hlut þess máttarminni, sem býr úti um landsbyggðina, en vinnur þar þjóðnýt störf að hagnýtri framleiðslu við undir stöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Því betur sem byggðastefnan nýtur sín í framkvæmd, því meiri trygging er fyrir því, að uppbyggingin verði á höndum margra sjálfbjarga og þroskaðra aðila í þjóðfélaginu, en dragist ekki í hendur hinna fáu, sem safna að sér fjármagninu. Þetta er m.a. munurinn á samdráttarstefnunni og byggðastefnunni. Það má því vel orða þetta svo, eins og hv. 9. landsk. hefur eftir 1, þm.. Austf., að hann hafi sagt, að byggðastefnan væri hluti af eða þáttur af uppbyggingarstefnunni.

Þegar um þessar stefnur er deilt, sem eru alveg gagnstæðar, samdráttarstefnan annars vegar og uppbyggingarstefnan hins vegar, þá er ekki einungis þar um að tefla efnahagsleg áhrif, heldur jafnframt menningarleg áhrif í þjóðfélaginu.

Íslenzka þjóðin á þetta land, og forfeður okkar helguðu sér það í öndverðu, en tóku það ekki herskildi. Þjóðin hefur vígt það með vinnu sinni meir en þrjátíu kynslóðir samfleytt. Landið í heild hefur verið starfssvið þjóðarinnar frá öndverðu. „Saga þess er saga vor, sómi þess vor æra.“ Vellíðan og veraldargengi gætu 170 þús. menn vissulega hlotið annars staðar á hnettinum heldur en hér. En íslenzkt lýðveldi er hvergi hægt að stofna eða láta þróast og dafna nema hér á Íslandi. Og eins er það, að íslenzk menning getur hvergi þróazt og dafnað nema á Íslandi, við liti þess og loft, foldgná fjöll þess, sanda þess og sæ. Sá, sem telur sig hafa tök á því að tala með léttúð og af litlum skilningi um þessa stefnu, hann er því ekki einungis að fjalla um efnahagsleg áhrif í þjóðfélaginu, heldur jafnframt menningarleg.