18.02.1960
Efri deild: 24. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (2061)

48. mál, efnahagsmál

Jón Árnason:

Herra forseti. Efnahagsráðstafanir þær, sem fram koma í efnahagsmálafrv. hæstv. ríkisstjórnar, sem hér eru til 2. umr. í hv. d., fela í sér gagngera stefnubreytingu í efnahagsmálum þjóðarinnar frá því, sem áður hefur verið, og eiga þær fyrst og fremst að skapa traustan og heilbrigðan grundvöll fyrir rekstri sjávarútvegsins, sem er undirstöðuatvinnuvegur svo að segja allrar gjaldeyrisöflunar þjóðarinnar. Um það, að svo sé, deila menn ekki eða greinir á um. Hins vegar er ágreiningsefnið, á hvern hátt Alþingi eigi að skipa málum þjóðarinnar á efnahagssviðinu, svo að það megi hafa í för með sér sem heilbrigðust áhrif og heillavænlegust á allt atvinnulíf landsmanna.

Það vandamál, sem hér er um að ræða, er ekkert einsdæmi fyrir Ísland. Það hefur um langan tíma verið eitt höfuðviðfangsefni stjórnmálamanna í mörgum löndum. Getum við vissulega lært margt af þeirri þróun, sem átt hefur sér stað bæði í nágrannalöndunum og í þeim löndum, sem við erum á ýmsan hátt í nánum tengslum við.

Þegar breytt er um stefnu og aðgerðir í efnahagsmálum varðandi rekstrarafkomu útflutningsframleiðslunnar, þá er rétt að gera sér nokkra grein fyrir kostum og göllum þess kerfis, sem afnema skal.

Það, sem einkennt hefur allar efnahagsráðstafanir, sem gripið hefur verið til á undanförnum tæplega 10 árum, er fyrst og fremst það, að hver ráðstöfun, sem gerð hefur verið, hefur aðeins nægt til bráðabirgða, og hefur stundum orðið að grípa til sérstakra ráðstafana, jafnvel tvisvar á sama árinu. Hverjar afleiðingar slíkt öryggisleysi hlýtur að hafa í för með sér, skilja þeir bezt, sem einhver afskipti hafa af atvinnurekstri og þá sérstaklega þeim atvinnurekstri, sem lýtur að útflutningsframleiðslu, sem háð er heimsmarkaðsverði. Í því sambandi er rétt að hafa hugfast, að hin einhæfa útflutningsframleiðsla þjóðar vorrar, sjávarafurðirnar, á í harðri samkeppni á heimsmarkaðnum við sambærilegar vörur frá öðrum fiskveiðilöndum, og ræður þar úrslitum verð og vörugæði, hvort okkur tekst að halda velli.

Höfuðorsök þessara öru breytinga, sem hafa átt sér stað, hefur mátt rekja til kapphlaupsins, sem verið hefur á milli verðlags og kaupgjalds í landinu. En það hefur aftur á móti verið í nánum tengslum við verðlagsvísitöluna, svo sem kunnugt er.

Þegar vinstri stjórnin baðst lausnar seint á árinu 1958, var verðbólgualdan á hvað mestri ferð upp á við. Töldu sérfræðingar stjórnarinnar sennilegt, að vísitalan yrði komin upp í 270 stig þá næsta haust, ef ekkert alveg nýtt væri að gert til þess að sporna við slíkri þróun. Það er svo kunnugt, að þjóðin varð við tilmælum þeirrar ríkisstjórnar, sem þá tók við, að taka á sig nokkra kjaraskerðingu og forðaði með þeim hætti yfirvofandi stöðvun atvinnuveganna. Slíkt ástand og öryggisleysi dregur stórlega úr heildarframleiðslu landsmanna og kemur á þann hátt í veg fyrir eðlilega aukningu, sem leitt gæti af sér kjarabætur fyrir almenning.

Eitt af því, sem mestum erfiðleikum hefur valdið útflutningsframleiðslunni í sambandi við uppbótakerfið, er það, hvað kerfið hefur verið seinvirkt. Hafa framleiðendur þurft að bíða árum saman eftir því að fá full skil frá útflutningssjóðnum. T.d. er nú nýlega lokið við greiðslur vegna ársins 1957. Þetta fyrirkomulag hefur beinlínis leitt til þess, að vaxtagreiðslur vegna framleiðslunnar hafa verið miklum mun meiri en ella, ef t.d. allt andvirðið hefði verið greitt við afskipun vörunnar, svo sem nú mun verða um mikinn meiri hluta útflutningsins eða allt annað en það, sem selt verður í umboðssölu.

Það er ekki ósennilegt, að sú breyting, sem nú verður á um greiðslufyrirkomulagið, eigi eftir að verka nokkuð upp á móti þeirri vaxtahækkun, sem nú er talið óhjákvæmilegt að komi til framkvæmda, a.m.k. fyrst um sinn. Það segir sig sjálft, að ef nú verður hægt að greiða upp afurðavíxil innan 6 mánaða í stað t.d. 9 mánaða áður, verður vaxtaupphæðin hin sama, enda þótt 50% hækkun komi nú til framkvæmda.

Vitaskuld er þetta dæmi, sem ég nú nefni, ekki til staðar í sambandi við önnur mál útflutningsframleiðslunnar, nema þá helzt bráðabirgðarekstrarlán, sem oft eiga sér stað. En hvað öðrum lánum viðkemur, sem lengur standa, kemur þessi ráðgerða vaxtahækkun til með að hafa mikla erfiðleika í för með sér, og er ástæðulaust að láta sér detta í hug, að að óbreyttu efnahagsástandi almennt geti þar verið um ráðstöfun að ræða, sem ekki verður að færa niður fyrr en varir, enda er það von þeirra manna, sem mestan þátt hafa átt í útreikningum varðandi efnahagsmálin að undanförnu, að sú muni þróunin verða.

Í aths. við efnahagsmálafrv. kemur það fram, að nokkur vaxtahækkun sé óhjákvæmileg og sé sú ráðstöfun í ákveðnum tilgangi. Strax og sú ákvörðun hefur náð tilgangi sínum, er því heitið, að vextir verði lækkaðir að nýju.

Það hefur verið mikið rætt um, að verulega verði dregið úr rekstrarlánum til útflutningsframleiðslunnar. Ég tel, að slíkt sé óhugsandi og óframkvæmanlegt, enda ef athugað er, hvað segir í grg., sem frv. fylgir, má sjá, að svo er ekki, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það hlýtur að vera meginsjónarmið í framkvæmd þessarar stefnu, að atvinnuvegunum sé séð fyrir nægilegu rekstrarfé til þess að halda framleiðslunni starfandi á eðlilegan hátt.“

Af þessu verður ekki annað dregið en það sé tilgangur þessara ráðstafana fyrst og fremst að styðja að eðlilegri þróun útflutningsframleiðslunnar.

Því verður ekki neitað, að uppbótakerfið með þeirri framkvæmd, sem á hefur verið, hefur leitt til þess, að í meðvitund þjóðarinnar hefur skapazt sá hugsunarháttur, að aðalatvinnuvegirnir, sem þjóðin sjálf á líf sitt og framtíð undir að fái að þróast á heilbrigðan hátt, séu hálfgerðir vandræða bjargræðisvegir, sem lifi á þjóðinni og séu jafnvel óþörf sníkjudýr. Þannig hefur þetta stórgallaða uppbótakerfi sljóvgað meðvitund þjóðarinnar fyrir raunsæju og eðlilegu mati á tilveru þeirra atvinnuvega, sem öll afkoma hennar byggist á, a.m.k. í nútíð og náinni framtíð.

Það, sem færa mætti til málsbótar því að nota það hagkerfi, sem við höfum búið við nú um nokkurt skeið, er aðallega í því fólgið, að stjórnarvöldin hafi haft það í hendi sinni svo til ótakmarkað að yfirfæra til framleiðslunnar það, sem ranglega hefur verið af henni tekið, og með því móti komið í veg fyrir, að atvinnutækin stöðvuðust, sem annars hefði oft og mörgum sinnum átt sér stað.

Þó að nú sé deilt um þær ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt til að gerðar verði til þess að forða þjóðinni frá þeim voða, sem við blasir í efnahagslífi hennar, þá er það síður en svo, að þeir flokkar, sem nú eru í stjórnarandstöðu og mestri gagnrýni halda uppi á till. stjórnarinnar, hafi ekki áður látið í ljós þá skoðun sína, að uppbóta- og niðurgreiðsluleiðin væri sú leið, sem hverfa bæri af. Fyrirheit vinstri stjórnarinnar kváðu á um það, að slíkt skyldi gert og varanleg lausn til frambúðar skyldi fundin. Allir þekkja efndirnar.

Stjórnin gafst upp, þegar málum var þannig komið, að ný verðbólgualda var að skella yfir þjóðina.

Þær ráðstafanir, sem nú eru fyrirhugaðar, fela að vísu ekki í sér að fella að fullu og öllu það kerfi í burt, sem nú er. Það hefur verið talið nauðsynlegt að halda áfram niðurgreiðslum á nokkrum af brýnustu nauðsynjum almennings, enda gert til þess að draga úr verðhækkun á þeim vörum, sem annars mundu hækka verulega við gengisbreytinguna.

Það er eftirtektarvert, að stjórnarandstaðan skiptist í tvennt um andstöðuna við þær ráðstafanir, sem ráðgerðar eru í frv. ríkisstjórnarinnar. Það eitt getur hún sameinazt um að vera á móti því. Það má því nærri geta, hver hefði verið afleiðing þess, ef þessir flokkar hefðu skipað meiri hl. á Alþingi.

Einn hv. þm.. sagði hér í ræðu sinni áðan, að það væru takmörk fyrir því, hvað oft mætti vega í sama knérunn, í sambandi við gengislækkunina og það, hve skammt er á milli gengislækkana nú. Rétt er það, að það hefðu þeir framsóknarmenn átt að hafa hugfast, þegar þeir sátu að völdum og lækkuðu gengi krónunnar með 6 mánaða millibili, því að vitanlega voru yfirfærslugjöldin og útflutningssjóðsuppbæturnar, sem vinstri stjórnin lagði á; ekkert annað en gengislækkun.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa kvartað mjög undan þeim álögum, sem lagðar séu á þjóðina með hinni fyrirhuguðu gengisfellingu. Þeir hafa látið reikna út, hvað ýmsir vöruflokkar komi til með að hækka mikið vegna ráðstafananna. Samt sem áður leggja þeir jafnmikla áherzlu á, að til viðbótar komi ýmsar greiðslur úr ríkissjóði, sem fela mundu í sér enn meiri álögur á allan almenning.

Það fer ekki hjá því, að manni detti í hug, að gagnrýni stjórnarandstöðunnar sé ekki sett fram í því augnamiði, að hún sé tekin alvarlega.

Í sambandi við fjölskyldubæturnar hefur þeim stjórnarandstæðingum orðið sérstaklega tíðrætt um fjölskyldu, sem hefur 4 börn, og því haldið fram, að hún hljóti aðeins 269 kr. auknar tekjur frá því, sem nú er í gildi. Hér er vitanlega farið alrangt með staðreyndir, sem liggur í því, að þessi fjögurra barna fjölskylda fær auk þess nú fullar bætur með fyrsta og öðru barni, sem hún fékk ekki áður. Þessir útreikningar stjórnarandstöðunnar gengu svo langt hjá einum hv. þm.. við 1. umr. málsins hér í d., að hann reiknaði út, hvað fjölskylda með 47 börn mundi fá í fjölskyldubætur.

Þannig eru öfgarnar á lofti hjá stjórnarandstöðunni til þess að draga athyglina frá þeim raunverulegu hagsbótum, sem barnafjölskyldurnar munu hljóta og vissulega kunna að meta, eftir að þær ráðstafanir koma til framkvæmda.

Hvort frumvarpi því, sem hér liggur fyrir, er stefnt inn á þær leiðir, sem teljast mega til varanlegrar frambúðar, eða ekki, hvort sá grunnur, sem hér er byggt á, verður þess megnugur, að við komumst klakklaust út úr uppbótaflækjunni, mun reynslan skera úr um.

En það ætti öllum hv. þdm. að vera ljóst, að vandinn, sem við er að etja, er mikill, og engir ættu að skilja hann betur en einmitt þeir, sem áður höfðu gefizt upp við úrlausn vandamálanna.