18.02.1960
Efri deild: 24. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

48. mál, efnahagsmál

Ólalur Jóhannesson:

Herra forseti. Þetta mál er nú orðið mikið rætt, bæði í þessari hv. d. og þó einkanlega í hv. Nd. Það er því hætt við því, að það fari að gæta endurtekninga í máli manna, og vissulega er það svo, að það má segja, að það sé að bera í bakkafullan lækinn að gagnrýna þetta frv., því að það má nú segja, að svo hafi verið gengið frá því af þeim, sem hafa gagnrýnt það, að þar standi nú ekki lengur steinn yfir steini, og virðast satt að segja formælendur frv., hæstv. ríkisstjórn og talsmenn hennar, hafa lagt frá sér vopnin og gefizt upp við að verja frv. Ég mun nú þrátt fyrir það, þó að svo sé komið, leyfa mér að segja nokkur orð hér, enda er hér um stórmál að ræða, vafalaust stærsta og örlagaríkasta málið, sem þetta þing fær til meðferðar, — mál, sem þm.. vissulega ber skylda til að kryfja til mergjar eða a.m.k. að reyna að kryfja til mergjar.

Vegna þess, hve margar og ýtarlegar ræður hafa verið fluttar um málið, mun ég lítið ræða málið í heild, heldur fyrst og fremst víkja að nokkrum einstökum atriðum, og ég mun reyna að vera ekki langorður úr hófi.

Í útvarpsumræðum s.l. mánudagskvöld lét hæstv. menntmrh. svo um mælt, að ef stjórnarandstöðuflokkunum tækist að brjóta á bak aftur fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstj. í efnahagsmálunum, yrði hér algert öngþveiti. Með þessu hefur ráðh. og þar með ríkisstj. í raun réttri viðurkennt, að ef fyrirhugaðar aðgerðir í efnahagsmálunum bera af einhverjum ástæðum ekki þann árangur, sem spáð er í grg. að efnahagsmálafrv., sé allt komið í fullkomið öngþveiti, að þá verðum við miklu, miklu verr á vegi staddir en við erum nú og höfum verið nokkru sinni áður. Með þessu hefur ráðh. viðurkennt, að með efnahagsmálafrv. ríkisstjórnarinnar sé teflt á mjög tæpt vað. Ég er hæstv. ráðh. öldungis sammála um það, að með þessu efnahagsmálafrv. og fyrirhuguðum aðgerðum ríkisstj. í efnahagsmálunum sé vissulega teflt á tæpt vað. Er nú skynsamlegt að tefla á svona tæpt vað í þessum efnum? Er skynsamlegt að leggja inn á svona áhættusamar leiðir í þessum málefnum, ef nokkurs annars er kostur? Er það hygginna stjórnmálamanna háttur að tefla málum svo mjög í tvísýnu? Ég held, að þeirri spurningu verði að svara neitandi. Ég held, að það sé fullkomið glæfraspil. Með þeirri hagfræðilegu tilraunastarfsemi, sem í frv. felst, eru stjórnarflokkarnir að leika sér með sjálft fjöregg þjóðarinnar. Þeir eru í raun og veru að kasta á milli sín fjöreggi þjóðarinnar. Sannleikurinn er sá, að ýmsar af hinum fyrirhuguðu aðgerðum þessa frv. eru byggðar á hagfræðikenningum, sem eru langt frá því að vera sannaðar. Þær eru byggðar á ágizkunum og á líkindareikningi. Slík undirstaða er vissulega ekki traust. Hún er langt frá því að vera nægilega traust til þess að byggja á svo róttækar aðgerðir í efnahagsmálum eins og hér er gert ráð fyrir. Það er vissulega þar lagt út á hálan, ótraustan ís, og það er hætt við því, að sá ís brotni og að þar verði dottið ofan í, og þá er áreiðanlega víst, að þá verður miklu erfiðara að bjarga að landi heldur en nokkru sinni áður hefur verið, því að það er viðurkennt, eins og ég hef þegar sagt, af hálfu ríkisstj., að vandinn verði einmitt miklu meiri, ef þessar aðgerðir takast ekki á þann veg, sem ráð er gert fyrir í grg. að efnahagsmálafrv.

Tvennt er það einkum, sem ríkisstj. og talsmenn hennar hafa bent á sem stórkostlega hættu í núverandi ástandi í efnahagsmálunum, þ.e.a.s. of miklar lántökur erlendar og gjaldeyrisskortur.

Ég get nú ekki stillt mig um að skjóta inn svolítilli aths., svona eins og á milli sviga, af því að ég veit, að hv. 9. landsk. (JÞ) ætlar að tala hér á eftir, í sambandi við þau ummæli, sem hann hafði við 1. umr. þessa máls. Hann sagði þá, hv. 9. landsk., að það hefði verið við að glíma tvö vandamál í efnahagsmálunum, þ.e.a.s. verðbólguna innanlands og greiðsluhallann við útlönd. En svo kom Alþýðuflokksstjórnin, og hún stöðvaði verðbólguna, sagði hv. þm.. Nú væri því aðeins, sagði hann, við að glíma greiðsluhallann og gjaldeyrisvandræðin. Ég sé nú í nál., sem meiri hl, fjhn. hefur látið frá sér fara og hér hefur verið útbýtt og hv. 9. landsk. hefur skrifað undir, að hann hefur eitthvað dregið í land með þessi ummæli sín, vegna þess að mér sýnist af því nál., að það sé ekki gert ráð fyrir því þar, að verðbólgan sé nú algerlega stöðvuð. Enda er sannleikurinn sá, að það er varla hægt að segja öllu meira öfugmæli en það, að Alþýðuflokksstjórnin hafi stöðvað verðbólguna. Það gerði hún alls ekki. Það er engin stöðvun á verðbólgu, þó að vísitalan sé stöðvuð með því að auka niðurgreiðslur og með því að éta upp tekjuafgang frá fyrra ári og öðrum þvílíkum aðgerðum, eins og Alþýðuflokksstjórnin gerði. Og það er einmitt svo, að rök stjórnarinnar nú fyrir því, hve hún telur þurfa miklu stórkostlegri aðgerðir í efnahagsmálunum en í desembermánuði 1958, hljóta að vera þau, að þetta hafi allt hallazt svo mjög á ógæfuhlið í tíð Alþýðuflokksstjórnarinnar, því að það liggur fyrir yfirlýsing Sjálfstfl. í desember 1958 um það, hvað hann taldi að þá þyrfti að gera til þess að hafa málin í sæmilegu horfi. Hann lýsti því yfir, ef ég man rétt, að það þyrfti að lækka grunnlaunin um 6%, þ.e.a.s. hann lýsti því yfir í raun og veru efnislega, að það þyrfti að taka aftur þær kauphækkanir, sem hann hafði staðið helzt að því að koma á sumarið 1958.

En það er nú annars nánast broslegt að vera að tala um það, hvað Alþýðuflokksstjórnin hafi gert, og eigna henni einhver afrek. Það veit hvert eitt einasta mannsbarn, að Alþýðuflokksstjórnin gerði á sinum tíma ekkert, sem máli skipti, nema með samþykki Sjálfstfl. eða jafnvel eftir beinum fyrirmælum frá honum. Það er leitt, að hæstv, forsrh. skuli ekki vera hér viðstaddur, því að hann mundi áreiðanlega geta vitnað í þessu máli, því að ég efast ekki um það, að hann hefur lengst og bezt haldið í höndina á þeim Alþýðuflokksmönnum, meðan þessu fór fram.

Já, það er þetta tvennt, sem ríkisstj. og talsmenn hennar einkum benda á nú sem stórkostlega hættu í núverandi ástandi í efnahagsmálunum, þ.e. of miklar lántökur erlendis og gjaldeyrisskortur, og að þessu tvennu ætla ég ofur lítið að víkja.

Ég ætla þá fyrst að ræða ofur lítið um erlendar lántökur og skuldir landsins út á við. Það er alveg rétt, að erlendar skuldir eru miklar, og það er alveg rétt, að vinstri stjórnin tók á sínum tíma mikil lán. Það hefur verið tíundað, hve þær lántökur voru miklar, sem teknar voru í tíð vinstri stjórnarinnar, þær munu hafa verið rúmlega 600 millj., 627 millj. eða eitthvað þar um bil. En það er margsannað í þessum umræðum, að langflest af lánum þeim, sem tekin voru í tíð vinstri stjórnarinnar, voru lán, sem gengu til nytsamlegra framkvæmda, — framkvæmda, sem ýmist spara þjóðinni gjaldeyri eða stuðla að öflun erlends gjaldeyris. Það má telja þessi lán upp, það má sýna fram á það, að af þessum lánum. sem tekin voru í tíð vinstri stjórnarinnar, voru 450 millj. eða rúmlega það, sem ríkisábyrgð fylgdi, tekin til margvíslegra nytsamlegra framkvæmda, til Sogsvirkjunar, til áburðarverksmiðju, til stofnlánadeilda atvinnuveganna o.fl., o.fl., og rúmlega 100 millj. voru teknar án ríkisábyrgðar af Eimskipafélagl Íslands og Samþandi ísl. samvinnufélaga og fleiri aðilum til skipakaupa. Það fer þá að verða heldur lítið eftir af lántökum, sem teknar voru í tíð vinstri stjórnarinnar, sem hafa gengið til annars en einmitt þessara framkvæmda. Það væri nú fróðlegt að heyra það, ef hv. stjórnarmenn vildu telja upp eitthvað af þeim erlendu lánum, sem tekin voru í tíð vinstri stjórnarinnar og þeir teldu að betur hefðu mátt vera ótekin. Og það var sú tíð, að sjálfstæðismenn töldu ekki of mikil lán tekin erlendis. Ég minnist þess, að um það bil sem vinstri stjórnin tók við völdum, var frá því skýrt, að um það bil sem Ólafur Thors varð að láta af stjórninni, hefði honum staðið til boða 400 millj. kr. lán í Þýzkalandi, en nú mundi vinstri stjórnin ekki fá það lán, og það var sagt, að það væri þjóðarvoði, að slíkt lán skyldi ekki fást. Og menn muna sjálfsagt eftir ýmsum hrakspám, sem birtust í Morgunblaðinu á þeim tímum, þar sem því var einmitt spáð, að vinstri stjórnin mundi alls ekki fá nein lán, og það var einmitt talinn einn aðalannmarkinn við vinstri stjórnina, henni mundi ekki takast að fá lán erlendis. En þetta reyndust sem betur fer hrakspár.

Það er alveg víst, að þó að það sé rétt, að erlendar lántökur hafi verið miklar og skuldir við útlönd séu miklar, þá er það óhrekjandi sannleikur, að við stöndum nú miklu betur að vígi vegna þessara framkvæmda, sem gerðar hafa verið fyrir þessar lántökur, til þess að greiða þessi lán og að okkar hagur stendur miklu betur einmitt vegna þessara framkvæmda, sem lagt hefur verið í.

Ég vil halda því fram, að það megi taka erlend lán, ef þau fara í framkvæmdir, sem skapa eða spara erlendan gjaldeyri. Almenn vöruinnflutningslán eru hins vegar hættuleg að mínu viti. Ég held, að þessi skoðun sé í samræmi við kenningar hagfræðinga um erlendar lántökur.

Ef þetta er nú orðið svo hættulegt, að vinstri stjórnin tók svona mikil erlend lán á sínum tíma, hvernig voru þá viðbrögð Alþýðuflokksstjórnarinnar, þegar hún tók við? Hætti hún þá ekki öllum lántökum erlendis? Nei, ónei, ekki aldeilis, hún stofnaði til mikilla skulda erlendis. Í hennar tíð t.d. var samið um smíði á 5 togurum, og það var samið um smíði á mörgum öðrum fiskiskipum og lánssamningar gerðir í sambandi við það og tekin erlend lán í sambandi við það.

Það er vissulega rétt, að skuldabyrðin er orðin þung. Afborganir og vextir eru þungbær byrði, og hún verður þungbær 2 næstu árin eða svo. En þá er það líka svo, að þá fer að léttast þessi byrði af afborgunum og vöxtum. Og það er einmitt aðgætandi, eins og reyndar mun hafa verið bent á í þessum umræðum eða í nál., að í þessum skuldum, sem nú eru taldar, og lántökum, sem hafa átt sér stað erlendis og þarf að greiða alveg á næstu árum, eru einmitt lán vegna skipakaupa og vegna skipa, sem enn eru ekki komin til landsins, en koma alveg nú á næstunni til landsins og fara auðvitað þegar að afla gjaldeyris til þess að standa undir þeim lántökum, sem stofnað var til vegna þeirra.

Það er alveg rétt, að mörg þessi lán, sem erlendis hafa verið tekin, eru til skamms tíma, og þau eru mörg hver að mínum dómi til of skamms tíma. Það, sem hefði þurft að gera, og það, sem þarf að gera, er að snúa sér að því að fá nýja samninga um nokkur af þessum lánum og fá afborgunum dreift á lengri tíma. Það er mjög sennilegt, að það sé hægt, ef að því væri gengið af fullri alvöru. Það er að vísu alveg rétt hjá dr. Benjamín Eiríkssyni, sem kom fram í grein, sem hann skrifaði nýlega í blöðin, að það er svo, að sum lán eru þess eðlis, að þau mega ekki og eiga ekki að vera til langs tíma. En ég held samt, að það sé nú svo, að sum þessi lán, sem stofnuð hafa verið, t.d. vegna þessara skipakaupa, séu til of stutts tíma og séu ekki að öllu leyti hagstæð. En ég viðurkenni það fúslega, eins og ég hef reyndar þegar sagt, að skuldabyrðin, sem hvílir á nú í svipinn, er þung, og ég viðurkenni það líka, að það eru takmörk fyrir því, hversu þung hún má vera.

En ég get í þessu sambandi ekki stillt mig um að vitna til þess hagfræðings, sem ég held að ekki geti leikið nein tvímæli á að sé langlærðastur íslenzkra hagfræðinga, dr. Benjamíns Eiríkssonar. Hann skrifaði grein um þessi efni, sem birtist fyrir nokkrum dögum bæði í Morgunblaðinu og Tímanum samtímis. Og um þessa skuldabyrði segir dr. Benjamín svo þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Margir hljóta að spyrja sig, hvort talið um skuldabyrðina sé svo alvarlega meint. Árið eftir að athugun nefndar vinstri stjórnarinnar var gerð, þ.e. á árinu 1959, var með samþykki ríkisstjórnarinnar leyft að panta erlendis 5 togara og kringum 67 önnur fiskiskip. Þó er talað um, að erfitt sé með erlendan gjaldeyri til að standa í skilum með greiðslur af umsömdum skuldum. Og það sem meira er, það vantar fólk á þann fiskiskipaflota, sem þegar er til í landinu.“

Ég vænti, að af þessu megi það ljóst vera, að þetta vandamál er ekki jafnmikið og hæstv. ríkisstj. vill vera láta. En þó er það rétt, að skuldirnar við útlönd eru háar og greiðsluhalli hefur verið við útlönd undanfarin ár, og það er sjálfsagt rétt, sem hæstv. ríkisstj. segir og sagt er í grg, þessa frv., ef ég man rétt, að skuldabyrðin gagnvart útlöndum sé nú orðin þyngri en í nokkru öðru ríki, kannske að einu eða tveimur undanskildum.

En hver eru nú læknisráð hæstv. ríkisstjórnar gegn þessari meinsemd? Hver eru þau læknisráð, sem felast í efnahagsmálafrumvarpi ríkisstjórnarinnar gegn þessari meinsemd? Það eru nýjar lántökur erlendis. Í frv. er farið fram á heimild til þess, að ríkisstj. megi taka lán í tveimur stofnunum, Alþjóðagjaldeyrisvarasjóðnum og Evrópusjóðnum, að upphæð 20 millj. dollara, sem samsvarar 760 millj. kr., sem sagt miklu hærri lán en áður hefur komið til orða að tekin væru. Og þessi lán, sem þarna á að taka, eru ekki framkvæmdalán. Það eru ekki lán til þess að standa undir gjaldeyrissparandi eða gjaldeyrisskapandi framkvæmdum í landinu. Nei, ónei, það eru eyðslulán. Það eru lán. sem eiga að fara í það að kaupa almennar neyzluvörur.

Hver skilur nú svona hagfræði? Ég játa það alveg blygðunarlaust, að ég skil hana ekki. Það er sagt: Skuldirnar við útlönd eru orðnar of miklar. Við höfum tekið of mikil erlend lán á undanförnum árum. En nú skulum við samt taka 760 millj. kr. ný lán. — Það er sagt, að þessi nýju lán séu allt annars eðlis. Í hverju er þessi eðlismunur fólginn? Ég veit ekki betur en ýmis af þeim lánum, sem um er að ræða og við skuldum erlendis, séu einmitt alveg sams konar yfirdráttarlán og þessi, sem nú á að taka, — séu yfirdráttarlán. Vildi nú ekki einhver af talsmönnum hæstv. ríkisstj. reyna að skýra það hér, hver er eðlismunurinn á þessum lánum og öðrum lánum í útlöndum? Ég er alveg sannfærður um það, að þm.. stjórnarflokkanna almennt skilja ekki heldur þessa hagfræði. En það má þá spyrja: Af hverju ljá þeir máls á þessu? Þeirri spurningu er vandsvarað. Ég býst við því, að þeir geri það í trausti á hagfræðingana. Ég viðurkenni, að hagfræði er nauðsynleg, og ég viðurkenni, að nauðsynlegt sé að leita ráða hagfræðinga. En ég held, að það sé ekki gott að hafa neina oftrú á hagfræðingum. Það þarf ekki raunar að fara lengra út í þá sálma heldur en að vitna aðeins til þeirra dæma, sem hv. 5. þm.. Austf. (PÞ) nefndi hér áðan í ræðu sinni um útreikninga á kostnaði við hvert barn, til þess að sýna, hversu margar bollaleggingar hagfræðinganna, sem frv. er byggt á, eru órafjarri öllum raunveruleika. Það er hættulegt að treysta slíku í blindni, en það er það, sem fylgismenn stjórnarinnar, þm.. almennt, hljóta að gera, því að ég er, eins og ég sagði áðan, sannfærður um, að þeir botna ekkert frekar en ég í þessari hagfræði.

Og þá er það hitt atriðið, sem ég ætlaði að minnast á, það eru gjaldeyrisvandræðin. Gjaldeyrisskorturinn er mikill, það er alveg rétt, hann hefur verið mikill. Og hvað skyldi nú eiga drýgstan þáttinn í því, að gjaldeyrisvandræðin hafa verið nokkuð tilfinnanleg síðasta árið? Ég fullyrði það, að þar í á einna drýgstan þáttinn sá þrýstingur, sem verið hefur frá hálfu ríkisstjórnarinnar gagnvart bönkunum um það að leyfa innflutning hátollavara. Og það er alveg rétt, að útflutningssjóðskerfið er að því leyti gallað og hefur verið að því leyti gallað, að það hefur ýtt undir þennan þrýsting, og ég vil út af fyrir sig ekki mæla því bót. En hvert er nú læknisráð efnahagsmálafrv. og hæstv. ríkisstj. gegn þessari meinsemd í efnahagslífinu, gjaldeyrisskortinum? Það er einfalt. Það er að taka upp meira frelsi í viðskiptum, að sagt er, það er að gefa um 60% af öllum innflutningi frjálsan. Það er hægt að gefa um 60% af öllum innflutningi til landsins frjálsan, á meðan verið er að éta upp þetta 20 millj. dollara lán, sem taka á. En hvernig skyldi fara, þegar 760 millj. kr. eða 20 millj. dollararnir eru uppétnir? Þá er það alveg víst, að ástandið í þessum efnum verður miklu verra og óviðráðanlegra en nokkru sinni fyrr. Ég verð aftur að spyrja: Hver skilur svona hagfræði? Það er allt of lítill gjaldeyrir, við eigum við mestu gjaldeyrisvandræði að glíma, en úrræðið á svo að vera þetta, að kippa öllum hömlum í burtu og gefa innflutninginn frjálsan að langmestu leyti. Þá segja hagfræðingarnir að vísu, að allt muni komast í jafnvægi. Á hverju er sú staðhæfing þeirra byggð? Það er bezt og heiðarlegast að kalla hlutina réttum nöfnum. Sú kenning þeirra er byggð á því og því einu, að hér verði fjármagnsskortur og kreppa, að hér verði hæfilegt atvinnuleysi. Það er þetta, sem byggt er á.

En hver vill nú koma fram og segja, að atvinnuleysi eigi hér að vera? Ég held, að það geti enginn sagt, sem hefur reynt, hvað atvinnuleysi er. Ég hef kynnzt atvinnuleysi. Ég kannast vel við atvinnuleysið frá því á mínum námsárum. Ég man þá tíð, þegar maður varð að fara á fætur um miðjar nætur og ganga á milli atvinnurekenda, og eyða tímanum fram á hádegi kannske í það og fara svo heim án þess að hafa fengið nokkra atvinnu þann daginn. Ég ætla ekki að vinna að því, að slíkt ástand komi hér. Ég held það sé of dýru verði keypt að grípa til þvílíkra úrræða. Ég er að vísu sammála því og held, að það sé sjálfsagt að opna þessa yfirdráttarmöguleika, ef svo má segja, að fá sem sagt heimild til þess að notfæra sér þessi lán, sem standa til boða í Alþjóðagjaldeyrisvarasjóðnum og í Evrópusjóðnum. En ég held, að það sé jafnsjálfsagt að nota þessi yfirdráttarlán til þess að létta af sér stuttu og óhagkvæmu lánunum, sem nú hvíla þyngst á.

Ég skal svo aðeins víkja að vaxtahækkuninni, sem boðuð er í þessu frv. ríkisstjórnarinnar. Það er látið í veðri vaka af hálfu málsvara þessa frv., að með vaxtahækkuninni eigi að bæta hag sparifjáreigenda. Það er að vísu alveg rétt, að það hefur á undanförnum árum verið farið mjög ómaklega með sparifjáreigendur og þeirra hlut þarf að rétta með einhverjum hætti. En það er hins vegar hin mesta firra, eins og reyndar hefur verið rækilega sýnt fram á í þessum umræðum, að vaxtahækkunin eigi að verða þeim til bjargar eða þeim sé að nokkru leyti bjargað með vaxtahækkuninni. Það er alveg ljóst, að gengislækkunin, gengisbreytingin, hún er mjög stórt áfall fyrir sparifjáreigendur, og þó að þeir fái nokkra vaxtahækkun, þá hrekkur sú vaxtahækkun ákaflega skammt til þess að bæta þeim upp það tjón, sem þeir verða fyrir af völdum gengisbreytingarinnar. Og það er líka alveg auðsætt, að aðalatriðið með hækkun vaxtanna er ekki hækkun á innlánsvöxtunum, heldur er það einmitt hækkun útlánsvaxtanna. Með hækkun útlánsvaxtanna á að stuðla að þeim samdrætti, sem samkv. kenningum hagfræðinganna er talinn nauðsynlegur til framkvæmdar á þeirri stefnu, sem nú á að taka upp í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Það er vissulega ekki hagur sparifjáreigenda, sem hafður er fyrir augum, enda er það svo, að það er í öðru orðinu sagt, að vaxtahækkunin eigi að standa stutt, ekki nema kannske í 1–2 ár, og þá sjá allir, að sparifjáreigendum er lítið gagn að vaxtahækkuninni. Það á að rétta hlut sparifjáreigenda með öðrum hætti. Á þá leið, sem á að fara í þeim efnum, hef ég þegar bent. Það á að taka upp verðtryggingu á sparifénu. Um það atriði skal ég ekki fjölyrða frekar á þessum vettvangi. En það má nú í sambandi við þessa vaxtahækkun aðeins minna á þann lofsöng, sem hv. 9. landsk. var að syngja vaxtahækkuninni hér við 1. umr. málsins, þar sem hann sagði, að atvinnurekendur einir yrðu látnir bera vaxtahækkunina. Ég þarf ekki að tala frekar um það atriði, það hefur nú verið rætt þegar af öðrum og honum greinilega sýnt fram á, að slík stóryrði sem þessi verða ekki tekin alvarlega. Og eins er það ekki nema helzt til þess að brosa að, þegar hann sagði, að það mundu verða okrararnir, sem yrðu fyrir mestri kjaraskerðingu vegna vaxtahækkunarinnar. Það þarf áreiðanlega ekki eins glöggan mann og Jón Þorsteinsson til að sjá, þegar boðaður er samdráttur, stórkostlegur samdráttur lána hjá opinberum stofnunum, hvernig það muni verka á hag okraranna, hvort þeirra möguleikar muni verða minni eða meiri á eftir. Ég er hræddur um, að hann mundi ekki vilja líta þannig á dæmið, ef hann vildi kryfja það til mergjar.

Nei, það þarf náttúrlega ekki að eyða mörgum orðum að því, að áhrif svo stórkostlegrar vaxtahækkunar sem boðuð er með þessu frv. leiða til stórkostlegrar hækkunar á fjármagnskostnaði, og það er ekki vafamál, að vextirnir í þeirri mynd, sem þeir eru fyrirhugaðir, verða ákaflega þungbærir fyrir framleiðsluna. Og þeir bitna auðvitað á mörgum öðrum en framleiðslunni. Það má t.d. gera sér í hugarlund, hvernig þeir muni bitna á húsbyggjendum. Það þekkja allir, að það eru margir húsbyggjendur, sem hafa verið að reyna að koma áfram byggingum sínum, með geysistóran skuldahala af lausaskuldum, og það má geta nærri, hvernig þeim mönnum gengur að rísa undir þeirri byrði, sem hvílir á þeim, þegar leggjast á þá skuldabyrði miklu hærri vextir en þeir þó nú þurfa að standa undir. Það er alveg gefið mál, að þær skuldir verða þeim mörgum hverjum algert ofureflí, eftir að vaxtahækkunin er komin á.

Ég held því alls ekki fram, að vextir eigi að vera eitthvað, sem í sjálfu sér sé óbreytanlegt. Ég held, að það verði að reka skynsamlega vaxtapólitík og það geti oft verið nauðsynlegt að gera breytingar á vöxtum. En ég held, að svona stökk í vöxtum, eins og hér eru fyrirhuguð, séu ákaflega óskynsamleg. Og ég held, og ég spái því, að þeir, sem nú berjast fyrir þessu frv., eigi eftir að reka sig á það. Það er alveg rétt, eins og hér hefur rækilega verið tekið fram og ég þarf í raun og veru ekki að undirstrika betur en gert hefur verið og þá sérstaklega hjá hv. 5. þm.. Austf. og hv. 1. þm.. Vesturl. (ÁB), að þessi fyrirhugaða breyting á vöxtunum, hækkun vaxtanna, eins og reyndar svo margt annað í þessu frv., miðar að því að auka þann aðstöðumun, sem er orðinn allt of mikill í þessu þjóðfélagi, eftir því, hvort menn eru búnir að koma sér fyrir eða eiga það eftir, m.ö.o. eykur aðstöðumuninn á milli þeirra, sem eldri eru og búnir eru t.d. að stofna sín heimili, byggja sín hús o.s.frv., og hinna, sem eiga eftir að stofna sín heimili og eiga eftir að byggja sín hús. Það er alveg laukrétt, eins og hér hefur verið tekið fram, að þessu er alveg sérstaklega og á alveg ótrúlega ótútlegan hátt beint að unga fólkinu í landinu.

Svo er líka rétt að athuga það, sem bent var á af hv. frsm. 2. minni hl., að þessi fyrirhugaða breyting á vöxtum hlýtur að hafa stórkostleg áhrif á hag ýmissa sparisjóða. Og ég verð að segja, af því að það er vitað mál, að margir af sparisjóðunum hafa fest fé sitt í föstum lánum og geta ekki breytt þeim vaxtakjörum, að það verða allmargir sparisjóðir, sem alls ekki þola þessa breytingu, og ég spái því, að ef þetta kemst svona fram, þá verði seinna þessir hv. þm.., sem beita sér fyrir þessu frv., að gripa til einhverra ráðstafana gagnvart þessum sparisjóðum til þess að halda þeim á floti.

Ég skal nú ekki verða margorður um bindingu vísitölunnar. Það má sjálfsagt margt færa fram gegn vísitölunni og þeim áhrifum, sem hún hefur haft. En ég held þó, að það sé of mikið í fang færzt að ætla sér að afnema vísitöluna eða taka hana úr sambandi, um leið og slíkum kjaraskerðingum er stefnt að fólkinu eins og gert er með þessu frv. Og ég held, að það verði erfitt fyrir launafólk að þola slíkt.

Hv. 9. landsk., svo að ég vitni nú enn til hans ummæla, sem er nú, að ég held, trúnaðarmaður og sérstakur starfsmaður verkalýðsfélaganna, lét að vísu svo um mælt, að vísitöluuppbæturnar hefðu oft verið launþegunum hermdargjöf. Ég er ekki viss um, að það fólk, sem hann starfar hjá, muni taka undir þessi ummæli hans. En það kom annað fram í sambandi við þessi ummæli hans, sem ég vildi vekja athygli á, og það var þetta: Hann sagði, að það væri nú svo, að flest verkalýðsfélög hefðu lausa samninga og þess vegna væri líklegt, að þau reyndu að bæta sér kjaraskerðinguna upp með grunnkaupshækkunum. Og hann sagði líka, þessi hv. þingmaður, að það væri líklegt, að þau, reynslunni ríkari af þessu ákvæði, mundu gera samninga til skemmri tíma en áður til þess að geta breytt grunnkaupinu með skemmra millibili en áður. Ég hef satt að segja haldið, að það, sem sérstaklega hefur verið talið athugavert í þessum efnum, kaup- og kjaramálunum, hafi verið það, að samningar á milli atvinnurekenda og verkamanna hafi verið gerðir til of skamms tíma. Ég held, að það verði sízt af öllu til lagfæringar í þessum málum, ef þetta ákvæði í efnahagsmálafrv. stuðlar að því, að samið verði yfirleitt til styttri tíma en áður.

Hann viðurkenndi það nú, þessi hv. þm.., að þetta frv. mundi hafa í för með sér kjaraskerðingu fyrir þjóðina, og hann viðurkenndi jafnvel, að það mundi hafa í för með sér meiri kjaraskerðingu fyrir þjóðina en látið er í veðri vaka í grg. frv. En hann talaði í því sambandi um væntanlega útsvarslækkun. Því atriði hefur nú verið svarað af öðrum, svo að ég get sleppt því að tala um það hér. En það má aðeins benda á, að það er ekkert, alls ekkert, sem bendir til þess, að útsvör muni lækka á þessu ári. Ég held, að það hafi þegar yfirleitt verið gerðar fjárhagsáætlanir fyrir kaupstaðina, og ég held, að það sé ekki gert ráð fyrir því í þeim fjárhagsáætlunum, að útsvörin verði lægri. Það er að vísu rétt, að bæjarog sveitarfélögunum er ætlaður hluti af þeim almenna söluskatti, sem á á að leggja, en það sér hver heilvita maður, að afleiðingar þessa frv. verða þær, að ýmis útgjöld sveitarfélaganna hljóta að aukast, svo að það eru allar líkur til þess, að sá tekjuauki, sem þeim berst vegna þessa söluskatts, verði étinn upp af þeim útgjaldahækkunum, sem leiðir af þessu frv.

Ég skal ekki lengja mál mitt með því að tala um gengisbreytinguna sjálfa. Það má margt um hana segja. Það er að vísu ekki gott um það að dæma út af fyrir sig, hversu mikil gengisbreyting eigi að vera. Margt finnst mér þó benda til þess, að þessi gengisbreyting sé alveg óþarflega há, m.a. atriði, sem er í sjálfu frv., þar sem einmitt samtímis því sem gengisbreytingin er gerð, sjálfsagt til hagsbóta fyrir útflutningsatvinnuvegina, er lagður á sérstakur útflutningsskattur, 5%. Manni getur nú orðið að spyrja, hvort ekki hefði verið skynsamlegra að hafa gengisbreytinguna eitthvað minni, en sleppa þessum álögum. Og samtímis gengisbreytingunni er líka lagður á almennur söluskattur.

Það er alveg víst, að þessi gengisbreyting hefur í för með sér geysimikla röskun og mikla kjaraskerðingu. Um það þarf ekki að fjölyrða. Hún kemur að sjálfsögðu tilfinnanlega við alla, en þó getur hún komið alveg sérstaklega tilfinnanlega við einstaka aðila. Í því sambandi hefur t.d. verið minnzt á það, hvernig hún kemur við námsmenn. Það er alveg víst, að eftir að gengisbreytingin hefur verið gerð, verður ákaflega erfitt fyrir íslenzka námsmenn að stunda nám erlendis. Því er heitið í grg. með frv., að styrkur til þeirra verði hækkaður eftir þar settum reglum, þ.e.a.s. ef styrkurinn hefur nægt til þess að halda námsmanninum uppi í tvo mánuði, skulum við segja, þá á hann að hækka líka eftir þessa gengisbreytingu, þannig að hann nægi eftir sem áður til þess að halda námsmanninum uppi í tvo mánuði. En þá kemur gengisbreytingin til þess að verka á alla hina mánuðina, sem hann verður sjálfur að halda sér uppi, 7 eða 8 mánuði eða hvað sem það nú er. Það má alveg fullyrða, að það verði ókleift öllum efnalitlum mönnum að stunda nám erlendis og að það verði hér eftir, ef ekki verða gerðar sérstakar ráðstafanir í sambandi við þetta, sérstök forréttindi fyrir þá, sem eru sérstaklega efnum búnir í þjóðfélaginu. Enn fremur má benda á það til dæmis, — það er leiðinlegt, að hæstv. menntmrh. skuli ekki vera hér viðstaddur, — að stofnun, sem hann átti drjúgan þátt í að koma á fót og hann á lof skilið fyrir, vísindasjóðurinn, verður vegna þessarar gengisbreytingar ákaflega vanmegnugur til þess að gegna því hlutverki, sem honum var ætlað. Það er að vísu svo, að styrkir úr vísindasjóði eru ekki bundnir við það, að menn séu erlendis. En þó er það svo, að margir af þeim, sem þann styrk hafa hlotið, hafa verið erlendis, og það er alveg auðséð, að þær upphæðir, sem ráð eru á að úthluta úr þeim sjóði, verða allsendis ónógar. Það er þess vegna alveg víst, að ef vísindasjóðurinn á að geta gegnt því hlutverki, sem honum var ætlað í upphafi, verður að gera á honum gagngerðar breytingar vegna þessara aðgerða í efnahagsmálunum.

Hv. 9. landsk. sagði það með mikilli áherzlu, að uppbóta- og styrkjakerfinu yrði að varpa fyrir borð. Ég hef aldrei gerzt neinn sérstakur talsmaður þessa svokallaða uppbóta- og styrkjakerfis, og ég skal játa það alveg hreinskilnislega, að mér er ekki sérstök eftirsjá í því. En áður en hv. 9. landsk. hefði fordæmt þetta styrkja- og uppbótakerfi svo mjög, þá held ég, að honum hefði verið gagnlegt ekki aðeins að kynna sér þingræður og nál. hæstv. viðskmrh., sem 5. þm.. Austf. vitnaði réttilega í hér áðan, heldur hefði hann líka mátt kynna sér enn þá yngri heimildir frá hans hendi. Hæstv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, ritaði á sínum tíma grein í rit, sem Félag ungra jafnaðarmanna í Reykjavík gaf út á 30 ára afmæli sínu, og þessi grein þótti svo góð, að hún var endurprentuð í Alþýðubl. 28. nóv. 1957. Í þessari grein er hæstv. menntmrh. engan veginn sömu skoðunar og hv. 9. landsk. um það, að það sé endilega einhver sáluhjálp í því fólgin að varpa styrkja- og uppbótakerfinu fyrir borð. Hann segir þar, hæstv. menntmrh., að það sé í sjálfu sér enginn eðlismunur á styrkja og uppbótakerfinu og gengisbreytingu. Annars skal ég taka það fram, að í þessari grein, sem er mjög greinargóð, eins og eðlilegt er frá hæstv. menntmrh., segir hann bæði kost og löst á þessu hvoru fyrir sig, gengislækkunarleið, sem hann kallar, og þessari leið uppbóta. En ég vildi aðeins, með leyfi hæstv. forseta, lesa örfá orð úr þessari ágætu grein. Hann segir um þessar tvær leiðir:

„Á þessu tvennu er í sjálfu sér enginn eðlismunur. Aðferð útflutningsbótanna og innflutningsgjaldanna felur þó í sér meiri skilyrði til þess að hafa áhrif á tekjuskiptinguna. Það er hægt að hlífa tilteknum vörum við innflutningsgjöldum og tryggja þar með, að þær séu ódýrar, og það er hægt að láta vissar útflutningsvörur njóta sérstakra útflutningsuppbóta og auka þannig sérstaklega tekjur þeirra, sem þær framleiða. Þetta er mikilsverður kostur, þegar nauðsynlegt er taliðað hafa ákveðin áhrif á tekjuskiptinguna.“

Það er alveg auðséð af þessari grein, sem rituð er 1957, að hæstv. viðskmrh. hefur í þessum efnum verið þá enn á alveg sömu skoðun og hann var árið 1949 eða 1950.

Það er alveg ljóst og þarf ekki að orðlengja um það frekar, að forsendan fyrir þessu frv. og markmiðið með þessu frv. er samdráttur, það er samdráttarstefna, eins og rækilega hefur verið útskýrt hér. Það kemur skýrt fram í grg. frv., og það var alveg skýrt játað af hv. frsm, meiri hl. fjhn. hér í dag. Hann sagði, að þetta frv., sem hér liggur fyrir til umræðu, hefði verið alveg sambærilegt við bjargráðin 1958, ef í þessu frv. hefði aðeins verið um að ræða gengisbreytinguna og niðurfellingu uppbótakerfisins. Hann sagðist ekki hafa verið með bjargráðunum, af því að þá hefði ekki fylgt með það, sem fylgir með í þessu frv. En hvað er það, sem fylgir með í þessu frv. fram yfir gengisbreyt. og niðurfellingu uppbótakerfisins? Það eru þau atriði, sem eiga að miða að samdrætti. Það er vaxtahækkunin, það er boðaður samdráttur útlána og ýmis önnur ákvæði í þessu frv.

Hæstv. viðskmrh. mun hafa skýrt frá því í Nd., að Framsfl. hefði út af fyrir sig getað fallizt á gengisbreytingu, en Framsfl, hefði aldrei viljað fallast á þær ráðstafanir, sem hinir samstarfsflokkar hans töldu nauðsynlegt að væru samfara gengisbreytingu. Þessar ráðstafanir, sem Framsfl. hefur þannig aldrei viljað ljá máls á, eru einmitt þessi samdráttur í framkvæmdum, þessi samdráttarstefna. Ég held því alls ekki fram, að vandi efnahagsmálanna sé lítill, ég held einmitt, að hann sé verulegur, og ég held, að það sé hollt fyrir alla að horfast í augu við það. En ég er þeirrar skoðunar og hef verið þeirrar skoðunar, að sá vandi verði ekki leystur á viðhlítandi hátt nema með miklu viðtækara samstarfi stjórnmálaflokkanna og stéttasamtaka í landinu en átt hefur sér stað hingað til. Ég veit, að hæstv. viðskmrh. hefur áður verið alveg sömu skoðunar um þetta atriði. Það kemur greinilega fram í þessari grein hans, sem ég vitnaði í áðan, ef ég mætti nú aðeins, með leyfi hæstv. forseta, rifja það upp, sem hann sagði um það atriði, þegar hann ræddi um vinstri stjórnina, þá sagði hann:

„Þeir flokkar, sem mynduðu núver andi ríkisstj. á s.l. sumri, gerðu sér og gera sér ljóst, að verðbólguhjólið verður ekki stöðvað nema með náinni samvinnu ríkisvalds og stéttasamtaka. Það var og er kjarninn í þeim samningi, sem gerður var við myndun ríkisstj., að reynt skuli að leysa efnahagsvandamálin, þ.e. að stöðva verðbólguhjólið og tryggja atvinnuvegum þjóðarinnar traustan starfsgrundvöll og skilyrði til framleiðsluaukningar, með samstarfi ríkisvalds og samtaka vinnandi fólks, bæði launþega og framleiðenda til sjávar og sveita. Landinu verður ekki stjórnað og efnahagsmál þjóðarinnar verða ekki leyst, ef styrjöld geisar milli ríkisvaldsins annars vegar og stéttasamtakanna hins vegar. Ef hið opinbera fylgir þeirri stefnu í efnahagsmálum, sem Sjálfstfl. berst fyrir, má ganga út frá því sem vísu, að samtök launþega beiti sér gegn henni, svo sem átti sér stað á árunum 1950–56. Baráttan gegn verðbólgunni verður því ekki háð undir merkjum Sjálfstfl. Sigur á henni verður ekki unninn með aðild hans.“

Þetta sagði hæstv. viðskmrh. 1957. Í þessum efnum hefur hann áreiðanlega breytt um skoðun, því að nú vinnur hann að lausn þessara mála undir merki Sjálfstfl. og með hans aðild. En það má mikið vera, ef sagan endurtekur sig ekki, og það má mikið vera, ef hann á ekki eftir að finna fyrir því, hæstv. viðskmrh., að það getur verið erfitt að leysa þessi mál í styrjöld við launþegasamtökin. (Fjmrh.: Hann er nú kominn í betri félagsskap en hann var þá. ) Ég skal ekki dæma um það, en ekki virðist félagsskapurinn hafa orkað uppörvandi á hann, úr því að hann getur ekki setið hér þessa stund við hlið hæstv. fjmrh. og aðstoðað hann við að halda upp vörnum fyrir þessa stefnu.

Ég er alveg sama sinnis og fyrr, að ég álít, að þessi mál verði ekki leyst nema með viðtæku samstarfi stjórnmálaflokka og stéttasamtaka, og í þá átt miðar sú dagskrártill., sem borið er fram af hálfu framsóknarmanna við afgreiðslu þessa máls.

Framsóknarmenn eru fúsir til samstarfs um lausn þessara mála. En það eitt er víst, að það verður ófrávíkjanlegt skilyrði af þeirra hálfu fyrir þátttöku í hvers konar aðgerðum í efnahagsmálunum, að þær efnahagsaðgerðir verði þannig, að næg atvinna verði tryggð og að framkvæmdum verði haldið uppi svo viða um land og svo miklum sem kostur er. Framsóknarmenn munu þess vegna aldrei ljá máls á þeirri samdráttarstefnu, sem boðuð er í þessu frumvarpi.