18.02.1960
Efri deild: 24. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

48. mál, efnahagsmál

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Í raun og veru ætlaði ég ekki að segja margt núna. En málum hefur nú skipazt svo, að mína ræðu úr fyrstu umferð hefur meira borið hér á góma í umræðunum en ég hafði vænzt, þannig að ég vil gjarnan koma inn á þau atriði að gefnu tilefni, og þess vegna segi ég nú meira en ég í upphafi hugðist gera.

Það verður alltaf að hafa í huga í sambandi við stjórnarandstöðuna hjá framsóknarmönnum, að ekki má gera sérstaklega miklar kröfur til þeirra, því að sannleikurinn er sá, að framsóknarmenn kunna ekki við sig í stjórnarandstöðu. Þeim líður illa, og öll þeirra stjórnarandstaða byggist raunverulega á því að komast úr þessari aðstöðu og komast aftur í stjórn. Þetta verður alltaf að hafa hugfast, þegar hlustað er á þeirra málflutning.

Hv. 3. þm.. Norðurl. v. gerði ræðu mína hér allmjög að umtalsefni og beindi ýmsum skeytum til Alþfl, og menntmrh. Eitt af því, sem hann vitnaði til í minni ræðu, var það, að ég hefði sagt, að það þyrfti að varpa uppbóta og styrkjakerfinu fyrir borð. Þetta var eitt af því fáa, sem hann fór alveg rétt með af því, sem ég sagði. Vissulega sagði ég þetta og stend við það. En hann fór að lesa upp úr margra ára gamalli ræðu Gylfa Þ. Gíslasonar, þar sem hann mælti þessu kerfi bót. Ég vil vekja athygli á því, að ég hef oft heyrt Gylfa Þ. Gíslason segja, að það væri að vissu leyti margt nýtilegt við uppbóta- og styrkjakerfið, en gallinn væri sá, að það yrði því verra, því lengur sem það er notað. Þegar við erum búin að búa við þetta kerfi í hartnær heilan áratug, þá er það raunverulega alveg í samræmi við það, sem Gylfi hefur alltaf sagt, að nú sé kominn tími til að varpa þessu kerfi fyrir borð.

Hitt er svo allt annað mál, að ég get á engan hátt skuldbundið mig til þess í mínum skoðunum að vera endilega á sama máli og einhver samflokksmaður minn hafi verið fyrir mörgum árum. Menn læra af reynslunni, bæði ég og Gylfi Þ. Gíslason, og það er siður en svo nokkuð athugavert við það. Ég vil bara benda þessum hv. þm.. á, að það eru nærtækari dæmi um það, að samflokksmenn séu ekki sammála. T.d. er það þannig, að foringi framsóknarmanna í Norðurlandskjördæmi vestra, Björn Pálsson, sem telur sig mestan herforingja þeirra framsóknarmanna þar, hefur haft talsvert aðrar skoðanir á þessu efnahagsmálafrv. en aðrir menn í Framsfl. Ég tel þetta í sjálfu sér ekkert óeðlilegt eða neitt til þess að vera að fetta fingur út í. Þetta eru ósköp eðlilegir hlutir. Og svo að minnzt sé á gengislækkunina, — að vísu tala sumir framsóknarþm.. um, að þeir séu ekki í sjálfu sér á móti gengislækkun, en oft hefur Framsfl. stutt gengislækkun, þó að hann geri það ekki núna, þannig að hann er þá á öðru máli nú en oft áður.

Það var annað, sem þessi hv. þm.. var einnig að finna að. Það var, að Alþfl. virtist nú alveg horfinn frá því að hafa samráð við verkalýðssamtökin, en þá stefnu studdi hann í vinstri stjórninni. Það er eins með þetta og hitt, að menn verða að læra af reynslunni, og mér finnst það satt að segja koma úr hörðustu átt frá Framsfl, eftir þá útreið, sem forsrh. flokksins fékk hjá verkalýðssamtökunum, að hann ætli sér að halda fast við þessa stefnu. Ég gerði reyndar grein fyrir því í ræðu minni hér við 1. umr., að það væri því miður erfiðara að hafa samráð við verkalýðssamtökin hér á Íslandi en æskilegt væri. Eitt af því, sem gerir þetta erfiðara m.a., er það, að kommúnistar hafa meiri hluta í miðstjórn Alþýðusambandsins án þess að hafa meiri hluta í samtökunum. Og hvers vegna er þetta? Jú, það er sök framsóknarmanna. Þeir fórnuðu því fyrir vini sína kommúnista að eiga sjálfir oddamanninn í miðstjórn Alþýðusambandsins og létu kommúnista eina hafa meiri hluta. Þetta er m.a. ein af ástæðunum fyrir því, að þegar svona óábyrgur flokkur er látinn hafa meirihlutavald, sem hefur ekki meiri hluta í hreyfingunni, þá er auðvitað erfiðara að hafa samráð við hana heldur en ella.

Þessi hv. þm.., 3. þm.. Norðurl. v., talaði um, að með þessu væri verið að ráðast á unga fólkið í landinu, gera því erfiðara fyrir og skapa öllum örðugleika, sem væru ekki búnir að koma sér fyrir, eins og hann orðaði það, ekki búnir að byggja sér hús eða annað slíkt. Þetta er í sjálfu sér rétt að vissu leyti. Þetta getur verið alveg rétt. En það er ekkert nýtt um þessar efnahagsráðstafanir. Bæði gengislækkunin 1950 og yfirfærslugjaldið 1958 höfðu alveg sömu áhrif, og Framsfl. studdi þær ráðstafanir. Það hefði mátt með alveg jafnmiklum rökum segja, að þær hefðu beinzt gegn unga fólkinu. Það voru þara svo þýðingarmiklir hagsmunir í veði, að það varð að gera þetta þrátt fyrir það. En ég vil líka benda á í þessu sambandi, að það eru ekki eingöngu þessar efnahagsráðstafanir og fyrri bjargráð, sem hafa skapað mismun, þannig að þeim, sem eru ekki búnir að koma sér fyrir, er gert talsvert örðugra um vik en hinum, sem eru búnir að því, það er líka hin sífellda verðbólguþróun, sem átt hefur sér stað hér undanfarna tvo áratugi, að það hefur alltaf verið eftirsóknarvert að vera búinn að gera hlutina, vera búinn að koma sér upp húsi eða að stofna til einhvers konar fjárfestingar. Menn hafa alltaf hagnazt á því, svo að þetta er í raun og veru ekki nýtt. En ég vil t.d. benda á, hvernig það væri fyrir fólk, sem væri ekki búið að koma sér fyrir, ef ekki hefði tekizt að stöðva verðbólguna árið 1959, ef t.d. kaupgjaldsvísitalan, sem var komin upp í 202 stig og svo færð niður í 175, væri nú í dag komin upp í 260–270 stig. Það væri einmitt það vandamál, sem Framsfl. hljópst frá að leysa. Hitt er svo auðvitað annað mál, að það er miklu betra fyrir ungt fólk, þó að það fái stundarerfiðleika að glíma við, ef það er síðan hægt að fá því í hendur heilbrigt efnahagskerfi. Það er það, sem hefur langmesta þýðingu fyrir framtíðina, og þess vegna má maður auðvitað ekki horfa á það, þó að þetta skapi stundarerfiðleika. Það er framtíðin, sem við erum að hugsa um.

Þessi hv. þm.. var ekki sammála mér um áhrif vaxtahækkunarinnar. Ég sagði, að vaxtahækkunin væri kjaraskerðing fyrir okrarastéttina. Honum fannst þetta fásinna. Nú voru þessi hv. þm.. og samflokksmenn hans að prédika það, að af þessu leiddi samdrátt. Það er að vissu leyti rétt, það leiðir til samdráttar, en það er samdráttur á því, sem er óheilbrigt og miður nauðsynlegt. En þetta hlýtur náttúrlega að leiða til þess, að það verður minni eftirspurn eftir lánsfjármagni. Nú þegar eftirspurnin minnkar, hlýtur hún náttúrlega fyrst og fremst að minnka hjá þeim, sem taka langhæsta vextina, hjá okrurunum, og á sama hátt þegar innlánsvextir hækka, þá aukast væntanlega sparifjárinneignir og þar með framboðið á lánsfé.

Starfsemi okraranna hefur byggzt á því, að eftirspurnin eftir lánsfé hefur verið miklu meiri en framboðíð. Ef hægt er að brúa þetta bil, þá er auðvitað þar með að miklu leyti kippt grundvellinum undan þessari stétt manna. Mér sýnist þetta afskaplega einfalt, og ég er reyndar ekki hissa á því, að ef þessi hv. þm.. getur ekki skilið svona einfalda hluti, þá sé honum margt annað torskilið í þessu frv.

Þessi hv. þm.. spurði um það, hvaða lán hefðu verið betur ótekin í tíð vinstri stjórnarinnar. Þessu er út af fyrir síg erfitt að svara. Það, sem er kjarninn, er, að uppbóta- og styrkjakerfið gerði lántökur umfram framkvæmdalán, þ.e.a.s. lántökur til vörukaupa, nauðsynlegar til þess að kaupa inn hátollavarning. Þess vegna má segja, að það getur vel verið, að miðað við það kerfi, sem þá ríkti, hafi öll þessi lán verið nauðsynleg. Hins vegar erum við nú að breyta um kerfi, einmitt til þess að sum af þessum lánum verði ónauðsynleg.

Þessi hv. þm.. hafði það eftir mér úr minni ræðu, að ég hefði sagt, að Alþfl. hefði stöðvað verðbólguna. Þetta sagði ég nú reyndar ekki, því að það er dálítið erfitt að skýra það nákvæmlega, hvað sé verðbólga eða hvar á að draga mörkin, hvenær sé verðbólga og hvenær ekki og hvenær hún sé stöðvuð. Það getur verið mjög erfitt að dæma um það. Ég sagði hins vegar, að Alþfl.-stjórninni hefði tekizt að stöðva víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags, og ég sagði enn fremur, að Aþlfl.-stjórnin hefði náð meiri árangri í baráttunni við verðbólguna heldur en nokkur önnur ríkisstjórn hefði náð um margra ára bil, og það stend ég algerlega við. Þessi hv. þm.. sagði að vísu, að það hefði enginn vandi verið að gera það, sem Alþfl. gerði. En það var nú samt svo, að þessi vandi, sem Alþfl, leysti fyrst ag fremst, það var vandi, sem Framsfl. hljóp frá að leysa. Hann var þó það mikill. Og þessi árangur, sem náðist árið 1959 í baráttunni gegn verðbólgunni, léttir okkur einmitt þá baráttu nú, sem við þurfum að heyja við greiðsluhallann, en það er vandamál, sem við raunverulega höfum ekki snúið okkur að því að leysa fyrr en núna.

Þá vildi þessi hv. þm.. halda því fram, að Sjálfstfl. hefði ráðið stefnunni, þegar minnihlutastjórn Alþfl. sat hér. Vitanlega gat Alþfl. ekki einn ráðið, hann var minnsti flokkur þingsins. En eins og allir vita, var stuðningur Sjálfstfl. við þá stjórn takmarkaður. Það þarf t.d. ekki annað en minna á deiluna um landbúnaðarvöruverðið og brbl., sem afsanna alveg þessa kenningu hv. þm.., að það hafi verið Sjálfstfl., sem hafi ráðið stefnunni.

Fjölskyldubætur hefur borið hér nokkuð á góma í þessum umræðum, og framsóknarþingmenn sumir hafa verið að reyna að gera lítið úr þeim og reyndar rangtúlkað þetta nokkuð. Ég vil nú taka sem dæmi 5 barna fjölskyldu, en samkv. þeim reglum, sem gilt hafa um fjölskyldubætur, hefur 5 barna fjölskylda á fyrsta verðlagssvæði haft í fjölskyldubætur kr. 5827.50. Þetta á að hækka í 13000 kr. Hækkun fjölskyldubótanna hjá 5 barna fjölskyldu er því 120%. Á öðru verðlagssvæði mundu fjölskyldubætur hækka úr kr. 4730.63, sem þær eru nú, í 13000 kr. eða hækkun um 200%, þannig að það er alveg augljóst, að barnmargar fjölskyldur fá mjög mikla hækkun fjölskyldubóta.

Hv. 5. þm.. Austf. hafði það eftir mér úr minni ræðu, að ég hefði sagt, að atvinnurekendur ættu einir að bera vaxtabyrðina. Þetta er ekki rétt haft eftir mér. Ég sagði, að atvinnurekendur ættu að bera einir vaxtabyrði af þeim lánum, sem þeir yrðu að taka vegna sins atvinnurekstrar, og eins þegar á heildina væri litíð, þá lenti vaxtabyrðin miklu frekar á atvinnurekendum en á almennu launafólki, þó að ég hins vegar viðurkenndi fúslega, að vaxtabyrðin hefur mjög viðtæk áhrif í þjóðfélaginu. Það er þess vegna allt of mikið haft eftir mér, að ég hafi sagt, að atvinnurekendur ættu einir að bera vaxtabyrðina. Þessi hv. þm.. vildi afsanna þessa kenningu og var þar að benda á bændur, sem þyrftu að draga að sér vörur langar leiðir og kaupa miklar birgðir í senn og þar með væntanlega stofna til skulda á sínum viðskiptareikningum í sinu kaupfélagi og að þeir mundu þurfa að borga háa vexti á þetta. Í sjálfu sér hnekkir þetta ekki neitt því, sem ég sagði, þó að þessi hv. þm.. hefði farið rétt með orð mín, sem hann ekki gerði, því að hann var einmitt rétt áður í ræðu sinni að tala um það, að bændur væru nokkurs konar atvinnurekendur, það voru hans orð. Ef ég hef sagt, að vaxtabyrðin lenti á atvinnurekendum, þá var þó ekkert ólíklegt eftir þeim orðum, að hún lenti á stétt, sem væri nokkurs konar atvinnurekendur, það er síður en svo. Hins vegar held ég, að þetta sé í aðalatriðum rangt hjá hv. þm.., að bændur, sem búa langt frá verzlunarstað og þurfa að kaupa miklar birgðir, stofni til skulda. Sem betur fer, eiga margir þessir bændur sjálfsagt innstæðu, og ég efast um, að það stofnist nokkur skuld í þeirra viðskiptareikningum við þetta.

Ég held, að það hafi verið í gær, sem maður hlustaði á í útvarpinu, að einn af þeim mönnum, sem hvað kunnugastir eru af öllum landsmönnum hag bændastéttarinnar, Arnór Sigurjónsson, var að tala um, að fjárfesting hjá bændum undanfarið hefði verið — ja, ég man ekki hver ósköp, mig minnir 66% af tekjum þeirra af búunum, þannig að það er ólíklegt, að sú stétt manna, sem að undanförnu hefur haft í frammi mesta fjárfestingu; sé svo illa komin á sig, að þeir eigi ekki fyrir því, þó að þeir þurfi að taka út matvælabirgðir til nokkurra mánaða. Mér þykir þetta afar ólíklegt, að slíkt dæmi sé almennt.

Þessi hv. þm.. var að vitna í orð Eggerts Þorsteinssonar um það, að hann krefðist óbreytts ástands. Það, sem vantaði alveg í þennan upplestur, var að skýra frá því, um hvaða málefni var fyrst og fremst rætt, hver var forsenda þess, að þetta var sagt. Þetta áttí sér stað í sambandi við setningu brbl. í haust, og það, sem átt var við, var fyrst og fremst það, að ef ætti að fara að mismuna stéttunum innanlands, — það var komið á jafnvægi og ef bændastéttin fengi þarna kaupbætur eða kjarabætur, sem alveg ósannað væri að hún ætti rétt á, þá mundu aðrar stéttir ekki una því. Það var það, sem fyrst og fremst var átt við. Eggert hefur ekkert sagt um það, að verkalýðsstéttin ætti ekki að taka sinn þátt byrðanna við að leysa þau vandamál, sem við erum nú að glíma við.

Þá var þessi hv. þm.. mjög sár yfir því, af hve mikilli léttúð ég hefði talað um þessa hjartfólgnu uppbyggingarstefnu eða byggðastefnu þeirra framsóknarmanna.

Ég verð að játa það, að mér finnst þetta ærið óljóst hugtak. Það má í raun og veru kalla allt milli himins og jarðar byggðastefnu eða uppbyggingarstefnu. þetta er svo almennt orð. En það er alveg sérstaklega eftirtektarvert hjá þessum hv. þm.., sem eyddi löngum tíma í niðurlagi ræðu sinnar til að tala um stefnu Framsfl., og í. blöðum flokksins undanfarið og ræðum, að þeir eru alveg hættir að minnast á það, sem maður fram til þessa hefur talíð aðalinntakið í boðskap framsóknarmanna, það er samvinnustefnan, það er aldrei á hana minnzt lengur. Ég veit ekki, hvernig stendur á þessu, hvort það er vegna þess, að hún missté sig dálitíð og fór út í það að verða samvinna við hlutafélögin, en henni hefur ekkert verið flíkað. Nú er þetta bara kölluð uppbyggingarstefna og byggðastefna.

Þá ætla ég aðeins að víkja að töflu, sem er hér í athugasemdum við efnahagsmálafrv., töflunni á bls. 34, sem báðir þessir hv. framsóknarþingmenn, sem ég minntist hér á, hafa gert að umtalsefni og hafa eiginlega viljað benda á hana til að sýna, hvað vinnubrögð hagfræðinga geti yfirleitt verið fráleit. Ég sé ekki annað en hv. 5. þm.. Austf. skjátlist í því, þegar hann er að segja, að það sé undarlegt í töflunni, að það séu ekkert meiri útgjöld af að hafa tveggja barna fjölskyldu heldur en fjölskyldu með einu barni. Það er alveg rétt, að þarna stendur sama tala, og þetta er að vísu óeðlilegt, það skal ég játa. En ég held, að hv. þm.. hafi ruglazt í því, að þáð er tveggja barna fjölskylda, sem er aðalgrundvöllurinn í þessari töflu. Hann hefði því komizt réttilegar að orði, hefði hann sagt svo, að það væri undarlegt, að það væri ekki ódýrara að hafa eitt barn á framfæri sínu heldur en tvö, þá hefði hann í raun og veru náð því rétta. En hitt, sem hv. þm.. er að tala um, að það sé lítill munur á framfærslu barnsins, þegar fjölgar úr tveimur í þrjú og þremur í fjögur og fjórum í fimm o.s.frv., þarna munar 2–3 hundruð kr., og það er að vísu rétt, að þessi munur er lítill, það er aukning útgjalda vegna 11% hækkunar vegna verðlags, þ.e.a.s., það eru þessi 13%, þegar búið er að draga 2% frá vegna væntanlegrar niðurgreiðslu á kaffi, sykri og kornvörum, þá kemur þetta út. Ef eitthvað er rangt í þessum útreikningum, þá er það ekki hagfræðingunum að kenna og þá er það vísitalan, sem er vitlaus. Þetta er bara vísitölugrundvöllurinn, eins og hann er í dag og hefur verið, og þessi 11% hækkun er hækkun á þeim grundvelli, þannig að þarna er ekki um það að ræða, að þetta séu einhverjar tölur tilbúnar af hagfræðingunum í sambandi við samningu þessa frv.

Þá kem ég reyndar að því, sem var aðalástæðan til þess, að ég stóð hér upp. Það hefur verið hér að sjálfsögðu útbýtt nál. frá 1. minni hl. fjhn., en það er hv. 5. þm.. Norðurl. e., sem að því stendur. Með þessu nál. fylgja ýmis fylgiskjöl, og á bls. 3 eru birtar samþykktir verkalýðsfélaga og fleira og þ. á m. samþykkt miðstjórnar Alþýðusambands Íslands, og segir, að miðstjórnin leggi eindregið til, að frv. verði fellt. Þarna er að mínum dómi ekki sagður nema hálfur sannleikurinn.

Þessi samþykkt, sem þarna er gerð, var samþykkt með 5:4 atkv. í miðstjórn Alþýðusambands Íslands, og þessir 5 menn, meiri hlutinn, það eru eingöngu menn af einum og sama stjórnmálaflokki, það eru Alþýðubandalagsmenn eða kommúnistar. En ég hefði álitið, að það væri ekki siður ástæða til þess um allt minni hlutans, hinna fjögurra, sem var fellt með 5:4 atkv., að hv. deildarmenn fái einnig að kynnast því, og þess vegna vil ég — með leyfi hæstv. forseta — lesa það hér upp. Það hljóðar þannig:

„Ráðstefna verkalýðsfélaganna s.l. haust, þar sem rætt var um viðhorfin í kaupgjaldsmálum, samþykkti að fela miðstjórn að boða til nýrrar ráðstefnu, þegar fram væru komnar boðaðar till. ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þær till. eru nú að nokkru komnar fram í frv. til laga um efnahagsmál, sem sent hefur verið miðstjórn til umsagnar. Aftur á móti hafa enn ekki verið lagðar fram á Alþingi till, um ýmiss konar hliðarráðstafanir, sem ríkisstj. hefur boðað að gerðar verði jafnhliða og hljóta að hafa veruleg áhrif á hag og afkomu almennings. Má þar til nefna hækkun bóta trygginganna og afnám tekjuskatts á launatekjur o.fl. Mál þessi eru svo nátengd, að þau verður að sjálfsögðu að athuga í heild, þar sem athugun á einstökum þáttum þeirra gefur enga viðhlítandi heildarmynd af fyrirhuguðum ráðstöfunum eða áhrifum þeirra á hag almennings.

Með hliðsjón af framansögðu og til þess að fá sem gleggsta og réttasta mynd af ástandinu í heild og væntanlegum ráðstöfunum eða áhrifum þeirra, ályktar miðstjórnin að kveðja til tvo sérfræðinga, er rannsaki ýtarlega fram komið frv. um efnahagsmál svo og boðaðar hliðarráðstafanir og skili miðstjórn rökstuddu áliti sinu um það, hver áhrif þessara ráðstafana muni verða á hag og afkomu launafólks í landinu, bæði nú þegar og í næstu framtíð. Þegar álit þessara sérfræðinga liggur fyrir, verði ráðstefna verkalýðsfélaganna kölluð saman á ný til þess að taka afstöðu til aðgerðanna í heild og marka stefnu verkalýðshreyfingarinnar í næstu framtíð í kaupgjaldsog kjaramálum.“

Þetta var tillaga minni hlutans í miðstjórn Alþýðusambands Íslands.

Ég vil svo að lokum segja það, að með þeim efnahagsaðgerðum, sem hér standa fyrir dyrum, er í rauninni verið að leita nýrra læknisráða víð þeim efnahagsmeinum, sem hafa þjáð íslenzkan þjóðarlíkama, ef svo má að orði kveða. Hvernig þau ráð gefast, það hlýtur fyrst og fremst dómur reynslunnar að skera úr um. Ég álít, að einmitt þessi dómur reynslunnar muni kveða niður flest af því, sem hv. stjórnarandstæðingar hafa hér um þetta mál sagt, og kvíði ég þeim dómi ekki.