18.02.1960
Efri deild: 24. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

48. mál, efnahagsmál

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég stend hér upp til þess að gera í fáum orðum grein fyrir brtt. á þskj. 116.

Þessi brtt. snertir 16. gr. þess frv., sem fyrir liggur, en í 16. gr. er rætt um heimild handa ríkisstjórninni til að innheimta sérstakt bifreiðagjald, sem má nema allt að 135%o af fobverði hverrar bifreiðar.

Með þessu ákvæði er ríkisstjórninni sett í sjálfsvald, hvort hún innheimtir þetta gjald, hve hátt hún ákveður það, hvort hún lætur eitt yfir alla ganga, og ef ekki, þá á hvern hátt hún óskar að mismuna.

Í grg. fyrir frv. er bent á, að gjald á fobverði bifreiða hafi verið mismunandi til þessa, m.a. hafi gilt sérstakt lægra gjald fyrir bifreiðar atvinnubifreiðastjóra og lækna.

Þá segir enn fremur í grg., að í frv. sé gert ráð fyrir afnámi þessarar tilhögunar, þannig að sama gjald gildi eftirleiðis fyrir alla innflytjendur fólksbifreiða, með þeirri einu undantekningu þó, að atvinnubifreiðastjórar greiði nokkru lægra gjald samkv. ákvörðun ríkisstj. Af þessum orðum í grg. virðist ljóst, hvernig hæstv. ríkisstj. ætli að nota heimildina í 16. gr. Hún ætlar að ívilna atvinnubifreiðastjórum áfram, en svipta lækna þeim rétti, sem þeir hafa nú. Þetta þykir mér í senn vanhugsað hjá hæstv. ríkisstj. og óréttmætt, og þess vegna hef ég leyft mér að bera fram áðurnefnda brtt.

Það er fram komin brtt. um sama efni á þskj. 114. Sú till. gengur nokkru lengra en mín, og þar eð ég hygg, að hún verði borin upp á undan, þar eð hún gengur lengra, þá mun ég greiða henni atkvæði, en minni að þeirri tillögu felldri.

Læknafélag Reykjavíkur hefur sent erindi til hins háa Alþingis um þetta mál. Það er fundarsamþykkt, sem gerð var í gærkvöld í Læknafélagi Reykjavíkur. Ég vil leyfa mér að lesa upp þetta erindi. Það er á þessa leið:

„Í 16. gr. frv, til laga um efnahagsmál, sem nú liggur fyrir hinu háa Alþingi, er ríkisstj. veitt heimild til úrskurðar um innflutningsgjald af bifreiðum samkvæmt síðustu málsgr. greinarinnar. Með tilliti til athugasemdar við greinina leyfir fundur Læknafélags Reykjavíkur, haldinn 17. febr. 1960, sér að gera eftirfarandi ályktun, sem sendist hinu háa Alþingi:

Samkvæmt athugasemdum við 16. gr. frv. um efnahagsmál verður ekki betur séð en hugmyndin sé, að heimildarákvæði gr. um það, að ríkisstj. úrskurði um innflutningsgjald það af bifreiðum, sem þar eru ákvæði um, skuli eingöngu ná til bifreiða, sem fluttar eru inn handa atvinnubifreiðastjórum. Undanfarið hafa læknar notíð nokkurrar ívilnunar á innflutningsgjöldum bifreiða. Hefur með því verið af löggjafans hálfu staðfest sú augljósa staðreynd, að bifreiðanotkun lækna sé ekki síður nauðsynleg en almennur farþegaakstur. Að sjálfsögðu er það á valdi hins háa Alþingis að breyta þessum ákvæðum á þann veg, að læknar greiði ful] innflutningsgjöld. En þá verður ekki hjá því komizt, að læknisþjónusta hækki til jafns við beina útgjaldahækkun lækna og muni öll hin auknu útgjöld, sem þessi breyting hefði í för með sér, lenda á sjúkrasamlögum og sjúklingum sjálfum. Þar sem læknar geta ekki sinnt störfum sínum án bifreiða og hljóta að lita svo á, að þjónusta þeirra sé ekki síður mikilvæg fyrir almenning en farþegaakstur í leigubifreiðum, þá verður fundurinn að fara þess á leit, að eigi verði lögð hærri gjöld á bifreiðar til lækna en bifreiðar atvinnubilstjóra.“

Þannig hljóðar þetta erindi til hins háa Alþingis frá Læknafélagi Reykjavíkur.

Þá hefur þeim tveim læknum, sem nú eiga sæti í þessari hv. d., í dag borizt bréf frá stjórn Læknafélags Íslands, en það bréf er svo hljóðandi:

„Í grg. með frv. ríkisstjórnarinnar um efnahagsmál, sem nú er til umræðu í hv. Ed. Alþingis, virðist gert ráð fyrir, að niður falli ívilnun sú, sem læknar hafa notið varðandi innflutningsgjöld af bifreiðum. Ef réttmætt þykir, að atvinnubifreiðastjórar njóti hlunninda varðandi innflutning fólksbifreiða, verður stjórn Læknafélags Íslands að líta svo á, að ekki sé síður ástæða til að veita læknum sams konar hlunnindi. Starfandi læknum er bifreiðanotkun brýn nauðsyn, og almennt er litið svo á, að lækningar séu mikilsverðari en fólksflutningar í leigubifreiðum.

Vér viljum því mælast til þess, að þér beitið yður fyrir því, að innflutningsgjöld af bifreiðum til lækna verði eigi hærri en sams konar gjöld af bifreiðum, sem ætlaðar eru atvinnubifreiðastjórum.

Virðingarfyllst,

Kristinn Stefánsson.“

Við þetta vildi ég aðeins bæta örfáum orðum.

Bifreiðastjórum eru vitanlega ekki veitt þau fríðindi, sem ætlað er að veita þeim og þeim hafa verið veitt, sjálfra þeirra vegna, heldur vegna almennings. Það er gert í því skyni að akstursgjöld geti orðið lægri en ella væri. Í bifreiðum atvinnubifreiðastjóra ekur fólk, sem að miklum meiri hluta er heilt heilsu og fullvinnufært. Þær bifreiðar notar fólk bæði að þörfu og óþörfu, eins og öllum er kunnugt, en allt um það er atvinna bifreiðastjóra þjónusta við almenning.

En hvað er að segja um lækna og þeirra bifreiðar að þessu leyti? Læknar nota og verða að nota bifreiðar við atvinnu sína til sjúkravitjana. Notkun þeirra er því í fyllsta máta þjónusta við fólkið í landinu. Ef leigubílstjórar að meginhluta aka í þágu heilbrigðra manna og þykja fyrir það verðskulda ívilnun við bifreiðakaup, hvað er þá um læknana, sem eingöngu þjónusta veikt fólk og óvinnufært? Er minni ástæða þar til ívilnunar á gjöldum, — ívilnunar, sem á að koma og kemur sjúklingum til góða?

Nú er bifreiðakostnaður drjúgur liður í rekstrarútgjöldum lækna, og því hærri sem hann er, því meira verða sjúklingar og sjúkrasamlög að greiða. Það er í sjálfu sér ekki annað en einfalt reikningsdæmi. Vitanlega er meiri ástæða til að létta kostnaði þeirra, sem veikir eru, en hinna, sem eru fleygir og færir. Ég næstum fyrirverð mig fyrir að þurfa að hafa orð á þessum sjálfsagða hlut og gera þennan samanburð, en hæstv. ríkisstj. hefur knúið mig til þess. Hvað vakir fyrir hæstv. ríkisstj. að setja lækna og skjólstæðinga þeirra nú skör lægra en leigubilstjóra og þeirra viðskiptamenn? Er það máske sú staðreynd, að leigubilstjórar mynda fjölmennarí stétt en læknar og séu því að líkindum pólitískt áhrifameiri? Ég bið afsökunar á þessari spurningu, en spyr sá, sem ekki veit. Hvarvetna í menningarlöndum er leitazt við af opinberri hálfu að greiða fyrir störfum lækna. Það er hvergi gert læknanna vegna að sjálfsögðu, heldur vegna skjólstæðinga þeirra, sjúklinganna. Á neyðartímum er reynt að gæta þess í lengstu lög, að störf lækna torveldist sem minnst, og þeim mundi seinna meinaður bifreiðakostur en leigubilstjórum. Þannig er litið á þessi mál meðal allra siðaðra þjóðfélaga.

Ég lýk þessum orðum mínum og vænti þess fastlega, að hæstv. ríkisstj. endurskoði þessa afstöðu sína. Ég vænti þess einnig, að hv. þdm. styðji aðra hvora fram komna brtt. til leiðréttingar á því óvenjulega misræmi, sem kemur fram í þessu máli.