19.02.1960
Efri deild: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (2075)

48. mál, efnahagsmál

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það eru raunverulega tvær till., sem hér liggja fyrir, ef ekki þrjár, ef þeim væri skipt niður eðlilega á efnislegan hátt.

Um fyrsta atriðið, að skylda ríkisstj. til þess að greiða þær niðurgreiðslur, sem hún hefur lofað, er ekki annað að segja en það, að það, sem raunverulega felst í till., er að binda hana við þau loforð, sem hún hefur sjálf gefið.

Um sjúkrakostnaðinn hafa alltaf gilt, að því er gjaldeyrinn snertir, eins og okkur er kunnugt, sérreglur. Það er að vísu rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að það er ákaflega margt eða flest, sem íslenzkir læknar geta gert hér. Þó eru alltaf nokkur tilfelli, þar sem leita verður til erlendra lækna, og kostar það stórar fjárfúlgur fyrir þá, sem þangað þurfa að leita. Getur oft oltið á því, hvort hægt er að leita til útlanda, hvort sjúklingurinn fær bata eða ekki. En þar sem þessum tilfellum fækkar, sem betur fer, þá er ef til vill því auðveldara að hafa um þetta undantekningar að því er verðmæti gjaldeyrisins snertir.

Það, sem ég vildi þó sérstaklega ræða, án þess að eyða í það tíma, er námskostnaðurinn. Þær breyt., sem gerðar eru í efnahagsráðstöfununum, eru í mínum augum mjög alvarlegar að því er snertir námsmenn erlendis. Það kann að vera, að sumir af þeim námsmönnum, sem nú stunda nám erlendis, geti stundað nám hér, og skal ég ekkert um það fullyrða. En þó munu það vera fæstir, sem leita eftir því að stunda nám erlendis með þeim fjárhagslegu erfiðleikum, sem það veldur, ef þeir geta stundað nám með jafngóðum árangri eða svipuðum hér heima. En þegar litið er á þetta mál í heild, þá er það miklu stærra en menn kannske almennt gera sér ljóst við fyrstu sýn.

Það er ákaflega slæmt að valda þeim einstaklingum, sem vilja afla sér menntunar, þeim erfiðleikum, sem eru óyfirstíganlegir og þannig, að þeir verða að hætta við nám. En þetta er mál, sem þarf að líta á ekki aðeins út frá sjónarmiði þeirra einstaklinga, sem eru að afla sér menntunar, og því, sem kemur fram víð þá. Þetta er ákaflega stórt þjóðfélagslegt mál, og var raunverulega byrjað á því hér um skeið fyrir nokkrum árum að láta þar til kjörna menn athuga, hvaða menntun það er erlendis, sem okkur er nauðsynlegt að aflað sé á hverjum tíma, og styrkja námsmenn í samræmi við það. Ég veit ekki, hvort þessu hefur verið haldið áfram eða ekki, en þetta sýnir okkur nokkurn þátt málsins.

Það er þjóðfélagslegt atriði, stærra en flest annað, að ungir menn, hvort sem þeir eru ríkir eða fátækir, geti aflað sér sérmenntunar erlendis. Það hefur verið mikið talað hér um framleiðni, sem er nýtt orð, þ.e.a.s. framleiðsluaukningu eða uppbyggingu og þess háttar, sem undirstöðu þess, að við getum bjargað okkur á þann hátt, að við höfum þau lífskjör, sem við öll teljum okkur hafa rétt til að hafa í þessu þjóðfélagi. En þetta, að stúdentar hafi svigrúm til þess, hvort sem þeir eru ríkir eða fátækir, að sækja sérmenntun til útlanda, er alveg eins stórt mál og það, þegar verið er að tala um framleiðni og framleiðsluaukningu.

Það er litið þannig á þetta mál meðal þeirra þjóða margra, sem núna keppa um að komast sem lengst á sviði framleiðslu og bættra þjóðfélagshátta, að það er eitt af því, sem þær telja fram fyrst, hvað þær hafi marga menn, sem vilja leggja á sig að stunda sérnám í erfiðustu greinunum, svo sem verkfræði og fleiri námsgreinum, sem eru mjög erfiðar og ber meira og meira á að námsmenn veigra sér hjá að stunda vegna þess, hvað það kostar mikla vinnu og mikið erfiði. Það liggur við, að þessar þjóðir mæli framtíð sina eftír því, hvaða útlit er fyrir, að þær hafi mikið af mönnum, sem eru fúsir til þess að leggja á sig þetta nám. Svo stórt atriði er málið í sjálfu sér. Og það er alveg víst, að ef við gefum ekki okkar stúdentum tækifæri til þess að sækja til erlendra þjóða þá sérmenntun, sem þeim er nauðsynleg þjóðarinnar vegna að sækja þangað á hverjum tíma, þá er hér um slíka afturför að ræða, að varla verða of sterk orð höfð um það, hvílíkt skref aftur á bak það væri, ef slíkt er gert.

Ég skal játa, að það er ekki endilega víst, að þetta sé eina leiðin til þess að létta undir með stúdentum, sú till., sem hér liggur fyrir. En meðan ekki liggur annað fyrir og ekki aðrar yfirlýsingar frá hæstv. ríkisstj. en að hún hafi áhuga á þessu og þetta sé í athugun, þá verður að taka því, sem er borið fram í þessa átt, með velvild. Út frá því sjónarmiði skoða ég þessa tillögu.