19.02.1960
Efri deild: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

48. mál, efnahagsmál

Magnús Jónason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður. Það voru aðeins örfá atriði, sem mig langaði til að minnast á í sambandi við þessa till., sem hér liggur fyrir.

Ég ætla fyrst að lýsa nokkurri undrun yfir því, að hv. 5. þm.. Norðurl. e. (BjörnJ), sem annars er prúður og hógvær maður, skyldi nota svo óviðurkvæmileg orð í niðurlagi ræðu sinnar eins og að telja, að það ætti að fremja einhver níðingsverk á íslenzkum námsmönnum. Ég hygg, að það muni enginn þm.., hvorki í þessari hv. d. né á Alþingi yfirleitt, vilja gerast talsmaður þess, að það verði gert.

Hitt tel ég liggja í augum uppi, að það er ekki möguleiki til þess, miðað við þá skipan mála, sem ætlunin er að taka upp með því efnahagsmálafrv., sem hér liggur fyrir, að fara þar að skrá annað gengi fyrir vissa tegund gjaldeyris heldur en þar er gert ráð fyrir. Og í efnahagsmálafrv. eru ekki ákveðnar þær sérstöku ráðstafanir, sem kann að þurfa að gera í sambandi við áhrif efnahagsráðstafananna almennt, heldur verður það sett með öðrum hætti, svo sem bætur þær, sem boðaðar hafa verið í sambandi við aukningu almannatrygginga og ýmsar aðrar ráðstafanir, þ. á m. niðurgreiðslur. Það hefur ekki verið talið eðlilegt og er það heldur ekki, að það verði tengt þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Ég hygg því, að það verði ekki á neinn hátt með sanngirni talið, að það beri vott um eitthvert ósæmilegt hugarfar, þó að þm.. greiði atkv. gegn þessari tillögu, eins og hún liggur fyrir.

Hæstv. forsrh. hefur rætt um þær athuganir, sem á þessu máli hafa verið gerðar hjá hæstv. ríkisstj., og skal ég ekki um það mál frekar segja annað en það, að bæði það atriði og einnig hin tvö atriðin, sem hér eru til meðferðar, hljóta að koma til endanlegrar ákvörðunar við afgreiðslu fjárlaga.

Í fjárlögum verður veitt það fé, sem á að verja á þessu ári til niðurgreiðslna. Og það hlýtur því að koma þá til ákvörðunar og verða þá ljóst, hvaða fé ríkisstj. hugsar sér að nota í þessu sambandi. Og þess mun nú ekki langt að bíða, að fjárlög verði afgreidd, þannig að naumast getur það haft nein örlagarík áhrif varðandi skoðanir verkalýðssamtakanna á því, hvort standa eigi við þau fyrirheit um niðurgreiðslur, sem gefin hafa verið, hvort það mál yrði afgreitt nú með óeðlilegu móti, eins og verður að teljast í þessu sambandi, eða afgreitt með fjárlögum, sem koma hér til meðferðar innan skamms í þinginu, þar sem þessu mun verða endanlega til lykta ráðið.

Nákvæmlega sama er auðvitað að segja um aðstoð við námsmenn. Það hefur auðvitað komið til oft á undanförnum árum, að það hafa orðið veigamiklar breytingar á verðlagi erlends gjaldeyris fyrir íslenzka námsmenn, og það hefur að sjálfsögðu orðið að mæta því með sérstökum ráðstöfunum hverju sinni. Eins og ég áðan sagði, verður auðvitað gengið sjálft ekki skráð með hliðsjón af því, hver aðstaða námsmanna er til þess að leita til annarra þjóða. Það eru miklu stærri atriði, sem þar hljóta að verða ákvarðandi. Hitt er annað mál, að ég hygg, að það muni vera samdóma álit allra, að það sé lífsnauðsynlegt, að ungir námsmenn og ungir og efnilegir menn, sem vilja afla sér fróðleiks, er til gagns má verða þeirra þjóð og ekki er hægt að veita þeim hér á landi, verði styrktir til þess að nema þau fræði og að reynt verði að stuðla að því, að þar geti einnig hinir efnaminni notið sin, eins og er grundvallarregla og grundvallarsjónarmið, sem ríkt hefur lengi hér á Íslandi í sambandi við menntunarskilyrði æskunnar. Ég tel fyrir mitt leyti sjálfsagt, að það atriði verði endurskoðað rækilega og íhugað í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. En ég minnist þess ekki, að á undanförnum árum, m.a. þegar lagt var alltilfinnanlegt gjald á námsmannagjaldeyri með efnahagsráðstöfunum 1958, hafi það af einum né neinum verið taliðneitt sérstakt níðingsverk, sem þar var verið að vinna, og mun þó þeim ráðstöfunum ekki hafa verið mætt með neinum sérstökum aðgerðum umfram það, að nokkur hækkun var gerð á námsstyrkjum, sem mun þó ekki hafa verið meiri en sem svaraði því að halda þar í horfi. Ég skal ekkert sakast um það atriði. En það er þó gott að hafa það í huga, þegar um þetta mál er rætt.

Í þriðja lagi er sjúkrakostnaður erlendis. Mér skilst eftir þeim upplýsingum, sem landlæknir hefur gefið um það efni, að það geti verið um 100 sjúklingar á árí, sem þurfi að leita sér læknishjálpar erlendis, en þessu fólki fer þó nokkuð fækkandi af þeim ástæðum, sem hæstv. forsrh. vék hér að. Það hefur á undanförnum árum í fjárlögum verið nokkur upphæð til styrktar slíku fólki, og það verður að sjálfsögðu tekið til athugunar að auka þá aðstoð. Jafnframt skal þess getið, að Tryggingastofnun ríkisins hefur heimild til þess að veita sérstakt fé í þessu skyni, og það hefur jafnan verið haft samráð við hana um þetta mál. Það er augljóst mál, að það verður að búa svo um hnúta fyrir fólk, sem lífsnauðsynlega þarf að leita sér lækninga erlendís að mati hinna sérfróðustu manna, sem um slík mál fjalla jafnan hér, að þá verði greitt fyrir því með einhverju móti, að þetta fólk geti leitað sér nauðsynlegra lækninga.

Niðurstaða þeirra orða, sem ég segi, er sú, að mér sýnist, að það sé á allan hátt óeðlilegt að afgreiða þessa till., eins og hún liggur hér fyrir. Það er elns og hv. 2. þm.. Vestf. (HermJ) einnig tók fram, að hér er í rauninni blandað saman ýmsum málum. Ég tel, að það verði einskis hagur fyrir borð borinn í sambandi við þetta mál og á því verði höfð eðlileg vinnubrögð og hv. flm. komi þá að sínum sérsjónarmiðum, ef þeir telja ekki nógu langt gengið, þegar afgreiðsla fjárlaga fer hér fram.