19.02.1960
Efri deild: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (2079)

48. mál, efnahagsmál

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það er aðeins út af nokkurri rangfærslu, sem kom fram hjá hv. 5. þm.. Norðurl, e., sem ég stend hér upp aftur, því að ég tel rétt, að þeim skilningi, sem hann bar fram í því efni, sé mótmælt. Hann hélt því fram, að ég hefði sagt í ræðu minni hér áðan, að það væri ekki lengra komið þessari ákvörðun um niðurgreiðslur en svo, að það ætti að athuga þær í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, og lagði þessi orð mín út á þann veg, að það sýndi sig eftir þessu, að það væri í rauninni allt enn í lausu lofti með það, hvaða ákvarðanir yrðu teknar í sambandi við niðurgreiðslur.

Þetta er auðvitað alger misskilningur, því að það, sem ég sagði í minni ræðu, var, að það yrði endanlega ákveðið í fjárlögum, hvaða fé yrði varið til niðurgreiðslna. Það merkir að sjálfsögðu ekki, að það sé ekki búíð að taka ákvörðun um það í meginatriðum, hvernig niðurgreiðslum verði hagað, alveg eins og skýrt hefur verið frá af hálfu hæstv. ríkisstj. undir meðferð efnahagsmálafrv, hér á Alþingi. Það er hins vegar hin lögformlega rétta leið, að þetta fé verður að sjálfsögðu veitt í fjárlögum, og það er þess vegna algerlega rangt með farið hjá hv. þm.. að vilja nú fara að gefa í skyn, að ríkisstj. muni eitthvað hafa í hyggju að falla frá þeim ákvörðunum, sem um þetta hafa verið teknar.

Ég benti á, að það yrði skammt þess að bíða, að fjárlög yrðu afgreidd, og þá mundi þetta sjást svart á hvítu, með þeirri lögfestingu, sem yrði gerð á fjárveitingu til niðurgreiðslna, þannig að ekki þyrfti þá lengur að byggja það á yfirlýsingum, hverju fé eigi að verja til niðurgreiðslnanna. Og ef hv. flm. þessarar tillögu væru ósamþykkir þeim ráðstöfunum, sem þar yrðu gerðar, væri þeim að sjálfsögðu í lófa lagið að koma sínum sjónarmiðum þá fram og bera þá fram till. um hærri upphæð í því skyni.

Hv. þm.. hélt því fram, að það bæri ekki að skilja svo, að hér væri um sérstakt gengi að ræða fyrir námsmannagjaldeyri, sem fælist í þessari tillögu, og væri það ekki annars eðlis en almennar niðurgreiðslur á kaffi og sykri. Hér gegnir vitanlega allt öðru máll, vegna þess að það er aðeins í sambandi við almenna heimild um að halda niðri vöruverði, en beinlínis er í þessari till. ákveðið, að miða skuli verð á erlendum gjaldeyri til þessara tilteknu þarfa við það, að kr. 21.22 verði greiddar fyrir hvern Bandaríkjadollar.

Að lokum hélt hv. þm.. því fram, að ég hefði rangfært ummæli sín, ég hefði sagt, að hann hefði haldið því fram, að það væri níðingsverk, sem hér ætti að sýna íslenzkum námsmönnum erlendis. Ég sagði ekkert um, að það væri sérstaklega átt við námsmenn. Ég sagði, að hann hefði notað það í ræðu sinni hér áðan, að það ætti að fara að beita níðingsverki í sambandi við þetta mál, sem till, hans hér fjallar um, og ég taldi, að það væri ósæmandi að nota slíkt orðalag, þar sem það mundi ekki á nokkurn hátt vera ósk né vilji nokkurs einasta þingmanns, hvar í flokki sem hann væri, að beita þetta fólk, ekki námsmenn og þá náttúrlega miklu síður þá, sem sjúkir eru og farlama, neinu ranglæti eða órétti, sem hægt væri með sæmilegu móti að koma í veg fyrir.