22.02.1960
Efri deild: 27. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

40. mál, útsvör

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem lagt er fram til staðfestingar á brbl., sem ráðh. gaf út í vetur, þarf ekki langrar framsögu.

Hreppsnefnd Ólafsvíkurhrepps hafði orðið sú vanræksla á — sú fáheyrða vanræksla — að jafna ekki niður útsvörum á árinu 1959. Hins vegar mátti hreppurinn ekki án útsvarsálagningarinnar vera, eins og skiljanlegt er. Ráðh. leit svo á, að hann gæti ekki heimilað samkv. gildandi lögum hreppsnefndinni að jafna niður útsvörum fyrir 1959, eftir að árið var liðið, og voru því gefin út brbl. þau, sem hér er leitað staðfestingar á.

Upphaflega voru þau gefin út sem almenn heimild til að leyfa úrbætur, ef svona tækist til, en hv. Nd. breytti frv., gerði heimildina að bráðabirgðaákvæði fyrir Ólafsvíkurhrepp í þetta eina skipti.

Það verður að teljast hafa verið til lagfæringar, því að ekki má gefa undir fót með, að svona vanræksla megi eiga sér stað. Það er varla hægt að hugsa sér, að almenns ákvæðis sé þörf, því að það getur varla verið, að eðlilegar orsakir geti legið til slíks dráttar á niðurjöfnun nokkurn tíma eða nokkurs staðar. Það mun ekki heldur hafa verið í Ólafsvíkurhreppi. Þegar þetta kemur fyrir, hlýtur það ævinlega að vera til óþæginda. Það hlýtur að valda drætti á greiðslum af hálfu sveitarfélags, og það hlýtur að vera til óþæginda fyrir gjaldendur að fá á sig á sama ári tvöföld útsvör eða tvenna aðalniðurjöfnun útsvara, og vafalaust getur þetta dregið þann dilk á eftir sér, að af því hljótist óánægja og vanskil á raunverulegum útsvörum ársins.

En í Ólafsvíkurhreppi var nú komið sem komið var og rétt að áliti heilbr.- og félmn. af ráðh. að gefa hreppsnefndinni tækifæri til að kippa þessu í liðinn. Og n. mælir því, eins og tekið er fram í nál. á þskj. 108, einróma með því, að frv. sé samþ. eins og það liggur fyrir.